Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Hvernig get ég forðast samkynhneigð?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
    • KAFLI 28

      Hvernig get ég forðast samkynhneigð?

      „Á unglingsárunum laðaðist ég að öðrum strákum. Innst inni vissi ég að þetta væri ekki eðlilegt.“ — Olef.

      „Ég og vinkona mín kysstumst einu sinni eða tvisvar. Þar sem ég var líka hrifin af strákum hugsaði ég með mér að kannski væri ég tvíkynhneigð.“ — Sarah.

      FLESTIR eru eflaust sammála því að núna er talað mun opinskárra um samkynhneigð en fyrir nokkrum áratugum. En reyndu að segja öðrum að þú samþykkir ekki slíkan lífsstíl. Þú getur verið viss um að þú fáir harða gagnrýni. Amy er 16 ára og hún segir: „Ein stelpa sagði að skoðun mín á samkynhneigð sýndi að ég væri fordómafull og því hlyti ég líka að vera á móti fólki af öðrum kynþáttum.“

      Umburðarlyndi nútímans hefur fengið margt ungt fólk til að prófa að stunda kynlíf með einhverjum af sama kyni. „Margar stelpur í skólanum segjast vera lesbíur, tvíkynhneigðar eða forvitnar um bæði kynin,“ segir Becky sem er 15 ára. Christa, 18 ára, segir að hið sama sé uppi á teningnum í skólanum sínum. „Tvær bekkjarsystur mínar hafa spurt hvort ég vilji hafa við þær kynmök,“ segir hún. „Önnur þeirra skrifaði mér miða þar sem hún spurði hvort ég vildi prófa hvernig það væri að vera með stelpu.“

      Sú staðreynd að margir skuli tala svona opinskátt um sambönd milli einstaklinga af sama kyni fær þig kannski til að spyrja: Er samkynhneigð svo slæm í sjálfu sér? Hvað ef ég laðast að einhverjum af sama kyni? Þýðir það að ég sé samkynhneigð(ur)?

      Hvernig lítur Guð á samkynhneigð?

      Nú á dögum líta margir mildum augum á samkynhneigð, þar á meðal sumir prestar. Orð Guðs, Biblían, er hins vegar mjög skýr hvað þetta varðar. Hún segir að Jehóva Guð hafi skapað mann og konu og að ásetningur hans hafi verið að kynlíf ætti aðeins að eiga sér stað milli hjóna. (1. Mósebók 1:27, 28; 2:24) Það kemur því ekki á óvart að Biblían skuli fordæma kynmök milli einstaklinga af sama kyni. — Rómverjabréfið 1:26, 27.

      Sumir segja kannski að Biblían sé úrelt. En hvers vegna heldurðu að þeir séu svona fljótir að draga þá ályktun? Gæti það verið vegna þess að sjónarmið Biblíunnar stangast á við þeirra eigin? Margir hafna orði Guðs einfaldlega af því að það kennir ekki það sem þeir vilja trúa. Þetta viðhorf ber vott um þröngsýni og við ættum ekki að láta slíka fordóma hafa áhrif á hugsun okkar.

      En hvað ef þú laðast að einhverjum af sama kyni? Þýðir það þá að þú sért samkynhneigð(ur)? Nei. Mundu að á unglingsárunum getur kynhvötin verið mjög sterk. (1. Korintubréf 7:36) Ef áhugi þinn beinist um nokkurt skeið að einhverjum af sama kyni þýðir það samt ekki að þú sért hommi eða lesbía. Slíkur áhugi dvínar oftast með tímanum. En á meðan verðurðu að passa þig að leiðast ekki út í ranga kynhegðun. Hvernig?

      Talaðu um málið við Jehóva í bæn. Sárbændu Jehóva eins og Davíð gerði: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi og leið mig hinn eilífa veg.“ (Sálmur 139:23, 24) Jehóva getur gefið þér frið „sem er æðri öllum skilningi“. Friður Guðs getur ,varðveitt hjarta þitt og hugsanir‘ og þú færð „ofurmagn kraftarins“ sem hjálpar þér að láta ekki undan röngum löngunum. — Filippíbréfið 4:6, 7; 2. Korintubréf 4:7, Biblían 1981.

      Fylltu hugann af uppbyggjandi hugsunum. (Filippíbréfið 4:8) Lestu daglega í Biblíunni. Hún hefur jákvæð áhrif á huga þinn og hjarta og þú skalt aldrei vanmeta kraft hennar. (Hebreabréfið 4:12) Ungur maður, sem heitir Jason, segir: „Biblían hefur haft gífurleg áhrif á mig, til dæmis ritningarstaðir eins og 1. Korintubréf 6:9, 10 og Efesusbréfið 5:3. Ég les þessa ritningarstaði þegar rangar langanir kvikna.“

      Forðastu klám og áróður fyrir samkynhneigð. (Kólossubréfið 3:5) Forðastu allt sem gæti kynt undir siðlausum löngunum. Þetta gæti verið klám, sumir sjónvarpsþættir og kvikmyndir og jafnvel tískublöð eða vaxtarræktarblöð sem sýna fáklæddar fyrirsætur. Reyndu að breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar. „Þegar samkynhneigðar langanir kvikna hugsa ég um uppáhaldsritningarstaðinn minn,“ segir unglingsstrákur.

      Sumir fullyrða auðvitað að það sé til lítils að leggja þetta allt á sig, að maður eigi ekki að afneita kynhneigð sinni heldur sætta sig bara við hver maður er. En Biblían bendir á að hægt sé að gera betur en það. Hún segir til dæmis frá samkynhneigðu fólki á fyrstu öld sem breytti líferni sínu þegar það tók kristna trú. (1. Korintubréf 6:9-11, Biblían 1981) Þú getur líka sigrað í baráttunni — jafnvel þótt hún sé aðeins háð í hjartanu.

      Hvað ef þessar röngu langanir halda áfram að gera vart við sig? Ekki láta undan þeim! Jehóva fordæmir samkynhneigða hegðun. Einstaklingur sem hneigist að sama kyni getur því sett sér markmið sem hægt er að ná — hann eða hún getur ákveðið að láta ekki undan þessum löngunum.

      Tökum dæmi um mann sem er skapbráður. (Orðskviðirnir 29:22) Áður fyrr var hann kannski gjarn á að gefa reiðinni lausan tauminn. En eftir að hafa kynnt sér Biblíuna gerir hann sér grein fyrir því að hann þarf að temja sér sjálfstjórn. Merkir þetta að hann muni aldrei aftur finna reiðina krauma innra með sér? Nei, en þar sem hann veit hvað Biblían segir um taumlausa reiði lætur hann tilfinningarnar ekki ná tökum á sér.

      Svipað gerist hjá einstaklingi sem laðast að einhverjum af sama kyni en hefur síðan lært hvað Biblían kennir um samkynhneigð. Slíkar langanir gætu stundum kviknað en með því að líta samkynhneigð sömu augum og Jehóva getur viðkomandi fengið styrk til að standast freistinguna.

      Gefstu ekki upp!

      Ef þú hneigist að sama kyni líður þér kannski eins og ungum manni sem sagði: „Ég hef reynt að breyta tilfinningum mínum. Ég hef beðið Jehóva um hjálp. Ég les í Biblíunni og ég hef hlustað á ræður um þetta efni. Ég veit ekki hvað ég get gert meira.“

      Ef þú ert í svipaðri stöðu áttu sannarlega í erfiðri baráttu. Það finnst engin auðveld lausn. Engu að síður verður sá sem vill þóknast Guði að fylgja siðferðisreglum hans og forðast ranga breytni, jafnvel þótt það geti verið ákaflega erfitt og sársaukafullt. Gleymdu aldrei að Jehóva skilur innri baráttuna sem þú átt í og hann ber umhyggju fyrir þeim sem þjóna honum.a (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Þegar þú hlýðir boðum Guðs uppskerðu mikla blessun. Það veitir meira að segja „ríkuleg laun“ að halda þau. (Sálmur 19:12) Og jafnvel núna geturðu lifað eins ánægjulegu lífi og hægt er í þessum vonda heimi.

      Treystu því Guði og gerðu þitt besta til að standast rangar langanir. (Galatabréfið 6:9) Leggðu þig fram um að hafa „andstyggð á hinu vonda“ og halda „fast við hið góða“. (Rómverjabréfið 12:9) Ef þú sýnir þolinmæði og staðfestu er líklegt að þessar röngu langanir dvíni með tímanum. Og það besta er að ef þú forðast samkynhneigða hegðun áttu von um eilíft líf í réttlátum nýjum heimi Guðs.

      Í NÆSTA KAFLA

      Hvernig geturðu haft stjórn á tilfinningum þínum gagnvart hinu kyninu?

      [Neðanmáls]

      a Kristinn einstaklingur ætti að leita til safnaðaröldunganna ef hann hefur gert sig sekan um siðleysi. — Jakobsbréfið 5:14, 15.

      LYKILRITNINGARSTAÐUR

      „Rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi.“ — Sálmur 139:23, 24.

      RÁÐ

      Til að sjá karlmennsku í réttu ljósi skaltu kynna þér fordæmi Jesú. (1. Pétursbréf 2:21) Hann er fullkomin fyrirmynd því að hann var bæði karlmannlegur og mildur í senn.

      VISSIR ÞÚ . . .?

      Þótt þú hafir kannski ekki fullkomna stjórn á löngunum þínum geturðu haft stjórn á verkum þínum. Þú getur valið að láta ekki undan röngum löngunum.

      HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

      Ef einhver spyr mig hvers vegna Biblían fordæmir samkynhneigð ætla ég að segja ․․․․․

      Ef einhver segir að leiðbeiningar Biblíunnar beri vott um þröngsýni ætla ég að segja ․․․․․

      Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

      HVAÐ FINNST ÞÉR?

      ● Af hverju samþykkir Guð ekki samkynhneigð?

      ● Hvað geturðu gert til að koma í veg fyrir að þú leiðist út í samkynhneigð?

      ● Er maður haldinn hommafælni (sýnir hatur eða mikla óbeit á samkynhneigðu fólki) ef maður tileinkar sér viðhorf Guðs til samkynhneigðar?

      [Innskot á bls. 236]

      „Brenglaður hugsunarháttur heimsins hafði áhrif á huga minn og gerði mig enn óvissari um kynhneigð mína. Núna held ég mig frá öllu og öllum sem ýta undir samkynhneigð.“ — Anna

      [Mynd á bls. 233]

      Allir unglingar þurfa að ákveða hvort þeir ætla að fylgja auðvirðilegum viðhorfum þessa heims í kynferðismálum eða að fylgja háleitum siðferðisreglum Biblíunnar.

  • Hvernig get ég hætt að hugsa svona mikið um kynlíf?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
    • KAFLI 29

      Hvernig get ég hætt að hugsa svona mikið um kynlíf?

      „ÉG STEND sjálfan mig að því að hugsa stanslaust um stelpur — jafnvel þótt þær séu ekki nærri,“ segir ungur maður sem heitir Michael. „Þetta er fáránlegt. Stundum næ ég ekki einu sinni að einbeita mér!“

      Notar þú, líkt og Michael, meirihluta dagsins í að hugsa um hitt kynið? Ef svo er líður þér kannski eins og þú standir í stríði við þinn eigin heila. Hugsanir um kynlíf geta ruðst inn í huga þinn eins og óvinahermenn. „Þessar hugsanir geta heltekið mann,“ segir Michael. „Maður leggur lykkju á leið sína að bílnum sínum bara til að geta gengið fram hjá sætri stelpu eða maður labbar fram hjá hillum í matvörubúð, þótt mann vanti ekkert úr þeim, bara vegna þess að mann langar til að skoða einhvern aðeins betur.“

      Mundu samt að kynferðislegar tilfinningar eru ekki rangar í sjálfu sér. Guð skapaði nú einu sinni karlinn og konuna þannig að þau laðast sterkt hvort að öðru og það er viðeigandi að fullnægja kynhvötinni innan hjónabandsins. Það getur verið að þú finnir fyrir sterkri kynhvöt á meðan þú ert enn þá einhleyp(ur). Ef svo er skaltu ekki álykta að þú sért slæm manneskja eða að þú getir bara ekki haldið þér siðferðilega hreinni eða hreinum. Þú getur haldið hreinleika þínum ef þú ákveður það! En til þess að það takist verðurðu að hafa stjórn á hugsunum þínum um hitt kynið. Hvernig geturðu farið að því?

      Hugsaðu um hverja þú umgengst. Ef skólafélagar þínir fara að ræða um kynlíf gæti þér fundist freistandi að taka þátt í samræðunum — bara til að skera þig ekki úr hópnum. En það mun einungis gera þér erfiðara fyrir að hafa stjórn á hugsunum þínum. Hvað ættirðu þá að gera — standa upp og fara? Já! Og þú þarft ekkert að skammast þín fyrir það. Þú getur örugglega fundið afsökun fyrir því að fara án þess að virðast ofurréttlát(ur) eða bjóða upp á að gert sé grín að þér.

      Forðastu siðlausa afþreyingu. Það eru auðvitað ekki allar kvikmyndir eða öll tónlist af hinu vonda. Engu að síður er mörgu af afþreyingarefni nútímans ætlað að vekja upp óviðeigandi kynferðislegar langanir. Hvert er ráð Biblíunnar? „Hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun okkar í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Forðastu því af öllum mætti afþreyingu sem gæti örvað siðlausar langanir.a

      Sjálfsfróun

      Sumir unglingar reyna að draga úr kynferðislegri spennu með sjálfsfróun. En þessu geta fylgt alvarleg vandamál. Í Biblíunni fær kristið fólk þessa hvatningu: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd.“ (Kólossubréfið 3:5) Að stunda sjálfsfróun er alger andstæða þess að ,deyða losta‘ í fari sér. Það beinlínis örvar og elur á kynferðislegri löngun.

      Sjálfsfróun getur gert þig að þræli langana þinna. (Títusarbréfið 3:3) Eitt af því sem þú getur gert til að sigrast á þessum ávana er að tala við einhvern um málið í trúnaði. Vottur, sem barðist við þennan ávana í nokkur ár, segir: „Ég vildi að ég hefði þorað að tala við einhvern um þetta þegar ég var unglingur. Samviskubitið nagaði mig í mörg ár og það hafði mjög skaðleg áhrif á samband mitt við aðra og sérstaklega við Jehóva.“

      Við hvernig ættirðu að tala? Það væri kannski eðlilegast að þú leitaðir til foreldris þíns. Þú gætir líka talað við þroskaðan bróður eða systur í söfnuðinum. Þú gætir byrjað á því að segja: „Mig langar til að tala við þig um vandamál sem veldur mér miklum áhyggjum.“

      André talaði við safnaðaröldung og hann er ánægður að hafa gert það. „Meðan öldungurinn var að hlusta á mig fylltust augu hans tárum,“ segir André. „Þegar ég var búinn að tala fullvissaði bróðirinn mig um að Jehóva elskaði mig. Hann sagði mér að þetta væri algengt vandamál og lofaði að fylgjast með hvernig mér gengi og láta mig fá biblíutengt lesefni sem gæti hjálpað mér. Eftir að hafa talað við hann var ég staðráðinn í að halda baráttunni áfram — jafnvel þótt ég myndi misstíga mig í framtíðinni.“

      Markús ákvað að tala við pabba sinn sem sýndi honum bæði skilning og meðaumkun. Hann viðurkenndi meira að segja fyrir Markúsi að hann hefði sjálfur átt erfitt með að sigrast á þessum ávana. „Hreinskilni og einlægni pabba hvatti mig mjög,“ segir Markús. „Ég hugsaði með mér að fyrst hann gat sigrast á þessu þá gæti ég það líka. Viðbrögð pabba snertu mig svo mikið að ég brotnaði saman og grét.“

      Þú getur, líkt og André og Markús, fengið hjálp til að hætta að stunda sjálfsfróun. Ekki gefast upp þótt þér mistakist. Þú skalt vera viss um að þú getur sigrað í baráttunni!b

      Hafðu stjórn á hugsunum þínum

      Páll postuli sagði: „Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum.“ (1. Korintubréf 9:27) Þú þarft kannski líka að beita þig hörku þegar óviðeigandi hugsanir um hitt kynið skjóta upp kollinum. Ef hugsanirnar hverfa ekki gætirðu reynt að hreyfa þig. Í Biblíunni segir: „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Rösk ganga eða einhverjar æfingar í nokkrar mínútur geta hjálpað þér að berjast á móti óæskilegum hugsunum.

      Umfram allt skaltu ekki gleyma þeirri hjálp sem himneskur faðir þinn er fús til að veita þér. „Þegar kynferðislegar langanir láta á sér kræla bið ég Jehóva einlæglega um hjálp,“ segir einn vottur. Ekki búast við því að Guð taki frá þér áhuga þinn á hinu kyninu. En með hjálp hans geturðu komist að raun um að hægt er að hugsa um svo margt annað.

      [Neðanmáls]

      a Nánar er fjallað um tómstundir og afþreyingu í 8. hluta bókarinnar.

      b Nánar er fjallað um sjálfsfróun í kafla 25 og 26 í 1. bindi bókarinnar.

      LYKILRITNINGARSTAÐUR

      „Hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

      RÁÐ

      Ef þú fellur aftur í það far að stunda sjálfsfróun skaltu samt ekki gefast upp í baráttunni! Reyndu að átta þig á hvað leiddi til þess að þú fórst út af sporinu og láttu það ekki gerast aftur.

      VISSIR ÞÚ . . .?

      Þær hugsanir, sem þú leyfir huganum að dvelja við, geta mótað persónuleika þinn og haft áhrif á hegðun þína. — Jakobsbréfið 1:14, 15.

      HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

      Til þess að geta hætt að hugsa um hitt kynið ætla ég að ․․․․․

      Ef samræður skólafélaganna verða tvíræðar eða klúrar ætla ég að ․․․․․

      Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

      HVAÐ FINNST ÞÉR?

      ● Eru kynferðislegar tilfinningar alltaf af hinu vonda?

      ● Af hverju þarftu að hafa stjórn á kynhvötinni?

      ● Hvers konar afþreying gæti fengið þig til að hugsa mikið um hitt kynið?

      ● Af hverju er mikilvægt að fara í burtu ef samræður fólks verða tvíræðar eða klúrar?

      [Innskot á bls. 240]

      „Það sem hjálpar mér er að einbeita mér að einhverju öðru — hætta að hugsa um það sem er kynferðislega örvandi. Ég minni sjálfan mig á að þessar tilfinningar eða langanir líða hjá.“ — Scott

      [Mynd á bls. 239]

      Myndirðu hleypa vírusum inn í tölvuna þína? Hvers vegna þá að hleypa siðlausum hugsunum inn í huga þinn?

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila