Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.9. bls. 22-27
  • Ertu genginn inn til hvíldar Guðs?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ertu genginn inn til hvíldar Guðs?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Guð hvíldist af verki sínu
  • Ísrael fékk ekki að ganga inn til hvíldar Guðs
  • Hvíld stendur enn til boða
  • Gakktu inn til hvíldar Guðs
  • Orð Guðs er kröftugt
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Hvað er hvíld Guðs?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Að vinna hefur sinn tíma og að hvílast hefur sinn tíma
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Ber kristnum mönnum að halda hvíldardag?
    Biblíuspurningar og svör
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.9. bls. 22-27

Ertu genginn inn til hvíldar Guðs?

„Sá, sem gengur inn til hvíldar [Guðs], fær hvíld frá verkum sínum.“ — HEBREABRÉFIÐ 4:10.

1. Af hverju er hvíld eftirsóknarverð?

HVÍLD er yndisleg! Flestir eru sammála um að örlítil hvíld frá hraða og erli umheimsins sé vel þegin. Jafnt ungir sem aldnir og giftir sem ógiftir eru oft úrvinda og útkeyrðir af daglegu lífi einu saman. Fyrir fatlaða og sjúka er hver dagur heil þrekraun. Eins og Ritningin segir ‚stynur öll sköpunin og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.‘ (Rómverjabréfið 8:22) Hvíld er ekki sama og leti. Maðurinn þarfnast hvíldar og verður að veita sér hana.

2. Frá hvaða tíma hefur Jehóva hvílst?

2 Jehóva Guð hefur meira að segja hvílst. Við lesum í 1. Mósebók: „Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði. Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.“ ‚Sjöundi dagurinn‘ hafði sérstakt gildi hjá Jehóva því að hin innblásna frásaga segir: „Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann.“ — 1. Mósebók 2:1-3.

Guð hvíldist af verki sínu

3. Hver getur ekki verið ástæðan fyrir því að Guð hvíldist?

3 Hvers vegna hvíldist Guð á „hinum sjöunda degi“? Hann var auðvitað ekki að hvílast sökum þreytu. Jehóva ræður yfir ‚miklum krafti‘ og ‚þreytist ekki né lýist.‘ (Jesaja 40:26, 28) Og Guð hvíldist ekki af því að hann þyrfti að hægja á sér eða slaka á, því að Jesús sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ (Jóhannes 5:17) Auk þess er Guð „andi“ og ekki háður líkamlegum þörfum og hringrásum lifandi vera af holdi og blóði. — Jóhannes 4:24.

4. Hvernig var ‚hinn sjöundi dagur‘ ólíkur ‚dögunum‘ sex á undan?

4 Hvernig getum við glöggvað okkur á ástæðunni fyrir því að Guð hvíldist „hinn sjöunda dag“? Með því að veita athygli að Guð blessaði „hinn sjöunda dag“ sérstaklega og „helgaði“ hann, þótt hann væri mjög ánægður með það sem hann hafði áorkað á hinu langa sköpunartímabili á undan, ‚dögunum‘ sex. Orðabókin Concise Oxford Dictionary skilgreinir orðið „helgur“ („sacred“) sem „tileinkaður eða eignaður (guði eða trúarlegum tilgangi).“ Með því að blessa „hinn sjöunda dag“ og lýsa hann helgan var Jehóva að gefa til kynna að dagurinn og ‚hvíldin‘ hlyti einhvern veginn að tengjast helgum vilja hans og tilgangi en ekki einhverri þörf hans sjálfs. Hvaða tengsl eru þetta?

5. Hverju kom Guð af stað á fyrstu sex sköpunardögunum?

5 Á sköpunardögunum sex á undan hafði Guð komið af stað öllum þeim hringrásum og lögmálum sem stjórna gangi jarðar og öllu umhverfis hana. Vísindamenn eru stöðugt að uppgötva hve stórkostlega allt þetta er úr garði gert. Undir lok ‚sjötta dagsins‘ skapaði Guð fyrstu mannhjónin og setti þau í „aldingarð í Eden langt austur frá.“ Loks lýsti hann yfir tilgangi sínum með mannkynið og jörðina í þessum spádómsorðum: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ — 1. Mósebók 1:28, 31; 2:8.

6. (a) Hvað fannst Guði, við lok ‚sjötta dagsins,‘ um allt sem hann hafði skapað? (b) Í hvaða skilningi er ‚sjöundi dagurinn‘ helgur?

6 Frásagan segir um lok ‚sjötta dagsins‘: „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Guð var ánægður með allt verk sitt. Hann hvíldist því frá frekara sköpunarstarfi tengdu jörðinni. En þótt paradísargarðurinn væri fallegur og fullkominn náði hann aðeins yfir lítið svæði, og það voru einungis tvær mannverur á jörðinni. Það myndi taka sinn tíma fyrir jörðina og mannkynið að ná því stigi sem Guð hafði ætlað. Þess vegna tiltók hann ‚sjöunda daginn‘ þegar allt sem hann hafði skapað ‚dagana‘ sex á undan átti að þróast í samræmi við helgan vilja hans. (Samanber Efesusbréfið 1:11.) Þegar „hinum sjöunda degi“ lýkur verður jörðin öll orðin paradís byggð fjölskyldu fullkominna manna um alla eilífð. (Jesaja 45:18) ‚Hinn sjöundi dagur‘ er tileinkaður eða helgaður því að ljúka og fullna vilja Guðs með jörðina og mannkynið. Í þeim skilningi er hann ‚helgur.‘

7. (a) Í hvaða skilningi hvíldist Guð á „hinum sjöunda degi“? (b) Hvernig verður allt orðið í lok ‚sjöunda dagsins‘?

7 Guð hvíldist því frá sköpunarstarfi sínu á „hinum sjöunda degi.“ Það er eins og hann hafi látið staðar numið og leyft því sem hann kom af stað að ganga sinn gang. Hann treystir því fyllilega að við lok ‚hins sjöunda dags‘ verði allt orðið nákvæmlega eins og hann ætlaði sér. Jafnvel þótt hindranir hafi orðið í veginum hafa þær verið yfirstignar. Allt hlýðið mannkyn mun njóta góðs af þegar vilji Guðs fullkomnast. Ekkert fær komið í veg fyrir það vegna þess að Guð blessaði „hinn sjöunda dag“ og „helgaði hann.“ Hlýðið mannkyn á sér dýrlegar framtíðarhorfur.

Ísrael fékk ekki að ganga inn til hvíldar Guðs

8. Hvenær og hvernig bar það til að Ísraelsmenn fóru að halda hvíldardag?

8 Ísraelsþjóðin naut góðs af vinnu- og hvíldarfyrirkomulagi Jehóva. Jafnvel áður en hann gaf Ísraelsmönnum lögmálið á Sínaífjalli sagði hann þeim fyrir munn Móse: „Lítið á! Vegna þess að [Jehóva] hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum.“ Það varð til þess að „fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.“ — 2. Mósebók 16:22-30.

9. Af hverju voru hvíldardagslögin eflaust kærkomin breyting fyrir Ísraelsmenn?

9 Þetta fyrirkomulag var nýlunda fyrir Ísraelsmenn sem voru nýsloppnir úr þrælkun í Egyptalandi. Enda þótt Egyptar og fleiri þjóðir hafi mælt tímann í fimm til tíu daga lotum er ólíklegt að hinir undirokuðu Ísraelsmenn hafi fengið nokkurn hvíldardag. (Samanber 2. Mósebók 5:1-9.) Því má ætla að Ísraelsmenn hafi fagnað þessari breytingu. Þeir hefðu átt að halda hvíldardaginn með ánægju í stað þess að líta á hvíldardagskröfuna sem byrði eða hömlu. Guð sagði þeim reyndar síðar að hvíldardagurinn ætti að minna þá á þrælkunina í Egyptalandi og frelsunina þaðan. — 5. Mósebók 5:15.

10, 11. (a) Til hvers hefðu Ísraelsmenn getað hlakkað ef þeir hefðu verið hlýðnir? (b) Af hverju fengu Ísraelsmenn ekki að ganga inn til hvíldar Guðs?

10 Hefðu Ísraelsmenn, sem fóru með Móse út af Egyptalandi, verið hlýðnir hefðu þeir hlotið þau sérréttindi að fá að ganga inn í fyrirheitna landið sem ‚flaut í mjólk og hunangi.‘ (2. Mósebók 3:8) Þeir hefðu hlotið sanna hvíld, ekki einungis á hvíldardeginum heldur ævilangt. (5. Mósebók 12:9, 10) En það fór á annan veg. Páll postuli skrifaði um þá: „Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse? Og hverjum ‚var hann gramur í fjörutíu ár‘? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni? Og hverjum ‚sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans,‘ nema hinum óhlýðnu? Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.“ — Hebreabréfið 3:16-19.

11 Við getum dregið dýrmætan lærdóm af þessu. Þessi kynslóð fékk ekki hvíldina, sem Jehóva hafði heitið henni, af því að hana skorti trú á hann. Þessir menn fórust í eyðimörkinni. Þeir skildu ekki að þeir voru nátengdir þeim vilja Guðs að veita öllum þjóðum jarðar blessun, af því að þeir voru afkomendur Abrahams. (1. Mósebók 17:7, 8; 22:18) Þeir voru algerlega uppteknir af veraldlegum og eigingjörnum löngunum í stað þess að vinna í samræmi við vilja Guðs. Megum við aldrei falla í það far. — 1. Korintubréf 10:6, 10.

Hvíld stendur enn til boða

12. Hvaða tækifæri stóð kristnum mönnum á fyrstu öld til boða og hvernig gátu þeir nýtt sér það?

12 Páll beinir athyglinni að trúbræðrum sínum eftir að hafa bent á að Ísrael hafi ekki fengið að ganga inn til hvíldar Guðs vegna vantrúar. Eins og fram kemur í Hebreabréfinu 4:1-5 fullvissar hann þá um að ‚fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar Guðs standi enn.‘ Hann hvetur þá til að iðka trú á „fagnaðarerindið“ því að „vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar.“ Þar eð lögmálið hafði þegar verið fellt úr gildi með lausnarfórn Jesú var Páll ekki að tala um líkamlega hvíld á hvíldardeginum. (Kólossubréfið 2:13, 14) Með því að vitna í 1. Mósebók 2:2 og Sálm 95:11 var hann að hvetja kristna Hebrea til að ganga inn til hvíldar Guðs.

13. Hvers vegna vekur Páll athygli á orðunum „í dag“ með tilvitnun sinni í Sálm 95?

13 Tækifærið að ganga inn til hvíldar Guðs hefði átt að vera ‚fagnaðarerindi‘ eða gleðifréttir fyrir kristna Hebrea, alveg eins og hvíldardagurinn eða sabbatshvíldin átti að vera ‚fagnaðarerindi‘ fyrir Ísraelsmenn fyrr á tímum. Páll hvetur því trúbræður sína til að gera ekki sömu mistökin og Ísraelsmenn í eyðimörkinni. Hann vitnar í Sálm 95:7, 8 og vekur athygli á orðunum „í dag“ þótt langt væri um liðið síðan Guð tók sér hvíld frá sköpunarstarfi sínu. (Hebreabréfið 4:6, 7) Hvað var Páll að benda á? Að ‚hinn sjöundi dagur,‘ sem Guð hafði tekið frá til að leyfa tilgangi sínum með jörðina og mannkynið að fullkomnast, stæði enn. Það var því áríðandi fyrir trúbræður hans að vinna samkvæmt þessum tilgangi í stað þess að vera uppteknir af eigingjörnum hugðarefnum og hann endurtekur viðvörunina: „Forherðið ekki hjörtu yðar.“

14. Hvernig sýndi Páll fram á að ‚hvíld‘ Guðs stæði enn?

14 Páll bendir enn fremur á að hin fyrirheitna ‚hvíld‘ hafi ekki einungis verið fólgin í því að setjast að í fyrirheitna landinu undir forystu Jósúa. (Jósúabók 21:44) „Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag,“ segir Páll og bætir svo við: „Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.“ (Hebreabréfið 4:8, 9) Hver er þessi „sabbatshvíld“?

Gakktu inn til hvíldar Guðs

15, 16. (a) Hver er þýðing orðsins „sabbatshvíld“? (b) Hvað merkir það að ‚hvílast frá verkum sínum‘?

15 Orðið „sabbatshvíld“ er þýðing grísks orðs sem merkir „að sabbata.“ (Kingdom Interlinear) Prófessor William Lane segir: „Orðið fékk sinn sérstaka merkingarblæ frá sabbatsákvæðunum sem urðu til í gyðingdómnum út frá 2. Mós. 20:8-10 þar sem lögð var áhersla á að hvíld og lofgjörð héldust í hendur . . . [Það] leggur áherslu á þann sérstaka þátt hátíðarhalda og gleði sem birtist í dýrkun Guðs og lofgjörð til hans.“ Hin fyrirheitna hvíld er því ekki einungis hlé frá vinnu. Hún felst í því að skipt er úr lýjandi og tilgangslausu striti í gleðilega þjónustu Guði til heiðurs.

16 Orð Páls í næsta versi staðfesta það: „Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.“ (Hebreabréfið 4:10) Guð hvíldist ekki á sjöunda deginum sökum þreytu. Hann hætti jarðnesku sköpunarstarfi í þeim tilgangi að láta handaverk sitt þróast til fullnustu, sér til lofs og heiðurs. Við erum hluti af sköpunarverki Guðs og ættum líka að falla inn í þetta fyrirkomulag. Við ættum að ‚hvílast frá verkum okkar,‘ það er að segja að hætta að reyna að réttlæta okkur fyrir Guði í þeim tilgangi að öðlast hjálpræði. Þess í stað ættum við að trúa og treysta að hjálpræði okkar sé háð lausnarfórn Jesú Krists, en það er fyrir tilstilli hans sem allir hlutir verða samstilltir tilgangi Guðs á nýjan leik. — Efesusbréfið 1:8-14; Kólossubréfið 1:19, 20.

Orð Guðs er kröftugt

17. Hvaða stefnu Ísraelsmanna að holdinu verðum við að forðast?

17 Ísraelsmenn fengu ekki að ganga inn til hinnar fyrirheitnu hvíldar Guðs vegna óhlýðni sinnar og vantrúar. Þar af leiðandi hvatti Páll kristna Hebrea: „Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.“ (Hebreabréfið 4:11) Upp til hópa trúðu Gyðingar á fyrstu öld ekki á Jesú, og það kom hart niður á mörgum þeirra þegar gyðingakerfið leið undir lok árið 70. Það er því afar mikilvægt að hafa trú á fyrirheit Guðs nú á tímum!

18. (a) Hvaða ástæður tiltók Páll fyrir því að iðka trú á orð Guðs? (b) Hvernig er orð Guðs „beittara hverju tvíeggjuðu sverði“?

18 Við höfum gildar ástæður til að iðka trú á orð Jehóva. Páll skrifaði: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Já, orð Guðs eða boðskapur er „beittara hverju tvíeggjuðu sverði.“ Kristnir Hebrear þurftu að hafa hugfast hvernig fór fyrir forfeðrum þeirra. Þeir virtu að vettugi dóm Jehóva að þeir myndu farast í eyðimörkinni og reyndu að komast inn í fyrirheitna landið. En Móse varaði þá við: „Amalekítar og Kanaanítar eru þar fyrir yður, og þér munuð falla fyrir sverði.“ Þegar Ísraelsmenn héldu þrjóskufullir áfram „komu Amalekítar og Kanaanítar, er á fjalli þessu bjuggu, ofan, unnu sigur á þeim og tvístruðu þeim alla leið til Horma.“ (4. Mósebók 14:39-45) Orð Jehóva er beittara hverju tvíeggjuðu sverði, og hver sem hunsar það viljandi þarf óhjákvæmilega að taka afleiðingunum. — Galatabréfið 6:7-9.

19. Hversu langt „smýgur“ orð Guðs og af hverju ættum við að viðurkenna ábyrgð okkar gagnvart honum?

19 Já, orð Guðs smýgur með krafti „inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar“! Það þrengir sér gegnum hugsanir og hvatir manna og stingst í táknrænni merkingu rakleiðis inn í merg í miðjum beinunum. Enda þótt Ísraelsmenn, sem höfðu verið frelsaðir úr þrælkun í Egyptalandi, hefðu samþykkt að halda lögmálið vissi Jehóva að innst inni kunnu þeir ekki að meta ráðstafanir hans og kröfur. (Sálmur 95:7-11) Í stað þess að gera vilja hans hugsuðu þeir mest um að fullnægja löngunum holdsins. Þess vegna gengu þeir ekki inn til hinnar fyrirheitnu hvíldar Guðs heldur fórust í eyðimörkinni. Við þurfum að taka það til okkar því að „enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ (Hebreabréfið 4:13) Megum við þess vegna halda vígsluheit okkar við Jehóva og ekki ‚skjóta okkur undan og glatast.‘ — Hebreabréfið 10:39.

20. Hvað er framundan og hvað verðum við að gera núna til að ganga inn til hvíldar Guðs?

20 Enda þótt ‚hinn sjöundi dagur‘ — hvíldardagur Guðs — standi enn er Guð vakandi fyrir framvindu tilgangs síns með jörðina og mannkynið. Mjög bráðlega lætur Messíasarkonungurinn, Jesús Kristur, til sín taka og losar jörðina við alla andstæðinga vilja Guðs, þeirra á meðal Satan djöfulinn. Undir þúsund ára stjórn Jesú og 144.000 meðstjórnenda hans verður jörðinni og mannkyninu komið í það ástand sem Guð ætlaði sér. (Opinberunarbókin 14:1; 20:1-6) Nú er rétti tíminn fyrir okkur til að sanna að vilji Jehóva Guðs sé þungamiðjan í lífi okkar. Í stað þess að reyna að réttlæta okkur fyrir Guði og sinna eigin hugðarefnum er rétti tíminn til að ‚hvílast frá verkum okkar‘ og þjóna hag Guðsríkis af öllu hjarta. Ef við gerum það og erum trúföst Jehóva, föður okkar á himnum, njótum við góðs af hvíld hans nú og að eilífu.

Geturðu svarað?

◻ Í hvaða tilgangi hvíldist Guð „hinn sjöunda dag“?

◻ Hvaða hvíldar hefðu Ísraelsmenn getað notið en af hverju fengu þeir það ekki?

◻ Hvað verðum við að gera til að ganga inn til hvíldar Guðs?

◻ Hvernig er orð Guðs lifandi, kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði?

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Ísraelsmenn héldu hvíldardaginn en fengu ekki að ganga inn til hvíldar Guðs. Veistu ástæðuna?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila