Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.2. bls. 28-32
  • „Fyrirgefið hver öðrum“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Fyrirgefið hver öðrum“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna að fyrirgefa öðrum?
  • „Umberið hver annan“
  • Þegar sárin eru dýpri
  • Þegar fyrirgefning virðist óhugsandi
  • Fyrirgefið hvert öðru fúslega
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Hvað er fyrirgefning?
    Biblíuspurningar og svör
  • Fyrirgefðu af hjarta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Fyrirgefur þú eins og Jehóva gerir?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.2. bls. 28-32

„Fyrirgefið hver öðrum“

„Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:13.

1. (a) Af hverju hélt Pétur kannski að hann væri rausnarlegur þegar hann stakk upp á að fyrirgefa „svo sem sjö sinnum“? (b) Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að við ættum að fyrirgefa „sjötíu og sjö sinnum“?

„HERRA, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ (Matteus 18:21) Pétri fannst hann kannski vera býsna rausnarlegur með þessari uppástungu. Samkvæmt rabbínskri hefð átti maður ekki að fyrirgefa sama brot oftar en þrisvar.a Við getum því ímyndað okkur undrun Péturs þegar Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu og sjö sinnum.“ (Matteus 18:22, neðanmáls) Að tvítaka töluna sjö jafngilti því að segja „endalaust.“ Jesús áleit að ekki ætti að setja því nein takmörk hve oft kristinn maður ætti að fyrirgefa.

2, 3. (a) Lýstu nokkrum aðstæðum þar sem erfitt gæti virst að fyrirgefa öðrum. (b) Hvers vegna getum við treyst því að það sé okkur fyrir bestu að fyrirgefa öðrum?

2 En það er ekki alltaf auðvelt að fara eftir þessu ráði. Hver þekkir ekki sviðann sem fylgir ósanngirni eða móðgun? Kannski brást einhver, sem þú treystir, trúnaði þínum. (Orðskviðirnir 11:13) Hugsunarlaus orð náins vinar hafa kannski ‚stungið þig eins og spjót.‘ (Orðskviðirnir 12:18) Ill framkoma ástvinar eða einhvers sem þú treystir hefur kannski sært þig djúpt. Þegar slíkt gerist er eðlilegt að reiðast. Kannski viltu helst hætta að tala við þann sem gerði á hlut þinn og sniðganga hann algerlega ef hægt er. Með því að fyrirgefa honum gæti svo virst sem þú gæfir honum færi á að komast upp með að særa þig. En með því að ala með okkur gremju erum við aðeins að vinna sjálfum okkur tjón.

3 Jesús kennir okkur því að fyrirgefa — allt að „sjötíu og sjö sinnum.“ Kenning hans getur aldrei verið okkur til ills. Allt sem hann kenndi kom frá Jehóva, honum ‚sem kennir okkur að gera það sem okkur er gagnlegt.‘ (Jesaja 48:17; Jóhannes 7:16, 17) Það er því rökrétt að það sé okkur fyrir bestu að fyrirgefa öðrum. Áður en við ræðum um ástæðurnar fyrir því að við eigum að fyrirgefa og hvernig við getum það er gott að skýra hvað fyrirgefning er og hvað hún er ekki. Hugmyndir okkar um fyrirgefningu geta haft einhver áhrif á hæfni okkar til að fyrirgefa þegar aðrir gera á hlut okkar.

4. Hvað er ekki fólgið í því að fyrirgefa öðrum en hvernig er fyrirgefning skilgreind?

4 Þótt við fyrirgefum öðrum sem gera á hlut okkar erum við ekki að gera lítið úr því eða leyfa öðrum að misnota okkur. Þegar allt kemur til alls er Jehóva ekki að gera lítið úr syndum okkar þegar hann fyrirgefur okkur og hann leyfir syndugum mönnum aldrei að traðka á miskunn sinni. (Hebreabréfið 10:29) Samkvæmt Innsýn í Ritninguna er fyrirgefning skilgreind sem „það að gefa brotlegum upp sakir, hætta að finna til gremju í hans garð vegna brots hans og afsala sér öllum bótakröfum.“ (1. bindi, bls. 861)b Biblían bendir á góðar ástæður fyrir því að fyrirgefa öðrum.

Hvers vegna að fyrirgefa öðrum?

5. Hvaða mikilvæg ástæða til að fyrirgefa öðrum er tilgreind í Efesusbréfinu 5:1?

5 Efesusbréfið 5:1 tilgreinir mikilvæga ástæðu fyrir því að fyrirgefa öðrum: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ Að hvaða leyti ættum við að ‚verða eftirbreytendur Guðs‘? Orðið „því“ tengir hvatninguna versinu á undan sem segir: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ (Efesusbréfið 4:32) Já, við ættum að líkja eftir Guði í sambandi við fyrirgefningu. Lítill drengur reynir að líkjast pabba sínum. Faðir okkar á himnum elskar okkur innilega og fyrirgefur fúslega, og okkur ætti að langa til að líkjast honum. Það hlýtur að gleðja hjarta Jehóva að horfa niður af himni og sjá jarðnesk börn sín reyna að líkjast sér með því að fyrirgefa hvert öðru. — Lúkas 6:35, 36; samanber Matteus 5:44-48.

6. Hvaða reginmunur er á fyrirgefningu Jehóva og okkar?

6 Við getum auðvitað aldrei fyrirgefið í jafnfullkomnum skilningi og Jehóva. En það er enn ríkari ástæða til þess að við ættum að fyrirgefa hvert öðru. Hugsaðu um þetta: Það er gríðarlegur munur á fyrirgefningu Jehóva og okkar. (Jesaja 55:7-9) Þegar við fyrirgefum þeim sem hafa syndgað gegn okkur er það oft með þeirri vitund að fyrr eða síðar höfum við þörf á að þeir endurgjaldi greiðann með því að fyrirgefa okkur. Meðal manna eru það alltaf syndarar sem eru að fyrirgefa syndurum. Hjá Jehóva er fyrirgefningin hins vegar alltaf einhliða. Hann fyrirgefur okkur en við þurfum aldrei að fyrirgefa honum. Ef Jehóva, sem syndgar ekki, getur fyrirgefið okkur á svo kærleiksríkan hátt og svo algerlega, ættum við syndugir menn þá ekki að reyna að fyrirgefa hver öðrum? — Matteus 6:12.

7. Hvernig getur það haft skaðleg áhrif á samband okkar við Jehóva ef við neitum að fyrirgefa öðrum þegar tilefni er til miskunnar?

7 Enn þýðingarmeira er að ef við neitum að fyrirgefa öðrum þegar ástæða er til að sýna miskunn getur það haft skaðleg áhrif á samband okkar við Guð. Jehóva er ekki bara að biðja okkur að fyrirgefa hvert öðru heldur ætlast til þess. Að sögn Ritningarinnar er hvötin að baki fyrirgefningarvilja okkar að hluta til sú að Jehóva hefur fyrirgefið okkur eða við viljum að hann geri það. (Matteus 6:14; Markús 11:25; Efesusbréfið 4:32; 1. Jóhannesarbréf 4:11) Ef við erum ófús til að fyrirgefa öðrum þegar það eru góðar ástæður til að fyrirgefa, getum við þá ætlast til slíkrar fyrirgefningar hjá Jehóva? — Matteus 18:21-35.

8. Af hverju er það okkur fyrir bestu að vera fús til að fyrirgefa?

8 Jehóva kennir þjónum sínum „þann góða veg, sem þeir eiga að ganga.“ (1. Konungabók 8:36) Þegar hann segir okkur að fyrirgefa hver öðrum getum við treyst að hann beri hag okkar fyrir bjósti. Það er ærin ástæða fyrir því að Biblían skuli segja okkur að ‚lofa hinni refsandi reiði Guðs að komast að‘ í stað okkar. (Rómverjabréfið 12:19) Gremja er þung byrði að burðast með. Þegar við ölum með okkur gremju hertekur hún huga okkar, rænir okkur friði og spillir gleði okkar. Langvinn reiði getur verið skaðleg líkamsheilsunni líkt og afbrýði. (Orðskviðirnir 14:30) Og meðan á öllu þessu gengur hefur sá sem gerði á hlut okkar kannski enga hugmynd um ólguna innra með okkur. Kærleiksríkur skapari okkar veit að við þurfum að fyrirgefa öðrum opinskátt, ekki bara þeirra vegna heldur líka sjálfra okkar vegna. Ráð Biblíunnar um að fyrirgefa er sannarlega ‚góður vegur að ganga.‘

„Umberið hver annan“

9, 10. (a) Hvers konar aðstæður útheimta ekki endilega formlega fyrirgefningu? (b) Hvað er gefið í skyn með orðunum „umberið hver annan“?

9 Líkamleg meiðsli geta verið allt frá smáskeinum upp í holsár og misjafnt hve mikið þarf að gera að þeim. Það er eins með særðar tilfinningar — sárin eru misdjúp. Er virkilega ástæða til að gera mál úr hverri einustu skeinu sem við fáum í samskiptum við aðra? Smávægilegur pirringur, lítilsvirðing og leiðindi eru hluti af lífinu og kalla ekki á formlega fyrirgefningu. Ef við erum þekkt fyrir að sniðganga aðra vegna minnstu vonbrigða og heimta að þeir biðjist afsökunar áður en við komum aftur kurteislega fram við þá, neyðum við þá kannski til að læðast með veggjum þegar við erum nærri eða að halda sér í hæfilegri fjarlægð.

10 Það er miklu betra að ‚vera álitinn sanngjarn.‘ (Filippíbréfið 4:5, Phillips) Við erum ófullkomnir menn og erum að vinna með ófullkomnum mönnum og það er eðlilegt að bræður okkar fari stundum í taugarnar á okkur og við í taugarnar á þeim. Kólossubréfið 3:13 ráðleggur: „Umberið hver annan.“ Þessi orð eru hvatning til að vera þolinmóð við aðra, sætta sig við það sem okkur geðjast ekki að í fari þeirra eða þá eiginleika sem fara kannski í taugarnar á okkur. Slík þolinmæði og sjálfstjórn getur hjálpað okkur að taka þeim smávægilegu skrámum og hruflum sem við fáum í samskiptum við aðra — án þess að raska friði safnaðarins. — 1. Korintubréf 16:14.

Þegar sárin eru dýpri

11. Hvað getur hjálpað okkur að fyrirgefa öðrum þegar þeir syndga gegn okkur?

11 En hvað nú ef aðrir syndga gegn okkur og skilja eftir sig merkjanlegt sár? Ef syndin er ekki þeim mun alvarlegri er sennilega ekki erfitt að fara eftir þeirri ráðleggingu Biblíunnar að vera ‚fús til að fyrirgefa hver öðrum.‘ (Efesusbréfið 4:32) Slíkur fyrirgefningarvilji er í samræmi við innblásin orð Péturs: „Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.“ (1. Pétursbréf 4:8) Ef við höfum í huga að við erum líka syndarar gerir það okkur kleift að umbera syndir annarra. Þegar við fyrirgefum hættum við að vera gröm í stað þess að ala á gremjunni. Af því leiðir að samband okkar við þann sem gerði á hlut okkar spillist ekki varanlega og við stuðlum líka að því að varðveita dýrmætan frið safnaðarins. (Rómverjabréfið 14:19) Með tíð og tíma gleymist kannski það sem hann gerði á hlut okkar.

12. (a) Hvaða frumkvæði gætum við þurft að taka til að fyrirgefa einhverjum sem hefur sært okkur djúpt? (b) Hvernig gefur Efesusbréfið 4:26 til kynna að við ættum að útkljá málin fljótt?

12 En hvað nú ef einhver syndgar alvarlega gegn okkur og særir okkur djúpt? Segjum sem svo að vinur, sem þú treystir, hafi ljóstrað upp einhverju mjög persónulegu leyndarmáli sem þú trúðir honum fyrir. Þú ert mjög særður, ferð hjá þér og finnst þú svikinn. Þú hefur reynt að láta sem ekkert sé en allt kemur fyrir ekki. Í slíku tilviki gætirðu þurft að eiga frumkvæðið að því að útkljá málið, kannski með því að tala við þann sem gerði á hlut þinn. Það er viturlegt að gera það áður en sárið nær að grafa um sig. Páll hvetur okkur: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ (Efesusbréfið 4:26) Það gefur orðum Páls aukinn áhersluþunga að hjá Gyðingum lauk degi og nýr gekk í garð við sólsetur. Ráðleggingin er því sú að útkljá málið fljótt! — Matteus 5:23, 24.

13. Hvaða markmið ættum við að hafa með því að tala við þann sem hefur gert á hlut okkar, og hvað getur hjálpað okkur að ná því?

13 Hvernig ættirðu að nálgast þann sem gerði á hlut þinn? ‚Ástundið frið og keppið eftir honum,‘ segir 1. Pétursbréf 3:11. Markmið þitt er því ekki það að láta reiði þína í ljós heldur að koma á friði ykkar í milli. Það er því best að forðast hranaleg orð og látbragð sem gæti kallað fram áþekk viðbrögð frá hinum. (Orðskviðirnir 15:18; 29:11) Auk þess skaltu forðast ýkjukenndar yfirlýsingar svo sem: „Þú ert alltaf að . . . !“ eða: „Þú getur aldrei . . . !“ Ýkjukenndar athugasemdir af þessu tagi eru aðeins til þess fallnar að setja hann í varnarstöðu. Láttu raddblæ þinn og svipbrigði segja að þú viljir útkljá þetta mál sem hefur sært þig svo djúpt. Útskýrðu nákvæmlega hvað þér finnst um það sem gerst hefur. Gefðu hinum tækifæri til að skýra gerðir sínar. Hlustaðu á það sem hann segir. (Jakobsbréfið 1:19) Hvaða gagn er í því? Orðskviðirnir 19:11 segja: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.“ Með því að skilja tilfinningar hins og ástæðurnar fyrir því sem hann gerði geturðu hugsanlega hrakið brott neikvæðar hugsanir og tilfinningar í hans garð. Þegar við ræðum málið með það að markmiði að koma á friði og varðveita hann eru langmestar líkur á að hægt sé að greiða úr misskilningi, biðjast afsökunar eftir því sem við á og fyrirgefa.

14. Í hvaða skilningi ættum við að gleyma þegar við fyrirgefum öðrum?

14 Felur fyrirgefning í sér að við verðum hreinlega að gleyma því sem gerðist? Rifjaðu upp fyrir þér fordæmi Jehóva sjálfs sem fjallað var um í greininni á undan. Þegar Biblían segir að Jehóva gleymi syndum okkar merkir það ekki að hann geti alls ekki munað eftir þeim. (Jesaja 43:25) Hann gleymir í þeim skilningi að hann er ekki einhvern tíma síðar að núa okkur um nasir þeim syndum sem við drýgðum en hann hefur fyrirgefið. (Esekíel 33:14-16) Eins er það þegar maður fyrirgefur manni. Það merkir ekki endilega að hann geti ekki munað það sem gert var á hlut hans. Við getum hins vegar gleymt í þeim skilningi að við erfum þetta ekki við hinn brotlega eða vekjum máls á því aftur einhvern tíma síðar. Þegar málið er útkljáð væri óviðeigandi að slúðra um það, og það væri heldur ekki kærleiksríkt að sniðganga hinn brotlega algerlega og koma fram við hann eins og brottrekinn. (Orðskviðirnir 17:9) Að vísu getur það tekið sinn tíma að gróa um heilt milli ykkar og þið eigið kannski ekki jafnnáið samband og áður. Engu að síður lítum við á hann sem kristinn bróður okkar og gerum okkar besta til að eiga friðsamleg samskipti við hann. — Samanber Lúkas 17:3.

Þegar fyrirgefning virðist óhugsandi

15, 16. (a) Er þess krafist að kristnir menn fyrirgefi syndara sem iðrast ekki? (b) Hvernig getum við farið eftir ráðleggingu Biblíunnar í Sálmi 37:8?

15 En hvað nú ef einhver syndgar þannig gegn okkur að hann særir okkur eins djúpu sári og hægt er að hugsa sér, en viðurkennir ekki synd sína, iðrast einskis og biðst ekki afsökunar á nokkurn hátt? (Orðskviðirnir 28:13) Ritningin gefur skýrt til kynna að Jehóva fyrirgefi ekki iðrunarlausum og forhertum syndurum. (Hebreabréfið 6:4-6; 10:26, 27) Hvað um okkur? Biblíuorðabókin Innsýn í Ritninguna segir: „Kristnum mönnum er ekki skylt að fyrirgefa þeim sem ástunda synd af illgirni og ásettu ráði en iðrast einskis. Slíkir menn gera sig að óvinum Guðs.“ (1. bindi, bls. 862) Engum kristnum manni, sem hefur mátt sæta mjög ranglátri, andstyggilegri eða svívirðilegri meðferð, ætti að finnast hann tilneyddur að fyrirgefa iðrunarlausum syndara. — Sálmur 139:21, 22.

16 Það er eðlilegt að vera særður eða reiður ef maður hefur mátt þola miskunnarleysi eða illa framkomu. En mundu að það getur verið ákaflega skaðlegt að ala með sér reiði og gremju. Með því að bíða og bíða eftir játningu eða afsökun sem aldrei kemur er hætta á að reiðin magnist. Ef við erum heltekin af þessu ranglæti er hætt við að reiðin haldi áfram að krauma innra með okkur og hafi stórskaðleg áhrif á andlega, tilfinningalega og líkamlega heilsu okkar. Í reynd erum við þá að leyfa þeim sem særði okkur að halda því áfram. Biblían gefur þessi viturlegu ráð: „Lát af reiði og slepp heiftinni.“ (Sálmur 37:8) Sumir kristnir menn hafa þess vegna komist að raun um að þeir gátu með tíð og tíma fyrirgefið í þeim skilningi að þeir hættu að ala með sér gremju. Þeir voru ekki að afsaka það sem þeim hafði verið gert en þeir vildu ekki láta reiðina gagntaka sig. Það var mikill léttir fyrir þá að geta lagt málið algerlega í hendur hins réttláta Guðs þannig að þeir gætu lifað lífinu áfram án langvinnrar gremju. — Sálmur 37:28.

17. Hvaða hughreysting er fólgin í loforði Jehóva í Opinberunarbókinni 21:4?

17 Ef sárið er mjög djúpt er óvíst að okkur takist, að minnsta kosti í þessu heimskerfi, að þurrka minninguna algerlega út úr huga okkar. En Jehóva heitir nýjum heimi þar sem hann „mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) Hvað svo sem situr eftir í minningunni á þeim tíma veldur það okkur ekki þeim ákafa sársauka eða kvöl sem íþyngir kannski hjarta okkar núna. — Jesaja 65:17, 18.

18. (a) Af hverju er nauðsynlegt að vera fús til að fyrirgefa bræðrum okkar og systrum? (b) Í hvaða skilningi getum við fyrirgefið og gleymt þegar aðrir syndga gegn okkur? (c) Hvernig er það okkur til góðs?

18 Uns það gerist verðum við að lifa og starfa saman sem bræður og systur þótt við séum ófullkomnir, syndugir menn. Við gerum öll mistök. Af og til völdum við hvert öðru vonbrigðum og jafnvel særum hvert annað. Jesús vissi mætavel að við þyrftum að fyrirgefa öðrum „ekki . . . sjö sinnum heldur sjötíu og sjö sinnum“! (Matteus 18:22, neðanmáls) Að vísu getum við ekki fyrirgefið jafnalgerlega og Jehóva. En í flestum tilvikum þegar bræður okkar syndga gegn okkur getum við fyrirgefið í þeim skilningi að við vinnum bug á gremjunni, og getum gleymt í þeim skilningi að við erfum brotið ekki óendanlega við þá. Þegar við fyrirgefum og gleymum stuðlum við bæði að því að varðveita frið safnaðarins og okkar eigin hugarfrið og hjartaró. Umfram allt njótum við þess friðar sem enginn nema ástríkur Guð okkar, Jehóva, getur veitt. — Filippíbréfið 4:7.

[Neðanmáls]

a Samkvæmt Babýlonar-Talmúðinum var ein rabbínahefðin þessi: „Ef maður fremur brot er honum fyrirgefið í fyrsta, annað og þriðja sinn en ekki hið fjórða.“ (Yoma 86b) Þetta byggðist að hluta til á röngum skilningi ritningartexta eins og Amosar 1:3; 2:6 og Jobsbókar 33:29.

b Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Spurningar til upprifjunar

◻ Af hverju ættum við að vera fús til að fyrirgefa öðrum?

◻ Hvers konar aðstæður kalla á að við ‚umberum hver annan‘?

◻ Hvað getum við gert til að útkljá málin friðsamlega þegar syndir annarra hafa sært okkur djúpt?

◻ Í hvaða skilningi ættum við að gleyma þegar við fyrirgefum öðrum?

[Mynd á blaðsíðu 31]

Þótt við ölum með okkur gremju hefur sá sem gerði á hlut okkar kannski enga hugmynd um ólguna innra með okkur.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Oft er auðvelt að eyða misskilningi með því að tala við aðra og friðmælast.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila