Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Látnir ástvinir verða reistir upp
    Hvað kennir Biblían?
    • 7. KAFLI

      Látnir ástvinir verða reistir upp

      • Hvernig vitum við að látnir verða reistir upp?

      • Hvað sýnir að Jehóva langar til að reisa upp þá sem eru dánir?

      • Hverjir verða reistir upp frá dauðum?

      1-3. Hvaða óvinur er á hælunum á okkur öllum og hvers vegna er hughreysting í því sem Biblían kennir?

      ÍMYNDAÐU þér að þú sért á flótta undan hættulegum óvini. Þú hleypur sem fætur toga en óvinurinn er bæði fljótari og miklu sterkari en þú. Þú veist að hann er miskunnarlaus vegna þess að þú hefur séð hann drepa nokkra af vinum þínum. Hann dregur á þig hægt og bítandi, hversu hratt sem þú hleypur. Öll von virðist úti. En skyndilega birtist bjargvættur við hlið þér og lofar að hjálpa þér. Hann er miklu sterkari en óvinurinn. Hvílíkur léttir!

      2 Í vissum skilningi ertu með slíkan óvin á hælunum. Reyndar á það við um alla menn. Í Biblíunni er dauðinn kallaður óvinur eins og fram kom í síðasta kafla. Enginn getur stungið hann af eða hrakið hann á brott. Flest höfum við séð hann leggja einhverja ástvini okkar að velli. En Jehóva er margfalt sterkari en dauðinn. Hann er kærleiksríkur bjargvættur og er búinn að sýna fram á að hann getur yfirbugað þennan óvin. Og hann lofar að gera út af við hann í eitt skipti fyrir öll. „Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður,“ segir Biblían. (1. Korintubréf 15:26) Þetta eru gleðifréttir!

      3 Lítum stundarkorn á þau áhrif sem þessi óvinur hefur þegar hann leggur til atlögu. Þá skiljum við betur hvað Jehóva ætlar að gera fyrir okkur. Hann hefur lofað að lífga aftur þá sem dánir eru. (Jesaja 26:19) Hann reisir þá upp frá dauðum. Þetta er gleðileg von.

      ÞEGAR ÁSTVINUR DEYR

      4. (a) Hvers vegna eru viðbrögð Jesú við ástvinamissi lýsandi fyrir tilfinningar Jehóva? (b) Hvaða góða vini átti Jesús?

      4 Hefurðu misst ástvin? Sársaukinn, sorgin og vanmátturinn getur verið óbærilegur. Þegar dauðinn knýr dyra þurfum við að leita huggunar í orði Guðs. (2. Korintubréf 1:3, 4) Biblían gefur okkur innsýn í hvað Jehóva og Jesú finnst um dauðann. Jesús, sem var fullkomin eftirmynd föður síns, vissi hve sárt það var að missa ástvin. (Jóhannes 14:9) Þegar hann var staddur í Jerúsalem var hann vanur að heimsækja Lasarus og systur hans, þær Mörtu og Maríu, en þau bjuggu í grannbænum Betaníu. Þeim varð vel til vina. Biblían segir að Jesús hafi ‚elskað þau Mörtu og systur hennar og Lasarus‘. (Jóhannes 11:5) En Lasarus dó eins og fram kom í síðasta kafla.

      5, 6. (a) Hvernig brást Jesús við þegar hann hitti sorgmædda ættingja og vini Lasarusar? (b) Af hverju er sorg Jesú uppörvandi fyrir okkur?

      5 Hvernig var Jesú innanbrjósts þegar vinur hans dó? Frásagan segir að hann hafi verið djúpt snortinn þegar hann hitti sorgmædda vini og ættingja Lasarusar. ‚Hann komst við í anda og varð hrærður mjög,‘ segir Biblían og bætir við: „Þá grét Jesús.“ (Jóhannes 11:33, 35) Hafði Jesús þá enga von fyrst hann syrgði vin sinn? Jú, og hann vissi að stórkostlegur atburður var í þann mund að gerast. (Jóhannes 11:3, 4) Engu að síður fann hann fyrir sársaukanum og sorginni sem dauðinn veldur.

      6 Sorg Jesú er á vissan hátt uppörvandi fyrir okkur því að hún sýnir að Jesús og Jehóva, faðir hans, hata dauðann. En Jehóva Guð er fær um að berjast við þennan óvin og yfirbuga hann. Við skulum sjá hvað Jesús gat gert í krafti Guðs.

      „LASARUS, KOM ÚT!“

      7, 8. (a) Hvers vegna virtist staða Lasarusar vonlaus frá mannlegum bæjardyrum séð? (b) Hvað gerði Jesús?

      7 Lík Lasarusar hafði verið lagt í helli og steinn settur fyrir hellismunnann. Jesús bað um að steinninn væri tekinn frá. Marta andmælti vegna þess að þetta var á fjórða degi síðan Lasarus dó þannig að líkið var byrjað að rotna. (Jóhannes 11:39) Var þá nokkur von frá mannlegum bæjardyrum séð?

      Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum og kallar hann fram úr gröfinni á meðan fjölskyda og vinir fagna

      Upprisa Lasarusar vakti mikla gleði. — Jóhannes 11:38-44.

      8 Steininum var velt frá og Jesús hrópaði hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Og það skipti engum togum að „hinn dáni kom út“. (Jóhannes 11:43, 44) Þú getur rétt ímyndað þér gleði viðstaddra. Allir vissu að Lasarus var dáinn — systur hans, aðrir ættingjar, vinir og nágrannar. En nú stóð hann þarna mitt á meðal þeirra, maðurinn sem var þeim svo kær. Fólk hefur örugglega ekki trúað sínum eigin augum. Margir hafa eflaust faðmað Lasarus fagnandi. Hvílíkur sigur yfir dauðanum!

      Ekkja faðmar son sinn eftir að Elía reisir hann upp frá dauðum

      Elía reisti upp frá dauðum son ekkju nokkurrar. — 1. Konungabók 17:17-24.

      9, 10. (a) Hvernig upplýsti Jesús hvaðan hann fékk kraft til að reisa Lasarus upp frá dauðum? (b) Hvers vegna er gott fyrir okkur að lesa frásagnir Biblíunnar af upprisu fólks?

      9 Jesús eignaði ekki sjálfum sér heiðurinn af þessu ótrúlega kraftaverki. Rétt áður en hann kallaði Lasarus fram úr gröfinni bar hann fram bæn þar sem kom skýrt fram að þessi upprisa væri Jehóva að þakka. (Jóhannes 11:41, 42) Þetta var ekki eina skiptið sem Jehóva beitti krafti sínum á þennan hátt. Upprisa Lasarusar er aðeins eitt dæmi af níu þar sem Biblían segir frá kraftaverki af þessu tagi.a Það er ánægjulegt að lesa og íhuga þessar frásögur. Þær kenna okkur að Guð fer ekki í manngreinarálit því að í hópi hinna upprisnu voru bæði ungir og aldraðir, karlar og konur og Ísraelsmenn sem og fólk af öðrum þjóðum. Og gleðin, sem þessar frásögur lýsa, er ekki lítil! Þegar Jesús reisti unga stúlku upp frá dauðum urðu foreldrar hennar „frá sér numdir“, svo dæmi sé tekið. (Lúkas 8:56) Jehóva hafði glatt þau með ógleymanlegum hætti.

      Pétur reisir Dorkas upp frá dauðum

      Pétur postuli reisti upp kristna konu sem hét Dorkas. — Postulasagan 9:36-42.

      10 Þeir sem Jesús reisti upp dóu auðvitað aftur um síðir. Var þá til einskis að reisa þá upp frá dauðum? Nei, þessar frásögur Biblíunnar staðfesta mikilvægan sannleika og veita okkur von.

      FRÁSÖGUR BIBLÍUNNAR AF UPPRISU ERU LÆRDÓMSRÍKAR

      11. Hvernig styður frásagan af Lasarusi orð Prédikarans 9:5?

      11 Biblían kennir að ‚hinir dauðu viti ekki neitt‘. Þeir eiga sér ekkert vitundarlíf nokkurs staðar. Frásagan af upprisu Lasarusar staðfestir það. Lýsti Lasarus fjálglega hvernig það hefði verið að vera á himnum? Eða skelfdi hann fólk með hryllingssögum af logandi helvíti? Nei, ekkert slíkt er haft eftir Lasarusi í Biblíunni. Hann ‚vissi ekki neitt‘ þessa fjóra daga sem hann var dáinn. (Prédikarinn 9:5) Lasarus hafði einfaldlega sofið svefni dauðans. — Jóhannes 11:11.

      12. Hvers vegna getum við verið viss um að Lasarus hafi verið reistur upp frá dauðum í raun og veru?

      12 Við lærum það einnig af þessari frásögu að upprisan er veruleiki en ekki skáldskapur. Það voru margir sjónarvottar að því þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum. Trúarleiðtogarnir, sem hötuðu Jesú, afneituðu ekki einu sinni að þetta kraftaverk hefði átt sér stað heldur sögðu: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður [Jesús] gjörir mörg tákn.“ (Jóhannes 11:47) Margir komu til að sjá hinn upprisna með þeim afleiðingum að enn fleiri tóku trú á Jesú. Í þeirra augum var Lasarus lifandi sönnun fyrir því að Jesús væri sendur af Guði. Svo áhrifamikil var þessi sönnun að trúarleiðtogar Gyðinga áformuðu að drepa bæði Jesú og Lasarus. — Jóhannes 11:53; 12:9-11.

      13. Hvers vegna getum við trúað að Jehóva geti í raun og veru reist hina látnu upp frá dauðum?

      13 Er óraunhæft að viðurkenna upprisuna sem staðreynd? Nei, því að Jesús kenndi að „allir þeir, sem í gröfunum eru,“ verði reistir upp þegar þar að kemur. (Jóhannes 5:28) Jehóva er skapari alls lífs. Er þá erfitt að trúa því að hann geti endurskapað líf? Minni Jehóva er auðvitað veigamikill þáttur í því. Getur hann munað eftir látnum ástvinum okkar? Í alheiminum eru óteljandi stjörnur en Jehóva kallar þær allar með nafni. (Jesaja 40:26) Hann getur því munað eftir látnum ástvinum okkar í smáatriðum og er reiðubúinn að reisa þá upp frá dauðum.

      14, 15. Hvað gefur til kynna að Jehóva langi til að reisa upp þá sem eru dánir?

      14 En hvað gefur til kynna að Jehóva langi til að reisa upp þá sem eru dánir? Biblían kennir að honum sé mikið í mun að gera það. Hinn trúfasti Job spurði: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ Job átti við að hann myndi hvíla í gröfinni uns tíminn kæmi að Guð minntist hans. Hann sagði við Jehóva: „Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ — Jobsbók 14:13-15.

      15 Hugsaðu þér! Jehóva þráir að vekja hina látnu upp frá dauðum. Er það ekki ánægjuleg tilhugsun að Jehóva skuli vera þannig innanbrjósts? En hvað um upprisu framtíðarinnar? Hverjir verða reistir upp og hvar?

      „ALLIR ÞEIR, SEM Í GRÖFUNUM ERU“

      16. Við hvers konar skilyrði fá hinir upprisnu að búa á jörðinni?

      16 Frásagnir Biblíunnar af því þegar fólk var reist upp frá dauðum kenna okkur margt um upprisu framtíðarinnar. Þeir sem voru reistir upp hér á jörð sameinuðust ástvinum sínum á nýjan leik. Upprisa framtíðarinnar verður svipuð en þó margfalt betri. Eins og fram kom í 3. kafla er það ætlun Guðs að öll jörðin verði paradís. Fólk verður því ekki reist upp til að lifa í heimi þar sem eru stríð, glæpir og sjúkdómar heldur fær það tækifæri til að lifa að eilífu í friði og hamingju hér á jörð.

      17. Hversu víðtæk verður upprisan?

      17 Hverjir verða reistir upp frá dauðum? Jesús sagði að ‚allir sem í gröfunum væru myndu heyra raust hans og ganga fram‘. (Jóhannes 5:28, 29) Opinberunarbókin 20:13 tekur í sama streng og segir: „Hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru.“ „Hel“ táknar hina sameiginlegu gröf mannkyns. (Sjá viðaukann „Hvað eru Hel og dánarheimar?“.) Þessi sameiginlega gröf verður tæmd. Allir þeir milljarðar manna, sem hvíla þar, vakna til lífs á nýjan leik. Páll postuli sagði að „bæði réttlátir og ranglátir“ myndu rísa upp. (Postulasagan 24:15) Hvað merkir það?

      Gleðilegir endurfundir í paradís á jörð þar sem grafirnar eru tæmdar í upprisunni

      Hinir dánu verða reistir upp í paradís og sameinast ástvinum sínum þar.

      18. Hverjir eru í hópi hinna ‚réttlátu‘ sem hljóta upprisu, og hvaða áhrif getur upprisuvonin haft á þig?

      18 Í hópi hinna ‚réttlátu‘ verður margt af því fólki sem sagt er frá í Biblíunni og var uppi áður en Jesús kom til jarðar. Þér verður kannski hugsað til Nóa, Abrahams, Söru, Móse, Rutar, Esterar og margra annarra. Minnst er á margt af þessu trúaða fólki í 11. kafla Hebreabréfsins. Þjónar Jehóva, sem deyja á okkar dögum, eru einnig í hópi hinna ‚réttlátu‘. Svo er upprisuvoninni fyrir að þakka að við þurfum ekki að óttast dauðann. — Hebreabréfið 2:15.

      19. Hverjir kallast „ranglátir“ og hvaða tækifæri gefur Jehóva þeim í gæsku sinni?

      19 En hvað um þá milljarða manna sem þjónuðu ekki Jehóva af því að þeir þekktu hann ekki? Þetta ‚rangláta‘ fólk er ekki gleymt. Það verður líka reist upp og fær tíma til að kynnast hinum sanna Guði og læra að þjóna honum. Hinir dánu verða reistir upp á þúsund ára tímabili og fá þá tækifæri til að þjóna Jehóva ásamt trúföstu fólki hér á jörð. Þetta verða stórkostlegir tímar. Biblían kallar þetta tímabil dómsdag.b

      20. Hvað er Gehenna og hverjir fara þangað?

      20 Þýðir þetta að allir menn, sem lifað hafa, verði reistir upp frá dauðum? Nei, Biblían segir að sumir dánir menn séu í Gehenna sem er þýtt „helvíti“ í íslensku biblíunni. (Lúkas 12:5) Nafnið Gehenna er dregið af sorphaugi sem var utan við múra Jerúsalem forðum daga. Þar var brennt sorpi og líkum glæpamanna sem Gyðingar töldu ekki verðskulda greftrun og upprisu. Gehenna er því viðeigandi tákn eilífrar eyðingar. Þó að Jesús hafi hlutverki að gegna í því að dæma lifendur og dauða er Jehóva hinn endanlegi dómari. (Postulasagan 10:42) Hann reisir aldrei upp þá sem hann dæmir að séu illmenni og ófúsir til að breyta sér.

      HIMNESKA UPPRISAN

      21, 22. (a) Hvaða aðra upprisu er um að ræða? (b) Hver hlaut fyrstur manna upprisu sem andi?

      21 Biblían talar um annars konar upprisu en þá eru menn reistir upp sem andaverur til að lifa á himnum. Aðeins er sagt frá einu slíku dæmi en það er upprisa Jesú Krists.

      22 Jehóva leyfði ekki að Jesús lægi áfram í gröfinni eftir að hann var tekinn af lífi. (Sálmur 16:10; Postulasagan 13:34, 35) Hann reisti trúfastan son sinn upp frá dauðum — en ekki sem mann. Pétur postuli segir að Kristur hafi verið „deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda“. (1. Pétursbréf 3:18) Þetta var mikið kraftaverk. Jesús var lifnaður aftur sem voldug andavera! (Lestu 1. Korintubréf 15:3-6.) Hann var fyrstur manna til að hljóta upprisu af þessu tagi en ekki sá síðasti. — Jóhannes 3:13.

      23, 24. Hverjir mynda „litla hjörð“ Jesú og hve margir eru þeir?

      23 Jesús vissi að hann myndi stíga aftur upp til himna innan skamms þannig að hann sagði trúum fylgjendum sínum að hann myndi ‚búa þeim þar stað‘. (Jóhannes 14:2) Hann kallaði þá sem áttu að fara til himna „litla hjörð“. (Lúkas 12:32) Hve margir áttu að vera í þessum tiltölulega litla hópi trúrra kristinna manna? Jóhannes postuli segir samkvæmt Opinberunarbókinni 14:1: „Enn sá ég sýn: Lambið [Jesús Kristur] stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.“

      24 Þessir 144.000 kristnu menn eru reistir upp til að lifa á himnum og trúfastir postular Jesú eru í þeirra hópi. Hvenær rísa þeir upp? Páll postuli sagði að það ætti að gerast eftir að Kristur kæmi aftur. (1. Korintubréf 15:23) Við lifum einmitt á þeim tíma núna eins og fram kemur í 9. kafla. Þeir fáu, sem eru eftir af hinum 144.000 og deyja á okkar tímum, eru reistir upp til himna þegar í stað. (1. Korintubréf 15:51-55) Langflestir menn eiga það hins vegar fyrir sér að verða reistir upp í framtíðinni til að lifa í paradís á jörð.

      25. Um hvað er fjallað í næsta kafla?

      25 Jehóva mun yfirbuga óvininn dauðann og útrýma honum fyrir fullt og allt! (Lestu Jesaja 25:8.) En þú veltir kannski fyrir þér hvert sé hlutverk þeirra sem rísa upp til himna. Þeir eiga sæti í himneskri stjórn sem nefnd er Guðsríki. Við fjöllum meira um þessa stjórn í næsta kafla.

      a Hin dæmin er að finna í 1. Konungabók 17:17-24; 2. Konungabók 4:32-37; 13:20, 21; Matteusi 28:5-7; Lúkasi 7:11-17; 8:40-56 og Postulasögunni 9:36-42 og 20:7-12.

      b Nánari upplýsingar um dómsdag og þær forsendur, sem dæmt er eftir, er að finna í viðaukanum „Hvað er dómsdagur?“.

      BIBLÍAN KENNIR

      • Frásagnir Biblíunnar af upprisu veita okkur örugga von. — Jóhannes 11:39-44.

      • Jehóva þráir að endurlífga þá sem eru dánir. — Jobsbók 14:13-15.

      • Allir sem eru í sameiginlegri gröf mannkyns verða reistir upp frá dauðum. — Jóhannes 5:28, 29.

  • Hvað er Guðsríki?
    Hvað kennir Biblían?
    • 8. KAFLI

      Hvað er Guðsríki?

      • Hvað segir Biblían um Guðsríki?

      • Hvað mun Guðsríki gera?

      • Hvenær hrindir ríki Guðs vilja hans í framkvæmd á jörðinni?

      1. Hvaða þekktu bæn ætlum við að skoða?

      MILLJÓNIR manna þekkja bænina sem kölluð er faðirvorið. Þetta er hin þekkta bæn sem Jesús Kristur sagði fylgjendum sínum að hafa sem fyrirmynd. Bænin er mjög innihaldsrík og það má læra ýmislegt um kenningar Biblíunnar af fyrstu þrem atriðunum sem beðið er um í henni.

      2. Nefndu þrennt sem Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja um.

      2 Jesús sagði áheyrendum sínum í byrjun bænarinnar: „Þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9-13) Hvað þýðir þetta þrennt sem hér er beðið um?

      3. Hvað þurfum við að vita um ríki Guðs?

      3 Við erum búin að fjalla ítarlega um nafn Guðs, Jehóva. Við höfum einnig rætt um vilja hans að vissu marki — um það sem hann hefur gert og ætlar að gera fyrir mannkynið. En hvað átti Jesús við þegar hann kenndi okkur að biðja: „Til komi þitt ríki“? Hvað er ríki Guðs? Hvernig á það að helga nafn hans þegar það kemur? Og hvernig er koma þess tengd því að vilji Guðs nái fram að ganga?

      GUÐSRÍKIÐ

      4. Hvað er ríki Guðs og hver er konungur þess?

      4 Ríki Guðs er stjórn sem hann hefur komið á laggirnar með konung að sínu vali. Konungurinn er Jesús Kristur. Hann er meiri en allir valdhafar meðal manna og er nefndur „konungur konunganna og Drottinn drottnanna“. (1. Tímóteusarbréf 6:15) Hann hefur vald og mátt til að gera miklu meira en nokkur mennskur valdhafi, jafnvel sá besti og göfugasti.

      5. Hvar hefur Guðsríki aðsetur og yfir hverju fer það með völd?

      5 Hvar hefur Guðsríki aðsetur? Skoðum málið. Hvar er Jesús Kristur? Eins og þú manst var hann líflátinn á aftökustaur og síðan reistur upp frá dauðum. Skömmu síðar steig hann upp til himna. (Postulasagan 2:33) Ríki Guðs hefur því aðsetur á himnum eins og Jesús. Þess vegna talar Biblían um ‚himneskt ríki‘. (2. Tímóteusarbréf 4:18) En þó að ríki Guðs sé á himnum fer það með völd yfir jörðinni. — Lestu Opinberunarbókina 11:15.

      6, 7. Hvað gerir Jesú að einstökum konungi?

      6 Jesús er einstakur konungur á marga vegu. Svo dæmi sé nefnt er hann ódauðlegur. Biblían ber hann saman við mennska konunga og segir: „Hann einn hefur ódauðleika, hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist.“ (1. Tímóteusarbréf 6:16) Þetta hefur í för með sér að allt hið góða, sem Jesús kemur til leiðar, er varanlegt. Og við vitum að hann á eftir að gera margt gott fyrir þegna sína.

      7 Við skulum líta á eftirfarandi spádóm um Jesú: „Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins. Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu.“ (Jesaja 11:2-4) Þessi orð Biblíunnar sýna að Jesús á að vera réttlátur og umhyggjusamur konungur yfir jarðarbúum. Vildir þú hafa slíkan konung?

      8. Hverjir ríkja með Jesú?

      8 En Jesús fer ekki einn með völd í Guðsríki. Hann á sér meðstjórnendur. Páll postuli sagði Tímóteusi: „Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja.“ (2. Tímóteusarbréf 2:12) Guð hefur valið Pál, Tímóteus og fleira trúfast fólk til að deila völdum með Jesú í ríkinu á himnum. Hversu margir fá þetta einstæða verkefni?

      9. Hve margir eiga að stjórna með Jesú og hvenær byrjaði Guð að velja þá?

      9 Eins og fram kom í 7. kafla fékk Jóhannes postuli að sjá sýn þar sem „lambið [Jesús Kristur] stóð á Síonfjalli [sem táknar konungstign hans á himnum] og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér“. Hverjar eru þessar 144.000? Jóhannes segir: „Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.“ (Opinberunarbókin 14:1, 4) Þetta eru trúfastir fylgjendur Jesú Krists sem eru sérstaklega útvaldir til að „ríkja yfir jörðunni“ með honum. (Opinberunarbókin 5:10, Biblían 1859) Þeir taka við þessu hlutverki eftir að þeir eru reistir upp frá dauðum til himna. Allt frá tímum postulanna hefur Guð verið að velja trúfasta kristna menn til að ná tölunni 144.000.

      10. Hvers vegna er það kærleiksríkt að velja Jesú og hinar 144.000 til að stjórna mannkyninu?

      10 Það er ákaflega kærleiksríkt að láta Jesú og hinar 144.000 fara með völd yfir mannkyninu. Jesús þekkir af eigin raun hvernig það er að vera maður og þjást. Páll sagði um hann: „Ekki höfum vér þann . . . er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.“ (Hebreabréfið 4:15; 5:8) Meðstjórnendur hans þekkja sömuleiðis hvernig það er að vera maður og þjást. Auk þess vita þeir hvernig það er að vera ófullkominn og eiga við alls konar veikindi að stríða. Þeir skilja erfiðleika mannanna.

      HVAÐ MUN RÍKI GUÐS GERA?

      11. Af hverju sagði Jesús lærisveinum sínum að biðja þess að vilji Guðs yrði gerður á himnum?

      11 Eftir að hafa hvatt lærisveina sína til að biðja um að ríki Guðs komi benti Jesús þeim á að þeir skyldu biðja: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Guð er á himnum þar sem trúfastir englar hafa alltaf gert vilja hans. Í 3. kafla er hins vegar sagt frá því hvernig illur engill hætti að gera vilja Guðs og fékk Adam og Evu til að syndga. Í 10. kafla er útlistað nánar hvað Biblían segir um þennan illa engil. Hann er kallaður Satan djöfullinn og englarnir, sem kusu að fylgja honum, eru nefndir illir andar. Þeir fengu að vera áfram á himnum um sinn, þannig að það gerðu ekki allir vilja Guðs á himnum á þeim tíma. En það átti að breytast þegar ríki Guðs tæki völd. Þá átti hinn nýkrýndi konungur, Jesús Kristur, að heyja stríð við Satan. — Lestu Opinberunarbókina 12:7-9.

      12. Hvaða tveim mikilvægu atburðum er lýst í Opinberunarbókinni 12:10?

      12 Eftirfarandi spádómsorð lýsa því sem átti að gerast: „Ég heyrði mikla rödd á himni segja: ‚Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra [Satan], honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.‘“ (Opinberunarbókin 12:10) Tókstu eftir tveim afar þýðingarmiklum atburðum sem lýst er í þessu versi? Í fyrsta lagi tekur ríki Guðs í höndum Jesú Krists til starfa. Í öðru lagi er Satan úthýst af himnum og varpað niður til jarðar.

      13. Hvaða áhrif hafði það að Satan var úthýst af himnum?

      13 Hvaða afleiðingar hafa þessir tveir atburðir haft? Við lesum um það sem gerðist á himnum: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið.“ (Opinberunarbókin 12:12) Trúir englar Guðs fagna vegna þess að allir á himnum þjóna Jehóva Guði eftir að Satan og illu öndunum hefur verið úthýst. Þar ríkir nú alger og óslitinn friður og samlyndi. Vilji Guðs er gerður á himnum núna.

      Svipmyndir af angist, stríði, glæpum og mengun

      Það hafði í för með sér miklar þrengingar á jörðinni þegar Satan og illu öndunum var úthýst af himnum. Þrengingarnar taka bráðlega enda.

      14. Hvaða áhrif hefur það haft að Satan var varpað niður til jarðar?

      14 En hvað um jörðina? „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma,“ segir Biblían. (Opinberunarbókin 12:12) Satan er ævareiður yfir því að hafa verið úthýst af himnum og hafa aðeins stuttan tíma til umráða. Í reiði sinni veldur hann alls konar hörmungum á jörðinni. Við fjöllum nánar um þessar hörmungar í næsta kafla. En í ljósi þessa vaknar sú spurning hvernig ríki Guðs stuðli að því að vilji hans verði á jörðinni.

      15. Hver er vilji Guðs með jörðina?

      15 Við munum hver vilji Guðs er með jörðina. Það var fjallað um það í 3. kafla. Guð sýndi fram á það í Eden að jörðin ætti að vera paradís byggð réttlátum mönnum sem lifðu endalaust. Satan fékk Adam og Evu til að syndga. Það hafði áhrif á hvernig vilji Guðs með jörðina náði fram að ganga en breytti honum ekki. Það er enn þá ætlun Jehóva að hinir réttlátu fái jörðina til eignar og búi á henni að eilífu. (Sálmur 37:29; Matteus 5:5) Ríki hans mun koma því til leiðar. Hvernig?

      16, 17. Hvað segir um ríki Guðs í Daníelsbók 2:44?

      16 Lítum á spádóminn í Daníelsbók 2:44. Þar stendur: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ Hvað segir þessi spádómur um ríki Guðs?

      17 Í fyrsta lagi segir hann að ríki Guðs yrði stofnsett „á dögum þessara konunga“, það er að segja meðan önnur ríki væru enn starfandi. Í öðru lagi kemur fram að ríki Guðs er eilíft. Engin önnur stjórn á eftir að sigra það og taka við af því. Í þriðja lagi sjáum við að það kemur til stríðsátaka milli ríkis Guðs og ríkja þessa heims. Ríki Guðs fer með sigur af hólmi og verður þá eina stjórnin yfir mannkyninu. Þá munu mennirnir búa við bestu stjórn sem þeir hafa nokkurn tíma kynnst.

      18. Hvað er lokastríðið milli ríkis Guðs og ríkja mannanna kallað?

      18 Biblían gefur margs konar upplýsingar um lokastríðið milli ríkis Guðs og ríkja þessa heims. Hún segir til dæmis frá því að illir andar breiði út lygar til að blekkja „konunga allrar heimsbyggðarinnar“ þegar endirinn nálgast. Markmiðið er að „safna þeim [konungunum] saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“. Þeim verður safnað saman á „þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón“. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Með hliðsjón af þessum tveim versum er lokastríðið milli ríkja mannanna og ríkis Guðs kallað Harmagedónstríðið.

      19, 20. Hvað kemur í veg fyrir að vilji Guðs sé gerður á jörðinni núna?

      19 Hverju áorkar Guðsríki í Harmagedónstríðinu? Leiddu hugann aftur að vilja Guðs með jörðina. Jehóva Guð ætlaði sér að jörðin yrði paradís byggð réttlátum og fullkomnum þjónum sínum. Hvað stendur í vegi fyrir því að hún sé það núna? Í fyrsta lagi erum við syndug og við veikjumst og deyjum. Í 5. kafla kom hins vegar fram að Jesús hafi dáið fyrir okkur til að við gætum lifað að eilífu. Þú manst sennilega eftir því sem segir í Jóhannesarguðspjalli: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.

      20 Annar vandi, sem við er að glíma, er sá að margir gera illt af sér. Fólk lýgur, svíkur og lifir siðlausu lífi. Það langar ekki til að gera vilja Guðs. Þeir sem stunda hið illa munu falla í Harmagedónstríðinu. (Lestu Sálm 37:10.) Og enn ein ástæða fyrir því að vilji Guðs er ekki gerður á jörðinni er sú að stjórnvöld hvetja ekki fólk til þess. Margar stjórnir eru veikburða, grimmar eða spilltar. Biblían segir hreinskilnislega: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Prédikarinn 8:9.

      21. Hvernig kemur ríki Guðs því til leiðar að vilji hans nær fram að ganga á jörðinni?

      21 Eftir Harmagedónstríðið verður aðeins ein stjórn yfir jörðinni, Guðsríki. Þessi stjórn mun gera vilja Guðs og vera mannkyni til mikilla heilla. Hún á til dæmis eftir að taka Satan og illu andana úr umferð. (Opinberunarbókin 20:1-3) Þjónar Guðs munu njóta góðs af lausnarfórn Jesú þannig að þeir hætta að veikjast og deyja. Þegar ríki Guðs hefur tekið völd eiga þeir möguleika á að lifa að eilífu. (Lestu Opinberunarbókina 22:1-3.) Jörðinni verður breytt í paradís. Þannig kemur ríki Guðs því til leiðar að vilji hans nær fram að ganga hér á jörð og nafn hans verður helgað. Það merkir að með tíð og tíma munu allir heiðra nafn Jehóva.

      HVENÆR LÆTUR GUÐSRÍKI TIL SKARAR SKRÍÐA?

      22. Hvers vegna vitum við að ríki Guðs kom ekki meðan Jesús var á jörðinni og ekki strax eftir að hann var reistur upp frá dauðum?

      22 Ljóst er að ríki Guðs var ókomið þegar Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Til komi þitt ríki.“ Kom það þegar Jesús steig upp til himna? Nei, því að bæði Pétur og Páll sögðu að spádómurinn í Sálmi 110:1 hafi ræst á honum eftir að hann var reistur upp frá dauðum. Þar stendur: „Svo segir Drottinn við herra minn: ‚Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.‘“ (Postulasagan 2:32-34; Hebreabréfið 10:12, 13) Það yrði einhver bið á því að Guðsríki kæmi.

      Undir stjórn Guðsríkis nær vilji Guðs fram að ganga á jörðinni eins og á himnum.

      23. (a) Hvenær tók ríki Guðs til starfa? (b) Um hvað er fjallað í næsta kafla?

      23 Hversu löng yrði biðin? Biblíunemendur á 19. og 20. öld áttuðu sig smám saman á að biðtíminn tæki enda árið 1914. (Sjá nánar um þetta ártal í viðaukanum „1914 – mikilvægt ár í spádómum Biblíunnar“.) Sú atburðarás, sem hófst í heimsmálunum það ár, staðfestir að skilningur þessara einlægu biblíunemenda var réttur. Þeir biblíuspádómar, sem hafa verið að rætast, sýna að Kristur varð konungur árið 1914 og að Guðsríki tók þá til starfa. Við lifum því núna á þeim ,nauma tíma‘ sem Satan á eftir. (Opinberunarbókin 12:12; Sálmur 110:2) Við getum einnig sagt með öruggri vissu að ríki Guðs lætur til skarar skríða innan skamms til að láta vilja hans ná fram að ganga á jörðinni. Eru þetta ekki frábær tíðindi? Trúirðu að þetta eigi eftir að gerast? Í næsta kafla geturðu kannað nánar hvað Biblían kennir um þetta mál.

      BIBLÍAN KENNIR

      • Ríki Guðs er himnesk stjórn með Jesú Krist sem konung ásamt 144.000 meðstjórnendum sem eru valdir úr hópi manna. — Opinberunarbókin 14:1, 4.

      • Ríki Guðs tók til starfa árið 1914, úthýsti Satan af himnum og kastaði honum niður til jarðar. — Opinberunarbókin 12:9.

      • Ríki Guðs eyðir bráðlega öllum stjórnum manna og breytir jörðinni í paradís. — Opinberunarbókin 16:14, 16.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila