-
Sársaukinn við að missa ástvinVaknið! – 2018 | Nr. 3
-
-
HJÁLP FYRIR SYRGJENDUR
Sársaukinn við að missa ástvin
„Við Sophiaa höfðum verið gift í 39 ár þegar hún lést úr langvinnum sjúkdómi. Vinir mínir studdu vel við bakið á mér og ég hélt mér uppteknum. En í heilt ár var ég sárþjáður. Tilfinningarnar voru óútreiknanlegar og síbreytilegar. Þó að nú séu liðin næstum 3 ár síðan hún lést hellist sorgin stundum yfir mig fyrirvaralaust.“ – Kostas.
Ef þú hefur orðið fyrir ástvinamissi hefurðu eflaust svipaða reynslu og Kostas. Fátt veldur meiri streitu og sorg en að missa maka sinn, ættingja eða náinn vin. Sérfræðingar, sem hafa rannsakað sársaukann sem fylgir ástvinamissi, hafa komist að sömu niðurstöðu. Í grein, sem var birt í tímaritinu The American Journal of Psychiatry, segir að „enginn missir sé eins sár og endanlegur og dauðinn“. Sá sem verður fyrir slíkum óbærilegum missi veltir kannski fyrir sér: „Hve lengi á mér eftir að líða svona? Á ég nokkurn tíma eftir að finna til gleði á ný? Hvernig get ég fengið huggun?“
Í þessu tölublaði Vaknið! er rætt um þessar spurningar. Næsta grein fjallar um hverju þú mátt búast við ef þú hefur nýlega misst ástvin. Greinarnar þar á eftir fjalla um hvað þú getur gert til að lina sársaukann sem fylgir sorginni.
Það er einlæg ósk okkar að efni blaðsins veiti þeim sem syrgja huggun og hagnýt ráð.
a Sumum nöfnum í þessari greinaröð hefur verið breytt.
-
-
Við hverju má búast?Vaknið! – 2018 | Nr. 3
-
-
HJÁLP FYRIR SYRGJENDUR
Við hverju má búast?
Hver manneskja syrgir á sinn hátt þó að sumir sérfræðingar tali um sorgarferlið í fyrir fram ákveðnum stigum. Og þó að fólk fylgi ekki fyrir fram ákveðnu sorgarferli, er það ekki endilega að bæla niður tilfinningar sínar eða er minna sorgmætt vegna ásvinamissis. Þrátt fyrir að það geti verið gott fyrir mann að tjá sorgina og loka ekki á hana er ekki hægt að segja að það sé aðeins ein „rétt leið“ til að syrgja. Margt spilar þar inn í, meðal annars bakgrunnur, persónuleiki og lífsreynsla ásamt því hvernig ástvinurinn lést.
HVERSU ERFITT VERÐUR ÞAÐ?
Aðstandendur átta sig ekki alltaf á því sem er í vændum þegar ástvinur deyr. Búast má við ákveðnum erfiðleikum svo sem eftirfarandi:
Tilfinningarnar gagntaka mann. Margir fá grátköst, skapsveiflur eða finna fyrir sárum söknuði. Ljóslifandi minningar og draumar um hinn látna geta komið róti á tilfinningarnar. Fyrstu viðbrögðin eru þó oft áfall og afneitun. Kona að nafni Tiina missti manninn sinn, Timo, skyndilega. Hún lýsir viðbrögðum sínum: „Í fyrstu var ég dofin og gat ekki einu sinni grátið. Ég var svo yfirbuguð af sorg að stundum átti ég erfitt með að anda. Ég gat bara ekki trúað því að þetta hafði gerst.“
Kvíðaköst, reiði og sektarkennd eru algeng. „Eric, sonur okkar, var 24 ára þegar hann dó. Við Yolanda, konan mín, vorum mjög reið í þó nokkurn tíma eftir að hann lést,“ segir Ivan. „Það kom okkur á óvart því að við vorum ekki vön að vera reið. Þar að auki þjakaði sektarkenndin okkur því að við veltum fyrir okkur hvort við hefðum getað gert meira til að hjálpa honum.“ Alejandro, sem missti eiginkonu sína eftir langvarandi veikindi, var líka með samviskubit. Hann segir: „Ég hugsaði sem svo að fyrst Guð leyfði að ég fyndi til svona mikillar sorgar hlyti ég að vera vond manneskja. En svo leið mér illa yfir því að kenna Guði um það sem hafði gerst.“ Kostas, sem rætt var um í síðustu grein, segir: „Ég var stundum reiður út í Sophiu fyrir að hafa dáið. En svo fékk ég samviskubit. Auðvitað var þetta ekki henni að kenna.“
Erfitt að stjórna huganum. Hugsanir manns geta af og til orðið órökréttar eða stefnulausar. Til dæmis getur syrgjandi haldið sig finna fyrir, sjá eða heyra í hinum látna. Sumum finnst erfitt að einbeita sér eða verða gleymnir. Tiina segir: „Stundum var ég í samræðum við fólk en hugurinn var víðs fjarri. Ég var á fullu að hugsa um allt sem tengdist dauða Timos. Ég gat ekki einbeitt mér og það eitt og sér var farið að valda mér streitu.“
Að einangra sig. Þeim sem syrgir getur fundist óþægilegt eða jafnvel ergilegt að vera innan um aðra. Kostas segir: „Mér leið eins og ég væri fimmta hjólið undir vagni þegar ég var með vinahjónum mínum. En mér fannst ég ekki heldur falla í hópinn með einhleypu fólki.“ Yolanda, kona Ivans, rifjar upp sína reynslu: „Það var svo erfitt að vera innan um fólk sem kvartaði yfir vandamálum sínum sem voru smávægileg í samanburði við okkar. Þar að auki sögðu sumir okkur frá því hversu vel gengi hjá krökkunum sínum. Ég samgladdist þeim en átti jafnframt erfitt með að hlusta á þá. Við hjónin skildum að lífið heldur áfram en við höfðum bara ekki þolinmæði eða nokkra löngun til að taka þátt í slíkum samræðum.“
Heilsuleysi. Aukin eða minnkandi matarlyst, líkamsþyngd eða svefn eru algeng vandamál. Aaron rifjar upp árið eftir að hann missti föður sinn: „Ég átti mjög erfitt með svefn. Ég vaknaði upp á sama tíma á hverri nóttu við hugsanir um dauða pabba míns.“
Alejandro segist hafa fundið fyrir óútskýranlegum kvillum. Hann segir: „Ég fór nokkrum sinnum í læknisskoðun og fékk að vita að það væri ekkert að mér. Ég hugsaði að sjúkdómseinkennin væru út af sorginni.“ Þessir kvillar hurfu á endanum. Það var þó skynsamlegt af Alejandro að leita læknis. Sorgin getur veikt ónæmiskerfið, aukið á undirliggjandi heilsuvandamál eða búið til ný.
Erfitt að sinna nauðsynlegum verkum. Ivan segir: „Við þurftum að tilkynna ættingjum og vinum andlát Erics en líka ýmsum öðrum, eins og yfirmanni hans og leigusala. Þar að auki þurfti að fylla út ýmis skjöl. Og síðan þurftum við að fara í gegnum dótið hans. Allt þetta útheimti einbeitingu en á þessum tíma vorum við andlega, líkamlega og tilfinningalega úrvinda.“
Fyrir suma er erfiðasti hjallinn að sinna verkum sem ástvinur þeirra var vanur að sinna. Þannig var það hjá Tiinu. Hún segir: „Timo var vanur að sjá um reikningana og fjármálin. En nú var þetta mín ábyrgð og jók enn frekar á álagið sem var á mér. Ég efaðist um að ég gæti gert þetta sjálf svo vel færi.“
Ofantaldir erfiðleikar – andlegir, tilfinningalegir og líkamlegir – sýna að erfitt getur verið að komast yfir sorgina. Sársaukinn, sem fylgir ástvinamissi, getur verið mikill en að vita af því fyrir fram getur hjálpað syrgjendum að komast í gegnum hann. Mundu þó að það fara ekki allir í gegnum alla þessa erfiðleika þegar þeir syrgja. Það er huggun í því að vita að þessar sterku tilfinningar, sem fylgja sorginni, eru ekkert óeðlilegar.
VERÐ ÉG NOKKURN TÍMA HAMINGJUSAMUR AFTUR?
Við hverju má búast? Sársaukinn af missinum verður ekki alltaf eins mikill, og með tímanum fer hann að dvína. Það er ekki þar með sagt að maður nái sér einhvern tíma að fullu eða gleymi hinum látna. Hins vegar sleppir sorgin sárasta takinu smám saman. Þó geta minningar og sérstök tímamót vakið upp sorgina aftur af og til. En þó ná flestir aftur jafnvægi að lokum og geta haldið áfram að lifa eðlilegu lífi. Það á ekki síst við um þá sem hafa stuðning frá fjölskyldu eða vinum og gera sitt besta til þess að vinna úr sorginni.
Hversu langan tíma tekur það? Hjá sumum er það erfiðasta yfirstaðið eftir nokkra mánuði. Mörgum fer að líða betur eftir eitt til tvö ár. Aðrir þurfa enn lengri tíma.a Alejandro segir: „Ég fann fyrir djúpri sorg í um það bil þrjú ár.“
Vertu þolinmóður. Taktu einn dag í einu, gefðu þér þann tíma sem þú þarft og mundu að sorgin verður ekki alltaf eins þung. En geturðu gert eitthvað til þess að lina sorgina núna og jafnvel komið í veg fyrir að hún verði langvarandi?
Þær sterku tilfinningar, sem fylgja sorginni, eru ekki óeðlilegar.
a Einstaka syrgjandi finnur fyrir svo þungri sorg sem varir svo lengi að hún er stundum skilgreind sem flókin sorg. Þeir sem kljást við hana gætu þurft að fá aðstoð hjá sérfræðingum á geðheilbrigðissviði.
-
-
Að vinna úr sorginni – það sem þú getur gert núnaVaknið! – 2018 | Nr. 3
-
-
HJÁLP FYRIR SYRGJENDUR
Að vinna úr sorginni það sem þú getur gert núna
Ef þú leitar ráða um hvernig hægt sé að takast á við sorg finnurðu eflaust ótal hugmyndir, sumar gagnlegri en aðrar. Kannski er það vegna þess að allir syrgja á sinn hátt, eins og rætt var um áður. Það sem virkar fyrir einn virkar kannski ekki fyrir einhvern annan.
En þó eru nokkur grundvallaratriði sem hafa hjálpað mörgum. Sálfræðingar vitna oft í þau og þau enduróma sígildar meginreglur í gamalli bók, Biblíunni.
1: ÞIGGÐU STUÐNING FRÁ FJÖLSKYLDU OG VINUM
Sumir sérfræðingar telja að þetta gegni lykilhlutverki í að komast í gegnum sorgina. En stundum langar þig kannski að vera í einrúmi. Þú gætir jafnvel orðið pirraður út í þá sem reyna að hjálpa þér. Það er ekkert óeðlilegt.
Ekki finnast þú þurfa að vera í kringum aðra öllum stundum, en ekki ýta þeim alveg frá þér heldur. Þú þarft eflaust á stuðningi þeirra að halda seinna. Segðu öðrum vingjarnlega frá því hvers þú þarfnast þá stundina og líka hvers þú þarfnast ekki.
Finndu jafnvægi milli tíma með öðrum og tíma í einrúmi eftir því sem þú þarfnast.
MEGINREGLA: „Betri eru tveir en einn ... Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur.“ – Prédikarinn 4:9, 10.
2: HUGSAÐU UM MATARÆÐIÐ OG HREYFÐU ÞIG REGLULEGA
Gott mataræði getur hjálpað þér að takast á við álagið sem fylgir sorginni. Reyndu að borða margs konar ávexti, grænmeti og magurt prótín.
Drekktu nóg af vatni og öðrum hollum drykkjum.
Borðaðu oft og í litlum skömmtum ef þú hefur litla matarlyst. Þú gætir einnig spurt lækninn þinn um fæðubótarefni.a
Að ganga rösklega eða að gera aðrar æfingar getur dregið úr neikvæðum tilfinningum. Æfingar geta gefið þér tíma til að hugleiða missinn eða leiða hugann að einhverju öðru.
MEGINREGLA: „Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast.“ – Efesusbréfið 5:29.
3: FÁÐU NÆGAN SVEFN
Svefn er alltaf mikilvægur. Hann er þó sérstaklega mikilvægur fyrir þá sem syrgja þar sem sorg gerir mann oft úrvinda.
Gættu þess að neyta ekki of mikils af koffíni og áfengi vegna þess að það getur truflað svefninn.
MEGINREGLA: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ – Prédikarinn 4:6.
4: VERTU SVEIGJANLEGUR
Mundu að allir syrgja á sinn hátt. Þú þarft að átta þig á hvað hentar best fyrir þig.
Mörgum finnst hjálp í því að tala um sorgina við aðra en sumir kjósa að tjá hana ekki. Sérfræðingar hafa skiptar skoðanir á hvort nauðsynlegt sé að tjá tilfinningar sínar til að vinna úr sorginni. Ef þú hefur þörf á að segja einhverjum frá tilfinningum þínum en ert hikandi er kannski best fyrir þig að byrja smátt og opna þig fyrir nánum vini.
Sumum finnst það hjálpa sér að gráta en aðrir virðast geta unnið úr sorginni þó að þeir gráti minna.
MEGINREGLA: „Hjartað eitt þekkir kvöl sína.“ – Orðskviðirnir 14:10.
5: FORÐASTU SKAÐLEGA ÁVANA
Sumir syrgjendur reyna að lina sársaukann með því að neyta fíkniefna eða misnota áfengi eða lyf. Slík „flóttaleið“ kemur aðeins til með að skaða þig. Maður kann að finna fyrir ákveðnum létti en hann er skammvinnur og hefur mjög neikvæðar afleiðingar. Notaðu ekki skaðlegar leiðir til að sefa sorgina.
MEGINREGLA: „Hreinsum okkur af allri saurgun.“ – 2. Korintubréf 7:1.
6: NOTAÐU TÍMA ÞINN VEL
Mörgum finnst gagnlegt að gefa sér bæði tíma til að syrgja (að takast á við tilfinningarnar) og tíma fyrir stutta hvíld (að gera eitthvað sem dregur hugann tímabundið frá sorginni).
Þú finnur eflaust fyrir ákveðnum létti með því að styrkja vináttubönd eða mynda ný, læra eitthvað nýtt eða njóta afþreyingar.
Með tímanum tekurðu eflaust lengur og oftar hvíld frá því að syrgja og kemst í betra jafnvægi. Það er allt hluti af bataferlinu.
MEGINREGLA: „Öllu er afmörkuð stund ... að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma.“ – Prédikarinn 3:1, 4.
7: HAFÐU GÓÐAR VENJUR
Byrjaðu aftur á þínum daglegu venjum eins fljótt og hægt er.
Þegar svefninn, vinnan og annað er komið í jafnvægi finnurðu að lífið er farið að ganga sinn vanagang.
Að vera upptekinn við eitthvað jákvætt getur hjálpað þér að lina sársaukann.
MEGINREGLA: „Slíkur maður hugsar ekki mikið um ævidaga lífs síns meðan Guð fær honum nóg að sýsla við fögnuð hjarta síns.“ – Prédikarinn 5:19.
8: TAKTU EKKI STÓRAR ÁKVARÐANIR OF SNEMMA
Margir sem taka stórar ákvarðanir fljótlega eftir að þeir missa ástvin sinn sjá síðar eftir því.
Ekki ana út í stórar breytingar eins og að flytja, skipta um vinnu eða losa þig við eigur hins látna.
MEGINREGLA: „Áform hins iðjusama færa arð en hroðvirkni endar í örbirgð.“ – Orðskviðirnir 21:5.
9: MUNDU EFTIR ÁSTVINI ÞÍNUM
Mörgum syrgjendum finnst það hjálpa sér að gera eitthvað til að halda í minningu hins látna.
Þú finnur kannski huggun í því að safna myndum eða hlutum sem minna þig á ástvin þinn, eða að halda dagbók um atburði og sögur sem þú vilt muna.
Geymdu hluti sem vekja góðar minningar og skoðaðu þá síðar þegar þér finnst þú tilbúinn.
MEGINREGLA: „Minnstu fyrri tíða.“ – 5. Mósebók 32:7.
10: FARÐU Í FRÍ
Þú gætir hugsanlega farið í ferðalag.
Ef þú hefur ekki tök á að fara í langt ferðalag gætirðu kannski gert þér dagamun með því að fara í gönguferð, á safn eða í langan bíltúr.
Það getur hjálpað þér að takast á við sorgina að brjóta aðeins upp dagskrána.
MEGINREGLA: „Komið nú á óbyggðan stað, svo að við séum einir saman, og hvílist um stund.“ – Markús 6:31.
11: AÐSTOÐAÐU AÐRA
Mundu að þegar þú hjálpar öðrum er mjög líklegt að þér líði einnig betur.
Þú gætir byrjað á því að aðstoða aðra sem syrgja einnig ástvin þinn og þarfnast einhvers sem skilur þá og hvað þeir eru að ganga í gegnum.
Að styðja og hugga aðra getur veitt þér gleði á ný og látið þér finnast þú hafa tilgang að nýju.
MEGINREGLA: „Sælla er að gefa en þiggja.“ – Postulasagan 20:35.
12: FORGANGSRAÐAÐU UPP Á NÝTT
Sorgin getur leitt til þess að þú sjáir betur hvað skiptir mestu máli.
Notaðu þessa reynslu til að endurmeta hvernig þú notar líf þitt.
Breyttu forgangsröðun þinni eftir þörfum.
MEGINREGLA: „Betra er að ganga í sorgarhús en að ganga í veislusal því að það eru endalok sérhvers manns og sá sem lifir hugfestir það.“ – Prédikarinn 7:2.
Að sjálfsögðu tekur ekkert sársaukann alveg í burtu. En margir sem hafa misst ástvin segja að það hafi veitt þeim huggun að fylgja þeim atriðum sem rætt hefur verið um í þessari grein. Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi yfir allt sem getur hjálpað til við að lina sorgina. En ef þú reynir að fara eftir einhverjum af þessum tillögum gætirðu fundið fyrir ákveðnum létti.
a Vaknið! mælir ekki með neinni ákveðinni læknismeðferð.
-
-
Besta hjálpin fyrir syrgjendurVaknið! – 2018 | Nr. 3
-
-
HJÁLP FYRIR SYRGJENDUR
Besta hjálpin fyrir syrgjendur
MARGAR RANNSÓKNIR HAFA VERIÐ GERÐAR UNDANFARIN ÁR UM ÁSTVINAMISSI OG SÁRSAUKANN SEM FYLGIR HONUM. En eins og við höfum séð eru bestu ráð sérfræðinga oft í samræmi við forna speki sem er að finna í Biblíunni. Það sýnir vel hversu sígildar leiðbeiningar Biblíunnar eru. Biblían hefur þó að geyma meira en áreiðanleg ráð. Í henni eru upplýsingar sem hvergi er annars staðar að finna og geta veitt syrgjendum ómetanlega huggun.
Fullvissa um að látnir ástvinir okkar þjáist ekki
„Hinir dauðu vita ekki neitt,“ segir Biblían í Prédikaranum 9:5. „Áform þeirra verða að engu.“ (Sálmur 146:4) Biblían líkir dauðanum við friðsælan svefn. – Jóhannes 11:11.
Það er huggun í því að trúa á ástríkan Guð
Í Sálmi 34:16 í Biblíunni segir: „Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ Þegar við tjáum tilfinningar okkar í bæn til Guðs gerum við meira en að létta á hjartanu og ná tökum á hugsunum okkar. Við myndum sterkt samband við skaparann sem notar mátt sinn til að hugga okkur.
Bjartari framtíð í vændum
Sjáðu fyrir þér tímann þegar hinir látnu verða reistir upp til lífs hér á jörðinni. Biblían talar margoft um þann tíma. Hún lýsir hvernig ástandið á jörðinni verður þá og segir að Guð muni „þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ – Opinberunarbókin 21:3, 4.
Margir sem trúa á Jehóvaa Guð fá aukinn styrk til þess að takast á við sorgina vegna þess að þeir eiga von um að sjá látna ástvini sína á ný. Til dæmis segir Ann sem missti manninn sinn eftir 65 ára hjónaband: „Biblían gefur mér fullvissu um að látnir ástvinir okkar þjáist ekki og að Guð muni reisa upp alla þá sem hann geymir í minni sínu. Þegar hugsanir um missinn herja á mig beini ég huganum að voninni og þannig fæ ég styrk til þess að takast á við það erfiðasta sem ég hef upplifað á ævinni.“
Tiina, sem vitnað var í fyrr í þessu blaði, segir: „Ég hef fundið fyrir stuðningi Guðs allt frá því að Timo dó. Jehóva hefur svo sannarlega rétt mér hjálparhönd í erfiðleikum mínum. Ég er í engum vafa um að loforð Biblíunnar varðandi upprisuna rætist. Það veitir mér styrk til þess að halda út þar til ég hitti Timo aftur.“
Skoðanir þeirra enduróma skoðanir milljóna annarra sem eru sannfærðir um áreiðanleika Biblíunnar. Jafnvel þó að þér finnist fullyrðingar Biblíunnar óraunhæfar eða tóm óskhyggja ættirðu að kynna þér hvort ráð hennar og loforð séu áreiðanleg. Kannski kemstu á þá skoðun að Biblían sé besta hjálpin fyrir syrgjendur.
NÁNARI UPPLÝSINGAR UM ÞÁ VON AÐ SJÁ LÁTNA ÁSTVINI AFTUR.
Leitaðu að myndskeiðum um þetta málefni á jw.org/is.
Biblían lofar framtíð þar sem við munum taka á móti ástvinum sem hafa dáið.
Hvað verður um okkur þegar við deyjum? Skýrt svar Biblíunnar veitir huggun og von.
VILTU HEYRA GLEÐIFRÉTTIR?
Hvar má finna góðar fréttir þar sem svo mikið er um slæmar fréttir?
Sjá BIBLÍAN OG LÍFIÐ > FRIÐUR OG HAMINGJA.
a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.
-