-
Umbun fyrir þrautseigjuRíkisþjónusta okkar – 2004 | ágúst
-
-
Umbun fyrir þrautseigju
1 „Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.“ (Lúk. 21:19) Orð þessi, sem tekin eru úr spádómi Jesú um „endalok veraldar“, sýna ljóslega að ráðvendni felur í sér að við verðum að vera undirbúin því að standa frammi fyrir mörgum prófraunum. En með styrk frá Jehóva getum við öll verið ‚staðföst allt til enda‘ og ‚orðið hólpin‘. — Matt. 24:3, 13; Fil. 4:13.
2 Ofsóknir, heilsuvandamál, fjárhagserfiðleikar og tilfinningalegt álag getur gert dag hvern að prófraun. En við megum aldrei gleyma að Satan reynir að brjóta ráðvendni okkar við Jehóva á bak aftur. Hver dagur sem við sýnum trúfesti föður okkar á himnum er einn dagur í viðbót þar sem við höfum átt okkar þátt í að sanna Satan lygara. Það er mjög hughreystandi að vita að ‚tár‘ í prófraunum eru ekki gleymd. Þau eru dýrmæt í augum Jehóva og þrautseigja okkar gleður hjarta hans. — Sálm. 56:9; Orðskv. 27:11.
3 Prófraunir betrumbæta okkur: Hvers konar böl getur leitt í ljós veikleika í trú okkar eða persónuleika, eins og stolt eða óþolinmæði. Við verðum að fara eftir leiðbeiningum í orði Guðs þannig að ‚þolgæðið birtist í fullkomnu verki‘ í stað þess að reyna að forðast prófraunir eða binda enda á þær með óbiblíulegum aðferðum. Hvers vegna? Vegna þess að trúfesti í prófraunum hjálpar okkur að verða ‚fullkomin og algjör‘. (Jak. 1:2-4) Þrautseigja getur hjálpað okkur að þroska með okkur dýrmæta eiginleika eins og sanngirni, hluttekningu og miskunnsemi. — Rómv. 12:15.
4 Trúarstaðfesta reynd: Þegar við stöndumst prófraunir hefur trúarstaðfesta okkar verið reynd og hún er dýrmæt í augum Guðs. (1. Pét. 1:6, 7) Trúin hjálpar okkur síðan að standast prófraunir sem við kunnum að lenda í síðar. Enn fremur finnum við fyrir velþóknun Jehóva og það styrkir von okkar og gerir hana enn raunverulegri. — Rómv. 5:3-5.
5 Besta hugsanlega umbunin fyrir þrautseigju er útlistuð í Jakobsbréfi 1:12 sem segir: „Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins.“ Þess vegna skulum við halda áfram að sýna staðfestu við vígsluheit okkar sem við höfum gefið Jehóva og verum þess fullviss að hann muni ríkulega umbuna „þeim er elska hann“.
-
-
Árangursrík biblíunámskeiðRíkisþjónusta okkar – 2004 | ágúst
-
-
Árangursrík biblíunámskeið
2. hluti: Undirbúningur fyrir námskeiðið
1 Til að kennslan á biblíunámskeiði nái tilætluðum árangri þarf meira til en að ræða eingöngu um efnið og fletta upp ritningarstöðum sem vísað er til. Við þurfum að setja efnið fram á þann hátt að það nái til hjarta nemandans. Það þýðir að við verðum að undirbúa okkur vel með þennan ákveðna nemanda í huga. — Orðskv. 15:28.
2 Hvernig á að undirbúa sig? Byrjaðu á því að biðja til Jehóva og hafðu nemandann og þarfir hans í huga. Biddu Jehóva um að hjálpa þér að ná til hjarta hans. (Kól. 1:9, 10) Til að ná meginhugmyndinni skaltu gefa þér tíma til að skoða heiti kaflans, millifyrirsagnir og myndir. Spyrðu sjálfan þig: „Hver er meginboðskapur efnisins?“ Þá áttu auðveldara með að einbeita þér að aðalatriðunum þegar þú stýrir námskeiðinu.
3 Farðu vel yfir hverja efnisgrein. Finndu svörin við spurningunum og merktu aðeins við lykilorð og orðasambönd. Skoðaðu vel hvernig ritningarstaðirnir, sem vísað er til, tengjast aðalatriði efnisgreinarinnar og veldu hverja þú vilt lesa með nemandanum. Það getur verið gagnlegt að skrifa minnispunkta á spássíu námsritsins. Nemandanum ætti að vera ljóst að það sem hann er að læra er frá orði Guðs. — 1. Þess. 2:13.
4 Lagaðu efnið að þörfum nemandans: Næst skaltu velta því fyrir þér hvernig nemandinn geti haft gagn af efninu. Reyndu að sjá fyrir hvaða spurninga hann muni spyrja og hvað hann gæti átt erfitt með að skilja eða meðtaka. Spyrðu sjálfan þig: „Hvað þarf hann að skilja eða gera til að byggja upp trú sína? Hvernig get ég náð til hjarta hans?“ Aðlagaðu síðan kennsluna samkvæmt því. Stundum gæti verið þörf á að hugsa upp líkingu, útskýra málið nánar eða undirbúa spurningar til að hjálpa nemandanum að skilja betur ritningarstað eða eitthvert ákveðið atriði. (Nehem. 8:8) Varastu samt að bæta við aukaupplýsingum sem koma efninu lítið við. Stutt upprifjun í lok námsstundarinnar hjálpar nemandanum að muna aðalatriðin.
5 Það er mikil gleði sem fylgir því þegar nýir einstaklingar fara að bera ávöxt réttlætisins, Jehóva til lofs. (Fil. 1:11) Þú skalt því undirbúa þig vel í hvert sinn sem þú heldur biblíunámskeið svo að þeir geti náð því marki.
-