Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.7. bls. 8-12
  • Réttlátir munu rísa upp

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Réttlátir munu rísa upp
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sauðumlíkum mönnum safnað
  • Upprisuvonin
  • Hinir trúuðu ‚réttlættir‘
  • Jarðneska upprisan
  • Von sem hughreystir
  • Upprisan — kenning sem snertir þig
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Máttur upprisuvonarinnar
    Tilbiðjum hinn eina sanna Guð
  • Upprisuvonin er kröftug
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Hvaða þýðingu hefur upprisuvonin fyrir þig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.7. bls. 8-12

Réttlátir munu rísa upp

„Þá von hef ég til Guðs, . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — POSTULASAGAN 24:15.

1. Hvaða ástand hefur blasað við öllum mönnum frá syndafalli Adams og Evu?

„ALLT, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Prédikarinn 9:10) Með þessum fáu en velvöldu orðum lýsir hinn vitri konungur Salómon ástandi sem hefur blasað við öllum kynslóðum manna allt frá syndafalli fyrstu foreldra okkar, Adams og Evu. Undantekningarlaust hefur dauðinn að lokum tekið til sín alla menn — ríka sem fátæka, konunga sem kotunga, trúaða sem trúlausa. Dauðinn hefur sannarlega „ríkt“ sem konungur. — Rómverjabréfið 5:17, Bi 1912.

2. Af hverju hafa sumir trúfastir menn kannski orðið fyrir vonbrigðum núna á endalokatímanum?

2 Þrátt fyrir nýjustu framfarir læknavísindanna ríkir dauðinn sem konungur enn þann dag í dag. Enda þótt það sé engum undrunarefni hafa sumir kannski verið eilítið vonsviknir þegar þeir hafa staðið augliti til auglitis við þennan aldagamla óvin. Af hverju? Á þriðja áratugnum boðaði Varðturnsfélagið að ‚milljónir núlifandi manna myndu aldrei deyja.‘ Hvaða milljónir manna áttu það að vera? ‚Sauðirnir‘ sem Jesús talaði um þegar hann ræddi um sauðina og hafrana. (Matteus 25:31-46) Spáð var að þessir sauðumlíku menn ættu að koma fram á endalokatímanum og hafa von um eilíft líf í paradís á jörð. Með tímanum fengu þjónar Guðs betri skilning á stöðu þessara ‚sauða‘ í tilgangi Jehóva. Þeir gerðu sér ljóst að það átti að aðgreina þessa hlýðnu menn frá hinum þrjósku „höfrum,“ og að eftir eyðingu hinna síðarnefndu myndu sauðirnir erfa jarðneskt yfirráðasvæði Guðsríkis sem þeim hafði verið búið.

Sauðumlíkum mönnum safnað

3. Hvaða starfi hefur fólk Guðs einbeitt sér að frá 1935?

3 Frá og með 1935 hefur hinn ‚trúi þjónn‘ einbeitt sér að því að leita uppi slíka sauðumlíka menn og leiða þá inn í skipulag Jehóva. (Matteus 24:45; Jóhannes 10:16) Þessir námfúsu kristnu menn hafa gert sér ljóst að Jesús ríkir núna á himnum og að sá tími nálgast óðfluga að þetta illa heimskerfi líður undir lok og í staðinn kemur nýr heimur þar sem réttlæti býr. (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 12:10) Í þessum nýja heimi rætast þessi hughreystandi orð Jesaja: „Hann mun afmá dauðann að eilífu.“ — Jesaja 25:8.

4. Hvað hefur komið fyrir marga af hinum öðrum sauðum enda þótt þeir hafi einlæglega vonast eftir að sjá drottinvald Jehóva upphafið í Harmagedón?

4 Þar eð heimur Satans er í þann mund að líða undir lok þrá sauðumlíkir kristnir menn innilega að vera á lífi þegar drottinvald Jehóva verður upphafið í þrengingunni sem kemur yfir Babýlon hina miklu og yfir heim Satans í heild. (Opinberunarbókin 19:1-3, 19-21) Hjá fjölmörgum hefur það farið á annan veg. Margir, sem vonuðust eftir að vera meðal ‚milljónanna‘ er þyrftu aldrei að deyja, hafa dáið. Sumir dóu píslarvættisdauða sannleikans vegna í fangelsum og fangabúðum eða fyrir hendi trúarofstækismanna. Aðrir hafa látist af slysförum eða af svokölluðum náttúrlegum orsökum — sjúkdómum og elli. (Sálmur 90:9, 10; Prédikarinn 9:11) Ljóst er að fleiri eiga eftir að deyja áður en endirinn kemur. Hvernig fá þeir að sjá fyrirheitið um nýjan heim, þar sem réttlæti býr, rætast?

Upprisuvonin

5, 6. Hvaða framtíð bíður þeirra sem hafa jarðneska von en deyja fyrir Harmagedón?

5 Páll postuli svaraði því er hann fékk áheyrn hjá rómverska landstjóranum Felix. Eins og frá er greint í Postulasögunni 24:15 lýsti Páll djarfmannlega yfir: „Þá von hef ég til Guðs, . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ Upprisuvonin veitir okkur hugrekki andspænis erfiðustu raununum. Vegna hennar missa ástkærir trúbræður okkar ekki kjarkinn þegar þeir veikjast og skynja að þeir eiga ekki langt eftir. Hvernig sem fer vita þeir að þeir munu uppskera umbun trúfesti sinnar. Vegna upprisuvonarinnar vita hugrakkir bræður okkar og systur, sem horfast í augu við dauðann af hendi ofsækjenda, að þeir sem ofsækja þá geta með engu móti sigrað. (Matteus 10:28) Þegar einhver í söfnuðinum deyr hryggjumst við yfir því að missa hann. En ef trúbróðir okkar er af hinum öðrum sauðum gleðjumst við líka yfir því að hann skuli hafa reynst trúfastur allt til enda og að hann hvílist núna og eigi sér trygga framtíð í nýjum heimi Guðs. — 1. Þessaloníkubréf 4:13.

6 Já, upprisuvonin er nauðsynlegur þáttur trúar okkar. En hvers vegna er trú okkar á upprisuna svona sterk og hverjir hafa þessa von?

7. Hvað er upprisan og hvaða ritningarstaði má nefna sem benda á áreiðanleika hennar?

7 Gríska orðið fyrir „upprisu“ er anaʹstasis sem merkir bókstaflega „að standa upp.“ Það á fyrst og fremst við það að rísa upp frá dauðum. Orðið „upprisa“ kemur reyndar ekki fyrir í Hebresku ritningunum en upprisuvonin kemur hins vegar ljóslega fram þar. Við sjáum hana til dæmis af orðunum sem Job stundi upp í þjáningum sínum: „Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, . . . setja mér tímatakmark og síðan minnast mín!“ (Jobsbók 14:13) Við lesum eitthvað svipað í Hósea 13:14: „Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi, leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel?“ Í 1. Korintubréfi 15:55 vitnaði Páll postuli í þessi orð og sýndi fram á að hinn fyrirheitni sigur yfir dauðanum er unninn með upprisunni. (Páll var auðvitað að tala um himnesku upprisuna.)

Hinir trúuðu ‚réttlættir‘

8, 9. (a) Hvernig geta ófullkomnir menn komið fram í upprisu réttlátra? (b) Á hvaða grundvelli vonumst við eftir lífi sem endar ekki með dauða?

8 Í yfirlýsingu sinni frammi fyrir Felix, sem vitnað er til í 5. tölugrein, sagði Páll að bæði réttlátir og ranglátir myndu rísa upp. Hverjir eru hinir réttlátu sem verða reistir upp? Nú, enginn maður er réttlátur að eðlisfari. Við erum öll syndarar frá fæðingu og við syndgum alla ævi — þannig að við erum dauðasek fyrir tvennar sakir. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23) En í Biblíunni finnum við hugtakið ‚að réttlætast‘ eða vera lýstur réttlátur. (Rómverjabréfið 3:28) Það er notað um menn sem fá syndafyrirgefningu Jehóva þrátt fyrir ófullkomleika sinn.

9 Orðið er mest notað um smurða kristna menn sem hafa himneska von. Í Rómverjabréfinu 5:1 segir Páll postuli: „Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist.“ Allir smurðir kristnir menn eru lýstir réttlátir vegna trúar sinnar. Trúar á hvað? Eins og Páll útskýrir allítarlega í Rómverjabréfinu er það trú á Jesú Krist. (Rómverjabréfið 10:4, 9, 10) Jesús dó sem fullkominn maður og eftir það var hann reistur upp frá dauðum og steig upp til himna til að bera fram verðgildi mannslífs síns í okkar þágu. (Hebreabréfið 7:26, 27; 9:11, 12) Þegar Jehóva viðurkenndi þessa fórn var Jesús Kristur í reynd að kaupa mannkynið úr þrælkun syndar og dauða. Þeir sem sýna trú á þessa ráðstöfun hafa mikið gagn af henni. (1. Korintubréf 15:45) Á grundvelli hennar hafa trúfastir karlar og konur von um að erfa líf sem hinn vægðarlausi óvinur, dauðinn, bindur ekki enda á. — Jóhannes 3:16.

10, 11. (a) Hvaða upprisa bíður trúfastra smurðra kristinna manna? (b) Hvers konar upprisu vonuðust dýrkendur Guðs fyrir daga kristninnar eftir?

10 Svo er lausnarfórn Jesú fyrir að þakka að trúfastir, smurðir menn eru lýstir réttlátir og eiga þá öruggu von að verða reistir upp sem ódauðlegar andaverur eins og Jesús. (Opinberunarbókin 2:10) Upprisa þeirra er nefnd í Opinberunarbókinni 20:6 þar sem segir: „Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ Þetta er himneska upprisan. En taktu eftir að Biblían kallar hana ‚fyrri upprisuna‘ sem gefur til kynna að önnur sé í vændum.

11 Í 11. kafla Hebreabréfsins nefndi Páll fjölmarga trúfasta þjóna Guðs fyrir daga kristninnar sem sýndu sterka trú á Jehóva Guð. Þeir trúðu líka á upprisu. Í versi 35 í þeim kafla talar Páll um undraverðar upprisur sem áttu sér stað í sögu Ísraels og segir: „Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.“ Þessir trúföstu vottar fortíðarinnar gátu hlakkað til upprisu sem var betri en sú sem til dæmis Elía og Elísa höfðu átt þátt í. (1. Konungabók 17:17-22; 2. Konungabók 4:32-37; 13:20, 21) Von þeirra var sú að rísa upp í heimi þar sem þjónar Guðs yrðu ekki pyndaðir fyrir trú sína, heimi þar sem konur misstu ekki ástvini sína í dauðann. Já, þeir hlökkuðu til þess að rísa upp frá dauðum í þeim sama nýja heimi og við vonumst eftir. (Jesaja 65:17-25) Jehóva hafði ekki opinberað þeim eins mikið um nýja heiminn og okkur. En þeir vissu að nýi heimurinn var framundan og vildu fá að vera í honum.

Jarðneska upprisan

12. Voru trúfastir menn fyrir daga kristninnar lýstir réttlátir? Skýrðu svarið.

12 Eigum við að líta svo á að upprisa þessara trúföstu karla og kvenna í nýja heiminum sé hluti af upprisu réttlátra? Að því er best verður séð því að Biblían talar um þau sem réttlát. Til dæmis nefnir lærisveinninn Jakob sérstaklega karl og konu til forna sem lýst voru réttlát. Maðurinn var Abraham, ættfaðir hebreska kynstofnsins. Við lesum um hann: „‚Abraham trúði [Jehóva], og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður . . . vinur [Jehóva].“ Konan var Rahab. Hún var ekki ísraelsk en sýndi mikla trú á Jehóva. Hún „réttlættist“ og varð hluti af hebresku þjóðinni. (Jakobsbréfið 2:23-25) Já, Jehóva lýsti karla og konur til forna réttlát vegna trúar þeirra. Þetta var fólk sem hafði sterka trú á hann og fyrirheit hans og var trúfast allt til dauða. Það fær vafalaust að vera með í ‚upprisu réttlátra.‘

13, 14. (a) Hvernig vitum við að hægt er að lýsa kristna menn með jarðneska von réttláta? (b) Hvað þýðir það fyrir þá?

13 En hvað um sauðumlíka menn nú á tímum, þá sem hafa jarðneska von og vígja sig Jehóva en deyja trúfastir á endalokatímanum? Koma þeir í upprisu réttlátra? Já, að því er best verður séð. Jóhannes postuli sá mikinn múg slíkra trúfastra manna í sýn. Taktu eftir hvernig hann lýsir þeim: „Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum. Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ — Opinberunarbókin 7:9, 10.

14 Taktu eftir að þessir auðmjúku menn eru sannfærðir um hjálpræði sitt og þakka það Jehóva og „lambinu,“ Jesú. Og þeir standa allir hvítklæddir frammi fyrir Jehóva og lambinu. Af hverju hvítklæddir? Himnesk vera segir Jóhannesi: „[Þeir] hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Opinberunarbókin 7:14) Í Biblíunni er hvítt tákn hreinleika og réttlætis. (Sálmur 51:9; Daníel 12:10; Opinberunarbókin 19:8) Sú staðreynd að múgurinn mikli sést í sýninni íklæddur hvítum klæðum merkir að Jehóva lítur á hann sem réttlátan. Hvernig er það mögulegt? Þeir sem tilheyra múginum mikla hafa þvegið skikkjur sínar í táknrænum skilningi í blóði lambsins. Þeir trúa á úthellt blóð Jesú Krists og eru þar af leiðandi lýstir réttlátir sem vinir Guðs með það fyrir augum að lifa þrenginguna miklu af. Þess vegna getur sérhver trúfastur, vígður kristinn maður af ‚múginum mikla,‘ sem deyr fyrir þrenginguna miklu, verið öruggur um að ganga fram í jarðneskri upprisu réttlátra.

15. Hvað hafa réttlátir fram yfir rangláta úr því að bæði réttlátir og ranglátir fá upprisu?

15 Þessari upprisu er lýst í 20. kafla Opinberunarbókarinnar, 13. versi, með þessum orðum: „Hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum.“ Á hinum mikla, þúsund ára dómsdegi Jehóva verða því allir, sem hann man eftir, reistir upp — bæði réttlátir sem ranglátir. (Postulasagan 17:31) En hinir réttlátu verða miklu betur settir! Þeir hafa þegar lifað í trúnni. Þeir eiga nú þegar innilegt samband við Jehóva og treysta því að tilgangur hans nái fram að ganga. Réttlátir vottar frá því fyrir daga kristninnar munu vakna upp frá dauðanum, ákafir að kynnast því hvernig fyrirheit Jehóva um sæðið uppfylltust. (1. Pétursbréf 1:10-12) Þeir af hinum öðrum sauðum, sem Jehóva álítur réttláta á okkar dögum, munu koma fram úr gröfunum, spenntir að sjá jarðnesku paradísina sem þeir töluðu um þegar þeir boðuðu fagnaðarerindið í þessu heimskerfi. Það verður mikill gleðitími!

16. Hvað getum við sagt um upprisu þeirra á dómsdegi sem deyja á okkar tímum?

16 Hvenær á þúsund ára dómsdeginum verða þeir sem dóu trúfastir á síðustu árum heimskerfis Satans reistir upp? Biblían lætur það ósagt. En er ekki rökrétt að þeir sem taldir eru réttlátir og deyja á okkar dögum verði reistir upp snemma og geti þar með átt þátt í að bjóða fyrri kynslóðir velkomnar frá dauðum, ásamt múginum mikla sem lifir Harmagedón af? Jú, vissulega!

Von sem hughreystir

17, 18. (a) Hvaða hughreysting er fólgin í upprisuvoninni? (b) Hverju erum við knúin til að segja frá um Jehóva?

17 Upprisuvonin styrkir og hughreystir alla kristna menn nú á tímum. Ef við erum trúföst getur hvorki tími eða tilviljun né nokkur óvinur rænt okkur laununum! Í Árbók votta Jehóva 1992 eru til dæmis myndir á blaðsíðu 177 af hugrökkum kristnum mönnum í Eþíópíu sem dóu frekar en að hvika frá trúnni. Myndatextinn er á þessa leið: „Andlit sem við vonumst eftir að sjá í upprisunni.“ Hvílík sérréttindi verða það ekki að kynnast þeim og óteljandi öðrum sem sýndu ámóta trúfesti andspænis dauðanum!

18 Hvað um trúbræður okkar og ástvini sem ná ekki að lifa fram að þrengingunni miklu sökum aldurs eða sjúkdóma? Vegna upprisuvonarinnar bíður þeirra stórkostleg framtíð ef þeir varðveita trúfesti. Og ef við trúum líka hugrökk á lausnarfórn Jesú eigum við stórkostlega framtíð í vændum. Hvers vegna? Vegna þess að eins og Páll höfum við þá von að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ Af öllu hjarta þökkum við Jehóva fyrir þessa von. Vissulega fær hún okkur til að enduróma orð sálmaritarans: „Segið frá dýrð [Guðs] meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða. Því að mikill er [Jehóva] og mjög vegsamlegur.“ — Sálm. 96:3, 4.

Geturðu útskýrt?

◻ Hvaða ritningarstaðir staðfesta von okkar um jarðneska upprisu?

◻ Á hvaða grundvelli eru kristnir menn lýstir réttlátir núna?

◻ Hvernig veitir upprisuvonin okkur hugrekki og staðfestu?

[Mynd á blaðsíðu 9]

Líkt og Páll hafa smurðir kristnir menn von um himneska upprisu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila