Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • pe kafli 17 bls. 142-147
  • Endurkoma Krists – hvernig sést hún?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Endurkoma Krists – hvernig sést hún?
  • Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERS VEGNA HANN GETUR EKKI KOMIÐ AFTUR SEM MAÐUR
  • HOLDSLÍKAMINN FÓR EKKI TIL HIMNA
  • HVERNIG HVERT AUGA MUN SJÁ HANN
  • KEMUR KRISTUR AFTUR TIL JARÐAR?
  • Var Jesús með holdlegan eða andlegan líkama þegar hann var reistur upp?
    Biblíuspurningar og svör
  • Hverjir fara til himna og hvers vegna?
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Nærvera Messíasar og stjórn hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
pe kafli 17 bls. 142-147

17. kafli

Endurkoma Krists – hvernig sést hún?

1. (a) Hvaða fyrirheit gaf Kristur? (b) Hvaða þörf er á endurkomu Krists?

‚ÉG KEM AFTUR.‘ (Jóhannes 14:3) Jesús Kristur gaf postulum sínum þetta loforð þegar hann var með þeim kvöldið áður en hann dó. Vafalaust fellst þú á að aldrei hafi verið brýnni þörf á þeim friði, heilbrigði og lífi sem mannkyninu mun hlotnast þegar Kristur snýr aftur sem konungur. En hvernig snýr Kristur aftur? Hverjir sjá hann og hvernig?

2. (a) Hvert tekur Kristur smurða fylgjendur sína, þeirra á meðal postulana, þegar hann kemur aftur? (b) Hvers konar líkama hafa þeir þar?

2 Þegar Kristur kemur aftur kemur hann ekki til að búa á jörðinni. Þeir sem eiga að ríkja með honum sem konungar eru þess í stað teknir til himna til að lifa með honum þar. Jesús sagði postulum sínum: „Ég . . . kem . . . aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ (Jóhannes 14:3) Þegar Kristur snýr aftur munu þeir sem eru teknir til himna verða andaverur, og þeir munu sjá Krist í dýrlegum andalíkama hans. (1. Korintubréf 15:44) En mun hinn hluti mannkynsins, sem ekki fer til himna, sjá Krist þegar hann snýr aftur?

HVERS VEGNA HANN GETUR EKKI KOMIÐ AFTUR SEM MAÐUR

3. Hvernig sýnir Biblían að menn muni aldrei sjá Krist aftur?

3 Þetta sama kvöld sagði Jesús við postula sína: „Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar.“ (Jóhannes 14:19) „Heimurinn“ á hér við mannkynið. Hér segir Jesús því berlega að jarðarbúar muni ekki sjá hann aftur eftir uppstigningu hans til himna. Páll postuli skrifaði: „Þótt vér og höfum þekt Krist eftir holdinu, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.“ — 2. Korintubréf 5:16, Ísl. bi. 1912.

4. Hvað sýnir að Kristur kemur aftur sem voldug, ósýnileg andavera?

4 Þó trúa margir að Kristur muni snúa aftur í sama mannslíkamanum og hann var líflátinn í, og að allir þálifandi menn á jörðinni muni sjá hann. Biblían segir aftur á móti að Kristur komi aftur í dýrð með öllum englunum, og að hann muni „sitja í dýrðarhásæti sínu.“ (Matteus 25:31) Ef Jesús kæmi og settist sem maður á jarðneskt hásæti yrði hann settur skör lægra en englarnir. En hann verður máttugastur og voldugastur allra þessara andasona Guðs og er því ósýnilegur alveg eins og þeir. — Filippíbréfið 2:8-11.

5. Hvers vegna getur Kristur ekki komið aftur í mannslíkama?

5 Fyrir rúmlega nítján öldum var aftur á móti nauðsynlegt að Jesús lítillækkaði sig og yrði maður. Hann þurfti að gefa sitt fullkomna mannslíf sem lausnargjald fyrir okkur. Jesús útskýrði það einu sinni þannig: „Brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“ (Jóhannes 6:51) Jesús gaf þannig sinn holdlega líkama sem fórn fyrir mannkynið. En hversu lengi átti sú fórn að vera í gildi? Páll postuli svarar: „Erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.“ (Hebreabréfið 10:10) Þar eð Kristur hafði gefið hold sitt heiminum til lífs gat hann aldrei tekið það aftur og orðið maður á nýjan leik. Það er ein aðalástæðan fyrir því að hann getur ekki komið aftur í mannslíkamanum sem hann fórnaði í eitt skipti fyrir öll.

HOLDSLÍKAMINN FÓR EKKI TIL HIMNA

6. Hvers vegna trúa margir að Kristur hafi tekið holdlegan líkama sinn til himna?

6 Margir trúa því samt sem áður að Kristur hafi tekið sinn holdlega líkama til himna. Þeir benda á að þegar Kristur var vakinn upp frá dauðum hvarf holdslíkami hans úr gröfinni. (Markús 16:5-7) Og eftir dauða sinn birtist Jesús lærisveinunum í holdlegum líkama til að sýna þeim að hann væri lifandi. Einu sinni lét hann Tómas postula meira að segja stinga hendinni í sárið á síðu sér, til að Tómas gæti trúað að hann væri í raun og veru upprisinn. (Jóhannes 20:24-27) Sannar þetta ekki að Kristur hafi verið vakinn upp í sama líkamanum og hann var líflátinn í?

7. Hvað sannar að Kristur steig upp til himna sem andavera?

7 Nei, það gerir það ekki. Biblían er mjög skýr þegar hún segir: „Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir . . . Hann var að vísu deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður sem andi.“ (1. Pétursbréf 3:18, Ísl. bi. 1912) Menn af holdi og blóði geta ekki búið á himnum. Biblían segir um upprisu til lífs á himnum: „Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. . . . hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki.“ (1. Korintubréf 15:44-50) Einungis andaverur með andalíkama geta búið á himnum.

8. Hvað varð um mannslíkama Krists?

8 Hvað varð þá um holdlegan líkama Jesú? Fundu ekki lærisveinar hans gröfina tóma? Þeir gerðu það vegna þess að Guð fjarlægði lík Jesú. Hvers vegna gerði hann það? Til að uppfylla það sem skrifað hafði verið í Biblíunni. (Sálmur 16:10; Postulasagan 2:31) Jehóva áleit þannig hæfa að láta lík Jesú hverfa alveg eins og hann hafði áður látið lík Móse hverfa. (5. Mósebók 34:5, 6) Hefði lík Jesú legið áfram í gröfinni hefðu lærisveinar hans auk þess ekki getað skilið að hann hefði verið vakinn upp frá dauðum, vegna þess að þeir skildu ekki enn til fullnustu ýmis andleg atriði.

9. Hvernig gat Tómas lagt höndina í sár á líkama sem hinn upprisni Jesús hafði tekið sér?

9 En nú gat Tómas postuli lagt höndina í sárið á síðu Jesú. Sannar það ekki að Jesús hafi verið vakinn upp frá dauðum í sama líkama og var negldur á staurinn? Nei, vegna þess að Jesús einfaldlega holdgaðist eða tók sér líkama af holdi eins og englarnir höfðu gert forðum daga. Hann íklæddist líkama með sárum í því skyni að sannfæra Tómas um hver hann væri. Hann leit út fyrir að vera fullkomlega mennskur, því að hann gat etið og drukkið alveg eins og englarnir sem Abraham einu sinni veitti beina. — 1. Mósebók 18:8; Hebreabréfið 13:2.

10. Hvað sýnir að Jesús íklæddist mismunandi líkömum?

10 Þótt Jesús hafi birst Tómasi í líkama sem líktist þeim sem hann dó í, íklæddist hann mismunandi líkömum þegar hann birtist fylgjendum sínum. Þess vegna hélt María Magdalena í fyrstu að Jesús væri garðyrkjumaður. Við önnur tækifæri þekktu lærisveinar hans hann ekki í fyrstu. Það var þá ekki útlit hans sem þeir þekktu hann á, heldur orð eða athafnir. — Jóhannes 20:14-16; 21:6, 7; Lúkas 24:30, 31.

11, 12. (a) Á hvaða hátt yfirgaf Kristur jörðina? (b) Á hvaða hátt ber okkur því að vænta endurkomu Krists?

11 Um fjörutíu daga skeið eftir upprisu sína birtist Jesús fylgjendum sínum í holdlegum líkama. (Postulasagan 1:3) Síðan steig hann upp til himna. En sumir kunna að spyrja: ‚Sögðu ekki tveir englar postulunum að Kristur myndi ‚koma á sama hátt og þeir sáu hann fara til himins‘?‘ (Postulasagan 1:11) Jú, það gerðu þeir. En tókstu eftir að þeir sögðu „á sama hátt,“ ekki í sama líkama. Og með hvaða hætti var burtför Jesú? Hún fór hljóðlega fram án þess að almenningur vissi af. Aðeins postular hans vissu af henni.

12 Athugaðu hvernig Biblían lýsir því er Jesús yfirgaf postula sína og steig upp til himna: „Varð hann upp numinn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra.“ (Postulasagan 1:9) Þegar Jesús byrjaði að hefjast upp til himins bar ský í milli sem huldi hann bókstaflegri sjón postulanna. Burtför Jesú varð þeim því ósýnileg. Þeir gátu ekki séð hann. Síðan steig hann upp til himna í andlegum líkama sínum. (1. Pétursbréf 3:18) Endurkoma hans skyldi því einnig vera ósýnileg, í andlegum líkama.

HVERNIG HVERT AUGA MUN SJÁ HANN

13. Hvernig ber okkur að skilja þau orð að ‚hvert auga muni sjá‘ Krist þegar hann kemur í skýjum?

13 Hvernig eigum við þá að skilja orðin í Opinberunarbókinni 1:7? Þar skrifar Jóhannes postuli: „Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum.“ Hér talar Biblían um það að sjá, ekki með augum líkamans, heldur í þeirri merkingu að skilja eða skynja. Þegar menn skilja eitthvert mál segja þeir stundum, ‚Já, nú sé ég hvað þú átt við.‘ Biblían talar meira að segja um „augu yðar hugskots.“ (Efesusbréfið 1:18, Ísl. bi. 1859) Orðalagið „hvert auga mun sjá hann“ merkir að allir munu skilja eða skynja að Kristur er nærverandi.

14. (a) Hvað er átt við með ‚þeim sem stungu hann‘? (b) Hvers vegna verður mikill harmur og kvein þegar öllum verður návist Krists ljós?

14 Þeir sem bókstaflega „stungu“ Jesú eru ekki lengur lífs á jörðinni. Þeir tákna því þá menn sem líkja eftir breytni umræddra manna á fyrstu öld, með því að vinna fylgjendum Krists nú á tímum tjón. (Matteus 25:40, 45) Sú stund er nálæg að Kristur taki slíka óguðlega menn af lífi. Þeir hafa verið varaðir við því fyrirfram. Þegar aftakan á sér stað munu þeir „sjá“ eða skilja hvað er að gerast og kveina hátt af harmi!

KEMUR KRISTUR AFTUR TIL JARÐAR?

15. Á hvaða hátt er orðalagið „að koma aftur“ oft notað?

15 Að koma aftur merkir ekki alltaf að farið sé bókstaflega til einhvers staðar. Tekið er svo til orða að sjúkur maður ‚komist aftur til heilsu‘ og að fyrrum valdhafi ‚komist aftur til valda.‘ Á viðlíka hátt sagði Guð Abraham: „Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son.“ (1. Mósebók 18:14; 21:1) Að Jehóva kæmi aftur merkti ekki bókstaflega endurkomu heldur að hann beindi athygli sinni að Söru til að gera það sem hann hafði heitið.

16. (a) Á hvaða hátt snýr Kristur aftur til jarðar? (b) Hvenær kom Kristur aftur og hvað gerðist þá?

16 Endurkoma Krists merkir ekki að hann komi bókstaflega aftur til jarðar. Hún merkir að hann taki völd sem konungur yfir jörðinni og beini athygli sinni að henni. Hann þarf ekki að yfirgefa himneskt hásæti sitt og koma bókstaflega niður til jarðar til að gera það. Eins og við sáum í kaflanum á undan sýnir Biblían að árið 1914 rann upp sá tími er Kristur skyldi koma aftur og taka við konungdómi. Þá heyrðist hrópað af himni: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða.“ — Opinberunarbókin 12:10.

17. Hverju lýsti Kristur til að við gætum vitað að hann væri kominn aftur, vegna þess að endurkoma hans er ósýnileg?

17 Með því að endurkoma Krists er ósýnileg má spyrja hvort hægt sé að sannreyna að hún hafi átt sér stað. Já, það er hægt. Kristur lýsti sýnilegu ‚tákni‘ þess að hann sé ósýnilega nærverandi og endir veraldar í nánd. Við skulum skoða þetta „tákn.“

[Mynd á blaðsíðu 142]

Kristur færði líkama sinn að fórn. Hann getur aldrei tekið hann aftur og orðið maður á ný.

[Myndir á blaðsíðu 144, 145]

Hvers vegna hélt María Magdalena Jesú vera garðyrkjumann eftir upprisu hans?

Hvaða holdlegur líkami var það sem hinn upprisni Jesús bað Tómas að stinga hendinni í?

[Mynd á blaðsíðu 147]

Kristur átti að koma aftur á sama hátt og hann yfirgaf jörðina. Á hvaða hátt fór hann?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila