Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • brw950801 bls. 24-29
  • Vottar gegn falsguðunum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vottar gegn falsguðunum
  • Námsgreinar úr Varðturninum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Vitnisburður Abrahams um sannleikann
  • Vottaþjóð
  • Guðirnir fyrir rétt
  • „Þér eruð mínir vottar!“
    Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 2. bindi
  • Kristnir vottar um drottinvald Guðs
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Hinn sanni Guð boðar frelsun
    Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 2. bindi
  • Skaparinn hefur opinberað sig — okkur til gagns
    Er til skapari sem er annt um okkur?
Sjá meira
Námsgreinar úr Varðturninum
brw950801 bls. 24-29

Vottar gegn falsguðunum

„Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið.“ — JESAJA 43:10.

1. Hver er hinn sanni Guð og í hvaða tilliti er hann margfalt æðri þeim mörgu guðum sem tilbeðnir eru núna?

HVER er hinn sanni Guð? Allt mannkyn stendur nú frammi fyrir þessari þýðingarmiklu spurningu. Enda þótt menn tilbiðji ótal guði getur aðeins einn Guð gefið okkur líf og boðið okkur hamingjuríka framtíð. Um hann einan er hægt að segja: „Í honum lifum, hrærumst og erum vér.“ (Postulasagan 17:28) Aðeins einn Guð hefur rétt á tilbeiðslu. Eins og himnakórinn í Opinberunarbókinni syngur: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — Opinberunarbókin 4:11.

2, 3. (a) Hvernig véfengdi Satan með lygum rétt Jehóva til að hljóta tilbeiðslu? (b) Hvaða afleiðingar hafði synd Evu fyrir hana og börn hennar og fyrir Satan?

2 Í Edengarðinum véfengdi Satan með lygum að Jehóva ætti rétt á tilbeiðslu. Hann talaði gegnum höggorm og sagði Evu að hún myndi verða eins og Guð ef hún gerði uppreisn gegn lögum hans og æti af trénu sem hann hafði bannað mannhjónunum að eta af. Hann sagði orðrétt: „Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum [ávextinum], munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 3:5) Eva trúði höggorminum og át forboðna ávöxtinn.

3 En Satan var auðvitað að ljúga. (Jóhannes 8:44) Með því að syndga varð Eva „eins og Guð“ aðeins að því leyti að hún tók sér það vald að ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt, en það hefði hún átt að láta Jehóva um að ákveða. Og þrátt fyrir lygi Satans dó hún um síðir. Satan var sá eini sem græddi á synd Evu. Markmið hans með því að telja Evu á að syndga var að gera sjálfan sig að guði, þótt hann léti þess ógetið. Þegar Eva syndgaði varð hún fyrsti fylgjandi hans meðal manna og skömmu síðar gekk Adam í lið með henni. Börn þeirra fæddust ‚syndug‘ og komust flest undir áhrif Satans, þannig að á skömmum tíma varð til heill heimur sem var fráhverfur hinum sanna Guði. — 1. Mósebók 6:5; Sálmur 51:7.

4. (a) Hver er guð þessa heims? (b) Hvað er mjög áríðandi núna?

4 Þessum heimi var eytt í flóðinu. (2. Pétursbréf 3:6) Eftir flóðið varð til annar heimur fráhverfur Jehóva og sá heimur stendur enn. Biblían segir um hann: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Með því að ganga gegn orði og anda laga Jehóva þjónar þessi heimur markmiðum Satans. Hann er guð heimsins. (2. Korintubréf 4:4) Samt er hann eiginlega máttlítill guð. Hann getur hvorki veitt fólki hamingju né líf; aðeins Jehóva getur það. Þess vegna verða þeir sem þrá innihaldsríkt líf og betri heim fyrst að komast að raun um að Jehóva sé hinn sanni Guð og síðan læra að gera vilja hans. (Sálmur 37:18, 27, 28; Prédikarinn 12:13) Þess vegna er mjög áríðandi að trúaðir karlar og konur beri vitni um Jehóva, boði sannleikann um hann.

