Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Lmn bls. 3-30
  • „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“
  • „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Bókin sem segir frá paradís
  • Biblían er austurlensk bók
  • Guð Biblíunnar
  • Sköpunar- og kraftaverk Jehóva
  • Hvers vegna leyfir Guð hið illa?
  • Óvinurinn dauðinn
  • Lausn undan valdi dauðans
  • Endurreisn til lífs
  • Hin fullkomna friðarstjórn
  • Menntun til inngöngu í paradís
  • Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?
    Hvað kennir Biblían?
  • Eftir Harmagedón verður paradís á jörð
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Jesús Kristur – sendur af Guði?
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
„Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“
Lmn bls. 3-30

„Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“

1-4. (a) Hvar á forsíðumyndinni gætir þú hugsað þér að sjá sjálfan þig? (b) Hvaða stókostlegar framtíðarhorfur standa þér til boða? (c) Nefndu nokkra ritningarstaði sem styðja slíka von.

SJÁÐU myndina af hamingjusömu fólki á forsíðu þessa smárits. Vildir þú tilheyra þessum hópi? ‚Auðvitað,‘ svarar þú sjálfsagt, því að þarna ríkir sá friður og samlyndi sem allt mannkyn þráir. Fólk allra kynþátta — svartir, hvítir, gulir — blandar geði hvert við annað eins og ein fjölskylda. Ljóst er að þetta fólk hefur ekki áhyggjur af geislavirku ryki eða hryðjuverkum. Orustuþotur spilla ekki fegurð himinsins. Þarna eru engir hermenn, engir skriðdrekar, engar byssur. Ekki þarf einu sinni lögreglukylfu til að halda uppi röð og reglu. Stríð og glæpir eru hreinlega ekki til. Þarna skortir ekki húsnæði því að allir eiga fagurt heimili fyrir sig og sína.

2 Sjáðu börnin! Það er unaðslegt að horfa á leik þeirra. Og hugsa sér dýrin sem þau leika sér við! Í þessum garði þarf enga járnrimla því að dýrin búa í sátt og samlyndi við mannkynið og hvert annað. Meira að segja ljónið og lambið eru vinir. Sjáðu þessa skærlitu fugla sem flögra til og frá og láttu óma í eyrum þér fagran söng þeirra blandaðan hlátri barnanna. Eru alls engin búr þarna? Nei, þarna ríkir frelsi og takmarkalaus fögnuður. Andaðu að þér angan blómanna, heyrðu nið lækjarins og finndu sólina verma þig. Bragðaðu á ávöxtunum í körfunni því að þeir eru hinir bestu sem jörðin getur gefið af sér, eins og raunar allt sem fyrir augu og eyru ber í þessum undurfagra garði.

3 ‚Augnablik,‘ segir einhver, ‚hvar er gamla fólkið? Ætti það ekki líka að eiga hlut í þessu hamingjuríka þjóðfélagi?‘ Í rauninni er gamla fólkið með þarna, það er bara orðið ungt aftur. Í þessum garði deyr enginn úr elli. Unga fólkið vex úr grasi og verður fullorðið en það verður aldrei ellihrumt. Hvort sem menn eru tvítugir eða 200 ára gleðjast allar þær milljónir manna, sem byggja þennan garð, yfir æskuþreki sínu og fullkominni heilsu. Milljónir, segið þið? Já, milljónir, því að þessi garður teygir sig til allra landa heims. Hann iðar af lífi, friði og fegurð til endimarka jarðar, allt frá Himalaja til Andesfjalla og frá Madagaskar til Grænlands. Allri jörðinni verður breytt í paradísargarð.

4 Finnst þér þetta ótrúlegt? Gott og vel, en kynntu þér fyrst sönnunargögnin. Þú og fjölskylda þín eiga þess kost að lifa af endalok hins hrjáða heimskerfis, sem nú er, og fá að ganga inn í þá paradís sem dregin er upp mynd af hér á forsíðunni.a

Bókin sem segir frá paradís

5. (a) Hvaða bók segir frá öllu þessu? (b) Á hvaða vegu er þessi bók einstök?

5 Frá öllum þessum dásemdum og vissunni um að þær verði er sagt í bók, stórkostlegustu bók sem rituð hefur verið. Hún er nefnd Biblían. Biblían er ævaforn bók og voru elstu hlutar hennar ritaðir fyrir um það bil 3500 árum. Þó er hún nútímalegust allra bóka í því að gefa heilbrigð og hagnýt ráð fyrir lífið eins og það er núna. Spádómar hennar kveikja bjarta framtíðarvon. Hún er mest selda bók sögunnar, því að yfir 2.000.000.000 eintaka af Biblíunni allri eða stórum hlutum hennar hefur verið dreift á um það bil 1810 tungumálum.

6. Hvað greinir Biblíuna frá öðrum ritum sem talin eru helg?

6 Engin önnur helgibók hefur náð jafnalmennri útbreiðslu og eru flestar langtum yngri. Kóran múhameðstrúarmanna er innan við 1400 ára gamall. Búddha og Konfúsíus voru uppi fyrir um það bil 2500 árum, og rit þeirra eru frá þeim tíma. Ritningar Shintótrúarinnar voru settar saman í núverandi mynd fyrir aðeins 1200 árum. Mormónsbók er ekki nema 160 ára gömul. Engin þessara helgibóka getur nákvæmlega rakið sögu mannsins sex þúsund ár aftur í tímann eins og Biblían. Til að skilja frumtrúarbrögð mannsins verðum við því að leita til Biblíunnar. Hún er eina bókin sem færir öllu mannkyni boðskap sem á erindi til allra.

7. Hvað hafa hugsandi menn sagt um Biblíuna?

7 Íhugulir menn af öllum þjóðum og þjóðfélagsstigum hafa borið lof á visku og fegurð boðskapar Biblíunnar. Hinn kunni vísindamaður sem uppgötvaði þyngdarlögmálið, Sir Isaac Newton, sagði: „Engin vísindi eru jafn-vel vottfest og Biblían.“ Patrick Henry, amerískur byltingarleiðtogi kunnur fyrir orðin: „Veitið mér frelsi eða veitið mér dauða,“ sagði einnig: „Biblían er meira virði en allar aðrar bækur samanlagt sem prentaðar hafa verið.“ Jafnvel hinn mikli spekingur hindúa, Mohandas K. Gandhi, sagði einu sinni breska landstjóranum á Indlandi: „Þegar þín þjóð og mín sameinast um þær kenningar, sem Kristur setti fram í fjallræðu sinni, munum við hafa leyst vandamál ekki aðeins okkar landa heldur líka alls heimsins.“ Gandhi hafði í huga 5. til 7. kafla Matteusarguðspjalls í Biblíunni. Lestu sjálfur þessa kafla og sjáðu hvort kröftugur boðskapur þeirra hefur ekki áhrif á þig.

Biblían er austurlensk bók

8, 9. (a) Hvers vegna er rangt að kalla Biblíuna vesturlenska bók? (b) Hvernig var Biblían skrifuð og á hvaða tímabili? (c) Hvers vegna má kalla Biblíuna bókasafn? (d) Hve margir voru notaðir til að skrifa Biblíuna? (e) Hvað sögðu sumir þessara manna um höfund Biblíunnar?

8 Gagnstætt því sem almennt er talið er Biblían hvorki afsprengi vestrænnar menningar né ber lof á þá menningu. Nálega öll Biblían var rituð í Austurlöndum. Þeir sem rituðu hana voru allir austurlandabúar. Þúsund árum fyrir daga Búddha, árið 1513 f.o.t., innblés Guð Móse, sem bjó í Miðausturlöndum, að skrifa fyrstu bók Biblíunnar sem nefnd er 1. Mósebók. Allt frá þessari fyrstu bók fylgir Biblían einu stefi út til loka Opinberunarbókarinnar sem er síðasta bókin. Ritun Biblíunnar lauk árið 98 eftir okkar tímatali, um 600 árum eftir daga Búddha. Vissir þú að Biblían er safn 66 mismunandi bóka? Því má segja að Biblían sé í rauninni bókasafn!

9 Yfir 1600 ára tímabil frá og með dögum Móse unnu um 40 menn að því að rita þessar bækur Biblíunnar sem mynda eina samstæða heild. Þeir bera því vitni að máttur langtum æðri krafti dauðlegra manna hafi blásið þeim í brjóst hvað þeir skyldu rita. Kristni postulinn Páll sagði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“b (2. Tímóteusarbréf 3:16) Og Pétur postuli sagði: „Enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ — 2. Pétursbréf 1:20, 21; 2. Samúelsbók 23:2; Lúkas 1:70.

10. (a) Hvernig hefur Biblían borist okkur nútímamönnum? (b) Hvers vegna megum við vera viss um að hinn innblásni biblíutexti hafi borist okkur óbrenglaður?

10 Mjög athyglisvert er einnig hvernig Biblían hefur varðveist fram á okkar dag. Um þúsundir ára, þar til prentlistin kom til sögunnar fyrir um það bil 500 árum, þurfti að handskrifa Biblíuna til að gera fleiri eintök af henni. Ekkert annað bókmenntaverk hefur verið afritað og endurafritað jafnkostgæfilega. Biblían var afrituð aftur og aftur, en alltaf með ýtrustu nákvæmni. Afritararnir gerðu aðeins fáeinar, smávægilegar villur, og með samanburði á handritum hefur náðst fram hinn hreini, upprunalegi texti sem er innblásinn af Guði. Kunnur sérfræðingur um biblíuhandrit, Sir Frederick Kenyon, segir: „Stoðunum hefur verið kippt undan síðustu efasemdunum um að Ritningin hafi borist okkur nánast eins og hún var rituð.“ Enn eru til um 16.000 handrit af Biblíunni eða hlutum hennar, sum hver allt frá annarri öld fyrir daga Krists. Auk þess hafa verið gerðar nákvæmar þýðingar Biblíunnar úr frummálunum, hebresku, arameísku og grísku, á nálega öll tungumál veraldar.

11. Hvaða nýlegar uppgötvanir koma heim og saman við frásögn Biblíunnar?

11 Stundum hefur verið reynt að kasta rýrð á Biblíuna með því að segja hana ónákvæma. En fornleifafræðingar hafa á síðustu árum og áratugum grafið upp rústir gamalla borga í löndum Biblíunnar, og fundið áletranir og önnur gögn sem sanna afdráttarlaust að þær persónur og staðir, sem nefndir eru jafnvel í elstu bókum Biblíunnar, voru til í reynd. Þeir hafa grafið upp ríkuleg sönnunargögn fyrir alheimsflóði sem Biblían segir hafa orðið fyrir liðlega 4000 árum, á dögum Nóa. Um það sagði Mikasa prins, velþekktur fornleifafræðingur: „Hefur flóð í raun átt sér stað? . . . Færðar hafa verið óyggjandi sönnur á að flóðið hafi í sannleika átt sér stað.“c

Guð Biblíunnar

12. (a) Hvað segja sumir spottarar um Guð? (b) Hvers vegna kallar Biblían Guð föður? (c) Hvert segir Biblían vera nafn Guðs?

12 Á sama hátt og sumir hafa gert gys að Biblíunni skopast aðrir að þeirri hugmynd að til sé alvaldur Guð. (2. Pétursbréf 3:3-7) Þeir segja: ‚Hvernig get ég trúað á Guð, fyrst ég sé hann ekki? Er nokkur sönnun fyrir því að til sé ósýnilegur skapari, manninum æðri? Er ekki Guð í öllu og öllum?‘ Aðrir segja: ‚Það er hvorki til Guð né Búddha.‘ En Biblían sýnir okkur að á sama hátt og við höfum öll fengið líf frá jarðneskum föður, eins fengu fyrstu forfeður okkar líf sitt frá himneskum föður, skapara sem ber einkanafnið Jahve eða Jehóva. — Sjá Sálm 83:19; 100:3; Jesaja 12:2; 26:4 í útgáfu Biblíunnar frá 1908, oft nefnd Heimilisútgáfan.

13. Á hvaða tvo vegu hefur Jehóva opinberað sig mannkyninu?

13 Jehóva hefur opinberað sig mannkyninu á tvo vegu — í fyrsta lagi í gegnum Biblíuna sem gerir okkur kunnug sannindi hans og eilífan tilgang (Jóhannes 17:17; 1. Pétursbréf 1:24, 25), og í öðru lagi í gegnum sköpunarverkið. Margir hafa, með því að virða fyrir sér náttúruna í sínum mörgu myndum, gert sér ljóst að til hljóti að vera skapari og Guð og að í sköpunarverkinu sjáum við spegilmynd hins stórfenglega persónuleika hans. — Opinberunarbókin 15:3, 4.

14. Hvað segir Biblían okkur um Jehóva?

14 Jehóva Guð er höfundur Biblíunnar. Hann er hinn mikli andi sem til er um alla eilífð. (Jóhannes 4:24; Sálmur 90:1, 2) Nafn hans „Jehóva“ dregur athyglina að tilgangi hans gagnvart sköpunarverum sínum. Sá er tilgangur hans að upphefja sitt mikla nafn með því að tortíma hinum óguðlegu og bjarga þeim sem elska hann til að þeir geti lifað í paradís á jörð. (2. Mósebók 6:2-8; Jesaja 35:1, 2) Þar eð hann er alvaldur Guð hefur hann mátt til að gera það. Sem skapari alls alheimsins er hann langtum meiri venjulegum þjóðarguðum og skurðgoðum. — Jesaja 42:5, 8; Sálmur 115:1, 4-8.

15. Hvaða niðurstöðu hafa ýmsir vísindamenn komist að eftir athugun á sköpunarverkinu?

15 Á síðustu öldum hafa vísindamenn eytt miklum tíma í að rannsaka sköpunarverkið. Hvaða niðurstöðu hafa þeir komist að? Einn af brautryðjendum rafmagnsfræðinnar, hinn kunni breski eðlisfræðingur Kelvin lávarður, sagði: „Ég álít að því rækilegar sem vísindin eru skoðuð, þeim mun fjarlægari verðum við öllu sem líkja má við guðsafneitun.“ Þótt hinn frægi vísindamaður Albert Einstein hafi verið álitinn guðsafneitari játaði hann: „Mér er nóg að . . . leiða hugann að hinni stórkostlegu byggingu alheimsins, sem við getum skynjað óljóst, og reyna í auðmýkt að skilja agnarsmátt brot þeirra vitsmuna sem birtast í náttúrunni.“ Bandaríski vísindamaðurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Arthur Holly Compton sagði: „Skipulegur alheimur, sem okkur er að opnast, ber vitni um sannleikann í mikilfenglegustu orðunum sem sögð hafa verið — ‚Í upphafi skapaði Guð.‘“ Hann vitnaði hér í inngangsorð Biblíunnar.

16. Hvernig miklar alheimurinn sköpunarmátt og visku Guðs?

16 Leiðtogar voldugra þjóða stæra sig stundum af þekkingu sinni og afrekum á sviði geimvísinda. En gervitungl þeirra eru ósköp lítilfjörleg í samanburði við tunglið sem gengur um jörðina og reikistjörnurnar sem eru á braut um sól! Afrek þessara dauðlegu manna eru undursmá í samanburði við Jehóva sem hefur skapað vetrarbrautir í milljarðatali, og í hverri þeirra sólir líkar okkar sól í milljarðatali, raðað þeim í þyrpingar og dreift um geiminn til eilífðar! (Sálmur 19:2, 3; Jobsbók 26:7, 14) Ekki er að undra að Jehóva skuli líta á mennina eins og engisprettur og voldugar þjóðir „sem ekkert.“ — Jesaja 40:13-18, 22.

17. Hvers vegna er skynsamlegt að trúa á tilvist skapara?

17 Hvort sem þú byggðir sjálfur húsið, sem þú býrð í, eða ekki veist þú að það er byggt af einhverjum. En jafnvel þótt þú þekkir ekki byggingameistarann kemur það tæplega í veg fyrir að þú viðurkennir þann sannleika að einhver maður gerði það. Það myndi virðast stórkostlega kjánalegt að halda því fram að húsið hafi byggst af sjálfu sér! Þar eð óendanlega meiri snilligáfu hlýtur að hafa þurft til að gera alheiminn og allt sem í honum er, er þá ekki rökrétt að álykta að til hljóti að vera vitiborinn skapari? Aðeins heimskinginn segir í hjarta sínu: „Guð er ekki til.“ — Sálmur 14:1; Hebreabréfið 3:4.

18. Hvað sýnir að Guð er persóna og verðugur lofs?

18 Hin miklu undur í kringum okkur — blómin, fuglarnir, dýrin, hið undursamlega sköpunarverk sem nefnt er maður, kraftaverk lífs og fæðingar — allt ber þetta vitni um hina ósýnilegu snilligáfu sem bjó það til. (Rómverjabréfið 1:20) Þar sem eru vitsmunir, þar er líka hugur. Þar sem er hugur, þar er líka persóna. Hið æðsta hugvit tilheyrir hinni æðstu persónu, skapara alls sem lifir, sjálfri uppsprettu lífsins. (Sálmur 36:10) Skaparinn er sannarlega verður lofs og lotningarfullrar aðdáunar. — Sálmur 104:24; Opinberunarbókin 4:11.

19. (a) Hvers vegna getur engin nútímaþjóð sagt að Guð hafi gefið henni sigur í stríði? (b) Hvers vegna á Guð engan þátt í styrjöldum þjóðanna?

19 Guðstrú margra beið mikinn hnekki í hörmungum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá ákallaði hver þjóð sinn „Guð,“ hvort sem hún var kaþólskrar trúar, mótmælendatrúar eða einhverrar austurlenskrar trúar. Er hægt að segja að „Guð“ hafi gefið sigur einhverjum þessara þjóða og leyft öðrum að bíða ósigur? Biblían sýnir fram á að engin þessara þjóða hafi ákallað hinn sanna Guð. Jehóva Guð, skapari himins og jarðar, ber ekki ábyrgð á glundroða þjóða eða styrjöldum þeirra í milli. (1. Korintubréf 14:33) Hugsanir hans eru langtum æðri hugsunum hinna þjóðernis- og hernaðarsinnuðu þjóða jarðarinnar. (Jesaja 55:8, 9) Sönn trú og tilbeiðsla á Jehóva á enga hlutdeild í styrjöldum þjóðanna. Jehóva er hátt yfir þjóðernissinnaða guði hafinn. Hann er einstæður í því að vera Guð friðelskandi karla og kvenna meðal allra þjóða. Biblían orðar það svo: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Fólk meðal allra þjóða, sem hneigist til réttlætis, er núna að kynnast Biblíunni og tileinka sér tilbeiðslu á hinum sanna ‚Guði friðarins,‘ skapara alls mannkyns. — Rómverjabréfið 16:20; Postulasagan 17:24-27.

20. Hvað sýnir að kristni heimurinn er ókristinn og andstæður Guði?

20 Sumir benda á sundrung og hræsni trúfélaga kristna heimsins sem segjast þó fylgja Biblíunni. Þeir segja líka: ‚Hvernig get ég trúað Guði Biblíunnar þegar þjóðirnar, sem hafa Biblíuna, sanka að sér kjarnorkuvopnum í erg og gríð?‘ Sannleikurinn er sá að Biblían hefur alltaf verið sönn en þjóðir kristna heimsins eru orðnar jafnfjarlægar biblíulegri kristni og norðurskautið er suðurskautinu. Yfirlýsing þeirra um kristna trú sína er hræsnin tóm. Þær hafa Biblíuna en hlýða ekki kenningum hennar. Sá forseti Bandaríkjanna, sem gaf skipun um að fyrstu kjarnorkusprengjunni skyldi varpað á Híróshíma, sagði einu sinni: „Ó, að við hefðum Jesaja eða heilagan Pál!“ — til að leiðbeina mönnum í gegnum þessa heimskreppu. Ef hann hefði verið sama sinnis og Jesaja Biblíunnar hefði hann aldrei látið varpa kjarnorkusprengjunni, því að Jesaja talaði um að menn skyldu „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.“ Og það var Páll postuli Biblíunnar sem sagði: ‚Við berjumst ekki á jarðneskan hátt, því að vopnin, sem við berjumst með, eru ekki jarðnesk.‘ (Jesaja 2:4; 2. Korintubréf 10:3, 4) En í stað þess að fylgja þessum viturlegu ráðum Biblíunnar taka þjóðir kristna heimsins þátt í vígbúnaðarkapphlaupi sem virðist geta endað með sjálfsmorði mannkyns. Sérhver fullyrðing þeirra um að þær séu kristnar og hlýði Biblíunni eru rangar. Þær verða að taka út dóm Guðs fyrir það að hafa ekki gert vilja hans. — Matteus 7:18-23; Sefanía 1:17, 18.

Sköpunar- og kraftaverk Jehóva

21. Hvers vegna er skynsamlegt að efast ekki um kraftaverk Guðs?

21 Jehóva skapar og vinnur kraftaverk. Hefur þú nokkurn tíma velt fyrir þér hvernig vatni var breytt í blóð, Rauðahafið opnaðist, meyjarfæðingu Jesú var háttað eða undrast önnur kraftaverk sem Biblían segir frá? Þar eð mannshuganum eru takmörk sett mun hann sennilega aldrei skilja hvernig sum þessara kraftaverka gerðust, ekkert frekar en hann getur skilið til fullnustu það kraftaverk sem gerist dag hvern með sólarupprás og sólsetri. Sköpun mannsins var kraftaverk. Nútímamaðurinn sá ekki það kraftaverk, en hann veit að það gerðist því hann er til sem sönnun fyrir því. Í raun er allt líf og allur alheimurinn eitt óslitið kraftaverk. Eigum við þá að efast þegar orð Guðs, Biblían, segir að hann hafi unnið ákveðin kraftaverk á ákveðnum tímum, jafnvel þótt slíkra kraftaverka gerist ekki þörf núna?

22. Lýstu fyrstu sköpun Guðs.

22 Allt sköpunarverk Jehóva er stórkostlegt kraftaverk! Allra fyrsta sköpunarverk hans bar þó af. Það var sköpun andasonar, ‚frumburðar‘ hans. (Kólossubréfið 1:15) Þessi himneski sonur var nefndur „Orðið.“ Óteljandi öldum eftir sköpun sína kom hann til jarðar og var nefndur „maðurinn Kristur Jesús.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5) Þá var sagt um hann: „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ — Jóhannes 1:14.

23. (a) Við hvað má líkja sambandi Guðs og sonar hans? (b) Hvað skapaði Jehóva í gegnum þennan son?

23 Líkja má sambandi Jehóva og sonar hans við eiganda og stjórnanda smiðju og sonar hans. Faðirinn hannar hina ýmsu hluti og sonurinn hjápar honum við smíði þeirra. Í gegnum frumgetinn son sinn og samverkamann skapaði Jehóva fjölmargar andaverur, syni Guðs. Síðar fögnuðu þeir því að sjá efnisheiminn, himnana og jörðina sem við búum á gerða fyrir milligöngu sonar Jehóva. Efast þú um að þetta hafi verið skapað? Þúsundum ára síðar spurði Jehóva trúfastan mann: „Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til. Þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?“ — Jobsbók 38:4, 7; Jóhannes 1:3.

24. (a) Hvaða jarðneskt sköpunarverk Jehóva ber af og á hvaða hátt? (b) Hvers vegna er órökrétt að ætla að maðurinn hafi þróast af dýrum?

24 Síðar skapaði Jehóva lifandi verur hér á jörðinni, jurtirnar, trén, blómin, fiskana, fuglana og svo landdýrin. (1. Mósebók 1:11-13, 20-25) Þá sagði Guð við samverkamann sinn: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss. . . . Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ (1. Mósebók 1:26, 27) Hinn fyrsti maður stóð dýrunum miklu framar, því hann var skapaður í mynd Guðs og líkingu, gæddur eiginleikum Guðs svo sem kærleika, visku, réttlætiskennd og mætti. Mikil gjá skilur á milli manna og dýra því að maðurinn getur rökhugsað, gert framtíðaráætlanir og hefur auk þess hæfileika til að tilbiðja Guð. Dýrin hafa ekki hugvit til að hugsa og álykta; þau láta stjórnast af eðlishvöt. Það er mjög óviturlegt að segja að enginn skapari sé til, að hinn hæfileikamikla vitsmunavera, maðurinn, hafi þróast af hinum óæðri dýrum sem standa manninum svo langt að baki hvað vitsmuni áhrærir! —Sálmur 92:7, 8; 139:14.

25, 26. (a) Hvaða framtíð blasti við manninum? (b) Hvers vegna yrði ekki hætta á að jörðin offylltist fólki?

25 Guð setti manninn í „aldingarð í Eden langt austur frá.“ Þetta var unaðslegur garður, líkur forsíðumyndinni, þótt enn væru þar aðeins tvær manneskjur, Adam og kona hans. Þessi upphaflega paradís er ekki lengur til því að hún eyddist í flóðinu á dögum Nóa. En vitað er hér um bil hvar hún var í Miðausturlöndum, því að sumar árnar, sem Biblían segir hafa runnið um hana, eru til enn þann dag í dag. (1. Mósebók 2:7-14) Maðurinn hafði stórkostlegt tækifæri til að rækta alla jörðina út frá þessum miðpunkti, breyta henni í paradís er næði um allan hnöttinn. — Jesaja 45:12, 18.

26 Alveg eins og Guð og sonur hans eru verkamenn, eins fékk Guð manninum verk að vinna hér á jörðinni. (Jóhannes 5:17) Hann sagði við Adam og Evu, fyrsta manninn og konuna: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Þýddi það að maðurinn ætti að margfaldast, fylla jörðina, og halda síðan áfram að fjölga sér þar til jörðin væri yfirfull? Nei. Þegar einhver segir þér að hella kaffi í bolla heldur þú ekki áfram að hella þar til rennur út úr bollanum og flæðir um allt borðið. Þú fyllir bollann og hættir svo að hella. Á sama hátt gaf boð Jehóva til mannsins um að fylla jörðina til kynna þann tilgang hans, að jörðin skyldi fyllt að þægilegu marki og síðan skyldi mannkynið hætta að fjölga sér. Það yrði ekkert vandamál í fullkomnu mannfélagi. Offjölgun er vandamál aðeins í okkar ófullkomna mannheimi.

Hvers vegna leyfir Guð hið illa?

27. Hvaða spurningar krefjast svara?

27 Ef sá er tilgangur Guðs að jörðin sé paradís, hvernig stendur þá á því að hún er núna yfirfull af vonsku, þjáningum og sorg? Ef Guð er almáttugur, hvers vegna hefur hann leyft þetta ástand svona lengi? Er von um að allir okkar erfiðleikar taki einhvern tíma enda? Hvað segir Biblían um það?

28. Hvaða uppreisn braust út í paradísinni?

28 Biblían sýnir okkur að erfiðleikar mannkynsins hófust þegar einn af andasonum Jehóva gerði uppreisn gegn drottinvaldi hans eða herradæmi. (Rómverjabréfið 1:20; Sálmur 103:22, Ísl. bi. 1859) Vafalaust var þessi engill einn þeirra sem fagnaði því að sjá manninn skapaðan. En síðan skaut ágirnd og dramb rótum í hjarta hans, og hann tók að girnast að láta Adam og Evu tilbiðja sig í stað skaparans, Jehóva. Þessi engill talaði til Evu í gegnum höggorm, líkt og búktalari lætur líta út sem brúða tali, og lokkaði Evu til að óhlýðnast alvöldum Guði. Eiginmaður hennar, Adam, fylgdi henni í óhlýðninni. — 1. Mósebók 2:15-17; 3:1-6; Jakobsbréfið 1:14, 15.

29. (a) Hvaða deilumál þurfti nú að útkljá? (b) Hvernig hefur Guð tekið þeirri áskorun? (c) Hvernig getur þú átt hlut í að svara ögrunarorðum Satans?

29 Þessi uppreisnargjarni engill var síðar kallaður ‚hinn gamli (eða upprunalegi) höggormur.‘ (Opinberunarbókin 12:9; 2. Korintubréf 11:3) Hann er líka nefndur Satan, sem merkir „andstæðingur,“ og djöfull sem merkir „rógberi.“ Hann dró í efa að stjórn Jehóva yfir jörðinni væri rétt og réttlát, og ögraði Guði með því að nú gæti hann, Satan, snúið öllu mannkyni frá sannri guðsdýrkun. Guð hefur gefið Satan um 6000 ár til að reyna að sanna ásakanir sínar, þannig að deilan um drottinvald Jehóva yrði útkljáð um alla eilífð. Stjórn manna óháð Guði hefur brugðist hrapallega. En karlar og konur trúarinnar hafa varðveitt ráðvendni við Guð í gegnum erfiðustu prófraunir, og þar með upphafið nafn Jehóva og sannað djöfulinn lygara. Af þeim skarar Jesús fram úr. (Lúkas 4:1-13; Jobsbók 1:7-12; 2:1-6; 27:5) Þú getur líka verið ráðvandur maður. (Orðskviðirnir 27:11) En Satan er ekki eini óvinurinn sem hrjáir okkur. Hvaða annan óvin er við að etja?

Óvinurinn dauðinn

30. Hvað segir Ritningin um þá refsingu sem maðurinn hlaut fyrir óhlýðni sína?

30 Guð hafði sagt hver yrði refsingin fyrir óhlýðni — dauði. Þegar Jehóva felldi dóm yfir fyrstu konunni sagði hann: „Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.“ Við manninn Adam sagði hann: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:16-19) Þessi óhlýðnu hjón voru rekin út úr paradís unaðarins út á hinn óræktaða hluta jarðarinnar. Að síðustu dóu þau. — 1. Mósebók 5:5.

31. Hvað er synd og hvaða afleiðingar hefur hún haft fyrir mannkynið?

31 Adam og Eva eignuðust ekki börn fyrr en eftir að þau höfðu misst marks sem fullkomnir menn. Allir núlifandi menn eru ófullkomnir afkomendur þeirra og deyja því. Biblíuritari einn lýsti því þannig: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ Hver er þessi „synd“? Hún er það að missa marks fullkomleika eða algerleika. Jehóva Guð hefur ekki velþóknun á né heldur á lífi neinu sem er ófullkomið. Þar eð allir menn hafa erft synd og ófullkomleika frá hinum fyrsta manni, Adam, hefur dauðinn „ríkt“ yfir þeim eins og konungur. (Rómverjabréfið 5:12, 14) Hinn fallni maður deyr á sama hátt og dýrin. — Prédikarinn 3:19-21.

32. Hvernig lýsir Biblían dauðanum sem við höfum tekið í arf?

32 Hvað er þessi „dauði“? Dauði er andstæða lífs. Guð hafði gefið manninum von um endalaust líf á jörðinni ef hann væri hlýðinn. Maðurinn óhlýðnaðist hins vegar og refsingin var dauði, meðvitundarleysi, það að vera ekki til. Guð sagði ekkert um það að hann ætlaði að flytja manninn yfir á andlegt tilverusvið eða í brennandi „helvíti“ ef hann óhlýðnaðist og dæi. Hann hafði aðvarað manninn: ‚Þú skalt vissulega deyja.‘ Það var manndráparinn djöfullinn sem hafði logið og sagt: „Vissulega munuð þið ekki deyja.“ (1. Mósebók 2:17; 3:4; Jóhannes 8:44) Allir menn hafa fengið í arf frá Adam dauða í dufti jarðar. — Prédikarinn 9:5, 10; Sálmur 115:17; 146:4.

33. (a) Hvaða dýrleg framtíð bíður mannkynsins hér á jörð? (b) Hverju þrennu áorkar Jehóva í gegnum son sinn?

33 Á sá maður sem deyr sér þá enga framtíð? Jú, stórkostlega framtíð! Biblían sýnir okkur fram á að tilgangur Guðs um jarðneska paradís fyrir allt mannkynið, þar á meðal þá sem dánir eru, muni aldrei bregðast. Jehóva segir: „Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín.“ „[Ég mun] gjöra vegsamlegan stað fóta minna.“ (Jesaja 66:1; 60:13) Vegna hins ríkulega kærleika síns sendi Jehóva son sinn, Orðið, til jarðar, til að mannheimurinn gæti eignast líf í gegnum hann. (Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:9) Það er þrennt sem Jehóva kemur til leiðar í gegnum son sinn: (1) Hann sér fyrir lausn undan valdi dauðans, (2) vekur hina dánu aftur til lífs og (3) kemur á fót fullkominni stjórn yfir öllu mannkyni. Við skulum nú ræða þessi atriði lið fyrir lið.

Lausn undan valdi dauðans

34, 35. (a) Hvernig var hægt að leysa manninn úr fjötrum dauðans? (b) Hvað er lausnargjald?

34 Frá fornu fari hafa spámenn Guðs látið í ljós traust sitt, ekki til ódauðleika mannsins, heldur þeirrar vonar að Guð ‚leysi þá‘ frá dauðanum. (Hósea 13:14) En hvernig væri hægt að leysa mann úr fjötrum dauðans? Fullkomið réttlæti Jehóva krafðist þess að látið væri „líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.“ (5. Mósebók 19:21) Þar eð Adam hafði leitt erfðadauða yfir allt mannkynið, með því að óhlýnast Guði sjálfviljugur og fyrirgera mannlegum fullkomleika, þurfti annar fullkominn maður að koma í stað Adams er leggði sitt fullkomna líf í sölurnar, til að endurkaupa það sem Adam hafði glatað.

35 Sú sanngjarna meginregla að gjalda að jöfnu hefur notið víðtækrar viðurkenningar í sögu mannsins. Oft er talað um að „greiða lausnargjald.“ Hvað er lausnargjald? Það er „gjald greitt til að heimta aftur mann eða hlut úr höndum þess sem hefur hann í haldi. Því er talað um að greitt sé lausnargjald fyrir stríðsfanga eða þræla þegar þeim er sleppt í skiptum fyrir verðmæti. . . . Hvað sem látið er af hendi fyrir einstaklinginn er lausnargjald hans.“d Frá synd Adams hafa allir menn verið eins og stríðsfangar eða þrælar, í fjötrum ófullkomleika og dauða. Til að leysa þá þurfti að greiða lausnargjald. Til að forðast deilu nú eða síðar út af því hvort lausnargjaldið hafi verið sanngjarnt var nauðsynlegt að fórna einu fullkomnu mannslífi, það er að segja nákvæmu jafngildi Adams.

36. Hvernig gaf Jehóva fullkomið mannslíf sem lausnargjald?

36 En hvar væri fullkominn mann að finna er gefið gæti líf sitt? Allir menn, afkomendur hins ófullkomna Adams, hafa fæðst ófullkomnir. „Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.“ (Sálmur 49:8) Vegna hins djúpa kærleika síns til mannkynsins gaf Jehóva sinn ástkæra ‚frumgetna‘ son til að færa þessa nauðsynlegu fórn. Hann flutti fullkomið líf þessa andasonar, Orðsins, í móðurlíf gyðingameyjar að nafni María. Unga konan varð barnshafandi og ól síðar son sem nefndur var „Jesús.“ (Matteus 1:18-25) Skapara lífsins er tæplega ofviða að vinna slíkt kraftaverk.

37. Hvernig sýndi Jesús kærleika sinn til allra manna sem þrá að lifa?

37 Jesús óx upp, varð fullvaxta, bauð sig Jehóva til þjónustu og var skírður. Síðan fól Guð honum að gera vilja sinn. (Matteus 3:13, 16, 17) Þar eð líf Jesús var frá himnum komið og hann var fullkominn, gat hann fórnað þessu fullkomna mannslífi, notað það til að leysa mannkynið úr fjötrum dauðans. (Rómverjabréfið 6:23; 5:18, 19) Hann sagði: „Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.“ „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 10:10; 15:13) Þegar Satan fékk Jesú líflátinn á kvalastaur sætti Jesús sig við þennan grimma dauðdaga, því að hann vissi að menn sem iðkuðu trú á hann myndu hljóta líf vegna þessarar endurlausnar. — Matteus 20:28; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.

Endurreisn til lífs

38. Hvernig var sonur Guðs endurvakinn til lífs og hvað sannar það?

38 Jafnvel þótt óvinir sonar Guðs réðu honum bana missti hann aldrei rétt sinn til fullkomins lífs sem maður, því að hann hafði varðveitt ráðvendni við Guð. En hvernig gat Jesús, sem lá látinn í gröf sinni, notað þetta verðmæti, rétt sinn til lífs sem maður, í þágu mannkynsins? Hér vann Jehóva annað kraftaverk, hið fyrsta sinnar tegundar. Á þriðja degi, sem Jesús lá í gröfinni, vakti Jehóva hann upp af dauðum sem andaveru, nú ódauðlega. (Rómverjabréfið 6:9; 1. Pétursbréf 3:18) Til að menn gætu trúað á upprisuna myndaði Jesús efnislíkama við ýmis tækifæri og birtist lærisveinum sínum, einu sinni yfir 500 í einu. Enginn þeirra, ekki heldur Páll postuli sem blindaðist þegar hinn dýrlega gerði Jesús birtist honum, hafði nokkra ástæðu til að efast um það kraftaverk sem upprisa hans var. — 1. Korintubréf 15:3-8; Postulasagan 9:1-9.

39. (a) Hvernig notar Jesús verðgildi fórnar sinnar, og hverjir njóta þess fyrstir? (b) Um hvaða annað mikið kraftaverk talaði Jesús?

39 Að fjörutíu dögum liðnum steig hinn upprisni Jesús upp til himna í návist Guðs, til að bera þar fram verðmæti sinnar fullkomnu mannsfórnar til lausnar mannkyninu. „En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs, og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.“ (Hebreabréfið 10:12, 13) Þeir fyrstu, sem þetta lausnargjald leysir, eru ‚lítil hjörð‘ trúfastra kristinna manna ‚sem Kristi tilheyra.‘ (Lúkas 12:32; 1. Korintubréf 15:22, 23) Þeir eru ‚leystir út frá jörðinni‘ og verða því við upprisu sína andaverur með Kristi á himnum. (Opinberunarbókin 14:1-5) En hvað um hinn mikla manngrúa sem liggur látinn í gröf sinni? Þegar Jesús var á jörðinni sagði hann að faðir hans hefði gefið honum vald til að dæma og lífga. Hann bætti við: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir . . . munu rísa upp.“ (Jóhannes 5:26-29) Hann mun endurreisa þá til lífs á jörð sem verður paradís.

40, 41. (a) Útskýrðu nákvæmlega hvað átt er við með hugtakinu „upprisa.“ (b) Hvers vegna getum við haft trú á fyrirheit Guðs um upprisu?

40 Taktu eftir því að Jesús sagði: „Undrist þetta ekki.“ En hvernig er hægt að leysa úr helgreip dauðans og lífga á ný þann sem legið hefur lengi í gröf sinni? Er ekki líkami hans orðinn aftur að mold? Aðrar lifandi verur, svo sem jurtir og dýr, kunna að hafa tekið til sín efni sem áður voru í líkama hans. En upprisa þýðir ekki að safna þurfi saman sömu frumefnunum á ný. Hún felur í sér að Guð endurskapar sömu persónuna og gefur henni sama persónuleika. Hann myndar nýjan líkama úr frumefnum jarðarinnar, og gæðir þennan líkama sömu eiginleikum og einkennum, sama minni og minningu, sama lífsmynstri og einstaklingurinn hafði gert sér áður en hann dó.

41 Ef til vill hefur það komið fyrir þig að hús, sem þér var mjög kært, brann til grunna. Það væri þó hægðarleikur fyrir þig að láta endurbyggja sama húsið, því að hvert smáatriði er vafalaust skýrt í huga þér. Guð, sem er höfundur mannshugans, hlýtur því að geta endurskapað þá menn sem hann elskar og geymir því í minningu sinni. (Jesaja 64:8) Þegar upp rennur tími Guðs til að endurlífga hina látnu mun hann vinna það kraftaverk, alveg eins og hann vann kraftaverk þegar hann skapaði fyrsta manninn. Þessu sinni vinnur hann sama kraftaverkið aftur og aftur. — 1. Mósebók 2:7; Postulasagan 24:15.

42. Hvers vegna er eilíft líf á jörðinni bæði mögulegt og áreiðanlegt?

42 Guð mun lífga mannkynið aftur og það á þá í vændum að þurfa aldrei framar að deyja. En hvernig er eilíft líf á jörðinni hugsanlegt? Það er hugsanlegt og öruggt vegna þess að það er vilji og tilgangur Guðs. (Jóhannes 6:37-40; Matteus 6:10) Eina ástæðan fyrir því að menn deyja núna er sú að þeir hafa erft dauðann frá Adam. Þegar við hins vegar leiðum hugann að óendanlegri fjölbreytni og fegurð þess sem á jörðinni er, og manninum var ætlað að njóta, er stutt mannsævi innan við hundrað ár allt of skömm! Þegar Guð gaf mannanna börnum jörðina var það ætlun hans að maðurinn skyldi halda áfram að lifa og njóta hinna fögru sköpunarverka hans, ekki bara í hundrað ár eða jafnvel þúsund, heldur að eilífu! — Sálmur 115:16; 133:3.

Hin fullkomna friðarstjórn

43. (a) Hvaða þörf er fyrir fullkomna stjórn? (b) Hvað ætlast Jehóva fyrir í því efni?

43 Með því að okkar fyrstu foreldrar höfnuðu lögum Guðs komst mannleg stjórn undir yfirráð Satans. Það á því vel við að Biblían skuli kalla Satan „guð þessarar aldar“ eða heimskerfis. (2. Korintubréf 4:4) Styrjaldirnar, grimmdin, spillingin og fallvaltleiki mannlegra stjórna sanna að svo er. Þjóðabandalaginu og Sameinuðu þjóðunum hefur mistekist að breyta glundroðanum í frið. Mannkynið hrópar á hjálp; það þráir friðarstjórn. Er ekki rökrétt að skaparinn, sem ætlar sér að endurreisa paradís á jörð, sjái líka fyrir fullkominni friðarstjórn í þessari paradís? Sá er einmitt ásetningur Jehóva. Konungurinn, sem er fulltrúi hans í þessari stjórn, er „Friðarhöfðingi“ hans, Kristur Jesús, og ‚höfðingjadómurinn verður mikill og friðurinn tekur engan enda.‘ — Jesaja 9:6, 7.

44. (a) Hvar verður þessi stjórn? (b) Hvernig verður hún samsett?

44 Biblían sýnir okkur að þessi fullkomna stjórn verður á himnum. Frá þeim háa sjónarhóli mun konungurinn Jesús Kristur stjórna jörðinni í fullu réttlæti. Auk þess mun hann eiga sér meðstjórnendur í þessari ósýnilegu, himnesku stjórn. Þeir eru valdir úr hópi trúfastra manna, fylgjenda Jesú sem fylgja honum í gegnum þykkt og þunnt og hann segir við: „Yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér.“ (Lúkas 22:28, 29) Aðeins fáeinir menn eru teknir til himna til að stjórna með Kristi Jesú. Það er ekki ósvipað og hjá þjóðunum þar sem aðeins fáeinir eru valdir eða kosnir til að sitja á þingi og fara með stjórnina. Biblían sýnir okkur að Jesús Kristur mun eiga sér aðeins 144.000 meðstjórnendur. Ríki Guðs, hin himneska stjórn, er því myndað af Kristi Jesú og 144.000 mönnum sem teknir eru frá jörðinni. (Opinberunarbókin 14:1-4; 5:9, 10) Og hvað um jörðina? Sálmur 45:17 getur þess að konungurinn muni skipa ‚höfðingja um land allt.‘ Mennskir ‚höfðingjar,‘ umsjónarmenn á vegum stjórnarinnar, verða skipaðir af himnum ofan vegna djúprar hollustu sinnar við réttlætið. — Samanber Jesaja 32:1.

45, 46. (a) Hvert var megininntak prédikunar Jesú á jörðinni? (b) Hvers vegna var hin fullkomna stjórn ekki sett á laggirnar þá þegar? (c) Hvernig sker árið 1914 sig úr, bæði í spádómunum og heimsatburðunum?

45 Hvenær og hvernig er hinni fullkomnu stjórn komið á fót? Þegar Jesús var á jörðinni var þetta ríki megininntak prédikunar hans. (Matteus 4:17; Lúkas 8:1) Ríkinu var þó ekki komið á fót á þeim tíma og ekki heldur við upprisu hans. (Postulasagan 1:6-8) Jafnvel eftir að Jesús steig upp til himna þurfti hann að bíða hins tilsetta tíma Jehóva. (Sálmur 110:1, 2; Hebreabréfið 1:13) Spádómar Biblíunnar sýna að sá tími rann upp árið 1914. Einhver kann að andmæla og spyrja hvort heimurinn hafi ekki litið auknar hörmungar árið 1914 í stað fullkominnar stjórnar. Jú, það er alveg rétt! Náin tengsl eru milli komu Guðsríkis og stórhörmunga síðustu ára eins og við munum komast að raun um.

46 Í um 35 ár fyrir 1914 hafði Varðturninn (nú útbreiddasta trúartímarit veraldar) vakið athygli á að spádómar Biblíunnar bentu á árið 1914. Þessir spádómar byrjuðu að uppfyllast með eftirtektarverðum hætti árið 1914. Einn þeirra var spádómur Jesú, borinn fram fyrir 1900 árum, um „tákn“ sem birtast myndi við endalok heimskerfisins og sanna að hann væri kominn sem ósýnilegur konungur. Í svari sínu við spurningu lærisveinanna um þetta „tákn“ sagði hann: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ (Matteus 24:3, 7, 8) Spádómurinn uppfylltist með eftirtektarverðum hætti þegar fyrsta heimsstyrjöldin braust út árið 1914 með sjöfalt meiri eyðileggingu en allar hinar 900 styrjaldir undangenginna 2500 ára! Fæðingarhríðirnar hafa haldið áfram síðan. Hefur þú orðið vitni að eyðileggingu styrjalda, matvælaskorti, eða einhverjum hinna miklu jarðskjálfta sem hafa þjakað jörðina frá 1914? Ef svo er hefur þú verið sjónarvottur ‚táknsins‘ um endalokatíma þessa heimskerfis. — Daníel 12:4.

47. Hvernig hafa þeir atburðir, sem uppfylla ‚táknið,‘ færst í aukana á síðustu árum?

47 ‚Fæðingarhríðirnir‘ hafa færst í aukana í og með síðari heimsstyrjöldinni, sem olli fjórfalt meiri eyðileggingu en sú fyrri, og allt fram á kjarnorkuöldina. Þar hefur uppfyllst annað atriði í spádómi Jesú: „Á jörðu [verður] angist þjóða, ráðalausra . . . Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ (Lúkas 21:25, 26) Hinn mikli vöxtur glæpa og mannvonsku, óhlýðni og afbrota meðal barna, svo og guðleysis og siðleysis — þessi skelfilega þróun var líka sögð fyrir sem tákn ‚síðustu daga‘ þessa illa heimskerfis. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:12.

48. Hver ber ábyrgðina á hörmungum jarðarinnar og hvers vegna hafa þær magnast frá 1914?

48 En hvers vegna eru öll þessi bágindi á jörðinni ef hin himneska stjórn var stofnsett árið 1914? Það er Satan djöfullinn sem ber ábyrgðina. Þegar Kristur tók við völdum sem konungur Guðsríkis var fyrsta verk hans að heyja stríð við Satan á himnum. Því lyktaði svo að Satan, „sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina,“ var varpað niður í næsta nágrenni jarðarinnar. Hann veit að hans eigin tortíming nálgast óðfluga og veldur því miklum erfiðleikum á jörðinni. Það er ‚vei fyrir jörðina og hafið, því að djöfullinn er stiginn niður í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.‘ — Opinberunarbókin 12:7-9, 12.

49. (a) Hvernig mun fara fyrir þeim sem „jörðina eyða“? (b) Hvernig mun Jehóva fullnægja dómi sínum yfir þjóðunum?

49 Taka þessi vei einhvern tíma enda? Já. Þegar ríkisstjórn himnanna, ríki hins alvalda Guðs, lætur til skarar skríða „til að eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18; Daníel 2:44) Guð mun aldrei leyfa stórveldum, falskristnum mönnum eða neinum öðrum að eyðileggja handaverk sitt, jörðina, með kjarnorkuvopnum sínum. Hann segir: „Það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði.“ (Sefanía 3:8) Jehóva mun nota Krist til að beita þeim miklu öflum, sem hann ræður yfir, til að gereyða öllum sem fylgja Satan á jörðinni. Sú eyðing mun ná um allan hnöttinn, lík að umfangi og flóðið á dögum Nóa. — Jeremía 25:31-34; 2. Pétursbréf 3:5-7, 10.

50. (a) Hvað er „Harmagedón“? (b) Hverjir einir munu lifa af Harmagedón?

50 Í Biblíunni er þessi eyðing hinna óguðlegu þjóða nefnd stríð Guðs við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14-16) Einungis auðmjúkir menn, þeir sem leita Jehóva og réttlætisins, geta lifað af Harmagedón og komist inn í hina friðsömu nýju skipan Guðs. (Sefanía 2:3; Jesaja 26:20, 21) Um þá segir Biblían: „En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:11) Þá hefst hin mikilfenglega endurreisn paradísar á jörð!

Menntun til inngöngu í paradís

51. Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir þig að láta til skarar skríða núna?

51 Langar þig til að búa í paradís? Ef þú svarar því játandi munt þú fagna þeirri vitneskju að Jesús bætti við, þegar hann talaði um erfiðleika hinnar núverandi heimsskipanar og „tákn“ þess að eyðing hennar væri nálæg: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ Sumir af kynslóðinni, sem sá „upphaf fæðingarhríðanna“ árið 1914, munu lifa það að sjá paradís endurreista á jörðinni. (Matteus 24:3-8, 34) Það er þó hryggileg staðreynd að flestir eru núna á breiða veginum sem liggur til tortímingar. (Matteus 7:13, 14) Nú er knappur tími til að breyta um stefnu. Þú getur sannarlega verið Jehóva þakklátur fyrir að gefa aðvörun í tæka tíð! Þar eð Jehóva vill að þú lifir hjálpar hann þér að stíga réttu skrefin. — 2. Pétursbréf 3:9; Esekíel 18:23.

52. Hvers þarfnast þú til að taka viturlega ákvörðun í sambandi við trú þína?

52 Þú hefur brennandi þörf fyrir nákvæma þekkingu. (1. Tímóteusarbréf 2:4; Jóhannes 17:3) Hvar getur þú fengið hana? Er hana að finna hjá hvaða trúarbrögðum eða trúfélagi sem verkast vill? Sumir segja að öll trúarbrögð séu einungis mismunandi leiðir að sama marki, alveg eins og allir gangstígar á fjalli liggi upp á tindinn. Þar skjátlast þeim alvarlega! Fjallgöngumenn nota kort og ráða leiðsögumenn til að finna réttu leiðina upp á tindinn. Á sama hátt eru aðeins til ein sönn trúarbrögð sem leiða til eilífs lífs, og leiðsagnar er þörf til að finna þau. — Postulasagan 8:26-31.

53. (a) Hvað þarft þú að halda áfram að gera til að hljóta eilíft líf? (b) Hvaða freistingar Satans getur þú þurft að yfirstíga?

53 Vottar Jehóva hafa gefið út þennan bækling til að hjálpa þér. Hann hefur nú þegar hjálpað þér að skilja ýmis frumsannindi Biblíunnar, er ekki svo? Vafalaust hefur þú sannreynt sjálfur að hvert atriði sé byggt á innblásnu orði Guðs. Til að sækja fram að markinu þarft þú að halda áfram að læra. Alveg eins og rétt, veraldleg menntun er nauðsynleg til að einstaklingurinn falli inn í þjóðfélag nútímans, eins er rétt menntun í Biblíunni nauðsynleg til að gera fólk hæft til inngöngu í það þjóðfélag sem fær að lifa inn í hinn nýja paradísarheim. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Satan kann að reyna að draga athygli þína frá því með því að láta nána ættingja eða vini snúast gegn þér, eða með því að freista þín með eigingjarnri efnishyggju eða siðleysi. Láttu ekki undan Satan. Öryggi þitt og öll framtíð þín og fjölskyldu þinnar er undir því komin að þú haldir áfram að nema Biblíuna. — Matteus 10:36; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

54. Hvaða aðra ráðstöfun til menntunar hefur Jehóva gert?

54 Auk þess að halda áfram núverandi biblíunámi þínu er þér önnur leið opin til að læra. Fólk í þínu byggðarlagi, sem hefur áhuga á biblíumenntun, sækir reglulega samkomur í næsta Ríkissal. Allir sem sækja þær gera það til að fræðast af Biblíunni og leggja sig einlæglega fram um að verða betri manneskjur. Þeir taka gestum opnum örmum og segja við þá: „Komið, förum upp á fjall Drottins [á tilbeiðslustað hans] . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ (Jesaja 2:3) Í Hebreabréfinu 10:24, 25 eru færð góð rök fyrir því að sækja slíkar samkomur. Þar segir: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“

55. (a) Á hvaða vegu er skipulag Jehóva ólíkt öðrum samtökum? (b) Hvernig eru vottar Jehóva sameinaðir ólíkt öllum öðrum?

55 Þegar þú umgengst þá sem mynda skipulag Jehóva munt þú uppgötva að andrúmsloftið meðal þeirra er mjög ólíkt því sem gerist í musterum og kirkjum heimsins. Þar er ekki falast eftir fé, menn deila ekki eða baknaga hver annan, og mönnum er ekki mismunað eftir efnum eða uppruna. Kærleikur er sá eiginleiki sem mest ber á meðal votta Jehóva. Í fyrsta lagi elska þeir Jehóva og í öðru lagi elska þeir annað fólk. Þetta eru einkenni sannrar kristni. (Matteus 22:37-39; Jóhannes 13:35) Þú ættir að sækja samkomur þeirra og sannreyna það. Vafalaust mun þér finnast mikið til um einingu þeirra. Vottar Jehóva telja nú yfir þrjár milljónir í liðlega 200 löndum. Samt sem áður er sama dagskrá á samkomum vottanna um allan heiminn. Og þar eð rit og upplýsingar birtast samtímis á fjölmörgum tungumálum nemur stór hluti votta Jehóva út um heiminn sama biblíuefni nánast á sama tíma. Eining skipulags Jehóva er kraftaverk í sundruðum heimi nútímans.

56. (a) Hvaða gagn getur þú haft af samfélagi við skipulag Jehóva? (b) Hvernig ættir þú að bregðast við þegar vandamál koma upp? (c) Hvers vegna er þýðingarmikið fyrir þig að vígja Jehóva líf þitt?

56 Þegar þú hefur reglulegt samfélag við þjóna Jehóva munt þú þurfa að íklæðast nýjum persónuleika og rækta ávexti anda Guðs — ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku og sjálfstjórn.‘ (Kólossubréfið 3:10, 12-14; Galatabréfið 5:22, 23) Það mun veita þér djúpa ánægjukennd. Þú kannt af og til að þurfa að yfirstíga vandamál, vegna þess að þú býrð í spilltum heimi, svo og vegna ófullkomleika þíns, en Jehóva mun hjálpa þér. Orð hans fullvissar þá sem reyna í einlægni að þóknast honum: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Kærleikur Jehóva mun laða þig að honum þannig að þig mun langa til að þjóna honum. Vottar Jehóva munu fúslega sýna þér hvernig þú getir vígt líf þitt þessum kærleiksríka Guði og orðið þeirra sérréttinda aðnjótandi að verða einn votta hans. (Sálmur 104:33; Lúkas 9:23) Já, það eru sérréttindi. Hugsaðu þér! Sem tilbiðjandi Jehóva getur þú keppt að því marki sem er eilíft líf í paradís hér á jörð. — Sefanía 2:3; Jesaja 25:6, 8.

57. (a) Hvaða náið samband verður milli Guðs og mannkynsins í hinni nýju skipan? (b) Tilgreindu sumt af þeirri blessun sem þú getur notið þá.

57 Haltu því áfram að nema Biblíuna og vaxa í kærleika og þakklæti til Jehóva Guðs, sonar hans og hinnar réttlátu, himnesku stjórnar. Biblíuspádómur lýsir stjórn Guðs og blessuninni, sem hún mun úthella yfir mannkynið, svo: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim.“ „Guð sjálfur,“ sem er hátt upp hafinn yfir eigingjarna og spillta mannastjórn okkar tíma, verður mjög nálægur eins og elskuríkur faðir öllum sem elska hann og tilbiðja í þeirri nýju skipan. Þá verður aðeins ein trú, hin sanna trú og tilbeiðsla á Jehóva Guði, og dýrkendur hans munu eiga innilegt samband eins og börn við föður sinn. Hann mun reynast stórkostlegri faðir en orð fá lýst! „Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

58. Hvers vegna mátt þú vera viss um að Jehóva muni ‚gera alla hluti nýja‘?

58 Hið mikla kraftaverk að umbreyta jörðinni í paradís undir umsjón fullkominnar, himneskrar stjórnar, verður þá orðið að veruleika. Það er jafnvíst og að sólin mun koma upp og ganga til viðar á morgun. Loforð Jehóva Guðs, skapara himins og jarðar, eru alltaf ‚trú og sönn.‘ Hann lýsir yfir frá hásæti sínu á himnum: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ — Opinberunarbókin 21:5.

Hvernig svarar þú eftirfarandi spurningum til upprifjunar á efni þessa bæklings?

Á hvaða vegu er Biblían einstök?

Hvað lærðir þú um Guð?

Hver er Kristur Jesús?

Hver er Satan djöfullinn?

Hvers vegna hefur Guð leyft hið illa?

Hvers vegna deyr maðurinn?

Hvert er ástand hinna dauðu?

Hvað er lausnargjaldið?

Hvar og hvernig fer upprisan fram?

Hvað er Guðsríki og hverju mun það áorka?

Hvert er ‚táknið‘ um ‚endalok heimskerfisins‘?

Hvernig getur þú búið þig undir eilíft líf í paradís?

[Neðanmáls]

a Til stuðnings ofannefndu vitnum við í eftirfarandi staði í Biblíunni (innan sviga er númer þeirrar greinar sem tilvitnunin á við): (1) Postulasagan 17:26; Sálmur 46:10; Míka 4:3, 4; Jesaja 65:21-23; (2) Jesaja 65:25; 11:6-9; 55:12, 13; Sálmur 67:7, 8; (3) Jobsbók 33:25; Jesaja 35:5, 6; 33:24; Sálmur 104:24; (4) Jesaja 55:11.

b Nema annað sé tekið fram eru allar biblíutilvitnanir í þessu riti gerðar í íslenska útgáfu Biblíunnar frá 1981.

c Monarchs and Tombs and Peoples — The Dawn of the Orient, bls. 25.

d Cyclopedia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature, eftir J. McClintock og J. Strong, 8. bindi, bls. 908.

[Myndir á blaðsíðu 13]

Sem sköpunarverk er maðurinn miklu fremri en dýrin.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Jesús var jafningi hins fullkomna manns Adams

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila