Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.7. bls. 5-9
  • Er hægt að sættast?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er hægt að sættast?
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Spurningar sem þarf að svara
  • Nauðsynleg skoðanaskipti
  • Að fyrirgefa
  • Lærðu að treysta honum aftur
  • Það tekur tíma
  • Að forðast skilnað á efri árum
    Góð ráð handa fjölskyldunni
  • Ef skilnaður verður fyrir valinu
    Vaknið! – 1999
  • „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður“
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • Þegar vinátta við hitt kynið verður of náin
    Vaknið! – 2013
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.7. bls. 5-9

Er hægt að sættast?

„Það er hægur vandi að rjúka út í hjónaskilnað í fljótræði,“ segir bókin „Couples in Crisis.“ „Mörg hjónabönd hljóta þó að vera þess virði að bjarga þeim og gætu orðið farsæl ef unnið væri úr vandamálunum.“

ÞESSI orð koma heim og saman við aldagamla ábendingu Jesú Krists um hjónaskilnaði. Hann sagði að vísu að saklausi makinn mætti skilja ef hinn hefði verið ótrúr, en hann sagði ekki að það væri skylda. (Matteus 19:3-9) Trúi makinn getur haft ástæðu til að reyna að bjarga hjónabandinu. Vel má vera að maður elski konu sína þótt hann hafi verið henni ótrúr.a Hann kann að vera umhyggjusamur eiginmaður og góður faðir og leggja sig vel fram um að sjá fyrir þörfum fjölskyldunnar. Eiginkonan ákveður kannski að sættast frekar við manninn sinn en skilja við hann, að teknu tilliti til þarfa sinna og barnanna. Hvaða þættir koma þá til skoðunar og hvernig er hægt að takast á við það erfiða verkefni að treysta böndin á nýjan leik?

Rétt er að taka fram strax í upphafi að það er hvorki auðvelt fyrir hjón að sættast né skilja. Og það er ekki líklegt að þau vandamál, sem að baki búa í hjónabandinu, leysist við það eitt að fyrirgefa ótrúum maka. Það kostar yfirleitt sársaukafulla sjálfsrannsókn, hreinskilnisleg skoðanaskipti og heilmikla vinnu að bjarga hjónabandi. Hjón vanmeta oft þann tíma og krafta sem það kostar að reisa hjónaband á ný úr rústum. En margir hafa þraukað og hafa hlotið traust hjónaband að launum.

Spurningar sem þarf að svara

Til að taka ákvörðun byggða á vitneskju þarf trúi makinn að gera sér grein fyrir tilfinningum sínum og þeim valkostum sem fyrir hendi eru. Eiginkona gæti hugleitt eftirfarandi: Vill hann koma aftur? Hefur hann endanlega slitið ástarsambandinu við hina konuna eða er hann tregur til að gera það þegar í stað? Hefur hann beðist fyrirgefningar? Ef svo er, sér hann þá virkilega eftir þessu og er hann fullur iðrunar yfir því sem hann gerði? Eða hefur hann tilhneigingu til að kenna mér um brot sitt? Harmar hann í einlægni þau sárindi sem hann hefur valdið? Eða er hann kannski bara í uppnámi út af því að upp komst um framhjáhaldið og hann þurfti að hætta því?

Hvað um framtíðina? Er hann byrjaður að bæta viðhorf sín og breyta því hátterni sem leiddi til hjúskaparbrotsins? Er hann staðráðinn í að láta það ekki endurtaka sig? Eða hefur hann enn tilhneigingu til að daðra og mynda óviðeigandi tilfinningabönd við hitt kynið? (Matteus 5:27, 28) Er hann staðráðinn í að leggja sig fram um að viðhalda hjónabandinu og styrkja það? Hvað gerir hann þá til þess? Rétt svör við þessum spurningum geta verið tilefni til að ætla að hægt sé að styrkja hjónabandið á nýjan leik.

Nauðsynleg skoðanaskipti

„Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin,“ segir biblíuritari. (Orðskviðirnir 15:22) Sú er vissulega raunin þegar eiginkonu finnst hún þurfa að tala við mann sinn um ótryggð hans. Með því að tala saman í hreinskilni og einlægni tekst þeim kannski að fá rétta mynd af því sem gerðist og eyða ranghugmyndum, án þess þó að fara út í mjög persónuleg smáatriði. Það getur komið í veg fyrir að bilið milli hjónanna breikki enn meir sökum misskilnings og langvarandi gremju. Það fer auðvitað ekki hjá því að slík samtöl séu sársaukafull fyrir bæði hjónin, en það er reynsla margra að þau séu þýðingarmikill þáttur í því að byggja upp traust á nýjan leik.

Annar mikilvægur þáttur í því að ná sáttum er að reyna að koma auga á þau svið hjónabandsins þar sem hjónin hafa átt við erfiðleika að glíma og þurfa bæði að bæta sig. Zelda West-Meads ráðleggur: „Þegar þú hefur rætt nóg um sársaukafullu málin, fullvissað þig um að ástarsambandinu hafi örugglega verið slitið og að þú viljir enn viðhalda hjónabandinu, þá þarf að finna út hvað fór úrskeiðis og endurnýja hjónabandið.“

Kannski voruð þið farin að líta hvort á annað sem sjálfsagðan hlut og vanræktuð andleg hugðarefni. Kannski voruð þið of lítið hvort með öðru. Ef til vill hafið þið ekki verið jafnörlát á ást ykkar, blíðu, virðingu og hrós og þið þörfnuðust bæði tvö. Með því að endurskoða markmið ykkar og gildismat í sameiningu getið þið styrkt tengsl ykkar til muna og vonandi komið í veg fyrir ótrúmennsku í framtíðinni.

Að fyrirgefa

Þrátt fyrir einlæga viðleitni getur konu fundist erfitt að fyrirgefa eiginmanni sínum, að ekki sé nú talað um að fyrirgefa hinni konunni. (Efesusbréfið 4:32) Engu að síður er hægt að vinna að því jafnt og þétt að losa sig við reiðina og beiskjuna. „Trúi makinn þarf að gera sér grein fyrir að það kemur að því að hann þarf að segja skilið við hið liðna og hefjast handa á ný,“ segir í uppsláttarriti. „Það er mikilvægt að halda ekki áfram að klifa á gömlum syndum maka síns og refsa honum í hvert sinn sem til rifrildis kemur.“

Líklegt er að biturleikinn í garð hins seka hverfi smám saman ef menn leggja sig í líma við að draga úr sárustu reiðinni og komast yfir hana. Þetta er mikilvægt til að byggja upp hjónabandið á nýjan leik.

Lærðu að treysta honum aftur

„Getum við byggt upp traust á nýjan leik?“ spurði örvilnuð kona. Áhyggjur hennar eru réttmætar því að sviksemi hins ótrúa hefur eyðilagt traustið eða í það minnsta stórspillt því. Traust er eins og verðmætur skrautvasi sem er auðvelt að brjóta en erfitt að setja saman aftur. Það er staðreynd að gagnkvæmt traust og virðing fyrir sambandi hjónanna eru nauðsynleg til að hjónabandið bæði endist og dafni.

Yfirleitt þarf fólk að læra að treysta á nýjan leik. Hinn seki getur lagt sitt af mörkum til þess með því að vera fullkomlega opinskár og hreinskilinn um athafnir sínar í stað þess að sýna tillitsleysi og krefjast þess að sér sé treyst. Kristnir menn eru hvattir til að ‚leggja af lygina og tala sannleika‘ hver við annan. (Efesusbréfið 4:25) Til að endurheimta traustið geturðu þurft að byrja á því að „gefa [maka þínum] nákvæmar upplýsingar um ferðir þínar,“ segir Zelda West-Meads. „Segðu honum hvert þú ert að fara og hvenær þú kemur aftur, og gættu þess að vera þar sem þú segist ætla að vera.“ Láttu vita af þér ef áætlanir breytast.

Það getur kostað bæði tíma og erfiði að byggja upp sjálfsvirðinguna á nýjan leik. Sekur eiginmaður getur hjálpað konunni sinni til þess með því að vera örlátur á ástúð og hrós — með því að segja henni oft að hún sé metin og elskuð. Virtur hjónaráðgjafi ráðleggur: „Hrósið henni fyrir allt sem hún gerir.“ (Orðskviðirnir 31:31, Today’s English Version) Eiginkonan getur lagt sitt af mörkum til að byggja upp sjálfstraustið með því að einbeita sér að því sem hún gerir vel.

Það tekur tíma

Þegar á það er litið hve gífurlegum sársauka ótrúnaður veldur kemur það ekki á óvart að endurminningarnar geti enn verið ljóslifandi og sársaukafullar mörgum árum síðar. En um leið og sársaukinn dvínar smám saman getur auðmýkt, þolinmæði og þrautseigja af beggja hálfu byggt upp traust og virðingu á nýjan leik. — Rómverjabréfið 5:3, 4; 1. Pétursbréf 3:8, 9.

Bókin To Love, Honour and Betray segir hughreystandi: „Nístandi sársauki fyrstu mánaðanna varir ekki endalaust. Það dregur smám saman úr honum . . . Að lokum uppgötvar maður að það geta liðið dagar, vikur, mánuðir og jafnvel ár án þess að hann geri vart við sig.“ Þegar þú leggur þig fram um að fara eftir meginreglum Biblíunnar í hjónabandinu og leitar blessunar og leiðsagnar Guðs finnurðu eflaust fyrir róandi áhrifum ‚friðar Guðs, sem er æðri öllum skilningi.‘ — Filippíbréfið 4:4-7, 9.

„Þegar ég lít um öxl sé ég að þessi reynsla hefur breytt stefnu okkar í lífinu,“ segir Pétur. „Við þurfum af og til að bæta eitt og annað í hjónabandi okkar, en við komumst heil gegnum eldraunina. Við erum enn þá gift og erum hamingjusöm.“

En hvað nú ef saklausi makinn hefur ekki tilefni til að fyrirgefa hinum ótrúa? Og hvað þá ef hann fyrirgefur maka sínum (með því að komast yfir reiðina) en notar sér samt biblíulega heimild sína til skilnaðar?b Hverjir eru fylgifiskar hjónaskilnaðar? Við hvetjum þig til að halda lestrinum áfram og velta fyrir þér ýmsum afleiðingum hans og skoða jafnframt hvernig sumir hafa tekist á við þær.

[Neðanmáls]

a Til einföldunar er að jafnaði látið sem eiginmaðurinn hafi verið ótrúr. Meginreglurnar, sem um er fjallað, eiga auðvitað einnig við um trúan eiginmann og ótrúa eiginkonu.

b Sjá greinina „The Bible’s Viewpoint: Adultery — To Forgive or Not to Forgive?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. ágúst 1995.

[Rammagrein á blaðsíðu 6]

MIKILVÆGUR STUÐNINGUR

Í ljósi þess hve marga þætti þarf að skoða getur verið gagnlegt að leita aðstoðar hjá reyndum og yfirveguðum ráðgjafa. Vottar Jehóva hafa til dæmis aðgang að vingjarnlegum og samúðarfullum safnaðaröldungum. — Jakobsbréfið 5:13-15.

Ráðgjafar, vinir og ættingjar eru hvattir til að halda ekki fram eigin skoðunum og mæla hvorki með né fordæma hjónaskilnað á biblíulegum forsendum eða sættir. Kristin kona, sem skildi, leggur þetta til málanna: „Veitið okkur bara góðan stuðning og látið okkur ákveða sjálf hvað við gerum.“

Ráðgjöf ætti að byggjast á Biblíunni. „Segið þeim ekki hvernig þeim eigi að líða og hvernig ekki,“ segir fráskilin kona. „Leyfið þeim heldur að segja það sem þeim liggur á hjarta.“ Samkennd, bróðurleg ástúð og innileg meðaumkun getur dregið úr sárustu kvölinni sem ótryggð í hjónabandi veldur. (1. Pétursbréf 3:8) Reyndur ráðgjafi segir: „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.“ — Orðskviðirnir 12:18.

„Ég þarfnaðist skilnings, hughreystingar og hvatningar,“ segir trúr eiginmaður. „Og konan mín þráði markvissa leiðsögn og hrós fyrir viðleitni sína — áþreifanlegan stuðning til að hjálpa sér að halda áfram.“

Ef einhver ákveður, eftir vandlega umhugsun og bænir, að skilja eða slíta samvistum af biblíulegum ástæðum ætti ekki að leiðbeina honum með þeim hætti að honum finnist hann sekur heldur frekar að hjálpa honum að sigrast á ástæðulausri sektarkennd.

„Góður huggari má aldrei gleyma hve djúpstæðar, mannlegar tilfinningar er við að etja,“ segir fórnarlamb hjúskaparbrots.

[Rammagrein á blaðsíðu 7]

HVERS VEGNA SUM HJÓN HALDA SAMAN

Í mörgum samfélögum eiga eiginkonur um lítið annað að velja en að halda áfram sambúð við iðrunarlausan og lauslátan eiginmann. Sumar kristnar eiginkonur á styrjaldar- eða lágtekjusvæðum búa til dæmis áfram með ótrúum eiginmanni sem sér að öðru leyti vel fyrir fjölskyldunni þótt hann sé kannski ekki í trúnni. Fyrir vikið eiga þær heimili, njóta nauðsynlegrar verndar, hafa öruggar tekjur og búa við þann stöðugleika sem fylgir því að eiga eiginmann — jafnvel þótt hann sé ótrúr. Þær hafa hugsað sem svo að þótt þetta hlutskipti sé hvorki eftirsóknarvert né auðvelt hafi þær þó meiri stjórn á lífi sínu við þessar aðstæður heldur en þær hefðu ef þær þyrftu að bjarga sér upp á eigin spýtur.

Sumar eiginkonur, sem hafa jafnvel umborið slíkt ástand um margra ára skeið, hafa uppskorið þá gleði og blessun að sjá eiginmanninn breyta háttalagi sínu og verða trúr og kærleiksríkur kristinn eiginmaður. — Samanber 1. Korintubréf 7:12-16.

Enginn ætti því að gagnrýna konu sem ákveður að búa áfram með manni sínum, jafnvel þótt hann iðrist ekki. Hún hefur þurft að taka erfiða ákvörðun og ætti að hljóta alla þá hjálp og stuðning sem hún þarfnast.

[Rammagrein á blaðsíðu 8]

HVER BER ÁBYRGÐINA?

Þó svo að ófullkomleiki hins saklausa kunni að hafa stuðlað að spennu í hjónabandinu segir Biblían að það sé ‚eigin girnd sem freisti sérhvers manns og dragi hann og tæli,‘ og bætir við: „Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd.“ (Jakobsbréfið 1:14, 15) Enda þótt ýmislegt geti stuðlað að framhjáhaldi stafar það fyrst og fremst af „eigin girnd.“ Ef gallar maka þíns valda erfiðleikum í hjónabandinu er framhjáhald alls ekki leiðin til að ráða fram úr þeim. — Hebreabréfið 13:4.

Leiðin til að leysa vandamál er sú að hjónin haldi bæði áfram að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Það felur meðal annars í sér að ‚umbera hver annan og fyrirgefa hver öðrum.‘ Þau ættu líka að halda áfram að sýna „hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ Síðast en ekki síst ættu þau að ‚íklæðast elskunni sem er band algjörleikans.‘ — Kólossubréfið 3:12-15.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Að hlusta vel hvort á annað getur hjálpað hjónum að treysta böndin á nýjan leik.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila