Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Samviskan — Byrði eða blessun?
    Varðturninn – 1997 | 1. september
    • okkur, en þegar við tökum mark á henni getur hún líka veitt okkur djúpa fullnægjukennd og innri frið. Hún getur leiðbeint okkur, verndað og hvatt. The Interpreter’s Bible segir: „Eina leiðin fyrir manninn til að vernda tilfinninga- og geðheilsu sína er sú að reyna að brúa bilið milli þess sem hann gerir og þess sem honum finnst hann eigi að gera.“ Hvernig getum við brúað þetta bil? Er hægt að móta og þjálfa samviskuna? Þessar spurningar eru ræddar í næstu grein.

  • Að Þjálfa samviskuna
    Varðturninn – 1997 | 1. september
    • Að Þjálfa samviskuna

      „HREIN samviska er besti koddinn.“ Þetta gamla máltæki dregur fram mikilvæga staðreynd: Þegar við hlýðum rödd samviskunnar njótum við innri friðar.

      En ekki vilja allir gera það. Adolf Hitler lýsti yfir að það væri ætlunarverk sitt að frelsa manninn úr fjötrum hinnar auvirðandi ímyndunar sem kallaðist samviska. Ógnarstjórn hans veitir okkur óhugnanlega innsýn í það hve grimmur maðurinn getur verið þegar hann afneitar samviskunni. En margir ofbeldisglæpamenn nútímans eru jafnmiskunnarlausir — menn sem nauðga og myrða með köldu blóði. Æ fleiri þessara ódæðismanna eru mjög ungir. Bók, sem fjallaði um þessa þróun, bar þar af leiðandi undirtitilinn Children Without a Conscience eða „Börn án samvisku.“

      Enda þótt fæstum komi nokkurn tíma í hug að fremja ofbeldisglæp hafa margir ekkert samviskubit af siðlausu kynlífi, lygum eða svikum. Siðferði er á undanhaldi um heim allan. Páll postuli skrifaði um mikið fráhvarf frá sannri tilbeiðslu og sagði að sumir kristnir menn myndu láta undan áhrifum heimsins og verða „brennimerktir á samvisku sinni.“ (1. Tímóteusarbréf 4:2) Spillingarhættan er enn meiri núna á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Kristnir menn verða því að leggja sig alla fram um að vernda samvisku sína. Það er hægt með því að þjálfa hana og þroska.

      Hugur, hjarta og samviska

      Páll postuli sagði: „Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda.“ (Rómverjabréfið 9:1) Samviskan getur því borið vitni. Hún getur rannsakað ákveðið hátterni og annaðhvort lagt blessun sína yfir það eða fordæmt það. Skynbragð okkar á rétt og rangt er að stórum hluta áskapað af Guði, en engu að síður er hægt að móta og þjálfa samviskuna. Hvernig? Með því að tileinka sér nákvæma þekkingu frá orði Guðs. „Takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna,“ segir Páll postuli. (Rómverjabréfið 12:2) Þegar þú innprentar sjálfum þér viðhorf Guðs og vilja fer samviskan að starfa á guðrækilegri hátt.

      Vottar Jehóva hafa hjálpað milljónum manna um heim allan að ‚þekkja Jehóva Guð og Jesú Krist.‘ (Jóhannes 17:3) Með ókeypis heimabiblíunámskeiðum kenna þeir hjartahreinu fólki staðla Jehóva Guðs um kynlíf, áfengi, hjónaband, viðskipti og fjöldamargt annað.a (Orðskviðirnir 11:1; Markús 10:6-12; 1. Korintubréf 6:9, 10; Efesusbréfið 5:28-33) Að afla sér þessarar nákvæmu ‚þekkingar‘ er mikilvægt skref í þá átt að þroska með sér guðrækilega samvisku. (Filippíbréfið 1:9) Eftir að kristinn maður hefur öðlast nákvæman skilning á Biblíunni verður hann auðvitað að halda áfram að næra hugann reglulega á henni til að varðveita heilbrigða samvisku. — Sálmur 1:1-3.

      Biblían tengir samviskuna einnig við hið táknræna hjarta sem felur í sér kenndir okkar og tilfinningar. (Rómverjabréfið 2:15) Hugur og hjarta þurfa að vinna saman ef samviskan á að starfa rétt. Það er meira en aðeins að viða að sér upplýsingum. Maður verður líka að móta hjartað — innstu tilfinningar sínar, langanir og þrár. Orðskviðirnir tala þannig um að ‚hneigja hjarta sitt‘ og ‚stýra hjarta sínu.‘ (Orðskviðirnir 2:2; 23:19) Ein leiðin til þess er sú að hugleiða og ígrunda Ritninguna. „Ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín,“ segir Sálmur 77:13. Íhugun hjálpar okkur að ná til innstu tilfinninga okkar og hvata.

      Tökum dæmi: Setjum sem svo að þú sért ánetjaður óhreinum ávana eins og tóbaksnotkun. Líkt og flestum er þér eflaust fullljóst að reykingar eru heilsuspillandi. En þrátt fyrir hvatningu vina og ættingja áttu erfitt með að hætta. Hvernig gætirðu styrkt samviskuna á þessu sviði með því að íhuga boðskap Biblíunnar?

      Reyndu til dæmis að íhuga orð Páls postula í 2. Korintubréfi 7:1: „Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ Áttaðu þig á merkingu þessara orða. Spyrðu þig: ‚Hver eru eiginlega „þessi fyrirheit“ sem Páll talar um?‘ Ef þú lest samhengið kemstu að raun um að í versunum á undan stendur: „Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég [Jehóva] mun taka yður að mér og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir [Jehóva] alvaldur.“ — 2. Korintubréf 6:17, 18.

      Fyrirskipun Páls um að ‚hreinsa sig af allri saurgun‘ hefur nú fengið aukið vægi! Guð gefur okkur sterka hvatningu til þess þegar hann lofar að ‚taka okkur að sér,‘ það er að segja að taka okkur undir verndarvæng sinn. Þú gætir spurt þig hvort þú myndir njóta þess að eiga náið samband við hann — líkt og sonur eða dóttir við föður sinn. Er það ekki mjög aðlaðandi hugmynd að vitur, kærleiksríkur Guð ‚taki okkur að sér‘? Ef þér finnst hugmyndin framandi skaltu virða fyrir þér hvernig ástríkir feður tjá börnum sínum ást og umhyggju. Ímyndaðu þér nú að slík tengsl séu milli þín og Jehóva! Því meir sem þú íhugar það, þeim mun sterkari verður löngunin í slíkt samband.

      En taktu eftir einu: Náið samband við Guð er því aðeins mögulegt að þú ‚snertir ekki neitt óhreint.‘ Spyrðu þig: ‚Er ekki tóbaksfíknin eitt af því „óhreina“ sem Guð fordæmir? Er tóbaksnotkun „saurgun á líkamanum“ sem stofnar heilsu minni í voða á marga vegu? Fyrst Jehóva er hreinn eða „heilagur“ Guð, getur hann þá haft velþóknun á því að ég saurgi mig vísvitandi með þessum hætti?‘ (1. Pétursbréf 1:15, 16) Taktu eftir að Páll varar líka við ‚saurgun á sál‘ eða tilhneigingum okkar. Spyrðu þig hvort þessi fíkn ráði yfir hugsun þinni. Leggurðu mikið á þig til að fullnægja fíkninni, kannski svo mikið að þú hættir heilsunni, fjölskyldunni eða jafnvel stöðu þinni frammi fyrir Guði? Í hvaða mæli hefurðu leyft tóbaksfíkninni að spilla lífi þínu? Þessar óþægilegu spurningar geta hæglega gefið þér hugrekki til að hætta!

      Auðvitað getur verið að þú þarfnist hjálpar og stuðnings annarra til að sigrast á tóbaksfíkninni. En með því að hugleiða Biblíuna geturðu gert margt til að styrkja samvisku þína svo að þú losir þig við fíknina.

      Þegar við gerum rangt

      Þótt við leggjum okkur alla fram um að gera það sem rétt er nær ófullkomleikinn stundum yfirhöndinni svo að okkur verður á. Þá fer samviskan að naga okkur en það er freistandi að reyna að þagga niður í henni. Kannski verðum við svo kjarklítil að við viljum allra helst gefast upp á að þjóna Guði. En mundu eftir Davíð konungi. Samviskan sló hann eftir að hann hafði drýgt hór með Batsebu. Hann lýsir kvöl sinni þannig: „Dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju.“ (Sálmur 32:4) Kvaldist hann? Svo sannarlega. En þessi hryggð Guði að skapi kom Davíð til að iðrast og sættast við Guð. (Samanber 2. Korintubréf 7:10.) Ákafar bænir Davíðs um fyrirgefningu bera ríkulega vitni um einlæga iðrun hans. Þar eð Davíð hlýddi samviskunni fékk hann hjálp til að breyta sér og endurheimta að lokum gleði sína. — Sálmur 51.

      Hið sama getur gerst núna. Sumir stunduðu biblíunám með hjálp votta Jehóva einhvern tíma en hættu þegar þeir komust að raun um að líf þeirra samræmdist ekki háum stöðlum Guðs. Kannski voru þeir í óvígðri sambúð eða í fjötrum óhreinna ávana. Samviskan kvaldi þá.

      Ef þú ert í þessari aðstöðu skaltu hugleiða orð Péturs postula á hvítasunnudeginum. Þegar hann afhjúpaði syndir samlanda sinna, Gyðinganna, „var sem stungið væri í hjörtu þeirra.“ En í stað þess að gefast upp hlýddu þeir ráði Péturs um að iðrast og öðluðust þannig hylli Guðs. (Postulasagan 2:37-41) Þú getur gert það líka. Í stað þess að yfirgefa Jehóva og skipulag hans vegna þess að samviskan þjakar þig skaltu láta hana knýja þig til að ‚gera iðrun og snúa þér.‘ (Postulasagan 3:19) Með einbeitni og áreynslu geturðu gert þær breytingar sem þarf til að öðlast hylli Guðs.

      „Hafið góða samvisku“

      Hvort sem þú ert rétt að byrja að læra um kröfur Jehóva eða átt að baki margra ára reynslu sem þroskaður kristinn maður er hvatning Péturs við hæfi: „Hafið góða samvisku.“ (1. Pétursbréf 3:16) Það er blessun, ekki byrði. Þjálfaðu samviskuna með því að næra huga og hjarta á viskunni í orði Guðs, Biblíunni. Hlýddu rödd hennar þegar hún varar þig við. Njóttu þess hugarfriðar sem fylgir því að hlýða samviskunni.

      Vissulega er ekki hlaupið að því að þjálfa og móta samviskuna, en þú getur beðið Jehóva Guð um aðstoð. Með hjálp hans getur þú þjónað honum með „góðri samvisku og hræsnislausri trú.“ — 1. Tímóteusarbréf 1:5.

      [Neðanmáls]

      a Þér er velkomið að hafa samband við næsta söfnuð votta Jehóva eða skrifa útgefendum þessa tímarits ef þú hefur áhuga á ókeypis heimabiblíunámskeiði.

      [Mynd á blaðsíðu 6]

      Við þjálfum samviskuna meðal annars með því að lesa orð Guðs og hugleiða það.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila