-
Við þörfnumst öll huggunarVarðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 5
-
-
FORSÍÐUEFNI | HVAR GETUM VIÐ FENGIÐ HUGGUN?
Við þörfnumst öll huggunar
Manstu eftir því þegar þú varst barn og dast og meiddir þig. Þú fékkst kannski sár á höndina eða hruflaðir hnéð. Manstu hvernig mamma þín huggaði þig? Sennilega hreinsaði hún sárið og setti plástur á það. Þú grést en hún faðmaði þig hlýlega og rödd hennar róaði þig. Fljótlega leið þér betur. Það var aldrei langt í huggun og hughreystingu.
En þegar við eldumst vandast lífið. Vandamálin verða flóknari og erfiðara að finna huggun. Því miður er sjaldnast hægt að leysa erfiðleika fullorðinna með plástri og faðmlagi frá mömmu. Lítum á nokkur dæmi.
Hefurðu einhvern tíma orðið fyrir því að missa vinnuna? Julian segir að hann hafi fengið gríðarlegt áfall þegar honum var sagt upp vinnunni. Hann velti fyrir sér hvernig hann gæti séð fyrir fjölskyldunni og hugsaði: „Ég er búinn að vinna hörðum höndum hjá fyrirtækinu í mörg ár. Af hverju er ég allt í einu orðinn óþarfur?“
Ef til vill ertu miður þín vegna þess að hjónabandið fór út um þúfur. „Þegar maðurinn minn yfirgaf mig skyndilega fyrir 18 mánuðum fylltist ég sorg. Mér leið eins og hjartað hefði verið rifið úr mér,“ segir Raquel. „Sársaukinn var ekki bara tilfinningalegur heldur líka líkamlegur og það skelfdi mig.“
Kannski áttu við alvarleg veikindi að stríða og engin merki eru um bata. Þér líður ef til vill stundum eins og ættföðurnum Job. Hann sagði harmþrunginn: „Ég er uppgefinn, ég vil ekki lifa lengur.“ (Jobsbók 7:16) Eða líður þér kannski eins og Luis sem er á níræðisaldri? Hann segir: „Stundum finnst mér ég bara vera að bíða eftir að deyja.“
Kannski þarftu sárlega á huggun að halda vegna þess að þú hefur misst ástvin í dauðann. „Þegar sonur minn fórst í hörmulegu flugslysi trúði ég því ekki til að byrja með,“ segir Robert. „Síðan kom sársaukinn. Sársauki sem Biblían líkir við það að vera rekinn í gegn með sverði.“ – Lúkas 2:35.
Robert, Luis, Raquel og Julian fengu öll huggun og hughreystingu þrátt fyrir mjög erfiða lífsreynslu. Þau fengu huggun frá þeim sem er færastur í að veita hana – Guði sjálfum. Hvernig veitir hann huggun? Getur Guð líka huggað og hughreyst þig?
-
-
Hvernig veitir Guð huggun?Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 5
-
-
FORSÍÐUEFNI | HVAR GETUM VIÐ FENGIÐ HUGGUN?
Hvernig veitir Guð huggun?
Páll postuli segir að Jehóvaa sé ,Guð allrar huggunar sem hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar‘. (2. Korintubréf 1:3, 4) Þannig fullvissar Biblían okkur um að Guð geti hjálpað öllum mönnum og að enginn harmleikur sé svo mikill að himneskur faðir okkar geti ekki huggað okkur.
Við verðum að sjálfsögðu að gera eitthvað sjálf til að hljóta huggun og hughreystingu frá Guði. Læknir getur ekki hjálpað okkur nema við leitum til hans. Amos spámaður spurði: „Verða tveir menn samferða nema þeir hafi áður mælt sér mót?“ (Amos 3:3) Biblían hvetur okkur þess vegna: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ – Jakobsbréfið 4:8.
Hvernig getum við verið viss um að Guð muni nálgast okkur? Í fyrsta lagi vegna þess að hann hefur ítrekað sagt að hann vilji hjálpa okkur. (Sjá meðfylgjandi ramma.) Þar að auki höfum við rækilegan vitnisburð frá fólki sem Guð hefur hughreyst – bæði á okkar dögum og fyrr á tímum.
Davíð konungur þekkti hörmungar af eigin raun rétt eins og margir sem leita hjálpar Guðs nú á dögum. „Heyr þú grátbeiðni mína þegar ég hrópa til þín á hjálp,“ bað hann Jehóva eitt sinn. Var hann bænheyrður? Já, því að hann bætti við: „Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt.“ – Sálmur 28:2, 7.
JESÚ GEGNIR MIKILVÆGU HLUTVERKI Í AÐ HUGGA ÞÁ SEM ERU HRYGGIR
Jesú átti að gegna lykilhlutverki í því að hugga og hughreysta fólk. Eitt af verkefnunum sem Guð fól Jesú var „að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu“ og „að hugga þá sem hryggir eru“. (Jesaja 61:1, 2) Eins og spáð var fyrir sýndi Jesús sérstakan áhuga á fólki sem ,erfiðaði og var þunga hlaðið‘. – Matteus 11:28-30.
Jesús hughreysti fólk með viturlegum ráðum og hlýlegu viðmóti. Suma læknaði hann meira að segja af veikindum. Dag einn sárbændi holdsveikur maður Jesú: „Ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Jesús fann til með manninum og svaraði: „Ég vil, verð þú hreinn!“ (Markús 1:40, 41) Og maðurinn læknaðist af holdsveikinni.
Nú á dögum er sonur Guðs ekki á jörðinni til að hugga okkur og hughreysta í eigin persónu. En faðir hans sem er „Guð allrar huggunar“ heldur áfram að hughreysta þá sem eru hjálparþurfi. (2. Korintubréf 1:3) Skoðum fjórar mikilvægustu leiðirnar sem Jehóva Guð notar til að hugga og hughreysta fólk.
Biblían. „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa.“ – Rómverjabréfið 15:4.
Heilagur andi Guðs. Skömmu eftir dauða Jesú þurfti kristni söfnuðurinn sárlega á huggun að halda. Biblían segir að Guð hafi veitt þeim hana með heilögum anda sínum. (Postulasagan 9:31) Heilagur andi, það er að segja kraftur Guðs, er mjög öflugur. Guð getur notað hann til að hugga og hughreysta fólk við hvaða aðstæður sem er.
Bænin. „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði,“ ráðleggur Biblían. Hún segir jafnframt: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir.“ – Filippíbréfið 4:6, 7.
Trúsystkini geta reynst sannir vinir sem við getum reitt okkur á í erfiðleikum. Páll postuli sagði um samverkamenn sína: „Þeir [hafa] verið mér styrkur“ og „huggun í neyð minni og þrengingu“. – Kólossubréfið 4:11; 1. Þessaloníkubréf 3:7.
En þú veltir kannski fyrir þér hvernig þetta virki í raun. Skoðum nánar reynslu einstaklinga sem lentu í þeim erfiðleikum sem nefndir eru í inngangsgreininni. Þú getur kynnst því af eigin raun að Guð stendur enn í dag við þetta hlýlega loforð: „Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður.“ – Jesaja 66:13.
a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.
-
-
Huggun á erfiðum tímumVarðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 5
-
-
FORSÍÐUEFNI | HVAR GETUM VIÐ FENGIÐ HUGGUN?
Huggun á erfiðum tímum
Erfiðleikar eru af ýmsu tagi og umræðan í þessum greinum er engan veginn tæmandi. En skoðum nánar fjögur dæmi sem hafa þegar verið nefnd. Taktu eftir hvernig fólk með mjög ólík vandamál hefur fundið ósvikna huggun í orði Guðs.
ATVINNUMISSIR
„Mér lærðist að þiggja þá vinnu sem bauðst og við skárum niður öll ónauðsynleg útgjöld.“ – Jonathan.
„Við hjónin misstum vinnuna á sama tíma,“ segir Seth.a „Í tvö ár þurftum við að lifa á ölmusu frá fjölskyldunni og tilfallandi verkefnum. Priscilla, konan mín, varð þunglynd út af ástandinu og mér leið eins og ég væri einskis nýtur.
Hvernig tókst okkur að komast í gegnum þetta? Priscilla minnti sjálfa sig stöðugt á orð Jesú í Matteusi 6:34. Þar segir hann að við eigum ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum því að morgundagurinn hafi sínar áhyggjur. Priscilla fékk styrk til að halda út með því að biðja innilega til Guðs. Sálmur 55:23 hughreysti mig. Ég varpaði áhyggjum mínum á Jehóva Guð eins og sálmaskáldið gerði og ég fann að hann hélt mér uppi. Þó að ég sé með vinnu núna lifum við einföldu lífi eins og Jesús hvetur til í Matteusi 6:20-22. Umfram allt höfum við eignast nánara samband við Guð og hvort við annað.“
„Þegar litla fjölskyldufyrirtækið okkar varð gjaldþrota hafði ég verulegar áhyggjur af framtíðinni,“ segir Jonathan. „Vegna efnahagshruns varð tuttugu ára vinna að engu og við hjónin byrjuðum að rífast út af peningum. Við gátum ekki einu sinni notað kreditkort því að við óttuðumst að kortinu yrði hafnað.
En orð Guðs og andi hans hjálpaði okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. Mér lærðist að þiggja þá vinnu sem bauðst og við skárum niður öll ónauðsynleg útgjöld. Trúsystkini okkar hjálpuðu okkur líka en við erum vottar Jehóva. Þau stöppuðu í okkur stálinu og réttu okkur hjálparhönd þegar ástandið var hvað verst.“
HJÓNABANDIÐ FER ÚT UM ÞÚFUR
„Ég var bæði sár og reið þegar maðurinn minn yfirgaf mig fyrirvaralaust og sorgin helltist yfir mig,“ segir Raquel. „En ég nálægði mig Guði og hann huggaði mig og hughreysti. Ég bað til hans á hverjum degi og friður Guðs róaði mig. Hann læknaði hjartasár mín.
Með hjálp Biblíunnar komst ég yfir reiðina og gremjuna. Ég tók til mín orð Páls postula í Rómverjabréfinu 12:21: ,Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.‘
„Stundum þarf maður að sætta sig við að eitthvað sé búið ... Núna hef ég sett mér ný markmið.“ – Raquel.
Góður vinur hjálpaði mér að skilja að ég þyrfti að halda áfram að lifa lífinu. Hann sýndi mér Prédikarann 3:6 og sagði að stundum þarf maður að sætta sig við að eitthvað sé búið. Mér fannst erfitt að kyngja því en ég þurfti á þessu að halda. Núna hef ég sett mér ný markmið.“
„Maður þarf á stuðningi að halda þegar hjónabandið fer út um þúfur,“ segir Elizabeth. „Ég átti góða vinkonu sem studdi mig frá degi til dags. Hún grét með mér og huggaði mig og mér fannst ég aftur einhvers virði. Ég er alveg viss um að Jehóva notaði hana til að græða hjartasár mín.“
VEIKINDI EÐA ELLI
„Ég finn hvernig andi Guðs gefur mér styrk í gegnum bænina.“ – Luis.
Luis, sem minnst var á í fyrstu greininni í þessari greinaröð, er með alvarlegan hjartasjúkdóm og var tvisvar sinnum hætt kominn vegna hans. Núna þarf hann súrefnisgjöf í 16 klukkustundir á sólarhring. „Ég bið stöðugt til Jehóva,“ segir hann. „Og ég finn hvernig andi Guðs gefur mér styrk í gegnum bænina. Bænin gefur mér hugrekki til að þrauka vegna þess að ég treysti á Guð og veit að hann lætur sér annt um mig.“
„Mig langar að gera svo margt en get það bara ekki,“ segir Petra sem er á níræðisaldri. „Það er mjög erfitt að finna þróttinn minnka. Ég er alltaf uppgefin og neyðist til að taka inn lyf. Ég hugsa oft um hvernig Jesús bað föður sinn um að láta ákveðna erfiðleika fara fram hjá sér ef mögulegt væri. En Jehóva styrkti Jesú og hann styrkir mig líka. Bænin er mín daglega meðferð. Mér líður miklu betur þegar ég hef talað við Guð.“ – Matteus 26:39.
Julian er eins innanbrjósts en hann hefur barist við MS-sjúkdóminn í næstum þrjá áratugi. „Ég fór úr framkvæmdastjórastól í hjólastól,“ segir hann. „En líf mitt hefur tilgang því að ég nota það til að þjóna öðrum. Að gefa af sér getur linað þjáningar og Jehóva stendur við loforð sitt um að styrkja okkur á neyðartímum. Ég get vel tekið undir orð Páls postula: ,Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.‘“ – Filippíbréfið 4:13.
ÁSTVINAMISSIR
Antonio segir: „Til að byrja með gat ég ekki trúað því að pabbi hefði lent í umferðarslysi og dáið. Mér fannst það svo óréttlátt – hann var bara gangandi vegfarandi. En ég gat engu breytt um það. Hann var í dái í fimm daga áður en hann lést. Mér tókst einhvern veginn að halda aftur af tárunum fyrir framan mömmu en brotnaði niður þegar ég var einn. Ég spurði mig stöðugt: ,Hvers vegna?‘ ,Hvers vegna?‘
Ég bað Jehóva að hjálpa mér að hafa stjórn á tilfinningunum og gefa mér ró þessa skelfilegu daga. Smám saman fann ég fyrir innri friði. Ég minntist þess að ,tími og tilviljun‘ mætir okkur öllum. Ég er sannfærður um að ég fái að sjá föður minn aftur í upprisunni því að Guð lýgur aldrei.“ – Prédikarinn 9:11; Jóhannes 11:25; Títusarbréfið 1:2.
„Þegar flugvélin hrapaði kostaði það son okkar lífið en við eigum samt margar góðar minningar um tímann sem við áttum með honum.“ – Robert.
Robert, sem minnst var á í fyrstu greininni, hugsar á svipuðum nótum. Hann segir: „Við hjónin höfum fundið fyrir þeim hugarfriði sem talað er um í Filippíbréfinu 4:6, 7. Við fengum hann með hjálp bænarinnar. Þessi innri friður frá Jehóva hefur hjálpað okkur að tala við fréttamenn um upprisuvonina sem við eigum. Þegar flugvélin hrapaði kostaði það son okkar lífið en við eigum samt margar góðar minningar um tímann sem við áttum með honum. Við reynum að hafa hugann við þær.
Þegar trúsystkini okkar töluðu um að við hefðum skýrt frá trú okkar í sjónvarpinu af ró og stillingu sögðum við að það hafi án efa verið vegna þess hve margir báðu fyrir okkur. Ég er sannfærður um að Jehóva styrkti okkur í gegnum öll huggunarorð þeirra.“
Eins og dæmin hér á undan sýna getur Guð huggað og hughreyst fólk í alls konar erfiðleikum. En hvað með þig? Þú getur fengið huggun og hughreystingu á erfiðum tímum sama hvaða erfiðleikum þú mætir.b Við hvetjum þig til að leita hjálpar hjá Jehóva, en hann er „Guð allrar huggunar“. – 2. Korintubréf 1:3.
-