Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Hvar á að draga mörkin?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
    • KAFLI 4

      Hvar á að draga mörkin?

      Rétt eða rangt . . .

      Kærustupar má ekki undir neinum kringumstæðum snerta hvort annað.

      □ Rétt

      □ Rangt

      Kærustupar getur gert sig sekt um saurlifnað án þess að hafa kynmök.

      □ Rétt

      □ Rangt

      Kærustupar, sem sýnir hvort öðru ekki innileg ástaratlot, getur ekki verið ástfangið í raun.

      □ Rétt

      □ Rangt

      ÞÚ HEFUR örugglega hugsað mikið um þessi mál. Ef þú átt kærasta eða kærustu getur stundum verið erfitt að vita hvar á að draga mörkin þegar kemur að því að sýna ástúð. Skoðum aðeins nánar fullyrðingarnar þrjár hér að ofan og sjáum hvernig orð Guðs hjálpar okkur að svara spurningunni: Hvar á að draga mörkin?

      ● Kærustupar má ekki undir neinum kringumstæðum snerta hvort annað.

      Rangt. Biblían fordæmir ekki eðlilega og hreina tjáningu á ástúð. Til dæmis getum við lesið um stúlkuna Súlammít og fjárhirði nokkurn sem voru ástfangin. Samband þeirra var hreint og heiðvirt. Þau sýndu samt hvort öðru einhverja ástúð áður en þau giftust. (Ljóðaljóðin 1:2; 2:6; 8:5) Kærustupari, sem er alvarlega að hugleiða hjónaband, getur sömuleiðis fundist það eiga við að sýna hvort öðru viðeigandi ástúð.a

      En þau verða engu að síður að vera vel á verði. Kossar, faðmlög eða eitthvað annað, sem æsir upp kynhvötina, getur leitt til siðleysis. Þótt fólk hafi góðan ásetning er alltof auðvelt að ganga of langt og leiðast út í kynferðislegt siðleysi. — Kólossubréfið 3:5.

      ● Kærustupar getur gert sig sekt um saurlifnað án þess að hafa kynmök.

      Rétt. Gríska orðið porneiʹa, sem þýtt er ,saurlifnaður‘ og ,frillulífi‘, hefur breiða merkingu. Það er notað um allar kynlífsathafnir utan hjónabands og lýsir misnotkun kynfæranna. Saurlifnaður felur því ekki aðeins í sér samfarir heldur líka munnmök, endaþarmsmök og það að fróa annarri manneskju.

      En Biblían fordæmir ekki bara saurlifnað og frillulífi. Páll postuli skrifaði: „Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi [„taumleysi“, New World Translation].“ Hann bætti við: „Þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.“ — Galatabréfið 5:19-21.

      Hvað er „óhreinleiki“? Gríska orðið felur í sér alls kyns óhreinleika í tali og hegðun. Það væri vissulega óhreinleiki að láta hendur sínar laumast inn undir föt hins aðilans, færa hann úr fötum eða þukla vissa líkamshluta, svo sem brjóstin. Biblían setur það að gæla við brjóstin í samband við þann unað sem er einungis ætlaður hjónum. — Orðskviðirnir 5:18, 19.

      Sumir unglingar eru blygðunarlausir og bjóða siðferðisreglum Guðs birginn. Þeir ganga of langt af ásettu ráði, eða sækjast af græðgi eftir sem flestum til að stunda kynferðislegan óhreinleika með. Þeir eru þannig sekir um það sem Páll postuli kallaði „taumleysi“. Gríska orðið, sem svo er þýtt, merkir ,taumlaus ástríða, svívirðileg verk, óhóf, ósvífni‘. Þú vilt örugglega ekki verða ,tilfinningalaus‘ með því að ,ofurselja þig lostalífi svo að þú fremjir alls konar siðleysi af græðgi‘. — Efesusbréfið 4:17-19.

      ● Kærustupar, sem sýnir hvort öðru ekki innileg ástaratlot, getur ekki verið ástfangið í raun.

      Rangt. Gagnstætt því sem margir halda styrkja óviðeigandi ástaratlot ekki sambandið. Þvert á móti rífa þau niður gagnkvæma virðingu og traust. Lítum á reynslu Láru. „Dag einn, þegar mamma mín var ekki heima, kom kærasti minn í heimsókn til að horfa á sjónvarpið. Í fyrstu hélt hann bara í höndina mína en síðan fór hann að snerta mig á öðrum stöðum. Ég þorði ekki að segja honum að hætta því að ég var hrædd um að hann myndi reiðast og vilja fara,“ segir hún.

      Hvað finnst þér? Þótti kærasta Láru virkilega vænt um hana eða var hann bara að hugsa um sínar eigin langanir? Ef einhver reynir að fá þig til að gera eitthvað óhreint, elskar hann þig þá í raun og veru?

      Þegar strákur þrýstir á stelpu til að ganga gegn samvisku sinni og kristnum siðferðisreglum brýtur hann lög Guðs og grefur undan þeirri fullyrðingu að hann elski hana einlæglega. Og stelpa, sem gefur fúslega eftir, lætur nota sig. Það sem verra er þá hefur hún framið óhreinan verknað — jafnvel gert sig seka um saurlifnað.b — 1. Korintubréf 6:9, 10.

      Setjið skýr mörk

      Ef þú átt kærasta eða kærustu, hvernig getið þið forðast óviðeigandi ástaratlot? Það er skynsamlegt að setja skýr mörk fyrir fram. Í Orðskviðunum 15:22 segir: „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ Ræðið þess vegna saman um hvað sé viðeigandi. Ef þið bíðið með að setja reglur um þessa hluti þangað til þið eruð í aðstæðum þar sem ástríðurnar geta blossað upp er það eins og að bíða með að setja upp reykskynjara þangað til það kviknar í húsinu.

      Það getur auðvitað verið erfitt að ræða svona viðkvæmt mál — jafnvel vandræðalegt — ekki síst þegar sambandið er rétt að hefjast. En með því að setja skýr mörk um hegðun getið þið komið í veg fyrir að alvarleg vandamál komi upp seinna meir. Skynsamleg mörk geta virkað eins og reykskynjari sem lætur í sér heyra við fyrstu merki elds. Og það hversu vel ykkur gengur að tala um slík mál getur líka gefið ykkur hugmynd um hversu mikil framtíð er í þessu sambandi. Sjálfstjórn, þolinmæði og óeigingirni eru grunnurinn að góðu kynlífi í hjónabandi. — 1. Korintubréf 7:3, 4.

      Það er ekki alltaf auðvelt að fylgja meginreglum Guðs. En þú getur treyst leiðbeiningum hans. Í Jesaja 48:17 segir Jehóva að hann sé sá „sem kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga“. Já, Jehóva vill þér aðeins það besta!

      LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 24 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

      Í NÆSTA KAFLA

      Þú ert ekki afbrigðilegur þótt þú hafir ekki sofið hjá. Þú hefur þvert á móti tekið rétta ákvörðun. Finndu út hvers vegna.

      [Neðanmáls]

      a Sums staðar í heiminum telst það ókurteisi og jafnvel óviðeigandi að kærustupar sýni hvort öðru ástúð á almannafæri. Kristið fólk leggur sig fram um að hegða sér þannig að það hneyksli ekki aðra. — 2. Korintubréf 6:3.

      b Málin, sem hér eru rædd, eiga að sjálfsögðu við um bæði kynin.

      LYKILRITNINGARSTAÐUR

      „Kærleikurinn . . . hegðar sér ekki ósæmilega.“ — 1. Korintubréf 13:4, 5.

      RÁÐ

      Hittist í hópi eða hafið siðgæðisvörð með í för. Forðist varasamar aðstæður, eins og að vera ein í húsi eða íbúð eða kyrrstæðum bíl.

      VISSIRÐU . . . ?

      Ef maður er trúlofaður þarf auðvitað að ræða ýmis viðkvæm mál. En gróft tal, sem ætlað er að vekja kynferðislegar langanir, er ein mynd óhreinleika — líka þótt slíkt eigi sér stað í gegnum síma eða með SMS-skilaboðum.

      HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

      Ég get forðast siðleysi með því að ․․․․․

      Ef kærasti minn eða kærasta reynir að fá mig til að gera eitthvað óhreint ætla ég að ․․․․․

      Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

      HVAÐ FINNST ÞÉR?

      ● Hvar myndirðu draga mörkin varðandi líkamlega snertingu við hitt kynið?

      ● Útskýrðu muninn á frillulífi, óhreinleika og taumleysi.

      [Innskot á blaðsíðu 46]

      „Ég og unnusti minn höfum lesið saman biblíutengdar greinar um hvernig við getum haldið okkur siðferðilega hreinum. Við erum þakklát fyrir það hvernig þær hafa hjálpað okkur að halda samviskunni hreinni.“— Leticia

      [Rammi á bls. 44]

      Hvað ef við höfum gengið of langt?

      Hvað eigið þið að gera ef þið hafið hegðað ykkur ósæmilega? Ekki blekkja sjálf ykkur og halda að þið getið leyst vandann upp á eigin spýtur. „Ég bað til Jehóva: ,Hjálpaðu okkur að gera þetta ekki aftur,‘“ segir unglingur nokkur. „Stundum virkaði það en stundum ekki.“ Talið þess vegna við foreldra ykkar. Í Biblíunni erum við hvött til að kalla til okkar öldunga safnaðarins. (Jakobsbréfið 5:14) Þessir kristnu umsjónarmenn geta gefið ykkur leiðbeiningar, ráð og áminningar þannig að þið getið aftur eignast gott samband við Guð.

      [Myndir á bls. 47]

      Myndirðu bíða með að setja reykskynjara í húsið þitt þangað til það kviknaði í? Þá skuluð þið ekki heldur bíða þangað til ástríðurnar blossa upp áður en þið ákveðið hvar draga eigi mörkin.

  • Af hverju að bíða með kynlíf?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
    • KAFLI 5

      Af hverju að bíða með kynlíf?

      „Ég finn fyrir þrýstingi til að prófa mig áfram með kynlíf.“ — Kelly.

      „Mér finnst eins og ég sé eitthvað skrítinn af því að ég hef ekki stundað kynlíf.“ — Jordon.

      „HEFURÐU aldrei sofið hjá?“ Þegar þú færð þessa spurningu langar þig kannski til að hverfa ofan í jörðina. Á mörgum stöðum er ungt fólk, sem hefur ekki stundað kynlíf, talið vera skrítið og furðulegt. Það kemur því ekki á óvart að svo margir byrji að stunda kynlíf á unglingsaldri.

      Kynhvötin og þrýstingur jafnaldra

      Ef þú ert kristinn veistu að í Biblíunni segir: „Haldið ykkur frá óskírlífi.“ (1. Þessaloníkubréf 4:3) Kannski finnst þér samt erfitt að hafa stjórn á kynhvötinni. „Stundum fer ég að hugsa um kynlíf án þess að það sé nokkur ástæða til,“ viðurkennir Páll. En þú mátt vera viss um að slíkar tilfinningar eru eðlilegar að ákveðnu marki.

      Það er samt ekkert skemmtilegt að verða fyrir sífelldri stríðni og aðkasti vegna þess að maður er skírlífur. Hvað ef jafnaldrar þínir segja til dæmis að þú sért ekki alvöru maður eða kona nema þú hafir sofið hjá? „Jafnaldrarnir láta sem kynlíf sé bæði spennandi og eðlilegt,“ segir Ellen. „Ef maður sefur ekki hjá er maður stimplaður sem skrítinn.“

      En það er önnur hlið á kynlífi fyrir hjónaband sem jafnaldrarnir tala kannski ekki um. María svaf hjá kærastanum sínum og hún segir: „Eftir á leið mér illa og ég skammaðist mín. Ég hataði sjálfa mig og ég hataði kærasta minn.“ Slík reynsla er miklu algengari en margir unglingar gera sér grein fyrir. Raunin er sú að kynlíf fyrir hjónaband er oft tilfinningalega erfið reynsla sem getur haft hræðilegar afleiðingar.

      En stelpa að nafni Shanda spyr: „Hvers vegna hefur Guð gefið unglingum kynhvöt ef þeir eiga ekki að nota hana fyrr en þeir eru giftir?“ Þetta er góð spurning. Skoðum málið nánar:

      Er kynhvötin eina sterka tilfinningin sem þú hefur? Nei, alls ekki. Jehóva Guð skapaði þig með alls konar tilfinningar og þrár.

      Þarftu að fylgja hverri tilfinningu eða hvöt eftir um leið og hún blossar upp? Nei, því að Guð gerði þér líka kleift að hafa stjórn á hegðun þinni.

      Hver er lærdómurinn? Þú getur kannski ekki komið í veg fyrir að sumar tilfinningar vakni en þú getur stjórnað því hvernig þú bregst við þeim. Að svala kynhvötinni í hvert skipti sem hún gerir vart við sig er í rauninni jafn heimskulegt og að lemja einhvern í hvert skipti sem maður reiðist.

      Guð ætlaðist aldrei til þess að við myndum misnota getnaðarmáttinn. „Sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri,“ segir í Biblíunni. (1. Þessaloníkubréf 4:4) „Að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1-8) Sömuleiðis hefur það sinn tíma að fullnægja kynhvötinni og sinn tíma að halda aftur af henni. Þegar allt kemur til alls ert það þú sem stjórnar löngunum þínum!

      En hvað geturðu gert ef einhver stríðir þér og spyr: „Hefurðu í alvöru aldrei sofið hjá?“ Ekki láta það draga úr þér kjarkinn. Ef viðkomandi er að reyna að gera lítið úr þér gætirðu sagt: „Nei, ég hef aldrei sofið hjá, og veistu hvað? Ég er bara mjög ánægð(ur) með það!“ Eða þú gætir sagt: „Það er mitt einkamál sem ég ræði ekki um við aðra.“a (Orðskviðirnir 26:4; Kólossubréfið 4:6) En kannski viltu að sá sem spurði þig fái að vita meira. Þá gætirðu valið að útskýra fyrir honum biblíulega afstöðu þína.

      Dettur þér í hug fleiri svör við spurningunni: „Hefurðu í alvöru aldrei sofið hjá?“ Skrifaðu þau hér fyrir neðan.

      ․․․․․

      Dýrmæt gjöf

      Hvað finnst Guði um það þegar fólk ákveður að stunda kynlíf fyrir hjónaband? Segjum að þú hafir keypt gjöf handa vini þínum. En áður en þú nærð að gefa honum gjöfina hefur hann opnað hana af einskærri forvitni! Yrðir þú ekki sár? Þá geturðu rétt ímyndað þér hvernig Guði liði ef þú myndir sofa hjá fyrir hjónaband. Hann vill að þú bíðir með að njóta þeirrar gjafar sem kynlíf er þangað til þú ert gengin(n) í hjónaband. — 1. Mósebók 1:28.

      Hvað áttu þá að gera í sambandi við kynhvötina? Temdu þér að hafa hemil á henni. Þú hefur styrkinn til þess! Biddu Jehóva um hjálp. Heilagur andi hans getur auðveldað þér að sýna sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Minntu þig á að Jehóva „synjar þeim engra gæða sem ganga í grandvarleik“. (Sálmur 84:12) Ungur maður að nafni Gordon segir: „Þegar ég fer að gæla við þá tilhugsun að kynlíf fyrir hjónaband sé ekki svo slæmt hugleiði ég hvaða slæmu afleiðingar það myndi hafa á trú mína. Og þá skil ég að engin synd er þess virði að skaða samband mitt við Jehóva.“

      Skírlífi er ekki skrítið eða afbrigðilegt. Kynlíf fyrir hjónaband er hins vegar niðurlægjandi, auðmýkjandi og skaðlegt. Láttu þess vegna ekki áróður þessa heims telja þér trú um að það sé eitthvað óeðlilegt við það að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar. Með því að vera skírlífur verndarðu heilsuna, tilfinningalífið og — það sem mestu máli skiptir — sambandið við Guð.

      LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 23 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

      [Neðanmáls]

      a Það er athyglisvert að Jesús ákvað að svara ekki þegar Heródes spurði hann spurninga. (Lúkas 23:8, 9) Stundum er best að bregðast við ósvífnum spurningum með því að þegja.

      LYKILRITNINGARSTAÐUR

      „Ef einhver . . . hefur afráðið í hjarta sínu að varðveita sveindóm sinn, þá gerir hann vel.“ — 1. Korintubréf 7:37, New World Translation.

      RÁÐ

      Forðastu að umgangast þá sem hafa lágt siðferðismat, jafnvel þótt þeir haldi því fram að þeir séu sömu trúar og þú.

      VISSIR ÞÚ . . . ?

      Þeir sem stunda frjálst kynlíf eru ekki líklegir til að breyta venjum sínum þótt þeir giftist. Þeir sem eru trúir siðferðisreglum Guðs fyrir hjónaband eru líklegri til að vera trúir maka sínum.

      HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

      Ef ég ætla ekki að stunda kynlíf fyrir hjónaband verð ég að ․․․․․

      Ef félagar mínir gera mér erfitt fyrir að standa við ákvörðun mína ætla ég að ․․․․․

      Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

      HVAÐ FINNST ÞÉR?

      ● Af hverju heldurðu að sumir geri grín að þeim sem hafa ekki sofið hjá?

      ● Af hverju getur verið erfitt að vera skírlífur?

      ● Hver er ávinningurinn af því að stunda ekki kynlíf fyrir hjónaband?

      ● Hvernig myndirðu útskýra fyrir yngra systkini kosti þess að vera skírlífur?

      [Innskot á blaðsíðu 51]

      „Það sem hjálpar mér að standast kynferðislegar freistingar er að muna alltaf eftir því að ,enginn frillulífismaður eða saurugur á sér arfsvon í ríki Guðs‘.“ (Efesusbréfið 5:5) — Lydia

      [Rammi á bls. 49]

      Vinnublað

      Hvað gerist næst — í raun og veru?

      Jafnaldrar þínir fela oft af ásettu ráði slæmar afleiðingar þess að stunda kynlíf fyrir hjónaband og hið sama má segja um skemmtanaiðnaðinn. Skoðum þrjú dæmi. Hvað heldur þú að myndi gerast næst hjá þessum unglingum — í raun og veru?

      ● Skólafélagi montar sig af því að hafa sofið hjá mörgum stelpum. Hann segir að það sé skemmtilegt og að enginn skaðist. En hvað gerist næst hjá honum og stelpunum — í raun og veru? ․․․․․

      ● Kvikmynd endar á því að ungt ógift par sefur saman til að tjá hvort öðru ást sína. Hvað myndi gerast næst — í raunveruleikanum? ․․․․․

      ● Þú hittir sætan strák sem spyr hvort þú viljir sofa hjá honum. Hann segir að enginn þurfi að komast að því. Ef þú létir til leiðast og reyndir síðan að halda þessu leyndu hvað myndi í alvörunni gerast næst? ․․․․․

      [Mynd á bls. 54]

      Að stunda kynlíf fyrir hjónaband er eins og að opna gjöf áður en búið er að gefa þér hana.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila