Að lifa ‚dag Jehóva‘ af
„Mikill er dagur [Jehóva] og mjög ógurlegur, hver getur afborið hann?“ — JÓEL 2:11.
1. Af hverju ætti hinn ‚ógurlegi dagur Jehóva‘ að vera gleðiefni?
„ÓGURLEGUR“! Þannig lýsir Jóel, spámaður Guðs, hinum mikla ‚degi Jehóva.‘ En við sem elskum Jehóva og höfum vígst honum á grundvelli lausnarfórnar Jesú þurfum ekki að yfirbugast af ótta þegar dagur Jehóva nálgast. Vissulega verður dagurinn ógnvekjandi, en hann verður líka stórkostlegur hjálpræðisdagur, lausnardagur frá illu heimskerfi sem hefur þjakað mannkynið um árþúsundir. Þar sem þessi dagur blasir við hvetur Jóel fólk Guðs til að ‚fagna og gleðjast því að Jehóva hefur unnið stórvirki,‘ og hann bætir við loforðinu: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ Guðsríkisfyrirkomulagið færir síðan „frelsun . . . eins og [Jehóva] hefir sagt, meðal flóttamannanna, sem [Jehóva] kallar.“ — Jóel 2:11, 21, 22; 3:5.
2. Hvað gerist í sambandi við framvindu tilgangs Guðs (a) á „Drottins degi“ og (b) á ‚degi Jehóva‘?
2 Það má ekki rugla hinum ógurlega degi Jehóva saman við ‚Drottins dag‘ í Opinberunarbókinni 1:10. Á síðarnefnda deginum uppfyllast 16 sýnir sem lýst er í 1. til 22. kafla Opinberunarbókarinnar. Á honum uppfyllast allir þeir atburðir sem Jesús sagði fyrir í svari sínu við spurningu lærisveinanna: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn [nærveru] þinnar og endaloka veraldar?“ Himnesk nærvera Jesú hefur einkennst af óttalegum ‚hernaði, hallærum, hatri, drepsóttum og lögleysi‘ á jörðinni. Samhliða því að þessar raunir hafa magnast hefur Jesús hughreyst guðhrædda menn með því að senda lærisveina sína til að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ Síðan skellur ‚endir‘ núverandi heimskerfis á, hinn ógurlegi dagur Jehóva, sem hámarkið á degi Drottins. (Matteus 24:3-14; Lúkas 21:11) Þessi dagur Jehóva er til að fullnægja snögglega dómi á spilltum heimi Satans. „Himinn og jörð nötra. En [Jehóva] er athvarf sínum lýð.“ — Jóel 3:21.
Jehóva lætur til sín taka á dögum Nóa
3. Hvernig er ástandið núna hliðstætt því sem var á dögum Nóa?
3 Ástandið í heiminum núna er hliðstætt því sem var á „dögum Nóa“ fyrir meira en 4000 árum. (Lúkas 17:26, 27) Við lesum í 1. Mósebók 6:5: „[Jehóva] sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.“ Þetta er nauðalíkt heiminum núna! Illska, ágirnd og kærleiksleysi blasir alls staðar við. Stundum finnst okkur kannski að mannkynið sé sokkið niður á botn í siðspillinguna. En spádómur Páls postula um ‚síðustu daga‘ heldur aðeins áfram að uppfyllast: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 13.
4. Hvaða áhrif hafði fölsk guðsdýrkun endur fyrir löngu?
4 Ætli trúarbrögðin hafi gert mannkyninu gagn á tímum Nóa? Nei, þvert á móti hljóta fráhvarfstrúarbrögð, eins og voru á þeim tíma, að hafa átt verulegan þátt í hinu skelfilega ástandi. Fyrstu foreldrar okkar höfðu lotið í lægra haldi fyrir falskenningu ‚hins gamla höggorms sem heitir djöfull og Satan.‘ Á dögum annarrar kynslóðarinnar frá Adam „hófu menn að ákalla nafn [Jehóva],“ að því er virðist guðlastandi. (Opinberunarbókin 12:9; 1. Mósebók 3:3-6; 4:26) Uppreisnargjarnir englar, sem hættu að sýna Guði óskipta hollustu, holdguðu sér síðar meir mannslíkama til að geta haft óleyfileg kynmök við fríðar dætur mannanna. Þessar konur eignuðust kynblendingsrisa, kallaða nefílím, en þeir voru yfirgangsseggir sem kúguðu mannkynið. Undir þessum áhrifum illra anda ‚spillti allt hold vegum sínum á jörðinni.‘ — 1. Mósebók 6:1-12.
5. Hvaða viðvörun og hvatningu gefur Jesús í sambandi við daga Nóa?
5 Ein fjölskylda varðveitti þó ráðvendni við Jehóva. Þess vegna „varðveitti [Guð] Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.“ (2. Pétursbréf 2:5) Þetta flóð var fyrirboði hins ógurlega dags Jehóva þegar þetta heimskerfi líður undir lok. Jesús spáði um hann: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn. Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“ (Matteus 24:36-39) Við erum í svipaðri aðstöðu núna þannig að Jesús hvetur okkur til að ‚hafa gát á sjálfum okkur og vaka allar stundir og biðja, svo að við megum umflýja allt þetta sem koma á.‘ — Lúkas 21:34-36.
Jehóva dæmir og refsar Sódómu og Gómorru
6, 7. (a) Um hvað eru atburðir á dögum Lots fyrirboði? (b) Hvaða skýra viðvörun veitir það okkur?
6 Þegar afkomendum Nóa hafði fjölgað á jörðinni nokkur hundruð árum eftir flóðið urðu hinn trúfasti Abraham og Lot, frændi hans, sjónarvottar að öðrum ógurlegum degi Jehóva. Lot og fjölskylda hans bjuggu í borginni Sódómu sem var djúpt sokkin í viðbjóðslegt siðleysi líkt og grannborgin Gómorra. Efnishyggja var líka í algleymingi og hafði jafnvel áhrif á konu Lots. Jehóva hafði sagt Abraham: „Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung.“ (1. Mósebók 18:20) Abraham sárbændi Jehóva að þyrma þessum borgum vegna þeirra réttlátu manna, sem þar byggju, en Jehóva lýsti yfir að ekki fyndust einu sinni tíu réttlátir þar. Englar Guðs hjálpuðu Lot og dætrum hans tveim að forða sér til grannborgarinnar Sóar.
7 Hvað svo? Lúkas 17:28-30 ber ‚síðustu daga‘ saman við daga Lots og segir: „Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum. Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.“ Örlög Sódómu og Gómorru á þessum ógurlega degi Jehóva flytja okkur skýr skilaboð núna á nærverutíma Jesú. Núverandi kynslóð manna hefur líka drýgt gegndarlausan ‚saurlifnað og stundað óleyfilegar lystisemdir.‘ (Júdasarbréfið 7) Og siðlaus viðhorf okkar tíma eru kveikja margra þeirra ‚drepsótta‘ sem Jesús spáði fyrir um okkar daga. — Lúkas 21:11.
Ísrael uppsker „storm“
8. Hvernig hélt Ísrael sáttmálann við Jehóva?
8 Þegar þar að kom útvaldi Jehóva Ísrael sem ‚eiginlega eign sína umfram allar þjóðir, sem prestaríki og heilagan lýð.‘ En það var því skilyrði háð að þeir ‚hlýddu hans röddu grandgæfilega og héldu sáttmála hans.‘ (2. Mósebók 19:5, 6) Virtu þeir þessi stórkostlegu sérréttindi? Síður en svo! Vissulega voru trúfastir menn innan þjóðarinnar sem þjónuðu Guði dyggilega — Móse, Samúel, Davíð, Jósafat, Hiskía, Jósía og trúir spámenn og spákonur. En þjóðin í heild var ótrú. Með tíð og tíma klofnaði ríkið í tvennt — Ísrael og Júda. Þjóðirnar flæktust báðar meira og minna í heiðinni guðsdýrkun og öðrum siðum grannríkjanna sem svívirtu Guð. — Esekíel 23:49.
9. Hvernig dæmdi Jehóva hið uppreisnargjarna tíuættkvíslaríki?
9 Hvernig dæmdi Jehóva í málinu? Eins og ávallt varaði hann við í samræmi við meginreglu sem Amos lýsti: „Drottinn [Jehóva] gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ Sjálfur boðaði Amos norðurríkinu Ísrael ógæfu: „Hvað skal yður dagur [Jehóva]? Hann er dimmur, en ekki bjartur.“ (Amos 3:7; 5:18) Og spámaðurinn Hósea, sem var samtíða Amosi, lýsti yfir: „Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera.“ (Hósea 8:7) Árið 740 f.o.t. notaði Jehóva assýrska herinn til að eyða norðurríkinu Ísrael í eitt skipti fyrir öll.
Uppgjör Jehóva við hið fráhverfa Júdaríki
10, 11. (a) Af hverju féllst Jehóva ekki á að fyrirgefa Júdamönnum? (b) Hvaða svívirðingar höfðu spillt þjóðinni?
10 Jehóva sendi líka spámenn sína til suðurríkisins Júda. En Júdakonungar, svo sem Manasse og arftaki hans, Amón, héldu áfram að gera það sem illt var í augum hans, úthelltu ‚mjög miklu saklausu blóði, þjónuðu skurðgoðum og féllu fram fyrir þeim.‘ Enda þótt Jósía, sonur Amóns, gerði það sem rétt var í augum Jehóva sukku þeir konungar, sem á eftir komu, og fólkið á kaf í illskuna á nýjan leik svo að ‚Jehóva vildi ekki fyrirgefa það.‘ — 2. Konungabók 21:16-21; 24:3, 4.
11 Jehóva lýsti yfir fyrir munn spámannsins Jeremía: „Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu! Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?“ Júdamenn voru orðnir gríðarlega blóðsekir og fólkið stal, myrti, drýgði hór, sór meinsæri, elti aðra guði og stundaði aðrar svívirðingar. Musteri Guðs var orðið að „ræningjabæli.“ — Jeremía 2:34; 5:30, 31; 7:8-12.
12. Hvernig refsaði Jehóva hinni sviksömu Jerúsalem?
12 Jehóva lýsti yfir: „Ég kem með ógæfu úr norðri [frá Kaldeu] og mikla eyðing.“ (Jeremía 4:6) Hann lét því heimsveldið Babýlon, „hamarinn, sem laust alla jörðina“ á þeim tíma, berja hina sviksömu Jerúsalem og musteri hennar. (Jeremía 50:23) Eftir hart umsátur féll borgin fyrir öflugum her Nebúkadnesars árið 607 f.o.t. „Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía [konungs] í Ribla fyrir augum hans. Sömuleiðis lét Babelkonungur drepa alla tignarmenn í Júda. En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon. Kaldear brenndu konungshöllina og hús lýðsins og rifu niður múra Jerúsalem. En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með honum, og leifar lýðsins, þá er eftir voru, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon.“ — Jeremía 39:6-9.
13. Hverjum var bjargað á degi Jehóva árið 607 f.o.t. og hvers vegna?
13 Þetta var ógurlegur dagur! En meðal þeirra sem björguðust frá þessum brennandi dómi voru fáeinar sálir sem hlýddu Jehóva. Þar má nefna Rekabítana sem voru ekki ísraelskir en voru auðmjúkir og hlýðnir ólíkt Júdamönnum. Barúk, dyggur ritari Jeremía, bjargaðist einnig, svo og hinn trúfasti geldingur Ebed-Melek sem dró Jeremía upp úr forargryfju þar sem hann hefði dáið ella. (Jeremía 35:18, 19; 38:7-13; 39:15-18; 45:1-5) Það var við slíka menn sem Jehóva lýsti yfir: „Ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður . . . , fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ Þetta fyrirheit átti sér minni háttar uppfyllingu árið 539 f.o.t. þegar sigurvegari Babýlonar, Kýrus konungur, sleppti guðhræddum Gyðingum úr haldi og þeir sneru heim til að endurbyggja Jerúsalem og musterið. Þeir nútímamenn, sem yfirgefa babýlonsk trúarbrögð og taka upp hreina tilbeiðslu á Jehóva, geta líka hlakkað til dýrlegrar framtíðar eilífs friðar í endurreistri paradís hans. — Jeremía 29:11; Sálmur 37:34; Opinberunarbókin 18:2, 4.
‚Mikil þrenging‘ fyrstu aldar
14. Af hverju hafnaði Jehóva Ísrael endanlega?
14 Beinum þá athygli að fyrstu öldinni. Þegar þar var komið sögu voru Gyðingar aftur orðnir fráhvarfsmenn. Jehóva sendi eingetinn son sinn til jarðar sem hinn smurða eða Messías. Á árunum 29 til 33 prédikaði Jesús út um allt Ísraelsland: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 4:17) Enn fremur safnaði hann saman lærisveinum og þjálfaði þá til að starfa með sér að boðun fagnaðarerindisins um ríkið. Hvernig brugðust valdhafar Gyðinga við? Þeir rægðu Jesú og drýgðu að lokum þann svívirðilega glæp að láta hann deyja kvalafullum dauða á aftökustaur. Jehóva hafnaði Gyðingum sem þjóð sinni. Núna var höfnunin endanleg.
15. Hvað fengu iðrunarfullir Gyðingar að gera?
15 Á hvítasunnudeginum árið 33 úthellti hinn upprisni Jesús heilögum anda og þá fengu lærisveinar hans kraft til að tala tungum við Gyðinga og trúskiptinga sem drifið hafði að. Pétur postuli ávarpaði mannfjöldann og sagði: „Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess. . . . Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi.“ Hvernig brugðust heiðvirðir Gyðingar við? Það var „sem stungið væri í hjörtu þeirra,“ þeir iðruðust synda sinna og létu skírast. (Postulasagan 2:32-41) Prédikunarstarfið tók kipp og á innan við 30 árum hafði verið prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ — Kólossubréfið 1:23.
16. Hvernig stýrði Jehóva atburðum sem leiddu til þess að dómi hans var fullnægt á Ísrael að holdinu?
16 Tíminn var nú kominn fyrir Jehóva til að fullnægja dómi á þjóðinni sem hann hafði hafnað, Ísrael að holdinu. Þúsundir manna af þjóðum hins þekkta heims höfðu flykkst inn í kristna söfnuðinn og verið smurðar sem andlegur „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16) Gyðingdómur þess tíma hafði hins vegar sokkið niður í hatur og sértrúarofbeldi. Gagnstætt því sem Páll hafði skrifað um að ‚vera yfirvöldum undirgefinn‘ höfðu þeir risið opinberlega upp gegn yfirráðum Rómar. (Rómverjabréfið 13:1) Jehóva stýrði greinilega þeim atburðum sem komu í kjölfarið. Árið 66 settust rómverskar hersveitir undir stjórn Gallusar hershöfðingja um Jerúsalem. Rómverjar komust svo langt að þeir náðu að grafa undan musterisveggnum. Samkvæmt frásögn Jósefusar var þetta mikil þrenging fyrir borgina og íbúa hennar.a En skyndilega lagði árásarherinn á flótta. Þar með fengu lærisveinar Jesú tækifæri til að ‚flýja til fjalla‘ eins og þeir voru hvattir til í spádóminum í Matteusi 24:15, 16.
17, 18. (a) Í hvaða þrengingu fullnægði Jehóva réttlætinu á gyðingdómnum? (b) Hvaða menn ‚frelsuðust‘ eða komust af og hvað táknar það?
17 En hámark þrengingarinnar og endanleg dómsfullnæging Jehóva var enn eftir. Árið 70 sneru rómversku hersveitirnar aftur, nú undir stjórn Títusar hershöfðingja. Í þetta sinn voru úrslitin endanleg! Rómverjar reyndust ofjarlar Gyðinganna sem höfðu jafnvel barist innbyrðis. Borgin og musterið voru jöfnuð við jörðu. Meira en milljón langsoltinna Gyðinga þjáðist og dó og um 600.000 líkum var kastað út um borgarhliðin. Eftir að borgin féll voru 97.000 Gyðingar fluttir burt í fjötrum og dóu margir síðar á skylmingaleikjum. Einu mennirnir, sem komust af á þrengingarárunum, voru hlýðnir kristnir menn sem höfðu flúið til fjalla handan Jórdanar. — Matteus 24:21, 22; Lúkas 21:20-22.
18 Þannig hlaut hinn mikli spádómur Jesú um ‚endalok veraldar‘ fyrri uppfyllingu sína og náði hámarki er dagur Jehóva til að fullnægja réttlætinu kom yfir hina uppreisnargjörnu gyðingaþjóð á árunum 66-70. (Matteus 24:3-22) En það var þó aðeins skuggi hins ‚mikla og ógurlega dags Jehóva er koma skyldi,‘ lokaþrengingarinnar sem er í þann mund að koma yfir allan heiminn. (Jóel 3:4) Hvernig getur þú „frelsast“ eða komist af? Næsta grein fjallar um það.
[Neðanmáls]
a Jósefus greinir frá því að rómverska árásarliðið hafi umkringt borgina, grafið undan hluta af múrnum og verið í þann mund að kveikja í hliðinu að musteri Jehóva. Þetta olli gríðarlegri skelfingu meðal margra hinna innikróuðu Gyðinga, því að þeir sáu fram á yfirvofandi dauða sinn. — Wars of the Jews, II. bók, 19. kafli.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvernig tengist ‚Drottins dagur‘ ‚degi Jehóva‘?
◻ Hvaða viðvörun frá dögum Nóa ættum við að taka til okkar?
◻ Hvernig eru Sódóma og Gómorra dæmi til viðvörunar?
◻ Hverjir björguðust úr ‚mikilli þrengingu‘ fyrstu aldar?
[Myndir á blaðsíðu 23]
Jehóva sá fjölskyldum Nóa og Lots fyrir undankomuleið og eins gerði hann árið 607 f.o.t. og árið 70.