Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.12. bls. 8-12
  • Kristnir vottar sem eiga föðurland á himni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kristnir vottar sem eiga föðurland á himni
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Endurfæddir‘
  • Börn Guðs
  • „Ísrael Guðs“
  • Nýr sáttmáli
  • „Nýja Jerúsalem“
  • Jehóva leiðir marga syni til dýrðar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • „Ísrael Guðs“ og ‚múgurinn mikli‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Að safna því sem er á himni og því sem er á jörð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Hefur þú fengið „anda sannleikans“?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.12. bls. 8-12

Kristnir vottar sem eiga föðurland á himni

„Föðurland vort er á himni.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 3:20.

1. Hvaða stórkostlegan tilgang hefur Jehóva með suma menn?

SUMIR, sem fæddir eru menn, eiga eftir að ríkja sem konungar og prestar á himnum, jafnvel yfir englum. (1. Korintubréf 6:2, 3; Opinberunarbókin 20:6) Þetta er stórkostlegur sannleikur. En þetta er eigi að síður tilgangur Jehóva og hann kemur honum í kring fyrir atbeina eingetins sonar síns, Jesú Krists. Af hverju gerir skaparinn þetta? Og hvaða áhrif ætti þessi vitneskja að hafa á kristna menn nú á tímum? Við skulum leita svara Biblíunnar við því.

2. Hvað nýtt átti Jesús að gera samkvæmt orðum Jóhannesar skírara og hverju átti það að tengjast?

2 Þegar Jóhannes skírari undirbjó veginn fyrir Jesú tilkynnti hann að Jesús myndi gera eitthvað nýtt. Frásagan segir: „[Jóhannes] prédikaði svo: ‚Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans. Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda.‘“ (Markús 1:7, 8) Fram til þess tíma hafði enginn skírst með heilögum anda. Þetta var nýtt fyrirkomulag í sambandi við heilagan anda og það tengdist þeim tilgangi Jehóva, sem hann opinberaði skömmu síðar, að búa menn undir að stjórna á himnum.

‚Endurfæddir‘

3. Hvaða nýmæli í sambandi við himnaríkið útskýrði Jesús fyrir Nikódemusi?

3 Á leynilegum fundi með þekktum farísea gaf Jesús nánari upplýsingar um þennan tilgang Guðs. Jesús sagði við faríseann Nikódemus sem kom til hans að næturlagi: „Enginn getur séð guðsríki, nema hann endurfæðist.“ (Jóhannes 3:3, Biblían 1912) Sem farísei hlaut Nikódemus að hafa kynnt sér Hebresku ritningarnar og hann vissi því eitthvað um hinn stórfenglega sannleika um ríki Guðs. Daníelsbók spáði því að ríkið yrði gefið ‚einhverjum sem mannsyni líktist‘ og „heilögum lýð Hins hæsta.“ (Daníel 7:13, 14, 27) Ríkið átti að „knosa og að engu gjöra“ öll hin ríkin og standa svo að eilífu. (Daníel 2:44) Trúlega hélt Nikódemus að þessir spádómar ættu að rætast á Gyðingaþjóðinni, en Jesús sagði að menn yrðu að endurfæðast til að sjá Guðsríki. Nikódemus skildi það ekki, þannig að Jesús hélt áfram: „Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.“ — Jóhannes 3:5.

4. Hvernig myndi samband manna við Jehóva breytast er þeir fæddust af heilögum anda?

4 Jóhannes skírari hafði talað um skírn með heilögum anda. Nú bætir Jesús við að nauðsynlegt sé að fæðast af heilögum anda til að fá inngöngu í ríki Guðs. Með þessari einstöku fæðingu eignast ófullkomnir karlar og konur mjög sérstakt samband við Jehóva Guð. Þau verða kjörbörn hans. Við lesum: „Öllum þeim, sem tóku við [Jesú], gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans. Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.“ — Jóhannes 1:12, 13; Rómverjabréfið 8:15.

Börn Guðs

5. Hvenær voru hinir trúföstu lærisveinar skírðir með heilögum anda og hvað annað gerðist af völdum heilags anda á sama tíma?

5 Heilagur andi var þegar kominn yfir Jesú er hann talaði við Nikódemus og hafði smurt hann til að gegna konungdómi í Guðsríki framtíðarinnar, og Guð hafði opinberlega viðurkennt hann sem son sinn. (Matteus 3:16, 17) Jehóva gat fleiri andleg börn á hvítasunnunni árið 33. Trúfastir lærisveinar voru samankomnir í loftstofu í Jerúsalem þar sem þeir skírðust með heilögum anda. Um leið voru þeir endurfæddir af heilögum anda sem andlegir synir Guðs. (Postulasagan 2:2-4, 38; Rómverjabréfið 8:15) Enn fremur voru þeir smurðir með heilögum anda til að öðlast himneska arfleifð í framtíðinni, og þeir fengu byrjunarinnsigli heilags anda sem pant eða til merkis um að þessi himneska von væri örugg. — 2. Korintubréf 1:21, 22.

6. Hver er tilgangur Jehóva í sambandi við himnaríkið og hvers vegna er viðeigandi að menn eigi hlutdeild í því?

6 Þetta voru fyrstu ófullkomnu mennirnir sem Guð útvaldi til að fá inngöngu í ríkið. Eftir dauða sinn og upprisu yrðu þeir með öðrum orðum hluti af himnesku stjórnarfyrirkomulagi Guðs yfir mönnum og englum. Það er tilgangur Jehóva að með þessu ríki verði hið mikla nafn hans helgað og drottinvald hans upphafið frammi fyrir allri sköpuninni. (Matteus 6:9, 10; Jóhannes 12:28) Það er sannarlega viðeigandi að menn skuli eiga aðild að þessu ríki! Satan notaði menn er hann ögraði drottinvaldi Jehóva fyrst í Edengarðinum, og núna ætlar Jehóva að nota menn er hann svarar þessari ögrun. (1. Mósebók 3:1-6; Jóhannes 8:44) Pétur postuli skrifaði mönnum sem voru útvaldir til að stjórna í þessu ríki: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum, til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.“ — 1. Pétursbréf 1:3, 4.

7. Hvaða einstakt samband eiga þeir sem skírast með heilögum anda við Jesú?

7 Sem kjörsynir Guðs urðu þessir útvöldu kristnu menn bræður Jesú Krists. (Rómverjabréfið 8:16, 17; 9:4, 26; Hebreabréfið 2:11) Þar eð Jesús reyndist vera sæðið eða afkvæmið, sem Abraham var heitið, eru þessir andagetnu kristnu menn viðbótarhluti þessa sæðis sem veita átti trúuðu mannkyni blessun. (1. Mósebók 22:17, 18; Galatabréfið 3:16, 26, 29) Hvaða blessun? Það tækifæri að verða leystir frá synd og sættast við Guð og þjóna honum núna og um eilífð. (Matteus 4:23; 20:28; Jóhannes 3:16, 36; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Smurðir kristnir menn á jörð vísa réttsinnuðu fólki á þessa blessun með því að bera vitni um andlegan bróður sinn, Jesú Krist, og kjörföður sinn, Jehóva Guð. — Postulasagan 1:8; Hebreabréfið 13:15.

8. Hver er ‚opinberun‘ andagetinna sona Guðs?

8 Biblían talar um ‚opinberun‘ þessara andagetnu sona Guðs. (Rómverjabréfið 8:19) Með því að ganga inn í Guðsríki sem meðkonungar Jesú eiga þeir hlutdeild í því að eyða heimskerfi Satans. Síðan, um þúsund ár, taka þeir þátt í að miðla mannkyninu gagninu af lausnarfórninni og lyfta því þannig upp til fullkomleikans sem Adam glataði. (2. Þessaloníkubréf 1:8-10; Opinberunarbókin 2:26, 27; 20:6; 22:1, 2) Opinberun þeirra felur allt þetta í sér. Trúaðir menn, sköpunin, þrá þessa opinberun heitt.

9. Hvað kallar Biblían hóp smurðra kristinna manna um heim allan?

9 Sem hópur eru smurðir kristnir menn um heim allan ‚söfnuður frumgetinna sem á himnum eru skráðir.‘ (Hebreabréfið 12:23) Þeir eru fyrstir til að njóta góðs af lausnarfórn Jesú. Þeir eru líka „líkami Krists“ sem sýnir náið samband þeirra hver við annan og við Jesú. (1. Korintubréf 12:27) Páll skrifaði: „Eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.“ — 1. Korintubréf 12:12, 13; Rómverjabréfið 12:5; Efesusbréfið 1:22, 23; 3:6.

„Ísrael Guðs“

10, 11. Hvers vegna var þörf á nýjum Ísrael á fyrstu öldinni og hverjir mynduðu þessa nýju þjóð?

10 Í meira en 1500 ár áður en Jesús kom sem hinn fyrirheitni Messías voru Ísraelsmenn að holdinu útvalin þjóð Jehóva. Þrátt fyrir stöðugar áminningar reyndist þjóðin sem heild ótrú. Er Jesús kom fram hafnaði þjóðin honum. (Jóhannes 1:11) Jesús sagði því trúarleiðtogum Gyðinga: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ (Matteus 21:43) Til að öðlast hjálpræði er nauðsynlegt að bera kennsl á þessa „þjóð, sem ber ávexti“ Guðsríkis.

11 Þessi nýja þjóð er hinn smurði kristni söfnuður sem fæddist á hvítasunnunni árið 33. Fyrsti hluti hennar voru þeir Gyðingar, lærisveinar Jesú, er tóku við honum sem himneskum konungi. (Postulasagan 2:5, 32-36) Þeir tilheyrðu nýrri þjóð Guðs, ekki sökum gyðinglegs uppruna síns heldur vegna trúar á Jesú. Þessi nýi Ísrael Guðs var því einstæður — hann var andleg þjóð. Er meirihluti Gyðinga hafnaði Jesú var fyrst Samverjum og síðan heiðingjum boðið að verða hluti nýju þjóðarinnar. Nýja þjóðin var kölluð „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16.

12, 13. Hvernig varð ljóst að hinn nýi Ísrael var ekki bara sértrúarflokkur innan Gyðingdómsins?

12 Þegar menn af þjóðunum tóku Gyðingatrú til forna urðu þeir að gangast undir Móselögin og karlmenn urðu að gefa tákn um það með því að láta umskerast. (2. Mósebók 12:48, 49) Sumum kristnum Gyðingum fannst hið sama eiga að gilda um menn af þjóðunum í Ísrael Guðs. En Jehóva hafði annað í huga. Heilagur andi vísaði Pétri postula heim til Kornelíusar sem ekki var Gyðingur. Er Kornelíus og heimamenn hans tóku við prédikun Péturs fengu þeir heilagan anda — meira að segja áður en þeir skírðust niðurdýfingarskírn. Það sýndi greinilega að Jehóva hafði veitt þessu fólki af þjóðunum inngöngu í Ísrael Guðs án þess að krefjast þess að það gengist undir Móselögin. — Postulasagan 10:21-48.

13 Sumir hinna trúuðu áttu erfitt með að sætta sig við þetta og innan tíðar þurftu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem að fjalla um málið í heild. Þetta mynduga ráð hlýddi á vitnisburð um það hvernig heilagur andi hefði starfað meðal trúaðra manna sem ekki voru Gyðingar. Biblíurannsóknir sýndu að það var uppfylling innblásins spádóms. (Jesaja 55:5; Amos 9:11, 12) Ráðið komst að réttri niðurstöðu: Kristnir menn, sem ekki voru Gyðingar, þurftu ekki að gangast undir Móselögmálið. (Postulasagan 15:1, 6-29) Hinn andlegi Ísrael var því sannarlega ný þjóð, ekki bara sértrúarflokkur innan Gyðingdómsins.

14. Hvað gefur Jakob til kynna er hann kallar kristna söfnuðinn ‚hinar tólf kynkvíslir í dreifingunni‘?

14 Í samræmi við það ávarpaði lærisveinninn Jakob ‚hinar tólf kynkvíslir í dreifingunni‘ er hann skrifaði smurðum kristnum mönnum bréf sitt á fyrstu öld. (Jakobsbréfið 1:1; Opinberunarbókin 7:3-8) Þegnar hins nýja Ísraels tilheyrðu auðvitað ekki sérstökum ættkvíslum. Hinum andlega Ísrael var ekki skipt í 12 aðgreindar ættkvíslir eins og Ísrael að holdinu. Engu að síður gefa innblásin orð Jakobs til kynna að í augum Jehóva væri Ísrael Guðs kominn algerlega í stað hinna 12 ættkvísla Ísraels að holdinu. Ef innfæddur Ísraelsmaður varð hluti hinnar nýju þjóðar skipti holdlegt ætterni hans engu máli — jafnvel þótt hann væri af Júda- eða Levíættkvísl. — Galatabréfið 3:28; Filippíbréfið 3:5, 6.

Nýr sáttmáli

15, 16. (a) Hvernig lítur Jehóva á þá sem tilheyra Ísrael Guðs en eru ekki Gyðingar? (b) Á hvaða lagagrunni var hinn nýi Ísrael stofnsettur?

15 Í augum Jehóva eru allir þegnar þessarar nýju þjóðar fullgildir andlegir Gyðingar, þótt þeir séu ekki Gyðingar að uppruna. Páll postuli útskýrði: „Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu. En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði.“ (Rómverjabréfið 2:28, 29) Margir menn af þjóðunum þáðu boðið að verða hluti af Ísrael Guðs og sú framvinda uppfyllti biblíuspádóma. Til dæmis skrifaði spámaðurinn Hósea: „Ég vil . . . auðsýna Náðvana náð og segja við Ekki-minn-lýð: ‚Þú ert minn lýður!‘ og hann mun segja: ‚Guð minn!‘“ — Hósea 2:23; Rómverjabréfið 11:25, 26.

16 En á hvaða grundvelli tilheyrðu hinir andlegu Ísraelsmenn nýju þjóðinni fyrst þeir voru ekki undir lagasáttmála Móse? Jehóva gerði nýjan sáttmála við þessa andlegu þjóð fyrir milligöngu Jesú. (Hebreabréfið 9:15) Er Jesús kom minningarhátíðinni um dauða sinn á hinn 14. nísan árið 33, lét hann brauð og vín ganga milli hinna 11 trúföstu postula og sagði að vínið táknaði „blóð sáttmálans.“ (Matteus 26:28; Jeremía 31:31-34) Samkvæmt frásögn Lúkasar sagði Jesús að vínbikarinn táknaði ‚hinn nýja sáttmála.‘ (Lúkas 22:20) Til uppfyllingar orðum Jesú var Guðsríki tekið frá Ísrael að holdinu og gefið hinni nýju andlegu þjóð er heilögum anda var úthellt á hvítasunnunni og Ísrael Guðs fæddist. Þessi nýja þjóð votta Jehóva var nú þjónn hans í stað Ísraels að holdinu. — Jesaja 43:10, 11.

„Nýja Jerúsalem“

17, 18. Hvaða lýsingar eru í Opinberunarbókinni á vegsemdinni sem bíður smurðra kristinna manna?

17 Hvílík vegsemd bíður þeirra sem hljóta þau sérréttindi að fá himneska köllun! Og hversu gleðilegt er ekki að fræðast um þau undur og stórmerki sem bíða þeirra! Opinberunarbókin veitir okkur hrífandi innsýn í himneska arfleifð þeirra. Til dæmis lesum við í Opinberunarbókinni 4:4: „Umhverfis hásætið [hásæti Jehóva] voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.“ Þessir 24 öldungar eru smurðir kristnir menn upprisnir, í þeirri himnesku stöðu sem Jehóva hét þeim. Kórónur þeirra og hásæti minna okkur á konungstign þeirra. Hugsaðu líka um hin óumræðilegu sérréttindi þeirra að þjóna við hásæti Jehóva!

18 Í Opinberunarbókinni 14:1 sjáum við þá í annarri sýn: „Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.“ Hér sjáum við að þessir smurðu er takmarkaður hópur — 144.000. Konungleg staða þeirra sést á því að þeir standa með krýndum konungi Jehóva, ‚lambinu‘ Jesú. Og þeir eru á hinu himneska Síonfjalli. Jerúsalem, konungssetur Ísraels, stóð á hinu jarðneska Síonfjalli. Síonfjall á himnum táknar háa stöðu Jesú og samerfingja hans sem mynda hina himnesku Jerúsalem. — 2. Kroníkubók 5:2; Sálmur 2:6.

19, 20. (a) Hvaða himnesku skipulagi verða smurðir kristnir menn hluti af? (b) Á hvaða tímabili útvaldi Jehóva þá sem myndu eiga föðurland á himni?

19 Í samræmi við það er einnig talað um hina smurðu í himneskri dýrð sinni sem „nýja Jerúsalem.“ (Opinberunarbókin 21:2) Jerúsalem á jörð var „borg hins mikla konungs“ og þar stóð líka musterið. (Matteus 5:35) Hin himneska nýja Jerúsalem er hið konunglega Guðsríki sem er núna stjórntæki alvaldsins mikla, Jehóva, og skipaðs konungs hans, Jesú, og þar er veitt prestsþjónusta þannig að ríkuleg blessun streymir frá hásæti Jehóva til lækningar mannkyni. (Opinberunarbókin 21:10, 11; 22:1-5) Í annarri sýn heyrir Jóhannes trúfasta, upprisna, smurða kristna menn kallaða ‚brúður lambsins.‘ Það er sannarlega hlýleg mynd sem hér er dregin upp af nánu sambandi þeirra við Jesú og fúsa undirgefni við hann! Sjáðu fyrir þér gleðina á himnum er sá síðasti þeirra hlýtur himnesk laun sín. Loksins getur ‚brúðkaup lambsins‘ farið fram. Hið konunglega, himneska skipulag verður þá fullkomið. — Opinberunarbókin 19:6-8.

20 Já, þeir sem Páll postuli sagði eiga ‚föðurland á himni‘ eiga stórkostlega blessun í vændum. (Filippíbréfið 3:20) Í næstum 2000 ár hefur Jehóva verið að velja andleg börn sín og búa þau undir himneska arfleifð. Öll rök hníga að því að þessari útvalningu og undirbúningi sé nánast lokið. En meira var í vændum eins og Jóhannesi var opinberað í 7. kafla Opinberunarbókarinnar. Núna vekur því annar hópur kristinna manna athygli okkar. Um hann er fjallað í næstu grein.

Manstu?

◻ Hvað gerir heilagur andi við þá sem eiga himneska arfleifð?

◻ Hvaða náið samband eiga hinir smurðu við Jehóva? Við Jesú?

◻ Hvernig er söfnuði smurðra kristinna manna lýst í Biblíunni?

◻ Á hvaða lagagrunni var Ísrael Guðs byggður?

◻ Hvaða himnesk sérréttindi bíða smurðra kristinna manna?

[Mynd á blaðsíðu 9]

Á næstum tvö þúsund ára tímabili útvaldi Jehóva þá sem áttu að stjórna í ríkinu á himnum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila