Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Gerðist það í raun og veru?
    Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 2
    • Líkami Jesú er tekinn niður af kvalastaurnum og lærisveinar hans fylgjast með álengdar.

      FORSÍÐUEFNI | HVERS VEGNA ÞURFTI JESÚS AÐ ÞJÁST OG DEYJA?

      Gerðist það í raun og veru?

      Vorið 33 var Jesús frá Nasaret tekinn af lífi. Hann var ranglega sakaður um undirróður, barinn illilega og negldur upp á staur. Hann dó kvalafullum dauðdaga. En Guð reisti Jesús upp til lífs á ný og 40 dögum síðar steig hann upp til himna.

      Þessa einstöku frásögn er að finna í guðspjöllunum fjórum í Grísku ritningunum (Nýja testamentinu). En gerðust þessir atburðir í raun? Spurningin er mikilvæg og á fullan rétt á sér. Ef þessir atburðir gerðust ekki er trú kristinna manna einskisverð og vonin um eilíft líf í paradís ekki annað en draumsýn. (1. Korintubréf 15:14) Ef þeir eru hins vegar sannir er framtíð mannkyns björt og þú getur átt þátt í henni. Eru frásögur guðspjallanna sannar eða eru þær skáldskapur?

      HVAÐ SEGJA STAÐREYNDIRNAR?

      Ólíkt staðlausum goðsögnum bera guðspjöllin vitni um mikla nákvæmni og þar er að finna staðgóðar lýsingar á smáatriðum. Til dæmis eru fjölmargir staðir nefndir í guðspjöllunum og margir þeirra eru til enn í dag. Þar er sagt frá fólki sem veraldlegir sagnaritarar staðfesta að hafi verið til. – Lúkas 3:1, 2, 23.

      Veraldlegir ritarar frá fyrstu og annarri öld minnast á Jesú í skrifum sínum.a Lýsing guðspjallanna á því hvernig hann var tekinn af lífi kemur heim og saman við aftökuaðferðir Rómverja á þeim tíma. Aukinheldur er sagt frá atburðum á raunsannan og einlægan hátt. Brestir sumra lærisveina Jesú eru jafnvel dregnir fram í dagsljósið. (Matteus 26:56; Lúkas 22:24-26; Jóhannes 18:10, 11) Allt þetta ber þess merki að ritarar guðspjallanna hafi verið heiðarlegir og nákvæmir þegar þeir skrifuðu um líf Jesú.

      HVAÐ UM UPPRISU JESÚ?

      Þótt flestir viðurkenni að Jesús hafi lifað hér á jörð og síðan dáið efast margir um upprisu hans. Postularnir trúðu jafnvel ekki að hann hefði fengið upprisu fyrst þegar þeir heyrðu um það. (Lúkas 24:11) Allar efasemdir hurfu hins vegar þegar þeir og aðrir lærisveinar sáu Jesú upprisinn oftar en einu sinni. Við eitt slíkt tækifæri voru meira en 500 sjónarvottar til staðar. – 1. Korintubréf 15:6.

      Jafnvel þótt lærisveinarnir hafi átt á hættu að vera handteknir og drepnir kunngerðu þeir hugrakkir fyrir öllum að Jesús væri upprisinn – jafnvel fyrir þeim sem tóku hann af lífi. (Postulasagan 4:1-3, 10, 19, 20; 5:27-32) Hefðu svo margir lærisveinar sýnt slíkt hugrekki án þess að vera sannfærðir um að Jesús hefði í raun verið reistur upp frá dauðum? Kristin trú hefði aldrei haft eins mikil áhrif á heiminn og raun ber vitni ef upprisa Jesú hefði ekki átt sér stað.

      Frásögur guðspjallanna af dauða Jesú og upprisu bera öll merki þess að vera áreiðanlegar heimildir. Ef þú lest þær vandlega færðu sannfærandi rök fyrir því að þessir atburðir hafi raunverulega átt sér stað. Og þú getur orðið enn sannfærðari þegar þú skilur hvers vegna þeir gerðust. Í næstu grein færðu nánari útskýringar á því.

      a Tacítus, en hann fæddist um 55 e.Kr skrifaði: „Kristus, sá sem þeir [kristnir menn] voru kenndir við, var dæmdur til dauða og líflátinn af Pontíusi Pílatusi skattlandsstjóra, á veldisdögum Tíberíusar.“ Svetóníus (á fyrstu öld), Jósefus, sagnaritari Gyðinga (á fyrstu öld) og Plíníus yngri, landstjóri Biþýníu (í byrjun annarrar aldar) minnast einnig á Jesú í skrifum sínum.

      Hvers vegna eru ekki til fleiri veraldlegar heimildir?

      Miðað við þau djúpstæðu áhrif sem Jesús hefur haft á heiminn ættum við þá ekki að reikna með að til séu fleiri heimildir, fyrir utan Biblíuna, sem sanna að Jesús hafi verið til og reistur upp frá dauðum. Ekki endilega. Í fyrsta lagi voru guðspjöllin skrifuð fyrir næstum 2.000 árum. Fá önnur handrit frá þeim tíma hafa varðveist. (1. Pétursbréf 1:24, 25) Í öðru lagi er ólíklegt að andstæðingar Jesú hefðu skrifað eitthvað sem gerðu frásagnirnar um hann trúverðugri.

      Pétur postuli sagði um upprisuna: „Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast, ekki öllum almenningi heldur okkur, vottunum sem Guð hafði áður valið. Við átum og drukkum með honum eftir að hann var risinn upp frá dauðum.“ (Postulasagan 10:40, 41) Hvers vegna birtist hann ekki öllum? Í Matteusarguðspjalli kemur fram að þegar trúarleiðtogarnir, andstæðingar Jesú, heyrðu frásagnir af upprisu hans hafi þeir lagt á ráðin um að þagga þær niður. – Matteus 28:11-15.

      Merkir þetta að Jesús hafi viljað halda upprisu sinni leyndri? Nei, því Pétur heldur áfram og segir: „Hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra.“ Sannir fylgjendur Jesú boðuðu það fyrr á tímum og gera enn. – Postulasagan 10:42.

  • Hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja?
    Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 2
    • Fólk af ýmsum kynþáttum nýtur lífsins í paradís.

      FORSÍÐUEFNI

      Hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja?

      „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni.“ – Rómverjabréfið 5:12.

      Adam og Eva skoða forboðna ávöxtinn; Adam og Eva á gamals aldri; líkkista borin í kirkjugarð.

      „Langar þig til að lifa að eilífu?“ Hvernig myndirðu svara þessari spurningu? Flestir myndu líklega segja að þá langi til þess en að þeim finnist óraunhæft að hugsa um það. Þeir myndu segja að dauðinn væri hluti af lífinu – eðlilegur endir á tilveru okkar.

      En ef spurningunni væri snúið við og þú spurður: „Ertu tilbúinn að deyja?“ Undir venjulegum kringumstæðum myndu flestir svara þessari spurningu neitandi. Hvað segir það okkur? Að við höfum eðlislæga löngun til að lifa þrátt fyrir raunir og erfiðleika sem við mætum í lífinu. Biblían segir að Guð hafi skapað mennina með löngun og vilja til að lifa. Hún segir reyndar: „Jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra.“ – Prédikarinn 3:11.

      Staðreyndin er þó sú að mennirnir lifa ekki að eilífu. Hvað fór úrskeiðis? Og hefur Guð gert eitthvað til að lagfæra ástandið? Það er mjög hughreystandi að skoða svör Biblíunnar og þau eru nátengd því hvers vegna Jesús þurfti að þjást og deyja.

      ÞAÐ SEM FÓR ÚRSKEIÐIS

      Fyrstu þrír kaflarnir í 1. Mósebók segja frá því að Guð ætlaði Adam og Evu, fyrstu mannhjónunum, að lifa að eilífu og hann sagði þeim hvað þau þyrftu að gera til að öðlast eilíft líf. Síðan segir frá því hvernig þau óhlýðnuðust Guði og glötuðu eilífa lífinu. Frásagan er einföld – svo einföld að margir álykta hana vera goðsögu. En rétt eins og guðspjöllin ber frásagan í 1. Mósebók það með sér að vera áreiðanleg heimild.a

      Hverjar voru afleiðingarnar af óhlýðni Adams? Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómverjabréfið 5:12) Adam syndgaði þegar hann óhlýðnaðist Guði. Þannig glataði hann eilífa lífinu og dó að lokum. Þar sem við erum afkomendur hans höfum við fengið syndina í arf. Þar af leiðandi veikjumst við, eldumst og deyjum. Þessari skýringu á því hvers vegna við deyjum ber saman við það sem við vitum um erfðir og arfgengi. En hefur Guð gert eitthvað til að lagfæra ástandið?

      ÞAÐ SEM GUÐ HEFUR GERT

      Guð gerði ráðstafanir til að endurleysa, eða kaupa til baka, það sem Adam glataði. Með því gerir hann afkomendum Adams kleift að hljóta eilíft líf. Hvernig fór hann að því?

      „Laun syndarinnar er dauði,“ segir í Rómverjabréfinu 6:23. Það merkir að dauðinn er afleiðing syndarinnar. Adam syndgaði og þess vegna dó hann. Við syndgum líka og uppskerum þess vegna laun syndarinnar, dauða. Við fæðumst öll syndug og fáum engu um það ráðið. Vegna kærleika síns sendi Guð son sinn, Jesú, til að taka á sig „laun syndarinnar“ fyrir okkur. Hvernig var það hægt?

      Fólk af ýmsum kynþáttum nýtur lífsins í paradís.

      Dauði Jesú opnaði leiðina að hamingjuríku lífi að eilífu.

      Þar sem einn maður, hinn fullkomni Adam, leiddi yfir okkur synd og dauða vegna óhlýðni sinnar þurfti fullkominn mann, sem var hlýðinn allt til dauða, til að leysa okkur undan oki syndarinnar. Í Biblíunni segir: „Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina.“ (Rómverjabréfið 5:19) Jesús var ,hinn eini‘ sem var hlýðinn. Hann var sendur frá himni, var fullkominn maðurb og dó fyrir okkur. Þar af leiðandi getum við verið réttlát í augum Guðs og átt í vændum eilíft líf.

      HVERS VEGNA JESÚS ÞURFTI AÐ ÞJÁST OG DEYJA

      En hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja til að gera þetta mögulegt? Gat almáttugur Guð ekki einfaldlega mælt svo fyrir að afkomendur Adams fengju að lifa að eilífu? Hann hafði sannarlega vald til þess. En þá hefði hann virt að vettugi lagaboðið sem hann setti um að laun syndarinnar er dauði. Þetta lagaboð var ekki lítilvæg regla sem hægt var að fella niður eða breyta eftir hentugleika. Það var eitt af grundvallaratriðum réttlætis hans. – Sálmur 37:28.

      Ef Guð hefði vikið frá réttlátum lögum sínum í þessu máli gæti fólk hafa spurt sig hvort hann myndi gera það sama í öðrum málum. Myndi hann til dæmis vera sanngjarn þegar hann tæki ákvörðun um hverjir afkomenda Adams fengju eilíft líf? Væri hægt að treysta honum til að standa við loforð sín? Guð breytti réttlátlega þegar hann frelsaði okkur undan synd og dauða og það er trygging fyrir því að hann mun alltaf gera það sem er rétt.

      Með fórnardauða Jesú opnaði Guð leiðina að endalausu lífi í paradís á jörð. Taktu eftir orðum Jesú í Jóhannesi 3:16 en þar segir: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Fórn Jesú ber vitni um óbrigðult réttlæti Guðs. En fyrst og fremst sýnir hún okkur hve annt Guði er um mannkynið.

      En hvers vegna þurfti Jesús að deyja kvalafullum dauðdaga eins og lýst er í guðspjöllunum? Með því að vera fús til að ganga í gegnum gríðarlegar prófraunir og vera trúfastur afsannaði Jesús í eitt skipti fyrir öll þá ásökun djöfulsins að mennirnir myndu ekki vera trúir Guði í prófraunum. (Jobsbók 2:4, 5) Þessi ásökun gæti hafa virst réttmæt eftir að Satan fékk Adam til að syndga. Jesús var hlýðinn þrátt fyrir miklar þjáningar og fullkomið líf hans jafngilti fullkomnu lífi Adams. (1. Korintubréf 15:45) Hann sannaði þar með að Adam hefði getað hlýtt Guði ef hann hefði viljað. Með því að vera trúfastur í prófraunum lét Jesús okkur eftir fyrirmynd til að fylgja. (1. Pétursbréf 2:21) Guð umbunaði syni sínum fullkomna hlýðni hans og veitti honum ódauðleika á himnum.

      ÞÚ GETUR NOTIÐ GÓÐS AF DAUÐA JESÚ

      Fórnardauði Jesú er staðreynd. Leiðin að eilífu lífi er opin. Langar þig til að lifa að eilífu? Jesús benti á hvað þú þarft að gera til þess: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ – Jóhannes 17:3.

      Útgefendur þessa tímarits hvetja þig til að læra meira um Jehóva, hinn sanna Guð, og um son hans, Jesú. Vottar Jehóva, þar sem þú býrð, eru fúsir til að aðstoða þig. Þú getur einnig fengið gagnlegar upplýsingar á vefsíðu okkar www.jw.org/is.

      a Sjá greinina „Var Edengarðurinn til?“ í Varðturninum apríl-júni 2011, bls. 4.

      b Þegar Guð flutti líf sonar síns frá himnum í móðurlíf Maríu varð hún þunguð. Heilagur andi Guðs hlífði Jesú við því að erfa syndina frá Maríu. – Lúkas 1:31, 35.

      Ósýrða brauðið borið fram á minningarhátíðinni.

      „Gerið þetta í mína minningu“

      Kvöldið áður en Jesús fórnaði lífi sínu innleiddi hann minningarhátíð um dauða sinn með trúföstum postulum sínum. Hann sagði við þá: „Gerið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19) Af hlýðni við þetta boð koma vottar Jehóva saman árlega um allan heim á dánardegi Jesú. Í fyrra voru 19.862.783 viðstaddir þessa hátíð.

      Í ár verður minningarhátíðin um dauða Jesú haldin miðvikudaginn 23. mars eftir sólsetur. Þú og fjölskylda þín og vinir eruð hjartanlega velkomin. Þar verður flutt biblíutengd ræða og útskýrt hvers vegna dauði Jesú var mikilvægur og hvernig þú getur notið góðs af honum. Aðgangur er ókeypis og engin samskot fara fram. Spyrðu votta Jehóva í þínu byggðarlagi um stað og stund eða fáðu upplýsingar á vefsíðunni okkar www.jw.org/is.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila