Kærleikurinn er undirstaðan að árangursríku boðunarstarfi
1 „Komið til mín . . . og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt. 11:28) Þessi ljúfu orð endurspegla djúpstæðan kærleika Jesú til mannanna. Sem kristnum boðberum langar okkur til að líkja eftir Jesú og sýna þeim kærleika sem eru að niðurlotum komnir í kærleikslausum heimi. Hvernig getum við gert það í boðunarstarfinu?
2 Í orði: Jesú þótti innilega vænt um fólk og notaði hvert tækifæri til að boða fagnaðarerindið. (Jóh. 4:7-14) Með hjálp kærleikans getum við tekið í okkur kjark til að vitna óformlega. Sex ára telpa vitnaði ófeimin fyrir konu sem sat við hlið hennar á læknabiðstofu. Hvað fékk hana til þess? Hún sagði: „Ég sá það bara á henni að hún þurfti að kynnast Jehóva.“
3 Við getum látið áhuga okkar á fólki í ljós með einlægu, hlýlegu brosi og vingjarnlegri rödd. Kærleikur kemur einnig fram í því að hlusta með athygli á það sem aðrir hafa að segja, virða það og sýna einlægan og persónulegan áhuga. (Orðskv. 15:23) Við líkjum eftir Jesú með því að leggja áherslu á hve uppörvandi fagnaðarerindið um ríkið er og hve ástríka samúð Jehóva hefur með fólki. — Matt. 24:14; Lúk. 4:18.
4 Í verki: Jesús var næmur á efnislegar þarfir annarra og brást við þeim. (Matt. 15:32) Í boðunarstarfinu gefst okkur líka tækifæri til að sýna kærleiksríka umhyggju í verki. Systir nokkur sá að kona átti í vandræðum með að skilja áríðandi símtal. Systirin bauðst til að hjálpa henni og þýddi orð viðmælandans. Þetta kærleiksverk leiddi til umræðu um biblíuleg málefni sem varð til þess að konan þáði biblíunámskeið. Annað atvik átti sér stað þegar bróðir fór í endurheimsókn og kom að húsráðandanum í uppnámi en hann hafði fest þungan sófa í dyragættinni. Eftir að bróðirinn hafði veitt góðfúslega aðstoð var hann innan tíðar sestur í sófann, sem hann hafði hjálpað við að flytja, og biblíunámskeið var hafið með þakklátum manninum.
5 Við sýnum kærleika okkar til Guðs og náungans þegar við erum í boðunarstarfinu. (Matt. 22:36-40) Með því að sýna það í orði og verki auðveldum við einlægu fólki að skilja að við boðum sannleikann.