-
Ber Guð umhyggju fyrir þér?Varðturninn – 2014 | 1. september
-
-
FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?
Ber Guð umhyggju fyrir þér?
„Ég er hrjáður og snauður en Drottinn ber umhyggju fyrir mér.“a – DAVÍÐ KONUNGUR ÍSRAELS Á 11. ÖLD F.KR.
„Þjóðirnar eru sem dropi úr fötu.“ – JESAJA 40:15.
Var óraunhæft af Davíð konungi að halda að Guð bæri umhyggju fyrir honum? Ber Guð umhyggju fyrir þér? Mörgum finnst erfitt að trúa að almáttugur Guð hafi áhuga á þeim. Hvers vegna?
Ástæðan er meðal annars sú að Guð er miklu æðri en við mennirnir. Hann situr hátt yfir jörðinni og í augum hans eru heilu þjóðirnar ekki annað en „dropi úr fötu og eru metnar sem ryk á vogarskálum“. (Jesaja 40:15) Rithöfundur nokkur, sem trúir ekki á Guð, gekk svo langt að segja að það „beri vott um gífurlegt ofmat á sjálfum sér að trúa að til sé Guð sem hafi mikinn áhuga á því sem maður geri“.
Sumum finnst líka að þeir séu óverðugir umhyggju Guðs vegna þess hvernig þeir hegða sér. Til dæmis segir miðaldra maður að nafni Jim: „Ég bað aftur og aftur til Guðs um innri frið og sjálfstjórn en samt náði reiðin alltaf tökum á mér aftur. Að lokum dró ég þá ályktun að mér væri hreinlega ekki viðbjargandi og að Guð gæti ekki hjálpað mér.“
En er Guð svo fjarlægur okkur mönnunum að hann taki ekki eftir okkur? Hvað finnst honum í raun og veru um ófullkomna menn? Ef Guð hefði ekki látið okkur í té upplýsingar um sjálfan sig gæti enginn maður svarað þessum spurningum fyrir hans hönd. En Biblían, sem hefur að geyma innblásinn boðskap Guðs til mannkynsins, fullvissar okkur um að hann sé hvorki fjarlægur okkur né áhugalaus um okkur sem einstaklinga. Biblían segir: „Eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ (Postulasagan 17:27) Í næstu fjórum greinum könnum við hvað Guð hefur sjálfur sagt um þetta og hvernig hann hefur sýnt hverju og einu okkar áhuga, líka þér.
-
-
Guð fylgist með þérVarðturninn – 2014 | 1. september
-
-
FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?
Guð fylgist með þér
„Augu Guðs hvíla á vegferð mannsins, hann horfir á hvert hans spor.“ – JOBSBÓK 34:21.
Því yngra sem barnið er þeim mun meir þarfnast það athygli foreldranna.
AF HVERJU SUMIR ERU Í VAFA: Nýleg rannsókn sýndi fram á að í Vetrarbrautinni okkar gætu verið að minnsta kosti 100 milljarðar reikistjarna. Og í ljósi þess hve alheimurinn er feiknastór hafa margir spurt sig: „Af hverju ætti almáttugur skapari að hafa áhuga á lítilfjörlegum mönnum á agnarsmárri reikistjörnu?“
ORÐ GUÐS KENNIR: Jehóva Guða hætti ekki að hafa áhuga á mönnunum eftir að hafa gefið þeim leiðbeiningar í Biblíunni. Jehóva fullvissar okkur um að hann hafi mikinn áhuga á okkur því að hann segir: „Ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ – Sálmur 32:8.
Lítum á frásöguna af Hagar, egypskri konu sem var uppi á 20. öld f.Kr. Hagar hafði komið illa fram við Saraí, vinnuveitanda sinn, sem auðmýkti hana fyrir vikið og því flýði Hagar út í eyðimörkina. En hætti Jehóva að gefa gaum að Hagar fyrst hún hafði gert mistök? Í Biblíunni segir: „Engill Drottins fann Hagar.“ Engillinn hughreysti hana og sagði: „Drottinn hefur heyrt kveinstafi þína.“ Hagar sagði þá við Jehóva: „Þú ert alsjáandi Guð.“ – 1. Mósebók 16:4-13.
„Alsjáandi Guð“ fylgist líka með þér. Lýsum því með dæmi: Umhyggjusöm móðir fylgist sérstaklega vel með yngstu börnunum sínum. Hún veit að því yngra sem barnið er þeim mun meir þarfnast það athygli foreldranna. Á svipaðan hátt fylgist Guð sérstaklega vel með okkur þegar við erum viðkvæm og varnarlítil. Jehóva segir: „Ég bý á háum og helgum stað en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda til að glæða þrótt hinna lítillátu og styrkja hjarta þjakaðra.“ – Jesaja 57:15.
En þú veltir kannski fyrir þér: „Hvernig fylgist Guð með mér? Dæmir hann mig eftir því sem hann heyrir og sér eða skyggnist hann undir yfirborðið og skilur hver ég er innst inni?“
a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.
-
-
Guð skilur þigVarðturninn – 2014 | 1. september
-
-
FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?
Guð skilur þig
„Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.“ – SÁLMUR 139:1.
„Augu þín sáu mig sem fóstur.“ – SÁLMUR 139:16, New World Translation.
AF HVERJU SUMIR ERU Í VAFA: Margir halda að í augum Guðs séu mennirnir aðeins syndarar, óhreinir og óverðugir athygli hans. Kendra, sem þjáðist af þunglyndi, var að bugast af sektarkennd yfir því að geta ekki risið fullkomlega undir kröfum Guðs. Hvaða afleiðingar hafði það? Hún segir: „Ég hætti að biðja til Guðs.“
ORÐ GUÐS KENNIR: Jehóva sér í gegnum ófullkomleika þinn og veit hver þú ert innst inni. Biblían segir: „Hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ Þar að auki breytir hann ekki við okkur „eftir syndum vorum“ heldur fyrirgefur og miskunnar okkur þegar við iðrumst. – Sálmur 103:10, 14.
Leiðum hugann að Davíð, konungi Ísraels, sem minnst var á í fyrstu forsíðugreininni. Hann sagði í bæn til Guðs: „Augu þín sáu mig sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir ... Grandskoða mig, ó Guð, og þekktu hjarta mitt.“ (Sálmur 139:16, 23, New World Translation) Já, Davíð var viss um að þótt hann syndgaði, jafnvel mjög alvarlega, gæti Jehóva lesið hjarta hans og séð sára iðrun hans.
Jehóva skilur þig betur en nokkur maður getur gert. Í Biblíunni segir: „Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Guð veit af hverju þú ert eins og þú ert. Hann veit hvernig erfðir, uppeldi, umhverfi og persónuleiki þinn hafa átt sinn þátt í að móta þann mann sem þú hefur að geyma. Hann bæði sér og hefur mætur á þeirri persónu sem þig langar til að vera og tekur eftir viðleitni þinni til að breyta þér, jafnvel þótt þú gerir mistök.
Guð hefur næman skilning á því hver þú ert í raun og veru. En hvernig nýtir hann þennan skilning til að hughreysta þig?
-
-
Guð getur hughreyst þigVarðturninn – 2014 | 1. september
-
-
FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?
Guð getur hughreyst þig
„Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss.“ – 2. KORINTUBRÉF 7:6, Biblían 1981.
Guðs sonur elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.‘ – GALATABRÉFIÐ 2:20.
AF HVERJU SUMIR ERU Í VAFA: Margir þurfa nauðsynlega á huggun að halda. Þrátt fyrir það finnst mörgum það bera vott um eigingirni að biðja Guð um að grípa inn í og hjálpa þeim að takast á við vandamálin. Kona að nafni Raquel segir: „Þegar ég hugsa um þann gríðarlega fjölda fólks sem býr á jörðinni og hversu alvarleg vandamál það glímir við virðast mínar áhyggjur svo smávægilegar að ég hika við að biðja Guð um hjálp.“
ORÐ GUÐS KENNIR: Guð hefur nú þegar skorist í leikinn með einstökum hætti til að hjálpa mönnunum og hugga þá. Allir jarðarbúar hafa fengið syndina í arf. Það merkir að þeir eru ófærir um að rísa fullkomlega undir kröfum Guðs. Samt sem áður „elskaði [Guð] okkur og sendi son sinn [Jesú Krist] til að vera friðþæging fyrir syndir okkar“. (1. Jóhannesarbréf 4:10) Með fórnardauða Jesú gerir Guð okkur mögulegt að fá fyrirgefningu synda okkar, öðlast hreina samvisku og von um eilíft líf í friðsömum nýjum heimi.a En er þessi fórn bara færð fyrir mannkynið í heild eða endurspeglar hún áhuga Guðs á þér sem einstaklingi?
Lítum á orð Páls postula. Hann var svo djúpt snortinn af því að Jesús skyldi hafa fórnað lífi sínu fyrir mennina að hann skrifaði: „Ég [lifi] í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Galatabréfið 2:20) Jesús dó að vísu áður en Páll tók kristna trú en engu að síður leit Páll á þessa fórn sem gjöf frá Guði til sín sem einstaklings.
Fórnardauði Jesú er líka gjöf frá Guði til þín sem einstaklings. Þessi gjöf staðfestir hversu dýrmætur þú ert í augum Guðs. Hún getur veitt þér „eilífa huggun og góða von“ og þar af leiðandi styrkt þig „í sérhverju góðu verki og orði“. – 2. Þessaloníkubréf 2:16, 17.
En nú eru liðin næstum 2.000 ár síðan Jesús fórnaði lífi sínu. Eru einhver merki um að Guð reyni að ná til þín núna?
a Hægt er að lesa meira um fórn Jesú í 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.
-
-
Guð reynir að ná til þínVarðturninn – 2014 | 1. september
-
-
FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?
Guð reynir að ná til þín
„Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ – JÓHANNES 6:44, Biblían 1981.
AF HVERJU SUMIR ERU Í VAFA: Mörgum finnst þeir ekki nánir Guði jafnvel þótt þeir trúi á hann. Christina sem býr á Írlandi sótti kirkju í hverri viku en segir samt: „Ég átti erfitt með að líta á Guð sem persónu. Fyrir mér var hann bara sá sem hafði skapað allt. Ég þekkti hann ekki neitt og mér fannst ég aldrei náin honum.“
ORÐ GUÐS KENNIR: Jehóva heldur áfram að reyna að ná til okkar þótt okkur líði kannski svipað og Christinu. Jesús brá upp þessari líkingu af umhyggju Guðs fyrir okkur: „Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess sem villtur er?“ Hver er lærdómurinn? „Það [er] eigi vilji yðar himneska föður að nokkur þessara smælingja glatist.“ – Matteus 18:12-14.
Hver og einn „þessara smælingja“ er dýrmætur í augum Guðs. En hvernig fer Guð að því að „leita þess sem villtur er“? Versið, sem vitnað er í hér fyrir ofan, bendir á að Jehóva dragi fólk til sín.
Hverjir eru það nú á dögum sem ræða við fólk í heimahúsum og á götum úti um Guð og Biblíuna?
Lítum á hvernig Guð átti frumkvæðið að því að draga til sín hjartahreina einstaklinga á fyrstu öld. Þegar embættismaður frá Eþíópíu sat í vagni sínum og las biblíuspádóm gaf Guð Filippusi, lærisveini Jesú, boð um að fara til hans og útskýra fyrir honum hvað spádómurinn merkti. (Postulasagan 8:26-39) Síðar gaf Guð Pétri postula bendingu um að fara heim til Kornelíusar, rómversks liðsforingja sem bað oft til Guðs og leitaðist við að tilbiðja hann. (Postulasagan 10:1-48) Guð leiddi einnig Pál postula og félaga hans að á nokkurri sem rann fyrir utan borgina Filippí. Þar hittu þeir guðrækna konu, Lýdíu að nafni. Jehóva „opnaði ... hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði“. – Postulasagan 16:9-15.
Í öllum þessum tilvikum sá Jehóva Guð til þess að þeir sem leituðu hans fengju tækifæri til að kynnast honum. Hverjir eru það nú á dögum sem ræða við fólk í heimahúsum og á götum úti um Guð og Biblíuna? Margir myndu segja að það væru Vottar Jehóva. Getur verið að Guð noti þá til að reyna að ná til þín? Væri ekki ráð að biðja Guð um að hjálpa þér að koma auga á hvernig hann reynir að draga þig til sín?a
a Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að horfa á myndskeiðið Hvers vegna ættum við að kynna okkur Biblíuna? á www.jw.org/is.
-