Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w99 1.1. bls. 3-5
  • Raunveruleg hjálp handa fjölskyldunni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Raunveruleg hjálp handa fjölskyldunni
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Komið í veg fyrir skilnað
  • Ólík trú
  • Þegar faðir vanrækir skyldur sínar
  • Friðsemd
  • Slæmur félagsskapur
  • Býr leyndardómur að baki farsælu fjölskyldulífi?
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Farsælt fjölskyldulíf
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Fjölskyldulíf sem er Guði þóknanlegt
    Hvers krefst Guð af okkur?
  • Varðveittu heimilisfriðinn
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
w99 1.1. bls. 3-5

Raunveruleg hjálp handa fjölskyldunni

„Það má með sanni segja að ameríska fjölskyldan sé í kreppu. Annað verður ekki ályktað af tíðni hjónaskilnaða, heimilisofbeldis og fæðinga utan hjónabands.“

ÞESSI orð sjónvarpsfréttaskýrandans Toms Brokaws gætu átt við flest lönd í heimi. Hvað þýðir þessi kreppa eiginlega?

Að mörgu leyti er fjölskyldan undirstöðueining þjóðfélagsins. Ef fjölskyldan er í vanda stödd er þjóðfélagið það líka. Og fjölskyldan er tilfinningaleg og fjárhagsleg stoð barnanna. Það er þar sem þau læra fyrstu og þýðingarmestu lærdóma lífsins. Hvað læra börnin ef fjölskyldan er í vanda stödd? Hvaða öryggi búa þau við? Hvað verður úr þeim þegar þau vaxa úr grasi?

Getur fjölskyldan leitað hjálpar einhvers staðar á þessum krepputíma? Já, því að Guð er höfundur fjölskyldunnar. (1. Mósebók 1:27, 28) Og hann hefur látið í té ómissandi fjölskylduráðgjöf í orði sínu, Biblíunni. (Kólossubréfið 3:18-21) Við getum auðvitað ekki umbreytt þjóðfélaginu en við getum farið eftir ráðum Biblíunnar í okkar eigin fjölskyldu. Við viljum gjarnan segja ykkur frá fólki sem hefur gert það og þeim góða árangri sem það skilaði.

Komið í veg fyrir skilnað

Víða um lönd endar helmingur hjónabanda með skilnaði. Það ber vott um stórkostleg mistök í mannlegum samskiptum. Margir einstæðir foreldrar standa sig auðvitað eins og hetjur við að ala upp börn sín. En flestir eru eflaust á því að það sé betra ef hjón geta leyst vandamál sín og haldið saman.

Það stefndi allt í óefni hjá hjónum á Salómonseyjum. Maðurinn var ofbeldisfullur höfðingjasonur og hafði marga slæma ósiði. Konunni fannst lífið svo erfitt að hún reyndi jafnvel að fyrirfara sér. Þá féllst eiginmaðurinn á biblíunám með hjálp votta Jehóva. Hann komst að raun um að hann yrði bæði að vita hvað væri rangt og „hata hið illa“ til að hafa velþóknun Guðs. (Sálmur 97:10) Þannig þyrfti hann að hata lygar, þjófnað, ofbeldi og drykkjuskap. Hann tók þetta til sín og tókst fljótlega að sigrast á slæmum venjum sínum og skapbræði. Konan var forviða á breytingunni og orð Guðs hafði þau áhrif að hjónabandið stórbatnaði.

Suður-afrísk kona, sem er vottur Jehóva, frétti að vinnuveitandi hennar væri í skilnaðarhugleiðingum. Votturinn talaði við vinnuveitandann, sem er kona, um afstöðu Guðs til hjónabands og sýndi henni bókina The Secret of Family Happiness (Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi). Þessi bók, sem vottar Jehóva gefa út, beinir athygli að meginreglum Biblíunnar um hjónaband og leggur sérstaka áherslu á það hvernig Biblían hjálpar hjónum að leysa vandamál. Bæði vinnuveitandinn og maðurinn hennar lásu bókina og reyndu í einlægni að fara eftir þeim biblíuráðum sem hún gefur. Árangurinn varð sá að þau hættu við skilnaðinn. Þannig björguðu meginreglur Biblíunnar öðru hjónabandi.

Ólík trú

Hvað nú ef hjón eru ólíkrar trúar? Biblían er raunsæ og ráðleggur kristnum mönnum að giftast ‚aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39) En stundum skiptir annað hjónanna um trú. Þarf það að þýða endalok hjónabandsins? Alls ekki.

Kona í Botsvana, sem var nýlega orðin vottur Jehóva, var að því spurð hvernig hin nýja trú hennar hefði breytt henni. Hún bað manninn sinn að svara því og hann sagði: „Ég hef séð margar jákvæðar breytingar í fari konunnar minnar síðan hún varð vottur Jehóva. Núna býr hún yfir visku og hljóðum krafti sem hún hafði ekki áður. Hún fékk styrk og sannfæringu til að hætta reykingum sem mér hefur ekki tekist enn þá. Konan mín er orðin kærleiksríkari og ástúðlegri við börnin og mig, og einnig við aðra. Hún er umburðarlyndari, einkum við börnin. Ég sé hana taka þátt í boðunarstarfinu og reyna að hjálpa öðrum að bæta líf sitt. Ég hef líka séð jákvæðar breytingar í fari mínu. Ég held að það sé að öllu leyti fordæmi hennar að þakka.“ Meginreglur Biblíunnar hafa greinilega haft góð áhrif á þetta hjónaband. Margir, sem eru ekki vottar, hafa sagt eitthvað svipað um maka sinn sem er vottur.

Þegar faðir vanrækir skyldur sínar

Gott samband föður og barna er ein af forsendunum fyrir traustu fjölskyldulífi. Páll postuli ráðlagði: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Það kemur ekki á óvart að grein í tímaritinu The Wilson Quarterly skuli kenna feðrum, sem rækja ekki skyldur sínar, um mörg þjóðfélagsvandamál. Í greininni stóð meðal annars: „Frá 1960 til 1990 fjölgaði börnum, sem bjuggu ekki hjá kynfeðrum sínum, um meira en helming . . . Að stórum hluta til má rekja alvarlegustu vandamál bandarísks þjóðfélags til þess að föðurhlutverkinu hefur hnignað.“

Ber að skilja það svo að barn hljóti að verða misheppnað ef það hefur ekki föður sinn til að leiðbeina sér? Nei, sálmaritari fortíðar sagði: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Níu ára taílenskur drengur komst að raun um það. Hann missti mömmu sína barn að aldri og pabbi hans vildi ekkert með hann hafa og skildi hann eftir hjá ömmu sinni. Drengnum fannst hann óvelkominn og ekki elskaður. Hann varð uppreisnargjarn og yfirgangssamur. Hann ógnaði jafnvel ömmu sinni. Tveir boðberar votta Jehóva í fullu starfi tóku eftir því að hann stóð oft fyrir utan ríkissalinn og buðu honum í heimsókn einn daginn.

Þeir sögðu honum frá Guði og bentu á að hann elskaði börn sín eins og faðir. Þeir töluðu líka um hina jarðnesku paradís sem Guð hefur heitið trúföstum mönnum. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þetta höfðaði sterkt til drengsins og hann kom í heimsókn daglega til að læra meira. Vottarnir sögðu honum að hann yrði að hætta yfirgangi sínum ef hann vildi virkilega eiga Guð fyrir föður. Það var í samræmi við orð Páls til Rómverja: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18) Hann yrði líka að vera hlýlegur við ömmu sína. (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Áður en langt um leið byrjaði drengurinn að fara eftir meginreglum Biblíunnar — og bætti eflaust heimilislífið stórlega hjá sér og ömmu sinni. (Galatabréfið 5:22, 23) Nágrannarnir voru svo hrifnir af breytingunni, sem þeir sáu á honum, að þeir vildu fá biblíunámskeið hjá vottum Jehóva handa börnum sínum.

Friðsemd

Páll postuli skrifaði Kólossumönnum: „Íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans. Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar.“ (Kólossubréfið 3:14, 15) Friðsemd og innileg ást hlýtur að binda fjölskylduna sterkum böndum og getur unnið bug á langvinnri sundrungu. Rukia, sem býr í Albaníu, talaði ekki við bróður sinn í 17 ár vegna ósættis í fjölskyldunni. Þegar hún kynnti sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva uppgötvaði hún að allir þjónar Guðs eru hvattir til að stuðla að friði við aðra, að ‚ástunda frið og keppa eftir honum.‘ — 1. Pétursbréf 3:11.

Rukia gerði sér ljóst að hún yrði að sættast við bróður sinn. Hún baðst fyrir alla næstu nótt. Hjartað barðist í brjósti hennar þegar hún gekk að húsinu hans næsta morgun. Bróðurdóttir Rukiu opnaði dyrnar og spurði undrandi: „Hvað ert þú að gera hér?“ Rukia bað stillilega um að fá að hitta bróður sinn og sagðist vilja sættast við hann. Af hverju? Af því að henni var ljóst að það væri vilji Guðs. Bróðirinn brást vel við og þau föðmuðust og grétu gleðitárum. Meginreglur Biblíunnar hjálpuðu þessum systkinum að sameinast.

Slæmur félagsskapur

„Venjulegt barn horfir á sjónvarp í sjö klukkustundir á dag. Um það leyti sem það lýkur grunnskóla hefur það horft á rösklega 8000 morð og 100.000 ofbeldisverk,“ segir í bókinni The 7 Habits of Highly Effective Families. Hvaða áhrif hefur það á barnið? „Sérfræðingar“ eru ekki á einu máli um það en Biblían varar eindregið við slæmum félagsskap. Hún segir til dæmis: „Illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja“ og: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Fjölskyldulífið getur batnað ef við erum nógu hyggin til að viðurkenna þessa meginreglu, hvort sem félagarnir eru holdi klæddir eða á skjánum.

Móðir í Lúxemborg var í biblíunámi hjá vottum Jehóva. Dag nokkurn sagði hún vottinum að dætur sínar tvær, sjö og átta ára, væru mjög deilugjarnar og árásargjarnar á kvöldin. Votturinn spurði hvað stúlkurnar gerðu á kvöldin. Móðirin sagði að þær horfðu á sjónvarpið meðan hún væri að ganga frá í eldhúsinu. Hvaða efni horfðu þær á? „Einhverjar teiknimyndir,“ svaraði hún. Þegar gesturinn nefndi að oft væri mikið ofbeldi í slíkum myndum lofaði móðirin að fylgjast með þáttunum.

Daginn eftir sagði móðirin að sér hefði brugðið þegar hún sá teiknimyndirnar sem dæturnar voru að horfa á. Í þeim voru ímynduð skrímsli utan úr geimnum sem tortímdu öllu sem á vegi þeirra varð. Hún útskýrði fyrir dætrum sínum að Jehóva hati ofbeldi og vilji ekki að við horfum á slíka grimmd. (Sálmur 11:5) Telpurnar vildu þóknast Jehóva og féllust á að teikna og mála í stað þess að horfa á sjónvarpið. Árásarhegðunin breyttist undir eins, og andrúmsloftið á heimilinu batnaði.

Þetta eru aðeins fáein dæmi um það hvernig meginreglur Biblíunnar hafa bætandi áhrif á fjölskyldulífið. Biblían gefur ráðleggingar um alls konar mál. Hún er áreiðanleg og hefur sterk áhrif til góðs. (Hebreabréfið 4:12) Þegar fólk kynnir sér Biblíuna og gerir sitt besta til að fara eftir því sem hún segir styrkir það fjölskylduböndin, bætir persónuleikann og forðar mönnum frá mistökum. Þótt ekki fylgi nema einn í fjölskyldunni ráðleggingum Guðs er það til bóta. Vissulega ættum við á öllum sviðum lífsins að líta orð Guðs sömu augum og sálmaritarinn sem skrifaði: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ — Sálmur 119:105.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Fjölskyldur hafa leyst vandamál sín með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila