-
Spádómar sem hafa alltaf ræstVarðturninn – 2012 | 1. júlí
-
-
Spádómar sem hafa alltaf ræst
„Ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt.“ – JÓSÚABÓK 23:14.
HVERNIG ER BIBLÍAN ÖÐRUVÍSI? Það er alkunna að véfréttir til forna voru óljósar og vafasamar. Stjörnuspár nú á dögum eru lítið skárri. Þeir sem leggja stund á framtíðarfræði rannsaka hver framtíðin gæti orðið í ljósi núverandi þróunar en reyna þó sjaldan að spá fyrir um einstaka atburði aldir fram í tímann. Spádómar Biblíunnar eru aftur á móti nákvæmir og rætast alltaf, jafnvel þótt þeir hafi boðað „frá öndverðu . . . það sem eigi var enn fram komið“. – Jesaja 46:10.
DÆMI: Á sjöttu öld f.Kr. sá spámaðurinn Daníel sýn. Hann sá heimsveldi Meda og Persa bíða skyndilegan ósigur fyrir Grikklandi. Samkvæmt sýninni myndi þó konungstign hins sigursæla Grikklandskonungs ,brotna‘ þegar „máttur hans [væri] sem mestur“. Hver kæmi í hans stað? Daníel skrifaði: „Fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.“ – Daníel 8:5-8, 20-22, Biblían 1981.
ÞAÐ SEM SAGNFRÆÐINGAR SEGJA: Meira en 200 árum eftir daga Daníels varð Alexander mikli konungur Grikklands. Á innan við tíu árum vann Alexander sigur á medísk-persneska heimsveldinu og færði út landamæri ríkis síns allt austur til Indusar, þar sem nú er Pakistan. En þegar hann var aðeins 32 ára gamall féll hann skyndilega frá. Að lokum liðaðist veldi hans í sundur í orustu nærri Ipsos í Litlu-Asíu. Hershöfðingjarnir fjórir, sem fóru með sigur af hólmi í þessari orustu, skiptu gríska heimsveldinu á milli sín. En enginn þeirra varð þó jafn voldugur og Alexander hafði verið.
HVAÐ HELDUR ÞÚ? Er hægt að segja um einhver önnur rit að spádómar þeirra hafi alltaf ræst? Eða er Biblían einstök?
[Innskot á bls. 4]
„Spádómar Biblíunnar eru . . . svo margir að það er hreinlega útilokað að þeir hafi allir getað ræst fyrir tilviljun.“ – A LAWYER EXAMINES THE BIBLE EFTIR IRWIN H. LINTON.
[Rétthafi myndar á bls. 4]
© Robert Harding Picture Library/SuperStock
-
-
Áreiðanleg saga en ekki goðsagnirVarðturninn – 2012 | 1. júlí
-
-
Áreiðanleg saga en ekki goðsagnir
„Ég [hef] athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi.“ – LÚKAS 1:3.
HVERNIG ER BIBLÍAN ÖÐRUVÍSI? Þjóðsögur og goðsagnir eru sveipaðar ævintýrablæ en láta ósagt nákvæmlega hvar og hvenær atburðir áttu sér stað og nefna sannsögulegar persónur ekki á nafn. Hins vegar er ógrynni sögulegra smáatriða í Biblíunni og það fullvissar lesendur um að „sérhvert orð [Guðs] er satt“. – Sálmur 119:160.
DÆMI: Í Biblíunni segir: „Nebúkadnesar Babýloníukonungur . . . flutti Jójakín [Júdakonung] í útlegð til Babýloníu.“ En „árið sem Evíl Merodak varð konungur í Babýlon, náðaði hann Jójakín Júdakonung og sleppti honum úr fangelsinu“. Og „meðan hann lifði veitti konungur Jójakín reglulega það sem hann þurfti sér til daglegs viðurværis“. – 2. Konungabók 24:11, 15; 25:27-30.
ÞAÐ SEM FORNLEIFAFRÆÐINGAR HAFA FUNDIÐ: Í rústum Babýlonar fundu fornleifafræðingar opinberar skrár frá stjórnartíð Nebúkadnesars. Í þeim er minnst á matarskammta sem gefnir voru föngum og öðrum sem voru upp á konungsfjölskylduna komnir. Á listanum er meðal annars að finna „Jákin [Jójakín]“ sem var „konungur í Jahúð-landi (Júda)“ og fjölskyldu hans. En finnast sannanir fyrir því að arftaki Nebúkadnesars, Evíl Merodak, hafi verið til? Á vasa sem fannst nálægt borginni Súsa er áletrun sem segir: „Höll Amíl-Mardúks [Evíl Merodaks] Babýloníukonungs, sonar Nebúkadnesars Babýloníukonungs.“
HVAÐ HELDUR ÞÚ? Eru einhver önnur forn trúarrit jafn ítarleg og nákvæm í sögulegu tilliti? Eða er Biblían einstök?
[Innskot á bls. 5]
„Tímasetningar atburða og landfræðilegar upplýsingar í Biblíunni eru nákvæmari og áreiðanlegri en í nokkrum öðrum fornritum.“ – A SCIENTIFIC INVESTIGATION OF THE OLD TESTAMENT EFTIR ROBERT D. WILSON.
[Mynd á bls. 5]
Leirtafla Frá Babýlon þar sem finna má nafn Jójakíns Júdakonungs.
[Rétthafi]
© bpk, Berlin/Vorderasiatisches Museum, SMB/Olaf M. Tessmer/Art Resource, NY
-
-
Samræmist vísindumVarðturninn – 2012 | 1. júlí
-
-
Samræmist vísindum
„Hef ég ekki ritað þér þrjátíu sinnum heilræði og fræðslu, til þess að gera þér ljósan sannleika, sannleiksorð, svo að þú flytjir þeim áreiðanleg orð?“ – ORÐSKVIÐIRNIR 22:20, 21.
HVERNIG ER BIBLÍAN ÖÐRUVÍSI? Í fornritum er oft að finna óáreiðanlegar og skaðlegar kenningar sem nútímavísindi hafa afsannað með öllu. Jafnvel nú á tímum verða rithöfundar að endurnýja kennslubækur svo að þær séu í samræmi við nýjustu vísindauppgötvanir. Biblían heldur því hins vegar fram að höfundur hennar sé skaparinn og að orð hans ,vari að eilífu‘. – 1. Pétursbréf 1:25.
DÆMI: Í Móselögunum var Ísraelsmönnum fyrirskipað að grafa holu fyrir saur „utan við herbúðirnar“ og moka síðan yfir. (5. Mósebók 23:12, 13) Ef þeir snertu hræ af dýri eða látinn mann þurftu þeir að þvo sér upp úr vatni. (3. Mósebók 11:27, 28; 4. Mósebók 19:14-16) Þeir sem voru holdsveikir voru hafðir í einangrun þangað til skoðun leiddi í ljós að ekki væri lengur hætta á að þeir smituðu aðra. – 3. Mósebók 13:1-8.
ÞAÐ SEM LÆKNAVÍSINDI NÚTÍMANS LEIÐA Í LJÓS: Að ganga frá skolpi og saur með öruggum hætti, að þvo sér um hendur og að hafa fólk með smitsjúkdóma í einangrun eru enn áhrifaríkar aðferðir til varnar sjúkdómum. Sóttvarna- og forvarnamiðstöðvar Bandaríkjanna ráðleggja fólki sem hefur ekki aðgang að kamri eða annarri salernisaðstöðu að „hafa hægðir í að minnsta kosti 30 metra fjarlægð frá næsta vatnsbóli og hylja síðan saurinn“. Þegar bæjarfélög sjá til þess að gengið sé frá skolpi með öruggum hætti draga þau úr hættunni á niðurgangssjúkdómum um 36 prósent að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það eru aðeins um 200 ár frá því að læknar gerðu sér grein fyrir að þeir báru smit á milli sjúklinga þegar þeir þvoðu sér ekki um hendurnar eftir að hafa snert lík. „Handþvottur er mikilvægasta sýkingavörn sem hægt er að viðhafa,“ segir á vef Landlæknisembættisins. Hvað um þær ráðleggingar að hafa sjúklinga í einangrun sem eru með holdsveiki eða aðra smitsjúkdóma? Nýverið sagði í læknablaðinu Saudi Medical Journal: „Einangrun og sóttkví getur verið eina og síðasta úrræðið til þess að hafa hemil á útbreiðslu smits þegar farsótt er yfirvofandi.“
HVAÐ HELDUR ÞÚ? Heldurðu að einhver önnur forn helgirit samræmist nútímavísindum? Eða er Biblían einstök?
[Innskot á bls. 6]
„Það er ekki hægt annað en að dást að því hve mikið var lagt upp úr hreinlæti á tímum Móse.“ – MANUAL OF TROPICAL MEDICINE EFTIR DR. ALDO CASTELLANI OG DR. ALBERT J. CHALMERS.
-
-
Sjálfri sér samkvæmVarðturninn – 2012 | 1. júlí
-
-
Sjálfri sér samkvæm
„Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ – 2. PÉTURSBRÉF 1:21.
HVERNIG ER BIBLÍAN ÖÐRUVÍSI? Fornrit eru oft í mótsögn hvert við annað jafnvel þótt þau hafi verið færð í letur á svipuðum tíma. Bókum ber sjaldnast saman ef þær eru skrifaðar af mörgum mönnum, á ýmsum stöðum, á ólíkum tíma. En í Biblíunni er fullyrt að allar 66 biblíubækurnar eigi sér einn og sama höfundinn. Þar af leiðandi er boðskapur hennar samhljóða frá upphafi til enda. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.
DÆMI: Móse, fjárhirðir á 16. öld f.Kr., skrifaði í fyrstu bók Biblíunnar að ,niðji‘ myndi koma til að frelsa mannkynið. Í þessari sömu bók var því síðar spáð að niðjinn yrði afkomandi Abrahams, Ísaks og Jakobs. (1. Mósebók 3:15; 22:17, 18; 26:24; 28:14) Um 500 árum síðar boðaði Natan spámaður að niðjinn kæmi af konungsætt Davíðs. (2. Samúelsbók 7:12) Þúsund árum eftir það benti Páll postuli á að Jesús og nokkrir útvaldir fylgjendur hans væru þessi niðji. (Rómverjabréfið 1:1-4; Galatabréfið 3:16, 29) Undir lok fyrstu aldar var því svo spáð í síðustu biblíubókinni að þeir sem mynduðu niðjann myndu vitna um Jesú. Þeir yrðu síðan reistir upp til himna til að ríkja með honum um þúsund ár. Sem hópur mun þessi niðji tortíma djöflinum og frelsa mannkynið. – Opinberunarbókin 12:17; 20:6-10.
ÞAÐ SEM BIBLÍUSKÝRENDUR SEGJA: Eftir að hafa rannsakað 66 bækur Biblíunnar ofan í kjölinn skrifaði Louis Gaussen að það hefði vakið undrun sína að sjá „ótrúlegt samræmi þessarar bókar sem skrifuð var á 1.500 árum af mörgum riturum . . . sem rekja þó allir sömu áætlun og skýra hana alltaf betur, eins og þeir sjálfir skildu hana, er hún færist nær takmarkinu. Þetta er sagan af því hvernig sonur Guðs veitir heiminum endurlausn.“ – Theopneusty – The Plenary Inspiration of the Holy Scriptures.
HVAÐ HELDUR ÞÚ? Eru einhverjar líkur á að bók, sem skrifuð er af 40 mönnum á rúmlega 1.500 árum, sé sjálfri sér samkvæm að öllu leyti? Eða er Biblían einstök?
[Innskot á bls. 7]
„Þegar öll þessi ritverk eru lögð saman mynda þau eina bók . . . Það er hreinlega ekkert til í öllum heimsbókmenntunum sem líkist henni eða nálgast það einu sinni.“ – THE PROBLEM OF THE OLD TESTAMENT EFTIR JAMES ORR.
-
-
Gagnleg nú á tímumVarðturninn – 2012 | 1. júlí
-
-
Gagnleg nú á tímum
„Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ – SÁLMUR 119:105.
HVERNIG ER BIBLÍAN ÖÐRUVÍSI? Mörg bókmenntaverk eru kannski álitin meistaraverk en þau eru þó varla heppilegur leiðarvísir. Kennslu- og handbækur, sem gefnar eru út nú á tímum, þarf stöðugt að endurnýja. Í Biblíunni er hins vegar fullyrt að „það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu“. – Rómverjabréfið 15:4.
DÆMI: Þótt Biblían sé ekki handbók um lækningar hefur hún að geyma viturleg ráð um hvernig hægt sé að stuðla að góðri heilsu. Hún segir til dæmis að „hugarró [sé] líkamanum líf“. (Orðskviðirnir 14:30) Hún bendir líka á hættuna sem fylgir því að einangra sig og segir: „Sérlyndur maður fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollráði.“ (Orðskviðirnir 18:1) Biblían gefur síðan þessi góðu ráð: „Sælla er að gefa en þiggja.“ – Postulasagan 20:35.
HVAÐ RANNSÓKNIR LEIÐA Í LJÓS: Rólyndi, sterk vináttubönd og gjafmildi geta bætt heilsu fólks. Í læknablaðinu The Journal of the American Medical Association segir: „Karlmenn sem fá reiðiköst eru í helmingi meiri hættu á að fá heilablóðfall heldur en karlmenn sem hafa stjórn á skapi sínu.“ Rannsókn sem gerð var í Ástralíu og stóð yfir í áratug leiddi í ljós að eldra fólk sem „hlúði að vináttuböndum og átti sér trúnaðarvini“ var yfirleitt líklegra til að lifa lengur en ella. Og árið 2008 komust vísindamenn frá Kanada og Bandaríkjunum að þeirri niðurstöðu að „það gefi manni meiri gleði að nota fjármuni sína öðrum til góðs en að eyða þeim í sjálfan sig“.
HVAÐ HELDUR ÞÚ? Myndirðu treysta læknisráðum annarra bóka sem fullgerðar voru fyrir næstum 2000 árum? Eða er Biblían einstök?
[Innskot á bls. 8]
„Biblían er að mínu mati mjög áhugaverð . . . vegna þess að í henni er að finna óbrigðul ráð sem stuðla að góðri heilsu.“ – HOWARD KELLY, LÆKNIR OG EINN STOFNANDI LÆKNADEILDAR VIÐ JOHN HOPKINS-HÁSKÓLA.
-