-
Örlagaríkur dagur rennur uppMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 105
Örlagaríkur dagur rennur upp
JESÚS fer til Betaníu í austurhlíð Olíufjallsins þegar hann yfirgefur Jerúsalem á mánudagskvöldi. Tveir dagar eru liðnir af lokaþjónustu hans í Jerúsalem. Eflaust gistir hann aftur hjá vini sínum Lasarusi um nóttina. Hann kom frá Jeríkó á föstudegi svo að þetta er fjórða nóttin hans í Betaníu.
Árla morguns þriðjudaginn 11. nísan er hann aftur á leið til Jerúsalem ásamt lærisveinunum. Þessi dagur á eftir að reynast örlagaríkur og sá annasamasti í þjónustu Jesú fram til þessa. Þetta er síðasti dagurinn sem hann sýnir sig í musterinu og síðasti dagurinn sem hann prédikar meðal almennings fyrir réttarhöld sín og aftöku.
Jesús og lærisveinarnir fara sömu leið yfir Olíufjallið til Jerúsalem og áður. Pétur kemur auga á fíkjutréð sem Jesús formælti við veginn frá Betaníu morguninn áður. „Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað,“ segir hann.
Af hverju drap Jesús tréð? Það kemur fram í svari hans: „Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta [Olíufjallið sem þeir standa á]: ‚Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,‘ og svo mundi fara. Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið.“
Með því að láta fíkjutréð visna er Jesús því að kenna lærisveinunum hve mikilvægt sé að trúa á Guð. Hann segir: „Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast.“ Þetta er þýðingarmikill lærdómur, einkum í ljósi þeirra erfiðu prófrauna sem þeir eiga í vændum. En það er líka annað samband milli trúarstaðfestu og fíkjutrésins sem visnaði.
Ísraelsþjóðin villir á sér heimildir líkt og fíkjutréð. Enda þótt þjóðin sé í sáttmálasambandi við Guð og virðist á yfirborðinu halda boð hans hefur hún sýnt að hún hefur enga trú og ber ekki góðan ávöxt. Vegna trúleysis er hún jafnvel í þann mund að hafna Guðs eigin syni! Með því að láta ófrjóa fíkjutréð visna er Jesús að sýna skýrt og greinilega fram á hvernig fari að lokum fyrir þessari trúlausu þjóð sem engan ávöxt ber.
Stuttu síðar eru Jesús og lærisveinarnir komnir til Jerúsalem og halda eins og venjulega til musterisins þar sem Jesús tekur að kenna. Æðstuprestarnir og öldungarnir skora á hann, eflaust minnugir þess sem hann gerði daginn áður gagnvart víxlurunum: „Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?“
Jesús svarar: „Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta. Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?“
Prestarnir og öldungarnir ráðgast hver við annan hvernig þeir eigi að svara. „Ef vér svörum: ‚Frá himni,‘ spyr hann: ‚Hví trúðuð þér honum þá ekki?‘ Ef vér segjum: ‚Frá mönnum,‘ megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann.“
Leiðtogarnir vita ekki hverju þeir eiga að svara svo þeir segja: „Vér vitum það ekki.“
Jesús svarar þá: „Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.“ Matteus 21:19-27; Markús 11:19-33; Lúkas 20:1-8.
▪ Hvað er sérstakt við þriðjudaginn 11. nísan?
▪ Hvað er Jesús að kenna með því að láta fíkjutréð visna?
▪ Hvernig svarar Jesús þeim sem spyrja með hvaða valdi hann geri það sem hann gerir?
-
-
Dæmisögur um víngarðinn afhjúpa þáMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 106
Dæmisögur um víngarðinn afhjúpa þá
JESÚS er í musterinu. Hann er nýbúinn að stinga upp í trúarleiðtogana sem heimtuðu að fá að vita með hvaða valdi hann gerði það sem hann gerði. En áður en þeir ná áttum spyr Jesús: „Hvað virðist yður?“ Síðan segir hann dæmisögu til að sýna fram á hvers konar menn þeir séu í raun og veru.
„Maður nokkur átti tvo sonu,“ segir Jesús. „Hann gekk til hins fyrra og sagði: ‚Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.‘ Hann svaraði: ‚Það vil ég ekki.‘ En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ‚Já, herra,‘ en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?“
„Sá fyrri,“ svara andstæðingarnir.
Þá segir Jesús: „Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.“ Segja má að tollheimtumenn og skækjur hafi í fyrstu neitað að þjóna Guði en síðan iðrast og þjónað honum líkt og fyrri sonurinn. Trúarleiðtogarnir sögðust hins vegar þjóna Guði líkt og síðari sonurinn, svo Jesús segir við þá: „Jóhannes [skírari] kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.“
Því næst sýnir hann fram á að trúarleiðtogarnir hafi ekki aðeins vanrækt að þjóna Guði heldur séu þeir bæði illir og óguðlegir. Hann segir: „Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.“
‚Þjónarnir‘ eru spámennirnir sem ‚landeigandinn,‘ Jehóva Guð, sendi til „vínyrkjanna“ í ‚víngarði‘ sínum. Þessir vínyrkjar eru fulltrúar og leiðtogar Ísraelsþjóðarinnar sem Biblían kallar „víngarð“ Guðs.
„Vínyrkjarnir“ misþyrma og drepa ‚þjónana‘ svo Jesús heldur áfram: „Síðast sendi [landeigandinn] til þeirra son sinn og sagði: ‚Þeir munu virða son minn.‘ Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ‚Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.‘ Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.“
Síðan spyr Jesús trúarleiðtogana: „Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?“
Þeir svara: „Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.“
Trúarleiðtogarnir eru þannig óafvitandi búnir að dæma sjálfa sig því að þeir teljast til „vínyrkjanna“ í ‚víngarði‘ Jehóva sem var Ísraelsþjóðin. Ávöxturinn, sem Jehóva ætlast til af þessum vínyrkjum, er trú á son hans, hinn sanna Messías. En þeir bera ekki slíkan ávöxt svo að Jesús varar þá við: „Hafið þér aldrei lesið í ritningunum [í Sálmi 118:22, 23]: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk [Jehóva], og undursamlegt er það í augum vorum. Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.“
Nú skilja fræðimennirnir og æðstuprestarnir að Jesús á við þá og vilja drepa hann, hinn réttmæta ‚erfingja.‘ Þau sérréttindi að vera stjórnendur í ríki Guðs verða því tekin frá þeim sem þjóð og ný þjóð ‚vínyrkja‘ mynduð sem ber góðan ávöxt.
Trúarleiðtogarnir óttast fólkið, sem telur Jesú vera spámann, og reyna ekki að drepa hann að þessu sinni. Matteus 21:28-46; Markús 12:1-12; Lúkas 20:9-19; Jesaja 5:1-7.
▪ Hverja tákna synirnir tveir í fyrri dæmisögu Jesú?
▪ Hvern táknar ‚landeigandinn,‘ ‚víngarðurinn,‘ „vínyrkjarnir,“ ‚þjónarnir‘ og „erfinginn“ í síðari dæmisögunni?
▪ Hvað verður um ‚vínyrkjana‘ og hverjir koma í þeirra stað?
-
-
Dæmisagan um brúðkaupsveislunaMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 107
Dæmisagan um brúðkaupsveisluna
JESÚS hefur afhjúpað fræðimennina og æðstuprestana með tveim dæmisögum og þeir vilja hann feigan. En Jesús er ekki skilinn að skiptum við þá og segir þeim þriðju dæmisöguna:
„Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.“
Jehóva Guð er konungurinn sem undirbýr brúðkaupsveislu sonar síns, Jesú Krists. Þegar þar að kemur verður brúður Jesú, 144.000 smurðir fylgjendur hans, sameinuð honum á himnum. Þegnar konungsins eru Ísraelsmenn sem fengu tækifæri til að verða „prestaríki“ með tilkomu lagasáttmálans árið 1513 f.o.t. Þeim var því upphaflega boðið til brúðkaupsins þá.
Fyrra kallið til boðsgestanna kom þó ekki fyrr en haustið 29 þegar Jesús og lærisveinar hans (þjónar konungsins) tóku að prédika Guðsríki. En Ísraelsmenn að holdinu, sem þjónarnir kölluðu frá árinu 29 til 33, vildu ekki koma. Guð gaf hinni boðnu þjóð þá annað tækifæri eins og Jesús greinir frá:
„Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ‚Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.‘“ Þetta síðara kall til boðsgestanna hófst á hvítasunnunni árið 33 þegar heilögum anda var úthellt yfir fylgjendur Jesú og því var fram haldið til ársins 36.
En langflestir Ísraelsmenn skeyttu ekki heldur þessu kalli. „Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu,“ segir Jesús og heldur áfram: „Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.“ Það gerðist árið 70 þegar Rómverjar jöfnuðu Jerúsalem við jörðu og drápu þessa morðingja.
Jesús útskýrir hvað gerðist þangað til: „Síðan segir [konungurinn] við þjóna sína: ‚Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.‘“ Þjónarnir gerðu það „svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.“
Þessi gestasöfnun á vegum úti, utan borgarinnar þar sem boðsgestirnir bjuggu, hófst árið 36. Rómverski liðsforinginn Kornelíus og fjölskylda hans voru fyrstu óumskornu mennirnir utan Gyðingaþjóðarinnar sem safnað var. Samansöfnun þessara annarra þjóða manna í stað upphaflegra boðsgesta, sem skeyttu ekki kallinu, hefur haldið áfram allt fram á 20. öldina.
Það er á 20. öldinni sem brúðkaupssalurinn fyllist. Jesús segir hvað þá gerist: „Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: ‚Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?‘ Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: ‚Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.‘“
Maðurinn án brúðkaupsklæða táknar gervikristna menn kristna heimsins. Guð hefur aldrei viðurkennt þá sem andlega Ísraelsmenn því að þeir hafa ekki rétt auðkenni. Hann hefur aldrei smurt þá með heilögum anda sem erfingja Guðsríkis. Þeim er því kastað út í ystu myrkur þar sem þeir tortímast.
Jesús lýkur dæmisögunni og segir: „Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.“ Já, margir voru kallaðir eða boðnir úr Ísraelsþjóðinni til að verða hluti af brúði Krists en aðeins fáeinir útvaldir. Flestir gestanna 144.000, sem hljóta himneska umbun, eru útvaldir úr öðrum þjóðum. Matteus 22:1-14; 2. Mósebók 19:1-6; Opinberunarbókin 14:1-3.
▪ Hverjum var upphaflega boðið til brúðkaupsveislunnar og hvenær?
▪ Hvenær eru boðsgestirnir fyrst kallaðir og hverjir eru þjónarnir sem kalla þá?
▪ Hvenær er kallað öðru sinni og hverjum er síðan boðið?
▪ Hverja táknar maðurinn án brúðkaupsklæða?
▪ Hverjir eru hinir mörgu, sem eru kallaðir, og hinir fáu útvöldu?
-
-
Þeim tekst ekki að veiða Jesú í orðumMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 108
Þeim tekst ekki að veiða Jesú í orðum
FARÍSEARNIR eru ævareiðir yfir því að Jesús skuli hafa verið að kenna í musterinu, en hann er nýbúinn að segja trúarlegum óvinum sínum þrjár dæmisögur sem afhjúpa illsku þeirra. Þeir taka því saman ráð sín hvernig þeir geti fengið hann til að segja eitthvað sem hægt sé að handtaka hann fyrir og þeir senda lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum til að leggja gildru fyrir hann.
„Meistari,“ segja þeir, „vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun. Seg oss því, hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“
Jesús lætur ekki blekkjast af fagurgala þeirra. Hann veit að ef hann svarar: ‚Nei það er óleyfilegt eða rangt að gjalda þennan skatt,‘ þá gerir hann sig sekan um undirróður gegn Róm. En ef hann segir: ‚Já, það á að greiða skattinn,‘ þá kallar hann yfir sig hatur Gyðinga sem hafa andstyggð á kúgun Rómar. Hann svarar þess vegna: „Hví freistið þér mín, hræsnarar? Sýnið mér peninginn, sem goldinn er í skatt.“
Þeir færa honum pening og hann spyr: „Hvers mynd og yfirskrift er þetta?“
„Keisarans,“ svara þeir.
„Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ Mennirnir undrast snilldarsvar Jesú og ganga burt.
Þegar saddúkear, sem neita að upprisa sé til, sjá að faríseunum mistekst að finna nokkuð gegn Jesú koma þeir að máli við hann og spyrja: „Meistari, Móse segir: ‚Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.‘ Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. Síðast allra dó konan. Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.“
Jesús svarar: „Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs? Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum. En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ‚Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.‘ Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega.“
Enn á ný undrast mannfjöldinn svar Jesú. Jafnvel nokkrir fræðimenn viðurkenna: „Vel mælt, meistari.“
Þegar farísearnir komast að raun um að Jesús hefur gert saddúkeana orðlausa koma þeir til hans í einum hóp. Til að reyna hann enn frekar spyr einn fræðimaður úr hópnum: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“
Jesús svarar: „Æðst er þetta: ‚Heyr, Ísrael! [Jehóva], Guð vor, hann einn er [Jehóva]. Og þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘ Annað er þetta: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ Hann bætir við: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“
„Rétt er það, meistari,“ samsinnir fræðimaðurinn, „satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“
Jesús heyrir að fræðimaðurinn svarar viturlega og segir honum: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“
Jesús hefur nú kennt í musterinu í þrjá daga — sunnudag, mánudag og þriðjudag. Fólkið hefur hlustað á hann með ánægju en trúarleiðtogarnir vilja drepa hann en hefur ekki tekist það enn. Matteus 22:15-40; Markús 12:13-34; Lúkas 20:20-40.
▪ Hvernig reyna farísearnir að veiða Jesú í orðum og hvaða afleiðingar hefði það ef hann svaraði játandi eða neitandi?
▪ Hvernig ónýtir Jesús tilraunir saddúkeanna til að veiða hann í orðum?
▪ Hvernig reyna farísearnir enn að leiða Jesú í gildru og hvernig fer?
▪ Hve marga daga kennir Jesús í musterinu á þessari síðustu ferð sinni til Jerúsalem og með hvaða árangri?
-
-
Jesús fordæmir andstæðinga sínaMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 109
Jesús fordæmir andstæðinga sína
JESÚS hefur rekið trúarlega andstæðinga sína á gat svo að þeir þora ekki að spyrja hann neins framar. Hann afhjúpar því fáfræði þeirra að eigin frumkvæði. „Hvað virðist yður um Krist?“ spyr hann. „Hvers son er hann?“
„Davíðs,“ svara farísearnir.
Jesús neitar ekki að Davíð sé holdlegur forfaðir Krists eða Messíasar en spyr áfram: „Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum [í Sálmi 110], kallað hann drottin? Hann segir: [Jehóva] sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?“
Farísearnir þegja af því að þeir vita ekki hver Kristur, hinn smurði, raunverulega er. Messías er ekki bara einhver mennskur afkomandi Davíðs eins og farísearnir virðast trúa, heldur var hann til áður á himnum og var yfir Davíð eða drottinn hans.
Jesús snýr sér nú að mannfjöldanum og lærisveinunum og varar við fræðimönnunum og faríseunum. Þeir kenna lögmál Guðs og sitja þar með „á stóli Móse“ svo að Jesús hvetur: „Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“
Þeir eru hræsnarar og Jesús fordæmir þá með mjög líkum orðum og hann gerði er hann mataðist í húsi farísea nokkrum mánuðum áður. „Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum,“ segir hann. Og hann nefnir dæmi:
„Þeir breikka minnisborða sína.“ Minnisborðarnir voru lítil hulstur, sem þeir báru á enni sér eða handlegg, með fjórum glefsum úr lögmálinu: 2. Mósebók 13:1-10, 11-16 og 5. Mósebók 6:4-9; 11:13-21. En farísearnir stækka hulstrin til að líta út fyrir að vera kostgæfnir gagnvart lögmálinu.
Jesús heldur áfram og segir að þeir ‚stækki skúfana.‘ Í 4. Mósebók 15:38-40 er Ísraelsmönnum fyrirskipað að gera skúfa eða kögur á klæðafaldi sínum, en farísearnir hafa skúfana stærri en nokkur annar. Þeir gera allt til að láta á sér bera! „Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti,“ segir Jesús.
Því miður hefur þessi löngun til að láta á sér bera jafnvel haft áhrif á lærisveina hans. Hann ráðleggur því: „En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ Lærisveinarnir verða að losa sig við löngunina að vilja vera fremstir! „Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar,“ áminnir Jesús.
Því næst fordæmir hann fræðimennina og faríseana harðlega og kallar þá hvað eftir annað hræsnara. Þeir ‚læsa himnaríki fyrir mönnum,‘ segir hann, ‚og eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini.‘
„Vei yður, blindir leiðtogar!“ segir Jesús. Hann fordæmir faríseana fyrir að hafa ekki andlegt gildismat eins og gerræðisleg túlkun þeirra ber vitni um. Þeir segja til dæmis: „Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.“ Með því að leggja meiri áherslu á gullið í musterinu en á andlegt gildi tilbeiðslustaðarins afhjúpa þeir siðblindu sína.
Síðan fordæmir hann faríseana, eins og hann gerði áður, fyrir að hirða ekki um það sem „mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti,“ en gefa meiri gaum að því að gjalda tíund af lítilfjörlegum kryddjurtum.
Jesús kallar faríseana ‚blinda leiðtoga sem sía mýfluguna en svelgja úlfaldann.‘ Þeir sía mýflugu úr víninu sínu, ekki aðeins af því að hún er skordýr heldur líka af því að hún er trúarlega óhrein. En að hirða ekki um það sem mikilvægast er í lögmálinu er sambærilegt við að svelgja úlfalda sem er líka trúarlega óhreint dýr. Matteus 22:41-23:24; Markús 12:35-40; Lúkas 20:41-47; 3. Mósebók 11:4, 21-24.
▪ Af hverju þegja farísearnir þegar Jesús spyr þá um orð Davíðs í Sálmi 110?
▪ Hvers vegna stækka farísearnir ritningarhulstrin og skúfana á klæðafaldi sínum?
▪ Hvað ráðleggur Jesús lærisveinum sínum?
▪ Hvaða gerræðislega túlkun gera farísearnir sig seka um og hvernig fordæmir Jesús þá fyrir að hirða ekki um það sem mikilvægast er?
-
-
Þjónustu Jesú í musterinu lýkurMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 110
Þjónustu Jesú í musterinu lýkur
JESÚS sýnir sig nú í musterinu í síðasta sinn. Hann er reyndar að ljúka opinberri þjónustu sinni á jörð, að því undanskildu að hann verður dæmdur og tekinn af lífi þrem dögum síðar. Hann heldur áfram að ávíta fræðimennina og faríseana.
Þrisvar sinnum í viðbót segir hann: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ Fyrst átelur hann þá fyrir að ‚hreinsa bikarinn og diskinn utan, en vera að innan fullir yfirgangs og óhófs.‘ Hann áminnir því: „Hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.“
Því næst atyrðir hann fræðimennina og faríseana fyrir innri siðspillingu og rotnun sem þeir reyna að fela undir guðrækilegu yfirbragði. „Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra,“ segir hann.
Loks birtist hræsni þeirra í því hve viljugir þeir eru að hlaða upp grafir spámannanna og skreyta leiði þeirra til að vekja athygli á ölmusuverkum sínum. En eins og Jesús bendir á eru þeir „synir þeirra, sem myrtu spámennina.“ Hver sem vogar sér að fletta ofan af hræsni þeirra er í hættu!
Jesús heldur áfram og fordæmir þá harðar en nokkru sinni fyrr: „Höggormar, nöðruafkvæmi, hvernig getið þið umflúið dóm Gehenna?“ Gehenna er dalur þar sem er sorphaugur Jerúsalem. Jesús er því að segja að fræðimönnunum og faríseunum verði tortímt fyrir fullt og allt vegna vonsku þeirra.
Jesús segir um fulltrúa sína sem hann sendir út: „Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar [nefndur Jójadason í 2. Kroníkubók], sem þér drápuð milli musterisins og altarisins. Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.“
Sakaría ávítaði leiðtoga Ísraels með þeim afleiðingum að þeir „sórust . . . saman gegn honum og lömdu hann grjóti að boði konungs í forgarði musteris [Jehóva].“ En eins og Jesús segir mun Ísrael gjalda alls saklauss blóðs sem úthellt hefur verið. Það gerist 37 árum síðar, árið 70, þegar rómverskur her eyðir Jerúsalem og meira en milljón Gyðinga fellur.
Tilhugsunin um þessi hræðilegu örlög fær á Jesú. „Jerúsalem, Jerúsalem!“ segir hann einu sinni enn. „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“
Síðan bætir hann við: „Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ‚Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva].‘“ Hér á Jesús við nærveru sína er hann kemur í himnesku ríki sínu og fólk sér hann með augum trúarinnar.
Jesús gengur nú þangað sem hann sér söfnunarbauka musterisins og mannfjöldann sem leggur peninga í þá. Auðmenn leggja mikið í baukana en síðan kemur fátæk ekkja og leggur fram tvo smápeninga, eins eyris virði.
Jesús kallar á lærisveinana og segir: „Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.“ Þeim hlýtur að vera spurn hvernig það geti verið svo hann útskýrir: „Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“ Að svo mæltu yfirgefur Jesús musterið í síðasta sinn.
Einn af lærisveinunum dáist að stærð og fegurð musterisins og segir: „Meistari, lít á, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“ Sagt er að steinarnir hafi verið 11 metra langir, 5 metra breiðir og 3 metra háir!
„Sérðu þessar miklu byggingar?“ svarar Jesús. „Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“
Síðan gengur Jesús með postulunum þvert yfir Kedrondal og upp á Olíufjallið. Þaðan horfa þeir yfir hið mikilfenglega musteri. Matteus 23:25–24:3, 23:33 samkvæmt NW; Markús 12:41–13:3; Lúkas 21:1-6; 2. Kroníkubók 24:20-22.
▪ Hvað gerir Jesús í síðustu heimsókn sinni í musterið?
▪ Hvernig birtist hræsni fræðimannanna og faríseanna?
▪ Hvað er átt við með ‚dómi Gehenna‘?
▪ Af hverju segir Jesús að ekkjan hafi lagt meira í fjárhirsluna en auðmennirnir?
-
-
Tákn síðustu dagaMesta mikilmenni sem lifað hefur
-
-
Kafli 111
Tákn síðustu daga
ÞAÐ er komið fram yfir miðjan dag á þriðjudegi. Jesús situr á Olíufjallinu og horfir yfir musterið fyrir neðan þegar Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes koma einslega að máli við hann. Þeir hafa áhyggjur af musterinu því að Jesús er nýbúinn að spá því að ekki verði skilinn þar eftir steinn yfir steini.
En að öllum líkindum hafa þeir ýmislegt fleira í huga þegar þeir koma að máli við hann. Fyrir fáeinum vikum hafði hann talað um „nærveru“ sína „er Mannssonurinn opinberast,“ og áður hafði hann sagt þeim frá „endi veraldar.“ Postularnir eru því mjög forvitnir.
„Segðu okkur,“ spyrja þeir, „hvenær verður þetta [sem leiðir til eyðingar Jerúsalem og musterisins] og hvert verður tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins?“ Spurningin er í rauninni þríþætt. Í fyrsta lagi vilja þeir vita meira um endalok Jerúsalem og musterisins, í öðru lagi um nærveru Jesú sem konungur Guðsríkis og í þriðja lagi um endalok heimskerfisins alls.
Jesús svarar öllum þrem spurningunum í löngu máli. Hann segir frá tákni sem sýnir hvenær gyðingakerfið líður undir lok, en ekki nóg með það. Hann greinir líka frá tákni sem gerir lærisveinum hans í framtíðinni viðvart um að nærvera hans standi yfir og að endalok alls heimskerfisins séu í nánd.
Postularnir sjá spádóm Jesú rætast þegar árin líða. Já, það sem hann sagði fyrir tekur að rætast á þeirra dögum. Eyðing Gyðingakerfisins og musterisins árið 70, 37 árum síðar, kemur þálifandi kristnum mönnum því ekki að óvörum.
Nærvera Krists sem konungur Guðsríkis hefst þó ekki árið 70 heldur löngu síðar. En hvenær? Athugun á spádómi Jesú leiðir það í ljós.
Jesús boðar „hernað og ófriðartíðindi.“ „Þjóð mun rísa gegn þjóð,“ segir hann, og það verður hungur, jarðskjálftar og drepsóttir. Lærisveinar hans verða hataðir og drepnir. Falsspámenn koma fram og leiða marga í villu. Lögleysi magnast og kærleikur flestra kólnar. Samtímis verður fagnaðarerindið um Guðsríki prédikað til vitnisburðar öllum þjóðum.
Enda þótt spádómur Jesú uppfyllist að hluta til fyrir eyðingu Jerúsalem árið 70 á hann sér aðaluppfyllingu á nærverutíma hans og endalokatíma heimskerfisins. Nákvæm athugun á heimsatburðunum frá 1914 sýnir að aðaluppfylling hins mikla spádóms Jesú hefur átt sér stað frá því ári.
Annar hluti táknsins, sem Jesús greinir frá, er að „viðurstyggð eyðingarinnar“ komi fram. Árið 66 birtist þessi viðurstyggð í mynd rómverskra ‚herfylkinga‘ sem umkringja Jerúsalem og grafa undan musterisveggnum. ‚Viðurstyggðin‘ stendur þar sem hún á ekki að standa.
Í aðaluppfyllingu táknsins er viðurstyggðin Þjóðabandalagið og arftaki þess, Sameinuðu þjóðirnar. Kristni heimurinn lítur á þessi heimsfriðarsamtök sem staðgengil Guðsríkis. Viðurstyggilegt! Þess vegna eiga stjórnmálaöfl innan Sameinuðu þjóðanna eftir að snúast gegn kristna heiminum (sem Jerúsalem táknaði) og eyða honum.
Jesús segir því: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða“ aftur. Eyðing Jerúsalem árið 70 er vissulega mikil þrenging. Talið er að meira en milljón manna hafi látið lífið. Aðaluppfylling þessa hluta spádóms Jesú verður margfalt meiri í sniðum.
Trúartraust á síðustu dögum
Degi er tekið að halla þriðjudaginn 11. nísan en Jesús heldur áfram að ræða við postulana um tákn nærveru sinnar sem konungur Guðsríkis og endaloka heimskerfisins. Hann varar þá við því að elta falskrista. Reynt verður að „leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.“ En eins og sjónskarpir ernir safnast þessir útvöldu þangað sem ósvikna andlega fæðu er að finna, það er að segja til hins sanna Krists við ósýnilega nærveru hans. Þeir safnast ekki um einhvern falskrist sem leiðir þá afvega.
Falskristar geta aðeins komið fram í sýnilegri mynd en nærvera Jesú verður aftur á móti ósýnileg. Eftir að þrengingin skellur á, segir Jesús, mun „sólin sortna og tunglið hætta að skína.“ Já, þetta verður myrkasta tímabil mannkynssögunnar. Það verður rétt eins og sólin sortni að degi og tunglið hætti að skína að nóttu.
‚Kraftar himnanna munu bifast,‘ heldur Jesús áfram. Með því á hann við að hinn bókstaflegi himinn verði óheillavænlegur á að líta. Óttinn og ofbeldið verður meira en nokkru sinni fyrr í sögunni.
Afleiðingin, segir Jesús, er „angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ Þegar dregur að lokum þessa myrkasta tímabils mannkynssögunnar mun „tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi.“
En ekki kveina allir þegar ‚Mannssonurinn kemur með mætti‘ til að eyða þessu illa heimskerfi. Hinir „útvöldu,“ hinir 144.000 sem fá hlutdeild með Kristi í ríki hans á himnum, kveina ekki né heldur félagar þeirra, þeir sem Jesús kallaði áður „aðra sauði“ sína. Enda þótt þeir lifi myrkustu tíma mannkynssögunnar fara þeir eftir hvatningu Jesú: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“
Til að lærisveinar Jesú á síðustu dögum geti vitað með vissu hve nálæg endalokin séu kemur hann með þessa líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.“
Þegar lærisveinar hans sjá hina mörgu þætti táknsins rætast ætti þeim að vera ljóst að endir heimskerfisins er nálægur og að Guðsríki afmáir bráðlega alla illsku. Endirinn á sér stað á æviskeiði þeirra sem sjá uppfyllingu alls þess sem Jesús sagði fyrir! Hann hvetur þá lærisveina sem verða uppi á hinum örlagaríku síðustu dögum:
„Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“
Hyggnu og fávísu meyjarnar
Jesús hefur verið að svara spurningu postulanna um tákn nærveru sinnar sem konungur Guðsríkis. Nú gefur hann meiri upplýsingar um táknið í þrem dæmisögum.
Þeir sem lifa á nærverutíma hans sjá allar þessar dæmisögur uppfyllast. Hann byrjar þá fyrstu með orðunum: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.“
Með orðunum ‚líkt er um himnaríki og tíu meyjar‘ á Jesús ekki við að helmingur þeirra, sem erfa ríkið á himnum, séu fávísir og helmingurinn hygginn. Nei, hann á við að ákveðnar aðstæður eða ákveðin mál í tengslum við himnaríki verði svona og svona.
Meyjarnar tíu tákna alla kristna menn sem eiga í vændum eða segjast eiga í vændum að erfa himnaríki. Það var á hvítasunnunni árið 33 sem kristni söfnuðurinn var heitbundinn hinum upprisna og dýrlega gerða brúðguma, Jesú Kristi. En brúðkaupið átti að eiga sér stað á himnum síðar, á einhverjum ótilgreindum tíma.
Meyjarnar tíu í dæmisögunni leggja af stað til að bjóða brúðgumann velkominn og slást í för með brúðarfylkingunni. Þegar hann kemur lýsa þær upp leiðina með lömpum sínum til að heiðra hann er hann leiðir brúðina í húsið sem hann hefur búið henni. En Jesús segir: „Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.“
Hin langa bið eftir brúðgumanum táknar að nærvera Krists sem ríkjandi konungur eigi sér stað löngu síðar. Loks sest hann í hásæti sitt árið 1914. Allar meyjarnar sofna þessa löngu nótt sem líður þangað til. En þær eru ekki fordæmdar fyrir það. Fávísu meyjarnar eru fordæmdar fyrir að hafa ekki með sér olíu á lampa sína. Jesús segir hvernig meyjarnar vakna áður en brúðguminn kemur: „Um miðnætti kvað við hróp: ‚Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.‘ Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ‚Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.‘ Þær hyggnu svöruðu: ‚Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.‘“
Olían táknar það sem lætur kristna menn skína sem ljósbera. Það er hið innblásna orð Guðs sem kristnir menn halda fast í, ásamt heilögum anda sem hjálpar þeim að skilja orðið. Andlega olían gerir hyggnu meyjunum kleift að láta ljós sitt skína til að fagna brúðgumanum á leiðinni til brúðkaupsveislunnar. En fávísi meyjahópurinn hefur ekki nauðsynlega andlega olíu í sér, á könnum sínum. Jesús lýsir atburðarásinni:
„Meðan [fávísu meyjarnar] voru að kaupa [olíu], kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ‚Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.‘ En hann svaraði: ‚Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.‘“
Eftir að Kristur kemur í himnesku ríki sínu vakna hyggnu meyjarnar, sem eru smurðir sannkristnir menn, gagnvart þeim sérréttindum sínum að skína í þessum myrkvaða heimi, hinum endurkomna brúðguma til lofs. En þeir sem fávísu meyjarnar tákna eru ekki undir það búnir að fagna honum á þennan hátt. Þegar tíminn kemur opnar Kristur ekki fyrir þeim dyrnar að brúðkaupsveislunni á himnum. Hann lætur þá standa fyrir utan í svartnætti heimsins til að farast með öllum öðrum lögleysingjum. „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina,“ segir hann.
Dæmisagan um talenturnar
Jesús heldur áfram að ræða við postulana á Olíufjallinu og segir þeim aðra dæmisöguna af þrem. Í Jeríkó sagði hann dæmisöguna um pundin nokkrum dögum áður, til að benda á að Guðsríki kæmi ekki fyrr en að löngum tíma liðnum. Dæmisagan sem hann segir núna er að mörgu leyti lík henni en uppfyllist í starfi sem fram fer meðan Kristur er nærverandi sem konungur Guðsríkis. Hún sýnir fram á að lærisveinar hans verði að vinna að því að auka ‚eigur hans‘ meðan þeir eru á jörðinni.
Jesús hefur dæmisöguna: „Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.“ Jesús er maðurinn sem fær þjónunum — lærisveinum sem eiga í vændum að erfa himnaríkið — eigur sínar í hendur áður en hann fer úr landi til himna. Þessar eigur eru ekki efnislegar heldur tákna ræktaðan akur sem býður upp á möguleika á fleiri lærisveinum.
Jesús felur þjónunum eigur sínar skömmu áður en hann stígur upp til himna. Hvernig gerir hann það? Með því að segja þeim að halda áfram að vinna á þessum ræktaða akri með því að prédika boðskapinn um ríkið allt til endimarka jarðar. Eins og hann segir: „Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.“
Talentunum átta — eigum Krists — er því skipt milli þjónanna eftir hæfni þeirra eða andlegum möguleikum. Þjónarnir tákna lærisveinahópa. Á fyrstu öld voru postularnir greinilega í þeim hópi sem fékk fimm talentur. Jesús segir síðan að þjónarnir, sem fengu fimm talentur og tvær talentur, hafi tvöfaldað þær með því að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum. En þjónninn, sem fékk eina talentu, gróf hana í jörð.
„Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil,“ heldur Jesús áfram. Það var ekki fyrr en á 20. öldinni, um 1900 árum síðar, sem Kristur kom aftur til að gera upp reikningana, svo sannarlega „löngu síðar.“ Síðan útskýrir hann:
„Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ‚Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.‘ Húsbóndi hans sagði við hann: ‚Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.‘“ Þjónninn, sem fékk tvær talentur, tvöfaldaði líka féð og fékk sama hrós og sömu laun.
En hvernig ganga þessir trúföstu þjónar inn í fögnuð herra síns? Fögnuður herra þeirra, Jesú Krists, var sá að fá í hendur ríkið er hann fór úr landi til föður síns á himnum. Trúfastir þjónar á okkar dögum hafa af því mikinn fögnuð að vera trúað fyrir meiri ábyrgð í tengslum við Guðsríki, og þegar þeir ljúka lífi sínu á jörðinni nær fögnuðurinn hámarki með upprisu til ríkisins á himnum. En hvað um þriðja þjóninn?
„Herra, ég vissi, að þú ert maður harður,“ kvartar þjónninn. „Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.“ Þjónninn neitaði af ásettu ráði að vinna á ræktaða akrinum með því að prédika og gera menn að lærisveinum. Herrann kallar hann því ‚illan og latan‘ og fellir dóm yfir honum: „Takið af honum talentuna . . . Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þeir sem tilheyra þessum illa þjónshópi eru reknir út og sviptir öllum andlegum fögnuði.
Í þessu er fólginn alvarlegur lærdómur fyrir alla sem segjast vera fylgjendur Krists. Vilji þeir fá hrós hans og umbun og komast hjá því að hann reki þá út í ystu myrkur til að tortímast að lokum, verða þeir að leggja sig fram um að auka eigur herra síns á himnum með því að gera allt sem þeir geta í prédikunarstarfinu. Ert þú kostgæfinn þátttakandi í því?
Þegar Kristur kemur sem konungur Guðsríkis
Jesús er enn með postulunum á Olíufjallinu. Þeir höfðu spurt hann um tákn nærveru hans og endaloka heimskerfisins, og nú segir hann þeim síðustu dæmisöguna af þrem. „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu,“ segir hann.
Þessi koma á sér stað þegar endalok heimskerfisins eru mjög nærri. En hver er tilgangur hennar? Jesús útskýrir: „Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.“
Jesús lýsir svo hvað verður um þá sem eru velþóknunar megin: „Þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ‚Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.‘“ Sauðirnir í þessari dæmisögu ríkja ekki með Kristi á himnum heldur erfa ríkið í þeim skilningi að þeir verða jarðneskir þegnar þess. „Grundvöllun heims“ átti sér stað þegar Adam og Eva byrjuðu að eignast börn sem gátu notið góðs af lausnarráðstöfun Guðs fyrir mannkynið.
En af hverju eru sauðirnir skildir frá og skipað konunginum á hægri hönd til tákns um velþóknun hans? „Því hungraður var ég,“ svarar konungurinn, „og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.“
Þar eð sauðirnir eru á jörðinni spyrja þeir hvernig þeir hafi getað gert himneskum konungi sínum svona gott. „Herra,“ spyrja þeir, „hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?“
„Sannlega segi ég yður,“ svarar konungurinn, „það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ Bræður Krists eru þeir sem eftir eru á jörðinni af hinum 144.000 sem eiga að ríkja með honum á himnum. Og að gera þeim gott, segir Jesús, er sama og að gera honum gott.
Síðan ávarpar konungurinn hafrana: „Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.“
En hafrarnir mögla: „Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?“ Hafrarnir fá óhagstæðan dóm eftir sömu reglum og sauðirnir fá hagstæðan dóm. „Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér,“ svarar Jesús.
Nærvera Krists sem konungur Guðsríkis, rétt fyrir endalok þessa illa heimskerfis í þrengingunni miklu, felur því í sér dómstíma. Hafrarnir „fara til eilífrar refsingar [eyðingar], en hinir réttlátu [sauðirnir] til eilífs lífs.“ Matteus 24:2–25:46, 24:3 samkvæmt NW; 13:40, 49; Markús 13:3-37; Lúkas 21:7-36; 19:43, 44; 17:20-30; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 14:1-3.
▪ Hver er kveikjan að spurningu postulanna en hvað annað hafa þeir að öllum líkindum í huga?
▪ Hvaða hluti spádóms Jesú uppfyllist árið 70 en hvað gerist ekki á þeim tíma?
▪ Hvenær á spádómur Jesú sér byrjunaruppfyllingu og hvenær lokauppfyllingu?
▪ Hver er viðurstyggðin í fyrri uppfyllingunni og þeirri síðari?
▪ Af hverju fær spádómurinn um þrenginguna miklu ekki lokauppfyllingu með eyðingu Jerúsalem?
▪ Hvaða ástand heimsmála einkennir nærveru Krists?
▪ Hvenær munu „allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi“ en hvað gera fylgjendur Krists?
▪ Hvaða líkingu segir Jesús til að hjálpa lærisveinum sínum í framtíðinni að skilja hvenær endirinn sé í nánd?
▪ Hvaða viðvörun gefur Jesús þeim lærisveinum sem verða uppi á síðustu dögum?
▪ Hverja tákna meyjarnar tíu?
▪ Hvenær var kristni söfnuðurinn heitbundinn brúðgumanum en hvenær kemur brúðguminn til að leiða brúði sína til brúðkaupsveislunnar?
▪ Hvað táknar olían og hvað gerir hún hyggnu meyjunum kleift?
▪ Hvar fer brúðkaupsveislan fram?
▪ Hvaða stórkostleg laun fara fávísu meyjarnar á mis við og hvaða örlög bíða þeirra?
▪ Hvað má læra af dæmisögunni um talenturnar?
▪ Hverjir eru þjónarnir og hverjar eru eigurnar sem þeim er trúað fyrir?
▪ Hvenær kemur húsbóndinn til að gera upp reikninga og hvað uppgötvar hann?
▪ Hver er fögnuðurinn sem trúföstu þjónarnir ganga inn í, en hvað verður um illa þjóninn?
▪ Hvaða dómsstarf vinnur Kristur á nærverutíma sínum?
▪ Í hvaða skilningi taka sauðirnir ríkið að erfð?
▪ Hvenær var „grundvöllun heims“?
▪ Á hvaða forsendum er fólk dæmt annaðhvort sauðir eða hafrar?
-