Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Láttu ekkert verða til þess að þú fjarlægist Jehóva
    Varðturninn – 2013 | 15. janúar
    • Láttu ekkert verða til þess að þú fjarlægist Jehóva

      „Kjósið þá í dag hverjum þið viljið þjóna.“ – JÓS. 24:15.

      REYNDU AÐ SVARA

      • Hvað geturðu gert til að halda vinnunni innan hóflegra marka?

      • Hvernig geturðu tekið skynsamlegar ákvarðanir varðandi afþreyingu og skemmtun?

      • Hvernig geturðu tekist á við sorgina ef ástvinur yfirgefur Jehóva?

      1-3. (a) Hvers vegna er Jósúa gott dæmi um mann sem tók rétta ákvörðun í lífinu? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast þegar við tökum ákvarðanir?

      VIÐ ráðum miklu um það hvaða stefnu við tökum í lífinu. Það er því mikilvægt að taka skynsamlegar ákvarðanir. Hugsum okkur mann sem kemur að vegamótum á göngu sinni. Hvora leiðina á hann að velja? Ef hann hefur skýrt í huga hvert hann ætlar velur hann eflaust þá leið sem liggur í áttina þangað frekar en hina sem stefnir í aðra átt.

      2 Í Biblíunni segir frá fjölda fólks sem stóð í svipuðum sporum og hér er lýst. Kain þurfti til dæmis að velja milli þess að gefa reiðinni lausan tauminn eða hafa hemil á henni. (1. Mós. 4:6, 7) Jósúa þurfti að velja milli þess að þjóna hinum sanna Guði og tilbiðja falsguði. (Jós. 24:15) Hann hafði það markmið að halda nánum tengslum við Jehóva og valdi þess vegna leiðina sem lá í þá átt. Kain hafði ekki sett sér neitt slíkt markmið þannig að hann valdi þá leið sem gerði hann viðskila við Jehóva.

      3 Stundum stöndum við á vegamótum í lífinu og þurfum að velja hvaða leið við förum. Ef það gerist skaltu hafa í huga að hvaða marki þú stefnir – að heiðra Jehóva í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og forðast allt sem gæti orðið til þess að þú fjarlægðist hann. (Lestu Hebreabréfið 3:12.) Í þessari grein og þeirri næstu lítum við á sjö svið í lífinu þar sem við þurfum að gæta þess að taka réttar ákvarðanir svo að við fjarlægjumst ekki Jehóva.

      ATVINNA

      4. Af hverju er mikilvægt að vinna fyrir sér og sínum?

      4 Þjónum Guðs ber að sjá fyrir sér og sínum. Í Biblíunni er bent á að sá sem vilji ekki sjá fyrir skylduliði sínu sé verri en vantrúaður. (2. Þess. 3:10; 1. Tím. 5:8) Það er því mikilvægt að vinna fyrir sér. Ef við tökum ekki réttar ákvarðanir á þessu sviði er hins vegar hætta á að vinnan geti valdið því að við fjarlægjumst Jehóva. Hvernig þá?

      5. Hvað er mikilvægt að hugsa um áður en maður ræður sig í vinnu?

      5 Setjum sem svo að þú sért að leita þér að vinnu. Ef atvinnuleysi er mikið gæti verið freistandi að þiggja fyrsta starfið sem býðst – og þá hvaða starf sem er. En hvað nú ef vinnan stangast á við meginreglur Biblíunnar? Hvað ef vinnutíminn eða ferðir til og frá vinnu myndu torvelda þér að þjóna Guði eða kosta langar fjarverur frá fjölskyldunni? Ættirðu samt að þiggja starfið og hugsa sem svo að óhentug vinna sé þó betri en engin? Hafðu hugfast að þú getur fjarlægst Jehóva ef þú tekur ranga ákvörðun. (Hebr. 2:1) Hvernig geturðu tekið skynsamlegar ákvarðanir, hvort sem þú ert að leita að vinnu eða ert að hugsa um að skipta um vinnu?

      6, 7. (a) Hvaða markmið getur fólk haft með vinnu? (b) Hvaða markmið styrkir tengslin við Jehóva og hvers vegna?

      6 Eins og áður er nefnt skaltu hafa markmiðið í huga. Spyrðu þig hvers vegna þú viljir fá vinnu. Jehóva mun blessa þig ef þú lítur á vinnu sem leið til að ná ákveðnu marki – því markmiði að framfleyta þér og fjölskyldunni þannig að þið getið þjónað Jehóva. (Matt. 6:33) Jehóva lætur ekki slá sig út af laginu þó að þú missir vinnuna eða það kreppi að í efnahagslífinu. (Jes. 59:1) Hann „veit . . . hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu“ og prófraunum. – 2. Pét. 2:9.

      7 En setjum sem svo að markmiðið hjá þér sé fyrst og fremst að eignast sem mest. Kannski á þér eftir að takast það. En mundu að slík „velgengni“ kostar sitt – meira en þú hefur efni á. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.) Ef þú leggur mest upp úr peningum og starfsframa áttu bara eftir að fjarlægjast Jehóva.

      8, 9. Hvaða spurninga ættu foreldrar að spyrja sig í sambandi við veraldleg störf sín? Skýrðu svarið.

      8 Ef þú ert foreldri ættirðu að hugleiða hvaða fordæmi þú setur börnum þínum. Hvað sjá þau? Hvort læturðu ganga fyrir – vinnuna eða vináttusambandið við Jehóva? Er ekki hætta á að þau líki eftir miður góðu fordæmi þínu ef þú leggur mest upp úr stöðu, virðingu og peningum? Gætu þau misst virðingu fyrir þér sem foreldri? Unglingsstúlka í söfnuðinum segir: „Pabbi hefur verið upptekinn af vinnunni frá því að ég fór að muna eftir mér. Í fyrstu virtist hann leggja svona mikið á sig af því að hann vildi að fjölskyldan hefði það sem best. Hann vildi sjá vel fyrir okkur. En þetta hefur breyst á síðustu árum. Hann vinnur og vinnur og kaupir síðan munaðarvörur en ekki bara nauðsynjar. Fyrir vikið erum við þekkt sem ríka fjölskyldan en ekki fyrir að hvetja aðra til að þjóna Jehóva. Ég væri miklu ánægðari ef pabbi hjálpaði okkur að eiga náið samband við Jehóva en ynni ekki svona mikið.“

      9 Foreldrar, leggið ekki svo mikið upp úr vinnunni að þið fjarlægist Jehóva. Sýnið börnunum með fordæmi ykkar að þið séuð sannfærð um að mestu auðæfin, sem við getum átt, séu andleg en ekki efnisleg. – Matt. 4:4.

      10. Hvað ætti ungt fólk að íhuga þegar það velur sér starfsvettvang?

      10 Hvernig getur ungt fólk, sem er að hugleiða hvað það ætli að leggja fyrir sig í lífinu, valið rétt? Eins og fram hefur komið þarftu að vita að hverju þú stefnir. Ef þú ert að hugsa um að fá ákveðna starfsmenntun skaltu hugleiða hvort þetta starf eigi eftir að hjálpa þér að þjóna Jehóva sem best eða gera þig fjarlægan honum. (2. Tím. 4:10) Margir í heiminum halda að lífshamingjan ráðist af digrum bankareikningum og verðbréfaeign. Langar þig til að lifa eins og þeir? Eða velurðu að treysta á Jehóva eins og Davíð sem orti: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ (Sálm. 37:25) Mundu að önnur leiðin liggur burt frá Jehóva en hin til þess besta sem lífið hefur upp á að bjóða. (Lestu Orðskviðina 10:22; Malakí 3:10.) Hvora leiðina ætlar þú að velja?a

      AFÞREYING

      11. Hvað kemur fram í Biblíunni varðandi afþreyingu en hvað þarf að hafa í huga?

      11 Í Biblíunni er ekki mælt gegn afþreyingu og skemmtun og ekki heldur talað um það sem tímasóun. „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu,“ skrifaði Páll í bréfi til Tímóteusar. (1. Tím. 4:8) Í Biblíunni er jafnvel talað um að það hafi sinn tíma að hlæja og dansa, og fólk er hvatt til að fá hæfilega hvíld. (Préd. 3:4; 4:6) En ef þú gætir ekki að þér getur skemmtun og afþreying gert þig fjarlægan Jehóva. Hvernig þá? Hætturnar eru einkum tvær: hvers eðlis afþreyingin er og hve mikill tími fer í hana.

      Afþreying af réttu tagi og í réttu hófi er endurnærandi.

      12. Hvaða spurninga ættirðu að spyrja þegar þú velur þér skemmtiefni og afþreyingu?

      12 Lítum fyrst á eðli afþreyingarinnar. Það er hægt að gera margt sér til skemmtunar sem er bæði heilnæmt og endurnærandi. Stór hluti skemmtiefnis í heiminum snýst hins vegar um það sem Guð hatar, svo sem ofbeldi, dulspeki og siðlaust kynlíf. Þess vegna þarftu að vera vandfýsinn þegar þú velur þér afþreyingar- og skemmtiefni. Hvaða áhrif ætli það hafi á þig? Ýtir það undir ofbeldishneigð, harða samkeppni eða þjóðernishyggju? (Orðskv. 3:31) Er það dýrt? Myndu aðrir hneykslast ef þeir vissu að þú stundaðir afþreyingu af þessu tagi? (Rómv. 14:21) Hvers konar félagsskapur fylgir henni? (Orðskv. 13:20) Vekur hún með þér löngun til að gera eitthvað rangt? – Jak. 1:14, 15.

      13, 14. Af hverju þarftu að skoða hve miklum tíma þú eyðir í afþreyingu?

      13 Og þá er það tíminn sem fer í afþreyingu. Notarðu svo mikinn tíma til tómstundaiðju að þú mátt varla vera að því að boða fagnaðarerindið og sækja samkomur? Ef þú eyðir óhóflegum tíma í afþreyingu kemstu að raun um að hún er ekki eins endurnærandi og þú bjóst við. Þeir sem halda afþreyingu í réttu hófi njóta hennar hins vegar eins og best verður á kosið. Hvernig stendur á því? Þeir vita að þeir hafa látið mikilvægu málin ganga fyrir þannig að þeir fá ekki samviskubit þegar þeir gefa sér stund til að slaka á. – Lestu Filippíbréfið 1:10, 11.

      14 Það virðist kannski skemmtilegt að nota mikinn tíma í afþreyingu en það getur hins vegar veikt sambandið við Jehóva. Tvítug systir, sem heitir Kim, komst að raun um það. „Ég fór í hvert einasta partí,“ segir hún. „Það var alltaf eitthvað um að vera um helgar – á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. En ég áttaði mig á að það er svo margt annað sem er miklu mikilvægara. Ég er brautryðjandi og vakna klukkan sex á morgnana til að fara í starfið svo að ég get ekki verið að skemmta mér til klukkan eitt eða tvö á næturnar. Ég veit að það þarf ekki að vera neitt slæmt að skemmta sér með vinum sínum en maður getur orðið allt of upptekinn af því. Það þarf að halda því innan skynsamlegra marka eins og öllu öðru.“

      15. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að velja sér afþreyingu sem endurnærir?

      15 Það er hlutverk foreldra að fullnægja efnislegum, andlegum og tilfinningalegum þörfum sjálfra sín og barnanna. Það felur í sér að sjá fyrir hæfilegri afþreyingu. Ef þú ert foreldri máttu ekki vera gleðispillir og hugsa sem svo að öll afþreying sé af hinu illa. En þú þarft samt að vera á verði fyrir skaðlegum áhrifum. (1. Kor. 5:6) Með hæfilegri fyrirhyggju er hægt að velja afþreyingu og skemmtun sem endurnærir fjölskylduna.b Þá eruð þið á réttri braut og styrkið sambandið við Jehóva.

      FJÖLSKYLDUBÖND

      16, 17. Hvaða sorg hafa margir foreldrar upplifað og hvernig vitum við að Jehóva skilur kvöl þeirra?

      16 Samband foreldra og barna er svo sterkt að Jehóva notaði það til að lýsa því hve vænt honum þætti um þjóð sína. (Jes. 49:15) Það er því eðlilegt að syrgja ef einhver í fjölskyldunni yfirgefur Jehóva. „Ég var niðurbrotin,“ segir systir nokkur en dóttur hennar var vikið úr söfnuðinum. „Hvers vegna yfirgaf hún Jehóva? hugsaði ég með mér. Ég var með sektarkennd og ásakaði sjálfa mig.“

      17 Jehóva skilur kvöl þína. Hann „hryggðist í hjarta sínu“ þegar fyrsti sonur hans á jörð gerði uppreisn og síðan flestir menn sem voru uppi fyrir flóðið. (1. Mós. 6:5, 6) Það getur verið erfitt fyrir þá sem hafa aldrei orðið fyrir slíkum missi að skilja hve sár hann er. Það væri samt ekki skynsamlegt að láta óviturlega lífsstefnu þess sem vikið er úr söfnuðinum gera sig fjarlægan Jehóva. En hvernig geturðu borið sorgina sem fylgir því að ástvinur yfirgefur Jehóva?

      18. Af hverju ættu foreldrar ekki að kenna sjálfum sér um ef barn þeirra yfirgefur Jehóva?

      18 Kenndu ekki sjálfum þér um hvernig fór. Jehóva leyfir mönnunum að velja hvaða leið þeir fara og vígðir og skírðir einstaklingar þurfa að „bera sína byrði“ sjálfir. (Gal. 6:5) Þú berð ekki ábyrgð á ákvörðunum syndarans heldur gerir hann það sjálfur. (Esek. 18:20) Og kenndu ekki öðrum um heldur. Virtu aðferð Jehóva til að aga þjóna sína. Stattu gegn Satan en ekki gegn öldungunum sem leggja sig fram um að vernda söfnuðinn. – 1. Pét. 5:8, 9.

      Það er ekkert rangt við það að vonast eftir að ástvinur snúi aftur til Jehóva.

      19, 20. (a) Hvað geta foreldrar gert til að takast á við sorgina ef börnum þeirra er vikið úr söfnuðinum? (b) Hvaða von er eðlilegt að slíkir foreldrar beri í brjósti?

      19 Þú fjarlægist hins vegar Jehóva ef þú velur að reiðast honum. Barnið þitt þarf að sjá að þú sért ákveðinn í að láta sambandið við Jehóva ganga fyrir öllu öðru, meira að segja fjölskylduböndunum. Varðveittu náið samband við Jehóva, það hjálpar þér að takast á við sorgina. Einangraðu þig ekki frá bræðrum þínum og systrum sem eru Jehóva trú. (Orðskv. 18:1) Úthelltu hjarta þínu fyrir Jehóva í bæn og segðu honum hvernig þér líður. (Sálm. 62:8, 9) Reyndu ekki að finna þér afsakanir fyrir því að eiga samskipti við þá sem vikið er úr söfnuðinum, til dæmis með tölvupósti. (1. Kor. 5:11) Vertu önnum kafinn í þjónustu Jehóva. (1. Kor. 15:58) Systirin, sem vitnað var til áðan, segir: „Ég veit að ég þarf að vera upptekin í þjónustu Jehóva og viðhalda nánu sambandi við hann þannig að ég sé fær um að hjálpa dóttur minni þegar hún snýr aftur til Jehóva.“

      20 Kærleikurinn „vonar allt“ eins og segir í Biblíunni. (1. Kor. 13:4, 7) Það er ekkert rangt við það að vonast eftir að barnið þitt snúi aftur til Jehóva. Margir sem vikið er úr söfnuðinum iðrast og snúa aftur. Jehóva erfir ekki við þá það sem liðið er heldur er hann „fús til að fyrirgefa“. – Sálm. 86:5.

      TAKTU VITURLEGAR ÁKVARÐANIR

      21, 22.  Hvernig ætlarðu að nota valfrelsið sem þér er gefið?

      21 Jehóva gaf mönnunum frelsi til að velja hvaða leið þeir fara. (Lestu 5. Mósebók 30:19, 20.) En frelsinu fylgir alvarleg ábyrgð. Kristnir menn ættu hver og einn að spyrja sig: Á hvaða braut er ég? Hef ég leyft atvinnu, afþreyingu eða fjölskylduböndum að gera mig fjarlægan Jehóva?

      22 Jehóva elskar þjóna sína og það er ekkert sem fær því breytt. Það eina sem getur gert okkur fjarlæg honum er að við veljum ranga braut. (Rómv. 8:38, 39) En það þarf ekki að gerast. Vertu staðráðinn í að láta ekkert gera þig viðskila við kærleika Jehóva. Í næstu grein ræðum við um fjögur svið til viðbótar þar sem við þurfum að velja rétt.

      a Í 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 38. kafla, má finna nánari upplýsingar um það hvernig hægt sé að velja sér starfsvettvang.

      b Finna má tillögur í 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 32. kafla.

  • Varðveittu náið samband við Jehóva
    Varðturninn – 2013 | 15. janúar
    • Varðveittu náið samband við Jehóva

      „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ – JAK. 4:8.

      GETURÐU SVARAÐ?

      • Hvernig getum við komið í veg fyrir að tölvur, tæki og áhyggjur af heilsunni geri okkur fjarlæg Jehóva?

      • Hvernig getum við séð peninga í réttu ljósi og forðast óviðeigandi stolt?

      • Hvernig getum við varðveitt náið samband við Jehóva?

      1, 2. (a) Hvernig reynir Satan að freista okkar? (b) Hvað hjálpar okkur að ,nálægja okkur Guði‘?

      VIÐ mennirnir þurfum að eiga náið samband við Jehóva Guð. Þessi þörf er okkur ásköpuð. Satan reynir að telja okkur trú um hið gagnstæða – að við þurfum ekki á Jehóva að halda. Þetta er lygi sem hann hefur haldið á lofti allar götur síðan hann blekkti Evu í Eden forðum daga. (1. Mós. 3:4-6) Í aldanna rás hefur stór hluti mannkyns gert sömu mistökin og Eva.

      2 Sem betur fer þurfum við ekki að falla í gildrur Satans. „Ekki er okkur ókunnugt um vélráð hans,“ eins og segir í Biblíunni. (2. Kor. 2:11) Satan reynir að freista okkar til að taka rangar ákvarðanir og gera okkur fjarlæg Jehóva. En eins og fram kom í greininni á undan getum við tekið réttar ákvarðanir varðandi atvinnu, afþreyingu og fjölskyldutengsl. Í þessari grein er rætt um fernt til viðbótar sem Satan notar til að reyna að freista okkar: tækjanotkun, peninga, stolt og áhyggjur af heilsunni. Ef við tökum réttar ákvarðanir á þessum sviðum getur það hjálpað okkur að ,nálægja okkur Guði‘. – Jak. 4:8.

      TÆKJANOTKUN

      3. Hvernig er hægt að nota tölvur og tæki bæði til góðs og ills?

      3 Víðast hvar í heiminum eru tölvur og önnur rafeindatæki talin sjálfsagður hlutur. Þessi tæki geta verið afar gagnleg ef þau eru rétt notuð. En ef þau eru ekki notuð rétt geta þau orðið til þess að við fjarlægjumst föður okkar á himnum. Tökum tölvurnar sem dæmi. Blaðið, sem þú ert að lesa, var samið og gefið út með hjálp tölvubúnaðar. Tölva getur verið öflugt rannsóknar- og samskiptatæki og jafnvel boðið upp á hressandi afþreyingu. En tölvuáhuginn getur líka farið úr böndunum. Auglýsendur reyna að telja okkur trú um að við verðum að eignast það nýjasta og besta. Ungur maður þráði svo heitt að eignast ákveðna spjaldtölvu að hann laumaðist til að selja úr sér annað nýrað til að geta keypt hana. Hvílík skammsýni!

      4. Hvað gerði bróðir nokkur til að ná stjórn á tölvunotkun sinni?

      4 Það er jafnvel enn dapurlegra að láta tölvur og tæki spilla sambandi sínu við Jehóva, til dæmis með því að eyða óhóflegum tíma við skjáinn eða horfa á skaðlegt efni. „Ég veit að okkur er ráðlagt í Biblíunni að nota hverja stund til að styrkja okkar andlega mann,“ segir Jens en hann er tæplega þrítugur bróðir.a „En þegar tölvur eru annars vegar er ég sjálfum mér verstur.“ Oft var hann á Netinu langt fram á nótt. „Því þreyttari sem ég var því erfiðara var að hætta að spjalla eða horfa á myndbönd. Og þau voru ekki öll uppbyggileg,“ segir hann. Jens ákvað að rjúfa vítahringinn með því að láta tölvuna slökkva á sér þegar kominn var háttatími. – Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.

      Foreldrar, hjálpið börnunum að nota tölvur og tæki skynsamlega.

      5, 6. (a) Hvaða skyldur hafa foreldrar gagnvart börnum sínum? (b) Hvað geta foreldrar gert til að börnin séu í góðum félagsskap?

      5 Foreldrar, þið þurfið ekki að stjórna öllu sem börnin ykkar gera, en þið verðið að fylgjast með netnotkun þeirra. Gerið þau ekki berskjölduð fyrir siðleysi, ofbeldisleikjum, dulspeki og vondum félagsskap á Netinu bara til að þau hafi eitthvað fyrir stafni og séu ekki að þvælast fyrir ykkur. Ef þið gerið það hugsa þau kannski sem svo að þetta hljóti að vera í lagi fyrst þið skiptið ykkur ekki af því. Það er verkefni ykkar foreldranna að vernda börnin – og unglingana – fyrir öllu sem getur gert þau viðskila við Jehóva. Jafnvel dýrin vernda ungana sína fyrir hættum. Þú getur rétt ímyndað þér hvað birna gerir ef einhver ógnar húnunum hennar. – Samanber Hósea 13:8.

      6 Hjálpaðu börnunum að eiga félagsskap við trúsystkini á öllum aldri sem eru til fyrirmyndar í söfnuðinum. Og mundu að börnin þurfa að eiga góðar stundir með þér. Gefðu þér nægan tíma til að leika við þau, hlæja með þeim og vinna með þeim. Það hjálpar ykkur öllum að varðveita náið samband við Jehóva.b

      HEILSAN

      7. Af hverju viljum við öll halda heilsu?

      7 „Hvernig hefurðu það?“ Þessi algenga spurning vitnar um dapurlegan veruleika. Við veikjumst öll vegna þess að foreldrar mannkyns leyfðu Satan að gera sig viðskila við Jehóva. Það þjónar markmiðum Satans að við veikjumst vegna þess að þá eigum við erfiðara með að þjóna Jehóva. Og ef við deyjum getum við alls ekki þjónað honum. (Sálm. 115:17) Það er því eðlilegt að við viljum gera allt sem við getum til að halda heilsu.c Við ættum sömuleiðis að láta okkur annt um heilsu og velferð trúsystkina okkar.

      8, 9. (a) Hvernig getum við forðast öfgar hvað varðar heilsuna? (b) Af hverju er gott vera glaður?

      8 En það er mikilvægt að fara ekki út í öfgar. Sumir tala um mataræði, meðferðir og heilsuvörur af meiri ákafa en fagnaðarerindið um ríki Guðs. Þeir eru kannski sannfærðir um að þeir séu að gera öðrum gott. Það er hins vegar ekki við hæfi að kynna heilsuvörur, snyrtivörur eða hina og þessa kúra fyrir og eftir samkomur í ríkissalnum eða á mótum. Af hverju ekki?

      9 Við hittumst á samkomum til að ræða um andleg mál og njóta þeirrar gleði sem heilagur andi Guðs veitir. (Gal. 5:22) Það er ekki markmiðið með samkomunum að ræða um heilsuvörur eða kúra og gildir þá einu þótt einhver falist eftir því við okkur. Það getur spillt gleðinni sem við annars njótum. (Rómv. 14:17) Fólk verður að ákveða sjálft hvernig það hugsar um heilsuna. Enginn getur boðið upp á lækningu við öllum sjúkdómum. Bestu læknar veikjast jafnvel sjálfir og deyja um síðir. Og ekki getum við lengt lífið með því að hafa sífelldar áhyggjur af heilsunni. (Lúk. 12:25) Á hinn bóginn er það svo að „glatt hjarta veitir góða heilsubót“. – Orðskv. 17:22.

      10. (a) Hvaða eiginleikar gera okkur fögur í augum Jehóva? (b) Hvernig getum við hlúð sem best að heilsunni?

      10 Það er sömuleiðis eðlilegt að láta sér annt um útlitið. En við þurfum ekki að leggja ofurkapp á að reyna að sýnast yngri en við erum. Með árunum öðlumst við þroska, reisn og innri fegurð sem er óháð ytra útliti. Í Biblíunni segir: „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.“ (Orðskv. 16:31) Það er þannig sem Jehóva lítur á okkur og við ættum að reyna að hugsa eins og hann. (Lestu 1. Pétursbréf 3:3, 4.) Er einhver ástæða til að taka þá áhættu sem fylgir varasömum fegrunaraðgerðum eða meðferð sem þjónar engum öðrum tilgangi en að bæta útlitið? Gleði Jehóva er uppspretta sannrar fegurðar sem kemur innan frá, óháð aldri og heilsu. (Neh. 8:10) Það er ekki fyrr en í nýja heiminum sem heilsan verður fullkomin og við verðum síung. (Job. 33:25; Jes. 33:24) Þangað til skulum við varðveita náið samband við Jehóva með því að taka skynsamlegar ákvarðanir, sýna trú og reyna að gera eins gott úr aðstæðum okkar og við getum. – 1. Tím. 4:8.

      PENINGAR

      11. Hvernig geta peningar verið tálsnara?

      11 Peningar eru ekki slæmir í sjálfu sér og það er ekkert að því að stunda heiðarlega atvinnustarfsemi. (Préd. 7:12; Lúk. 19:12, 13) Það er hins vegar óhjákvæmilegt að við fjarlægjumst Jehóva ef við látum fégirnd ná tökum á okkur. (1. Tím. 6:9, 10) „Áhyggjur heimsins,“ það er að segja óhóflegar áhyggjur af lífsnauðsynjum, geta kæft okkar andlega mann. Hið sama má segja um „tál auðæfanna“ en þar er átt við þá blekkingu að peningar geti veitt varanlegt öryggi og hamingju. (Matt. 13:22) Jesús sagði að „enginn“ gæti þjónað bæði Guði og mammón svo vel færi. – Matt. 6:24.

      12. Hvers konar gildrur eru algengar og hvernig getum við forðast þær?

      12 Ef við höfum rangt viðhorf til peninga gætum við freistast til að gera eitthvað rangt. (Orðskv. 28:20) Sumir hafa látið tælast til að kaupa happdrættismiða í von um skjótfenginn gróða eða farið út í vafasöm viðskipti og jafnvel dregið aðra í söfnuðinum með sér. Aðrir hafa leiðst út í fjárfestingar í von um óraunhæfan arð. Láttu ekki ágirnd verða til þess að aðrir svíki út úr þér peninga. Vertu skynsamur. Ef tilboð virðist lygilega gott er sennilega maðkur í mysunni.

      13. Hvernig vill Jehóva að við lítum á peninga?

      13 Jehóva blessar viðleitni okkar til að afla lífsnauðsynja ef við leitum fyrst „ríkis hans og réttlætis“. (Matt. 6:33; Ef. 4:28) Hann vill ekki að við vinnum svo mikið að við sofnum á samkomum eða að við höfum svo miklar áhyggjur af peningum að fræðslan þar fari fyrir ofan garð og neðan hjá okkur. Margir í heiminum halda hins vegar að þeir þurfi að þéna sem mest til að skapa sér örugga framtíð og geta átt náðuga daga síðar á ævinni. Þeir hvetja gjarnan börnin sín til að setja sér sömu markmið. Jesús benti á að þetta væri óskynsamlegt. (Lestu Lúkas 12:15-21.) Okkur verður ef til vill hugsað til Gehasí sem ímyndaði sér að hann gæti viðhaldið góðu sambandi við Jehóva þótt hann væri ágjarn. – 2. Kon. 5:20-27.

      14, 15. Hvers vegna megum við ekki setja traust okkar á fjármálakerfið? Skýrðu svarið með dæmi.

      14 Dæmi eru um að ernir hafi drukknað af því að þeir vildu ekki sleppa fiski sem þeir höfðu læst klónum í en var of þungur fyrir þá. Gæti kristinn maður fallið í sömu gildruna? „Ég er yfirleitt mjög sparsamur,“ segir safnaðaröldungur sem við skulum kalla Axel. „Ef ég tek óvart of mikið sjampó í lófann skila ég hluta af því aftur í brúsann.“ En Axel fór út í að fjárfesta í hlutabréfum og hugsaði sem svo að hann gæti hætt að vinna fljótlega og gerst brautryðjandi. Hann varð sífellt uppteknari af því að skoða fjárfestingarmöguleika og stöðu hlutabréfa. Hann notaði sparifé sitt og lánsfé frá miðlurum til að kaupa hlutabréf sem spáð var að myndu hækka fljótlega í verði. En í staðinn snarlækkuðu þau. „Ég var staðráðinn í að endurheimta féð,“ segir Axel. „Ég ímyndaði mér að hlutabréfin myndu hækka aftur ef ég bara þraukaði.“

      15 Axel hugsaði um fátt annað mánuðum saman. Hann svaf illa og átti erfitt með að einbeita sér að þjónustunni við Jehóva. En hlutabréfin hækkuðu aldrei. Axel tapaði sparifénu og neyddist til að selja húsið. „Ég olli fjölskyldunni miklum erfiðleikum,“ viðurkennir hann. En hann lærði mikilvæga lexíu. „Nú veit ég að þeir sem leggja traust sitt á kerfi Satans verða fyrir sárum vonbrigðum.“ (Orðskv. 11:28) Ef við setjum traust okkar á sparifé, fjárfestingar eða tekjumöguleika erum við í rauninni að treysta á Satan, „guð þessarar aldar“. (2. Kor. 4:4; 1. Tím. 6:17) Axel hefur nú einfaldað líf sitt „vegna . . . fagnaðarerindisins“. Aðspurður segir hann að þau fjölskyldan séu glaðari núna og eigi nánara samband við Jehóva. – Lestu Markús 10:29, 30.

      STOLT

      16. Að hvaða leyti getur stolt verið af hinu góða en hvað þarf að varast?

      16 Stolt getur átt fullan rétt á sér. Við ættum til dæmis að vera stolt af því að vera vottar Jehóva. (Jer. 9:23) Heilbrigð sjálfsvirðing hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir og halda okkur við siðferðisreglur Jehóva. Ef við höfum of mikið álit á sjálfum okkur getum við hins vegar fjarlægst Jehóva. – Sálm. 138:6; Rómv. 12:3.

      Njóttu boðunarstarfsins í stað þess að hafa áhyggjur af stöðu þinni í söfnuðinum.

      17, 18. (a) Nefndu dæmi um auðmjúkt fólk og stolt fólk sem sagt er frá í Biblíunni. (b) Hvað gerði bróðir nokkur til að fjarlægjast ekki Jehóva sökum stolts?

      17 Í Biblíunni segir bæði frá stoltu fólki og auðmjúku. Davíð konungur sýndi þá auðmýkt að leita eftir leiðsögn Jehóva og hlaut blessun fyrir. (Sálm. 131:1-3) En Jehóva auðmýkti konungana Nebúkadnesar og Belsasar sem voru báðir hrokafullir. (Dan. 4:30-37; 5:22-30) Það getur reynt á auðmýkt okkar af ýmsum ástæðum. Ryan, 32 ára safnaðarþjónn, fluttist milli safnaða og bjóst við að verða fljótlega útnefndur öldungur. „En það leið heilt ár og ekkert gerðist,“ segir hann. Reiddist hann, varð hann bitur og hugsaði sem svo að öldungarnir sýndu sér ekki virðingu? Var hann svo stoltur að hann hætti að sækja samkomur og fjarlægðist Jehóva og söfnuð hans? Hvað hefðirðu gert í hans sporum?

      18 „Ég las allt sem ég fann í ritunum okkar um óuppfylltar væntingar,“ segir Ryan. (Orðskv. 13:12) „Það rann smám saman upp fyrir mér að ég þyrfti að temja mér þolinmæði og auðmýkt. Ég þurfi að láta Jehóva móta mig.“ Ryan hætti að hafa áhyggjur af sjálfum sér og einbeitti sér að því að þjóna öðrum – í söfnuðinum og úti á akrinum. Áður en langt um leið var hann kominn með nokkur góð biblíunámskeið. „Það kom mér á óvart þegar ég var útnefndur öldungur einu og hálfu ári síðar,“ segir hann. „Ég var hættur að hafa áhyggjur af því vegna þess að ég hafði svo mikla ánægju af boðunarstarfinu.“ – Lestu Sálm 37:3, 4.

      HALTU NÁNU SAMBANDI VIÐ JEHÓVA

      19, 20. (a) Hvernig getum við komið í veg fyrir að það sem við gerum dagsdaglega tálmi okkur að þjóna Jehóva? (b) Nefndu dæmi um fólk sem varðveitti náið samband við Jehóva og er okkur til fyrirmyndar.

      19 Ekkert þeirra sjö atriða, sem rædd eru í þessari grein og greininni á undan, er rangt í sjálfu sér. Við erum stolt af því að vera þjónar Jehóva. Hamingjuríkt fjölskyldulíf og góð heilsa eru meðal verðmætustu gjafa sem Jehóva gefur okkur. Við vitum að peningar þjóna sínu hlutverki og það er nauðsynlegt að vinna fyrir sér. Afþreying getur verið endurnærandi og tölvur og tæki nytsöm. En við þurfum að hafa hugfast að ef við gerum eitthvað á röngum tíma, í meira mæli en góðu hófi gegnir eða á rangan hátt getur það tálmað okkur að þjóna Jehóva og gert okkur fjarlæg honum.

      Láttu ekkert verða til þess að þú fjarlægist Jehóva.

      20 Satan vill auðvitað að við gerum það. En þú þarft ekki að láta það henda þig eða fjölskyldu þína. (Orðskv. 22:3) Nálægðu þig Jehóva og varðveittu náið samband við hann. Við eigum margar góðar fyrirmyndir um það í Biblíunni. Enok og Nói gengu með Guði. (1. Mós. 5:22; 6:9) Móse „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega“. (Hebr. 11:27) Jesús gerði alltaf það sem þóknaðist föðurnum á himnum og faðirinn studdi hann í einu og öllu. (Jóh. 8:29) Líktu eftir þessum þjónum Guðs. „Verið ætíð glöð. Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti.“ (1. Þess. 5:16-18) Og láttu ekkert gera þig viðskila við Jehóva.

      a Nöfnum er breytt.

      b Sjá greinina „Hvað ætti að kenna börnunum?“ í Varðturninum október-desember 2011.

      c Sjá greinina „Höfum biblíulega afstöðu til heilsuverndar“ í Varðturninum 15. nóvember 2008.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila