-
Fyrir æðstaráðið og PílatusMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 121
Fyrir æðstaráðið og Pílatus
NÓTTIN er næstum liðin. Pétur hefur afneitað Jesú í þriðja sinn, æðstaráðið hefur lokið sýndarréttarhöldunum og hver farið sína leið. En í dagrenningu á föstudegi hittist ráðið aftur, nú í ráðssalnum. Eflaust er tilgangurinn sá að gefa næturréttarhöldunum einhvers konar löglegt yfirbragð. Þegar Jesús er leiddur fyrir ráðið er sagt við hann eins og um nóttina: „Ef þú ert Kristur, þá seg oss það.“
„Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa,“ svarar Jesús, „og ef ég spyr yður, svarið þér ekki.“ En Jesús segir hugrakkur hver hann sé: „Upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar.“
„Ert þú þá sonur Guðs?“ spyrja þeir allir.
„Þér segið, að ég sé sá,“ svarar Jesús.
Mennirnir eru í morðhug svo að þetta svar nægir þeim. Þeir telja það guðlast. „Hvað þurfum vér nú framar vitnis við?“ spyrja þeir. „Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans.“ Þeir láta því binda Jesú, leiða hann burt og framselja hann rómverska landshöfðingjanum Pontíusi Pílatusi.
Júdas, sem sveik Jesú, hefur fylgst með framvindu mála. Þegar hann kemst að raun um að Jesús hefur verið dæmdur sekur sér hann eftir öllu saman. Hann fer til æðstuprestanna og öldunganna til að skila silfurpeningunum 30 og segir: „Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð.“
„Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því,“ svara þeir harðneskjulega. Júdas fleygir þá silfrinu inn í musterið, fer burt og reynir að hengja sig. En greinin, sem Júdas reynir að binda reipið í, brotnar bersýnilega svo að hann fellur á grjótið fyrir neðan og brestur í sundur.
Æðstuprestarnir vita ekki hvað gera skal við silfrið. „Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar,“ segja þeir. Þeir verða ásáttir um að kaupa fyrir það akur leirkerasmiðsins sem grafreit handa útlendingum. Akurinn er því kallaður „Blóðreitur.“
Það er enn árla morguns þegar komið er með Jesú til hallar landshöfðingjans. En Gyðingarnir, sem fylgja honum, vilja ekki fara sjálfir inn í höllina því að þeir álíta að þeir saurgist af svo nánum samskiptum við heiðingja. Pílatus kemur því út til fundar við þá. „Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?“ spyr hann.
„Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur,“ svara þeir.
Pílatus vill helst ekki blanda sér í málið og svarar: „Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum.“
Gyðingarnir afhjúpa þá morðhug sinn og segja: „Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ Ef þeir tækju Jesú af lífi á páskahátíðinni myndi það líklega valda almennu uppþoti því að margir hafa Jesú í hávegum. En auðnist þeim að fá Rómverja til að taka hann af lífi fyrir pólitískar sakir gætu þeir hugsanlega firrt sig ábyrgð frammi fyrir fólkinu.
Trúarleiðtogarnir minnast því ekki á að þeir hafi réttað í málinu um nóttina og dæmt Jesú fyrir guðlast, heldur spinna upp aðrar ásakanir. Þeir saka Jesú um þrennt: „Vér höfum komist að raun um, að þessi maður [1] leiðir þjóð vora afvega, [2] hann bannar að gjalda keisaranum skatt og [3] segist sjálfur vera Kristur, konungur.“
Það er helst sú ákæra að Jesús segist vera konungur sem veldur Pílatusi áhyggjum. Hann gengur því aftur inn í höllina, kallar Jesú fyrir sig og spyr: „Ert þú konungur Gyðinga?“ Með öðrum orðum, hefurðu brotið lög með því að lýsa sjálfan þig konung í andstöðu við keisarann?
Jesú fýsir að vita hve mikið Pílatus hefur heyrt um hann og spyr: „Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“
Pílatus lætur sem hann viti ekki neitt og þykist vilja fá að vita staðreyndirnar. „Er ég þá Gyðingur?“ svarar hann. „Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?“
Jesús reynir ekki að skjóta sér undan spurningunni hvort hann sé konungur en svarið kemur Pílatusi eflaust á óvart. Lúkas 22:66–23:3; Matteus 27:1-11; Markús 15:1; Jóhannes 18:28-35; Postulasagan 1:16-20.
▪ Í hvaða tilgangi kemur æðstaráðið aftur saman um morguninn?
▪ Hvernig deyr Júdas og hvað er gert við silfurpeningana 30?
▪ Af hverju vilja Gyðingar ekki lífláta Jesú sjálfir heldur fá Rómverja til þess?
▪ Um hvað saka Gyðingar Jesú?
-
-
Frá Pílatusi til Heródesar og aftur til bakaMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 122
Frá Pílatusi til Heródesar og aftur til baka
JESÚS reynir alls ekki að dylja Pílatus þess að hann sé konungur en útskýrir að Róm stafi engin hætta af ríki hans. „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ segir hann. „Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ Jesús viðurkennir þannig þrívegis að hann eigi sér ríki þótt ekki sé það jarðneskt.
En Pílatus spyr aftur: „Þú ert þá konungur?“ það er að segja, ertu konungur þótt ríki þitt sé ekki af þessum heimi?
Jesús svarar því til að Pílatus hafi dregið rétta ályktun og segir: „Þú segir að ég sé konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“
Tilgangurinn með veru Jesú á jörðinni er sá að bera „sannleikanum“ vitni, einkum sannleikanum um ríki sitt. Hann er tilbúinn til að vera trúr þessum sannleika, jafnvel þótt það kosti hann lífið. Pílatus bíður ekki nánari skýringar þótt hann spyrji: „Hvað er sannleikur?“ Hann hefur heyrt nóg til að fella dóm.
Hann gengur aftur út til mannfjöldans sem bíður fyrir utan höllina. Jesús stendur greinilega við hlið hans þegar hann segir æðstuprestunum og föruneyti þeirra: „Enga sök finn ég hjá þessum manni.“
Mannfjöldinn reiðist þessum úrskurði og heldur fast við sitt: „Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað.“
Pílatus hlýtur að undrast glórulaust ofstæki Gyðinga. Æðstuprestarnir og öldungarnir halda áfram hrópum sínum en hann snýr sér að Jesú og spyr: „Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?“ En Jesús svarar engu. Pílatus undrast stillingu hans andspænis þessum hörðu ásökunum.
Þegar Pílatus kemst að raun um að Jesús er frá Galíleu eygir hann möguleika á að skjóta sér undan ábyrgð. Fjórðungsstjóri Galíleu, Heródes Antípas (sonur Heródesar mikla), er í Jerúsalem að halda páska svo að Pílatus sendir Jesú til hans. Heródes Antípas hafði látið hálshöggva Jóhannes skírara fyrir nokkru en varð hræddur þegar hann frétti af kraftaverkum Jesú því að hann óttaðist að Jesús væri Jóhannes upprisinn frá dauðum.
Heródes er himinlifandi að fá tækifæri til að sjá Jesú. Ekki svo að skilja að honum sé annt um velferð hans eða vilji virkilega komast að raun um hvort ásakanirnar gegn honum séu sannar eða ekki, heldur er hann einfaldlega forvitinn og langar til að sjá Jesú vinna eitthvert kraftaverk.
En Jesús neitar að svala forvitni Heródesar. Hann segir ekki orð þótt Heródes spyrji hann. Vonsviknir spotta Heródes og hermenn hans Jesú. Þeir klæða hann í skínandi klæði og hæðast að honum. Síðan senda þeir hann aftur til Pílatusar. Eftir þetta verða Heródes og Pílatus góðir vinir en áður höfðu þeir verið óvinir.
Þegar Jesús kemur aftur til Pílatusar kallar hann æðstuprestana, höfðingja Gyðinga og fólkið saman og segir: „Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um. Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert. Ætla ég því að hirta hann og láta lausan.“
Pílatus hefur nú tvisvar lýst Jesú saklausan. Hann vill gjarnan láta hann lausan því að honum er ljóst að prestarnir hafa framselt hann sökum öfundar. Og Pílatus fær enn sterkari ástæðu til að láta Jesú lausan því að eiginkona hans gerir honum boð meðan hann situr á dómstólnum og hvetur hann: „Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir [greinilega frá Guði] verið í nótt hans vegna.“
En hvernig getur Pílatus látið þennan saklausa mann lausan eins og hann veit að honum ber? Jóhannes 18:36-38, vers 37 neðanmáls; Lúkas 23:4-16; Matteus 27:12-14, 18, 19; 14:1, 2; Markús 15:2-5.
▪ Hvernig svarar Jesús spurningunni um konungdóm sinn?
▪ Hver er ‚sannleikurinn‘ sem Jesús notaði jarðlíf sitt til að bera vitni um?
▪ Hver er dómur Pílatusar, hver eru viðbrögð fólksins og hvað gerir Pílatus við Jesú?
▪ Hver er Heródes Antípas, hvers vegna er hann himinlifandi að fá að sjá Jesú og hvað gerir hann við hann?
▪ Af hverju vill Pílatus gjarnan láta Jesú lausan?
-
-
„Sjáið manninn!“Mesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 123
„Sjáið manninn!“
PÍLATUSI er ljóst að Jesús er saklaus og er snortinn af framkomu hans. Hann reynir því aðra leið til að láta hann lausan. „Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum,“ segir hann mannfjöldanum.
Í haldi er alræmdur morðingi sem Barabbas heitir, og Pílatus spyr: „Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?“
Það er að undirlagi æðstuprestanna sem æstur múgurinn biður um að fá Barabbas lausan en Jesú tekinn af lífi. Pílatus gefst ekki upp heldur spyr aftur: „Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan?“
„Barabbas,“ hrópar múgurinn.
„Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur?“ spyr Pílatus vonleysislega.
Allur fjöldinn æpir þá einum rómi: „Staurfestu hann!“ „Staurfestu! Staurfestu hann!“
Pílatus veit að þeir eru að heimta að saklaus maður sé líflátinn, svo að hann reynir að höfða til þeirra og spyr: „Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.“
Allt kemur fyrir ekki. Æstur múgurinn æpir að áeggjan trúarleiðtoganna: „Staurfestu hann!“ Prestarnir hafa æst múginn svo að hann þyrstir í blóð. Og hugsa sér, fyrir aðeins fimm dögum hafði sumt af þessu fólki sennilega fagnað Jesú sem konungi er hann kom til Jerúsalem. Lærisveinar Jesú hafa hljótt um sig og láta lítið á sér bera, ef þeir eru á annað borð nærstaddir.
Pílatus sér nú að hann fær ekkert að gert heldur færast ólætin í aukana. Hann tekur því vatn, þvær hendur sínar frammi fyrir fólkinu og segir: „Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!“ Og fólkið svarar: „Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!“
Pílatus vill heldur gera fólkinu til hæfis en gera það sem rétt er, svo að hann verður við kröfum þeirra og lætur Barabbas lausan. Hann lætur síðan fletta Jesú klæðum og húðstrýkja. Þetta var engin venjuleg húðstrýking. Tímaritið The Journal of the American Medical Association lýsir húðstrýkingum Rómverja svo:
„Yfirleitt var notuð stutt svipa með nokkrum einföldum eða fléttuðum leðurreimum. Reimarnar voru mislangar og litlar járnkúlur eða hvöss kindabein fest í þær með nokkru millibili. . . . Þegar rómverskur hermaður sló fórnarlambið margsinnis í bakið af öllu afli ollu járnkúlurnar djúpu mari og leðurreimarnar og kindabeinin skárust inn í húðina og húðbeðinn. Smám saman skárust svipuólarnar inn í vöðvana og skildu eftir sig tægjur af blæðandi holdi.“
Eftir þessa kvalafullu húðstrýkingu er farið með Jesú inn í höll landshöfðingjans og öll hersveitin kölluð saman. Þar svívirða hermennirnir Jesú áfram með því að flétta kórónu úr þyrnum og þrýsta henni á höfuð honum. Þeir stinga reyrsprota í hægri hönd hans og klæða hann í purpurakápu eins og konungar báru. Síðan hæða þeir hann og segja: „Sæll þú, konungur Gyðinga!“ Og þeir hrækja á hann og slá hann í andlitið. Þeir taka stífan reyrsprotann úr hendi hans, slá hann í höfuðið og reka hvassa þyrnana í niðurlægjandi ‚kórónunni‘ enn lengra inn í hársvörðinn.
Hin undraverða reisn Jesú og styrkur í öllum þessum misþyrmingum hefur slík áhrif á Pílatus að hann reynir enn einu sinni að láta hann lausan. „Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum,“ segir hann múgnum. Ef til vill ímyndar hann sér að hjörtu manna mýkist við að sjá Jesú svona kvalinn. Jesús stendur frammi fyrir miskunnarlausum skrílnum með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Það blæðir úr andliti hans og hann er augljóslega sárkvalinn. Pílatus hrópar: „Sjáið manninn!“
Þarna stendur mesta stórmenni mannkynssögunnar, mesta mikilmenni sem lifað hefur! Hann er marinn og illa leikinn en sýnir af sér þögla reisn og ró sem jafnvel Pílatus verður að viðurkenna, því að orð hans virðast lýsa bæði virðingu og vorkunn. Jóhannes 18:39–19:5; Matteus 27:15-17, 20-30, vers 22, 23 samkvæmt NW; Markús 15:6-19; Lúkas 23:18-25, vers 21 samkvæmt NW.
▪ Hvernig reynir Pílatus að láta Jesú lausan?
▪ Hvernig reynir Pílatus að firra sig ábyrgð?
▪ Lýstu húðstrýkingu.
▪ Hvernig er Jesús hæddur eftir húðstrýkinguna?
▪ Hvernig reynir Pílatus einu sinni enn að láta Jesú lausan?
-
-
Framseldur og leiddur burtMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 124
Framseldur og leiddur burt
ÆÐSTUPRESTARNIR reiðast um allan helming þegar Pílatus reynir enn á ný að láta Jesú lausan, snortinn af þögulli reisn hans þrátt fyrir pyndingar. Þeir eru staðráðnir í að láta ekkert hindra illskuáform sín svo að þeir hrópa aftur: „Staurfestu hann! Staurfestu hann!“
„Takið þið hann sjálfir og staurfestið,“ svarar Pílatus. (Vera má að Gyðingar hafi vald til að lífláta afbrotamenn fyrir nógu alvarleg, trúarleg afbrot, gagnstætt því sem þeir hafa haldið fram.) Síðan lýsir hann Jesú saklausan, að minnsta kosti í fimmta sinn, og segir: „Ég finn enga sök hjá honum.“
Gyðingar átta sig nú á því að pólitískar ákærur þeirra hafa ekki borið árangur og grípa því aftur til trúarlegu ákærunnar um guðlast sem þeir notuðu klukkustundum áður við réttarhöld æðstaráðsins. „Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni,“ segja þeir.
Pílatus hefur ekki heyrt þessa ákæru áður og verður enn hræddari. Honum er orðið ljóst að Jesús er enginn venjulegur maður eins og draumur eiginkonu hans og óvenjulegur persónustyrkur Jesú vitnar um. En ‚sonur Guðs‘? Pílatus veit að Jesús er frá Galíleu. En getur hugsast að hann hafi lifað áður? Pílatus fer aftur með hann inn í höllina og spyr: „Hvaðan ertu?“
Jesús svarar ekki. Hann var búinn að segja Pílatusi áður að hann sé konungur en ríki hans sé ekki af þessum heimi. Ítarlegri skýringar á þessari stundu þjóna engum tilgangi. En Pílatusi er misboðið að Jesús skuli ekki svara og spyr hann hvasst: „Talarðu ekki við mig? Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef vald til að staurfesta þig?“
„Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan,“ svarar Jesús kurteislega. Hann er að tala um það vald sem Guð hefur veitt mennskum valdhöfum til að stjórna á jörð. Hann bætir við: „Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur.“ Kaífas æðstiprestur og sökunautar hans, ásamt Júdasi Ískaríot, bera allir þyngri sök en Pílatus á þeirri ranglátu meðferð sem Jesús hefur hlotið.
Pílatus dáist nú enn meira að Jesú og verður enn hræddari um að hann sé af guðlegum uppruna. Hann reynir því enn á ný að láta hann lausan en Gyðingar hafna honum hranalega. Þeir endurtaka pólitískar ásakanir sínar og hóta honum klókindalega: „Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum.“
Þrátt fyrir hótunina sem felst í þessum orðum leiðir Pílatus Jesú út enn einu sinni. Hann skírskotar aftur til þeirra: „Sjáið þar konung yðar!“
„Burt með hann! Burt með hann! Staurfestu hann!“
„Á ég að staurfesta konung ykkar?“ spyr Pílatus örvæntingarfullur.
Gyðingum hafa síður en svo líkað yfirráð Rómverja. Reyndar fyrirlíta þeir rómversk yfirvöld! En nú segja æðstuprestarnir hræsnisfullir: „Við höfum engan konung nema keisarann.“
Pílatus óttast um pólitíska stöðu sína og orðstír og lætur loks undan linnulausum kröfum Gyðinga og framselur Jesú til aftöku. Hermennirnir færa Jesú úr purpurakápunni og í eigin yfirhöfn. Hann er leiddur út til staurfestingarinnar og látinn bera kvalastaur sinn.
Liðið er á morgun föstudaginn 14. nísan eða kannski komið fram undir hádegi. Jesús hefur verið á fótum síðan snemma á fimmtudagsmorgni og þolað kvöl á kvöl ofan. Skiljanlegt er að kraftar hans þrjóti fljótt undir þungum kvalastaurnum. Maður sem á leið hjá, Símon nokkur frá Kýrene í Afríku, er þá neyddur til að bera staurinn fyrir hann. Margir fylgja þeim á göngunni, þeirra á meðal konur sem harma og gráta Jesú.
Jesús snýr sér að konunum og segir: „Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar. Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu. . . . Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?“
Tréð, sem Jesús nefnir, er Gyðingaþjóðin sem enn er eitthvert líf í vegna návistar hans og tilveru þeirra leifa manna sem trúa á hann. En þegar þeir eru teknir úr þjóðinni er ekkert eftir nema andlega dautt tré, já, visnað þjóðskipulag. Það verður sannarlega tilefni til að gráta þegar rómverskar hersveitir eyða Gyðingaþjóðinni í umboði Guðs! Jóhannes 19:6-17, vers 6, 10, 15 samkvæmt NW; 18:31; Lúkas 23:24-31; Matteus 27:31, 32; Markús 15:20, 21.
▪ Hvað ásaka trúarleiðtogarnir Jesú um þegar pólitískar ákærur skila ekki tilætluðum árangri?
▪ Af hverju verður Pílatus enn hræddari?
▪ Hverjir bera þyngri sök á því sem verður um Jesú?
▪ Hvernig fá prestarnir Pílatus að lokum til að framselja Jesú til aftöku?
▪ Hvað segir Jesús konunum sem gráta hann, og hvað á hann við með því að tala um tréð sem ‚grænt‘ og svo ‚visið‘?
-
-
Á kvalastaurnumMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 125
Á kvalastaurnum
TVEIR ræningjar eru leiddir til aftöku með Jesú. Fylkingin nemur staðar skamman spöl frá borginni þar sem heitir Golgata eða Hauskúpustaður.
Fangarnir eru afklæddir og boðið myrrublandað vín sem greinilegt er að konurnar frá Jerúsalem láta í té. Rómverjar neita föngum ekki um þennan kvalastillandi drykk en Jesús vill ekki drekka vínið eftir að hann hefur bragðað á því. Af hverju? Greinilegt er að hann vill hafa fullkomlega skýra hugsun í þessari mestu trúarraun sinni.
Jesús er nú lagður á staurinn með báðar hendur strekktar yfir höfði sér. Hermennirnir reka stóra nagla gegnum hendur hans og fætur. Hann engist af sársauka þegar naglarnir stingast gegnum hold og sinar. Sársaukinn er næstum óbærilegur þegar staurinn er reistur og það strekkist á naglagötunum undan líkamsþunga hans. En í stað þess að ógna rómversku hermönnunum biður Jesús fyrir þeim: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“
Pílatus hefur látið setja skilti á staurinn með áletruninni „JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.“ Ætla má að það sé ekki bara virðing fyrir Jesú sem veldur, heldur ekki síður fyrirlitning á prestum Gyðinga sem hafa þvingað hann til að dæma Jesú til dauða. Svo allir megi lesa áletrunina lætur Pílatus gera hana á þrem tungumálum — hebresku, latínu sem er hið opinbera tungumál, og á alþjóðamálinu grísku.
Æðstuprestarnir, þeirra á meðal Kaífas og Annas, eru skelkaðir. Þessi jákvæða yfirlýsing spillir sigurgleði þeirra svo að þeir mótmæla: „Skrifaðu ekki ‚konungur Gyðinga‘, heldur að hann hafi sagt: ‚Ég er konungur Gyðinga‘.“ Pílatusi svíður það að hafa verið peð í hendi prestanna og svarar einbeittur og með fyrirlitningu: „Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.“
Prestarnir safnast nú saman ásamt miklum mannfjölda á aftökustaðnum og reyna að hrekja vitnisburðinn á skiltinu. Þeir endurtaka upploginn vitnisburðinn frá réttarhöldum æðstaráðsins. Þess vegna kemur ekki á óvart að þeir sem fram hjá ganga skuli spotta Jesú, hrista höfuðið hæðnislega og segja: „Þú sem ætlaðir að rífa niður musterið og byggja það á þrem dögum, bjargaðu sjálfum þér! Stígðu niður af kvalastaurnum ef þú ert sonur Guðs!“
„Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað!“ hrópa æðstuprestarnir og trúarlegir vildarmenn þeirra taka undir. „Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af kvalastaurnum og þá skulum við trúa á hann. Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ‚Ég er sonur Guðs‘?“
Í hita augnabliksins taka hermennirnir líka að hæða Jesú. Þeir skopast að honum með því að bjóða honum edik eða súrt vín en halda því rétt fyrir framan skrælnaðar varir hans. „Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér,“ segja þeir háðslega. Jafnvel ræningjarnir, sem eru staurfestir honum til beggja handa, gera gys að honum. Hugsaðu þér! Mesta mikilmenni sem lifað hefur, já, sá hinn sami og tók þátt í að skapa alla hluti með Jehóva Guði, þolir slíka háðung með reisn!
Hermennirnir taka yfirhöfn Jesú, skipta í fjóra hluta og varpa hlutkesti um hver fái þá. En kyrtill hans er mjög vandaður og saumlaus svo hermennirnir segja hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann.“ Óafvitandi eru þeir þar með að uppfylla ritningargreinina sem segir: „Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.“
Um síðir áttar annar ræninginn sig á því að Jesús hljóti virkilega að vera konungur. Hann ávítar því félaga sinn og segir: „Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst.“ Síðan ávarpar hann Jesú og biður: „Minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“
„Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís,“ svarar Jesús. Þetta fyrirheit rætist þegar Jesús ríkir sem konungur á himnum og reisir þennan iðrunarfulla illvirkja upp frá dauðum. Þannig fær hann að lifa í jarðneskri paradís en hana rækta þeir sem komast lifandi gegnum Harmagedón og félagar þeirra. Matteus 27:33-44, vers 40, 42 samkvæmt NW; Markús 15:22-32; Lúkas 23:27, 32-43, vers 43 samkvæmt NW; Jóhannes 19:17-24.
▪ Af hverju vill Jesús ekki drekka myrrublandaða vínið?
▪ Af hverju lætur Pílatus setja skilti á kvalastaur Jesú, og til hvaða orðaskipta kemur út af því milli hans og æðstuprestanna?
▪ Hvernig er Jesús hæddur á kvalastaurnum og af hverju?
▪ Hvernig rætist spádómur í sambandi við föt Jesú?
▪ Hvernig breytist afstaða annars ræningjans og hvernig mun Jesús verða við bón hans?
-
-
„Sannarlega var þessi maður sonur Guðs“Mesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 126
„Sannarlega var þessi maður sonur Guðs“
UM MIÐJAN dag, skömmu eftir að Jesús er staurfestur, skellur á dularfullt myrkur sem stendur í þrjár stundir. Ekki er það sólmyrkvi sem veldur, því að hann á sér ekki stað nema á nýju tungli en núna er fullt tungl, enda páskar. Og sólmyrkvi stendur aðeins í fáeinar mínútur. Myrkrið er því Guðs verk! Sennilega þaggar það um stund niður í þeim sem hæða Jesú, eða jafnvel alveg.
Hafi þetta uggvekjandi fyrirbæri átt sér stað áður en annar illvirkinn ávítar félaga sinn og biður Jesú að minnast sín, þá kann það að hafa átt sinn þátt í iðrun hans. Kannski er það í myrkrinu sem fjórar konur, þær móðir Jesú og Salóme systir hennar, María Magdalena og María móðir postulans Jakobs yngri, færa sig alveg að aftökustaurnum. Jóhannes, elskaður postuli Jesú, er með þeim þar.
Það hlýtur að ‚nísta‘ móður Jesú í hjartað að sjá soninn, sem hún ól og annaðist, hanga þarna sárkvalinn! En Jesús hugsar ekki um sína eigin kvöl heldur velferð hennar. Með erfiðismunum kinkar hann kolli til Jóhannesar og segir við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan kinkar hann kolli í átt til Maríu og segir Jóhannesi: „Nú er hún móðir þín.“
Þar með felur Jesús þessum ástfólgna postula sínum að annast móður sína sem er greinilega orðin ekkja. Þetta gerir hann af því að aðrir synir Maríu hafa enn ekki sýnt trú á hann. Hann setur gott fordæmi með því að sjá þannig bæði fyrir líkamlegum og andlegum þörfum móður sinnar.
Um þrjúleytið síðdegis segir Jesús: „Mig þyrstir.“ Hann skynjar að faðir hans hefur tekið vernd sína frá honum, ef svo má segja, til að ráðvendni hans verði reynd til hins ítrasta. Hann kallar því hárri röddu: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Nokkrir nærstaddir, sem heyra þetta, segja þá: „Heyrið, hann kallar á Elía!“ Einn þeirra hleypur þá til, setur svamp fylltan súru víni eða ediki á reyrstaf og gefur honum að drekka. Aðrir segja: „Látum sjá, hvort Elía kemur að taka hann ofan.“
Þegar Jesús fær edikið hrópar hann: „Það er fullkomnað.“ Já, hann hefur lokið öllu því sem faðir hans sendi hann til jarðar að gera. Að lokum kallar hann: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“ Þar með felur hann Guði lífskraft sinn í trausti þess að hann gefi honum hann aftur. Síðan hneigir hann höfuðið og deyr.
Mikill jarðskjálfti ríður yfir um leið og Jesús gefur upp andann, og björgin klofna. Svo öflugur er skjálftinn að grafirnar utan við Jerúsalem opnast og líkin kastast út. Þeir sem leið eiga hjá sjá líkin og segja frá í borginni.
Og á sömu stundu og Jesús deyr rifnar fortjaldið mikla milli hins heilaga og hins allra helgasta í musteri Guðs í tvennt, ofan frá og niður úr. Þetta fallega skreytta fortjald er líklega um 18 metra hátt og mjög þungt. Þetta sérstæða kraftaverk ber ekki aðeins vott um reiði Guðs gegn morðingjum sonar síns heldur táknar líka að leiðin inn í hið allra helgasta, sjálfan himininn, sé nú opin eftir dauða Jesú.
Mikill ótti grípur um sig þegar jarðskjálftinn gengur yfir og fólk sér hvað gerst hefur. Liðsforinginn, sem sér um aftökuna, vegsamar Guð. „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs,“ segir hann. Trúlega var hann viðstaddur þegar Pílatus réttaði yfir Jesú og rætt var um hvort hann væri sonur Guðs. Og nú er hann sannfærður um að Jesús sé sonur Guðs, að hann sé sannarlega mesta mikilmenni sem lifað hefur.
Aðrir eru líka dolfallnir yfir þessum undraverðu atburðum, og þeir tínast heim á leið og berja sér á brjóst til tákns um djúpan harm sinn og skömm. Margar konur, sem eru lærisveinar Jesú, hafa staðið álengdar og horft á og eru djúpt snortnar af þessum miklu atburðum. Jóhannes postuli er einnig viðstaddur. Matteus 27:45-56; Markús 15:33-41; Lúkas 23:44-49; 2:34, 35; Jóhannes 19:25-30.
▪ Af hverju er það ekki sólmyrkvi sem veldur þriggja stunda myrkri?
▪ Hvaða gott fordæmi um að sjá fyrir öldruðum foreldrum setur Jesús skömmu fyrir dauða sinn?
▪ Hvernig hljóða fjórar síðustu setningarnar sem Jesús segir áður en hann deyr?
▪ Hvað gerist í jarðskjálftanum og hvaða þýðingu hefur það að fortjald musterisins rifnar í tvennt?
▪ Hvaða áhrif hafa þessi kraftaverk á liðsforingjann sem sér um aftökuna?
-
-
Grafinn á föstudegi, tóm gröf á sunnudegiMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 127
Grafinn á föstudegi, tóm gröf á sunnudegi
LANGT er liðið á föstudag og hvíldardagurinn 15. nísan hefst við sólsetur. Líkami Jesú hangir lífvana á staurnum en ræningjarnir tveir við hlið hans eru enn á lífi. Föstudagssíðdegi er kallað „aðfangadagur“ því að þá er matbúið og lokið öllum öðrum aðkallandi verkum sem ekki geta beðið fram yfir hvíldardag.
Hvíldardagurinn, sem nú er að hefjast, er ekki venjulegur hvíldardagur (sjöundi dagur vikunnar) heldur tvöfaldur eða ‚mikill‘ hvíldardagur. Hann er svo nefndur af því að 15. nísan, sem er fyrsti dagur hinnar sjö daga hátíðar ósýrðu brauðanna (og er alltaf hvíldardagur óháð vikudegi), ber upp á sama dag og hinn venjulega hvíldardag.
Samkvæmt lögmáli Guðs má lík ekki hanga á tré næturlangt. Gyðingar biðja Pílatus því að fótbrjóta þá sem verið er að lífláta til að flýta dauða þeirra. Hermennirnir brjóta því fótleggi ræningjanna tveggja. En þar eð Jesús virðist látinn eru fætur hans ekki brotnir. Þar með rætist ritningargreinin: „Ekkert bein hans skal brotið.“
En til að ganga fyllilega úr skugga um að Jesús sé virkilega látinn stingur einn af hermönnunum spjóti í síðu hans. Spjótið stingst inn við hjartað og jafnskjótt rennur út blóð og vatn. Jóhannes postuli, sem er sjónarvottur að þessu, segir að þar með rætist önnur ritningargrein: „Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu.“
Jósef nokkur frá Arímaþeu, virtur meðlimur æðstaráðsins, er einnig viðstaddur aftökuna. Hann hafði neitað að greiða atkvæði með ranglátum dómi hæstaréttarins yfir Jesú. Jósef er raunar lærisveinn hans þótt hann hafi ekki þorað að gera það uppskátt. En nú sýnir hann hugrekki og fer til Pílatusar og biður um líkama Jesú. Pílatus kallar á liðsforingjann, sem sér um aftökuna, og lætur afhenda líkið eftir að hafa fengið staðfest að Jesús sé látinn.
Jósef tekur líkið og sveipar það hreinu línklæði til greftrunar. Nikódemus, annar meðlimur æðstaráðsins, aðstoðar hann. Nikódemus hefur ekki heldur játað trú sína á Jesú af ótta við að missa stöðuna. En nú kemur hann með blöndu af myrru og dýrri alóe, um hundrað rómversk pund (33 kílógrömm). Líkami Jesú er vafinn í línblæjur með þessum ilmjurtum eins og Gyðingar eru vanir að búa lík til greftrunar.
Jósef á nýja gröf sem höggvin er í klett í grasgarðinum þar í grennd. Lík Jesú er lagt í gröfina. Loks er stórum steini velt fyrir grafarmunnann. Menn þurfa að hafa hraðar hendur við að búa líkið til greftrunar til að ljúka henni fyrir hvíldardaginn. María Magdalena og María móðir Jakobs yngri, sem hafa ef til vill aðstoðað við undirbúninginn, hraða sér því heim til að útbúa meiri ilmjurtir og smyrsl. Eftir hvíldardaginn ætla þær að meðhöndla lík Jesú frekar til að það varðveitist lengur.
-