Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w20 mars bls. 18-23
  • Hvenær er rétti tíminn til að tala?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvenær er rétti tíminn til að tala?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVENÆR ÆTTUM VIÐ AÐ TALA?
  • HVENÆR ÆTTUM VIÐ AÐ ÞEGJA?
  • HVAÐ FINNST JEHÓVA UM ÞAÐ SEM VIÐ SEGJUM?
  • Abígail og Davíd
    Biblíusögubókin mín
  • „Blessuð séu hyggindi þín“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Þú getur treyst trúsystkinum þínum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Notum tunguna til góðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
w20 mars bls. 18-23

NÁMSGREIN 12

Hvenær er rétti tíminn til að tala?

„Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ – PRÉD. 3:7.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

YFIRLITa

1. Hvað lærum við af Prédikaranum 3:1, 7?

SUMUM okkar finnst gaman að tala. Aðrir eru fámálir og þeim líður vel með það. Eins og lykilvers greinarinnar ber með sér er bæði tími til að tala og tími til að þegja. (Lestu Prédikarann 3:1, 7.) Samt gætum við óskað þess að sum trúsystkini okkar töluðu meira. Og kannski vildum við að sum þeirra töluðu minna.

2. Hver hefur réttinn til að ákveða hvenær við tölum og hvernig?

2 Talgáfan er gjöf frá Jehóva. (2. Mós. 4:10, 11; Opinb. 4:11) Hann hjálpar okkur með orði sínu að skilja hvernig við getum notað þessa gjöf á réttan hátt. Í greininni skoðum við dæmi úr Biblíunni sem auðvelda okkur að vita hvenær við eigum að tala og hvenær ekki. Við skoðum líka hvað Jehóva finnst um það sem við segjum við aðra. En ræðum fyrst hvenær við ættum að tala.

HVENÆR ÆTTUM VIÐ AÐ TALA?

3. Hvenær ættum við að tala samkvæmt Rómverjabréfinu 10:14?

3 Við ættum alltaf að vera reiðubúin að tala um Jehóva og ríki hans. (Matt. 24:14; lestu Rómverjabréfið 10:14.) Þannig líkjum við eftir Jesú. Ein aðalástæðan fyrir því að Jesús kom til jarðar var að segja fólki sannleikann um föður sinn. (Jóh. 18:37) En munum að það skiptir líka máli hvernig við tölum. Þegar við segjum öðrum frá Jehóva verðum við að gera það „með hógværð og djúpri virðingu“ og taka tillit til tilfinninga þeirra og skoðana. (1. Pét. 3:15) Þá tölum við ekki bara heldur kennum og náum hugsanlega til hjarta viðmælanda okkar.

TÍMI TIL AÐ TALA

  • Þegar þú segir öðrum frá Jehóva skaltu gera það „með hógværð og djúpri virðingu“ og taka tillit til skoðana þeirra (grein 3).

  • Þegar þú sérð einhvern fara inn á ranga braut.

  • Þegar nauðsynlegt er gefa öldungar leiðbeiningar af færni og með þolinmæði.

Tvær systur að versla í fatabúð. Önnur systirin bendir hinni á að pilsið sem hún heldur á sé líklega ekki við hæfi.

(Sjá 8. grein.)b

Öldungur með Biblíuna í hendi gefur ungum bróður leiðbeiningar um hreinlæti. Heimili hans er illa hirt.

(Sjá 4. og 9. grein.)c

4. Hvernig geta öldungar hjálpað öðrum með tali sínu, samanber Orðskviðina 9:9?

4 Öldungar ættu að vera ákveðnir í að tala við bróður eða systur sem þarf að fá leiðbeiningar. Auðvitað velja þeir rétta tímann til að tala svo að hann eða hún verði ekki vandræðaleg að óþörfu. Þeir vilja bíða eftir hentugu tækifæri til að geta talað við trúsystkini sitt í einrúmi. Öldungar reyna alltaf að tala þannig að hlustandinn geti haldið reisn sinni. Þeir hika samt ekki við að ræða meginreglur Biblíunnar sem geta hjálpað honum að breyta skynsamlega. (Lestu Orðskviðina 9:9.) Hvers vegna er svona mikilvægt að hafa hugrekki til að tala þegar það er nauðsynlegt? Skoðum tvö ólík dæmi, annað um mann sem þurfti að leiðrétta syni sína og hitt um konu sem þurfti að benda tilvonandi konungi á ranga ákvörðun hans.

5. Að hvaða leyti brást Elí skyldu sinni þegar hann talaði við syni sína?

5 Elí æðstiprestur átti tvo syni sem hann elskaði heitt. En þeir báru enga virðingu fyrir Jehóva. Þeir gegndu mikilvægri ábyrgðarstöðu sem prestar og þjónuðu við tjaldbúðina. En þeir misbeittu valdi sínu, lítilsvirtu fórnirnar sem voru færðar Jehóva og gerðust blygðunarlaust sekir um kynferðislegt siðleysi. (1. Sam. 2:12–17, 22) Samkvæmt Móselögmálinu átti að taka syni Elí af lífi en hann var undanlátssamur og ávítti þá aðeins mildilega og leyfði þeim að halda áfram að þjóna við tjaldbúðina. (5. Mós. 21:18–21) Hvað fannst Jehóva um það hvernig Elí tók á málum? Hann sagði við hann: „Hvers vegna metur þú syni þína meira en mig?“ Síðan ákvað hann að taka þessa illu menn af lífi. – 1. Sam. 2:29, 34.

6. Hvað lærum við af frásögunni af Elí?

6 Við getum dregið mikilvægan lærdóm af frásögunni af Elí. Ef við komumst að því að vinur eða ættingi hefur brotið lög Jehóva verðum við að tala við hann og minna hann á kröfur Jehóva. Síðan verðum við að ganga úr skugga um að hann fái nauðsynlega hjálp frá fulltrúum Jehóva. (Jak. 5:14) Við myndum ekki vilja líkjast Elí með því að meta vin eða ættingja meira en Jehóva. Það kostar hugrekki að tala við þann sem þarf á leiðréttingu að halda en það getur skilað góðum árangri. Skoðum nú fordæmi Abígail, ísraelskrar konu sem var ólík Elí.

Abígail krýpur á kné og talar við Davíð.

Abígail gerði sér grein fyrir því hvenær væri rétti tíminn til að tala og setti okkur þannig gott fordæmi. (Sjá 7. og 8. grein.)d

7. Hvers vegna talaði Abígail við Davíð?

7 Abígail var gift auðugum landeiganda sem hét Nabal. Þegar Davíð og menn hans voru á flótta undan Sál konungi dvöldu þeir um tíma á sama svæði og fjárhirðar Nabals og gættu hjarða hans gegn ræningjum. Var hann þakklátur fyrir hjálpina? Nei. Þegar Davíð sendi menn til að biðja hann um svolítinn mat og drykk reiddist Nabal og jós yfir þá svívirðingum. (1. Sam. 25:5–8, 10–12, 14) Fyrir vikið ákvað Davíð að drepa alla karlmenn á heimili hans. (1. Sam. 25:13, 22) Hvernig var hægt að afstýra slíkri ógæfu? Abígail gerði sér grein fyrir að nú væri rétti tíminn til að tala svo að hún fór hugrökk á fund 400 svangra, reiðra og vopnaðra manna til að tala við Davíð.

8. Hvað lærum við af Abígail?

8 Þegar Abígail hitti Davíð talaði hún af hugrekki, virðingu og sannfæringu. Þótt hún bæri enga ábyrgð á vandamálinu bað hún Davíð um fyrirgefningu. Hún höfðaði til góðra eiginleika hans og treysti að Jehóva myndi hjálpa sér. (1. Sam. 25:24, 26, 28, 33, 34) Við þurfum líkt og Abígail að vera hugrökk og tilbúin að tala ef við sjáum einhvern fara inn á ranga braut. (Sálm. 141:5) Við verðum að sýna virðingu en um leið tala tæpitungulaust. Þegar við sýnum kærleika með því að veita einhverjum nauðsynlegar leiðbeiningar reynumst við sannir vinir. – Orðskv. 27:17.

9, 10. Hvað þurfa öldungar að muna þegar þeir leiðbeina öðrum?

9 Öldungar þurfa öðrum fremur að hafa hugrekki til að tala við þá í söfnuðinum sem fara út af sporinu. (Gal. 6:1) Öldungar gera sér auðmjúkir grein fyrir því að þeir eru líka ófullkomnir og gætu einhvern tíma sjálfir þurft á leiðréttingu að halda. En þeir láta það ekki hindra sig í að áminna þá sem þurfa aga. (2. Tím. 4:2; Tít. 1:9) Þegar þeir gefa trúsystkini leiðbeiningar reyna þeir að nota talgáfuna af færni og með þolinmæði. Þeir elska trúsystkini sitt og kærleikurinn knýr þá til verka. (Orðskv. 13:24) En umfram allt vilja þeir heiðra Jehóva með því að hafa lög hans í heiðri og vernda söfnuðinn gegn skaða. – Post. 20:28.

10 Hingað til höfum við rætt hvenær er rétti tíminn til að tala. En stundum er best að segja ekki neitt. Hvaða erfiðleikum gætum við mætt við slíkar aðstæður?

HVENÆR ÆTTUM VIÐ AÐ ÞEGJA?

11. Hvað líkingu brá Jakob upp og hvers vegna er hún áhrifarík?

11 Það getur verið erfitt að hafa stjórn á tali sínu. Biblíuritarinn Jakob hitti vel í mark þegar hann lýsti því með dæmi. Hann sagði: „Ef einhver hrasar ekki í orði er hann fullkominn maður og fær um að hafa taumhald á öllum líkama sínum.“ (Jak. 3:2, 3) Þegar knapi leggur beisli við hest setur hann mélið upp í munn hestsins. Knapi getur stýrt hestinum eða stöðvað hann með því að taka í tauminn. Ef hann missir stjórn á tauminum getur hesturinn tekið á rás og skaðað bæði sjálfan sig og knapann. Á svipaðan hátt getum við valdið skaða ef við höfum ekki taumhald á tali okkar. Skoðum nú aðstæður þar sem við þurfum að „taka í tauminn“ og hefta tal okkar.

TÍMI TIL AÐ ÞEGJA

  • Þegar okkur finnst freistandi að segja frá hvernig starfseminni er háttað í landi þar sem starf okkar er bannað.

  • Þegar um er að ræða safnaðarmál sem eru viðkvæm og trúnaður ætti að ríkja um.

Boðberar í ríkissalnum spyrja gestkomandi hjón spurninga.

(Sjá 12. grein.)e

Öldungur sem talar í síma lokar dyrunum á eftir sér því að konan hans rannsakar Biblíuna í næsta herbergi.

(Sjá 13. og 14. grein.)f

12. Hvenær ættum við að hafa taumhald á tali okkar?

12 Hvað gerirðu þegar trúsystkini veit eitthvað sem ríkja ætti trúnaður um? Ef þú hittir til dæmis einhvern sem býr í landi þar sem starf okkar er bannað, freistastu þá til að spyrja hann út í hvernig starfseminni sé háttað í landinu? Þú ætlar þér auðvitað ekki að valda neinum skaða með því að spyrja. Við elskum trúsystkini okkar og okkur langar til að vita hvernig þeim vegnar. Við viljum líka vera markviss þegar við biðjum fyrir þeim. En við aðstæður eins og þessar er rétti tíminn til að „taka í tauminn“ og hafa taumhald á tali okkar. Það væri kærleikslaust að þrýsta á einhvern sem býr yfir trúnaðarupplýsingum – bæði gagnvart honum og trúsystkinum sem treysta að hann gæti þagmælsku um starfsemi þeirra. Ekkert okkar myndi vilja bæta á erfiðleika bræðra okkar og systra í löndum þar sem starf okkar er bannað. Og enginn í slíku landi myndi vilja ljóstra upp um boðunaraðferðir og starfsemi vottanna þar.

13. Hvað verða öldungar að gera samkvæmt Orðskviðunum 11:13 og hvers vegna?

13 Það er sérstaklega mikilvægt að öldungar fari eftir meginreglunni í Orðskviðunum 11:13 og gæti trúnaðar. (Lestu.) Það getur verið erfitt, sérstaklega ef öldungur er kvæntur. Hjón halda hjónabandinu sterku með því að tala oft saman og ræða innstu hugsanir sínar, tilfinningar og áhyggjur. En öldungi er ljóst að hann má ekki ljóstra upp trúnaðarupplýsingum safnaðarmanna. Ef hann gerði það myndi hann glata trausti þeirra og skaða mannorð sitt. Þeir sem gegna ábyrgðarstöðu í söfnuðinum mega ekki vera falskir eða „tala tveim tungum“. (1. Tím. 3:8, neðanmáls) Þeir mega með öðrum orðum ekki vera svikulir eða gjarnir á að slúðra. Öldungur sem elskar konuna sína íþyngir henni ekki með því sem hún þarf ekki að vita.

14. Hvernig getur eiginkona öldungs hjálpað honum að viðhalda góðu mannorði?

14 Eiginkona getur hjálpað manninum sínum að viðhalda góðu mannorði með því að þrýsta ekki á hann að ræða trúnaðarmál. Kona sem fylgir þessu ráði styður eiginmann sinn og sýnir þeim virðingu sem hafa trúað honum fyrir málum sínum. Og mikilvægast af öllu er að hún gleður Jehóva vegna þess að hún stuðlar að friði og einingu safnaðarins. – Rómv. 14:19.

HVAÐ FINNST JEHÓVA UM ÞAÐ SEM VIÐ SEGJUM?

15. Hvað fannst Jehóva um þrjá af vinum Jobs og hvers vegna?

15 Við getum lært margt af Jobsbók um hvernig og hvenær við ættum að tala. Eftir að hver ógæfan á fætur annarri hafði dunið á Job komu fjórir menn til að hughreysta hann og gefa honum ráðleggingar. Í langan tíma sögðu þeir ekkert. En af því sem þrír þeirra sögðu seinna – þeir Elífas, Bildad og Sófar – er augljóst að þeir notuðu ekki þennan tíma til að hugleiða hvernig þeir gætu hjálpað Job. Þess í stað veltu þeir fyrir sér hvernig þeir gætu sannað upp á Job að hann hefði gert eitthvað rangt. Sumt sem þeir sögðu var rétt en margt af því sem þeir sögðu um Job og Jehóva var annaðhvort óvingjarnlegt eða ósatt. Þeir dæmdu Job harkalega. (Job. 32:1–3) Hvernig brást Jehóva við? Hann varð bálreiður við mennina þrjá. Hann sagði þeim að þeir væru heimskir og að þeir ættu að biðja Job að biðja fyrir sér. – Job. 42:7–9, Biblían 1981.

16. Hvaða lærdóm getum við dregið af slæmu fordæmi Elífasar, Bildads og Sófars?

16 Við getum lært margt af slæmu fordæmi Elífasar, Bildads og Sófars. Í fyrsta lagi ættum við ekki að dæma trúsystkini okkar. (Matt. 7:1–5) Við ættum öllu heldur að hlusta vandlega á þau áður en við tölum. Aðeins þá getum við skilið aðstæður þeirra. (1. Pét. 3:8) Í öðru lagi þurfum við að ganga úr skugga um að það sem við segjum sé vingjarnlegt og rétt. (Ef. 4:25) Og í þriðja lagi hefur Jehóva mikinn áhuga á því sem við segjum hvert við annað.

17. Hvað getum við lært af fordæmi Elíhú?

17 Einn fjórmenninganna sem heimsóttu Job var Elíhú en hann var ættingi Abrahams. Hann hlustaði þegar Job og hinir þrír mennirnir töluðu. Hann hlustaði augljóslega af athygli því að hann gat gefið vingjarnlegar og um leið beinskeyttar ráðleggingar sem hjálpuðu Job að leiðrétta hugarfar sitt. (Job. 33:1, 6, 17) Elíhú var mest í mun að upphefja Jehóva, en ekki sjálfan sig eða neinn annan. (Job. 32:21, 22; 37:23, 24) Við lærum af fordæmi Elíhú að stundum er tími til að hlusta en ekki tala. (Jak. 1:19) Við lærum líka að þegar við gefum leiðbeiningar ætti það að vera okkur mikilvægast að Jehóva fái heiðurinn en ekki við sjálf.

18. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta talgáfuna?

18 Við getum sýnt að við kunnum að meta talgáfuna með því að fara eftir því sem Biblían segir um hvenær og hvernig við ættum að tala. Hinum vitra Salómon konungi var innblásið að skrifa: „Gullepli í silfurskálum, svo eru vel valin orð.“ (Orðskv. 25:11) Þegar við hlustum vandlega á það sem aðrir segja og hugsum áður en við tölum geta orð okkar verið eins og þessi gullepli – bæði verðmæt og falleg. Þá byggjum við aðra upp með tali okkar og Jehóva verður stoltur af okkur, hvort sem við tölum mikið eða lítið. (Orðskv. 23:15; Ef. 4:29) Er til nokkur betri leið til að sýna þakklæti fyrir þessa gjöf frá Guði!

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvenær ættum við að tala?

  • Hvenær ættum við að þegja?

  • Hvaða lærdóm hefurðu dregið af fordæmi biblíupersónanna sem fjallað er um í greininni?

SÖNGUR 82 Látið ljós ykkar lýsa

a Í orði Guðs er að finna meginreglur sem geta hjálpað okkur að vita hvenær við eigum að tala og hvenær ekki. Jehóva hefur velþóknun á tali okkar þegar við tileinkum okkur það sem Biblían segir og förum eftir því.

b MYND: Systir gefur annarri systur viturleg ráð.

c MYND: Bróðir gefur ráðleggingar um hreinlæti.

d MYND: Abígail talaði við Davíð á réttum tíma með góðum árangri.

e MYND: Hjón gæta þess að ljóstra ekki upp um starfið þar sem starfsemi okkar er bönnuð.

f MYND: Öldungur gætir þess að enginn heyri sig tala um trúnaðarmál safnaðarins.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila