Bréf frá hinu stjórnandi ráði
NÚNA nálgast nýja heimskerfið óðum og því er áríðandi að bíða Jehóva. (Sef. 3:8) Daníel spámaður sagði: „Guð . . . opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört . . . það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ (Dan. 2:28) Það er mikill heiður að fá að vera uppi við endalok þessa tímabils og skilja þá leyndardóma sem Jehóva kunngerir.
Jehóva hefur notað ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ til að opinbera smátt og smátt þá fyrirætlun sína að safna saman ,miklum múgi‘ tilbiðjenda um allan heim á þessum erfiðu og „síðustu dögum“. (Matt. 24:45; Opinb. 7:9; 2. Tím. 3:1) Jesaja 2:2, 3 segir einnig að þessi mikla samansöfnun eigi að eiga sér stað „á hinum síðustu dögum“. Á hverju ári heldur þessi samansöfnun áfram þrátt fyrir ringulreiðina og ofbeldið sem ríkir í heiminum.
Á árinu 2004 var brýnt fyrir okkur að við þyrftum að fara eftir orðum Jesú: ‚Vakið, verið viðbúnir.‘ (Matt. 24:42, 44) Það sem er að gerast í heimsmálunum hefur mikla þýðingu fyrir kristna menn sem gera sér grein fyrir ,táknum tímanna‘ og bregðast við á viðeigandi hátt. (Matt. 16:1-3) Þó að fólk Jehóva þurfi að mæta andstöðu getur það treyst því að hann stendur við orð sín og heldur áfram að styðja það.
Þrátt fyrir að reynt sé að hindra eða stöðva boðun fagnaðarerindisins halda trúbræður okkar áfram að kunngera sannleikann og sækja samkomur. (Post. 5:19, 20; Hebr. 10:24, 25) Í júní árið 2004 staðfesti áfrýjunardómstóll í Moskvu í Rússlandi úrskurð lægri dómstóls um að banna starfsemi Votta Jehóva og ógilda lögskráningu þeirra í borginni. En bræðurnir láta það ekki á sig fá. Þeir vita hvaða kröfur Guð gerir til þeirra og hlýða honum frekar en mönnum. (Post. 5:29) Við erum þess fullviss að Jehóva leiðbeinir þjónum sínum þegar þeir standa andspænis hörðum ákærum.
Undanfarin ár hafa bræður í Georgíu orðið fyrir skrílsárásum, misst eigur og rit þeirra hafa verið brennd. En engin vopn, sem smíðuð hafa verið á móti þeim, hafa virkað. (Jes. 54:17) Á þjónustuárinu 2004 fengu Vottar Jehóva aftur lagalega viðurkenningu í Georgíu. Mót voru haldin án truflunar og rit streyma inn í landið. Boðberatalan náði nýju hámarki og fleiri mættu á minningarhátíðina en nokkru sinni fyrr.
Í Armeníu, Erítreu, Suður-Kóreu, Rúanda og Túrkmenistan hafa bræður verið fangelsaðir fyrir trú sína. Þó að þeir hafi þurft að sæta illri meðferð vita þeir af lestri sínum í Biblíunni hvers vegna þeir verða fyrir prófraunum og það auðveldar þeim að vera ráðvandir og treysta því að Jehóva frelsi þá. — 1. Pét. 1:6; 2. Pét. 2:9.
Þegar þú skoðar ársskýrsluna fyrir þjónustuárið 2004 muntu gleðjast yfir gæsku Jehóva. (Sálm. 31:20; 65:12) Við vonum að þessi skýrsla hvetji þig til að halda áfram að ganga þá braut sem er Guði þóknanleg. — 1. Þess. 4:1.
Mikið er gert til að koma sannleikanum til allra manna. Sem dæmi má nefna að gefin hafa verið út myndbönd, mynddiskar og annað efni á táknmáli svo og rit á blindraletri til að koma andlegri fæðu til blindra og heyrnarlausra. Margir boðberar fagnaðarerindisins hafa einnig lært tungumál innflytjenda á safnaðarsvæðinu.
Þar að auki hafa verið myndaðir hundruð hópa á einangruðum svæðum sem erfitt er að ná til. Á svæði einnar deildarskrifstofu eru yfir 7000 boðberar í rúmlega 300 einangruðum hópum. Þar eru svo sannarlega góðir möguleikar á að nýir söfnuðir bætist við. Af þeim 16.760.607 sem mættu á minningarhátíðina á þessu þjónustuári voru yfir 10 milljónir sem ekki voru vottar Jehóva. Þetta er til merkis um að mikill uppskerutími er fram undan.
Við þökkum Jehóva fyrir að blessa okkur svo ríkulega og að hugsa vel um okkur á hverjum degi. (Orðskv. 10:22; Mal. 3:10; 1. Pét. 5:7) Um leið og við sækjum fram í einingu á þessum „síðustu dögum“ treystum við algerlega á Jehóva. Hvað sem á bjátar skulum við taka til okkar árstextann fyrir árið 2005: ‚Hjálp mín kemur frá Jehóva.‘ (Sálm. 121:2) Við sendum ykkur kærleikskveðjur.
Bræður ykkar,
Stjórnandi ráð Votta Jehóva