Gangið ekki undir ok með vantrúuðum
„Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. . . . Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?“ — 2. KORINTUBRÉF 6:14, 15.
1. Hvernig bar það til að systir ein giftist manni utan trúarinnar?
FYRIR nokkrum árum missti kona í miðvesturhluta Bandaríkjanna, sem er vottur Jehóva, eiginmann sinn í umferðarslysi. „Ég var örvingluð í fyrstu,“ segir hún, „en staðráðin í að láta þetta ekki koma niður á þjónustu minni við Jehóva. Eftir á að giska tvö ár fór mér þó að líða eins og fimmta hjólinu undir vagninum þegar ég hafði félagsskap við hjón í söfnuðinum. Dóttur minni og mér var ekki alltaf boðið í útivistarferðir þar sem fjölskyldur komu saman. Mér fannst ég ein og yfirgefin þegar ég sá kristin hjón sýna hvoru öðru ástúð. Enginn virtist veita því athygli að andlegt þrek mitt fór sífellt dvínandi. Þegar því maður úr heiminum, sem ég þekkti úr vinnunni, bauð mér út að borða þáði ég boðið. Ég var orðin ástfangin af honum áður en ég vissi af. Að síðustu var ég orðin svo veiklunduð og þjökuð af einmanakennd að ég féllst á að giftast honum.“
2. Hvers vegna er það eðlilegt að langa til að ganga í hjónaband og hvað átti hjónabandið að vera?
2 Löngunin til að eiga maka að deila ævinni með getur verið afarsterk og hún er einnig eðlileg. Eins og Jehóva orðaði það sjálfur: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mósebók 2:18) Hjónaband átti að vera náið, varanlegt band karls og konu. Það var ekki Adam heldur Jehóva sem sagði: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ (1. Mósebók 2:22-24; samanber Matteus 19:4-6.) Ef til vill þráir þú að eignast slíkan félaga ‚við þitt hæfi.‘
3, 4. (a) Hvernig varar Biblían við nánu sambandi við þá sem ekki trúa? (b) Á hvaða hátt geta heilræði Páls varðandi „ósamkynja ok“ átt við hjónaband? (c) Hvernig hafa kristnir menn í Korintu skilið orðið ‚vantrúaður‘? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
3 Biblían varar okkur þó við því að stofna til náinna tengsla við þá sem ekki eru í trúnni. Páll postuli orðaði það þannig: „Gangið ekki undir ósamkynja ok [„látið ekki spenna ykkur í ójafnt sameyki,“ The Jerusalem Bible] með vantrúuðum.a . . . Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?“b (2. Korintubréf 6:14, 15) Páll kann að hafa haft í huga bann móselaganna við því að spenna uxa og asna saman fyrir sama plóg. (5. Mósebók 22:10) Asninn er smærri en uxinn og ekki eins sterkur og hann og myndi líða undir svona ójöfnu oki. Þar eð hjónaband er líkt og ok, sem bindur hjónin saman, yrði okið ójafnt ef kristinn maður giftist þeim sem ekki er í trúnni. (Matteus 19:6) Slíkt ok hefur oft í för með sér vandamál og reynir á hjónabandið. — Samanber 1. Korintubréf 7:28.
4 Sumir kristnir menn hafa þó kosið að giftast þeim sem ekki eru í trúnni, líkt og frásagan í greinarbyrjun ber með sér. Hvers vegna finnst sumum erfitt að fylgja því ákvæði að giftast „aðeins . . . í Drottni“? — 1. Korintubréf 7:39.
Hvers vegna sumir leita annars staðar
5. Skýrðu með dæmi hvernig kristinn karl eða kona getur orðið ástfangin af einhverjum sem ekki trúir.
5 Það er ekki endilega svo að menn ætli sér frá upphafi að virða leiðbeiningar Guðs að vettugi. Við skulum til dæmis hugsa okkur kristna systur sem langar til að giftast. Hún reynir að finna sér kristinn eiginmann en það eru ekki margir einhleypir bræður sem koma til greina í hópi kristinna vina hennar. Hún hefur áhyggjur af aldri sínum. Hana langar kannski til að eignast börn. Óttinn við að verða gömul og þurfa að standa ein getur gert hana varnarlitla. Ef maður úr heiminum sýnir henni svo áhuga getur mótstöðuaflið verið lítið. Hann virðist kannski góðviljaður og blíður, reykir ekki og er ekki með ljótan munnsöfnuð. Síðan fer hún að réttlæta afstöðu sína: ‚Hann er meira að segja betri en fjölmargir bræður sem ég þekki!‘ ‚Hann hefur áhuga á að nema.‘ ‚Ég veit nokkur dæmi þess að systur hafi gifst mönnum utan sannleikans og núna eru þeir bræður.‘ ‚Það eru nú til kristin hjónabönd sem ganga ekki sem best!‘ — Sjá Jeremía 17:9.
6, 7. (a) Hvernig lýsir ógift systir stöðu sinni? (b) Hvaða spurningar eru íhugunarverðar?
6 Einhleypur kristinn maður, sem langar til að ganga í hjónaband, getur verið í mjög erfiðri aðstöðu. Sumir verða jafnvel örvæntingarfullir. „Hér eru afar fáir bræður á lausu,“ segir einhleyp systir um ástandið þar sem hún býr. „Hins vegar eru hér mjög margar einhleypar systur. Þegar systir sér ungdómsárin þjóta fram hjá stendur hún frammi fyrir tveim kostum: að giftast ekki eða að giftast þeim fyrsta sem völ er á.“
7 Leiðbeiningar Biblíunnar eru eigi að síður ótvíræðar: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum.“ (2. Korintubréf 6:14) Er þessi aðvörun Guðs harðneskjuleg eða ósanngjörn?
Merki um kærleiksríka umhyggju Guðs
8. Hvernig hefur Jehóva sýnt að hann vill okkur allt hið besta?
8 Jehóva ber djúpa umhyggju fyrir varanlegri velferð okkar. Fórnaði hann ekki miklu þegar hann gaf son sinn „til lausnargjalds fyrir marga?“ (Matteus 20:28) Er það ekki ‚hann sem kennir okkur það sem okkur er gagnlegt‘? (Jesaja 48:17) Heitir hann ekki að hann muni ‚ekki láta freista okkar um megn fram‘? (1. Korintubréf 10:13) Það hlýtur því að vera með hag okkar í huga að hann býður okkur að ganga ekki undir ok með þeim sem ekki trúa! Við skulum nú íhuga hvernig þessi aðvörun er merki kærleika hans og umhyggju fyrir okkur.
9. (a) Hvernig varar Páll kristna menn við nánum tengslum við þá sem ekki trúa? (b) Hver er merking gríska orðsins, sem þýtt er „samhljóðan,“ og hvernig lýsir það þeim erfiðleikum sem verða þegar kristinn maður binst þeim sem ekki trúir?
9 Samkvæmt tilgangi skaparans átti hjónaband að vera sterkasta band milli manna sem hugsast gæti, þannig að karl og kona yrðu „eitt hold.“ (1. Mósebók 2:24) Er skynsamlegt af kristnum manni að bindast svo nánum böndum þeim sem ekki er í trúnni? Til svars við því varpar Páll fram nokkrum nærgöngulum spurningum sem hver um sig hefur neikvætt svar að forsendu: „Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan [á grísku symfonesis] Krists við Belíar [Satan]? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?“ (2. Korintubréf 6:14, 15) Gríska orðið symfonesis merkir í orðréttri þýðingu „samhljómur“ (af syn, „með,“ og fone „hljóð“). Það vísar til samhljóms hljóðfæra. Að sjálfsögðu getur enginn samhljómur verið með Kristi og Satan. Eins er afar erfitt fyrir karl og konu undir ójöfnu samoki að ‚stilla strengi sína saman.‘ Þau eru eins og tvö hljóðfæri sem leika ekki saman og framkalla þannig hávaða en ekki tónlist.
10. Nefndu þrjú, mikilvæg frumatriði hamingjuríks hjónabands. Hvaða kosti hefur það að ganga undir jöfnu oki?
10 Hvernig ætti andlegur maður að getað verið fullkomlega samstilltur ‚manni án anda‘? (1. Korintubréf 2:14) Sameiginlegar trúarskoðanir, meginreglur og markmið eru grundvallaratriði hamingjuríks hjónabands. Ekkert veitir hjónabandi meiri styrk en gagnkvæm hollusta við skaparann. Þá ganga maður og kona undir jöfnu oki og geta hvatt hvort annað í sannri guðsdýrkun. Bæði geta leitað hjálpar Biblíunnar til að útkljá ágreiningsmál sín. Er það þá ekki ljóst að tilgangur Jehóva með því að segja okkur að ganga ekki undir ok með vantrúuðum er sá að hann vill að við njótum sem nánastra tengsla við maka okkar?
11. Hvers vegna var Ísraelsmönnum bannað að stofna til hjúskapar við þá sem ekki tilbáðu Jehóva og hvaða umhugsunarverðar spurningar vekur það?
11 Það að fylgja aðvörun Biblíunnar hlífir okkur einnig við þeim sársauka sem oft fylgir því er kristinn maður gengur undir ok með þeim sem ekki er í trúnni. Til dæmis er sú hætta fyrir hendi að hinn vantrúaði snúi kristnum maka sínum frá tilbeiðslunni á Jehóva. Mundu eftir varnaðarorðum Jehóva til Ísraelsmanna forðum daga. Þeim var bannað að stofna til hjúskapar við þá sem ekki tilbáðu hann. Hvers vegna? „Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig,“ aðvaraði Jehóva, „og koma þeim til að dýrka aðra guði.“ (5. Mósebók 7:3, 4) Ef kristinn maður mætir andstöðu maka síns, sem ekki er í trúnni, getur honum fundist freistandi að gera það sem auðveldast er — láta undan. Það er auðvelt að ímynda sér að slíkt geti ekki komið fyrir mann sjálfan, en þannig fór þó fyrir Salómon þrátt fyrir visku hans. Gæti ekki hið sama komið fyrir þig? — 1. Konungabók 11:1-6; samanber 1. Konungabók 4:29, 30.
12. Hvernig var bann Guðs gegn hjónaböndum við útlendinga vernd fyrir Ísraelsmenn? Lýstu með dæmi.
12 Jafnvel þótt hinum trúaða sé ekki snúið frá sannri guðsdýrkun er eftir sem áður við að glíma erfiðleika og álag sem fylgja trúarlega sundurskiptu heimili. Lítum aftur á lögmál Guðs til Ísraels. Setjum svo að ísraelsk stúlka hafi fallist á að giftast kanverskum manni. Í ljósi þess sem tíðkaðist í kynlífi Kanverja, er þá líklegt að hann hefði borið virðingu fyrir lögmáli þess Guðs sem hún tilbað? Hefði hann til dæmis fúslega haldið sér frá kynmökum meðan tíðablæðingar stóðu yfir hjá henni, eins og móselögin kröfðust?c (3. Mósebók 18:19; 20:18; samanber 3. Mósebók 18:27.) Ef ísraelskur karlmaður hefði gengið að eiga kanverska stúlku, ætli hún hefði þá stutt hann af heilum hug er hann fór til Jerúsalem þrisvar á ári til að halda hátíðir? (5. Mósebók 16:16) Augljóst er að bann Guðs gegn slíkum hjónaböndum var Ísraelsmönnum til verndar.
13. (a) Hvers vegna er samviska veraldlegs manns ekki kristin, ekki mótuð af Biblíunni? (b) Hvaða erfiðleikar og álag geta mætt kristnum manni á trúarlega sundurskiptu heimili?
13 Hvað um nútímann? Siðferði fólks í heiminum á lítið sameiginlegt með siðaboðum Biblíunnar. Það skiptir engu máli hve snyrtilegt og indælt sumt fólk í heiminum virðist vera; samviska þess er ekki kristin, ekki þjálfuð af Biblíunni. Það hefur ekki varið mörgum árum í að nema orð Guðs, ‚endurnýja hugarfarið‘ og ‚afklæðast hinum gamla manni.‘ (Rómverjabréfið 12:2; Kólossubréfið 3:9) Kristinn maður, sem gengur undir ójafnt ok með einstaklingi sem ekki trúir, gerir sig því oft berskjaldaðan fyrir margs kyns sorgum og raunum. Sumir þurfa aftur og aftur að berjast gegn þrýstingi í þá átt að taka þátt í afbrigðilegum kynlífsathöfnum eða halda upp á veraldlega helgidaga. Og sumir kvarta jafnvel undan einmanakennd. Systir skrifaði: „Sú einmanakennd, sem maður finnur fyrir þegar maður er giftur þeim sem elskar ekki Jehóva, er versta einmanakennd sem hugsast getur. Þá hefur maður engan til að deila með því mikilvægasta í lífinu, sannleikanum.“
14. (a) Hvers vegna er erfitt að ala upp börn með ‚aga og umvöndun Jehóva‘ á trúarlega sundurskiptu heimili? (b) Hvaða áhrif getur það haft á börnin að alast upp við þær aðstæður?
14 Afar erfitt getur reynst að ala upp börn ‚með aga og umvöndun Jehóva‘ á trúarlega sundurskiptu heimili. (Efesusbréfið 6:4) Mun það foreldri, sem ekki er í trúnni, til dæmis með fúsu geði leyfa börnunum að sækja samkomur eða taka þátt í þjónustunni á akrinum? Oft verður mikil togstreita í tilfinningalífi barnanna — þau elska báða foreldra sína en aðeins annað foreldranna elskar Jehóva. Systir, sem giftist manni utan trúarinnar, segir: „Ég gekk í gegnum margar raunir í 20 ára hjónabandi mínu. Synir mínir ólust upp við mikið tilfinningarót og tilheyra nú heiminum. Dóttur minni líður oft illa út af því að þurfa að vera svo oft í burtu frá mér vegna umgengnisréttar föður hennar við hana. Öll þessi vandamál eru því að kenna að ég kaus að virða ekki eina af meginreglum Jehóva þegar ég var átján ára gömul.“ Hvaða meginregla er það? Að ganga ekki undir ok með vantrúuðum!
15. Hvers vegna ræður Jehóva okkur að ganga ekki undir ok með vantrúuðum?
15 Ljóst er að Jehóva vill að við njótum lífsins sem allra best. Það sem hann ætlast til af okkur, meðal annars að við göngum ekki undir ok með vantrúuðum, er okkur til góðs. (5. Mósebók 10:12, 13) Sá sem velur sér maka utan kristna safnaðarins virðir að vettugi heilræði Biblíunnar, heilbrigða skynsemi og sársaukafulla reynslu margra annarra.
Spurningar sem oft er spurt
16, 17. (a) Hvers vegna gætu tilfinningar skyggt á heilbrigða dómgreind ef við erum ekki varkár? (b) Er hægt að leyfa sér að sniðganga heilræði Guðs vegna þess að við þekkjum dæmi þess að kristinn maður hafi gengið að eiga einhvern utan trúarinnar og nú séu þau bæði þjónar Jehóva? Skýrðu svarið.
16 Ef við erum ekki gætin er eigi að síður hætta á að tilfinningar okkar verði heilbrigðri hugsun yfirsterkari. Okkur getur farið að finnast að gera megi undantekningu í okkar tilviki. Við skulum nú íhuga nokkrar spurningar sem oft eru bornar fram.
17 Hvað um þau tilfelli þar sem bróðir eða systir valdi sér maka utan trúarinnar og nú þjóna þau bæði Jehóva? Það breytir ekki því að meginreglur Jehóva voru brotnar. Helgar tilgangurinn meðalið? Eftir heimför Gyðinga úr útlegðinni í Babýlon kom upp staða sem sýnir afstöðu Guðs til þeirra sem virða leiðbeiningar hans að vettugi. Er sumir þeirra tóku sér erlendar konur töluðu biblíuritararnir enga tæpitungu er þeir fordæmdu verknað þeirra. Þessir Gyðingar höfðu „rofið tryggðir,“ framið ‚mikla óhæfu‘ og ‚sýnt ótrúmennsku.‘ (Esra 10:10-14; Nehemía 13:27) Annað er íhugunarvert: Þegar við göngum gegn heilræðum Guðs vinnum við sjálfum okkur andlegt tjón og særum samvisku okkar. Systir segir: ‚Ég er enn að glíma við hinar tilfinningalegu afleiðingar. Ég get ekki lýst því hve hræðilega mér líður þegar aðrir benda á okkur og segja: „En það fór vel hjá þeim,“‘ en maður hennar hafði með tímanum tekið trú.
18. Hvað er skynsamlegt af þér að gera ef þú ert hrifinn af einhverjum sem enn er ekki skírður, og hvað sýnir þú með því?
18 Hvað átt þú að gera ef þú ert hrifinn af einhverjum sem er að nema Biblíuna og sækir samkomur, en er þó ekki skírður? Það er okkur alltaf gleðiefni þegar fólk sýnir sannleikanum áhuga. Spurningin er hins vegar sú hvort þú eigir að leyfa tilfinningum þínum að blómstra. Í hreinskilni sagt er skynsamlegt að bíða með að draga sig eftir þessum einstaklingi uns hann hefur verið skírður um tíma og tekur framförum í að þroska ávexti anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Það er kannski ekki auðvelt að fylgja þessu ráði, en ef þú gerir það ber það vitni um tryggð þína við meginreglur Biblíunnar, og það er góður grundvöllur sannrar hamingju í hjónabandi. Ef þessum einstaklingi þykir í alvöru vænt um þig og er að rækta með sér kærleika til Jehóva, þá er hann vafalaust fús til að bíða uns þið eruð bæði „í Drottni“ — vígð og skírð — áður en þið byrjið að draga ykkur saman. Mundu að sönn ást bíður ekki tjón af því þótt tíminn líði. — 1. Korintubréf 7:39; 1. Mósebók 29:20.
19. Hvað ættir þú að hafa í huga ef þú átt erfitt með að finna þér maka innan bræðrafélagsins?
19 Hvað átt þú að gera ef þú átt erfitt með að finna maka við þitt hæfi innan bræðrafélagsins? „Ég er 26 ára, ógift og mjög einmana,“ segir systir. Það getur að vísu verið erfitt að vera einhleypur, en vandamálin, sem fylgja því að ganga undir ójöfnu oki í hjónabandi, geta verið enn erfiðari! Það krefst trúar, sjálfstjórnar og þolinmæði að hlýða boðum Guðs, en þú mátt vera viss um að Jehóva veit hvað þér er fyrir bestu og vill að þú njótir þess. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Leggðu málið fyrir Jehóva í bæn og bíddu þess síðan að hann svari henni. (Sálmur 55:23) Í þessu heimskerfi getur enginn notið fullkominnar lífsfyllingar. Þú þráir kannski innilega í hjarta þínu að eiga þér maka, en aðrir eiga líka við sín vandamál að glíma og sum þeirra verða ekki leyst í þessu heimskerfi. Það er ekki fyrr en í hinum komandi, nýja heimi sem Jehóva mun svala fullkomlega þrá alls sem lifir. — Sálmur 145:16.
20. Hvaða ásetning lét einhleyp systir í ljós og hvaða lífsfyllingar getur þú notið ef þú sýnir sömu einbeitni?
20 Vertu því staðráðinn í að ganga ekki undir ok með þeim sem ekki trúir. Ógift systir, 36 ára gömul, lýsir ásetningi sínum þannig: „Ég bið Jehóva dag hvern um eiginmann. Mig langar alls ekkert að leita mér að manni utan skipulags Jehóva, en freistingin er fyrir hendi. Uns ég finn þann rétta ætla ég mér að rækta þá eiginleika sem munu fegra persónuleika minn, þannig að ég verði þess konar andleg kona sem andlegur maður er að leita sér.“ Ert þú jafneinbeittur? Þá getur þú notið þeirrar lífsfyllingar sem fylgir því að sýna Guði réttlætisins hollustu þína. — Sálmur 37:27, 28.
[Neðanmáls]
a Í 1. Korintubréfi 14:22 notar Páll orðið ‚vantrúaður‘ sem andheiti ‚þeirra er trúa,‘ það er að segja eru skírðir. Korintumenn hafa því skilið orðið ‚vantrúaður‘ sem óskírður einstaklingur. — Sjá Postulagsöguna 8:13; 16:31-34; 18:8.
b Í víðari merkingu mætti orða þessa meginreglu þannig: ‚Stofnið ekki til neins konar sambands, hvorki skammvinns né varanlegs, við vantrúaða sem gæti leitti til þess að vikið yrði frá kristnum stöðlum eða dregið úr stöðuglyndi kristins votts. Og hvers vegna að halda slíkri aðgreiningu til streitu? Vegna þess að hinn vantrúaði hefur ekki sömu lífsgildi, samkennd og markmið og hinn kristni maður.‘“ — The Expositor’s Bible Commentary, 10. bindi, bls. 359.
c Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. september 1972, bls. 575-6.
Veistu svarið?
◻ Hvernig varar Biblían okkur við nánum tengslum við vantrúaða?
◻ Hvers vegna kemur fyrir að vígðir kristnir menn leiti sér maka utan safnaðarins?
◻ Hvernig er aðvörun Jehóva gegn ‚ójöfnu oki‘ tákn um kærleika hans og umhyggju fyrir okkur?
◻ Hvaða spurninga um hjónaband er oft spurt og hvernig svarar þú þeim?