Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • lv kafli 4 bls. 36-49
  • Af hverju eigum við að virða yfirvald?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Af hverju eigum við að virða yfirvald?
  • „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • AF HVERJU GETUR ÞAÐ VERIÐ ERFITT?
  • AF HVERJU EIGUM VIÐ AÐ VIRÐA YFIRVALD?
  • VIRÐING INNAN FJÖLSKYLDUNNAR
  • VIRÐING INNAN SAFNAÐARINS
  • VIRÐING FYRIR YFIRVÖLDUM
  • Virtu þá sem fara með yfirráð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Viðhorf kristins manns til yfirvalds
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Virtu yfirráð Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • Virðing fyrir yfirvaldi — af hverju nauðsynleg?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
Sjá meira
„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
lv kafli 4 bls. 36-49
Faðir kennir fjölskyldunni.

4. KAFLI

Af hverju eigum við að virða yfirvald?

„Virðið alla menn.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:17.

1, 2. (a) Af hverju er stundum erfitt að virða yfirvald? (b) Um hvaða spurningar ætlum við að fjalla?

HEFURÐU einhvern tíma fylgst með viðbrögðum lítils drengs sem er sagt að gera eitthvað sem hann vill helst ekki gera? Þú sérð kannski hvernig innri barátta hans endurspeglast í svipbrigðunum. Hann heyrir hvað foreldrarnir segja og veit að hann á að virða yfirráð þeirra. Hann vill bara ekki hlýða í þetta sinn. Togstreita hans er prýðisdæmi um aðstæður sem við lendum stundum í.

2 Okkur finnst ekki alltaf auðvelt að virða yfirráð annarra. Áttu stundum erfitt með að virða þá sem fara með ákveðið forræði yfir þér? Þú ert ekki einn um það. Virðing fyrir yfirvaldi virðist vera minni en nokkru sinni fyrr. Engu að síður segir í Biblíunni að við eigum að virða þá sem fara með yfirráð yfir okkur. (Orðskviðirnir 24:21) Það er reyndar nauðsynlegt til að láta kærleika Guðs varðveita sig. En eðlilega vakna ýmsar spurningar. Af hverju er stundum svona erfitt að virða yfirráð annarra? Hvers vegna vill Jehóva að við gerum það og hvað hjálpar okkur til þess? Og að síðustu, hvernig getum við sýnt virðingu fyrir yfirvaldi?

AF HVERJU GETUR ÞAÐ VERIÐ ERFITT?

3, 4. Hvernig byrjaði syndin og ófullkomleikinn og hvers vegna eigum við erfitt með að virða yfirvald?

3 Við skulum líta stuttlega á tvennt sem veldur því að okkur getur fundist mjög erfitt að virða þá sem fara með yfirráð. Annað er ófullkomleikinn sem hrjáir okkur sjálf, hitt er ófullkomleiki þeirra sem fara með yfirráðin. Synd og ófullkomleiki áttu upptök sín endur fyrir löngu í Eden þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gegn yfirráðum Guðs. Syndin hófst því með uppreisn og æ síðan hafa mennirnir haft meðfædda tilhneigingu til uppreisnar. — 1. Mósebók 2:15-17; 3:1-7; Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 5:12.

4 Syndugt eðli okkar veldur því að stærilæti eða stolt getur hæglega komið upp hjá okkur flestum. Auðmýkt er hins vegar fágætur eiginleiki sem við þurfum að temja okkur og leggja okkur fram við að viðhalda. Þrjóska og stolt getur jafnvel skotið upp kollinum þó að við höfum þjónað Guði samviskusamlega árum saman. Tökum Kóra sem dæmi. Hann þjónaði Jehóva dyggilega í ýmsum þrautum og þrengingum sem Ísraelsmenn lentu í. En hann girntist meiri völd og sýndi þá óskammfeilni að stofna til uppreisnar gegn Móse, hógværasta manni á jarðríki á þeim tíma. (4. Mósebók 12:3; 16:1-3) Eða lítum á Ússía konung sem sýndi af sér það yfirlæti að ganga inn í musteri Jehóva og inna af hendi helgiþjónustu sem enginn mátti gera nema prestarnir. (2. Kroníkubók 26:16-21) Þessir menn guldu uppreisnina dýru verði. Slæmt fordæmi þeirra er hins vegar þörf áminning fyrir okkur sem nú lifum. Það minnir á að við þurfum að berjast gegn stoltinu sem gerir okkur erfitt fyrir að virða þá sem fara með yfirráð.

5. Hvernig hafa ófullkomnir menn misnotað vald sitt?

5 Ófullkomnir valdamenn hafa líka átt drjúgan þátt í því að grafa undan virðingu fyrir yfirvaldi. Margir hafa verið grimmir og ráðríkir og misbeitt valdi sínu. Mannkynssagan er að miklu leyti saga stöðugrar misbeitingar á valdi. (Prédikarinn 8:9) Tökum dæmi. Sál var góður og auðmjúkur maður þegar Jehóva valdi hann fyrir konung. En þegar fram liðu stundir varð hann stoltur og öfundsjúkur og síðan ofsótti hann Davíð sem var dyggur þjónn Guðs. (1. Samúelsbók 9:20, 21; 10:20-22; 18:7-11) Davíð var einhver besti konungur sem Ísrael átti, bæði fyrr og síðar, en misbeitti valdi sínu þegar hann stal eiginkonunni frá Hetítanum Úría og sendi síðan saklausan manninn í fremstu víglínu til að falla í bardaga. (2. Samúelsbók 11:1-17) Já, það er erfitt fyrir ófullkomna menn að fara vel með völd. Og þegar þeir sem völdin hafa virða ekki Jehóva er voðinn vís. Breskur stjórnmálamaður lýsti einu sinni hvernig sumir af páfum kaþólsku kirkjunnar stóðu fyrir víðtækum ofsóknum og sagði síðan: „Allt vald spillir og algert vald spillir algerlega.“ Við skulum nú, með hliðsjón af sögunni, velta fyrir okkur hvers vegna við ættum að virða yfirvald.

AF HVERJU EIGUM VIÐ AÐ VIRÐA YFIRVALD?

6, 7. (a) Hvað gerum við af því að við elskum Jehóva? (b) Af hverju erum við undirgefin Jehóva og hvernig getum við sýnt það?

6 Ein helsta ástæðan til að virða yfirvald er kærleikur — til Jehóva, til náungans og jafnvel til sjálfra okkar. Við elskum Jehóva heitar en nokkurn annan svo að okkur langar til að gleðja hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11; Markús 12:29, 30) Við vitum að drottinvald hans, rétturinn til að stjórna alheiminum, hefur verið véfengt hér á jörð allt frá uppreisninni í Eden. Við vitum líka að meirihluti mannkyns hefur tekið afstöðu með Satan og hafnað stjórn Jehóva. Við fögnum því hins vegar að standa Jehóva megin. Þegar við lesum hin háleitu orð í Opinberunarbókinni 4:11 snerta þau streng í brjósti okkar. Það er augljóst að Jehóva er réttmætur Drottinn alheims. Við styðjum alvald hans og viðurkennum stjórn hans í daglegu lífi okkar.

7 Slík virðing fyrir Jehóva er okkur hvöt til að hlýða honum öllum stundum. Við hlýðum honum fúslega af því að við elskum hann. En af og til hlýtur sú staða að koma upp að okkur finnist afar erfitt að hlýða. Þá þurfum við að læra undirgefni líkt og litli drengurinn sem nefndur var í upphafi kaflans. Við skulum hafa hugfast að Jesús hlýddi vilja föður síns jafnvel þó að það virtist vera ákaflega erfitt. „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji,“ sagði hann við föður sinn. — Lúkas 22:42.

8. (a) Hvernig getum við oft sýnt að við séum undirgefin Jehóva og á hverju má sjá hvernig hann lítur á málið? (b) Hvað getur hjálpað okkur að hlýða á ráð og þiggja ögun? (Sjá rammagreinina „Hlýddu ráðum og taktu umvöndun.“)

8 Jehóva talar auðvitað ekki við okkur hvert og eitt nú á tímum heldur notar til þess orð sitt og menn sem hann hefur skipað fulltrúa sína. Undirgefni við yfirráð Jehóva birtist því oftast í því að við virðum þá sem hann hefur sett yfir okkur eða leyfir að sitja áfram í þeirri stöðu. Við værum að óvirða Guð ef við gerðum uppreisn gegn þeim, til dæmis með því að vilja ekki þiggja biblíuleg ráð og leiðréttingu frá þeim. Þegar Ísraelsmenn mögluðu og gerðu uppreisn gegn Móse leit Jehóva svo á að þeir hefðu snúist gegn sér persónulega. — 4. Mósebók 14:26, 27.

9. Af hverju er kærleikur til náungans okkur hvöt til að virða yfirvald? Lýstu með dæmi.

9 Við virðum líka yfirráð annarra af því að við elskum náungann. Skýrum þetta með dæmi. Segjum að þú sért hermaður í herdeild. Líklegt er að velgengni herdeildarinnar og jafnvel tilvera hennar sé undir því komin að hver einasti hermaður hlýði yfirboðara sínum og virði réttar boðleiðir. Ef þú gerðir uppreisn og græfir undan skipulaginu innan hersins gætirðu stofnað öllum félögum þínum í herdeildinni í hættu. Herir mannanna valda auðvitað gífurlegri eyðileggingu í heimi nútímans. Jehóva á sér hins vegar heri sem gera ekkert nema gott. Í Biblíunni er Jehóva margsinnis kallaður „Drottinn hersveitanna“. (Sálmur 46:8) Hann ræður yfir miklum her voldugra andavera. Stundum líkir hann jarðneskjum þjónum sínum við her. (Sálmur 68:12; Esekíel 37:1-10) Værum við ekki að stofna félögum okkar í hinum andlega her í hættu ef við gerðum uppreisn gegn þeim mönnum sem Jehóva hefur skipað yfirboðara okkar? Þegar einhver í söfnuðinum gerir uppreisn gegn safnaðaröldungunum getur það komið niður á öðrum í söfnuðinum. (1. Korintubréf 12:14, 25, 26) Þegar barn rís upp á móti foreldrunum líður öll fjölskyldan fyrir það. Við sýnum því náunganum kærleika með því að virða yfirvald og vera samvinnuþýð.

10, 11. Hvers vegna ættum við að hlýða yfirvaldi sjálfra okkar vegna?

10 Við virðum líka yfirvald vegna þess að það er sjálfum okkur fyrir bestu. Þegar Jehóva biður okkur að virða yfirvald nefnir hann í mörgum tilfellum kosti þess að gera það. Hann segir til dæmis börnum að hlýða foreldrum sínum til að þau verði langlíf og þeim vegni vel. (5. Mósebók 5:16; Efesusbréfið 6:2, 3) Hann segir okkur að virða safnaðaröldunga vegna þess að við spillum sambandi okkar við hann ef við gerum það ekki. (Hebreabréfið 13:7, 17) Og hann segir okkur að hlýða yfirvöldum af því að það er okkur til verndar. — Rómverjabréfið 13:4.

11 Er ekki auðveldara að virða yfirvald þegar við vitum af hverju Jehóva vill að við gerum það? Við skulum nú líta á þrjú svið þar sem við getum sýnt að við virðum yfirvald.

VIRÐING INNAN FJÖLSKYLDUNNAR

12. Hvaða hlutverk felur Jehóva eiginmanni og fjölskylduföður og hvernig á hann að gera því skil?

12 Jehóva er höfundur fjölskyldunnar. Hann hefur alltaf góða reglu á hlutunum og skipulagði því fjölskylduna með velgengni hennar í huga. (1. Korintubréf 14:33) Hann felur eiginmanninum og föðurnum það hlutverk að vera höfuð fjölskyldunnar. Eiginmaðurinn sýnir að hann virðir yfirboðara sinn, Jesú Krist, með því að líkja eftir því hvernig Jesús veitir söfnuðinum forystu. (Efesusbréfið 5:23) Eiginmaðurinn á ekki að veigra sér við ábyrgð sinni heldur rækja hana karlmannlega, en hann má ekki vera ráðríkur og harður heldur á hann að vera ástríkur, hlýlegur og sanngjarn. Hann er minnugur þess að vald hans er afstætt því að Jehóva fer alltaf með æðsta vald.

Kristinn faðir líkir eftir forystu Krists.

13. Hvernig getur eiginkona og móðir gert hlutverki sínu skil þannig að hún þóknist Jehóva?

13 Eiginkona og móðir á að vera manni sínum stoð og stytta. Hún fer líka með yfirráð í fjölskyldunni. Í Biblíunni er talað um „viðvörun“ móðurinnar en frummálsorðið, sem þýtt er „viðvörun“, merkir bókstaflega „lög“. (Orðskviðirnir 1:8) Yfirráð hennar eru auðvitað háð forræði eiginmannsins. Kristin eiginkona sýnir að hún virðir yfirráð eiginmannsins með því að hjálpa honum að rækja hlutverk sitt sem höfuð fjölskyldunnar. Hún gerir ekki lítið úr honum og reynir ekki að ráðskast með hann eða taka af honum ráðin. Hún styður hann og vinnur með honum. Þegar ákvarðanir hans eru henni ekki að skapi segir hún honum kannski með virðingu hvað henni finnist en hún er honum undirgefin. Ef eiginmaðurinn er ekki í trúnni getur það sett hana í erfiða aðstöðu en undirgefni hennar getur hins vegar verið honum hvatning til að leita Jehóva. — 1. Pétursbréf 3:1.

Á kærleiksríkan hátt agar faðir son sinn sem hefur borið mold inn í húsið.

14. Hvernig geta börn heiðrað foreldra sína og Jehóva?

14 Börn gleðja Jehóva með því að hlýða foreldrum sínum. Þau gleðja einnig foreldra sína og eru þeim til lofs. (Orðskviðirnir 10:1) Börn einstæðra foreldra fylgja sömu meginreglu og eru hlýðin því að þau vita að foreldrið hefur líklega enn ríkari þörf fyrir stuðning þeirra og samvinnu. Það stuðlar að friðsömu og ánægjulegu fjölskyldulífi ef allir gegna því hlutverki sem Jehóva Guð hefur falið þeim. Og það er honum til heiðurs en hann er faðir allra fjölskyldna. — Efesusbréfið 3:14, 15.

VIRÐING INNAN SAFNAÐARINS

15. (a) Hvernig getum við sýnt í söfnuðinum að við virðum yfirráð Jehóva? (b) Hvaða meginreglur geta hjálpað okkur að hlýða þeim sem fara með forystuna? (Sjá rammagreinina „Hlýðum þeim sem fara með forystuna.“)

15 Jehóva hefur falið syni sínum yfirráð yfir kristna söfnuðinum. (Kólossubréfið 1:13) Jesús hefur síðan falið ,trúum og hyggnum þjóni‘ sínum að annast andlegar þarfir þjóna Guðs á jörð. (Matteus 24:45-47) Hið stjórnandi ráð Votta Jehóva er fulltrúi þessa þjóns. Eins og var í kristnu söfnuðunum á fyrstu öld fá safnaðaröldungar nú á tímum fyrirmæli og leiðbeiningar frá hinu stjórnandi ráði, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu fulltrúa þess, svo sem farandumsjónarmanna. Við hlýðum Jehóva með því að virða forystu öldunganna. — Hebreabréfið 13:17.

16. Í hvaða skilningi eru öldungarnir skipaðir af heilögum anda?

16 Öldungar og safnaðarþjónar eru ekki fullkomnir. Þeir gera sín mistök líkt og við öll. Öldungarnir eru engu að síður „gjafir“ til safnaðarins til að hjálpa honum að varðveita gott samband við Jehóva. (Efesusbréfið 4:8) Öldungarnir eru skipaðir af heilögum anda. (Postulasagan 20:28) Hvernig þá? Þeir þurfa í fyrsta lagi að uppfylla hæfniskröfurnar en þær er að finna í orði Guðs sem er innblásið af anda hans. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7, 12; Títusarbréfið 1:5-9) Í öðru lagi biðja öldungarnir um leiðsögn heilags anda Jehóva þegar þeir leggja mat á það hvort ákveðinn bróðir uppfylli hæfniskröfurnar.

17. Af hverju bera kristnar konur stundum höfuðfat í safnaðarstarfinu?

17 Sú staða getur komið upp í söfnuðinum af og til að enginn öldungur eða safnaðarþjónn sé tiltækur til að annast verkefni sem eru að jafnaði á þeirra könnu, til dæmis að annast samansöfnun fyrir boðunarstarfið. Í slíku tilviki geta aðrir skírðir bræður tekið það að sér. Ef enginn bróðir er á staðnum geta hæfar systur hlaupið í skarðið. Þegar kona fer með verkefni sem skírðum karlmönnum er að jafnaði falið ber hún höfuðfat.a (1. Korintubréf 11:3-10) Þetta er ekki niðrandi fyrir konur heldur tækifæri til að sýna virðingu því fyrirkomulagi sem Jehóva hefur á forystumálum, bæði í fjölskyldunni og söfnuðinum.

VIRÐING FYRIR YFIRVÖLDUM

18, 19. (a) Skýrðu meginregluna sem lýst er í Rómverjabréfinu 13:1-7. (b) Hvernig sýnum við yfirboðurum í heiminum virðingu?

18 Sannkristnir menn fylgja samviskusamlega þeim meginreglum sem fram koma í Rómverjabréfinu 13:1-7. Af þessum versum er ljóst að með orðinu ,yfirvöld‘ er átt við stjórnvöld. Meðan Jehóva leyfir þessum stjórnvöldum manna að standa gegna þau mikilvægu hlutverki, svo sem að halda uppi lögum og reglu og láta í té nauðsynlega þjónustu. Við sýnum að við virðum yfirvöld með því að vera löghlýðin. Við gætum þess að greiða skatta samviskusamlega, útfylla eyðublöð og skjöl sem stjórnvöld ætlast til og fylgja þeim lögum sem snerta okkur, fjölskylduna, fyrirtæki okkar eða eignir. En við hlýðum ekki stjórnvöldum ef þau ætlast til að við óhlýðnumst Guði heldur förum við að dæmi postulanna forðum daga. „Framar ber að hlýða Guði en mönnum,“ sögðu þeir. — Postulasagan 5:28, 29; sjá rammagreinina „Hverjum ætti ég að hlýða?.“

HVERJUM ÆTTI ÉG AÐ HLÝÐA?

Meginregla: „Drottinn er dómari vor, Drottinn er löggjafi vor, Drottinn er konungur vor.“ — Jesaja 33:22.

Gott er að spyrja sig:

  • Hvað myndi ég gera ef ég væri beðinn um að brjóta meginreglur Jehóva? — Matteus 22:37-39; 26:52; Jóhannes 18:36.

  • Hvað myndi ég gera ef mér væri bannað að fylgja boðum Jehóva? — Postulasagan 5:27-29; Hebreabréfið 10:24, 25.

  • Hvernig get ég lært að hlýða fúslega þeim sem fara með yfirráð yfir mér? — Rómverjabréfið 13:1-4; 1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 6:1-3.

19 Við sýnum stjórnvöldum líka virðingu með hegðun okkar og framkomu. Stundum getum við þurft að eiga bein samskipti við ráðamenn. Páll postuli þurfti að tala máli sínu frammi fyrir Heródesi konungi Agrippu og Festusi landstjóra. Hann ávarpaði þá með virðingu þó að þeir væru miklir gallagripir. (Postulasagan 26:2, 25) Við förum að dæmi Páls hvort sem það er hátt settur valdamaður eða lögregluþjónn sem við eigum samskipti við. Kristin börn og unglingar sýna sams konar virðingu fyrir kennurum, starfsmönnum og stjórnendum skóla. Og við sýnum ekki aðeins þeim virðingu sem eru hlynntir trú okkar heldur líka þeim sem eru fjandsamlegir í garð votta Jehóva. Fólk almennt, sem er ekki í söfnuðinum, ætti að skynja að við berum virðingu fyrir því. — Rómverjabréfið 12:17, 18; 1. Pétursbréf 3:15.

20, 21. Hvað hlýst af því að sýna viðeigandi virðingu fyrir yfirvaldi?

20 Við ættum að vera óspör á að sýna öðrum virðingu. „Virðið alla menn,“ skrifaði Pétur postuli. (1. Pétursbréf 2:17) Það hefur oft sterk áhrif á fólk þegar það finnur að við berum ósvikna virðingu fyrir því. Höfum hugfast að virðing verður æ sjaldgæfari, en með því að sýna hana erum við að fylgja fyrirmælum Jesú þegar hann sagði: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ — Matteus 5:16.

21 Góðhjartað fólk laðast að andlegu ljósi sem það sér í þessum myrka heimi. Þegar við sýnum virðingu í fjölskyldunni, söfnuðinum og gagnvart þeim sem fyrir utan eru getum við hugsanlega laðað fólk að sannleikanum og verið því hvatning til að ganga í ljósinu með okkur. Það væri mjög ánægjulegt. En jafnvel þó að það gerist ekki er eitt víst. Með því að virða aðra menn gleðjum við Jehóva Guð og stuðlum að því að kærleikur hans varðveiti okkur. Er hægt að hugsa sér meiri umbun?

a Í viðaukanum „Höfuðfat — hvenær og hvers vegna?“ er fjallað nánar um aðstæður þar sem þessi meginregla á við.

„HLÝDDU RÁÐUM OG TAKTU UMVÖNDUN“

Heimurinn er gegnsýrður af anda Satans, af uppreisnarhug og mótþróa. Biblían kallar Satan ,valdhafann í loftinu‘ og nefnir síðan afleiðingarnar — „anda þess, sem nú starfar í sonum óhlýðninnar“. (Efesusbréfið 2:2, Biblían 1912) Margir vilja vera fullkomlega óháðir yfirráðum annarra. Því miður hafa jafnvel sumir í kristna söfnuðinum smitast af þessum sjálfstæðisanda. Lítum á dæmi. Safnaðaröldungur varar vinsamlega við siðlausu eða ofbeldisfullu afþreyingarefni en sumir spyrna við fótum eða bregðast ókvæða við. Við þurfum öll að fara eftir því sem segir í Orðskviðunum 19:20: „Hlýddu ráðum og taktu umvöndun svo að þú verðir vitur að lokum.“

Hvað getur hjálpað okkur til þess? Við skulum líta á þrjár algengar ástæður fyrir því að fólk bregst illa við ráðleggingum og umvöndun og kanna síðan hvað Biblían segir um málið.

  • „Mér finnst þessar leiðbeiningar ekki eiga við.“ Okkur finnst ef til vill að leiðbeiningarnar eigi ekki við aðstæður okkar eða að sá sem gaf þær sjái ekki heildarmyndina. Fyrstu viðbrögð gætu verið þau að gera lítið úr þeim ráðum sem við fengum. (Hebreabréfið 12:5) En nú erum við öll ófullkomin. Getur ekki verið að við þurfum sjálf að breyta hugsunarhætti okkar? (Orðskviðirnir 19:3) Var ekki einhver gild ástæða fyrir því að þú fékkst þessi ráð? Þá þarftu að einbeita þér að henni. Í Orðskviðunum 4:13 er ráðlagt: „Varðveittu leiðsögnina og slepptu henni ekki, varðveittu hana því að hún er líf þitt.“

  • „Mér líkar ekki hvernig þetta var sagt.“ Vissulega eru gerðar ákveðnar kröfur um það í Biblíunni hvernig eigi að leiðrétta aðra. (Galatabréfið 6:1) En þar segir jafnframt: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) Við fáum aldrei fullkomnar ráðleggingar og þær verða aldrei gefnar nákvæmlega rétt nema ráðgjafinn sé fullkominn. (Jakobsbréfið 3:2) Jehóva notar ófullkomna menn til að leiðbeina okkur svo að það er skynsamlegt að einblína ekki á það hvernig leiðbeiningarnar voru gefnar. Einbeitum okkur heldur að því hvað okkur var ráðlagt og hugleiðum síðan í bænarhug hvernig við getum farið eftir því.

  • „Hann er í engri aðstöðu til að leiðbeina mér!“ Ef við hunsum ráðin af því að sá sem gaf þau er ekki gallalaus þurfum við að hafa hugfast það sem bent var á hér á undan. Og ef við höldum að við séum einhvern veginn yfir það hafin að fá ráð sökum aldurs, reynslu eða stöðu í söfnuðinum þurfum við að hugsa okkar gang. Konungar Ísraels til forna voru valdamiklir en urðu þó að þiggja ráð spámanna, presta og sumra annarra þegna sinna. (2. Samúelsbók 12:1-13; 2. Kroníkubók 26:16-20) Í söfnuði Jehóva hafa ófullkomnir menn fengið það verkefni að ráða öðrum heilt og þeir sem eru þroskaðir í trúnni þiggja fúslega ráð og fara eftir þeim. Ef við höfum fleiri verkefni eða meiri reynslu en aðrir ættum við að vera enn betur vakandi fyrir því að vera til fyrirmyndar með því að vera sanngjörn og taka fúslega við ráðum annarra. — 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3; Títusarbréfið 3:2.

Ljóst er að enginn er yfir það hafinn að þiggja ráð. Verum því staðráðin í að taka við ráðum, fara eftir þeim og þakka Jehóva innilega fyrir umhyggju hans. Ráð og leiðbeiningar eru merki um kærleika Jehóva og okkur langar til að láta kærleika hans varðveita okkur. — Hebreabréfið 12:6-11.

Hlýðum þeim sem fara með forystuna

Í Ísrael til forna var nauðsynlegt að halda uppi góðu skipulagi. Móse gat ekki einn haft umsjón með milljónum manna sem voru á ferð um hættulega eyðimörk. Hvað gerði hann? „Móse valdi dugandi menn úr öllum Ísrael og gerði þá að höfðingjum yfir þjóðinni, foringjum þúsund manna, foringjum hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna.“ — 2. Mósebók 18:25.

Gott skipulag er einnig nauðsynlegt í kristna söfnuðinum nú á tímum. Þess vegna er umsjónarmaður settur yfir starfshóp, öldungar yfir söfnuð, farandhirðir yfir nokkra söfnuði og landsnefnd eða deildarnefnd yfir land. Þetta skipulag hefur í för með sér að þeir sem hafa hjarðgæslu með höndum geta fylgst vel með sauðunum sem Jehóva hefur falið þeim til umsjónar. Hirðarnir þurfa síðan að standa Jehóva og Kristi reikningsskap hjarðgæslu sinnar. — Postulasagan 20:28.

Þetta fyrirkomulag útheimtir að við séum öll hlýðin og eftirlát. Ekki viljum við hafa sama hugarfar og Díótrefes en hann bar enga virðingu fyrir þeim sem fóru með forystuna. (3. Jóhannesarbréf 9, 10) Við viljum frekar gera eins og Páll postuli hvatti til: „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát. Þeir vaka yfir sálum ykkar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlát til þess að þeir geti gert það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri ykkur til ógagns.“ (Hebreabréfið 13:17) Sumir hlýða þegar þeir eru sammála leiðbeiningum þeirra sem fara með forystuna en neita að hlýða ef þeir eru ósammála eða finnst engin ástæða fyrir leiðbeiningunum. En höfum hugfast að undirgefni getur falið í sér að hlýða jafnvel þó að okkur langi ekki beinlínis til þess. Við ættum því öll að spyrja okkur hvort við hlýðum og séum undirgefin þeim sem fara með forystuna fyrir okkur.

En auðvitað er ekki tíundað í smáatriðum í Biblíunni hvernig eigi að skipuleggja safnaðarlífið eða hvaða starfsreglum eigi að fylgja. Þar segir þó: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Korintubréf 14:40) Í samræmi við þessi fyrirmæli setur hið stjórnandi ráð ýmsar góðar starfsreglur og viðmið til að tryggja að safnaðarstarfið gangi snurðulaust fyrir sig. Safnaðaröldungar og safnaðarþjónar fylgja þessum starfsreglum og gefa þar með gott fordæmi um hlýðni. Þeir eru líka ,sanngjarnir og hlýðnir‘ þeim sem fara með umsjón. (Jakobsbréfið 3:17, New World Translation) Í hverjum hópi, söfnuði, farandsvæði og landi er því að finna samstilltan hóp trúaðra sem eru góðir fulltrúar hins sæla Guðs. — 1. Korintubréf 14:33; 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.

Orð Páls í Hebreabréfinu 13:17 benda einnig á hvers vegna óhlýðni sé til tjóns. Hún getur þýtt að þeir sem fara með umsjónina geri það „andvarpandi“. Ef þeir þurfa að takast á við uppreisnarhug og þrjósku í söfnuðinum getur verkefni, sem á annars að vera ánægjulegt, verið eins og byrði fyrir þá. Og þetta gæti orðið öllum söfnuðinum til tjóns. En það er líka til tjóns á annan hátt að vera ekki undirgefinn fyrirkomulagi Guðs. Sá sem er of stoltur til að lúta því fjarlægist Jehóva og spillir sambandi sínu við hann. (Sálmur 138:6) Við skulum því öll vera ákveðin í því að vera hlýðin og undirgefin.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila