Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.4. bls. 8-12
  • Vertu heiðarlegur í öllum greinum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vertu heiðarlegur í öllum greinum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þáttur ‚hinna síðustu daga‘
  • Ekki bara góð lífsregla
  • Heiðarleikinn vekur athygli annarra
  • Skipulaginu haldið hreinu
  • Vertu heiðarlegur á öllum sviðum
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • Eiginleiki sem er dýrmætari en demantar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Vertu heiðarlegur í öllu sem þú gerir
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.4. bls. 8-12

Vertu heiðarlegur í öllum greinum

„Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.“ — Hebreabréfið 13:18.

1, 2. (a) Hvað er orðið um heiðarleika á okkar tímum? (b) Hvers konar fólk gerist oft sekt um óheiðarleika?

ÞEIR sem komnir eru á efri æviár muna þá tíð að fólk hafði víða ekki fyrir því að læsa dyrum hjá sér. Það hvarflaði ekki að mönnum að stela frá öðrum eða pretta þá. Ef menn tóku fé að láni var heiður þeirra í veði að þeir endurgreiddu það. Orð þeirra voru „gulls ígildi.“ Óheiðarleiki þekktist að vísu en hann gagnsýrði ekki þjóðfélagið. Núna er hins vegar þjófnaður, lygar og svik orðinn daglegt brauð út um allan heiminn. Margvíslegur óheiðarleiki á sér upptök hjá virðulegu fólki sem býr og starfar í fínum borgarhverfum, klæðist vel, hefur á sér trúarlegt yfirbragð og telur sig góða borgara. Embættis- og kaupsýslumenn eru víða alræmdir fyrir óheiðarleika.

2 Í Bandaríkjunum er ár hvert skýrt frá liðlega 11 milljónum alvarlegra glæpa sem varða óheiðarleika. Stungið er undan skatti yfir 250 milljörðum dollara á ári þar í landi. Í New York skjóta hundrað þúsund manns sér hjá því að greiða fargjald með neðanjarðarlestum borgarinnar — dag hvern. Embættismaður lét þau orð falla að væru þeir allir handteknir „yrðu dómstólarnir stíflaðir svo mánuðum skipti.“ Könnun meðal skattgreiðenda í Japan leiddi í ljós að 95 af hundraði töldu rangt fram til skatts, þeirra á meðal 92 af hundraði lögfræðinga. Á einum mánuði voru teknir yfir 16.000 manns sem reyndu að stela sér ókeypis fari með járnbrautunum.

3. Hvernig er óheiðarleiki orðinn algengur í hjónabandinu?

3 Óheiðarleiki hefur líka færst í aukana innan hjónabandsins. Fyrir nokkrum árum leiddi könnun í ljós að 30 af hundraði bandarískra eiginkvenna „hefðu kynmök utan hjónabands.“ Í nýlegri könnun, sem náði til rúmlega hundrað þúsund giftra kvenna, sagðist helmingur „hafa átt ástarævintýri utan hjónabands að minnsta kosti einu sinni.“ Sagt hefur verið að hugsanlega „90 af hundraði kvæntra karlmanna“ séu sviksamir með svipuðum hætti.

Þáttur ‚hinna síðustu daga‘

4. Hvers vegna kemur það okkur ekki á óvart að óheiðarleiki færist í vöxt?

4 Það er þjónum Jehóva ekkert undrunarefni að óheiðarleiki skuli hafa farið vaxandi. Þeir vita að það er hluti af tákni hinna ‚síðustu daga.‘ Orð Guðs sagði fyrir að á okkar tímum myndu menn verða ‚eigingjarnir, fégjarnir, ótrúfastir, taumlausir, ekki elska það sem gott er, hafa á sér yfirskyn guðhræðslunnar en afneita krafti hennar og magnast í vonskunni.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Hópur sérfræðinga segir að „í vaxandi mæli“ sé fólkið í heiminum „farið að víkja frá hefðbundnu mati á rétt og rangt og sniðganga samviskuna.“

5. Hvað gerðist þegar svipað var orðið ástatt í tíuættkvíslaríkinu Ísrael til forna?

5 Ástandið í heiminum er orðið verra en það var skömmu áður en Jehóva fullnægði dómi yfir hinu forna, tíu ættkvísla Ísraelsríki. Hósea 4:1-3 segir um þá tíma: „[Jehóva] hefir mál að kæra gegn íbúum landsins, því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði. Þeir sverja og ljúga, myrða og stela og hafa fram hjá. Þeir brjótast inn í hús, og hvert mannvígið tekur við af öðru. Fyrir því drúpir landið, og allt visnar sem í því er.“ Dómi Jehóva var fullnægt árið 740 f.o.t. þegar hann leyfði Assýríu að leggja undir sig Ísrael og höfuðborgina Samaríu og flytja íbúana í útlegð.

6. Hvers vegna mun Guð fullnægja dómi yfir þessu núverandi heimskerfi og hve öruggt er að hann geri það?

6 Á svipaðan hátt hefur Jehóva „mál að kæra“ gegn þessum óheiðarlega heimi. Ritningin tekur af öll tvímæli um að Jehóva hafi þegar fellt dóm yfir honum og að hann muni ‚visna‘ með eyðingu. „Þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum . . . og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ (2. Pétursbréf 3:7) Svo viss er uppfylling þessa að orð Guðs talar um hana eins og hún sé þegar orðin: „Sjá, [Jehóva] er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt.“ — Júdasarbréfið 14, 15.

7. Hvað blasir við þjónum Jehóva þangað til hann bindur enda á þennan spillta heim?

7 Þar til Guð lætur þennan óguðlega heim líða undir lok verða þjónar Guðs samt sem áður að lifa í honum. Kristnir menn eru, eins og Jesús sagði, „í heiminum“ enda þótt þeir séu „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:11-14) Þeir þurfa því daglega að taka siðferðilegar ákvarðanir varðandi heiðarleika. Hér eiga í hlut meðal annars aðstæður sem upp koma á vinnustað, í skóla, innan fjölskyldunnar eða hjá vinum. Þegar reynir á samviskuna, þjálfaða af Biblíunni, vilja þjónar Jehóva vera sama sinnis og Páll postuli þegar hann sagði: „Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.“ — Hebreabréfið 13:18.

Ekki bara góð lífsregla

8. Hvers vegna er heiðarleiki eina lífsstefnan fyrir þjóna Jehóva?

8 Stundum er sagt að ‚heiðarleiki borgi sig.‘ Þá er átt við að heiðarleiki sé góð og skynsamleg lífsregla. Hjá kristnum mönnum á heiðarleiki sér þó dýpri rætur. Hjá þeim er heiðarleiki eina lífsreglan sem kemur til greina. Sem þjónum Jehóva er þeim skylt að líkja ekki eftir óheiðarleika þessa fordæmda heims — ekki af nokkru tilefni. Þeir verða að hegða sér í öllu samkvæmt lögum Guðs. Og lög hans hafa ekki breyst í þessu efni.

9. Hvernig lagði lögmál Jehóva til Forn-Ísraels áherslu á heiðarleika?

9 Til dæmis sagði Jehóva Forn-Ísrael: „Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast . . . nokkuð það, sem náungi þinn á.“ (2. Mósebók 20:14-17) Á svipaðan hátt segir 3. Mósebók 19:11, 12: „Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum. Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er [Jehóva].“

10. Hvernig leggur kristnin áherslu á heiðarleika?

10 Slík lög hafa verið endurtekin við kristna menn. Því segir orð Guðs: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“ Hið sama gildir um hvern sem „iðkar lygi.“ (1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 22:15) Allir sem vilja lifa í nýrri skipan Guðs verða að endurspegla eiginleika hans og einn þeirra er sá að ‚Guð lýgur ekki.‘ (Títusarbréfið 1:2; Hebreabréfið 6:18) Óheiðarleiki á upptök sín hjá Satan, ‚lyginnar föður.‘ — Jóhannes 8:44.

11, 12. (a) Hvers vegna ættum við að temja okkur heiðarleika núna? (b) Hvers vegna finnum við til öryggis innan skipulags Guðs?

11 Þar eð ‚réttlæti á að búa‘ á hinni fyrirheitnu ‚nýju jörð‘ Guðs þá „læra byggjendur jarðríkis réttlæti.“ (2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 26:9) Þess vegna er nú sívaxandi fjöldi væntanlegra borgara í hinni nýju paradís á jörð að ‚fræðast um vegu Jehóva,‘ þar á meðal um heiðarleika. (Jesaja 2:3, 4) Því ráðleggur orð Guðs okkur: „Ljúgið ekki hver að öðrum, því þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans.“ (Kólossubréfið 3:9) Það segir líka: „Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér, og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.“ — Efesusbréfið 4:28.

12 Þjónar Jehóva verða því að vera heiðarlegir í öllum greinum. Þannig munu allir verða í hinni nýju skipan Guðs og þess vegna verða þjónar Guðs að lifa þannig núna. Og hvílík gleði er það ekki að hafa félagsskap við alþjóðlegt samfélag milljóna manna sem temja sér heiðarleika! Hvílíkt öryggi ríkir ekki í þessari andlegu paradís sem hinn máttugi heilagi andi Guðs hefur búið til, andinn „sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða.“ (Postulasagan 5:32) Berðu þetta saman við þann óheilnæma anda sem gagnsýrir heiminn undir stjórn ‚Guðs þessa heims,‘ Satans djöfulsins. — 2. Korintubréf 4:4; Galatabréfið 5:19-24.

Heiðarleikinn vekur athygli annarra

13, 14. Hvað hafa aðrir haft að segja um heiðarleika þjóna Jehóva?

13 Heiðarleiki þjóna Guðs vekur oft athygli annarra. Til dæmis birti ítalska dagblaðið Il Piccolo bréf frá einum lesenda sinna sem sagði meðal annars: „Ég vil færa þakkir konunni sem kvaðst vera vottur Jehóva og sýndi sig til fyrirmyndar í heiðarleika með því að senda mér, fyrir milligöngu þessa dagblaðs, töluverða fjárhæð sem ég hafði glatað.“ Í Bandaríkjunum sagði dagblaðið The Indianapolis Star frá vottum sem fundu 4000 dollara (jafnvirði 160.000 króna) og skiluðu þeim til eiganda síns. Blaðið sagði að hjónin „hefðu ekki verið í minnsta vafa um hvað þau ættu að gera.“ Hvers vegna? Þau sögðu: „Við gátum ekki hirt féð. Við erum vottar Jehóva.“

14 Þegar vottur í Missouri í Bandaríkjunum fann 9500 dollara (jafnvirði 380.000 króna) og skilaði þeim til lögreglunnar hafði dagblað eftir lögreglumanni: „Það er afarsjaldgæft að sá sem finnur slíka fjárhæð skili henni. Ég man ekki eftir að nokkur hafi gert það fyrr. Það var hreinlega furðulegt.“ Í greininni sagði að vottinum „hefði aldrei komið til hugar að hirða peningana.“ Lögregluforinginn, sem var á vakt, sagði að votturinn „hefði endurvakið trú sína á að enn væri til heiðarlegt fólk meðal mannkynsins.“ Votturinn sagði: „Við leggjum metnað okkar í það að vera heiðarleg í öllum greinum.“

15, 16. Hvaða dæmi sýna að heiðarleiki jafnvel í smáu vekur athygli annarra?

15 Það er ekki bara í stórum atriðum sem við verðum að vera heiðarleg. Heiðarleiki er nauðsynlegur í smáum atriðum einnig. (Lúkas 16:10) Þegar til dæmis vottafjölskylda dvaldist á hóteli í Flórida tók hún í misgripum með sér koddaver. Hjónin sendu það í pósti aftur til hótelsins og hótelstjórinn skrifaði þeim: „Við erum mjög þakklát fyrir heiðarleika ykkar. Þótt ykkur hafi sennilega þótt sjálfsagt að skila koddaverinu er það mjög óvenjulegt fyrir okkur.“ Þegar hjón, sem voru vottar, tóku í misgripum með sér penna heim af hóteli í Georgíu og skiluðu honum síðar aftur skrifaði hótelstjórinn: „Þakka ykkur fyrir að taka ykkur tíma til að skila pennanum sem þið tókuð með í misgripum. Það er hressandi að fá bréf frá svona heiðarlegu og umhyggjusömu fólki eins og ykkur!“

16 Drengur í fimmta bekk var að leika hafnabolta í skólanum. Hann vissi að hann var úr leik en félagar hans í liðinu fullyrtu að hann hefði náð í höfn. Þá sagði einn mótherjanna að hægt væri að ganga úr skugga um hið rétta með einum hætti. Hann sagði: „Spyrjið hann hvort hann sé úr leik eða ekki. Hann er vottur og vottar ljúga ekki.“ Aðrir höfðu veitt athygli góðri hegðun drengsins dags daglega. Með því að lifa eftir stöðlum Guðs getur Jehóva hlotið lof jafnvel „af barna munni og brjóstmylkinga.“ — Matteus 21:16.

17, 18. Hvaða góð áhrif geta meginreglur Jehóva um heiðarleika haft á fólk?

17 Eiginmaður systur einnar í Nígeríu var mjög andvígur því að hún færi á svæðismót. Hann elti hana því þangað og reyndi að gera uppsteit. Eftir að dagskrá lauk sagði maðurinn: „Núna ætla ég að reyna ykkur vottana.“ Þegar enginn sá til tók hann seðil upp úr vasa sínum, merkti hann, vöðlaði saman og lét detta á jörðina. Síðar minntist hann á að hann hefði týnt peningunum sínum. Honum var sagt að hafa ekki áhyggjur af því vegna þess að hann fengi þá aftur. Hann fór á staðinn þar sem hann hafði skilið seðilinn eftir en hann var horfinn. „Jæja,“ sagði hann, „núna hef ég staðið ykkur að svikum!“ Þá var honum sagt að peningarnir myndu ekki vera þar heldur hefði verið farið með þá í tapað og fundið. Og þar endurheimti hann seðilinn sem hann hafði merkt. Þetta varð honum hvöt til að kynna sér nánar trú konu sinnar og núna er hann einn votta Jehóva.

18 Í bréfi, sem barst aðalstöðvum votta Jehóva í New York, sagðist kona, sem ekki er vottur, vilja segja frá atviki sem henti dóttur hennar í skóla. Dóttirin hafði orðið fyrir því að dýru beisli fyrir hest hafði verið stolið frá henni. Tveim árum síðar fékk stúlkan bréf þar sem sagði: „Kæra Lili. Hérna er beislið sem var stolið frá þér fyrir tveim árum. Það var ég sem tók það en núna er ég einn votta Jehóva og mín nýja samviska leyfir mér ekki að halda því lengur. Mér þykir mjög fyrir þessu. Viltu fyrirgefa mér?“ Já, þeir sem vilja þjóna Jehóva verða að ‚hafa góða samvisku og vilja í öllum greinum breyta vel.‘ — Hebreabréfið 13:18.

Skipulaginu haldið hreinu

19. (a) Hvað þarf sá kristinn maður að gera sem gerist sekur um óheiðarleika? (b) Hvað verður um þá okkar á meðal sem temja sér óheiðarleika og hvers vegna?

19 Ef þjónn Guðs gerist óvart sekur um óheiðarleika verður hann að bæta fyrir það jafnskjótt og hann gerir sér það ljóst eða athygli hans er vakin á því. Ef einhver meðal okkar hættir að meta meginreglur Biblíunnar að verðleikum og tekur að stunda óheiðarlega breytni er honum ekki leyft að spilla fólki Guðs. Hann er gerður rækur. (1. Korintubréf 5:11-13) Í því efni getum við reitt okkur á hjálp af himnum ofan því að Jesús sagði: „Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, . . . Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra.“ — Matteus 13:41-43.

20, 21. (a) Hvers vegna getum við óhikað boðið auðmjúkum mönnum að dýrka Jehóva með okkur? (b) Hvaða svið heiðarleikans verður rætt í greininni á eftir?

20 Skipulagi Jehóva er þannig haldið hreinu. Þar af leiðandi ‚skín það sem sól‘ og er leiðarljós hjartahreinna manna. Þess vegna getum við óhikað sagt öllu auðmjúku fólki: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva] [til sannrar guðsdýrkunar sem er hátt upp hafin] . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ — Míka 4:2.

21 Þar eð þjónar Jehóva verða að hegða sér heiðarlega í öllum greinum hlýtur það auðvitað að ná til viðskipta sem þeir eiga við aðra votta. Þar getur líka reynt á heiðarleika þeirra. Hvernig? Með hvaða hætti getum við tekist á við vandamál sem upp koma? Í greininni á eftir verður þessi hlið heiðarleikans rædd.

Spurningar til upprifjunar

◻ Hvað er orðið um heiðarleika nú á tímum og hvers vegna?

◻ Hvernig talar orð Guðs um nauðsyn þess að vera heiðarlegur?

◻ Hvers vegna verðum við að þroska með okkur heiðarleika áður en hin nýja skipan kemur?

◻ Hvaða atvik sýna fram á gildi heiðarleikans?

◻ Hvernig megum við treysta að heiðarleiki fái að ríkja meðal okkar?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Núna er verið að fræða væntanlega borgara hinnar nýju skipanar Guðs um veg heiðarleikans.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila