-
Af hverju ættirðu að láta skírast?Varðturninn – 2002 | 1. maí
-
-
útlistar hann. Síðan látum við skírast til tákns um vígsluna, og skírnin er niðurdýfing líkt og þegar Jesús skírðist í Jórdan til merkis um að hann byði sig Guði til þjónustu. (Matteus 3:13) Það er eftirtektarvert að Jesús baðst fyrir við þetta mikilvæga tækifæri. — Lúkas 3:21, 22.
16. Hvernig væri viðeigandi að tjá gleði sína þegar fólk lætur skírast?
16 Skírn Jesú var alvarlegur atburður en jafnframt gleðilegur. Hið sama er að segja um skírn kristinna manna nú á tímum. Þegar við sjáum fólk skírast til tákns um að það hafi vígst Guði getum við tjáð gleði okkar með hlýlegu hrósi og háttvíslegu lófataki. Hins vegar ættum við að bera slíka virðingu fyrir þessari helgu trúarjátningu að við forðumst fagnaðaróp, flaut og annað slíkt. Við tjáum gleði okkar með virðulegum hætti.
17, 18. Hvernig er hægt að ganga úr skugga um að fólk sé hæft til að láta skírast?
17 Vottar Jehóva þvinga engan til að skírast, ólíkt þeim sem ausa ómálga börn vatni eða skíra óuppfræddan fjöldann. Vottarnir skíra reyndar engan nema hann uppfylli kröfur Biblíunnar. Enginn getur orðið óskírður boðberi fagnaðarerindisins fyrr en öldungar safnaðarins hafa gengið úr skugga um að hann skilji aðalkenningar Biblíunnar, lifi samkvæmt þeim og svari játandi spurningu svo sem: „Langar þig í alvöru til að vera vottur Jehóva?“
18 Þegar fólk tekur virkan þátt í boðunarstarfinu og lætur í ljós að það vilji skírast ræða safnaðaröldungar við það í langflestum tilfellum. Tilgangurinn er sá að ganga úr skugga um að það trúi, hafi vígst Jehóva og uppfylli skilyrði hans fyrir skírn. (Postulasagan 4:4; 18:8) Svör þess við ríflega 100 spurningum um kenningar Biblíunnar hjálpa öldungunum að ganga úr skugga um að það uppfylli skírnarkröfurnar. Sumir uppfylla ekki kröfurnar og fá ekki að taka kristinni skírn.
Læturðu eitthvað aftra þér?
19. Hverjir erfa ríkið með Jesú, samkvæmt Jóhannesi 6:44?
19 Margir hafa verið þvingaðir til að taka þátt í fjöldaskírn með þeim formála að þeir færu til himna eftir dauðann. Jesús sagði hins vegar um fylgjendur sína: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Jehóva hefur dregið 144.000 manns til Jesú til að erfa himnaríkið með honum. Nauðungarskírn hefur aldrei helgað nokkurn svo að hann fái hlutdeild í þessu dýrlega fyrirkomulagi Guðs. — Rómverjabréfið 8:14-17; 2. Þessaloníkubréf 2:13; Opinberunarbókin 14:1.
20. Hvað gæti hjálpað sumum sem hafa enn ekki látið skírast?
20 Mikill fjöldi fólks hefur gengið til liðs við „aðra sauði“ Jesú, einkum frá miðjum fjórða áratug síðustu aldar. Þeir eiga þá von að komast í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og lifa að eilífu á jörðinni. (Opinberunarbókin 7:9, 14; Jóhannes 10:16) Þeir eru hæfir til að skírast vegna þess að þeir hafa lagað líf sitt að orði Guðs og elska hann af ‚öllu hjarta, sálu, huga og mætti.‘ (Lúkas 10:25-28) Ýmsir gera sér ljóst að vottar Jehóva ‚tilbiðja Guð í anda og sannleika‘ en hafa enn ekki fylgt fordæmi Jesú og látið skírast til marks um ósvikinn kærleika til Jehóva og óskipta hollustu við hann. (Jóhannes 4:23, 24; 5. Mósebók 4:24; Markús 1:9-11) Með því að ræða sérstaklega um þetta mikilvæga skref við Jehóva í einlægri bæn er hugsanlegt að þeir finni hjá sér hvöt og kjark til að fylgja orði hans að fullu, vígjast honum skilyrðislaust og láta skírast.
21, 22. Hvað aftrar sumum frá því að vígjast Guði og láta skírast?
21 Sumir eru svo uppteknir af heiminum eða af því að sækjast eftir peningum að þeir gefa sér lítinn tíma til að sinna andlegum málum. Þess vegna verður ekkert úr því að þeir vígist og skírist. (Matteus 13:22; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Það yrði þeim til mikillar gleði ef þeir breyttu um afstöðu og markmið. Það myndi auðga þá andlega að nálgast Jehóva, draga úr áhyggjum þeirra og veita þeim þann frið og fullnægju sem fylgir því að gera vilja hans. — Sálmur 16:11; 40:9; Orðskviðirnir 10:22; Filippíbréfið 4:6, 7.
22 Sumir segjast elska Jehóva en halda að þeir geti skotið sér undan ábyrgð með því að vígjast ekki né skírast. En allir verða að standa Guði reikningsskap. Ábyrgðin kom um leið og við heyrðum orð Jehóva. (Esekíel 33:7-9; Rómverjabréfið 14:12) Ísraelsmenn til forna voru „eignarlýður“ Jehóva og vígðir honum frá fæðingu. Þess vegna bar þeim að þjóna honum dyggilega í samræmi við reglur hans. (5. Mósebók 7:6, 11) Nú á tímum er enginn vígður Jehóva frá fæðingu en ef við höfum fengið markvissa biblíufræðslu þurfum við að breyta samkvæmt henni í trú.
23, 24. Hvað ætti ekki að tálma fólki að láta skírast?
23 Sumir óttast kannski að þeir hafi ekki næga þekkingu til að láta skírast. En við eigum margt ólært öllsömul vegna þess að ‚mannkynið fær ekki skilið verk Guðs frá upphafi til enda.‘ (Prédikarinn 3:11) Tökum eþíópska hirðmanninn sem dæmi. Hann hafði tekið gyðingatrú og þekkti eitthvað til Ritningarinnar en þekkti samt ekki tilgang Guðs til hlítar. Hins vegar skírðist hann tafarlaust eftir að hafa fræðst um þá ráðstöfun Guðs að veita hjálpræði vegna fórnar Jesú. — Postulasagan 8:26-38.
24 Sumir hika við að vígjast Guði af því að þeir eru smeykir um að sér takist ekki að halda vígsluheitið. „Ég hef veigrað mér við að skírast af ótta við að mér takist ekki að lifa í samræmi við vígsluheit mitt,“ segir Monique sem er 17 ára. En ef við treystum Jehóva af öllu hjarta ‚gerir hann stigu okkar slétta‘ og hjálpar okkur að ‚lifa í sannleikanum‘ sem trúir og vígðir þjónar hans. — Orðskviðirnir 3:5, 6; 3. Jóhannesarbréf 4.
25. Hvaða spurningu ætlum við að skoða næst?
25 Þúsundir manna finna hjá sér löngun til að vígjast og skírast ár hvert því að þeir treysta Jehóva algerlega og elska hann af öllu hjarta. Og allir vígðir þjónar Guðs vilja auðvitað vera honum trúir. En við lifum á erfiðum tímum og það reynir á trúna á ýmsan hátt. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hvað getum við gert til að lifa samkvæmt vígsluheiti okkar við Jehóva? Greinin á eftir fjallar um það.
-
-
Þjónaðu Jehóva áfram með stöðugu hjartaVarðturninn – 2002 | 1. maí
-
-
Þjónaðu Jehóva áfram með stöðugu hjarta
„Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt.“ — SÁLMUR 57:8.
1. Hvers vegna getum við haft sömu sannfæringu og Davíð?
JEHÓVA getur gert okkur stöðug í hinni sannkristnu trú þannig að við höldum okkur við hana sem vígðir þjónar hans. (Rómverjabréfið 14:4) Þess vegna getum við haft sömu sannfæringu og sálmaritarinn Davíð er hann söng: „Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð.“ (Sálmur 108:2) Ef hjarta okkar er stöðugt langar okkur til að lifa eftir vígsluheitinu við Guð. Og með því að treysta á styrk hans og leiðsögn getum við verið óbifanleg, einbeitt, ráðvönd og stöðug í trúnni, ‚síauðug í verki Drottins.‘ — 1. Korintubréf 15:58.
2, 3. Hvað er fólgið í hvatningu Páls í 1. Korintubréfi 16:13?
2 Hvatning Páls postula til fylgjenda Jesú í Korintuborg á einnig fullt erindi til kristinna manna nú á tímum. Hann sagði: „Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir.“ (1. Korintubréf 16:13) Þessi fyrirmæli standa í nútíð í grískunni og gefa til kynna áframhaldandi verknað. Hvað er fólgið í þessari hvatningu?
3 Við getum ‚vakað‘ andlega með því að standa gegn djöflinum og halda okkur nálægt Guði. (Jakobsbréfið 4:7, 8) Með því að reiða okkur á Jehóva getum við varðveitt eininguna og ‚verið stöðug í kristinni trú.‘ Við erum ‚karlmannleg‘ með því að boða fagnaðarerindið hugrökk í þjónustu Guðs — og það gildir einnig um hinar mörgu konur á meðal okkar. (Sálmur 68:12) Við verðum ‚styrk‘ ef við treystum að faðirinn á himnum veiti okkur kraft til að gera vilja sinn. — Filippíbréfið 4:13.
4. Hver var undanfari þess að við tókum kristinni skírn?
4 Við tókum afstöðu með hinni sönnu trú þegar við vígðumst Jehóva skilyrðislaust og gáfum tákn um það með niðurdýfingarskírn.
-