-
Er ég tilbúin(n) til að byrja með einhverjum?Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
-
-
KAFLI 1
Er ég tilbúin(n) til að byrja með einhverjum?
„Ég finn fyrir ótrúlega miklum þrýstingi til að eignast kærasta og það er líka til ótrúlega mikið af sætum strákum.“ — Whitney.
„Sumar stelpur ganga stíft á eftir manni, og mig langar til að segja já. En ef ég myndi spyrja mömmu og pabba veit ég hvað þau myndu segja.“ — Filip.
LÖNGUNIN til að byrja með einhverjum sem þú ert hrifin(n) af — og sem er hrifin(n) af þér — getur verið mjög sterk, jafnvel þegar maður er mjög ungur. „Ég byrjaði að finna fyrir miklum þrýstingi að eiga kærasta þegar ég var 11 ára,“ segir Jenný. Brittany segir: „Í skólanum líður manni eins og maður sé bara hálf manneskja ef maður á ekki kærasta — sama hver hann er.“
Hvað um þig? Ert þú undir það búin(n) að byrja með einhverjum? Áður en þú svarar því skulum við fyrst skoða eina grundvallarspurningu:
Hvað þýðir það að „vera saman“?
Merktu við hverju þú myndir svara:
Þið farið reglulega út á stefnumót. Eruð þið saman?
□ Já
□ Nei
Þið laðist að hvort öðru. Þið sendið hvort öðru SMS-skilaboð oft á dag eða talið saman í síma. Eruð þið saman?
□ Já
□ Nei
Í hvert skipti sem þið hittið vini ykkar eruð þið tvö alltaf mest saman. Eruð þið saman?
□ Já
□ Nei
Þér fannst örugglega ekki erfitt að svara fyrstu spurningunni. En þú þurftir kannski aðeins að hugsa málið áður en þú svaraðir annarri og þriðju spurningunni. Hvað þýðir það nákvæmlega að „vera saman“? Það eru hvers kyns félagsleg samskipti þar sem tvær manneskjur sýna hvor annarri rómantískan áhuga. Svarið er því já við öllum spurningunum hér fyrir ofan. Ef þú og vinur þinn eða vinkona eruð hrifin hvort af öðru og talið reglulega saman, hvort sem það er í síma, augliti til auglitis, opinberlega eða í leyni, þá eruð þið saman. Ertu tilbúin(n) í samband og allt sem því fylgir? Hér á eftir koma þrjár spurningar sem hjálpa þér að komast að því.
Af hverju langar þig til að byrja með einhverjum?
Á mörgum menningarsvæðum er það viðtekin venja að fólk sé saman til að kynnast hvort öðru betur. En slíkt samband ætti að hafa göfugan tilgang — að hjálpa ungum manni og ungri konu að komast að því hvort þau vilji giftast hvort öðru.
Sumir jafnaldrar þínir taka þessu ef til vill ekki jafn alvarlega. Þeim finnst kannski bara gaman að eiga mjög náinn vin af hinu kyninu án þess að vera með hjónaband í huga. Sumir líta jafnvel á slíkan vin eða vinkonu sem einskonar verðlaunagrip eða fylgihlut til að auka sjálfstraustið og sýnast fyrir öðrum. En slík yfirborðskennd sambönd eru yfirleitt skammlíf. „Mörg kærustupör hætta saman eftir eina eða tvær vikur,“ segir stelpa sem heitir Heather. „Þau líta svo á að sambönd séu tímabundin — sem í raun undirbýr þau betur fyrir skilnað en fyrir hjónaband.“
Þegar þú ert með einhverjum er nokkuð ljóst að þú hefur áhrif á tilfinningar hans eða hennar. Þú verður þess vegna að vera viss um að hvatir þínar séu réttar. Myndir þú vilja að einhver væri að leika sér með tilfinningar þínar eins og þær væru bara eitthvert leikfang — til að leika sér með í smástund en henda því svo frá sér? Stelpa sem heitir Chelsea segir: „Ég myndi vilja segja að það væri í lagi að byrja með einhverjum til gamans en það er ekkert gaman þegar annar aðilinn tekur þessu alvarlega en hinn ekki.“
Hvað þarf maður eiginlega að vera gamall?
Hvað finnst þér að maður þurfi að vera gamall til að byrja með einhverjum? ․․․․․
Spyrðu síðan foreldra þína sömu spurningar og skrifaðu niður þeirra svar. ․․․․․
Það eru miklar líkur á að fyrri talan sé lægri en sú seinni. Eða kannski ekki. Þú ert ef til vill einn af mörgum unglingum sem hefur ákveðið að byrja ekki með neinum fyrr en þú hefur aldur til að þekkja sjálfan þig betur. Danielle ákvað að gera það. Hún er 17 ára og segir: „Ef ég hugsa um það hverju ég hefði leitað eftir í fari tilvonandi maka fyrir tveim árum hefur það breyst alveg ótrúlega mikið. Og eiginlega treysti ég sjálfri mér ekki enn til að taka slíka ákvörðun. Þegar mér finnst ég hafa náð ákveðnum þroska og stöðugleika þá get ég farið að hugsa um sambönd.“
Það er líka önnur ástæða fyrir því að það er skynsamlegt að bíða. Í Biblíunni er talað um ,æskublómann‘, það tímabil í lífi okkar þegar við upplifum fyrst kynhvötina og rómantískar tilfinningar geta orðið sterkar. (1. Korintubréf 7:36, New World Translation) Ef þú ert í nánu sambandi við einhvern af hinu kyninu meðan þú ert enn þá á þessu kynþroskaskeiði geta ástríðurnar auðveldlega blossað upp og leitt til rangrar hegðunar. Að vísu skiptir þetta suma jafnaldra þína kannski ekki svo miklu máli. Og margir þeirra eru jafnvel mjög áhugasamir um kynlíf. En þú þarft ekki að vera á sama plani og þeir. (Rómverjabréfið 12:2) Auk þess erum við hvött í Biblíunni til að „flýja kynferðislegt siðleysi“. (1. Korintubréf 6:18, New International Version) Ef þú bíður þangað til þú ert kominn yfir ,æskublómann‘ geturðu komist hjá alls kyns erfiðleikum og vandamálum. — Prédikarinn 11:10.
Ertu tilbúin(n) til að giftast?
Til að hjálpa þér að svara þessari spurningu skaltu gera sjálfsrannsókn. Hugleiddu eftirfarandi:
Sambönd. Hvernig kemurðu fram við foreldra þína og systkini? Missirðu oft stjórn á þér og notar kannski hörð orð eða kaldhæðni til að segja skoðun þína? Hvað myndu þau segja um þig að þessu leyti? Framkoma þín við fjölskylduna gefur til kynna hvernig þú átt eftir að koma fram við maka þinn. — Lestu Efesusbréfið 4:31.
Persónuleiki. Ertu jákvæð eða neikvæð manneskja? Sýnirðu öðrum sanngirni, eða krefstu þess alltaf að hlutirnir séu gerðir á ákveðinn hátt, eftir þínu höfði? Geturðu haldið ró þinni undir álagi? Ertu þolinmóð manneskja? Ef þú ræktar með þér ávöxt anda Guðs núna hjálpar það þér að búa þig undir hjónaband seinna meir. — Lestu Galatabréfið 5:22, 23.
Fjármál. Hvernig gengur þér að hafa stjórn á peningum? Kemstu oft í skuld? Geturðu haldið vinnu? Ef ekki, hvers vegna? Er það út af vinnunni sjálfri, yfirmanninum, eða er það út af einhverjum ávana eða eiginleika sem þú þarft að vinna í? Ef þú átt í erfiðleikum með að hafa stjórn á fjármálum þínum hvernig heldurðu að það eigi eftir að ganga að hugsa um fjármál heillar fjölskyldu? — Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:8.
Andleg mál. Ef þú ert vottur Jehóva, hvað gerirðu til að viðhalda góðu sambandi við Jehóva Guð? Tekurðu frumkvæðið að því að lesa í Biblíunni, taka þátt í boðunarstarfinu og svara á safnaðarsamkomum? Manneskjan, sem þú giftist, á ekkert annað skilið en maka sem er sterkur í trúnni. — Lestu Prédikarann 4:9, 10.
Það sem þú getur gert
Að verða fyrir þrýstingi til að byrja með einhverjum áður en maður er tilbúinn til þess er eins og að vera þvingaður til að taka lokapróf í einhverri námsgrein sem maður var að byrja í. Það væri auðvitað ekki sanngjarnt. Maður þarf tíma til að læra fagið og undirbúa sig til að geta tekist á við það sem kemur á prófinu.
Það er svipað með samband við einhvern af hinu kyninu. Við höfum komist að raun um að það er ekkert léttvægt mál að byrja með einhverjum. Áður en þú ert tilbúin(n) til að einbeita þér að einni manneskju, þarftu því að gefa þér tíma til að læra eitt mikilvægt „fag“ — að rækta góð vináttusambönd. Seinna þegar þú hittir réttu manneskjuna verður auðveldara fyrir þig að byggja upp sterkt samband. Þegar allt kemur til alls er farsælt hjónaband samband tveggja góðra vina.
Þótt þú bíðir með að byrja með einhverjum heftir það ekki frelsi þitt. Þvert á móti veitir það þér meira frelsi til að ,gleðjast í æsku þinni‘. (Prédikarinn 11:9) Og þú færð meiri tíma til að undirbúa þig með því að þroska persónuleika þinn og ekki síst þinn andlega mann. — Harmljóðin 3:27.
Á meðan geturðu notið þess að umgangast vini af hinu kyninu. Hvernig er best að gera það? Njótið félagsskapar hvert annars í blönduðum hópum þar sem einhver fullorðinn hefur umsjón. Stelpa sem heitir Tammy segir: „Mér finnst það miklu skemmtilegra. Það er betra að eiga marga vini.“ Mónika er sammála þessu. Hún segir: „Að vera saman í hóp er góð hugmynd vegna þess að þá kynnist maður fólki með mismunandi persónuleika.“
En ef þú einbeitir þér að einni persónu of snemma máttu gera ráð fyrir að það endi með ástarsorg. Gefðu þér þess vegna nægan tíma. Notaðu þetta tímabil í lífinu til að eignast vini og læra að rækta vináttuna. Og ef þú ákveður að byrja með einhverjum seinna þá veistu betur hver þú ert og hverju þú leitar að í fari lífsförunautar.
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 29 OG 30 Í 1. BINDI BÓKARINNAR
Finnst þér freistandi að byrja með einhverjum án þess að foreldrar þínir viti af því? Það fylgir því meiri hætta en þú áttar þig kannski á.
LYKILRITNINGARSTADUR
„Hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ — Orðskviðirnir 14:15.
RÁÐ
Til að vera betur undir það búin(n) að byrja með einhverjum og ganga í hjónaband skaltu lesa 2. Pétursbréf 1:5-7 og velja einn eiginleika sem þú þarft að vinna í. Eftir einn mánuð skaltu síðan athuga hvað þú hefur lært um þennan eiginleika og hvort þú hafir tekið framförum.
VISSIR ÞÚ . . .?
Margar rannsóknir benda til þess að fólk sem giftir sig áður en það nær 20 ára aldri sé líklegt til að skilja innan fimm ára.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Til að búa mig undir hjónaband verð ég að vinna í eftirfarandi eiginleikum: ․․․․․
Ég get unnið í þessum eiginleikum með því að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Við hvaða aðstæður er viðeigandi að strákar og stelpur hittist?
● Hvað myndirðu segja við systkini þitt sem langar til að byrja með einhverjum en er of ungt til þess?
● Ef þú ert í föstu sambandi en hefur engan áhuga á hjónabandi, hvaða áhrif heldurðu að það geti haft á hinn aðilann?
[Innskot á blaðsíðu 18]
„Mér finnst að maður ætti aðeins að stofna til sambands ef hinn aðilinn skiptir mann verulega miklu máli og maður heldur að sambandið verði varanlegt. Manni ætti að þykja vænt um persónuna, ekki bara hugmyndina um að vera ástfanginn.“— Amber
[Mynd á bls. 16, 17]
Ef þú byrjar með einhverjum án þess að hafa hjónaband í huga ertu eins og barn sem leikur sér með nýtt leikfang og hendir því síðan frá sér.
-
-
Af hverju er varasamt að leyna sambandinu?Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
-
-
KAFLI 2
Af hverju er varasamt að leyna sambandinu?
Jessica var í klípu. Þetta byrjaði allt þegar Jeremy, bekkjarfélagi hennar, fór að sýna henni áhuga. „Hann var mjög sætur og vinkonur mínar sögðu að hann væri ótrúlega góður strákur. Margar stelpur voru búnar að reyna við hann en hann hafði engan áhuga á þeim. Hann vildi bara mig.“
Áður en langt um leið spurði Jeremy hvort hún vildi byrja með sér. Jessica útskýrði fyrir honum að hún væri vottur Jehóva og mætti ekki vera með strák sem hefði aðra trú. „En þá fékk Jeremy hugmynd,“ segir hún. „Hann spurði hvort við gætum ekki bara verið saman án þess að láta foreldra mína vita.“
HVAÐ myndirðu gera ef einhver sem þú værir hrifin(n) af myndi spyrja þig að þessu sama? Það kemur þér kannski á óvart að Jessica samþykkti tillögu Jeremy. „Ég var viss um að ef við værum saman gæti ég fengið hann til að elska Jehóva,“ segir hún. Hvað gerðist? Við komumst að því seinna í kaflanum. En fyrst skulum við athuga hvernig sumir festast í þeirri snöru að eiga kærasta eða kærustu í leyni.
Af hverju fela þau sambandið?
Af hverju eiga sumir kærasta eða kærustu í leyni? Ungur maður, sem heitir Davíð, segir einfaldlega: „Þeir vita að foreldrarnir samþykkja þetta ekki þannig að þeir segja þeim bara ekki frá því.“ Jane bendir á aðra ástæðu: „Það er ákveðin uppreisn fólgin í því að leyna sambandinu. Ef unglingum finnst ekki komið fram við sig eins og þeir séu orðnir fullorðnir gera þeir bara það sem þá langar til og sleppa að segja foreldrunum frá því.“
Detta þér í hug aðrar ástæður fyrir því að sumir freistast til að eiga kærasta eða kærustu í leyni? Skrifaðu þær hér fyrir neðan.
․․․․․
Þú veist auðvitað að í Biblíunni er þess krafist að þú hlýðir foreldrum þínum. (Efesusbréfið 6:1) Og ef foreldrarnir vilja ekki að þú eigir kærasta eða kærustu hljóta þeir að hafa góðar ástæður fyrir því. Það er samt ekkert skrítið þótt þú farir að hugsa eitthvað á þessa leið:
● Mér finnst ég vera svo út undan af því að allir eiga kærasta eða kærustu nema ég.
● Ég er hrifin(n) af einhverjum sem hefur aðra trú en ég.
● Mig langar til að byrja með einhverjum í söfnuðinum þótt ég hafi ekki aldur til að giftast.
Þú veist líklega hvað foreldrar þínir myndu segja við slíkum hugleiðingum. Og innst inni veistu að þeir hafa á réttu að standa. En á hinn bóginn líður þér kannski eins og stelpu sem heitir Manami. Hún segir: „Það er þrýst svo mikið á mann að byrja með einhverjum að ég fer stundum að efast um afstöðu mína. Nú á dögum finnst krökkum alveg óhugsandi að eiga ekki kærasta eða kærustu. Og það er heldur ekkert gaman að vera bara einn.“ Sumir í svipaðri stöðu hafa þess vegna byrjað með einhverjum án þess að segja foreldrum sínum frá því. Hvernig þá?
„Okkur var sagt að halda þessu leyndu“
Til að halda sambandinu leyndu verður ekki komist hjá því að beita einhverjum blekkingum. Sumum tekst það með því að tala aðallega saman í gegnum símann eða Netið. Opinberlega eru þau bara vinir en tölvupósturinn, símtölin og SMS-skilaboðin segja allt aðra sögu.
Önnur lúmsk aðferð er að hittast í hópi til þess að tvö úr hópnum geti verið saman. Jakob segir: „Einu sinni fékk ég boð um að hitta vini mína á ákveðnum stað en svo komumst við að því að þetta hafði allt verið skipulagt svo að tvö úr hópnum gætu verið saman. Okkur var sagt að halda þessu leyndu.“
Eins og Jakob bendir á heldur fólk oft sambandinu leyndu með hjálp vina. „Oft veit að minnsta kosti einn vinur um sambandið en ákveður að segja engum frá því til að vera ekki sá sem kjaftaði frá,“ segir Carol. Stundum er fólk hreint og beint óheiðarlegt til að halda sambandinu leyndu. Beth er 17 ára og hún segir: „Margir ljúga að foreldrum sínum um hvert þeir séu að fara.“ Misaki, sem er 19 ára, gerði einmitt það. „Ég varð að vanda mig þegar ég bjó til sögur,“ segir hún. „Ég passaði mig á því að ljúga ekki til um neitt annað en það sem snerti samband mitt við kærastann svo að ég myndi ekki missa traust foreldra minna.“
Hverjar eru hætturnar?
Ef þér finnst freistandi að halda sambandinu leyndu — eða þú gerir það nú þegar — þarftu að spyrja þig tveggja spurninga:
Hvað hefur það í för með sér? Hafið þið hugsað ykkur að giftast á næstunni? „Að vera í sambandi án þess að ætla sér að giftast er eins og að auglýsa eitthvað sem maður ætlar ekki að selja,“ segir Elvar sem er 20 ára. Hver er afleiðingin? Í Orðskviðunum 13:12 segir: „Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt.“ Viltu virkilega valda þeim sem þér þykir vænt um hjartasorg? Og það er annað sem þú þarft að hafa í huga. Ef þú heldur sambandinu leyndu ferðu á mis við kærleiksríka hjálp foreldra þinna og annarra fullorðinna sem gætu gefið þér góð ráð. Og þá er meiri hætta á að þú gerist sekur um kynferðislegt siðleysi. — Galatabréfið 6:7.
Hvað finnst Jehóva Guði um það sem ég er að gera? Í Biblíunni segir: „Allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.“ (Hebreabréfið 4:13) Jafnvel þótt þú reynir að leyna sambandi þínu — eða þá vinar þíns eða vinkonu — veit Jehóva samt um það. Og ef þú beitir blekkingum hefurðu ástæðu til að hafa áhyggjur. Jehóva hefur sterkar skoðanir á lygum. Eitt af því sem hann hatar mest er „lygin tunga“. — Orðskviðirnir 6:16-19.
Að binda enda á leyndina
Ef þú ert í leynilegu samband væri mjög skynsamlegt af þér að tala við foreldra þína eða þroskað trúsystkini. Og ef vinur eða vinkona heldur sambandi sínu leyndu skaltu ekki taka þátt í því með því að hjálpa honum eða henni að hylma yfir það. (1. Tímóteusarbréf 5:22) Hvernig myndi þér líða ef sambandið hefði skaðlegar afleiðingar? Bærirðu ekki að minnsta kosti einhverja ábyrgð?
Lýsum þessu með dæmi: Segjum að vinur þinn sé með sykursýki en sé að háma í sig nammi í laumi. Hvað ef þú kæmist að þessu en vinur þinn sárbændi þig um að segja engum frá? Hvort fyndist þér vera mikilvægara — að hylma yfir með vini þínum eða gera eitthvað í málinu sem gæti hugsanlega bjargað lífi hans?
Þú ert í svipaðri aðstöðu ef þú veist um einhvern sem heldur sambandi sínu leyndu. Hafðu ekki áhyggjur af því að þú eyðileggir vinskapinn fyrir fullt og allt. Sannur vinur sér með tímanum að þú gerðir það sem var honum fyrir bestu. — Sálmur 141:5.
Munurinn á leynd og næði
Að sjálfsögðu er ekki alltaf um blekkingu að ræða ef fólk vill halda sambandinu leyndu. Segjum til dæmis að ungur maður og ung kona vilji kynnast betur en vilji ekki að allir viti það til að byrja með. Tómas segir: „Þau langar kannski ekki til að vera strítt með spurningum eins og: ,Hvenær á svo að gifta sig‘?“
Óviðeigandi þrýstingur frá öðrum getur vissulega haft slæm áhrif. (Ljóðaljóðin 2:7) Margir velja þess vegna að hafa ekki hátt um sambandið í byrjun. (Orðskviðirnir 10:19) „Þetta veitir ungum manni og ungri konu tíma til að finna út hvort það sé framtíð í sambandinu eða ekki,“ segir Anna sem er 20 ára. „Og ef svo er, þá gera þau það opinbert.“
Á hinn bóginn væri rangt af þér að segja hvorki foreldrum þínum frá sambandinu né foreldrum þess sem þú er með. Ef þú getur ekki talað opinskátt við þau um þessi mál ættirðu að spyrja þig af hverju. Er það af því að þú veist innst inni að foreldrar þínir hafa gildar ástæður til að andmæla sambandinu?
„Ég vissi hvað ég þurfti að gera“
Jessica, sem minnst var á í upphafi kaflans, skipti um skoðun varðandi samband sitt við Jeremy þegar hún heyrði reynslu systur í söfnuðinum sem var í svipaðri stöðu. „Eftir að ég heyrði að hún hafði slitið sambandi sínu vissi ég hvað ég þurfti að gera,“ segir Jessica. Var það auðvelt? Nei! „Þetta var eini strákurinn sem ég hafði nokkurn tíma verið hrifin af,“ segir hún. „Ég grét á hverjum degi í margar vikur.“
En Jessica vissi að hún elskaði Jehóva. Og þótt hún hefði tekið nokkur feilspor vildi hún innilega gera það sem var rétt. Með tímanum dró úr sársaukanum eftir sambandsslitin. „Núna er samband mitt við Jehóva betra en nokkru sinni fyrr,“ segir hún. „Ég er svo þakklát fyrir að hann skuli veita okkur þær leiðbeiningar sem við þurfum á réttum tíma.“
Þú ert tilbúin(n) í samband og þú hefur fundið einhvern sem þér líkar við. En hvernig veistu hvort þið passið nógu vel saman?
LYKILRITNINGARSTADUR
„[Ég] vil í öllum greinum breyta vel.“ — Hebreabréfið 13:18.
RÁÐ
Það er auðvitað óþarfi að segja öllum í heiminum að þið séuð saman. Segið samt þeim sem hafa rétt á að vita það, en það eru fyrst og fremst foreldrar ykkar.
VISSIR ÞÚ . . .?
Sambönd, sem endast, byggja á trausti. Ef þú átt kærasta eða kærustu í leyni ertu að bregðast trausti foreldra þinna og grafa undan sambandinu við þann sem þú ert með.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ef ég er með einhverjum úr söfnuðinum og held sambandinu leyndu ætla ég að ․․․․․
Ef vinur minn eða vinkona er með einhverjum og heldur sambandinu leyndu ætla ég að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Renndu aftur yfir feitletruðu setningarnar á bls. 22. Er einhver af þeim sem lýsir því hvernig þér líður stundum?
● Hvernig geturðu brugðist við slíkum hugsunum og tilfinningum án þess að byrja með einhverjum í leyni?
● Hvað myndirðu gera ef þú vissir að vinur þinn eða vinkona væri með einhverjum en héldi sambandinu leyndu? Hvers vegna myndirðu bregðast þannig við?
[Innskot á bls. 27]
„Ég hætti með stráknum sem ég var með í leyni. Það var auðvitað mjög erfitt að fara aftur í skólann og þurfa að sjá hann á hverjum degi. En Jehóva Guð sér hlutina í stærra samhengi en við. Við verðum bara að treysta honum.“ — Jessica
[Mynd á bls. 25]
Að hylma yfir með vini eða vinkonu sem er í leynilegu sambandi er eins og að hylma yfir með sykursjúkum vini sem hámar í sig nammi í laumi.
-
-
Pössum við saman?Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
-
-
KAFLI 3
Pössum við saman?
Gefðu þér nokkrar mínútur til að svara þessum spurningum:
Hvaða eiginleika finnst þér tilvonandi maki þinn þurfa að hafa? Settu ✔ við fjögur atriði á listanum hér að neðan sem þér finnst mikilvægust.
□ Myndarlegur □ Andlega sinnaður
□ Aðlaðandi □ Áreiðanlegur
□ Vinsæll □ Með gott siðferði
□ Fyndinn □ Vinnur að markmiðum sínum
Varstu hrifinn af einhverjum þegar þú varst yngri? Settu × við það atriði á listanum sem þér fannst mest aðlaðandi við þann einstakling á þeim tíma.
ÞAÐ er ekkert rangt við neinn af þessum eiginleikum. Hver þeirra hefur sína kosti. En ertu ekki sammála því að þegar maður er skotinn í einhverjum á unglinsárunum hugsar maður meira um hið yfirborðskennda eins og eiginleikana sem standa í vinstri dálknum?
En eftir því sem þú þroskast ferðu að gera þér grein fyrir að eiginleikarnir í hægri dálkinum skipta meira máli. Tökum dæmi. Þú kemst kannski að því að sætasta stelpan í hverfinu er ekki endilega sú áreiðanlegasta eða að vinsælasti strákurinn í bekknum er ekki endilega með gott siðferði. Ef þú ert komin(n) yfir æskublómann horfirðu ekki bara á yfirborðskennda eiginleika þegar þú spyrð þig: Pössum við saman?
Að þekkja sjálfan sig fyrst
Áður en þú veltir fyrir þér hvort þið passið saman er nauðsynlegt að þekkja sjálfan sig vel. Svaraðu eftirfarandi spurningum til að kynnast þér betur:
Hverjir eru styrkleikar mínir? ․․․․․
Hverjir eru veikleikar mínir? ․․․․․
Hvaða tilfinningalegu og andlegu þarfir hef ég? ․․․․․
Það er alls ekki auðvelt að þekkja sjálfan sig vel, en spurningar eins og þessar hér að ofan geta hjálpað þér. Því betur sem þú þekkir þig þeim mun betur ertu í stakk búin(n) til að finna maka sem eykur styrkleika þína frekar en veikleika.a Hvað ef þú heldur að þú sért búin(n) að finna þessa manneskju?
Dugar hver sem er?
„Mætti ég fá að kynnast þér aðeins betur?“ Annaðhvort fá þessi orð þig til að hörfa undan eða hoppa af gleði — allt eftir því hver spyr. Segjum að þú svarir játandi. Hvernig geturðu komist að því hvort kærasti þinn eða kærasta sé rétta manneskjan fyrir þig?
Tökum dæmi. Þig langar til að kaupa þér nýja skó. Þú ferð í verslun og kemur auga á skó sem þér líst vel á. Þú mátar þá en kemst að því — þér til mikilla vonbrigða — að þeir eru of þröngir. Hvað gerirðu? Kaupirðu skóna samt sem áður eða leitarðu að öðrum? Það væri augljóslega betra að setja þá aftur í hilluna og reyna að finna aðra. Það er ekki mikið vit í því að ganga í skóm sem passa ekki á þig.
Þetta er svipað þegar þú velur þér lífsförunaut. Þú átt örugglega eftir að rekast á fleiri en einn sem þér líst vel á. En það dugar ekki bara hver sem er. Þú vilt einhvern sem þér líður vel með — einhvern sem passar við þinn persónuleika og hefur svipuð markmið og þú. (1. Mósebók 2:18; Matteus 19:4-6) Hefurðu fundið einhvern slíkan? Ef svo er, hvernig geturðu verið viss um að þessi manneskja sé sú rétta fyrir þig?
Skoðaðu undir yfirborðið
Til að svara síðustu spurningunni skaltu líta aðeins nánar á kærasta þinn eða kærustu. En passaðu þig. Þú gætir freistast til að sjá bara það sem þig langar til að sjá. Gefðu þér því tíma. Reyndu að komast að innra eðli hans eða hennar. Þetta getur kostað þig töluvert erfiði. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru. Tökum dæmi. Segjum að þú viljir kaupa bíl. Hversu vel skoðarðu bílinn? Myndirðu bara hugsa um hvernig hann lítur út? Væri ekki skynsamlegra að skoða hann aðeins betur og reyna að fá eins miklar upplýsingar um ástand vélarinnar og þú getur?
Að finna sér maka er auðvitað miklu alvarlegra mál en að velja sér bíl. Samt eru margir sem skoða ekki undir yfirborðið heldur benda bara strax á það sem þeir eiga sameiginlegt: „Við höfum sama tónlistarsmekk.“ „Við höfum gaman að sömu hlutunum.“ „Við erum sammála um allt!“ En ef þú ert komin(n) yfir æskublómann er hins vegar líklegt að þú horfir ekki aðeins á það sem er á yfirborðinu. Þú áttar þig á að þú þarft að kynnast ,hinum hulda manni hjartans‘. — 1. Pétursbréf 3:4; Efesusbréfið 3:16.
Í stað þess að einblína á það sem þið eruð sammála um gæti verið lærdómsríkt að athuga hvað gerist þegar þið eruð ósammála. Með öðrum orðum: Hvernig tekst kærasti þinn eða kærasta á við ágreining? Heldur hann eða hún fast í sitt, fær reiðiköst eða notar ljótt orðbragð? (Galatabréfið 5:19, 20; Kólossubréfið 3:8) Eða sýnir hann eða hún sanngirni og er fús til að gefa eftir til að halda friðinn þegar málið snýst ekki um rétt eða rangt heldur persónulegan smekk? — Jakobsbréfið 3:17.
Það er annað sem gott er að hugsa um. Er viðkomandi stjórnsamur, ráðríkur eða afbrýðisamur? Heimtar hann að fá að vita allt sem þú gerir? „Ég heyri stundum um pör sem rífast vegna þess að annað þeirra vill að hitt láti stöðugt vita af sér,“ segir Nicole. „Ég held að það viti ekki á gott.“ — 1. Korintubréf 13:4.
Atriðin, sem nefnd hafa verið, tengjast öll persónuleika og hegðun. En mannorð kærasta þíns eða kærustu getur líka leitt margt í ljós. Hvernig líta aðrir á hann eða hana? Kannski væri gott að spyrja þá sem hafa þekkt hann eða hana um einhvern tíma, til dæmis þroskað fólk í söfnuðinum. Þannig geturðu komist að því hvort viðkomandi hafi „gott orð“ á sér. — Postulasagan 16:1, 2.
Það gæti verið gott að skrifa niður hvernig þér finnst kærasti þinn eða kærasta standa sig á þeim sviðum sem við höfum fjallað um. Kannski kemstu að einhverju sem þú hefur ekki tekið eftir áður.
Persónuleiki ․․․․․
Hegðun ․․․․․
Mannorð ․․․․․
Það gæti líka verið gagnlegt fyrir þig að skoða rammann „Yrði hann góður eiginmaður?“ á bls. 39 eða „Yrði hún góð eiginkona?“ á bls. 40. Spurningarnar þar geta hjálpað þér að komast að því hvort kærasti þinn eða kærasta sé heppilegur maki.
En hvað ef þú kemst að því eftir að hafa skoðað málin að þessi einstaklingur sé ekki sá rétti fyrir þig? Þá stendurðu frammi fyrir alvarlegri spurningu.
Ættum við að hætta saman?
Stundum er það fyrir bestu að slíta sambandinu. Tökum Jill sem dæmi. „Fyrst var ég mjög upp með mér að kærasti minn skyldi hafa stöðugar áhyggjur af því hvar ég væri, hvað ég væri að gera og með hverjum ég væri. En svo kom að því að ég mátti ekki vera með neinum öðrum en honum. Hann varð jafnvel afbrýðisamur þegar ég var með fjölskyldunni — sérstaklega föður mínum. Þegar ég sleit sambandinu fann ég fyrir miklu létti.“
Sara hefur svipaða sögu að segja. Hún fór að taka eftir því að Jóhann, kærastinn hennar, var kaldhæðinn, kröfuharður og ruddalegur. „Einu sinni kom hann þrem tímum of seint að sækja mig,“ segir Sara. „Hann hunsaði mömmu mína þegar hún kom til dyra og sagði síðan: ,Förum, við erum sein.‘ Hann sagði ekki ,ég er seinn‘, heldur ,við erum sein‘. Hann hefði átt að biðjast afsökunar og útskýra af hverju hann var seinn. Síðast en ekki síst hefði hann átt að sýna mömmu virðingu!“ Að sjálfsögðu þarf sambandið ekki að enda þótt öðru ykkar verði á mistök í eitt skipti. (Sálmur 130:3) En þegar Sara áttaði sig á að Jóhann var ókurteis að eðlisfari en ekki bara í þetta eina skipti ákvað hún að slíta sambandinu.
Hvað ef þú kemst að því, líkt og Jill og Sara, að kærasti þinn eða kærasta er ekki heppilegur maki? Þá skaltu ekki hunsa tilfinningar þínar! Þótt það sé erfitt að kyngja því gæti verið best fyrir ykkur að hætta saman. Í Orðskviðunum 22:3 segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ Ef þú verður var við eitt eða fleiri af hættumerkjunum sem nefnd eru á bls. 39 og 40 væri best að slíta sambandinu — að minnsta kosti þangað til hinn aðilinn er búinn að leiðrétta vandamálið. Það er ekki auðvelt að hætta saman. En hjónaband er varanlegt samband. Það er miklu betra að þola skammvinnan sársauka núna en að sjá eftir því alla ævi að hafa valið sér rangan lífsförunaut.
Hvernig er best að fara að?
Hvernig ættirðu að fara að því að slíta sambandinu? Í fyrsta lagi skaltu velja heppilegar aðstæður til að ræða málin. Hverjar gætu þær verið? Veltu fyrir þér hvernig þú myndir vilja að komið væri fram við þig við slíkar aðstæður. (Matteus 7:12) Myndirðu vilja fá fréttirnar fyrir framan aðra? Líklega ekki. Það væri ekki heppilegt að slíta sambandinu með SMS-skilaboðum, tölvupósti eða með því að tala inn á símsvara eða talhólf nema það sé óhjákvæmilegt vegna aðstæðna. Veldu frekar stað og stund sem gerir ykkur mögulegt að ræða saman um þetta alvarlega mál.
Hvað ættirðu svo að segja? Páll postuli hvatti kristna menn til að ,tala sannleika‘ hver við annan. (Efesusbréfið 4:25) Það er best að vera nærgætin(n) en samt ákveðin(n). Segðu skýrt hvers vegna þér finnst þetta samband ekki ganga upp. Það er alger óþarfi að telja upp langan lista af göllum sem hinn hefur eða láta rigna yfir hann gagnrýni. Í stað þess að segja „þú gerir aldrei“ þetta eða „þú ert alltaf“ svona væri betra að tala um það hvernig þér líður — „ég þarf á einhverjum að halda sem . . .“ eða „mér finnst að við ættum að hætta saman vegna þess að . . .“
Þetta er ekki rétti tíminn til að vera óákveðin(n) eða leyfa hinum aðilanum að breyta skoðun þinni. Mundu að það eru alvarlegar ástæður fyrir því að þú vilt slíta sambandinu. Vertu því á verði ef kærasti þinn eða kærasta reynir að fá þig til að skipta um skoðun með lúmskum aðferðum. Ung kona að nafni Lára segir: „Eftir að ég sleit sambandinu við kærastann lét hann alltaf eins og hann væri mjög niðurdreginn. Ég held að hann hafi gert þetta til að ég vorkenndi honum. Og mér leið illa út af þessu. En ég lét hegðun hans ekki fá mig til að skipta um skoðun.“ Þú verður, líkt og Lára, að vita hvað þú vilt og halda þér við ákvörðun þína. Láttu nei þitt vera nei. — Jakobsbréfið 5:12.
Eftir sambandsslitin
Láttu það ekki koma þér á óvart þótt þú verðir miður þín í einhvern tíma eftir að þið hættið saman. Þér á kannski eftir að líða eins og sálmaritaranum sem sagði: „Ég er beygður og mjög bugaður, eigra um harmandi daginn langan.“ (Sálmur 38:7) Ef til vill eiga velviljaðir vinir eftir að hvetja þig til að gefa sambandinu annað tækifæri. En vertu varkár. Þú verður að lifa með ákvörðunum þínum — ekki vinir þínir. Stattu því fast á þínu — jafnvel þótt þér líði illa yfir því sem hefur gerst.
Þú getur verið viss um að sársaukinn hverfur með tímanum. En þangað til er hægt að gera ýmislegt til að byggja sig upp og takast á við tilfinningar sínar. Hér koma nokkrar tillögur:
Segðu traustum vini hvernig þér líður.b (Orðskviðirnir 15:22) Talaðu við Jehóva um málið í bæn. (Sálmur 55:23) Reyndu að hafa nóg fyrir stafni. (1. Korintubréf 15:58) Einangraðu þig ekki! Farðu strax að umgangast fólk sem byggir þig upp. Reyndu að hafa hugann við jákvæða hluti. — Filippíbréfið 4:8.
Þegar fram líða stundir finnurðu ef til vill ástina á ný. Og þá mun fyrri reynsla þín án efa hjálpa þér að taka réttar ákvarðanir. Í þetta skiptið verður svarið kannski já við spurningunni: Pössum við saman?
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 31 Í 1. BINDI BÓKARINNAR
Hvar þurfið þið að draga mörkin þegar þið sýnið hvort öðru væntumþykju?
[Neðanmáls]
a Þú getur lært enn meira um þig með því að hugleiða spurningarnar í 1. kafla undir millifyrirsögninni „Ertu tilbúin(n) til að giftast?“
b Foreldrar þínir eða aðrir fullorðnir, eins og safnaðaröldungar, geta hjálpað. Kannski gengu þeir í gegnum svipaða hluti þegar þeir voru ungir.
LYKILRITNINGARSTADUR
„Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar.“ — Orðskviðirnir 20:11.
RÁÐ
Gerið eitthvað saman sem dregur eiginleika ykkar fram í dagsljósið:
● Lesið og hugleiðið orð Guðs í sameiningu.
● Fylgist með hvað hinn aðilinn segir og gerir á safnaðarsamkomum og í boðunarstarfinu.
● Takið þátt í byggingarframkvæmdum og að ræsta ríkissalinn.
VISSIR ÞÚ . . .?
Rannsóknir hafa ítrekað leitt í ljós að hjón, sem hafa ekki sömu trú, séu miklu líklegri til að skilja.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ef ég laðast að einhverjum sem hefur ekki sömu trú og ég ætla ég að ․․․․․
Til að komast að því hvaða orðspor kærasti minn eða kærasta hefur get ég ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Hvaða eiginleikum býrð þú yfir sem myndu stuðla að góðu hjónabandi?
● Hvaða eiginleika myndirðu vilja sjá í fari tilvonandi maka?
● Hvaða vandamál gætu komið upp ef þú giftist einhverjum sem hefur aðra trú en þú?
● Hvernig geturðu komist að því hvaða eiginleika og orðspor kærasti þinn eða kærasta hefur og hvernig hann eða hún hegðar sér?
[Innskot á bls. 37]
„Kærasti þinn eða kærasta mun koma fram við þig á sama hátt og hann eða hún kemur fram við fjölskyldu sína.“ — Tony
[Rammi á bls. 34]
„Dragið ekki ok með vantrúuðum“
„Dragið ekki ok með vantrúuðum.“ Líklega finnst þér þessi meginregla úr 2. Korintubréfi 6:14 hljóma skynsamlega. Þrátt fyrir það geturðu orðið hrifin(n) af einhverjum sem er ekki sömu trúar og þú. Hvers vegna? Stundum snýst þetta bara um líkamlegt aðdráttarafl. „Ég hitti alltaf eina stelpu í íþróttatíma,“ segir Mark. „Hún kom alltaf og talaði við mig. Við urðum strax vinir.“
Ef þú þekkir þig og veist að þú hefur rétt siðferðisgildi og ef þú hefur nægan þroska til að láta ekki stjórnast af tilfinningum — þá er augljóst hvað þú átt að gera. Manneskjan sem þú ert hrifin(n) af á ekki eftir að bæta vináttu þína við Guð — óháð því hversu há siðferðisgildi hún virðist hafa eða hversu aðlaðandi eða hrífandi hún er. — Jakobsbréfið 4:4.
Eins og Cindy komst að er ekki auðvelt að binda enda á sambandið ef maður er orðinn ástfanginn. „Ég grét á hverjum degi,“ segir hún. „Ég hugsaði stöðugt um þennan strák, líka á samkomum. Ég elskaði hann svo mikið að ég hugsaði að ég myndi frekar vilja deyja en að missa hann.“ En með tímanum sá hún viskuna í ráðum mömmu sinnar sem varaði hana við að eiga kærasta utan safnaðarins. „Það var gott að ég sleit sambandinu,“ segir hún. „Ég treysti Jehóva fullkomlega til að veita mér það sem ég þarf.“
Ert þú í svipaðri stöðu og Cindy? Þú þarft ekki að takast á við þetta upp á eigin spýtur. Þú getur talað við foreldra þína. Það gerði Jim þegar hann varð mjög hrifinn af stelpu í skólanum. „Að lokum bað ég foreldra mína um hjálp,“ segir hann. „Það var lykillinn að því að ég gat sigrast á þessum tilfinningum.“ Safnaðaröldungar geta líka aðstoðað þig. Hvers vegna ekki að tala við einn þeirra um það sem þú ert að ganga í gegnum? — Jesaja 32:1, 2.
[Rammi/Mynd á bls. 39]
Vinnublað
Yrði hann góður eiginmaður?
Persónuleiki
□ Hvernig fer hann með ábyrgð eða vald sem honum hefur verið falið? — Matteus 20:25, 26.
□ Hver eru markmið hans? — 1. Tímóteusarbréf 4:15.
□ Er hann að vinna að þessum markmiðum núna? — 1. Korintubréf 9:26, 27.
□ Hvernig kemur hann fram við fjölskyldu sína? — 2. Mósebók 20:12.
□ Hverjir eru vinir hans? — Orðskviðirnir 13:20.
□ Um hvað talar hann? — Lúkas 6:45.
□ Hvaða viðhorf hefur hann til peninga? — Hebreabréfið 13:5, 6.
□ Hvers konar afþreyingu hefur hann gaman af? — Sálmur 97:10.
□ Hvernig sýnir hann að hann elskar Jehóva? — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Kostir
□ Er hann vinnusamur? — Orðskviðirnir 6:9-11.
□ Er hann ábyrgur í fjármálum? — Lúkas 14:28.
□ Hefur hann gott mannorð? — Postulasagan 16:1, 2.
□ Er hann tillitsamur? — Filippíbréfið 2:4.
Hættumerki
□ Reiðist hann auðveldlega? — Orðskviðirnir 22:24.
□ Reynir hann að tæla þig út í kynferðislegt siðleysi? — Galatabréfið 5:19.
□ Ræðst hann á aðra með orðum eða afli? — Efesusbréfið 4:31.
□ Þarf hann að nota áfengi til að skemmta sér? — Orðskviðirnir 20:1.
□ Er hann afbrýðisamur og upptekinn af sjálfum sér? — 1. Korintubréf 13:4, 5.
[Rammi/Mynd á bls. 40]
Vinnublað
Yrði hún góð eiginkona?
Persónuleiki
□ Hvernig sýnir hún undirgefni í fjölskyldunni og söfnuðinum? — Efesusbréfið 5:21, 22.
□ Hvernig kemur hún fram við fjölskyldu sína? — 2. Mósebók 20:12.
□ Hverjir eru vinir hennar? — Orðskviðirnir 13:20.
□ Um hvað talar hún? — Lúkas 6:45.
□ Hvaða viðhorf hefur hún til peninga? — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
□ Hver eru markmið hennar? — 1. Tímóteusarbréf 4:15.
□ Er hún að vinna að þessum markmiðum núna? — 1. Korintubréf 9:26, 27.
□ Hvers konar afþreyingu hefur hún gaman af? — Sálmur 97:10.
□ Hvernig sýnir hún að hún elskar Jehóva? — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Kostir
□ Er hún vinnusöm? — Orðskviðirnir 31:17, 19, 21, 22, 27.
□ Er hún ábyrg í fjármálum? — Orðskviðirnir 31:16, 18.
□ Hefur hún gott mannorð? — Rutarbók 3:11.
□ Er hún tillitssöm? — Orðskviðirnir 31:20.
Hættumerki
□ Er hún þrætugjörn? — Orðskviðirnir 21:19.
□ Reynir hún að tæla þig út í kynferðislegt siðleysi? — Galatabréfið 5:19.
□ Ræðst hún á aðra með orðum eða afli? — Efesusbréfið 4:31.
□ Þarf hún að nota áfengi til að skemmta sér? — Orðskviðirnir 20:1.
□ Er hún afbrýðisöm og upptekin af sjálfri sér? — 1. Korintubréf 13:4, 5.
[Mynd á bls. 30]
Það passa ekki á þig hvaða skór sem er og á sama hátt verður ekki hver sem er góður maki.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Finnst þér mikilvægt að skoða meira en útlitið þegar þú velur þér bíl? Er það ekki þeim mun mikilvægara þegar þú velur þér maka?
-
-
Hvar á að draga mörkin?Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
-
-
KAFLI 4
Hvar á að draga mörkin?
Rétt eða rangt . . .
Kærustupar má ekki undir neinum kringumstæðum snerta hvort annað.
□ Rétt
□ Rangt
Kærustupar getur gert sig sekt um saurlifnað án þess að hafa kynmök.
□ Rétt
□ Rangt
Kærustupar, sem sýnir hvort öðru ekki innileg ástaratlot, getur ekki verið ástfangið í raun.
□ Rétt
□ Rangt
ÞÚ HEFUR örugglega hugsað mikið um þessi mál. Ef þú átt kærasta eða kærustu getur stundum verið erfitt að vita hvar á að draga mörkin þegar kemur að því að sýna ástúð. Skoðum aðeins nánar fullyrðingarnar þrjár hér að ofan og sjáum hvernig orð Guðs hjálpar okkur að svara spurningunni: Hvar á að draga mörkin?
● Kærustupar má ekki undir neinum kringumstæðum snerta hvort annað.
Rangt. Biblían fordæmir ekki eðlilega og hreina tjáningu á ástúð. Til dæmis getum við lesið um stúlkuna Súlammít og fjárhirði nokkurn sem voru ástfangin. Samband þeirra var hreint og heiðvirt. Þau sýndu samt hvort öðru einhverja ástúð áður en þau giftust. (Ljóðaljóðin 1:2; 2:6; 8:5) Kærustupari, sem er alvarlega að hugleiða hjónaband, getur sömuleiðis fundist það eiga við að sýna hvort öðru viðeigandi ástúð.a
En þau verða engu að síður að vera vel á verði. Kossar, faðmlög eða eitthvað annað, sem æsir upp kynhvötina, getur leitt til siðleysis. Þótt fólk hafi góðan ásetning er alltof auðvelt að ganga of langt og leiðast út í kynferðislegt siðleysi. — Kólossubréfið 3:5.
● Kærustupar getur gert sig sekt um saurlifnað án þess að hafa kynmök.
Rétt. Gríska orðið porneiʹa, sem þýtt er ,saurlifnaður‘ og ,frillulífi‘, hefur breiða merkingu. Það er notað um allar kynlífsathafnir utan hjónabands og lýsir misnotkun kynfæranna. Saurlifnaður felur því ekki aðeins í sér samfarir heldur líka munnmök, endaþarmsmök og það að fróa annarri manneskju.
En Biblían fordæmir ekki bara saurlifnað og frillulífi. Páll postuli skrifaði: „Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi [„taumleysi“, New World Translation].“ Hann bætti við: „Þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.“ — Galatabréfið 5:19-21.
Hvað er „óhreinleiki“? Gríska orðið felur í sér alls kyns óhreinleika í tali og hegðun. Það væri vissulega óhreinleiki að láta hendur sínar laumast inn undir föt hins aðilans, færa hann úr fötum eða þukla vissa líkamshluta, svo sem brjóstin. Biblían setur það að gæla við brjóstin í samband við þann unað sem er einungis ætlaður hjónum. — Orðskviðirnir 5:18, 19.
Sumir unglingar eru blygðunarlausir og bjóða siðferðisreglum Guðs birginn. Þeir ganga of langt af ásettu ráði, eða sækjast af græðgi eftir sem flestum til að stunda kynferðislegan óhreinleika með. Þeir eru þannig sekir um það sem Páll postuli kallaði „taumleysi“. Gríska orðið, sem svo er þýtt, merkir ,taumlaus ástríða, svívirðileg verk, óhóf, ósvífni‘. Þú vilt örugglega ekki verða ,tilfinningalaus‘ með því að ,ofurselja þig lostalífi svo að þú fremjir alls konar siðleysi af græðgi‘. — Efesusbréfið 4:17-19.
● Kærustupar, sem sýnir hvort öðru ekki innileg ástaratlot, getur ekki verið ástfangið í raun.
Rangt. Gagnstætt því sem margir halda styrkja óviðeigandi ástaratlot ekki sambandið. Þvert á móti rífa þau niður gagnkvæma virðingu og traust. Lítum á reynslu Láru. „Dag einn, þegar mamma mín var ekki heima, kom kærasti minn í heimsókn til að horfa á sjónvarpið. Í fyrstu hélt hann bara í höndina mína en síðan fór hann að snerta mig á öðrum stöðum. Ég þorði ekki að segja honum að hætta því að ég var hrædd um að hann myndi reiðast og vilja fara,“ segir hún.
Hvað finnst þér? Þótti kærasta Láru virkilega vænt um hana eða var hann bara að hugsa um sínar eigin langanir? Ef einhver reynir að fá þig til að gera eitthvað óhreint, elskar hann þig þá í raun og veru?
Þegar strákur þrýstir á stelpu til að ganga gegn samvisku sinni og kristnum siðferðisreglum brýtur hann lög Guðs og grefur undan þeirri fullyrðingu að hann elski hana einlæglega. Og stelpa, sem gefur fúslega eftir, lætur nota sig. Það sem verra er þá hefur hún framið óhreinan verknað — jafnvel gert sig seka um saurlifnað.b — 1. Korintubréf 6:9, 10.
Setjið skýr mörk
Ef þú átt kærasta eða kærustu, hvernig getið þið forðast óviðeigandi ástaratlot? Það er skynsamlegt að setja skýr mörk fyrir fram. Í Orðskviðunum 15:22 segir: „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ Ræðið þess vegna saman um hvað sé viðeigandi. Ef þið bíðið með að setja reglur um þessa hluti þangað til þið eruð í aðstæðum þar sem ástríðurnar geta blossað upp er það eins og að bíða með að setja upp reykskynjara þangað til það kviknar í húsinu.
Það getur auðvitað verið erfitt að ræða svona viðkvæmt mál — jafnvel vandræðalegt — ekki síst þegar sambandið er rétt að hefjast. En með því að setja skýr mörk um hegðun getið þið komið í veg fyrir að alvarleg vandamál komi upp seinna meir. Skynsamleg mörk geta virkað eins og reykskynjari sem lætur í sér heyra við fyrstu merki elds. Og það hversu vel ykkur gengur að tala um slík mál getur líka gefið ykkur hugmynd um hversu mikil framtíð er í þessu sambandi. Sjálfstjórn, þolinmæði og óeigingirni eru grunnurinn að góðu kynlífi í hjónabandi. — 1. Korintubréf 7:3, 4.
Það er ekki alltaf auðvelt að fylgja meginreglum Guðs. En þú getur treyst leiðbeiningum hans. Í Jesaja 48:17 segir Jehóva að hann sé sá „sem kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga“. Já, Jehóva vill þér aðeins það besta!
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 24 Í 1. BINDI BÓKARINNAR
Þú ert ekki afbrigðilegur þótt þú hafir ekki sofið hjá. Þú hefur þvert á móti tekið rétta ákvörðun. Finndu út hvers vegna.
[Neðanmáls]
a Sums staðar í heiminum telst það ókurteisi og jafnvel óviðeigandi að kærustupar sýni hvort öðru ástúð á almannafæri. Kristið fólk leggur sig fram um að hegða sér þannig að það hneyksli ekki aðra. — 2. Korintubréf 6:3.
b Málin, sem hér eru rædd, eiga að sjálfsögðu við um bæði kynin.
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Kærleikurinn . . . hegðar sér ekki ósæmilega.“ — 1. Korintubréf 13:4, 5.
RÁÐ
Hittist í hópi eða hafið siðgæðisvörð með í för. Forðist varasamar aðstæður, eins og að vera ein í húsi eða íbúð eða kyrrstæðum bíl.
VISSIRÐU . . . ?
Ef maður er trúlofaður þarf auðvitað að ræða ýmis viðkvæm mál. En gróft tal, sem ætlað er að vekja kynferðislegar langanir, er ein mynd óhreinleika — líka þótt slíkt eigi sér stað í gegnum síma eða með SMS-skilaboðum.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ég get forðast siðleysi með því að ․․․․․
Ef kærasti minn eða kærasta reynir að fá mig til að gera eitthvað óhreint ætla ég að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Hvar myndirðu draga mörkin varðandi líkamlega snertingu við hitt kynið?
● Útskýrðu muninn á frillulífi, óhreinleika og taumleysi.
[Innskot á blaðsíðu 46]
„Ég og unnusti minn höfum lesið saman biblíutengdar greinar um hvernig við getum haldið okkur siðferðilega hreinum. Við erum þakklát fyrir það hvernig þær hafa hjálpað okkur að halda samviskunni hreinni.“— Leticia
[Rammi á bls. 44]
Hvað ef við höfum gengið of langt?
Hvað eigið þið að gera ef þið hafið hegðað ykkur ósæmilega? Ekki blekkja sjálf ykkur og halda að þið getið leyst vandann upp á eigin spýtur. „Ég bað til Jehóva: ,Hjálpaðu okkur að gera þetta ekki aftur,‘“ segir unglingur nokkur. „Stundum virkaði það en stundum ekki.“ Talið þess vegna við foreldra ykkar. Í Biblíunni erum við hvött til að kalla til okkar öldunga safnaðarins. (Jakobsbréfið 5:14) Þessir kristnu umsjónarmenn geta gefið ykkur leiðbeiningar, ráð og áminningar þannig að þið getið aftur eignast gott samband við Guð.
[Myndir á bls. 47]
Myndirðu bíða með að setja reykskynjara í húsið þitt þangað til það kviknaði í? Þá skuluð þið ekki heldur bíða þangað til ástríðurnar blossa upp áður en þið ákveðið hvar draga eigi mörkin.
-
-
Af hverju að bíða með kynlíf?Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
-
-
KAFLI 5
Af hverju að bíða með kynlíf?
„Ég finn fyrir þrýstingi til að prófa mig áfram með kynlíf.“ — Kelly.
„Mér finnst eins og ég sé eitthvað skrítinn af því að ég hef ekki stundað kynlíf.“ — Jordon.
„HEFURÐU aldrei sofið hjá?“ Þegar þú færð þessa spurningu langar þig kannski til að hverfa ofan í jörðina. Á mörgum stöðum er ungt fólk, sem hefur ekki stundað kynlíf, talið vera skrítið og furðulegt. Það kemur því ekki á óvart að svo margir byrji að stunda kynlíf á unglingsaldri.
Kynhvötin og þrýstingur jafnaldra
Ef þú ert kristinn veistu að í Biblíunni segir: „Haldið ykkur frá óskírlífi.“ (1. Þessaloníkubréf 4:3) Kannski finnst þér samt erfitt að hafa stjórn á kynhvötinni. „Stundum fer ég að hugsa um kynlíf án þess að það sé nokkur ástæða til,“ viðurkennir Páll. En þú mátt vera viss um að slíkar tilfinningar eru eðlilegar að ákveðnu marki.
Það er samt ekkert skemmtilegt að verða fyrir sífelldri stríðni og aðkasti vegna þess að maður er skírlífur. Hvað ef jafnaldrar þínir segja til dæmis að þú sért ekki alvöru maður eða kona nema þú hafir sofið hjá? „Jafnaldrarnir láta sem kynlíf sé bæði spennandi og eðlilegt,“ segir Ellen. „Ef maður sefur ekki hjá er maður stimplaður sem skrítinn.“
En það er önnur hlið á kynlífi fyrir hjónaband sem jafnaldrarnir tala kannski ekki um. María svaf hjá kærastanum sínum og hún segir: „Eftir á leið mér illa og ég skammaðist mín. Ég hataði sjálfa mig og ég hataði kærasta minn.“ Slík reynsla er miklu algengari en margir unglingar gera sér grein fyrir. Raunin er sú að kynlíf fyrir hjónaband er oft tilfinningalega erfið reynsla sem getur haft hræðilegar afleiðingar.
En stelpa að nafni Shanda spyr: „Hvers vegna hefur Guð gefið unglingum kynhvöt ef þeir eiga ekki að nota hana fyrr en þeir eru giftir?“ Þetta er góð spurning. Skoðum málið nánar:
Er kynhvötin eina sterka tilfinningin sem þú hefur? Nei, alls ekki. Jehóva Guð skapaði þig með alls konar tilfinningar og þrár.
Þarftu að fylgja hverri tilfinningu eða hvöt eftir um leið og hún blossar upp? Nei, því að Guð gerði þér líka kleift að hafa stjórn á hegðun þinni.
Hver er lærdómurinn? Þú getur kannski ekki komið í veg fyrir að sumar tilfinningar vakni en þú getur stjórnað því hvernig þú bregst við þeim. Að svala kynhvötinni í hvert skipti sem hún gerir vart við sig er í rauninni jafn heimskulegt og að lemja einhvern í hvert skipti sem maður reiðist.
Guð ætlaðist aldrei til þess að við myndum misnota getnaðarmáttinn. „Sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri,“ segir í Biblíunni. (1. Þessaloníkubréf 4:4) „Að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1-8) Sömuleiðis hefur það sinn tíma að fullnægja kynhvötinni og sinn tíma að halda aftur af henni. Þegar allt kemur til alls ert það þú sem stjórnar löngunum þínum!
En hvað geturðu gert ef einhver stríðir þér og spyr: „Hefurðu í alvöru aldrei sofið hjá?“ Ekki láta það draga úr þér kjarkinn. Ef viðkomandi er að reyna að gera lítið úr þér gætirðu sagt: „Nei, ég hef aldrei sofið hjá, og veistu hvað? Ég er bara mjög ánægð(ur) með það!“ Eða þú gætir sagt: „Það er mitt einkamál sem ég ræði ekki um við aðra.“a (Orðskviðirnir 26:4; Kólossubréfið 4:6) En kannski viltu að sá sem spurði þig fái að vita meira. Þá gætirðu valið að útskýra fyrir honum biblíulega afstöðu þína.
Dettur þér í hug fleiri svör við spurningunni: „Hefurðu í alvöru aldrei sofið hjá?“ Skrifaðu þau hér fyrir neðan.
․․․․․
Dýrmæt gjöf
Hvað finnst Guði um það þegar fólk ákveður að stunda kynlíf fyrir hjónaband? Segjum að þú hafir keypt gjöf handa vini þínum. En áður en þú nærð að gefa honum gjöfina hefur hann opnað hana af einskærri forvitni! Yrðir þú ekki sár? Þá geturðu rétt ímyndað þér hvernig Guði liði ef þú myndir sofa hjá fyrir hjónaband. Hann vill að þú bíðir með að njóta þeirrar gjafar sem kynlíf er þangað til þú ert gengin(n) í hjónaband. — 1. Mósebók 1:28.
Hvað áttu þá að gera í sambandi við kynhvötina? Temdu þér að hafa hemil á henni. Þú hefur styrkinn til þess! Biddu Jehóva um hjálp. Heilagur andi hans getur auðveldað þér að sýna sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Minntu þig á að Jehóva „synjar þeim engra gæða sem ganga í grandvarleik“. (Sálmur 84:12) Ungur maður að nafni Gordon segir: „Þegar ég fer að gæla við þá tilhugsun að kynlíf fyrir hjónaband sé ekki svo slæmt hugleiði ég hvaða slæmu afleiðingar það myndi hafa á trú mína. Og þá skil ég að engin synd er þess virði að skaða samband mitt við Jehóva.“
Skírlífi er ekki skrítið eða afbrigðilegt. Kynlíf fyrir hjónaband er hins vegar niðurlægjandi, auðmýkjandi og skaðlegt. Láttu þess vegna ekki áróður þessa heims telja þér trú um að það sé eitthvað óeðlilegt við það að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar. Með því að vera skírlífur verndarðu heilsuna, tilfinningalífið og — það sem mestu máli skiptir — sambandið við Guð.
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 23 Í 1. BINDI BÓKARINNAR
[Neðanmáls]
a Það er athyglisvert að Jesús ákvað að svara ekki þegar Heródes spurði hann spurninga. (Lúkas 23:8, 9) Stundum er best að bregðast við ósvífnum spurningum með því að þegja.
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Ef einhver . . . hefur afráðið í hjarta sínu að varðveita sveindóm sinn, þá gerir hann vel.“ — 1. Korintubréf 7:37, New World Translation.
RÁÐ
Forðastu að umgangast þá sem hafa lágt siðferðismat, jafnvel þótt þeir haldi því fram að þeir séu sömu trúar og þú.
VISSIR ÞÚ . . . ?
Þeir sem stunda frjálst kynlíf eru ekki líklegir til að breyta venjum sínum þótt þeir giftist. Þeir sem eru trúir siðferðisreglum Guðs fyrir hjónaband eru líklegri til að vera trúir maka sínum.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ef ég ætla ekki að stunda kynlíf fyrir hjónaband verð ég að ․․․․․
Ef félagar mínir gera mér erfitt fyrir að standa við ákvörðun mína ætla ég að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Af hverju heldurðu að sumir geri grín að þeim sem hafa ekki sofið hjá?
● Af hverju getur verið erfitt að vera skírlífur?
● Hver er ávinningurinn af því að stunda ekki kynlíf fyrir hjónaband?
● Hvernig myndirðu útskýra fyrir yngra systkini kosti þess að vera skírlífur?
[Innskot á blaðsíðu 51]
„Það sem hjálpar mér að standast kynferðislegar freistingar er að muna alltaf eftir því að ,enginn frillulífismaður eða saurugur á sér arfsvon í ríki Guðs‘.“ (Efesusbréfið 5:5) — Lydia
[Rammi á bls. 49]
Vinnublað
Hvað gerist næst — í raun og veru?
Jafnaldrar þínir fela oft af ásettu ráði slæmar afleiðingar þess að stunda kynlíf fyrir hjónaband og hið sama má segja um skemmtanaiðnaðinn. Skoðum þrjú dæmi. Hvað heldur þú að myndi gerast næst hjá þessum unglingum — í raun og veru?
● Skólafélagi montar sig af því að hafa sofið hjá mörgum stelpum. Hann segir að það sé skemmtilegt og að enginn skaðist. En hvað gerist næst hjá honum og stelpunum — í raun og veru? ․․․․․
● Kvikmynd endar á því að ungt ógift par sefur saman til að tjá hvort öðru ást sína. Hvað myndi gerast næst — í raunveruleikanum? ․․․․․
● Þú hittir sætan strák sem spyr hvort þú viljir sofa hjá honum. Hann segir að enginn þurfi að komast að því. Ef þú létir til leiðast og reyndir síðan að halda þessu leyndu hvað myndi í alvörunni gerast næst? ․․․․․
[Mynd á bls. 54]
Að stunda kynlíf fyrir hjónaband er eins og að opna gjöf áður en búið er að gefa þér hana.
-