5. Hver er sá ‚fjöldi votta‘ sem Páll nefndi? Teldu upp nokkra þeirra.

5 Slíkir trúfastir menn hafa verið á sjónarsviðinu allt frá upphafi. Páll postuli telur upp fjölmarga þeirra í 11. kafla Hebreabréfsins og kallar þá „fjölda votta.“ (Hebreabréfið 12:1) Annar sonur Adams og Evu, Abel, er fyrstur í upptalningu Páls. Hann nefnir einnig Enok og Nóa frá því fyrir flóðið. (Hebreabréfið 11:4, 5, 7) Abraham, forfaðir Gyðinga, er einnig ofarlega á blaði. Abraham, sem er kallaður ‚vinur Jehóva,‘ var forfaðir Jesú, ‚vottsins trúa og sanna.‘ — Jakobsbréfið 2:23; Opinberunarbókin 3:14.

Vitnisburður Abrahams um sannleikann

6, 7. Á hvaða hátt bar líf Abrahams og verk vitni um að Jehóva sé hinn sanni Guð?

6 Hvernig þjónaði Abraham sem vottur? Með sterkri trú sinni á Jehóva og hollri hlýðni við hann. Hann hlýddi þegar honum var sagt að yfirgefa borgina Úr og búa það sem eftir væri ævinnar í fjarlægu landi. (1. Mósebók 15:7; Postulasagan 7:2-4) Hirðingjar hætta oft flökkulífi sínu og setjast að í borgum þar sem öryggi er meira. Þegar Abraham yfirgaf borgina til að búa í tjöldum var það því eindregin vísbending um traust hans til Jehóva Guðs. Hlýðni hans var þeim sem á horfðu til vitnisburðar. Jehóva blessaði Abraham ríkulega fyrir trú hans. Abraham vegnaði vel fjárhagslega þótt hann byggi í tjöldum. Er Lot og fjölskylda hans voru hernumin og flutt á brott blessaði Jehóva eftirför Abrahams þannig að honum tókst að bjarga þeim. Eiginkona Abrahams fæddi honum son í elli sinni og þannig staðfesti Jehóva loforð sitt um að Abraham myndi eignast sæði eða afkvæmi. Fólk sá að Jehóva er lifandi Guð, sem stendur við fyrirheit sín, vegna samskipta hans við Abraham. — 1. Mósebók 12:1-3; 14:14-16; 21:1-7.

7 Er Abraham sneri heim eftir að hafa bjargað Lot bauð Melkísedek, konungur í Salem (síðar Jerúsalem), hann velkominn og sagði: „Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði.“ Konungurinn í Sódómu kom einnig til fundar við hann og vildi færa honum gjafir. Abraham afþakkaði. Hvers vegna? Hann vildi ekki að neinn vafi léki á hvaðan blessunin væri komin. Hann sagði: „Ég upplyfti höndum mínum til [Jehóva], Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar: Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: ‚Ég hefi gjört Abram ríkan.‘“ (1. Mósebók 14:17-24) Abraham var sannarlega góður vottur!

Vottaþjóð

8. Hvernig sýndi Móse mikla trú á Jehóva?

8 Páll nefnir einnig Móse, afkomanda Abrahams, er hann telur upp votta fortíðarinnar. Móse sneri baki við auðæfum Egyptalands og stóð síðar djarfur augliti til auglitis við valdhafa þessa mikla heimsveldis í þeim tilgangi að leiða börn Ísraels til frelsis. Hvað veitti honum hugrekki? Trúin. Páll segir: „[Móse] var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Guðir Egyptalands voru sýnilegir og hægt var að snerta þá. Enn þann dag í dag hrífst fólk af styttum þeirra. En Jehóva var Móse miklu raunverulegri en allir þessir falsguðir, þótt ósýnilegur væri. Móse var ekki í nokkrum vafa um að Jehóva væri til og myndi umbuna tilbiðjendum sínum. (Hebreabréfið 11:6) Móse varð framúrskarandi vottur.

9. Hvernig átti Ísraelsþjóðin að þjóna Jehóva?

9 Eftir að hafa leitt Ísraelsmenn til frelsis varð Móse meðalgangari sáttmála milli Jehóva og afkomenda Abrahams í ættlegg Jakobs. Þannig varð Ísraelsþjóðin til sem sérstök og eiginleg eign Jehóva. (2. Mósebók 19:5, 6) Í fyrsta sinn átti heil þjóð að bera vitni. Orð Jehóva fyrir munn Jesaja, um 800 árum síðar, áttu í meginatriðum við allt frá því að þjóðin varð til: „Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn.“ (Jesaja 43:10) Hvernig myndi þessi nýja þjóð þjóna sem vottur Jehóva? Með trú sinni og hlýðni og með verkum Jehóva í hennar þágu.

10. Á hvaða hátt voru máttarverk Jehóva í þágu Ísraels til vitnisburðar og með hvaða árangri?

10 Um 40 árum eftir að Ísraelsþjóðin varð til var hún í þann mund að leggja fyrirheitna landið undir sig. Njósnarar voru sendir út til að kanna Jeríkóborg, og Rahab, sem þar bjó, verndaði þá. Af hverju? Hún sagði: „Frétt höfum vér, að [Jehóva] þurrkaði fyrir yður vatnið í Sefhafi, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og hvað þér hafið gjört við Amorítakonungana tvo, þá Síhon og Óg, hinumegin Jórdanar, að þér eydduð þeim með öllu. Síðan vér heyrðum þetta, er æðra komin í brjóst vor, og enginn hugur er í nokkrum manni, þegar yður skal mæta, því að [Jehóva], Guð yðar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri.“ (Jósúabók 2:10, 11) Frásagan af máttarverkum Jehóva fékk Rahab og fjölskyldu hennar til að yfirgefa Jeríkó og falsguði borgarinnar og tilbiðja Jehóva ásamt Ísrael. Ljóst er að Jehóva hafði borið kröftuglega vitni fyrir atbeina Ísraels. — Jósúabók 6:25.

11. Hvaða ábyrgð hvíldi á öllum ísraelskum foreldrum í sambandi við vitnisburð?

11 Meðan Ísraelsmenn voru enn í Egyptalandi sendi Jehóva Móse til Faraós og sagði: „Gakk inn fyrir Faraó, því að ég hefi hert hjarta hans og hjörtu þjóna hans til þess að ég fremji þessi tákn mín meðal þeirra og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því, hvernig ég hefi farið með Egypta, og frá þeim táknum, sem ég hefi á þeim gjört, svo að þér vitið, að ég er [Jehóva].“ (2. Mósebók 10:1, 2) Hlýðnir Ísraelsmenn myndu segja börnum sínum frá máttarverkum Jehóva. Börn þeirra myndu síðan segja börnum sínum frá og þannig koll af kolli, kynslóð fram af kynslóð. Þannig yrðu máttarverk Jehóva í minnum höfð. Á sama hátt bera foreldrar nú á tímum þá ábyrgð að bera vitni fyrir börnum sínum. — 5. Mósebók 6:4-7; Orðskviðirnir 22:6.

12. Hvernig var blessun Jehóva yfir Salómon og Ísrael til vitnisburðar?

12 Jehóva blessaði Ísrael ríkulega meðan þjóðin var trúföst og það var þjóðunum umhverfis til vitnisburðar. Eins og Móse sagði eftir að hann hafði talið upp blessanirnar er Jehóva hafði heitið: „Allar þjóðir á jörðinni munu þá sjá, að þú hefir nefndur verið eftir nafni [Jehóva], og þær munu óttast þig.“ (5. Mósebók 28:10) Salómon var veitt viska og auðlegð sökum trúar sinnar. Undir stjórn hans dafnaði þjóðin og naut friðar um langt skeið. Við lesum um það tímabil: „Menn komu af öllum þjóðum til þess að heyra speki Salómons, frá öllum konungum jarðarinnar, er heyrðu speki hans getið.“ (1. Konungabók 4:25, 29, 30, 34) Meðal nafntogaðra gesta Salómons var drottningin í Saba. Eftir að hafa séð með eigin augum hvernig Jehóva blessaði þjóðina og konung hennar sagði hún: „Lofaður sé [Jehóva], Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti sitt sem konung [Jehóva], Guðs þíns. Af því að Guð þinn elskar Ísrael.“ — 2. Kroníkubók 9:8.

13. Hver kann að hafa verið áhrifaríkasti vitnisburður Ísraels og hvernig njótum við enn góðs af honum?

13 Páll postuli nefndi það sem trúlega var áhrifamesti vitnisburður Ísraels. Þegar hann ræddi um Ísrael að holdinu við kristna söfnuðinn í Róm sagði hann: „Þeim hefur verið trúað fyrir orðum Guðs.“ (Rómverjabréfið 3:1, 2) Móse og síðar ýmsum trúföstum Ísraelsmönnum var blásið í brjóst að færa í letur samskiptasögu Jehóva við Ísrael, heilræði hans, lög og spádóma. Í þessum ritum báru hinir fornu ritarar vitni fyrir öllum komandi kynslóðum — að okkar meðtalinni — um að það sé aðeins einn Guð til og að hann heiti Jehóva. — Daníel 12:9; 1. Pétursbréf 1:10-12.

14. Af hverju voru sumir ofsóttir sem báru vitni um Jehóva?

14 Því miður gerðist það oft að Ísrael sýndi ekki trú og þá varð Jehóva að senda votta til sinnar eigin þjóðar. Margir þeirra voru ofsóttir. Páll sagði að sumir hefðu sætt „háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.“ (Hebreabréfið 11:36) Þetta voru sannarlega trúfastir vottar! Það er sorglegt að það skyldu oft vera samlandar þeirra af útvalinni þjóð Jehóva sem ofsóttu þá! (Matteus 23:31, 37) Svo mikil var synd þjóðarinnar orðin að árið 607 f.o.t. lét Jehóva Babýloníumenn eyða Jerúsalem og musterinu og leiða meirihluta eftirlifandi Gyðinga í útlegð. (Jeremía 20:4; 21:10) Var það endirinn á vitnisburði þjóðarinnar um nafn Jehóva? Nei.

Guðirnir fyrir rétt

15. Hvernig var jafnvel borið vitni í útlegðinni í Babýlon?

15 Jafnvel í útlegðinni í Babýlon hikuðu trúfastir Ísraelsmenn ekki við að bera vitni um guðdóm Jehóva og mátt. Til dæmis túlkaði Daníel djarflega drauma Nebúkadnesars, skýrði fyrir Belsasar það sem skrifað var á vegginn og neitaði að láta undan Daríusi í sambandi við bænina. Hebrearnir þrír báru líka frábært vitni fyrir Nebúkadnesar er þeir neituðu að falla fram fyrir líkneski. — Daníel 3:13-18; 5:13-29; 6:5-28.

16. Hvernig sagði Jehóva heimför Ísraels fyrir og hvaða tilgangi átti heimförin að þjóna?

16 En það var ætlun Jehóva að þjóðin skyldi aftur bera vitni á ísraelskri jörð. Esekíel, sem spáði meðal hinna útlægu Gyðinga í Babýlon, skrifaði um ásetning Jehóva í sambandi við landið sem lá í eyði: „Ég mun fjölga fólkinu á yður, gjörvöllum Ísraelslýð, og borgirnar verða byggðar og rústirnar reistar að nýju.“ (Esekíel 36:10) Af hverju ætlaði Jehóva að gera það? Fyrst og fremst til að bera vitni um nafn sitt. Hann sagði fyrir munn Esekíels: „Eigi er það yðar vegna, Ísraelsmenn, að ég læt til mín taka, heldur vegna míns heilaga nafns, sem þér hafið vanhelgað meðal þjóðanna.“ — Esekíel 36:22; Jeremía 50:28.

17. Hvert er samhengi Jesaja 43:10?

17 Það var í spádómi um heimför Ísraelsmanna frá útlegðinni í Babýlon sem spámanninum Jesaja var innblásið að skrifa orðin í Jesaja 43:10 þar sem hann segir að Ísrael sé vottur Jehóva og þjónn. Í 43. og 44. kafla Jesajabókar er Jehóva lýst sem skapara Ísraels, Guði, hinum heilaga, frelsara og konungi. (Jesaja 43:3, 14, 15; 44:2) Jehóva leyfði að Ísrael færi í útlegð vegna þess að þjóðin vanrækti æ ofan í æ að vegsama hann sem slíkan. En þetta var enn þjóð hans. Jehóva hafði sagt henni: „Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.“ (Jesaja 43:1) Útlegð Ísraels í Babýlon myndi taka enda.

18. Hvernig sannaði frelsun Ísraels úr Babýlon að Jehóva væri hinn eini sanni Guð?

18 Jehóva gerði frelsun Ísraels úr Babýlon að réttarhöldum yfir guðunum. Hann skoraði á falsguði þjóðanna að leiða fram votta sína og tilnefndi Ísrael sem vott sinn. (Jesaja 43:9, 12) Þegar hann braut útlegðarok Ísraels sannaði hann að guðir Babýlonar væru alls engir guðir og að hann væri hinn eini sanni Guð. (Jesaja 43:14, 15) Um 200 árum áður, þegar hann nefndi Kýrus hinn persneska sem þjón sinn er skyldi frelsa Gyðinga, færði hann frekari sönnur fyrir guðdómi sínum. (Jesaja 44:28) Ísrael yrði frelsaður. Hvers vegna? Jehóva svarar: „Sá lýður [Ísrael] . . . skal víðfrægja lof mitt.“ (Jesaja 43:21) Það yrði enn frekara tækifæri til vitnisburðar.

19. Hvaða vitnisburður fólst í því er Kýrus bauð Ísraelsmönnum að snúa aftur til Jerúsalem, og í verkum trúfastra Gyðinga eftir heimkomuna?

19 Þegar stundin rann upp vann Kýrus Persakonungur Babýlon alveg eins og spáð var. Þótt Kýrus væri heiðinn boðaði hann guðdóm Jehóva er hann tilkynnti Gyðingum í Babýlon: „Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri [Jehóva], Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem.“ (Esrabók 1:3) Margir Gyðingar gerðu það. Þeir lögðu í langferð heim til fyrirheitna landsins og reistu altari á hinu forna musterisstæði. Þrátt fyrir kjarkleysi og megna andstöðu tókst þeim loks að endurreisa musterið og Jerúsalemborg. Allt gerðist þetta, eins og Jehóva hafði sjálfur sagt, „ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn.“ (Sakaría 4:6) Þessi afrek voru enn frekari vitnisburður þess að Jehóva væri hinn sanni Guð.

20. Hvað getum við sagt viðvíkjandi vitnisburði Ísraelsmanna um nafn Jehóva í heimi fortíðar, þrátt fyrir ófullkomleika þeirra?

20 Þannig hélt Jehóva áfram að nota Ísrael sem vott sinn enda þótt þjóðin væri ófullkomin og stundum uppreisnargjörn. Fyrir daga kristninnar var þessi þjóð, ásamt musteri sínu og prestastétt, heimsmiðstöð sannrar tilbeiðslu. Enginn, sem les um verk Jehóva í þágu Ísraels í Hebresku ritningunum, getur verið í vafa um að hann er hinn eini sanni Guð og að nafn hans er Jehóva. (5. Mósebók 6:4; Sakaría 14:9) En það átti að bera miklu meira vitni um nafn Jehóva eins og við fjöllum um í næstu grein.

Manstu?

◻ Hvernig bar Abraham því vitni að Jehóva væri hinn sanni Guð?

◻ Hvaða framúrskarandi eiginleiki Móse gerði honum kleift að vera trúr vottur?

◻ Á hvaða vegu bar Ísrael sem þjóð vitni um Jehóva?

◻ Hvernig var frelsun Ísraels úr Babýlon vitnisburður þess að Jehóva væri hinn eini sanni Guð?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Með trú sinni og hlýðni bar Abraham frábært vitni um guðdóm Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila