Geturðu treyst samviskunni?
ÁTTAVITI er að jafnaði áreiðanlegur vegvísir. Nálin stillir sig af eftir segulsviði jarðar og bendir alltaf í norður. Ferðalangar geta treyst á áttavitann þegar þeir hafa engin kennileiti til glöggvunar. En hvað gerist ef segull er lagður nálægt áttavitanum? Þá sveiflast nálin í átt að seglinum í stað þess að vísa í norður. Nú er ekki lengur hægt að treysta áttavitanum.
Eitthvað svipað getur gerst í sambandi við samvisku mannsins. Skaparinn gaf okkur þessa gáfu og hún átti að vera áreiðanlegur leiðarvísir. Þar eð við erum gerð í Guðs mynd ætti samviskan alltaf að vísa okkur í rétta átt þegar við þurfum að taka ákvarðanir. Hún ætti að fá okkur til að endurspegla siðgæðisstaðla Guðs. (1. Mósebók 1:27) Oft gerir hún það. Páll postuli sagði að sumir ‚gerðu að eðlisboði það sem lögmálið byði‘ þótt þeir hefðu ekki opinberað lögmál Guðs til leiðsagnar. Af hverju? Af því að „samviska þeirra ber þessu vitni.“ — Rómverjabréfið 2:14, 15.
En samviskan lætur ekki alltaf í sér heyra þegar hún ætti að gera það. Vegna ófullkomleikans höfum við tilhneigingu til að gera ýmislegt sem við vitum að er rangt. „Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs,“ viðurkenndi Páll, „en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“ (Rómverjabréfið 7:22, 23) Ef við látum nógu oft undan röngum tilhneigingum getur samviskan smám saman sljóvgast. Að lokum hættir hún að segja okkur að slík breytni sé röng.
En þrátt fyrir ófullkomleikann getum við stillt samviskuna eftir mælikvarða Guðs. Það er raunar mjög mikilvægt að gera það. Hrein og vel þjálfuð samviska stuðlar bæði að nánu einkasambandi við Guð og er auk þess nauðsynleg til að við hljótum hjálpræði. (Hebreabréfið 10:22, Biblían 1912; 1. Pétursbréf 1:15, 16) Og góð samviska hjálpar okkur að taka viturlegar ákvarðanir í lífinu sem stuðla að friði og hamingju. Sálmaritarinn sagði um þann sem býr yfir slíkri samvisku: „Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.“ — Sálmur 37:31.
Þjálfun samviskunnar
Þjálfun samviskunnar byggist á fleiru en því að leggja á minnið runu af lagaákvæðum og fylgja þeim í þaula. Farísearnir á dögum Jesú gerðu það. Þeir þekktu lögmálið og höfðu byggt upp smásmugulegt erfðavenjusafn sem átti víst að hjálpa fólki að brjóta ekki gegn lögmálinu. Þess vegna mótmæltu þeir þegar lærisveinar Jesú tíndu korn á hvíldardegi og átu. Og þeir risu gegn Jesú þegar hann læknaði mann með visna hönd á hvíldardegi. (Matteus 12:1, 2, 9, 10) Hvort tveggja var brot á fjórða boðorðinu samkvæmt erfðavenju farísea. — 2. Mósebók 20:8-11.
Farísearnir voru greinilega vel að sér í lögmálinu. En var samviska þeirra stillt eftir stöðlum Guðs? Greinilega ekki. Rétt eftir að þeir höfðu býsnast yfir hneykslanlegu broti á hvíldardagsákvæðunum, að því er þeim fannst, tóku þeir saman ráð sín gegn Jesú „hvernig þeir gætu náð lífi hans.“ (Matteus 12:14) Hugsaðu þér! Þessir sjálfbirgingslegu trúarleiðtogar voru æfir yfir því að menn skyldu voga sér að borða nýtínt korn og lækna á hvíldardegi, en þeim flökraði ekki við að leggja á ráðin um að drepa Jesú!
Yfirprestarnir voru jafnspilltir og brenglaðir í hugsun. Þeir höfðu ekki minnsta samviskubit út af því að bjóða Júdasi 30 silfurpeninga úr sjóði musterisins fyrir að svíkja Jesú. En þegar Júdas skilaði peningunum óvænt með því að kasta þeim inn í musterið lentu yfirprestarnir í lagalegri klemmu sem angraði samvisku þeirra. „Ekki má láta það [féð] í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar,“ sögðu þeir. (Matteus 27:3-6) Yfirprestarnir höfðu greinilega áhyggjur af því að peningar Júdasar væru orðnir óhreinir. (Samanber 5. Mósebók 23:18.) En þessir sömu menn sáu ekkert rangt við það að kaupa mann til að svíkja son Guðs!
Að vera samstilltur viðhorfum Guðs
Dæmin hér á undan sýna að þjálfun samviskunnar felst í fleiru en því að fylla hugann af boðum og bönnum. Auðvitað er það grundvallaratriði að þekkja lög Guðs og nauðsynlegt að hlýða þeim til að hljóta hjálpræði. (Sálmur 19:8-12) En auk þess að læra lög Guðs verðum við að samstilla hjarta okkar viðhorfum hans. Þá finnum við spádóm Jehóva fyrir munn Jesaja rætast á okkur: „Augu þín [munu] líta hann [sem kennir þér], og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ — Jesaja 30:20, 21; 48:17.
Þetta merkir auðvitað ekki að við heyrum bókstaflega rödd sem segir okkur hvað við eigum að gera þegar við þurfum að taka alvarlega ákvörðun. En þegar hugsun okkar er samstillt viðhorfum Guðs getur samviskan hjálpað okkur að taka ákvarðanir sem eru honum þóknanlegar. — Orðskviðirnir 27:11.
Tökum Jósef sem dæmi en hann var uppi á 18. öld fyrir okkar tímatal. Þegar eiginkona Pótífars reyndi að fá hann til að drýgja hór með sér neitaði hann og sagði: „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ (1. Mósebók 39:9) Á dögum Jósefs voru engin skráð lög frá Guði sem fordæmdu hórdóm. Og Jósef bjó í Egyptalandi, fjarri fjölskylduaga og ættfeðrareglum. Hvernig gat hann þá staðist freistinguna? Samviska hans var einfaldlega vel þjálfuð. Hann tileinkaði sér það viðhorf Guðs að hjón ættu að vera „eitt hold.“ (1. Mósebók 2:24) Hann gerði sér því ljóst að það væri rangt að eiga mök við konu annars manns. Hugsun Jósefs fór saman við viðhorf Guðs til málsins. Hórdómur stríddi gegn siðferðisvitund hans.
Fáir hugsa eins og Jósef nú til dags. Siðleysi er gríðarlegt og margir finna ekki til ábyrgðar gagnvart skapara sínum, sjálfum sér eða jafnvel maka sínum til að halda sér siðferðilega hreinum. Ástandið er mjög áþekkt því sem lýst er í Jeremíabók: „Enginn iðrast illsku sinnar, svo að hann segi: ‚Hvað hefi ég gjört?‘ Allir hafa þeir gjörst fráhverfir í rásinni, eins og hestur, sem ryðst áfram í orustu.“ (Jeremía 8:6) Það er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að vera samstilltur viðhorfum Guðs, og okkur stendur til boða afbragðshjálp til þess.
Hjálp til að þjálfa samviskuna
Hin innblásna Biblía er „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Nám í Biblíunni hjálpar okkur að þjálfa það sem hún kallar „skilningarvitin“ svo að við getum greint rétt frá röngu. (Hebreabréfið 5:14) Það þroskar með okkur ást á því sem Guð elskar og andstyggð á því sem hann hatar. — Sálmur 97:10; 139:21.
Markmið biblíunáms er því að skilja anda og inntak sannleikans, ekki aðeins að afla sér fræðilegrar þekkingar. Varðturninn 1. september 1976 (ensk útgáfa) sagði: „Í biblíunámi okkar ættum við að gera okkur far um að skilja hvað felst í réttvísi Guðs, kærleika og réttlæti og láta það ná slíkri rótfestu í hjörtum okkar að það verði okkur jafneiginlegt og að borða og anda. Við ættum að reyna að halda okkur enn betur vakandi gagnvart siðferðilegri ábyrgð okkar með því að rækta með okkur sterka vitund um rétt og rangt. Auk þess ætti samviska okkar að finna vel fyrir ábyrgðinni gagnvart hinum fullkomna löggjafa og dómara. (Jes. 33:22) Þegar við fræðumst um Guð ættum við því að reyna að líkja eftir honum á öllum sviðum lífsins.“
Að tileinka sér „huga Krists“
Biblíunám hjálpar okkur líka að tileinka okkur „huga Krists,“ það hugarfar hlýðni og auðmýktar sem hann sýndi. (1. Korintubréf 2:16) Hann gerði ekki vilja föður síns af einhverjum vana og án þess að hugsa heldur hafði yndi af því. Sálmaritarinn Davíð lýsti afstöðu hans í spádómi er hann sagði: „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.“a — Sálmur 40:9.
Það er mikilvægt að tileinka sér „huga Krists“ til að þjálfa samviskuna. Þegar Jesús var á jörðinni sem fullkominn maður endurspeglaði hann eiginleika föður síns og persónuleika að því marki sem mönnum er mögulegt. Hann gat því sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Undir öllum kringumstæðum gerði Jesús alveg eins og faðir hans vildi að hann gerði. Þess vegna fáum við skýra mynd af Jehóva Guði þegar við kynnum okkur ævi Jesú.
Við lesum að Jehóva sé „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur.“ (2. Mósebók 34:6) Jesús sýndi þessa eiginleika aftur og aftur í samskiptum við postula sína. Þegar þeir þráttuðu æ ofan í æ um það hver þeirra væri mestur var Jesús þolinmóður og kenndi þeim bæði í orði og verki að ‚sá sem mikill vildi verða meðal þeirra yrði að vera þjónn þeirra og sá sem vildi fremstur vera meðal þeirra skyldi vera þræll þeirra.‘ (Matteus 20:26, 27) Þetta er aðeins eitt dæmi um að við getum samstillt okkur viðhorfum Guðs með því að kynna okkur ævi Jesú.
Því meir sem við fræðumst um Jesú, þeim mun betur getum við líkt eftir himneskum föður okkar, Jehóva. (Efesusbréfið 5:1, 2) Sé samviskan samstillt viðhorfum Guðs beinir hún okkur í rétta átt. Jehóva lofar þeim sem treysta á hann: „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“ — Sálmur 32:8.
Þjálfuð samviska er gagnleg
Móse vissi hve einþykkir ófullkomnir menn geta verið og varaði Ísraelsmenn við með þessum orðum: „Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.“ (5. Mósebók 32:46) Við verðum líka að hugfesta lögmál Guðs. Ef við gerum það er líklegra en ella að samviskan stýri skrefum okkar og hjálpi okkur að taka réttar ákvarðanir.
Við verðum auðvitað að vera gætin. Biblíuorðskviður segir: „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.“ (Orðskviðirnir 14:12) Af hverju er það? Af því að „svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ segir Biblían. (Jeremía 17:9) Við þurfum því öll að fylgja hvatningunni í Orðskviðunum 3:5, 6: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“
[Neðanmáls]
a Í bréfi sínu til Hebrea heimfærir Páll postuli orðin í 40. sálmi á Jesú Krist. — Hebreabréfið 10:5-10.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Biblíufrædd samviska getur vísað okkur í rétta átt líkt og áttaviti.
[Rétthafi]
Áttaviti: Með góðfúslegu leyfi Peabody Essex Museum, Salem, Mass.