Heimurinn átti þá ekki skilið
„Þeir voru grýttir, . . . þeirra var freistað, . . . og ekki átti heimurinn slíka menn skilið.“ — HEBREABRÉFIÐ 11:37, 38, neðanmáls.
1, 2. Undir hvaða kringumstæðum varðveittu vottar Jehóva til forna ráðvendni og hvernig varða verk þeirra þjóna Guðs núna?
VOTTAR Jehóva til forna varðveittu ráðvendni við Guð þrátt fyrir margar prófraunir sem ranglátt mannfélag leiddi yfir þá. Til dæmis voru þeir grýttir og drepnir með sverði. Þeir máttu þola þrengingar og illa meðferð. Samt haggaðist ekki trú þeirra. Því ‚átti heimurinn slíka menn ekki skilið,‘ eins og Páll postuli komst að orði. — Hebreabréfið 11:37, 38.
2 Trúhvetjandi verk guðhræddra manna fyrir flóðið, ættfeðranna og Móse, er nútímavottum Jehóva hvöt til að þjóna Guði í trú. En hvað um aðra þá sem nefndir eru í 11. og 12. kafla Hebreabréfsins? Hvað getum við lært af því með hvaða hætti trú þeirra birtist?
Trú dómara, konunga og spámanna
3. Hvernig sýna atvik tengd Jeríkó og Rahab að sýna þarf trúna í verkum?
3 Hugtakið trú, eins og það er notað hér, felur í sér meira en aðeins að leggja trúnað á eitthvað; hana þarf að sanna með verkum. (Lestu Hebreabréfið 11:30, 31.) Eftir dauða Móse færði trúin Ísraelsmönnum einn sigurinn af öðrum í Kanaanlandi, en það kostaði erfiði af þeirra hálfu. Vegna trúar Jósúa og annarra „hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga.“ En „fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu [Jeríkóbúum].“ Hvers vegna? „Þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum“ sem Ísraelsmenn sendu, og sannað trú sína með því að fela þá fyrir Kanverjum. Trú Rahab átti sér traustan grunn í því hvernig ‚Jehóva þurrkaði vatnið í Rauðahafi‘ fyrir Ísraelsmönnum og veitti þeim sigur yfir Amorítakonungunum Síhon og Óg. Rahab hafði gert viðeigandi siðferðilegar breytingar og var umbunuð trú sín, sem birtist í verkum, með því að hún og heimili hennar komust lífs af þegar Jeríkó féll, auk þess að hún varð ein formæðra Jesú Krists. — Jósúa 2:1-11; 6:20-23; Matteus 1:1, 5; Jakobsbréfið 2:24-26.
4. Hvernig undirstrikar reynsla Gídeons og Baraks að sýna þarf trú þegar hætta steðjar að?
4 Trú birtist í því að reiða sig algerlega á Jehóva þegar hætta blasir við. (Lestu Hebreabréfið 11:32.) Páll játaði að hann myndi skorta tíma ef hann ætti að segja frá „Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum“ sem báru með hetjudáðum sínum ríkulega vitni um trú sína og traust til Guðs á hættustund. Vegna trúar veitti Guð Gídeon dómara og 300 mönnum hans mátt til að gersigra öflugan her kúgaranna Midíaníta. (Dómarabókin 7:1-25) Vegna hvatningar spákonunnar Debóru vann Barak dómari og 10.000 manna, illa búið fótgöngulið sigur á margfalt fjölmennari her Jabíns konungs sem hafði auk þess yfir að ráða 900 hervögnum undir stjórn Sísera. — Dómarabókin 4:1-5:31.
5. Á hvaða vegu létu Samson og Jefta í ljós trú sem bar vott um algert traust þeirra til Jehóva?
5 Annað dæmi um trú á dómaratímanum í Ísrael var Samson, hinn sterki óvinur Filista. Að vísu náðu þeir honum loks á sitt vald og stungu úr honum augun, en honum tókst að fella fjölmennan hóp þegar hann braut sundur burðarsúlur hússins þar sem menn komu saman til að færa falsguði sínum, Dagón, fórn mikla. Samson dó með Filistum, en það var ekki sjálfsvíg örvæntingarfulls manns. Í trú reiddi hann sig á Jehóva og bað til hans um styrk til að koma fram hefndum á þessum óvinum Guðs og þjóðar hans. (Dómarabókin 16:18-30) Jefta, sem Jehóva gaf sigur yfir Ammonítum, lét líka í ljós trú sem birtist í því að hann reiddi sig algerlega á Jehóva. Aðeins vegna slíkrar trúar gat hann staðið við heit sitt um að helga dóttur sína þjónustu Jehóva sem hafði í för með sér að hún yrði mey ævilangt. — Dómarabókin 11:29-40.
6. Hvernig sýndi Davíð trú sína?
6 Davíð vekur líka athygli fyrir trú sína. Hann var ungur maður þegar hann barðist við filistarisann Golíat. „Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót,“ sagði Davíð, „en ég kem á móti þér í nafni [Jehóva] allsherjar.“ Já, Davíð reiddi sig á Guð, drap hinn fjallháa Filista og varð síðar hugdjarfur herkonungur sem barðist fyrir þjóð Guðs. Og vegna trúar Davíðs var hann maður eftir hjarta Jehóva. (1. Samúelsbók 17:4, 45-51; Postulasagan 13:22) Alla ævi sýndu Samúel og aðrir spámenn líka mikla trú og fullt traust til Guðs. (1. Samúelsbók 1:19-28; 7:15-17) Hvílíkt fordæmi nútímaþjónum Jehóva, jafnt ungum sem öldnum!
7. (a) Hverjir ‚unnu sigur á konungsríkjum‘? (b) Hverjir „iðkuðu réttlæti“ vegna trúar?
7 Vegna trúar getum við staðist hverja prófraun ráðvendni okkar, sem verkast vill, og gert hvaðeina sem samræmist vilja Guðs. (Lestu Hebreabréfið 11:33, 34.) Þegar Páll nefnir ýmis önnur trúarverk hefur hann bersýnilega í huga hebreska dómara, konunga og spámenn, því að hann var nýbúinn að láta þeirra getið. „Fyrir trú unnu“ dómarar svo sem Gídeon og Jefta, „sigur á konungsríkjum.“ Það gerði líka Davíð konungur sem sigraði Filista, Móabíta, Sýrlendinga, Edomíta og fleiri. (2. Samúelsbók 8:1-14) Með trú sinni iðkuðu ráðvandir dómarar og stuðluðu að „réttlæti,“ og réttlát heilræði Samúels og annarra spámanna komu að minnsta kosti sumum til að snúa baki við rangri breytni. — 1. Samúelsbók 12:20-25; Jesaja 1:10-20.
8. Hvaða fyrirheit fékk Davíð og til hvers leiddi það?
8 Davíð var einn þeirra sem ‚öðlaðist fyrirheit‘ vegna trúar. Jehóva hét honum: „Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu.“ (2. Samúelsbók 7:11-16) Og Guð hélt það fyrirheit með því að stofna Messíasarríkið árið 1914. — Jesaja 9:6, 7; Daníel 7:13, 14.
9. Undir hvaða kringumstæðum voru ‚gin ljóna byrgð vegna trúar‘?
9 Spámaðurinn Daníel stóðst prófraun ráðvendni sinnar þegar hann hélt áfram að biðja til Guðs að venju sinni þrátt fyrir valdboð konungs gegn því. Vegna trúar ráðvands manns ‚byrgði hann þannig gin ljóna‘ þegar Jehóva verndaði líf hans í ljónagryfju sem honum var varpað í. — Daníel 6:4-23.
10. Hverjir „slökktu eldsbál“ vegna trúar og hvað getur sambærileg trú gert okkur kleift?
10 Hinir ráðvöndu félagar Daníels, Hebrearnir Sadrak, Mesak og Abednegó, „slökktu eldsbál“ í reynd. Þegar þeim var hótað dauða í ofurheitum ofni sögðu þeir Nebúkadnesar konungi að þeir myndu ekki þjóna guðum einvaldsins í Babýlon eða dýrka líkneskið, sem hann hafði reist, og einu gilti hvort Guð þeirra myndi bjarga þeim eða ekki. Jehóva slökkti ekki eldinn í ofninum en hann tryggði að eldurinn ynni Hebreunum þrem ekkert tjón. (Daníel 3:1-30) Sambærileg trú gerir okkur fært að varðveita ráðvendni við Guð þegar við blasir dauði fyrir óvinahendi. — Opinberunarbókin 2:10.
11. (a) Hverjir „komust undan sverðseggjum“ vegna trúar? (b) Hverjir „urðu styrkir“ vegna trúar? (c) Hverjir „gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta“?
11 Davíð ‚komst undan sverðseggjum‘ manna Sáls konungs. (1. Samúelsbók 19:9-17) Spámennirnir Elía og Elísa komust líka undan dauða fyrir sverði. (1. Konungabók 19:1-3; 2. Konungabók 6:11-23) En hverjir „urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir“? Nú, Gídeon áleit sig og menn sína of veika til að losa Ísrael undan oki Midianíta. En Guð styrkti hann og gaf honum sigur — með aðeins 300 mönnum! (Dómarabókin 6:14-16; 7:2-7, 22) Þegar hár Samsonar var skorið varð hann ‚veikur‘ en Jehóva gerði hann ‚styrkan‘ svo að hann gat orðið fjölmörgum Filistum að bana. (Dómarabókin 16:19-21, 28-30; samanber Dómarabókina 15:13-19.) Páll kann líka að hafa haft í huga Hiskía konung sem ‚varð styrkur‘ eftir bæði hernaðarleg og jafnvel líkamleg veikindi. (Jesaja 37:1-38:22) Jefta dómari og Davíð konungur eru í hópi þeirra þjóna Guðs sem „gjörðust öflugir í stríði.“ (Dómarabókin 11:32, 33; 2. Samúelsbók 22:1, 2, 30-38) Og meðal annars Barak dómari ‚stökkti fylkingum óvina á flótta.‘ (Dómarabókin 4:14-16) Allar þessar hetjudáðir ættu að sannfæra okkur um að við getum staðist sérhverja prófraun ráðvendni okkar og gert hvaðeina sem er í samræmi við vilja Jehóva.
Fyrirmyndartrú annarra
12. (a) Hvaða „konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna“? (b) Á hvaða veg verður upprisa sumra manna trúarinnar „betri“?
12 Trú felur í sér trú á upprisuna, von sem hjálpar okkur að sýna Guði ráðvendni. (Lestu Hebreabréfið 11:35.) Vegna trúar ‚heimtu konur aftur sína framliðnu upprisna.‘ Vegna trúar á kraft Guðs reisti Elía upp son ekkju í Sarefta og Elísa vakti til lífs dreng súnamískrar konu. (1. Konungabók 17:17-24; 2. Konungabók 4:17-37) „Aðrir voru pyndaðir [bókstaflega „barðir með stöfum“] og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.“ Svo virðist sem þessir vottar Jehóva, er Ritningin nafngreinir ekki, hafi verið barðir til dauðs og ekki viljað kaupa sér líf með því að hvika frá trú sinni. Upprisa þeirra verður „betri“ vegna þess að þeir munu ekki þurfa að deyja aftur (eins og þeir sem Elía og Elísa reistu upp) og hún verður undir Guðsríki í höndum Jesú Krists, ‚eilífðarföðurins‘ sem gefur með lausnarfórn sinni tækifæri til endalauss lífs á jörð. — Jesaja 9:6; Jóhannes 5:28, 29.
13. (a) Hverjir máttu „sæta háðsyrðum og húðstrokum“? (b) Hverjir þoldu ‚fjötra og fangelsi‘?
13 Ef við höfum trú munum við geta þolað ofsóknir. (Lestu Hebreabréfið 11:36-38.) Þegar við erum ofsótt er okkur hjálp í því að muna eftir upprisuvoninni og gera okkur ljóst að Guð getur haldið okkur uppi eins og öðrum sem „urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.“ Ísraelsmenn ‚gerðu stöðugt gys að spámönnum Jehóva uns reiði hans við lýð sinn var orðin mikil.‘ (2. Kroníkubók 36:15, 16) Vegna trúar máttu Míka, Elísa og fleiri þjónar Guðs „sæta háðsyrðum.“ (1. Konungabók 22:24; 2. Konungabók 2:23, 24; Sálmur 42:4) ‚Húðstrokur‘ voru þekktar á dögum Ísraelskonunga og spámannanna, og andstæðingar Jeremía ‚húðstrýktu‘ hann. ‚Fjötrar og fangelsi‘ minna okkur á reynslu hans og spámanna svo sem Míka og Hananí. (Jeremía 20:1, 2; 37:15; 1. Konungabók 12:11; 22:26, 27; 2. Kroníkubók 16:7, 10) Vegna svipaðrar trúar hafa nútímavottar Jehóva getað þolað sambærilegar þjáningar „fyrir réttlætis sakir.“ — 1. Pétursbréf 3:14.
14. (a) Hverjir voru „grýttir“? (b) Hver var ef til vill ‚sagaður í sundur‘?
14 „Þeir voru grýttir,“ sagði Páll. Einn slíkra manna var Sakaría, sonur Jójada prests. Undir áhrifum anda Guðs sagði hann fráhvarfsmönnum Júda til syndanna. Af því leiddi að samsærismenn grýttu hann til bana í forgarði húss Jehóva að boði Jóasar konungs. (2. Kroníkubók 24:20-22; Matteus 23:33-35) Páll bætti við: „Þeir voru . . . sagaðir í sundur, þeirra var freistað.“ Hann kann að hafa haft í huga spámanninn Míka, sem þoldi ýmsar þrengingar, og samkvæmt gyðinglegri hefð, sem þó er ekki ábyggileg, var Jesaja sagaður í sundur á dögum Manasse konungs. — 1. Konungabók 22:24-28.
15. Hverjir voru „illa haldnir“ og „reikuðu um óbyggðir“?
15 Aðrir voru „höggnir með sverði,“ til dæmis samtíðarspámenn Elía sem voru ‚drepnir með sverði‘ á dögum hins illa Akabs konungs. (1. Konungabók 19:9, 10) Elía og Elísa voru í hópi þeirra sem „ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.“ (1. Konungabók 19:5-8, 19; 2. Konungabók 1:8; 2:13; samanber Jeremía 38:6.) Þeir sem „reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum“ vegna ofsókna voru ekki aðeins Elía og Elísa, heldur líka hinir hundrað spámenn sem Óbadía faldi í tveim hópum í helli og birgði upp með brauði og vatni þegar skurðgoðadýrkandinn Jesebel drottning „drap spámenn [Jehóva].“ (1. Konungabók 18:4, 13; 2. Konungabók 2:13; 6:13, 30. 31) Hvílík ráðvendni! Engin furða er að Páll skyldi segja: „Ekki átti heimurinn [hið rangláta mannfélag] slíka menn skilið“!
16. (a) Hvers vegna hafa vottar Jehóva fyrir daga kristninnar enn ekki ‚hlotið fyrirheitið‘? (b) Í hverju hlýtur ‚fullkomnun‘ votta Jehóva fyrir daga kristninnar að felast?
16 Trú veitir okkur þá sannfæringu að á tilætluðum tíma Guðs muni allir sem elska hann ‚hljóta fyrirheitið.‘ (Lestu Hebreabréfið 11:39, 40.) Ráðvandir þjónar Guðs fyrir daga kristninnar ‚fengu góðan vitnisburð fyrir trú sína‘ sem er nú skráður í Ritninguna. Enn hafa þeir þó ekki ‚hlotið fyrirheitið‘ Guðs um jarðneska upprisu í von um eilíft líf undir stjórn Guðsríkis. Hvers vegna? ‚Til að þeir skyldu ekki fullkomnir verða‘ án smurðra fylgjenda Jesú, en þeim ‚hafði Guð séð fyrir því sem betra var‘ — ódauðlegu lífi á himnum og þeim sérréttindum að vera meðstjórnendur Krists Jesú. Með upprisu sinni, sem hófst eftir stofnsetningu Guðsríkis árið 1914, eru smurðir kristnir menn ‚gerðir fullkomnir‘ á himnum áður en vottar Jehóva fyrir daga kristninnar fá upprisu á jörð. (1. Korintubréf 15:50-57; Opinberunarbókin 12:1-5) Að þessir vottar fyrri tíma ‚verði fullkomnir‘ hlýtur að standa í sambandi við jarðneska upprisu þeirra, það að sköpunin ‚verði leyst úr ánauð forgengileikans‘ og að þeir hljóti mannlegan fullkomleika vegna þjónustu æðsta prestsins Jesú Krists og 144.000 himneskra undirpresta hans í þúsundáraríkinu. — Rómverjabréfið 8:20, 21; Hebreabréfið 7:26; Opinberunarbókin 14:1; 20:4-6.
Horfum til fullkomnara trúar okkar
17, 18. (a) Hvað verðum við að gera til að bera sigur úr býtum í kapphlaupi okkar um eilífa lífið? (b) Hvernig er Jesús Kristur ‚fullkomnari trúarinnar‘?
17 Eftir að hafa rætt um votta Jehóva fyrir daga kristninnar bendir Páll á fremsta fordæmi trúarinnar. (Lestu Hebreabréfið 12:1-3.) Hvílík hvatning er ekki að vera „umkringdir slíkum fjölda votta“! Það hvetur okkur til að létta af okkur hverri byrði sem hamlað gæti andlegum framförum okkar. Það hjálpar okkur að forðast þá synd að glata trú okkar eða láta hana vanta, og hlaupa þolgóðir hið kristna skeið til eilífs lífs. En til að ná markinu verðum við að gera meira. Hvað er það?
18 Ef við eigum að hljóta sigur í kapphlaupi okkar um eilíft líf í nýrri skipan Guðs þurfum við að ‚beina sjónum okkar til Jesú, höfundar [eða fremsta leiðtoga] og fullkomnara trúarinnar.‘ Trú Abrahams og annarra ráðvandra þjóna Guðs fyrir jarðvistarþjónustu Krists Jesú, var ófullkomin að því leyti að þeir skildu ekki spádóma um Messías sem þá höfðu ekki ræst. (Samanber 1. Pétursbréf 1:10-12.) En með fæðingu Jesú, þjónustu, dauða og upprisu rættust margir af Messíasarspádómunum. Þannig ‚kom‘ trú í fullkomnari skilningi fyrir tilstilli Jesú Krists. (Galatabréfið 3:24, 25) Frá himnum hélt Jesús auk þess áfram að fullkomna trú fylgjenda sinna, eins og þegar hann úthellti yfir þá heilögum anda á hvítasunnunni árið 33, svo og með opinberunum sem þroskuðu trú þeirra markvisst. (Postulasagan 2:32, 33; Rómverjabréfið 10:17; Opinberunarbókin 1:1, 2; 22:16) Við megum vera þakklát fyrir þennan ‚trúa vott,‘ þennan ‚höfuðleiðtoga‘ votta Jehóva! — Opinberunarbókin 1:5; Matteus 23:10.
19. Hvers vegna ættum við að ‚virða Jesú fyrir okkur‘?
19 Með því að ekki er auðvelt að þola átölur þeirra sem ekki trúa hvatti Páll: „Virðið hann [Jesú] fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ Já, ef við einblínum á ‚vottinn trúa,‘ Jesú Krist, munum við aldrei þreytast á að gera vilja Guðs. — Jóhannes 4:34.
20. Nefndu sumt af því sem þú hefur lært um trúna í Hebreabréfinu 11:1-12:3.
20 Við getum skoðað marga fleti trúarinnar með því að virða fyrir okkur hinn mikla „fjölda votta.“ Trú Abels hjálpar okkur til dæmis að meta betur fórn Jesú. Sönn trú gerir okkur hugrakka votta eins og Enok boðaði boðskap Jehóva af djörfung. Eins og var hjá Nóa kemur trúin okkur til að fylgja fyrirmælum Guðs nákvæmlega og vera prédikarar réttlætisins. Trú Abrahams innprentar okkur nauðsyn þess að hlýða Guði og treysta loforðum hans, jafnvel þótt sum þeirra hafi enn ekki uppfyllst. Fordæmi Móse sýnir að trú gerir okkur kleift að halda okkur flekklausum af heiminum og standa drottinhollir með þjónum Jehóva. Hetjudáðir dómara Ísraels, konunga og spámanna sanna að trú á Guð getur haldið okkur uppi í gegnum ofsóknir og þrengingar. Og þakklát ættum við að vera fyrir það að hið stórkostlega fordæmi Jesú Krists skuli gera trú okkar trausta og óhagganlega! Með Jesú sem leiðtoga okkar og í krafti Guðs skulum við því halda áfram að sýna þolgóða trú sem vottar Jehóva.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða verk votta Jehóva fyrir daga kristninnar sanna að trú birtist í algjöru trausti á Guð þegar hætta steðjar að?
◻ Hvers vegna má segja að við getum með trú staðist sérhverja prófraun ráðvendni okkar?
◻ Hvað sannar að við getum vegna trúar þolað ofsóknir?
◻ Hvers vegna er Jesús kallaður ‚fullkomnari trúarinnar‘?
◻ Nefnið suma af hinum mörgu flötum trúarinnar.
[Mynd á blaðsíðu 26, 27]
Davíð sýndi trú með því að reiða sig fullkomlega á Jehóva. Það er gott fordæmi þjónum Jehóva núna!
[Mynd á blaðsíðu 28]
„Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna.“ Trú á upprisuna hjálpar okkur að varðveita ráðvendni við Jehóva.