Ný svæðismótsdagskrá
1 Jesús spáði því að lærisveinar hans yrðu ofsóttir. (Matt. 24:9) Hvernig eigum við að líta á prófraunir? Og hvað hjálpar okkur að standast þrengingar? Dagskrá svæðismótsins þjónustuárið 2004 svarar þessum spurningum. Stefið er: „Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni.“ — Rómv. 12:12.
2 Tvær ræðusyrpur: Fyrri ræðusyrpan, „Berið ávöxt með stöðuglyndi“, fjallar um það hvernig við getum borið ávöxt. Nokkrir boðberar verða teknir tali og spurðir hvernig þeir prédiki og kenni í ljósi þess að tíminn er naumur. Foreldrar ættu sérstaklega að hlusta á þann hluta syrpunnar sem fjallar um það „þegar Jehóva agar okkur“. Þar kemur fram hvernig foreldrar geta leiðbeint og kennt börnunum. Lokaræðumaður syrpunnar beinir síðan athyglinni að því hvað við verðum að gera til að koma í veg fyrir að heimurinn hafi áhrif á okkur og valdi því að við hættum að bera ávöxt. — Mark. 4:19.
3 Seinni ræðusyrpan heitir: „Þreytið hlaupið þolgóð.“ Þar kemur skýrt fram að lífið er eins og kapphlaup. Hvers vegna verðum við að hlaupa samkvæmt reglunum? Hvernig getum við létt af okkur allri byrði og haldið áfram í kapphlaupinu um lífið, án þess að þreytast? Þau tímabæru ráð, sem við fáum frá Biblíunni, auðvelda okkur að þreyta hlaupið þolgóð.
4 Þolgæði veitir velþóknun Guðs: Ræður farandumsjónarmannanna styrkja trú þeirra sem bæði hlusta á ráðleggingarnar og fara eftir þeim. Ein ræða umdæmishirðisins nefnist: „Þolgæði veitir velþóknun Guðs.“ Opinberi fyrirlesturinn svarar spurningunum: Á nafn hvers vona þjóðirnar og hvað felst í því? Lokaræðan, „Ávinnið sálir ykkar með þolgæði“, fjallar um hvernig Jesús gat þolað óréttlæti án þess að verða bitur.
5 Mundu eftir að hafa með þér Boðunarskólabókina og Varðturnsblað vikunnar. Skrifaðu niður minnispunkta. Það auðveldar þér að einbeita þér og þú getur notað þá síðar meir. Mótsdagskráin verður rifjuð upp síðar á samkomu.
6 Jehóva hefur sjálfur séð fyrir þessum miklu andlegu veislukrásum. Misstu ekki af þeim! Gæddu þér á krásunum! Við eigum eftir að fagna af hjartans gleði ef við verðum viðstödd alla dagskrána til að njóta góðs af henni. — Jes. 65:14.