Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Angist í garðinum
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
    • Kafli 117

      Angist í garðinum

      EFTIR að Jesús hefur beðið bænar syngur hann lofsöng til Jehóva ásamt ellefu trúföstum postulum sínum. Þeir yfirgefa svo loftsalinn, fara út í svala og myrka nóttina og ganga þvert yfir Kedrondal í átt til Betaníu. En á leiðinni koma þeir við á stað sem er þeim kær, Getsemanegarðinum sem er á Olíufjallinu eða við rætur þess. Jesús og postularnir hafa oft hist þar inn á milli olíutrjánna.

      Hann skilur átta af postulunum eftir, kannski við innganginn í garðinn, og segir þeim: „Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna.“ Hinir þrír — Pétur, Jakob og Jóhannes — fara með honum lengra inn í garðinn. Mikla hryggð og angist setur nú að Jesú. „Sál mín er hrygg allt til dauða,“ segir hann þeim. „Bíðið hér og vakið með mér.“

      Jesús gengur lítið eitt áfram, fellur fram með andlitið til jarðar og biður innilega: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ Hvað á hann við? Af hverju er hann ‚hryggur allt til dauða‘? Er hann að guggna á því að deyja og greiða lausnargjaldið?

      Alls ekki! Jesús er ekki að biðja um að komast hjá dauða. Jafnvel tilhugsunin að koma sér undan því að deyja fórnardauða, eins og Pétur stakk einu sinni upp á, er honum ógeðfelld. Angist hans stafar af því að hann óttast að dauði hans — eins og fyrirlitlegs glæpamanns — kasti rýrð á nafn föður hans. Hann veit að eftir fáeinar klukkustundir verður hann hengdur upp á staur eins og versti afbrotamaður — guðlastari! Það er þetta sem veldur honum angist.

      Eftir alllanga bæn kemur Jesús aftur til postulanna þriggja og finnur þá sofandi. Hann segir við Pétur: „Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund? Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.“ En sökum þess hve framorðið er og álagið á þeim hefur verið mikið segir hann: „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“

      Jesús fer afsíðis í annað sinn og biður Guð að taka „þennan kaleik“ frá sér, það er að segja það hlutskipti sem Guð hefur falið honum. Hann kemur aftur til postulanna þriggja og finnur þá sofandi þótt þeir ættu að vera að biðja þess að falla ekki í freistni. Þeir vita ekki hvað segja skal þegar Jesús talar við þá.

      Jesús fer nú í þriðja sinn steinsnar frá þeim, krýpur og biðst fyrir með sárum kveinstöfum og tárum: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér!“ Jesús finnur til nístandi sársauka vegna þeirrar smánar sem það kallar yfir nafn föður hans að hann skuli eiga að deyja eins og glæpamaður. Að vera ákærður fyrir guðlast — að formæla Guði — er næstum óbærileg tilhugsun!

      Samt sem áður biður Jesús áfram: „Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ Jesús beygir sig fúslega undir vilja Guðs. Þá birtist honum engill af himni sem styrkir hann með nokkrum hughreystingarorðum. Trúlega segir engillinn honum að hann njóti velþóknunar föður síns.

      En það er þung byrði sem hvílir á Jesú! Eilíft líf hans sjálfs og alls mannkyns er í húfi. Tilfinningaálagið er gífurlegt. Hann biðst því enn ákafar fyrir og sviti hans verður eins og blóðdropar sem falla á jörðina. „Þótt blóðsviti . . . sé afar sjaldgæft fyrirbrigði getur hann brotist fram undir gríðarlegu tilfinningaálagi,“ segir tímaritið The Journal of the American Medical Association.

      Jesús kemur nú að postulunum sofandi í þriðja sinn. Þeir eru örmagna af hryggð. „Sofið þér enn og hvílist?“ segir hann. „Nú er nóg. Stundin er komin. Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna. Standið upp, förum! Sá er í nánd, er mig svíkur.“

      Hann er enn að tala þegar Júdas Ískaríot kemur ásamt fjölmennum flokki manna með blys, lampa og vopn. Matteus 26:30, 36-47; 16:21-23; Markús 14:26, 32-43; Lúkas 22:39-47; Jóhannes 18:1-3; Hebreabréfið 5:7.

      ▪ Hvert fer Jesús með postulunum þegar þeir yfirgefa loftsalinn, og hvað gerir hann þar?

      ▪ Hvað gera postularnir meðan Jesús biðst fyrir?

      ▪ Af hverju er Jesús angistarfullur og um hvað biður hann Guð?

      ▪ Hvað má ráða af því að sviti Jesú skuli vera eins og blóðdropar?

  • Svikráð og handtaka
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
    • Kafli 118

      Svikráð og handtaka

      ÞAÐ er komið langt fram yfir miðnætti þegar Júdas leiðir mikinn flokk hermanna, æðstupresta, farísea og annarra inn í Getsemanegarðinn. Prestarnir hafa fallist á að greiða Júdasi 30 silfurpeninga fyrir að svíkja Jesú í hendur þeim.

      Eftir öllu að dæma fór Júdas rakleiðis til æðstuprestanna eftir að honum var vísað frá páskamáltíðinni. Þeir kölluðu þegar í stað saman verði sína og flokk hermanna. Kannski fór Júdas fyrst með þá þangað sem Jesús og postularnir höfðu haldið páskahátíðina. Þegar í ljós kom að þeir voru farnir fylgdi flokkurinn Júdasi með vopnum, lömpum og blysum út fyrir borgina og yfir Kedrondal.

      Júdas þykist viss um hvar hann finni Jesú er hann leiðir fylkinguna upp Olíufjallið. Síðastliðna viku hafa Jesús og postularnir farið fram og aftur milli Betaníu og Jerúsalem og oft komið við í Getsemanegarðinum til að hvílast og ræða saman. En hvernig eiga hermennirnir að þekkja Jesú sem leynist hugsanlega í myrkrinu undir einhverju olíutrénu? Þeir hafa kannski aldrei séð hann fyrr. Júdas ætlar því að gefa þeim merki og segir: „Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum og færið brott í tryggri vörslu.“

      Júdas fer með allan flokkinn inn í garðinn, kemur auga á Jesú ásamt postulunum og gengur beint til hans. „Heill, rabbí!“ segir hann og kyssir hann blíðlega.

      „Vinur, hví ertu hér?“ segir Jesús hvasst. Hann svarar spurningunni sjálfur og segir: „Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?“ En nóg um þennan svikara! Jesús gengur fram í ljósið frá blysunum og lömpunum og spyr: „Að hverjum leitið þér?“

      „Að Jesú frá Nasaret,“ er svarað.

      „Ég er hann,“ svarar Jesús og stendur hugrakkur frammi fyrir þeim öllum. Mönnunum bregður við dirfsku hans, hopa á hæl og falla til jarðar því þeir vita ekki hverju þeir eiga að búast við.

      „Ég sagði yður, að ég væri hann,“ segir Jesús stillilega. „Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara.“ Skömmu áður en þeir yfirgáfu loftsalinn sagði Jesús föður sínum í bæn að hann hefði gætt trúfastra postula sinna og enginn þeirra hefði glatast nema „sonur glötunarinnar.“ Til að orð hans rætist biður hann um að fylgjendur sínir megi fara.

      Þegar hermennirnir átta sig, standa upp og gera sig líklega til að binda Jesú sjá postularnir að hverju stefnir. „Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?“ spyrja þeir. Áður en Jesús svarar mundar Pétur annað sverðið sem postularnir höfðu meðferðis, og ræðst á Malkus, þjón æðstaprestsins. Sverðið geigar en sníður af honum hægra eyrað.

      „Hér skal staðar nema,“ segir Jesús og skakkar leikinn. Hann snertir eyra Malkusar og græðir sárið. Síðan kennir hann þeim þýðingarmikla lexíu og skipar Pétri: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla. Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?“

      Jesús er fús til að láta handtaka sig því hann segir: „Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ Hann bætir við: „Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?“ Hann er fyllilega samþykkur vilja Guðs með sig.

      Síðan ávarpar Jesús hópinn: „Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum. En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist.“

      Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga taka Jesú þá höndum og binda hann. Þegar postularnir sjá það yfirgefa þeir Jesú og flýja sem fætur toga. En ungur maður, ef til vill lærisveinninn Markús, er enn í hópnum. Hann kann að hafa verið á heimilinu þar sem Jesús hélt páska og fylgt hópnum þaðan. Nú bera menn kennsl á hann og reyna að taka hann, en hann skilur eftir línklæði sitt og flýr. Matteus 26:47-56; Markús 14:43-52; Lúkas 22:47-53; Jóhannes 17:12; 18:3-12.

      ▪ Af hverju er Júdas viss um að hann finni Jesú í Getsemanegarðinum?

      ▪ Hvernig sýnir Jesús umhyggju sína fyrir postulunum?

      ▪ Hvað gerir Pétur til að verja Jesú en hvað segir Jesús honum um það?

      ▪ Hvernig sýnir Jesús að hann sé fyllilega samþykkur vilja Guðs með sig?

      ▪ Hver verður eftir þegar postularnir yfirgefa Jesú og hvað verður um hann?

  • Leiddur fyrir Annas og Kaífas
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
    • Kafli 119

      Leiddur fyrir Annas og Kaífas

      JESÚS er leiddur bundinn eins og ótíndur glæpamaður fyrir hinn áhrifamikla Annas sem var æðstiprestur þegar Jesús, 12 ára gamall, gerði rabbínakennarana í musterinu forviða. Nokkrir synir Annasar þjónuðu síðar sem æðstuprestar og núna gegnir Kaífas, tengdasonur hans, embættinu.

      Sennilega er farið fyrst með Jesú heim til Annasar vegna þess hve lengi Annas hefur gegnt stóru hlutverki í trúarlífi Gyðinga. Þessi viðkoma hjá Annasi gefur Kaífasi æðstapresti ráðrúm til að kalla saman æðstaráðið, sem er hæstiréttur Gyðinga og skipað 71 manni, og til að finna ljúgvotta.

      Annas prestur spyr Jesú um lærisveina hans og kenningu, en Jesús svarar: „Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað. Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt.“

      Varðmaður, sem stendur hjá Jesú, rekur honum þá löðrung og spyr: „Svarar þú æðsta prestinum svona?“

      „Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?“ svarar Jesús. Eftir þessi orðaskipti sendir Annas Jesú bundinn til Kaífasar.

      Nú eru allir höfuðprestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir, já, allt æðstaráðið að tínast saman, að öllum líkindum á heimili Kaífasar. Það er skýrt brot á lögum Gyðinga að rétta í máli manns á páskanótt en það hindrar trúarleiðtogana ekki í vonskuverki sínu.

      Mörgum vikum áður, þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum, hafði æðstaráðið sameinast um að dæma Jesú til dauða. Og aðeins tveir dagar eru síðan trúarleiðtogarnir réðu ráðum sínum um að handsama Jesú með svikum til að taka hann af lífi. Hugsaðu þér — það var búið að dæma Jesú fyrirfram, áður en hann var leiddur fyrir rétt!

      Nú er reynt að finna menn til að bera ljúgvitni sem byggja megi á sakamál gegn Jesú en engir finnast sem ber saman í framburði sínum. Loks koma tveir sem staðhæfa: „Vér heyrðum hann segja: ‚Ég mun brjóta niður musteri þetta, sem með höndum er gjört, og reisa annað á þrem dögum, sem ekki er með höndum gjört.‘“

      „Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?“ spyr Kaífas. En Jesús þegir. Æðstaráðinu til háðungar kemur vitnunum ekki einu sinni saman um þessa falskæru. Æðstipresturinn breytir því um aðferð.

      Kaífas veit hve viðkvæmir Gyðingar eru fyrir því ef einhver segist vera sonur Guðs. Tvívegis áður höfðu þeir í fljótfærni kallað Jesú dauðasekan guðlastara. Í annað skiptið ímynduðu þeir sér ranglega að hann hafi sagst vera jafn Guði. Nú segir Kaífas með slægð: „Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?“

      Hvað sem Gyðingar halda er Jesús í raun og veru sonur Guðs. Ef hann þegði mætti túlka það svo að hann væri að neita því að hann sé Kristur. Hann svarar því hugrakkur: „Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma í skýjum himins.“

      Þá rífur Kaífas klæði sín með tilþrifum og hrópar: „Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?“

      „Hann er dauðasekur,“ lýsir æðstaráðið yfir. Síðan taka menn að hæðast að honum og svívirða hann. Þeir slá hann í andlitið og hrækja framan í hann. Aðrir hylja andlit hans, slá hann með hnefum og segja hæðnislega: „Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?“ Þessi svívirða og lögleysa á sér stað við næturréttarhöldin. Matteus 26:57-68; 26:3, 4; Markús 14:53-65; Lúkas 22:54, 63-65; Jóhannes 18:13-24; 11:45-53; 10:31-39; 5:16-18.

      ▪ Hvert er fyrst farið með Jesú og hvað gerist þar?

      ▪ Hvert er síðan farið með Jesú og í hvaða tilgangi?

      ▪ Hvernig tekst Kaífasi að fá æðstaráðið til að lýsa Jesú dauðasekan?

      ▪ Hvaða svívirða og lögleysa á sér stað við réttarhöldin?

  • Pétur afneitar Jesú
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
    • Kafli 120

      Pétur afneitar Jesú

      PÉTUR og Jóhannes höfðu yfirgefið Jesú í Getsemanegarðinum og flúið óttaslegnir ásamt hinum postulunum en snúa svo við. Ef til vill draga þeir Jesú uppi þegar farið er með hann til Annasar. Þegar Annas sendir hann til Kaífasar æðstaprests fylgja Pétur og Jóhannes álengdar. Þeir óttast greinilega um líf sitt en hafa jafnframt miklar áhyggjur af því hvað verði um herra þeirra.

      Jóhannesi tekst að komast inn í hallargarð Kaífasar því að hann er kunnugur æðstaprestinum. Pétur bíður fyrir utan. Skömmu síðar kemur Jóhannes aftur og talar við þernu, sem gætir dyranna, og Pétri er hleypt inn fyrir.

      Það er orðið kalt og húsþjónar og varðmenn æðstaprestsins hafa kveikt kolaeld. Pétur færir sig nær til að orna sér meðan hann bíður niðurstöðu réttarhaldanna yfir Jesú. Í bjarmanum frá eldinum sér þernan, sem hleypti Pétri inn, betur framan í hann. „Þú varst líka með Jesú frá Galíleu,“ hrópar hún.

      Pétri bregður að hún skuli bera kennsl á hann og neitar því svo að allir heyra að hann þekki Jesú. „Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara,“ segir hann.

      Pétur gengur út í fordyrið og þar sér önnur þerna hann og segir við nærstadda: „Þessi var með Jesú frá Nasaret.“ Aftur neitar Pétur og sver þess eið að hann þekki manninn ekki.

      Hann dokar við í hallargarðinum og reynir að láta sem minnst á sér bera. Kannski er það þá, áður en birtir af degi, sem hani galar og honum bregður við. En réttarhöldin yfir Jesú fara trúlega fram á efri hæð hússins sem snýr að hallargarðinum. Pétur og aðrir sem bíða fyrir neðan sjá eflaust hin ýmsu vitni koma og fara.

      Um klukkustund er liðin síðan síðast var bent á að Pétur hefði verið með Jesú. Nú koma margir nærstaddra til hans og segja: „Víst ertu líka einn af þeim, enda segir málfæri þitt til þín.“ Einn þeirra er ættingi Malkusar sem Pétur hjó eyrað af. „Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?“ spyr hann.

      Pétur sver og sárt við leggur að hann þekki ekki manninn. Honum er svo mikið í mun að sannfæra fólkið um að því skjátlist að hann formælir sjálfum sér, það er að segja kallar yfir sig bölvun sé hann ekki að segja satt.

      Um leið og Pétur afneitar Jesú í þriðja sinn galar hani. Jesús, sem er greinilega kominn út á svalirnar yfir hallargarðinum, snýr sér við á sama augnabliki og lítur á hann. Þá minnist Pétur þess sem Jesús sagði í loftsalnum fyrir aðeins nokkrum klukkustundum: „Áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér.“ Niðurbrotinn vegna syndar sinnar gengur Pétur út og grætur beisklega.

      Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat Pétur afneitað herra sínum þrisvar í röð eftir að hafa verið svona sannfærður um andlegan styrk sinn? Eflaust komu atburðir kvöldsins Pétri að óvörum. Sannleikanum hefur verið rangsnúið og Jesús uppmálaður sem versti glæpamaður. Rétt er talið rangt og saklaus maður sekur. Pétur kiknar undan öllu álaginu og missir jafnvægið. Skyndilega bregst honum hollustan, sem er honum eiginleg, og hann lamast af ótta við menn. Megi það aldrei henda okkur! Matteus 26:57, 58, 69-75; Markús 14:30, 53, 54, 66-72; Lúkas 22:54-62; Jóhannes 18:15-18, 25-27.

      ▪ Hvernig komast Pétur og Jóhannes inn í hallargarð æðstaprestsins?

      ▪ Hvað á sér stað í húsinu meðan Pétur og Jóhannes eru í hallargarðinum?

      ▪ Hve oft galar hani og hve oft neitar Pétur því að hann þekki Krist?

      ▪ Hvað merkir það að Pétur sverji og formæli sér?

      ▪ Hvað fær Pétur til að afneita Jesú?

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila