Tekurðu framförum í boðunarstarfinu?
1 Við viljum öll veita Jehóva heilaga þjónustu. Markmið okkar er að líkja eftir því fordæmi sem sonur hans setti. Jesús leit svo á að þjónustan við Jehóva væri það mikilvægasta í lífinu. Hann sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ — Jóh. 4:34.
2 Jesús innti þjónustuna trúfastlega af hendi og varð mesti vottur Jehóva sem uppi hefur verið á jörðinni. Jóhannes postuli gat því réttilega kallað hann ‚vottinn trúa‘. (Opinb. 1:5) Hann var iðinn við að boða ríki Guðs. Hann sagði: „Mér ber að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:43) Jesús vissi að allir þyrftu að vita hvað ríki Guðs væri og hvernig það myndi hrinda vilja hans í framgang, og hann lifði samkvæmt því.
3 Hvernig getum við sýnt að við viljum fylgja fordæmi Jesú? Við erum boðberar Guðsríkis og þurfum því að taka framförum í því að miðla öðrum af þeim ‚góða sjóði‘ þekkingar sem við höfum eignast. (Matt. 12:35; Lúk. 6:45) Á þjónustusamkomunum fáum við margar góðar tillögur um aðferðir sem hjálpa okkur að sinna þessu starfi vel. En eru þær okkur tamar? Tökum við okkur tíma til að æfa þær? Það er nauðsynlegt til að taka framförum.
4 Með því að bæta okkur í boðunarstarfinu sýnum við að við teljum þjónustuna mjög mikilvæga. Fyrra Pétursbréf 1:13 hvetur: „Gjörið því hugi yðar viðbúna.“ Undirbúningur fyrir boðunarstarfið býr hugann og hjartað undir að takast á við þetta starf. Í Orðskviðunum 15:28 segir að ‚hjarta hins réttláta íhugi hverju skuli svara‘. Áður en farið er út í starfið er þess vegna gott að taka sér tíma til að ákveða hvernig maður ætlar að hefja samræður, hvað maður ætlar að tala um og hvernig hægt sé að bregðast við mótbárum. Góð leið til að undirbúa sig er að nota tillögurnar fyrir boðunarstarfið sem við fáum á þjónustusamkomunum og birtast oftast í Ríkisþjónustu okkar.
5 Þegar við undirbúum okkur er hugsunin ekki sú að við lærum tillögurnar utan að heldur að við sníðum þær að sjálfum okkur. En æfingin skapar meistarann. Það gæti því verið gott að nota hluta af fjölskyldunáminu til að setja á svið raunhæf dæmi úr starfinu. Tveir boðberar gætu líka komið sér saman um að æfa sig á milli heimsókna eða áður en þeir fara út á svæðið. Í samansöfnunum er svo hægt að minnast á tillögur sem gefnar eru á þjónustusamkomunum.
6 Í landi nokkru lagði faðir ríkt á við son sinn, sem vildi gerast boðberi, að þeir æfðu sig fyrir boðunarstarfið. Daginn, sem sonurinn ætlaði að fara með kynningu sjálfur í fyrsta sinn, notuðu þeir tímann milli heimsókna til þess að æfa sig. Það kom svo að því að faðirinn leyfði syninum að fara með kynningu við næstu dyr. Maður kom til dyra og sá unga boðberann með Nýheimsþýðinguna í hendinni, en hann átti hana líka. Góðar samræður spunnust í kjölfarið. Húsráðandinn og konan hans þáðu biblíunámskeið og sækja núna reglulega safnaðarsamkomur.
7 Ef við ætlum að taka framförum í boðunarstarfinu er mjög mikilvægt að við undirbúum okkur vel og æfum okkur. En það er engu að síður boðunarstarfið sjálft sem hefur mestu áhrifin á framför okkar sem boðberar. Þegar við störfum með trúsystkinum ættum við því að líta á það sem góða þjálfun og tækifæri til að bæta okkur. Á milli heimsókna er hægt að ræða um það hvort inngangsorðin hafi vakið áhuga eða ekki. Það er líka hægt að ræða hvort við notuðum Biblíuna með góðum árangri, hvort húsráðandinn hafi viljað og fengið tækifæri til að tjá sig og hvort við höfum komið boðskapnum á framfæri á einfaldan, skýran og áhrifamikinn hátt.
8 Við þurfum að vera kostgæfin og vinna meðvitað að því að taka framförum í boðunarstarfinu. Það mun veita okkur ánægju og gleði. En prédikun okkar mun líka hafa í för með sér að við sjálf verðum hólpin og áheyrendur okkar. — 1. Tím. 4:15, 16.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Hvenær getum við æft okkur?
▪ Í fjölskyldunáminu
▪ Í einkanáminu
▪ Áður en við förum út í starfið
▪ Milli heimsókna