Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Hvað áttu eftir að upplifa á safnaðarsamkomum hjá okkur?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
    • 5. HLUTI

      Hvað áttu eftir að upplifa á safnaðarsamkomum hjá okkur?

      Vottar Jehóva á samkomu í Argentínu.

      Argentína

      Samkoma hjá Vottum Jehóva í Síerra Leóne.

      Síerra Leóne

      Samkoma hjá Vottum Jehóva í Belgíu.

      Belgía

      Samkoma hjá Vottum Jehóva í Malasíu.

      Malasía

      Margir eru hættir að sækja guðsþjónustur af því að þeir fá hvorki hughreystingu né svör við stóru spurningunum í lífinu. Hvers vegna ættirðu þá að sækja safnaðarsamkomur hjá Vottum Jehóva? Hvað skyldir þú upplifa þar?

      Gleðina að vera meðal fólks sem er annt um þig. Kristnir menn á fyrstu öld skiptust í söfnuði og héldu samkomur til að tilbiðja Guð, ræða efni Biblíunnar og uppörva hver annan. (Hebreabréfið 10:24, 25) Andrúmsloftið var kærleiksríkt og þeir fundu að þeir voru meðal vina – trúsystkina sinna. (2. Þessaloníkubréf 1:3; 3. Jóhannesarbréf 14, 15) Við fylgjum þessari fyrirmynd og finnum til sömu gleði og þeir.

      Þú lærir að tileinka þér meginreglur Biblíunnar. Karlar, konur og börn safnast saman líkt og gert var á biblíutímanum. Hæfir kennarar nota Biblíuna til að sýna okkur fram á hvernig við getum lifað eftir meginreglum hennar dagsdaglega. (5. Mósebók 31:12; Nehemíabók 8:8) Allir mega taka þátt í almennum umræðum og söng. Það gefur okkur tækifæri til að tjá vonina sem við berum í brjósti. – Hebreabréfið 10:23.

      Þú styrkir trúna á Guð. Páll postuli skrifaði einum af söfnuðunum á fyrstu öld: „Ég þrái að sjá ykkur . . . svo að þið styrkist eða réttara sagt: Svo að við getum uppörvast saman í sömu trú, ykkar og minni.“ (Rómverjabréfið 1:11, 12) Með því að hitta trúsystkini að staðaldri á samkomum styrkjum við trúna og verðum enn ákveðnari í að lifa eftir meginreglum Biblíunnar.

      Hvernig væri að þiggja boðið og sækja næstu safnaðarsamkomu? Þá geturðu kynnst þessu af eigin raun. Það verður tekið vel á móti þér. Aðgangur að öllum samkomum er ókeypis og engin fjáröflun fer fram.

      • Hver er fyrirmyndin að safnaðarsamkomum okkar?

      • Hvernig er það okkur til góðs að sækja safnaðarsamkomur?

      SKOÐAÐU MÁLIÐ BETUR

      Langar þig til að skoða ríkissalinn áður en þú kemur á samkomu? Biddu þá einhvern vott Jehóva að sýna þér hann.

  • Hvernig er það okkur til góðs að eiga félagsskap við trúsystkini?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
    • 6. HLUTI

      Hvernig er það okkur til góðs að eiga félagsskap við trúsystkini?

      Vottar Jehóva að spjalla sama á samkomu.

      Madagaskar

      Vottur Jehóva að aðstoða trúbróður sinn.

      Noregur

      Safnaðaröldungar í heimsókn hjá trúsystur.

      Líbanon

      Vottar Jehóva að gera sér glaðan dag saman.

      Ítalía

      Við sækjum reglulega samkomur jafnvel þó að við þurfum að fara yfir fjöll og firnindi eða bjóða veðrinu birginn. Af hverju leggja vottar Jehóva svona mikið á sig til að eiga félagsskap við trúsystkini þótt ýmsar hindranir séu í veginum og þeir séu þreyttir eftir langan vinnudag?

      Það stuðlar að velferð okkar. „Gefum gætur hvert að öðru,“ skrifaði Páll og var þá með samskipti okkar við aðra í söfnuðinum í huga. (Hebreabréfið 10:24) Með þessu er átt við að við eigum að gera okkur far um að kynnast hvert öðru vel. Páll er því að hvetja til þess að við látum okkur annt um aðra. Þegar við kynnumst öðrum fjölskyldum í söfnuðinum uppgötvum við að sumar þeirra hafa sigrast á svipuðum erfiðleikum og við eigum í. Það getur hjálpað okkur að takast á við vandann.

      Við byggjum upp sterk vináttubönd. Þeir sem við hittum á samkomum eru ekki bara kunningjar okkar heldur nánir vinir. Við gerum okkur líka far um að hittast til að njóta heilnæmrar afþreyingar. Hvaða áhrif hefur það að umgangast trúsystkini með þessum hætti? Við fáum meiri mætur hvert á öðru og það styrkir kærleiksböndin. Þegar trúsystkini okkar eiga í erfiðleikum erum við meira en fús til að hjálpa þeim vegna þess að við erum orðin nánir vinir. (Orðskviðirnir 17:17) Með því að umgangast alla í söfnuðinum sýnum við að við ,berum sameiginlega umhyggju hvert fyrir öðru‘. – 1. Korintubréf 12:25, 26.

      Við hvetjum þig til að velja þér að vinum þá sem gera vilja Guðs. Þú getur eignast slíka vini meðal votta Jehóva. Láttu ekkert aftra þér frá að eiga félagsskap við okkur.

      • Af hverju er það að okkur til góðs að sækja safnaðarsamkomur?

      • Við hvaða tækifæri myndi þig langa til að kynnast söfnuðinum?

  • Hvernig fara samkomurnar fram?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
    • 7. HLUTI

      Hvernig fara samkomurnar fram?

      Samkoma hjá Vottum Jehóva á Nýja-Sjálandi.

      Nýja-Sjáland

      Samkoma hjá Vottum Jehóva í Japan.

      Japan

      Ungur vottur les úr Biblíunni í Úganda.

      Úganda

      Tvær systur í Litháen sýna hvernig biblíusamræður geta farið fram.

      Litháen

      Á samkomum frumkristinna manna var sungið, farið með bænir, lesið upp úr Ritningunni og rætt um efnið. (1. Korintubréf 14:26) Þær voru lausar við alla helgisiði. Í meginatriðum fara samkomur okkar fram með mjög svipuðum hætti.

      Fræðslan er gagnleg og byggð á Biblíunni. Um helgar kemur söfnuðurinn saman til að hlusta á biblíutengdan fyrirlestur. Hann er hálftíma langur og fjallað er um hvernig Biblían tengist lífi okkar og nútímanum. Allir eru hvattir til að fylgjast með í sinni eigin biblíu. Að ræðunni lokinni fer fram Varðturnsnám sem tekur klukkustund. Safnaðarmönnum er þá boðið að taka þátt í umræðum um grein í námsútgáfu Varðturnsins. Umræðan er okkur hvatning til að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar. Farið er yfir sama efni í öllum söfnuðum okkar í heiminum en þeir eru yfir 110.000 talsins.

      Við fáum leiðsögn til að verða betri kennarar. Við höldum einnig þrískipta samkomu eitt kvöld í viku sem nefnist Líf okkar og boðun. Dagskrá samkomunnar byggist á efni í samnefndri vinnubók sem kemur út mánaðarlega. Í fyrsta hluta samkomunnar, „Fjársjóðir í orði Guðs“, er rætt um nokkra kafla í Biblíunni sem safnaðarmenn hafa lesið fyrir fram. Í þeim næsta, „Leggðu þig fram við að boða trúna“, fylgjumst við með sýnidæmum um hvernig hægt sé tala við aðra um Biblíuna. Leiðbeinandi bendir á hvernig hægt sé að bæta sig í upplestri og ræðumennsku. (1. Tímóteusarbréf 4:13) Í síðasta hlutanum, „Líf okkar í kristinni þjónustu“, er rætt um hvernig við getum heimfært meginreglur Biblíunnar á daglegt líf. Farið er með spurningum og svörum yfir efni sem dýpkar skilning okkar á Biblíunni.

      Þegar þú sækir samkomur með okkur tekurðu eflaust eftir að biblíufræðslan, sem þú færð, er í háum gæðaflokki. – Jesaja 54:13.

      • Við hverju máttu búast á samkomum hjá Vottum Jehóva?

      • Hvaða samkomu langar þig til að sækja næst?

      SKOÐAÐU MÁLIÐ BETUR

      Kynntu þér eitthvað af efninu sem farið verður yfir á næstu samkomum. Kannaðu hvað þú getur lært af Biblíunni sem getur orðið þér að gagni í daglega lífinu.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila