Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • pe kafli 21 bls. 175-183
  • Dómsdagur og það sem á eftir kemur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Dómsdagur og það sem á eftir kemur
  • Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • UPPRISA „TIL LÍFSINS“ OG „TIL DÓMSINS“
  • HVENÆR HEFST DÓMSDAGUR?
  • EFTIR DÓMSDAG
  • NÚVERANDI DÓMSDAGUR
  • Hvað er dómsdagur?
    Hvað kennir Biblían?
  • Hvað gerist á dómsdegi?
    Varðturninn: Er Guði annt um konur?
  • Biblíuspurningar og svör
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
pe kafli 21 bls. 175-183

21. kafli

Dómsdagur og það sem á eftir kemur

1. Hvernig sjá margir dómsdag fyrir sér?

HVERNIG ÍMYNDAR þú þér dómsdag? Sumir ímynda sér dauða rísa upp úr gröfunum og skipa sér í langa biðröð frammi fyrir miklu hásæti. Um leið og þeir ganga fram hjá hásætinu er sérhver einstaklingur dæmdur eftir sínum fyrri verkum sem öll eru skráð í bók dómarans. Verk þeirra ráða úrslitum um hvort þeir fara til himna eða í brennandi helvíti.

2. (a) Hver hefur skipulagt komu dómsdagsins? (b) Hvern hefur hann skipað dómara?

2 Biblían dregur aftur á móti upp allt aðra mynd af dómsdegi. Hann er ekki dagur sem þarf að hræðast eða óttast. Taktu eftir því sem Biblían segir um Guð: „Hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ (Postulasagan 17:31) Þessi dómari, sem Guð hefur skipað, er vitanlega Jesús Kristur.

3. (a) Hvers vegna getum við treyst að Kristur verði sanngjarn dómari? (b) Á hvaða grundvelli verða menn dæmdir?

3 Við getum treyst að dómur Krists verði sanngjarn og réttlátur. Spádómur um hann í Jesaja 11:3, 4 fullvissar okkur um það. Ólíkt því sem almennt er talið mun hann ekki dæma menn fyrir sínar fyrri syndir sem margar hverjar voru drýgðar sökum vanþekkingar. Biblían segir að við dauðann sé maðurinn leystur undan þeim syndum sem hann hefur framið. Hún segir: „Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.“ (Rómverjabréfið 6:7) Það þýðir að þegar einstaklingurinn er reistur upp frá dauðum verður hann dæmdur eftir því sem hann gerir á dómsdeginum, ekki því sem hann gerði áður.

4. (a) Hve langur verður dómsdagur? (b) Hverjir verða meðdómarar Krists?

4 Dómsdagurinn er því ekki bókstaflegur sólarhringur, 24 stundir. Það kemur vel fram í Biblíunni þegar hún talar um þá sem verða meðdómarar Jesú Krists. (1. Korintubréf 6:1-3) „Ég sá hásæti,“ segir biblíuritarinn, „og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið.“ Þessir dómarar eru trúir, smurðir fylgjendur Krists sem, eins og Biblían segir í framhaldinu, „lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár.“ Dómsdagurinn er því 1000 ára langur. Hann er sama 1000 ára tímabilið er Kristur og 144.000 trúfastir, smurðir fylgjendur hans ríkja sem ‚nýr himinn‘ yfir ‚nýju jörðinni.‘ — Opinberunarbókin 20:4, 6; 2. Pétursbréf 3:13.

5, 6. (a) Hvernig lýsir sálmaritari Biblíunnar dómsdegi? (b) Hvernig verður jarðlífið á dómsdegi?

5 Líttu á þessa opnu. Hún gefur nokkra hugmynd um hversu dásamlegur dómsdagur verður fyrir mannkynið. Sálmaritari Biblíunnar skrifaði um þetta stórfenglega tímabil: „Foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp, fyrir [Jehóva], því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.“ — Sálmur 96:12, 13.

6 Meðan dómsdagur stendur munu þeir sem lifa af Harmagedón vinna að því að breyta jörðinni í paradís. Það er paradísin sem dauðir verða boðnir velkomnir í þegar þeir verða lífgaðir. (Lúkas 23:43) Hvílík hamingja mun ríkja þegar fjölskyldur, sem dauðinn hefur aðskilið svo lengi, sameinast á ný! Hversu unaðslegt verður að búa við frið, góða heilsu og leiðbeiningar um fyrirætlanir Guðs! Biblían segir: „Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.“ (Jesaja 26:9) Á dómsdegi munu allir menn kynnast Jehóva og fá tækifæri til að hlýða honum og þjóna.

7. Hvað verður á dómsdegi um þá sem kjósa að þjóna Guði og þá sem ekki vilja það?

7 Slík er sú paradís sem mannkynið mun búa í þegar Jesús Kristur og 144.000 meðkonungar hans dæma það. Þeir sem kjósa að þjóna Jehóva geta fengið eilíft líf. En jafnvel við þessi skilyrði, þau bestu sem hugsast getur, munu sumir ekki vilja þjóna Guði. Ritningin segir: „Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja.“ (Jesaja 26:10) Slíkum óguðlegum mönnum verður því tortímt eftir að þeir hafa fengið tækifæri til að breyta atferli sínu og læra réttlæti. Sumir verða afmáðir jafnvel áður en dómsdagur tekur enda. (Jesaja 65:20, NW) Þeim verður ekki leyft að lifa til að spilla paradís á jörð.

8. Hvert var siðferðisástand Sódómubúa?

8 Það verða stórkostleg sérréttindi að fá upprisu á jörð á hinum mikla dómsdegi Jehóva. En Biblían gefur í skyn að ekki muni allir fá notið þeirra sérréttinda. Lítum á Sódómubúa til forna sem dæmi. Biblían segir að karlmennirnir í Sódómu hafi viljað eiga kynmök við ‚mennina‘ sem voru í heimsókn hjá Lot. Svo magnað var siðleysi þeirra að þeir reyndu enn að „finna dyrnar“ og komast inn í húsið til að hafa kynmök við gesti Lots, jafnvel eftir að þeir voru á undraverðan hátt slegnir blindu — 1. Mósebók 19:4-11.

9, 10. Hvað gefur Ritningin í skyn um upprisuhorfur hinna óguðlegu Sódómubúa?

9 Munu svona grófir syndarar fá upprisu á dómsdegi? Ritningin gefur í skyn að svo verði trúlega ekki. Til dæmis minntist Júdas, einn lærisveina Jesú, undir innblæstri á englana sem yfirgáfu bústað sinn á himnum til að geta átt mök við dætur mannanna. Síðan bætti hann við: „Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.“ (Júdas 6, 7; 1. Mósebók 6:1, 2) Vegna síns grófa siðleysis var íbúum Sódómu og borganna í kring eytt og svo er að sjá sem þeir muni aldrei fá upprisu. — 2. Pétursbréf 2:4-6, 9, 10a.

10 Jesús gaf líka í skyn að Sódómubúar fengju ef til vill ekki upprisu. Hann sagði um Kapernaum, eina af borgunum þar sem hann gerði kraftaverk: „Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér [Kapernaum], þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“ (Matteus 11:22-24) Með því að segja að Sódómubúum til forna, sem voru í hugum ísraelskra áheyrenda hans allsendis óverðugir upprisu á dómsdegi, yrði bærilegra þá, var Jesús að leggja áherslu á hve ámælisverðir Kapernaumbúar væru.

11. Hvers vegna verður dómsdagur auðveldari ‚réttlátum‘ en nokkrum ‚ranglátum‘?

11 Við ættum því sannarlega að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lifa þannig að við verðskuldum upprisu. En spyrja má hvort það verði misauðvelt fyrir hina upprisnu að læra og iðka réttlæti. Hugleiddu þetta: Áður en „réttlátir“ karlar og konur, svo sem Abraham, Ísak, Job, Debóra, Rut og Daníel, dóu hlökkuðu þau öll til komu Messíasar. Þau munu fagna því mjög á dómsdeginum að hann skuli ríkja af himnum ofan og því að fá að fræðast um hann! Það verður miklu auðveldara fyrir þessa ‚réttlátu‘ einstaklinga að iðka réttlæti á þeim tíma en einhverja ‚rangláta‘ sem fá upprisu þá. — Postulasagan 24:15.

UPPRISA „TIL LÍFSINS“ OG „TIL DÓMSINS“

12. Hverjir fá, samkvæmt Jóhannesi 5:28-30, ‚upprisu til lífsins,‘ og hverjir fá ‚upprisu til dómsins‘?

12 Jesús lýsti dómsdegi meðal annars svo: „Allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins. . . . Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ (Jóhannes 5:28-30) Hver er þessi ‚upprisa til lífsins‘ og hver er ‚upprisan til dómsins‘? Og hverjir fá upprisu til lífs eða dóms?

13. Hvað merkir það að „rísa upp til lífsins“?

13 Eins og við höfum þegar séð verða þeir sem koma út úr gröfunum ekki dæmdir fyrir sín fyrri verk, heldur fyrir það sem þeir gera á dómsdeginum. Þegar Jesús nefnir ‚þá sem gjört hafa hið góða‘ og ‚þá sem drýgt hafa hið illa‘ er hann því að tala um góð og slæm verk sem þeir gera á dómsdegi. Margir hinna upprisnu munu, sökum þess góða sem þeir gera, sækja fram til mannlegs fullkomleika og ná honum undir lok 1000 ára dómsdagsins. Upprisa þeirra frá dauðum verður því „til lífsins,“ því að þeir hljóta syndlaust, fullkomið líf.

14. Hvað merkir það að ‚rísa upp til dómsins‘?

14 En hvað um þá sem ‚drýgja hið illa‘ á dómsdeginum? Upprisa þeirra frá dauðum verður „til dómsins.“ Hvað þýðir það? Það þýðir að þeir verða fordæmdir, dæmdir til að deyja. Þessir menn verða því afmáðir, annaðhvort meðan dómsdagur stendur eða þegar honum lýkur. Ástæðan er sú að þeir gera það sem er illt; þeir neita þvermóðskulega að læra réttlæti og iðka það.

HVENÆR HEFST DÓMSDAGUR?

15. Hvað gerist rétt áður en dómsdagur hefst?

15 Jóhannes postuli sá í sýn atburði sem gerast skulu rétt áður en dómsdagur hefst. Hann skrifaði: „Ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð . . . Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, . . . Og hinir dauðu voru dæmdir.“ (Opinberunarbókin 20:11, 12) Áður en dómsdagur hefst mun því núverandi heimskerfi, myndað af ‚himni og jörð,‘ líða undir lok. Þeir einir lifa af sem þjóna Guði en öllum óguðlegum er eytt í Harmagedón. — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

16. (a) Hverjir verða dæmdir á dómsdegi auk hinna dánu? (b) Eftir hverju verða þeir dæmdir?

16 Á dómsdeginum verða því ekki aðeins dæmdir þeir „dauðu“ sem upp rísa. „Lifendur,“ sem lifa af Harmagedón, og börn sem þeir kunna að eignast, verða einnig dæmd. (2. Tímóteusarbréf 4:1) Jóhannes sá í sýninni hvernig dómurinn fer fram. „Og bókum var lokið upp,“ skrifaði hann. „Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra. Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum.“ — Opinberunarbókin 20:12, 13.

17. Hverjar eru ‚bækurnar‘ sem „lifendur“ og „dauðir“ verða dæmdir eftir?

17 Hverjar eru ‚bækurnar‘ sem opnaðar verða og jafnt „lifendur“ og ‚dauðir‘ eru dæmdir eftir? Ætla má að þær geymi upplýsingar til viðbótar því sem nú er í heilagri Biblíu. Þær eru innblásin rit eða bækur sem hafa að geyma lög Jehóva og fyrirmæli. Með því að lesa þær geta allir jarðarbúar kynnst vilja Guðs. Allir jarðarbúar verða síðan dæmdir út af þeim lögum eða fyrirmælum sem í „bókunum“ eru. Þeir sem hlýða því sem þar stendur skrifað njóta góðs af lausnarfórn Krists og vaxa smám saman til mannlegs fullkomleika.

18. (a) Hvernig verður ástatt þegar dómsdegi lýkur? (b) Í hvaða skilningi lifna „dauðir“ við lok 1000 áranna?

18 Þegar 1000 ára dómsdeginum lýkur verður enginn jarðarbúi ofurseldur dauðanum vegna syndar Adams. Allir hafa þá lifnað í fullum skilningi þess orðs. Það er það sem Biblían á við þegar hún segir: „En aðrir dauðir [auk hinna 144.000 sem fara til himna] lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin.“ (Opinberunarbókin 20:5) Þótt hér sé sagt að „aðrir dauðir“ hafi ekki lifnað fyrr en þá merkir það ekki að einhverjir aðrir séu reistir upp við lok 1000 ára dómsdagsins. Það merkir einfaldlega að allir lifni í þeim skilningi að þeir hafi að lokum öðlast mannlegan fullkomleika. Þeir verða fullkomnir á sama hátt og Adam og Eva voru í Edengarðinum. Hvað gerist þessu næst?

EFTIR DÓMSDAG

19. Hvað gerir Kristur þegar dómsdegi lýkur?

19 Jesús Kristur hefur nú gert allt sem Guð fól honum að gera og „selur ríkið Guði föður í hendur.“ Það gerist í lok 1000 ára dómsdagsins. Þá hefur öllum óvinum verið rutt úr vegi. Síðasti óvinurinn, dauðinn sem við höfum erft frá Adam, verður horfinn. Þá verður ríkið eign Jehóva Guðs og hann verður konungur þess, stjórnar því milliliðalaust. — 1. Korintubréf 15:24-28.

20. (a) Hvernig ákveður Jehóva hverjir fái nöfn sín rituð í „lífsins bók“? (b) Hvers vegna er við hæfi að mannkynið gangist undir lokaprófraun?

20 Hvernig ákveður Jehóva hverjir fái nöfn sín rituð í „lífsins bók“? (Opinberunarbókin 20:12, 15) Það gerir hann með því að prófreyna mannkynið. Við munum hvernig Adam og Eva brugðust þegar þau voru prófuð og hvernig Job varðveitti ráðvendni sína þegar hann var reyndur. En trú flestra manna, sem lifa við lok 1000 áranna, hefur aldrei verið reynd. Þeir þekktu ekki fyrirætlun Jehóva áður en þeir voru reistir upp. Þeir tilheyrðu óguðlegum heimi Satans; þeir voru „ranglátir.“ Eftir upprisuna veittist þeim auðvelt að þjóna Jehóva vegna þess að þeir bjuggu í paradís og mættu engri mótspyrnu frá djöflinum. En munu þessar milljónir manna, sem þá eru fullkomnar, þjóna Jehóva ef Satan er leyft að reyna að hindra þær í því? Getur Satan fengið þær til að gera það sama og hann fékk Adam og Evu til meðan þau voru fullkomin?

21. (a) Hvernig prófreynir Jehóva mannkynið? (b) Hvernig fer fyrir þeim sem þátt eiga í prófrauninni þegar henni lýkur?

21 Jehóva sleppir Satan og illum öndum hans lausum úr undirdjúpinu, þar sem þeir hafa verið í 1000 ár, til að skera úr um þetta. Hver verður afleiðingin? Biblían sýnir að Satan muni takast að fá suma til að hætta að þjóna Jehóva. Þeir verða „sem sandur sjávarins“ í þeim skilningi að fjöldi þeirra er óþekktur. Eftir að prófrauninni er lokið verður Satan, djöflum hans og öllum sem ekki standast prófraunina kastað í „eldsdíkið“ táknræna sem er hinn annar (eilífur) dauði. (Opinberunarbókin 20:7-10, 15) En þeir sem fá nöfn sín rituð í „lífsins bók“ fá að búa áfram í hinni dýrlegu, jarðnesku paradís. Að nöfn þeirra eru rituð í „lífsins bók“ merkir að Jehóva dæmir þá fullkomlega réttláta í hjarta, huga og líkama, og því verðuga þess að lifa að eilífu í paradís á jörð.

NÚVERANDI DÓMSDAGUR

22. Hvað þurfum við að lifa af til að fá að sjá dómsdag og lokaprófraun mannkynsins?

22 Biblían gefur okkur þannig vitneskju um atburði meira en 1000 ár fram í tímann, og sýnir að engin ástæða er til að óttast það sem framtíðin ber í skauti sér. En spurningin er þessi: Verður þú þar til að njóta þeirra gæða sem Jehóva ætlar mönnum? Það ræðst af því hvort þú lifir af fyrri dómsdag, það er að segja ‚þann dag er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast‘ en sá dagur stendur nú. — 2. Pétursbréf 3:7.

23. (a) Í hvaða tvo hópa er nú verið að skipta mönnum? (b) Hvernig fer fyrir hópunum og hvers vegna?

23 Síðan Kristur sneri aftur og settist í sitt himneska hásæti hefur staðið yfir dómur yfir öllu mannkyninu. Þessi núverandi „dómsdagur“ er undanfari 1000 ára dómsdagsins. Á þeim dómsdegi, sem nú stendur, eru menn aðgreindir í ‚hafra‘ Kristi á vinstri hönd og ‚sauði‘ honum á hægri hönd. ‚Höfrunum‘ verður eytt vegna þess að þeir vilja ekki hjálpa smurðum „bræðrum“ Krists í þjónustu þeirra við Guð. Með tíð og tíma sýna ‚hafrarnir‘ sig vera iðrunarlausa syndara, óguðlega, forherta iðkendur ranglætisins. ‚Sauðirnir‘ fá á hinn bóginn þá blessun að hljóta líf undir stjórn Guðsríkis, vegna þess að þeir styðja „bræður“ Krists með ráðum og dáð. — Matteus 25:31-46.

[Myndir á blaðsíðu 178]

Hvers vegna sagði Jesús að Sódómubúum yrði bærilegra á dómsdegi en sumum sem á hann hlýddu?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila