Vottar Jehóva á Íslandi — saga þrautseigju og þolgæðis
Meðal fólks úti í heimi vekur nafnið Ísland ef til vill hugmyndir um ís, snjó og snjóhús. Fáar þjóðir búa jafn norðarlega á hnettinum og Íslendingar enda liggur landið norður undir heimskautsbaug.
ÍSLAND er þó ekki eins kalt og ætla mætti miðað við nafn þess og legu. Hlýr hafstraumur, Golfstraumurinn sem á upptök sín suður undir miðbaug, á sinn þátt í því að loftslagið er mun mildara en norðlæg lega landsins gefur tilefni til. Íslenskt samfélag er mjög nútímalegt. Hér er ekki búið í snjóhúsum heldur í hlýjum og sterkbyggðum húsum sem eru víðast hvar hituð upp með jarðhita.
Ísland er land mikilla andstæðna. Um miðjan vetur er eins og sólin megni varla að mjaka sér upp fyrir sjóndeildarhringinn og hún hefur þar skamma viðdvöl. Norðurljósin lífga vissulega upp á langar og dimmar skammdegisnætur en sólin virðist stundum hálftreg til að koma við á landinu. Að sumri til er hins vegar bjart allan sólarhringinn og það meira en bætir upp myrkrið í skammdeginu. Nyrst á landinu sest sólin ekki um nokkurra vikna skeið yfir hásumarið. Þar er hægt að baða sig í miðnætursólinni!
Ísland hefur verið kallað land elds og ísa og það með réttu. Um tíundi hluti landsins er þakinn jöklum. En eldurinn kraumar undir niðri því að hér er mikið af virkum eldfjöllum og jarðhita er að finna víða um land. Eldstöðvar skipta tugum og á síðustu öldum hafa orðið eldgos að meðaltali á fimm eða sex ára fresti. Og hverir eru út um allt.
Þetta strjálbýla land býr yfir mikilli fegurð og fjölskrúðugri náttúru. Tært loft, tígulegir fossar, stórskorin fjöll og endalaus víðerni laða að sér ferðamenn. Snemma vors hópast farfuglar hingað til sumardvalar í votlendum eða björgum við sjávarsíðuna. Þeirra á meðal er krían sem fer allt til suðurskautsins, hinum megin á hnettinum, á árlegu farflugi sínu. Lundi, æðarfugl og mávar eru alls staðar í klettum og með fram ströndinni. Sauðfé er á beit í fjallshlíðum og á afréttum og víða má sjá hestastóð út um sveitir landsins. Í sumarbyrjun gengur lax í árnar þar sem hægt er að sjá hann stökkva upp um fossa og flúðir á leið til hrygningarstöðva sinna.
Íslendingar, rúmlega 290.000 talsins, eru afkomendur víkinganna sem námu hér land fyrir meira en 1100 árum. Landnemarnir komu að stærstum hluta til frá Noregi og töluðu norrænu sem er formóðir íslenskunnar. Sterk bókmenntahefð ásamt einangrun landsins átti drjúgan þátt í að varðveita tunguna fyrir utanaðkomandi áhrifum. Íslendingar eru því enn læsir á fornsögurnar sem voru flestar skrifaðar á þrettándu öld. Íslendingar eru stoltir af tungu sinni og reyna eftir megni að sporna gegn því að hún verði fyrir erlendum áhrifum.
Flestir landnemanna voru „heiðnir“ og það var ekki fyrr en á tíundu öld sem reynt var að snúa landsmönnum til „kristni“. Undir lok tíundu aldar snerust sumir valdamiklir höfðingjar til „kristni“ og árið 1000 fól Alþingi Þorgeiri ljósvetningagoða, sem var einn valdamesti trúarhöfðingi heiðinna manna, að úrskurða hvor trúin skyldi ríkja í landinu. Til nokkurrar furðu úrskurðaði hann að ein trú skyldi vera í landinu, sú „kristna“. Þetta virðist hafa verið samþykkt án mikillar andstöðu. Þó var kveðið á um það að blóta mætti heiðin goð á laun og stunda ýmsa heiðna siði. Úrskurður þessi var án efa pólitískur fremur en trúarlegur en hann kann að hafa átt sinn þátt í því að Íslendingar eru að jafnaði býsna sjálfstæðir í hugsun og frjálslyndir í trúmálum.
Um 90 af hundraði landsmanna tilheyra hinni evangelísku-lútersku kirkju, þjóðkirkjunni. Flestir eiga biblíu en fáir trúa að hún sé orð Guðs.
FAGNAÐARERINDIÐ BERST TIL ÍSLANDS
Margir Íslendingar fluttust til Kanada á síðari hluta 19. aldar, flestir til að flýja þrautir og þrengingar af völdum eldgosa og kulda. Það var vestanhafs sem Íslendingar heyrðu fagnaðarerindið í fyrsta sinn. Einn þeirra var Georg Fjölnir Líndal. Hann gerðist brautryðjandi skömmu eftir að hann vígðist Jehóva Guði. Líndal talaði íslensku og ákvað að flytja hingað til lands árið 1929, þá fertugur að aldri. Hann kom til Reykjavíkur 1. júní það ár og var fyrstur manna til að boða fagnaðarerindið hér á landi.
Líndal beið í þrjá mánuði eftir fyrstu ritasendingunni en jafnskjótt og hún barst honum lagði hann land undir fót og hófst handa við að vitna fyrir öllum landsmönnum. Í október það ár var hann búinn að dreifa 800 eintökum af bókinni Harpa Guðs. Hann skrifaði þá: „Síðan ég kom hingað er ég búinn að prédika í fjölda bæja með um það bil 11.000 íbúum samanlagt. Íbúar Íslands eru um 100.000 eða rúmlega það, þannig að ég á eftir að ná til um 90.000 manns. Það á eftir að taka töluverðan tíma að prédika á öllu svæðinu því að ferðalög eru vandkvæðum bundin. Ísland er fjöllótt og strandlengjan vogskorin, hér eru engar járnbrautir og fáir bílvegir, þannig að ég hef þurft að ferðast sjóleiðina að miklu leyti.“
Hvergi örlar fyrir kvörtunartóni í þeim fáu handskrifuðu bréfum hans sem er að finna í gamalli pappamöppu sem merkt er „Iceland“. Líndal segir í sama bréfi frá 1929: „Mér þykir mjög ánægjulegt að geta sagt frá hvetjandi atviki sem átti sér stað fyrir skömmu. Ég hafði tækifæri til að heimsækja aftur stað einn þar sem ég hafði áður prédikað. Ég hitti þar nokkra sem höfðu keypt bækur þegar ég var þar í fyrra sinnið. Maður nokkur sagði: ‚Ég er búinn að lesa Hörpuna tvisvar og er að lesa hana í þriðja sinn. Þetta er ágætisbók. Þakka þér fyrir að heimsækja mig.‘ Annar sagði: ‚Svo þú ert kominn aftur. Þetta er prýðisbók. Af hverju gefið þið ekki út allar bækur Rutherfords á íslensku?‘ Ég sagði honum að margar þeirra væru fáanlegar á dönsku. ‚Sendu mér allar sem þú átt,‘ svaraði hann, ‚já, og líka bækur Russels. Þá hef ég nóg að grúska yfir í vetur.‘ Fleiri lýstu yfir ánægju sinni með bækurnar. Ég er þakklátur Guði fyrir að leyfa mér að færa þeim, sem vilja hlusta, boðskap sannleikans.“
Það var gríðarlegt verk fyrir einn mann að ná til allra landsmanna. Ísland er um 300 kílómetrar frá norðri til suðurs og nálægt 500 kílómetrar frá austri til vesturs. Strandlengjan er um 6.400 kílómetra löng með öllum fjörðum og flóum. Engu að síður tókst Líndal að boða fagnaðarerindið og dreifa ritum um landið þvert og endilangt á tíu árum. Oft ferðaðist hann sjóleiðis milli staða við ströndina en fór ríðandi um sveitir. Hann hafði þá tvo til reiðar, annan handa sjálfum sér en hinn til að bera rit og annan farangur. Hann var dyggur og alvörugefinn, feiminn, hlédrægur og fámáll, að sögn bræðra sem fengu tækifæri til að starfa með honum um tíma áður en hann yfirgaf landið. Hann var mikill vexti, næstum of stór fyrir hestana sem hann notaði á ferðum sínum. Þegar hann hafði ekki hesta til farar lét hann sig ekki muna um að bera bækurnar og pjönkur sínar á bakinu.
Þegar Líndal hóf starf sitt á Íslandi árið 1929 gerði hann sér enga grein fyrir því hve erfitt það yrði og hve mikla þolinmæði og þrautseigju þyrfti til að brjóta ísinn, ef svo má að orði komast. Hann var eini votturinn á landinu í næstum 18 ár. Þrátt fyrir elju hans og dugnað tók enginn afstöðu með ríki Guðs þau ár sem hann starfaði hér. Hann skrifaði árið 1936: „Þann tíma, sem ég hef verið hér, hef ég komið eitthvað á milli 26.000 og 27.000 bókum í hendur fólks. Margir hafa lesið þær. Sumir virðast hafa tekið afstöðu gegn sannleikanum en flestir virðast algerlega áhugalausir.“
Sumir kunnu þó vel að meta boðskapinn sem hann flutti þeim. Gamall maður þáði bókina Harpa Guðs þegar Líndal kom til hans. Nokkrum mánuðum síðar hitti Líndal dóttur gamla mannsins sem sagði honum þá að faðir sinn hefði haft dálæti á bókinni og þaullesið hana áður en hann dó. Í samræmi við heiðna siðvenju hafði hann meira að segja beðið um að bókin yrði lögð hjá sér í kistuna þegar hann dæi og það hafði verið gert.
Langri einveru Líndals hér á landi lauk hinn 25. mars árið 1947 þegar trúboðar úr Biblíuskólanum Gíleað komu til landsins. Hann starfaði hér áfram uns hann sneri aftur til Kanada árið 1953. Sextán árum síðar var Páll Heine Pedersen, sem var þá sérbrautryðjandi á Íslandi, staddur vestanhafs í fríi. Hann ákvað að fara með rútu til Winnipeg til að hitta Líndal og heyra hann sjálfan segja frá starfi sínu á Íslandi, en trúboðarnir, sem höfðu starfað með Líndal, voru þá farnir frá landinu. Þegar Páll kom til Winnipeg frétti hann að Líndal hefði lokið jarðnesku lífi sínu þá um morguninn. Hann hafði þjónað Jehóva dyggilega til dauðadags.
FLEIRI VERKAMENN TIL UPPSKERUNNAR
Með komu fyrstu Gíleaðtrúboðanna árið 1947 urðu þáttaskil í boðun fagnaðarerindisins á landinu. Annar trúboðanna var Leo Larsen. Tveir trúboðar bættust í hópinn í desember 1948. Þetta voru þeir Ingvard Jensen frá Danmörku og Oliver Macdonald frá Englandi. Þessir nýju verkamenn fylgdu starfi bróður Líndals eftir og dreifðu ritum í miklu magni. Að vetrarlagi störfuðu þeir í Reykjavík og nágrenni en yfir sumarmánuðina einbeittu þeir sér að sveitum og bæjum með fram ströndinni. Ingvard Jensen minnist sérstaklega einnar boðunarferðar. Hann segir svo frá: „Fyrsta sumarið, sem ég var á Íslandi, fór ég með öðrum trúboða í ferð út á landsbyggðina. Við vorum vanir að ferðast með rútu eða skipi þangað sem við ætluðum og tókum með okkur reiðhjól, tjöld, svefnpoka, rit og vistir. Eitt kvöldið lögðum við af stað sjóleiðis til Stykkishólms og komum þangað síðdegis daginn eftir. Við höfðum hugsað okkur að banka upp á hjá öllum í bænum og hjóla síðan til Borgarness sem er um 100 kílómetra leið. Þaðan voru daglegar áætlunarsiglingar til Reykjavíkur. Allt gekk vel í fyrstu. Þetta var um miðjan júní og sólin skein í heiði. Við skriðum í svefnpokana fyrsta kvöldið eftir að hafa starfað í hluta af bænum. Okkur gekk hins vegar illa að halda á okkur hita um nóttina í svefnpokunum og uppgötvuðum morguninn eftir hver ástæðan var — það hafði snjóað um nóttina og nú var 10 sentímetra snjólag á jörðinni! Við gátum ekki stytt ferðina því að næsta skipsferð var ekki fyrr en eftir viku. Við urðum því að halda fyrri áætlun, starfa í bænum og hjóla um fjallveg til næsta kaupstaðar og boða fagnaðarerindið á sveitabæjum á leiðinni.“
Þeir voru komnir til Borgarness fjórum dögum síðar. Þeir höfðu þurft að hjóla í slyddu og rigningu og berjast við storm þar sem vindhraðinn komst upp í 110 kílómetra á klukkustund. Það bætti þó svolítið úr skák hve bændur, sem þeir heimsóttu á leiðinni, voru gestrisnir því að alltaf var þeim boðið að þiggja kaffisopa og matarbita. Ingvard minnist þess að þeir hafi borðað átta til tíu máltíðir á dag! „Ég hafði á tilfinningunni að fólk myndi móðgast ef við þægjum ekki boðið,“ segir hann, „og þetta gaf okkur tækifæri til að vitna rækilega fyrir fólki um stofnsett ríki Jehóva.“
Trúboðarnir dreifðu meira en 16.000 ritum á landinu á fyrstu þrem árunum sem þeir störfuðu hér. En endurheimsóknum og biblíunámskeiðum fjölgaði ekki að sama skapi. Fólk þáði ritin fúslega en sýndi minni viðbrögð við boðskapnum. Leo Larsen fór til dæmis í boðunarferð austur á land ásamt Missie, eiginkonu sinni, en hún hafði komið frá Danmörku árið 1950 til að giftast honum. Þetta var mikið ferðalag og þau störfuðu á Seyðisfirði, Neskaupstað, Eskifirði og Höfn í Hornafirði. Þau dreifðu 300 bókum og álíka mörgum bæklingum. Í öllum bókunum var bókamerki með stuttum, biblíulegum upplýsingum ásamt heimilisfangi trúboðanna í Reykjavík. Öllum sem þáðu ritin var boðið að skrifa og óska eftir meiri upplýsingum um sannleikann en allt kom fyrir ekki.
Árið 1952 var ákveðið að leggja þyrfti meiri áherslu á boðun fagnaðarerindisins á Norðurlandi. Oliver Macdonald var því sendur sem sérbrautryðjandi til Akureyrar það ár ásamt Sally, konu sinni, sem komið hafði frá Englandi árið 1949 til að giftast honum. Þar mættu þau harðri andstöðu Bræðrahreyfingarinnar (Plymouth Brethren) undir forystu breska ræðismannsins í bænum. Hann átti sér marga fylgjendur og ýmsir fleiri lögðu við eyrun þegar hann réðst gegn vottunum í ræðu og riti. Brautryðjendurnir voru ekki vanir slíkri andstöðu í Reykjavík en héldu starfi sínu ótrauðir áfram og notuðu hvert tækifæri sem gafst til að svara hinum röngu ákærum. Að minnsta kosti eitt fréttablað birti svör þeirra.
Mac og Sally störfuðu ekki aðeins á Akureyri heldur fóru víða um Norðurland, dreifðu ritum og nutu hinnar rómuðu gestrisni landsmanna, án þess þó að finna mikinn áhuga á boðskapnum um ríkið. Mac og Sally fluttust suður á ný í júlí 1953, en áður en þau kvöddu Akureyri hafði þeim tekist að sá sannleiksfræjum sem áttu eftir að bera ávöxt síðar.
GRUNDVÖLLUR LAGÐUR
Eftir að hafa gróðursett og vökvað í 27 ár sáu bræðurnir á Íslandi loks árangur erfiðis síns. Snemma árs 1956 tóku sjö manns afstöðu með ríki Jehóva Guðs og vígðust honum. Fram að þeim tíma höfðu fáir, sem sýndu áhuga á sannleikanum, verið staðfastir. Iris Åberg, sem var frá Englandi, var undantekning frá því en hún fluttist síðar af landi brott. Nú höfðu sjö nýir vottar látið skírast og þar með var góður grundvöllur lagður. En árið eftir voru trúboðarnir og brautryðjendurnir, sem höfðu lagt svo hart að sér til að sannleikurinn festi rætur, farnir frá landinu, flestir af heilsufarsástæðum.
Árið 1957 var því aðeins ein systir eftir til að annast hinn unga söfnuð. Hún hét Edith Marx og hafði flust hingað frá Danmörku sem sérbrautryðjandi árið áður. Það vantaði sárlega verkamenn til uppskerunnar til að hjálpa þessum nýju að styrkjast í trúnni. Ekki leið þó á löngu áður en sérbrautryðjendur voru sendir hingað frá Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi. Auk þess fluttust allmargir boðberar og brautryðjendur til landsins í þeim tilgangi að boða ríkið. Þaðan í frá var aukningin stöðug þótt ekki væri hún hröð.
Um leið og boðberum fjölgaði komu ýmsar nýjungar til sögunnar. Meðal annars tóku farandumsjónarmenn að koma í heimsókn með reglulegu millibili og farið var að halda mót á hverju ári. En það vantaði meira af ritum á íslensku. Varðturninn hóf göngu sína í íslenskri þýðingu 1. janúar árið 1960. Það var mikil lyftistöng fyrir boðunarstarfið. Við getum rétt ímyndað okkur gleði bræðra og systra að geta nú boðið Íslendingum blaðið á móðurmáli þeirra. Og það var ákaflega styrkjandi fyrir trú þeirra að fá þessa góðu andlegu fæðu í hverjum mánuði. Þegar tilkynnt var á svæðismóti í Reykjavík að Varðturninn myndi hefja göngu sína á íslensku var afhjúpuð stór eftirmynd af forsíðu blaðsins fyrir aftan ræðumanninn. Sem vonlegt var fögnuðu viðstaddir þessari nýju gjöf frá Jehóva með miklu lófataki.
Páll Heine Pedersen minnist þess að þegar hann kom til landsins í október 1959 var bæklingurinn „Þessar góðu fréttir um ríkið“ eina ritið sem menn höfðu á íslensku til að nota í boðunarstarfinu. En margir úti á svæðinu voru búnir að fá þennan bækling. Boðberarnir buðu Varðturninn og Vaknið! á dönsku, ensku, sænsku eða þýsku ef fólk las eitthvert þessara tungumála. Þó að margir væru læsir á einhver erlend mál höfðu þeir miklu meira gagn af því að lesa Varðturninn á móðurmáli sínu. Íslensk útgáfa Varðturnsins hafði gríðarleg áhrif á boðunarstarfið. Boðberar og brautryðjendur voru samtals 41 þetta þjónustuár og þeir söfnuðu 809 áskriftum og dreifðu 26.479 blöðum. Biblíunámskeiðum fjölgaði enn fremur.
Deildarskrifstofa var opnuð hérlendis 1. janúar 1962. Fram að þeim tíma hafði starfið á landinu verið undir umsjón dönsku deildarinnar og síðar þeirrar bandarísku. Árið 1969 hlaut söfnuðurinn löggildingu og var skráður sem trúfélag hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Nú nutu Vottar Jehóva á Íslandi sömu réttinda og önnur trúfélög á landinu og höfðu umboð til að gefa saman hjón og annast útfarir.
ANDSTAÐA FRÁ KIRKJUNNAR MÖNNUM
Í sama mánuði og deildarskrifstofan var opnuð fengu bræðurnir að finna fyrir andstöðu af hálfu kirkjunnar manna. Morgun einn birtist frétt í Alþýðublaðinu þess efnis að biskup íslensku þjóðkirkjunnar hefði gefið út bækling til að vara við Vottum Jehóva og hvetja fólk til að hlusta ekki á þá. Bæklingurinn hét Vottar Jehóva — aðvörun. Í framhaldinu var svo fjallað um málið í öðrum dagblöðum. Síðdegisblaðið Vísir birti viðtal við bróður sem starfaði á deildarskrifstofunni. Sjónarmið okkar voru útlistuð í greininni og síðar einnig í öðrum dagblöðum. Þetta varð til mikils vitnisburðar og margir kynntust starfi okkar fyrir vikið. Einstaka maður sendi lesendabréf sem birtust í blöðunum. Biskupinn sat ekki auðum höndum heldur „svaraði“ okkur í dagblöðunum. En söfnuðurinn fékk tækifæri til að gera grein fyrir starfi sínu og trúarskoðunum í heilsíðugrein í Morgunblaðinu.
Bæklingnum með viðvörun biskups var dreift um land allt en það reyndist vera mikil kynning fyrir Votta Jehóva. Áhrifanna gætti um margra ára skeið á starfssvæðinu. Slík var kynningin að eitt af blöðunum hafði á orði að biskupinn væri orðinn auglýsingastjóri Votta Jehóva. Vottar Jehóva urðu vel þekktir, jafnvel á afskekktum slóðum þar sem ekkert boðunarstarf var í gangi. Þó að einstaka maður fylgdi ráði biskups voru algengustu viðbrögðin forvitni. En á Akureyri voru viðbrögðin fremur fjandsamleg. Fyrir kom að krakkar og unglingar köstuðu grjóti að Heinrich og Katherine Karcher sem voru brautryðjendur þar í bæ á þeim tíma. Mörgum árum síðar tóku aðrir andstæðingar okkar á Akureyri upp á því að láta endurprenta bækling biskups og dreifðu honum á nýjan leik. Hvítasunnumenn í Reykjavík gerðu slíkt hið sama í von um að stöðva boðunarstarf okkar eða gera okkur erfiðara fyrir.
AÐ SKIPULEGGJA MÓT
Mótin hafa alltaf verið einkar ánægjuleg fyrir þjóna Guðs hér á landi. Bræðurnir veigruðu sér ekki við að skipuleggja mót þó að boðberarnir væru fáir. Fyrsta mótið var haldið í júlí 1951 þegar tveir bræður, þeir Percy Chapman frá Kanada og Klaus Jensen frá Brooklyn, höfðu viðkomu á landinu. Þeir voru á leið til meginlands Evrópu til að vera viðstaddir nokkur mót þar um sumarið. Þó að boðberarnir á Íslandi væru frekar fáir á þeim tíma voru samt 55 viðstaddir mótið þegar flest var. Næsta mót var haldið sjö árum síðar, í júní 1958 þegar Filip Hoffmann heimsótti landið sem fulltrúi hins stjórnandi ráðs. Þrjátíu og átta hlýddu á opinbera fyrirlesturinn. Þaðan í frá hafa verið haldin mót á hverju ári.
Friðrik Gíslason var einn af þeim fáu bræðrum sem voru með verkefni á mótunum á sjötta áratugnum. Hann segir svo frá: „Ég man að ég sá um mötuneytið á fyrstu mótunum. Ég sá að mestu leyti um vinnuna sjálfur og auk þess var ekki óvenjulegt að ég væri með þrjú eða fjögur verkefni á dagskránni á hverjum degi. Ég var með svuntu þegar ég vann í eldhúsinu en klæddi mig í jakkann þegar ég var á leið inn í salinn til að flytja ræðu. Stundum þurfti hins vegar að minna mig á að taka af mér svuntuna. Núna eru 400 til 500 manns á mótunum og margir ágætir öldungar eru með verkefni á dagskránni.“
Biblíuleikrit hafa alltaf verið skemmtilegir og fræðandi liðir á dagskrá landsmótanna. En þar sem boðberarnir voru svo fáir var látið nægja að leika hljóðupptökur og sýna litskyggnur sem danska deildarskrifstofan lét í té. Það kostaði engu að síður töluverðan undirbúning að flytja leikrit. Fyrst þurfti að þýða textann á íslensku og síðan þurftu íslenskumælandi bræður og systur að lesa hann inn á segulband. Að lokum var bætt við tónlist og leikhljóðum af ensku hljóðupptökunum. Stundum þurfti sami einstaklingurinn að fara með nokkur hlutverk og breytti þá röddinni eftir því hvaða persónu hann lék. Síðan kom að því að farið var að sviðsetja leikritin.
Fyrsta leikritið, sem var sviðsett, fjallaði um Ester drottningu. Það var flutt á landsmótinu árið 1970. Bræður og systur unnu að þessu verkefni af miklu kappi og æfðu leikritið vandlega. Það var ný lífsreynsla fyrir þau að klæðast eins og fólk gerði á biblíutímanum og fyrir bræðurna að láta líma á sig skegg. Því var haldið leyndu að flutt yrði sviðsett leikrit á mótinu þannig að það kom öllum gleðilega á óvart. Á fámennum mótum, þar sem næstum allir þekkja alla og mótsgestir sitja nálægt sviðinu, reyna menn gjarnan að átta sig á því hverjir leikararnir séu. Eftir að hafa séð eitt af leikritunum sagði systir nokkur: „Hugsa sér! Ég þekkti bara einn bróður í leikritinu og það var sá sem lék Nebúkadnesar konung!“ Síðan nefndi hún bróðurinn með nafni og varð ekki lítið undrandi þegar í ljós kom að hún hafði rangt fyrir sér! Bræðrafélagið metur mikils þá vinnu sem svo margir leggja á sig til að flytja dagskrána á þessum fámennu mótum. Það er hins vegar mikils virði fyrir alla að heyra þau á heimamálinu til að njóta góðs af þeim lærdómi sem draga má af þeim.
ALÞJÓÐAMÓT REYNAST MIKLIR GLEÐIGJAFAR
Bræður og systur á Íslandi hafa einnig sótt alþjóðamót erlendis. Fimm boðberar höfðu tækifæri til að vera viðstaddir alþjóðamótið „Vilji Guðs“ í New York árið 1958. Margir sóttu mótið „Sameinaðir tilbiðjendur“ á meginlandi Evrópu árið 1961 og mótið „Eilífur fagnaðarboðskapur“ árið 1963. Allmargir sameinuðust bræðrum og systrum frá mörgum löndum á alþjóðamótinu „Sigur Guðs“ árið 1973. Meira en hundrað boðberar á Íslandi voru viðstaddir alþjóðamótið „Friður á jörð“ sem haldið var í Kaupmannahöfn dagana 5. til 10. ágúst 1969. Þetta er stærsti hópur boðbera frá Íslandi sem sótt hefur alþjóðamót erlendis. Það sumar fóru um átta af hverjum tíu boðberum á landinu utan til að sækja mót.
Þar eð svo margir ákváðu að vera viðstaddir mótið í Kaupmannahöfn árið 1969 gerði danska deildarskrifstofan ráðstafanir til þess að íslenski hópurinn gæti setið saman á leikvanginum. Áður en dagskráin hófst að morgni hittist hópurinn þar og fékk að heyra stutta samantekt á íslensku á ræðum dagsins á undan.
Meðal viðstaddra var ungur maður sem hét Bjarni Jónsson. Faðir hans, sem var lögfræðingur, átti húsið sem var leigt fyrir deildarskrifstofu og trúboðsheimili í Reykjavík. Bjarni þekkti lítið til sannleikans, og þótt hann ferðaðist með hópnum til Danmerkur var það ekki í þeim tilgangi að sækja mótið. Hvernig bar það til?
Kjell Geelnard, sem veitti deildarskrifstofunni forstöðu á þeim tíma, átti erindi við föður Bjarna. Kjell sagði honum frá alþjóðamótinu í Kaupmannahöfn og nefndi að hópur bræðra og systra ætlaði að fara utan til að sækja mótið. Faðir Bjarna spurði þá hvort það væri ekki mögulegt að elsti sonur hans slægist í hópinn. Hann sagði Kjell að sonurinn væri nýbúinn að ljúka menntaskóla og sig langaði til að gefa honum utanlandsferð, og það mætti þess vegna vera til Kaupmannahafnar. Kjell þótti þetta ágæt hugmynd og sagði lögfræðingnum að hann gæti útvegað Bjarna gistingu ytra ef hann vildi koma á mótið til að sjá það sem þar færi fram. Lögfræðingnum leist vel á það og spurði Bjarna hvort hann vildi fara með vottunum sem voru á leið utan. Bjarni var hinn ánægðasti með það.
Haft var samband við gistideild mótsins til að útvega Bjarna gistingu í Kaupmannahöfn. Honum var komið fyrir hjá fjölskyldu í söfnuðinum. Upphaflega átti að gista þar bandarískur vottur ásamt íslenskum bróður sem hét Jakob, en sá bandaríski hafði afpantað gistinguna og Bjarni fékk inni í staðinn. En einhverra orsaka vegna lét Jakob aldrei sjá sig þannig að Bjarni var sá eini sem gisti hjá þessari fjölskyldu. Gistideildin hafði ekki látið gestgjafana vita að Bjarni kæmi í staðinn fyrir bandaríska bróðurinn þannig að þau héldu að þarna væri Jakob kominn.
Vottar skiptast gjarnan á frásögum þegar þeir hittast. Það kom dönsku fjölskyldunni svolítið á óvart að „Jakob“ hafði frá ósköp litlu að segja. Bjarni undraðist það hins vegar að gestgjafarnir skyldu kalla hann Jakob. En hann hugsaði með sér að Jakob væri biblíunafn og kannski væri það bara siður hjá vottunum að kalla hver annan biblíunöfnum þegar þeir ræddu saman. Hið sanna kom svo í ljós þegar einn úr fjölskyldunni, sem Bjarni gisti hjá, hitti danskan bróður sem var brautryðjandi á Íslandi. Hann spurði brautryðjandann hvort „Jakob“ væri nýr í sannleikanum fyrst hann hefði svo fátt að segja um starfið á Íslandi. Danski bróðirinn svaraði því til að „Jakob“ héti raunar Bjarni, og væri námsmaður frá Íslandi sem hefði slegist í för með hópnum til Kaupmannahafnar. Gestgjafar Bjarna sýndu honum mikla gestrisni og buðu honum að búa hjá sér í viku til viðbótar meðan hann skoðaði sig um í Danmörku. Þessi hlýja og vinsemd snerti Bjarna.
Bjarni sótti reyndar mótið líka. Þó að hann þekkti lítið til sannleikans og hefði þar af leiðandi ekki fullt gagn af dagskránni var hann snortinn af því sem hann sá og heyrði. Eftir að hann kom heim fóru hann og fjölskylda hans að kynna sér Biblíuna. Bjarni tók góðum framförum í trúnni og lét skírast árið 1971. Hann hefur setið í deildarnefndinni frá 1979.
Svanberg Jakobsson hefur starfað sem þýðandi á deildarskrifstofunni í fjölda ára og er nú umsjónarmaður þýðingadeildarinnar. Árið 1973 sótti hann alþjóðamótið „Sigur Guðs“ í Lundúnum, þá ungur boðberi. „Mér er minnisstætt hve hrífandi það var að horfa á bræður og systur streyma þúsundum saman inn á leikvanginn,“ segir hann. „Sérstaklega þótti mér gaman að sjá mikinn fjölda votta frá Afríku í sínum skrautlegu klæðum. Það var ógleymanleg lífsreynsla að vera þarna með tugþúsundum trúsystkina minna, hlusta á dagskrána með þeim, syngja með þeim, biðja með þeim, borða með þeim og bara að vera með þeim.“
Sólborg Sveinsdóttir lét skírast árið 1958. Hún fór sjóleiðina til Kaupmannahafnar með fjórum af börnum sínum til að sækja mótið árið 1961. Ferðin tók sex daga. Sólborg tilheyrði fámennum hópi boðbera í Keflavík. Hvernig fannst henni að vera viðstödd fjölmennt alþjóðamót? „Það var ólýsanlegt að heyra meira en 30.000 bræður og systur syngja ríkissöngvana á fimm tungumálum — það hafði sterk áhrif á mig. Allt var svo vel skipulagt.“
Það kostaði sitt að sækja alþjóðamót en þeim sem gerðu það þótti það peninganna virði. Þeim fannst það vera mikil blessun að mega njóta andlegrar veislumáltíðar frá Jehóva með þúsundum trúsystkina sinna.
„ÞJÓNN“ KEMUR Í HEIMSÓKN
Margir hafa flust hingað til lands til að þjóna þar sem þörfin er meiri. Allir hafa þeir þurft að heyja langa og stranga baráttu við íslenska tungumálið sem er ekki það einfaldasta í heimi. En stundum getur misskilningur orðið til blessunar. Einu sinni var Heinrich Karcher, sem oftast var kallaður Heinz, að starfa hús úr húsi og kynnti sig sem þjón orðsins. Ung kona kom til dyra á einum stað og bauð honum tafarlaust inn eftir að hann hafði kynnt sig. Hún hafði misskilið hann þegar hann kynnti sig sem „þjón“ og hélt að hann væri vinnufélagi mannsins hennar en hann var veitingaþjónn á hóteli. Hún ákvað að bjóða „vinnufélaganum“ inn þar sem hún átti von á manninum sínum von bráðar. Þau hlógu auðvitað dátt þegar misskilningurinn kom í ljós.
Eiginmaðurinn kom heim og „þjónninn“ bar ungu hjónunum góða andlega máltíð sem féll þeim vel í geð. Þau báðu Heinz að koma aftur og taka konuna sína með. Innan skamms var reglulegt biblíunám komið af stað og áhugasömu hjónin voru fljótlega farin að vitna fyrir öðrum. Ungi maðurinn talaði við alla sem heyra vildu þegar hann var að vinna á hótelinu. Hjónin létu skírast þegar fram liðu stundir og voru innilega þakklát fyrir að „þjónninn“ skyldi hafa komið í heimsókn og skyldi ekki hafa látið það aftra sér að þurfa að vitna fyrir þeim á öðru tungumáli en sínu eigin.
Ýmis spaugileg mismæli hafa hrotið af vörum erlendra boðbera þegar þeir voru að reyna að tjá sig á íslensku. Skömmu eftir að Sally Macdonald kom til landsins æfði hún sig í að segja: „Ég er að heimsækja fólk í hverfinu til að benda á athyglisvert atriði í Biblíunni,“ en ruglaðist á orðum þannig að útkoman varð: „Ég er að ofsækja fólk í hverfinu.“
HÚS ÚR HÚSI MEÐ PRESTI
Holger og Tove Frederiksen frá Danmörku þjónuðu dyggilega hér á landi í mörg ár sem brautryðjendur og um tíma í farandstarfi. Enda þótt íslenskan vefðist nokkuð fyrir Tove bjó hún yfir óbilandi eldmóði og kappi og hjálpaði mörgum inn í sannleikann.
Meðan Holger var farandhirðir var hann einu sinni að starfa hús úr húsi í Þykkvabænum með ungum boðbera þegar presturinn á staðnum tók að fylgja þeim hús úr húsi. Hvað var á seyði?
Stundu áður en presturinn birtist höfðu bræðurnir bankað upp á hjá honum. Hann virtist vingjarnlegur í fyrstu og bauð þeim inn á skrifstofuna sína. Hann blaðaði lítið eitt í bókunum sem þeir voru að bjóða og sagði svo: „Þessar bækur fara með falskenningar!“ Síðan stóð hann upp, lyfti höndum og lýsti bölvun Guðs yfir þeim. „Ég banna ykkur að prédika hér í sókninni minni!“ hrópaði hann. Holger sagði honum að hann gæti ekki bannað þeim að prédika og að þeir myndu halda því áfram. „Ef þið ætlið að prédika fyrir fólki í sókninni minni ætla ég að koma með ykkur,“ svaraði prestur. Holger sagði að honum væri það velkomið.
Eftir að presturinn hafði fylgt þeim í næstu tvö hús hittu þeir Tove og aðra systur sem voru ekki lítið undrandi að sjá hver var farinn að starfa með þeim hús úr húsi. Presturinn bauð þeim öllum að koma heim til sín og þiggja kaffibolla og þau áttu vinsamlegt spjall saman. Holger hafði samt á tilfinningunni að hin óvænta gestrisni prestsins hafi verið hugsuð til þess að koma í veg fyrir að þau næðu að banka upp á hjá öllum á svæðinu. Boðberarnir komu því aftur daginn eftir, luku við að starfa í Þykkvabænum, dreifðu töluvert miklu af ritum og hittu marga sem hlustuðu vel.
STÖÐVUÐ AF SNJÓFLÓÐI
Til að prédika fyrir fólki úti á landsbyggðinni þarf oft að aka langar leiðir og fara um fjallvegi þar sem búast má við snjó og hálku að vetri. Kjell og Iiris Geelnard voru í farandstarfi í desember 1974 og fóru þá til Akureyrar. Þau störfuðu með söfnuðinum í viku og fóru meðal annars til Húsavíkur sem er rúmlega 80 kílómetra leið. Holger og Tove Frederiksen urðu þeim samferða. Fjórmenningarnir störfuðu á Húsavík og í nágrenni í nokkra daga og í lokin var fluttur fyrirlestur með skuggamyndum í skólahúsi í bænum. Um svipað leyti og samkoman hófst skall á stormur með slyddu og snjókomu. Þegar samkomunni var lokið og viðstaddir bjuggust til að halda heimleiðis fór rafmagnið af bænum vegna veðursins. Boðberarnir kvöddu skólann í myrkri en voru þakklátir fyrir að hafa getað lokið skuggamyndasýningunni áður en rafmagnið fór af.
Fjórmenningarnir vildu komast aftur til Akureyrar. Þau spurðust fyrir hjá lögreglunni og hjá rútu- og vörubílstjórum sem sögðu að færðin hefði verið ágæt skömmu áður og þeim ætti að vera óhætt að fara. Þau ákváðu því að leggja af stað eins fljótt og auðið væri en það tók þau samt nokkurn tíma að taka saman pjönkur sínar við kertaljós. Og þegar þau komu við á bensínstöð til að kaupa bensín á bílinn þurfti afgreiðslumaðurinn að dæla því með handafli. Klukkan var orðin níu að kvöldi þegar þau komust loks af stað.
Kjell lýsir ferðinni: „Allt gekk að óskum í fyrstu en smám saman þyngdist færðin. Stundum var skyggnið svo slæmt að Holger þurfti að ganga á undan bílnum með vasaljós í hendi og vísa okkur veginn. Síðan fórum við að festa bílinn í sköflunum. Okkur tókst að losa hann nokkrum sinnum með því að moka og ýta en að síðustu ókum við fram á háan snjóvegg og komumst ekki lengra. Við komumst síðar að raun um að snjóflóð hafði fallið á veginn úr fjallinu fyrir ofan. Við venjulegar aðstæður tekur það tvo tíma að aka frá Húsavík til Akureyrar en við vorum búin að vera sex tíma á leiðinni og vorum ekki nema hálfnuð.
Klukkan var orðin þrjú að nóttu, okkur var kalt og við vorum þreytt og blaut. Við vorum því aldeilis glöð þegar við sáum ljós á sveitabæ í grenndinni. Fyrst ljósin voru kveikt tókum við í okkur kjark til að banka upp á. Holger, sem er hæverskur og tillitssamur að eðlisfari, bankaði á útidyrnar. Þegar enginn kom til dyra opnaði hann dyrnar, gekk inn, fór upp á loft og bankaði laust á svefnherbergisdyrnar. Bóndahjónin voru að vonum undrandi en tóku þessari óvæntu heimsókn mjög vel. Það hafði verið rafmagnslaust þegar þau fóru að hátta og þau höfðu víst gleymt að slökkva ljósin.
Nú fengum við að kynnast hinni rómuðu íslensku gestrisni. Hjónin færðu sofandi börnin yfir í annað herbergi þannig að við fengum tvö herbergi fyrir okkur, og áður en varði var rjúkandi kaffi og gómsætt brauð á eldhúsborðinu. Þegar við höfðum fengið morgunkaffi daginn eftir lagði bóndinn fast að okkur að vera um kyrrt og borða hádegismat með fjölskyldunni. Að honum loknum gátum við haldið áfram ferðinni til Akureyrar því að tveir stórir snjóplógar voru búnir að moka veginn. Gestrisni hjónanna á bænum gaf okkur tækifæri til að segja þeim frá sannleika Biblíunnar.“
BOÐUNARSTARF Á TOGARA
Um 1980 hitti Kjell ungan mann í boðunarstarfinu á Akureyri. Sá hét Friðrik og var elsti sonurinn í fjölskyldunni. Hann var andlega sinnaður og hafði ánægju af því að ræða um Biblíuna. Hann spurði um margt og sýndi mikinn áhuga á að fræðast um orð Guðs. En það var ekki hlaupið að því að hitta hann aftur því að hann var vélstjóri á togara. Hann var ekki heima nema fáeina daga á milli túra. Kjell tókst þó að hitta hann, stundum niðri á höfn og stundum heima, með því að fylgjast með veiðiferðum togarans og fá upplýsingar hjá móður Friðriks um það hvenær von væri á honum í land. Þannig var hægt að hjálpa honum að byggja upp þekkingu sína.
Undir árslok 1982 var Friðrik boðið að sækja svæðismót í Reykjavík. Nú var hann byrjaður að trúa á Jehóva og bað hann þess í bæn að fá tækifæri til að sækja mótið. Þá bar svo við að einn úr áhöfninni, sem hafði ætlað að taka sér frí næsta túr, hætti óvænt við það þannig að Friðrik gat fengið frí til að sækja mótið. Mótið hafði sterk áhrif á hann og hann komst að þeirri niðurstöðu að hann vildi þjóna Jehóva.
Þegar Friðrik kom heim til Akureyrar eftir mótið sagði hann Helgu, unnustu sinni, hvað hann hefði ákveðið og lýsti fyrir henni hvaða áhrif það ætti eftir að hafa á líf sitt. Hann sagðist vilja kvænast henni en ef hún gæti ekki hugsað sér að vera gift manni, sem væri vottur Jehóva, ætti hún að slíta trúlofuninni. Morguninn eftir var barið að dyrum á trúboðsheimilinu. Fyrir utan stóðu Friðrik og Helga. Friðrik kom sér beint að efninu: „Helga vill fá biblíunámskeið!“ Trúboðarnir lögðu strax drög að því. Síðar um daginn bað einn af bræðrum Friðriks um biblíunámskeið. Vikan var ekki á enda þegar Friðrik kom með yngstu systur sína á samkomu og sagði: „Unnur vill fá biblíunámskeið!“
Friðrik vildi láta skírast til tákns um að hann hefði vígt sig Jehóva. En fyrst þurfti hann að afla sér meiri þekkingar og fara yfir skírnarspurningarnar. Vandinn var bara sá að hann var flestum stundum á sjónum þannig að Kjell gat ekki hitt hann heima. Var kannski hægt að hitta hann á vinnustaðnum? Friðrik gerði sér lítið fyrir og réð Kjell sem aðstoðarmann í vélarrúmi togarans. Kjell steig því um borð í togarann Svalbak snemma árs 1983 með Biblíuna og námsefni í farteskinu.
„Vinnan um borð í Svalbaki var eftirminnileg,“ segir Kjell. „Vinnudagurinn stóð frá klukkan hálfsjö að morgni til klukkan hálfsjö að kvöldi. Við fengum matarhlé um hádegi og kaffihlé bæði á miðjum morgni og aftur síðdegis. Utan vinnutíma vorum við Friðrik önnum kafnir við biblíunám og ég fékk mörg tækifæri til að vitna fyrir öðrum í skipshöfninni. Kvöldin voru notuð til náms og til að ræða andleg málefni. Stundum var komið fram yfir miðnætti þegar við lögðumst til svefns. Við reyndum að vera fljótir að ljúka við matinn í hádeginu til að geta rætt um dagstextann í klefanum hjá Friðrik.“
Það fór auðvitað ekki fram hjá neinum í áhöfninni að nú var trúboði um borð. Fyrstu dagana voru skipverjar svolítið á varðbergi gagnvart Kjell því að þeir vissu ekki hverju mætti búast við af honum. Sumir hlustuðu samt fúslega á það sem hann hafði að segja. Einn þeirra sýndi töluverðan áhuga og vildi vera með þegar hann frétti að Kjell og Friðrik ræddu um dagstextann á hverjum degi. Dag nokkurn þótti honum umræðurnar í matsalnum dragast heldur á langinn og sagði þá stundarhátt: „Eigum við ekki að fara að drífa okkur að lesa dagstextann?“
Kvöld nokkurt buðu Kjell og Friðrik áhöfninni að koma í klefann til Friðriks til að ræða um efni í Vaknið! þar sem fjallað var um drykkjusýki. Sjö skipverjar mættu til þessa fundar sem var lengi í minnum hafður, og það fréttist jafnvel af honum til annarra togara í flotanum.
„Við komum aftur í höfn eftir næstum hálfs mánaðar vinnu og boðunarstarf um borð í Svalbaki,“ segir Kjell. „Ég var þá búinn að fara yfir skírnarspurningarnar með Friðrik, auk þess að ræða við hann um alls konar biblíutengd efni, vitna fyrir öðrum í áhöfninni og koma blöðum og bókum í hendur þeirra.“ Friðrik lét skírast vorið 1983, og unnusta hans, móðir og systir tóku allar afstöðu með sannleikanum.
BIBLÍUNÁM Í SÍMA
Það hefur alltaf verið þrautin þyngri að boða fagnaðarerindið meðal fólks í hinum dreifðu byggðum landsins. Síminn hefur reynst öflugt tæki til að ná til áhugasamra og halda sambandi við þá.
Margir hafa nýtt sér símann til að boða fagnaðarerindið. Fyrir allnokkrum árum heimsótti Oddný Helgadóttir son sinn og tengdadóttur en þau stunduðu þá biblíunám með hjálp votta Jehóva. Þau sögðu henni frá því sem þau voru að læra og hana langaði þá líka til að kynna sér Biblíuna. En Oddný bjó í afskekktri sveit við Ísafjarðardjúp og það voru meira en 300 kílómetrar til næsta safnaðar sem var á Akranesi. Þegar Guðrún Ólafsdóttir bauðst til að kenna henni símleiðis þáði hún það með þökkum. Guðrún fór með bæn í byrjun hverrar námsstundar og síðan svaraði Oddný greiðlega öllum spurningunum í bókinni. Hún undirbjó sig vandlega og skrifaði meira að segja niður alla ritningarstaði, sem vísað var til í námsefninu, til að vera fljót að lesa þá þegar að þeim kæmi. Þá þurfti hún ekki að leita uppi ritningarstaðina meðan á náminu stóð. Eitt sinn þegar Oddný var stödd á Akranesi heimsótti hún Guðrúnu. Báðar voru svolítið vandræðalegar því að nú ætluðu þær að eiga námsstund saman augliti til auglitis í fyrsta sinn. Guðrún stakk þá upp á því í gamni að hún færði sig bara yfir í næsta herbergi því að þar væri annar sími!
Þegar Oddný fór að skilja sannleikann beið hún ekki boðanna að vitna fyrir Jóni, eiginmanni sínum. Hann sýndi líka áhuga en hún var óviss um hvort það væri viðeigandi að hún kenndi honum. Hún spurðist fyrir og fékk þá að vita að hún mætti auðvitað kenna honum en það væri viðeigandi fyrir hana að vera með höfuðfat á meðan. Auk þess að leiðbeina Jóni vitnaði hún fyrir nágrönnum sínum. Þá kom að því að hana langaði til að láta skírast. Guðrún gerði ráðstafanir til þess að hún gæti farið símleiðis yfir skírnarspurningarnar með safnaðaröldungi. Það vantaði aðeins eitt upp á að hún væri hæf til að láta skírast — hún var ekki búin að segja sig formlega úr kirkjunni.
Viku síðar hringdi Oddný til Guðrúnar og lét hana vita að nú væri hún búin að segja sig úr kirkjunni og Jón sömuleiðis. Fyrir hann var þetta stór ákvörðun því að hann hafði verið formaður sóknarnefndarinnar í sveitinni. Oddný lét síðan skírast á næsta svæðismóti. Það var sérstök lífsreynsla fyrir hana að sækja svæðismót því að fram að þeim tíma hafði hún aðeins einu sinni hitt fámennan hóp votta. Í viðtali við hana á svæðismótinu var hún spurð hvort henni þætti ekki erfitt að vera svona einangruð. Nei, henni fannst hún aldrei vera ein því að hún vissi að Jehóva væri líka nærstaddur á Vestfjörðum. Hún bætti við að sér þætti miður að maðurinn hennar skyldi ekki geta verið með á mótinu en hann hefði fullvissað hana um að hann kæmi þegar hann væri tilbúinn til að láta skírast. Hann stóð við það og nokkru síðar fluttust þau til Akraness þar sem þau gátu sótt samkomur að staðaldri.
ÞÖRF FYRIR TRÚBOÐSHEIMILI OG RÍKISSALI
Þegar Nathan H. Knorr heimsótti Ísland frá aðalstöðvunum árið 1968 lagði hann áherslu á að finna þyrfti hentugri stað fyrir deildarskrifstofu og trúboðsheimili. Fyrsta október það ár fluttust trúboðarnir sex í hentugt leiguhúsnæði að Hrefnugötu 5 í Reykjavík. Þar var síðan miðstöð boðunarstarfsins á Íslandi næstu fimm árin. Fram að þeim tíma hafði verið leigt húsnæði á ýmsum stöðum en nú fóru bræðurnir að leita að lóð þar sem reisa mætti hús undir ríkissal, trúboðsheimili og deildarskrifstofu. Nokkru síðar tókst að finna hentuga lóð við Sogaveg 71 í Reykjavík. Bygging hússins hófst vorið 1972. Þetta verkefni reyndi mikið á hina fáu bræður á svæðinu sem höfðu litla þekkingu og reynslu af byggingarframkvæmdum. Innan bræðrafélagsins voru engir byggingarverktakar og fáir iðnaðarmenn þannig að nauðsynlegt var að ráða verktaka sem voru ekki vottar. Verktakarnir reyndust framúrskarandi samvinnuþýðir og leyfðu bræðrunum að vinna með sér að framkvæmdinni. Leigt var pláss í gömlu húsi á lóðinni við hliðina og þar var afdrep til að matast. Systurnar í söfnuðinum skiptust á að elda mat heima hjá sér og komu svo með hann á byggingarstað.
Byggingarframkvæmdin vakti mikla athygli á svæðinu, og bæði verktakar og borgaryfirvöld fengu gott tækifæri til að kynnast vottum Jehóva. Ýmsir komu við á byggingarstaðnum til að fylgjast með framvindu verksins. Þegar kom að því að múrhúða innan húss var fenginn hingað danskur bróðir sem var múrari að atvinnu. Og systurnar í söfnuðinum lögðu mikið á sig. Einu sinni, þegar eftirlitsmenn frá byggingarfulltrúa komu við, tóku þeir eftir að systur voru að vinna við steypuhrærivélina. „Ég held að konurnar í kirkjunni okkar gætu lært eitthvað af þessu,“ sagði einn þeirra og bætti við: „Það væri miklu betra að reisa kirkjur með vinnuframlagi en með því að ganga um með samskotabauka og betla peninga.“ Húsið var vígt í maí árið 1975 þegar Milton G. Henschel sótti landið heim og flutti vígsluræðuna. Í húsinu að Sogavegi 71 var árum saman helsta trúboðsheimili á landinu og söfnuðirnir í Reykjavík notuðu ríkissalinn í rúmlega 30 ár. Nú hefur allt húsið verið tekið undir starfsemi deildarskrifstofunnar.
Árið 1987 var reistur nýr ríkissalur og trúboðsheimili á Akureyri. Meira en 60 bræður og systur komu frá Finnlandi og Svíþjóð til að hjálpa trúsystkinum sínum á Íslandi að reisa þetta hús sem vitnar vel um einingu og alþjóðlegt bræðralag Votta Jehóva.
„BESTA SPÝTA SEM ÉG HEF SMAKKAГ
Margir fulltrúar hins stjórnandi ráðs Votta Jehóva hafa sótt Ísland heim, og heimsóknir þeirra hafa alltaf verið mjög hvetjandi fyrir bræðurna hér á landi. Bróðir Knorr heimsótti landið árið 1968 eins og áður er getið. Hann flutti hvetjandi ræðu, sagði frásögur og ræddi við bræðurna um framgang boðunarstarfsins á landinu.
Bróðir Henschel kom tvívegis til landsins, í fyrra skiptið í maí 1970. Syfjaðir trúboðar tóku á móti honum á flugvellinum. Ástæðan var ekki aðeins sú að Henschel kom snemma morguns heldur einnig að Heklugos hafði hafist daginn áður og trúboðarnir höfðu notað nóttina til að sjá gosið.
Bróðir Henschel gaf trúboðum og sérbrautryðjendum sérstakan gaum. Hann fundaði með þeim og sagði þeim frásögur af því þegar hann var brautryðjandi á kreppuárunum. Brautryðjendur höfðu þá látið rit í skiptum fyrir kjúklinga, egg, smjör, grænmeti, gleraugu og meira að segja hvolp! Þannig var starfinu haldið gangandi á þessum erfiðu árum og brautryðjendurna hafði ekki skort lífsnauðsynjar.
Erlendir gestir uppgötva fljótt að ýmislegt er á matseðli Íslendinga sem þeir eru ekki vanir. Þar má nefna svið sem dæmi. Það hugnast ekki öllu aðkomufólki að sjá hálfan lambshaus á disknum sínum með tönnum, auga og öllu tilheyrandi! Mörgum útlendingum finnst erfitt að „horfast í augu við“ sviðakjamma. Engum bregður í brún að borða nýjan fisk en öðru máli gegnir um harðfiskinn. Trúboðarnir voru því spenntir að sjá hvernig bróður Henschel geðjaðist að harðfiski. Hann fékk sér bita og trúboðarnir spurðu hvernig honum hefði líkað fiskurinn. Hann hugsaði sig um stundarkorn og kom síðan með sniðugt svar: „Þetta er nú eiginlega besta spýta sem ég hef smakkað.“
Heimsóknir fulltrúa hins stjórnandi ráðs hafa alltaf verið eftirminnilegar og hvetjandi, og þær hafa minnt bræður og systur á Íslandi á að þau tilheyra sameinuðu, alþjóðlegu bræðralagi, þó svo að landið sé afskekkt og boðberarnir ekki ýkja margir.
SAMVINNA VIÐ LÆKNA OG FJÖLMIÐLA
Spítalasamskiptanefnd skipuð fjórum bræðrum tók til starfa á Íslandi árið 1992. Tveir þeirra fóru til Englands og sóttu þar námskeið fyrir slíkar nefndir en hinir tveir fóru til Danmerkur. Þegar hin nýskipaða nefnd hafði náð að undirbúa sig var haldinn fræðslufundur fyrir lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn á Landspítalanum. Hundrað og þrjátíu manns mættu til fundarins. Þar voru saman komnir læknar, hjúkrunarfræðingar, lögfræðingar og stjórnendur spítalans, auk landlæknis. Þar sem þetta var fyrsti fundur nefndarinnar með heilbrigðisstarfsmönnum voru nefndarmenn eilítið taugaóstyrkir sem vonlegt var. En fundurinn heppnaðist vel og í framhaldi af honum voru haldnir fámennari fundir, bæði á Landspítalanum og víðar, og nefndin náði góðu sambandi við lækna í ýmsum sérgreinum, þar á meðal skurðlækna og svæfingalækna sem gegna stjórnarstörfum. Þau tengsl, sem náðust með þessum hætti, hafa átt sinn þátt í því að fyrirbyggja og leysa vandamál og auðvelda bræðrum og systrum að fá læknismeðferð án blóðgjafar.
Árið 1997 voru sett lög um réttindi sjúklinga. Í lögunum er kveðið á um að ekki megi veita sjúklingi nokkra læknismeðferð án samþykkis hans, og sé sjúklingur meðvitundarlaus beri að virða vilja hans ef fyrir liggur örugg vitneskja þar um. Í lögunum er einnig ákvæði þess efnis að hafa skuli sjúk börn með í ráðum um meðferð þeirra og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri. Guðmundur H. Guðmundsson, sem er formaður spítalasamskiptanefndarinnar, segir: „Læknar eru yfirleitt mjög samvinnuþýðir og árekstrar eru sjaldgæfir. Stórar aðgerðir eru gerðar án blóðgjafar.“
Í tímaritinu Vaknið! í janúar-mars 2000 var fjallað um læknismeðferð án blóðgjafar. Deildarskrifstofan hvatti boðbera til að leggja sérstaka áherslu á að dreifa blaðinu sem víðast og kom með tillögur um hvernig hægt væri að bjóða það og svara spurningum fólks um þetta mál. Sumir voru hikandi í fyrstu að bjóða blaðið en komust fljótt að raun um að fólk vildi mjög gjarnan lesa sér til um þetta málefni. Meira en 12.000 eintökum var dreift meðal almennings en það svarar til þess að 1 af hverjum 22 landsmönnum hafi fengið blaðið í hendur. Bróðir sagði: „Ég átti helst í vandræðum með að komast yfir svæðið vegna þess að ég fékk svo mörg góð samtöl.“ Systir sagði: „Aðeins tveir afþökkuðu blaðið.“
Þáttagerðarkona, sem var með vikulegan þátt á Rás 2 hjá Ríkisútvarpinu, fékk í hendur blaðið um læknismeðferð án blóðgjafar. Hún greindi frá því í þættinum hvernig hún hefði eignast blaðið og rakti síðan sögu blóðgjafa eins og henni er lýst þar. Hún lauk þættinum með þeim orðum að þeir sem vildu afla sér nánari upplýsinga um læknismeðferð án blóðgjafar gætu bara snúið sér til Votta Jehóva og fengið rit hjá þeim.
Átakið, sem gert var til að dreifa þessu tölublaði Vaknið!, opnaði augu margra fyrir því að afstaða okkar til blóðgjafa er skynsamleg. Og þeir komust að raun um að vottar Jehóva vilja ekki deyja heldur sækjast þeir eftir bestu læknismeðferð sem völ er á. Sumir, sem höfðu gert sér rangar hugmyndir um afstöðu okkar til blóðsins, urðu fyrir vikið móttækilegir fyrir boðskapnum um ríkið.
TVEIR RÍKISSALIR Á FJÓRUM DÖGUM
Merkasti viðburður þjónustuársins 1995 var bygging tveggja nýrra ríkissala. Báðir voru reistir samtímis í júnímánuði, annar í Keflavík og hinn á Selfossi. Verkið tók aðeins fjóra daga. Þetta var í fyrsta sinn sem ríkissalir voru byggðir á landinu með slíku hraði en þetta var gerlegt sökum hjálpar bræðrafélagsins í Noregi. Byggingarefnið kom að mestu leyti frá Noregi og rúmlega 120 bræður og systur komu þaðan til að leggja hönd á plóginn við að reisa húsin. Algengasta athugasemdin, sem heyrðist á byggingarstöðunum, var: „Þetta er alveg ótrúlegt!“ Bræður og systur hérlendis höfðu lesið um og heyrt sagt frá því hvernig ríkissalir væru reistir úti í heimi á fáeinum dögum en núna sáu þau með eigin augum hvernig þetta fór fram. Og auðvitað var þetta ótrúlegt þegar á það er litið að tala ríkissala á landinu tvöfaldaðist á fáeinum dögum!
Vottar Jehóva á Íslandi eignuðust ekki aðeins tvo nýja ríkissali heldur nutu þeir líka góðs af því að umgangast trúsystkinin sem komu frá Noregi á eigin kostnað og notuðu hluta af sumarfríinu sínu í að vinna við ríkissalina. Þetta var áþreifanlegt dæmi um alþjóðlegt bræðralag að verki! Bræður og systur á Íslandi lögðu líka sitt af mörkum til þess að byggja salina því að rúmlega 150 boðberar tóku þátt í verkinu eða um helmingur allra boðbera á landinu.
Bygging nýju ríkissalanna vakti líka mikla athygli meðal almennings. Bæði Ríkissjónvarpið og Stöð 2 sögðu frá framkvæmdinni í fréttatíma og sýndu myndir frá báðum stöðunum. Nokkrar útvarpsstöðvar og dagblöð fjölluðu einnig um framkvæmdina. Prestur við þjóðkirkjuna á Selfossi var lítt hrifinn af þeirri athygli sem vottarnir fengu. Í viðtali við Sunnlenska fréttablaðið kallaði hann vottana „falsspámenn“ og kenningu þeirra „rangsnúna villukenningu.“ „Þessi samtök eru hættuleg viðkvæmu fólki sem er veikt fyrir,“ sagði hann. Hann endurtók svo viðvaranir sínar í útvarpsviðtali. En orð prestsins höfðu ekki þau áhrif sem hann hafði vænst heldur vakti bygging ríkissalanna athygli og aðdáun flestra, og margir, sem boðberar hittu, undruðust viðbrögð prestsins.
Um það bil viku eftir viðvaranir prestsins birtist skopmynd í Sunnlenska fréttablaðinu. Í forgrunni myndarinnar er kirkjan á Selfossi en ríkissalurinn í bakgrunni. Nokkrir brosandi og vel klæddir vottar með starfstöskur í hendi eru að ganga yfir Ölfusárbrúna í átt til kirkjunnar. Felmtri slegin kona stekkur upp úr hjólastólnum sínum fyrir framan kirkjuna. Tveir menn leggja á flótta. Annar er með annan fótinn í gifsi en hinn með aðra höndina í fatla og virðist vera blindur. „Flýjum, flýjum, vottarnir koma!“ hrópar annar þeirra. Presturinn stendur á kirkjutröppunum, undrandi á svip. Margir höfðu gaman af myndinni og ritstjórn blaðsins valdi hana bestu skopmynd ársins, lét stækka hana og hengja upp á vegg þar sem hún var til sýnis í nokkur ár.
SÝNING SEM VAKTI MIKLA ATHYGLI
Í byrjun árs 2001 var sett upp sýningin „Milli andspyrnu og píslarvættis — Vottar Jehóva í ofsóknum nasista“. Hún fjallaði um hlutleysi þeirra fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan á henni stóð og lýsti hvernig þeir stóðust ofsóknir nasista. Sýningin var haldin á þrem stöðum og samanlögð aðsókn var 3.896 manns. Á síðasta degi sýningarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur komu meira en 700 gestir. Meðan sýningin stóð yfir gátu gestir horft á myndbandið Staðfesta Votta Jehóva í ofsóknum nasista. Margir gripu tækifærið og horfðu á allt myndbandið sem var með íslensku tali og texta.
Staðfesta vottanna í fangabúðunum snart marga af gestunum sem höfðu ekki þekkt þennan kafla í sögu okkar. Prófessor einn gerði sér nokkrar ferðir á sýninguna og lét þess getið að hún hefði haft sterk áhrif á sig og breytt áliti sínu á Vottum Jehóva. Prófessorinn var sérstaklega snortinn af sterkri trú vottanna í fangabúðunum en ólíkt öðrum föngum hefðu þeir ekki þurft annað en að afneita trú sinni til að hljóta frelsi.
Sýningin fékk ágæta umfjöllun á annarri stóru sjónvarpsstöðinni og einnig á svæðisbundnum sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Þegar sýningin var opnuð fyrir austan fjall var viðstaddur prestur ásamt konu sinni og dóttur. Trúboði hitti prestinn nokkru síðar og bauð honum að heimsækja deildarskrifstofu Votta Jehóva og hann þáði boðið. Nokkrum dögum eftir heimsóknina kom kona til prestsins og spurði hann út í ákveðinn biblíutexta. Hann hvatti hana þá til að setja sig í samband við deildarskrifstofu Votta Jehóva því að þar myndi hún ábyggilega fá svar við spurningunni. Presturinn þáði síðar biblíunámskeið.
ÞÝÐINGARSTÖRF
Það hefur ekki verið þrautalaust fyrir hina fáu boðbera á landinu að íslenska andlegu fæðuna frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘. (Matt. 24:45) Fyrst í stað voru það aðallega íslenskir vottar búsettir í Kanada sem þýddu ritin. Síðar var farið að vinna að þýðingum hér á landi. Eftir að fyrstu trúboðarnir komu til landsins árið 1947 kynntust þeir rosknum manni, ljóðskáldi sem bjó í sama húsi og þeir. Hann kunni ensku og hjálpaði trúboðunum að læra íslensku og bauðst síðan til að þýða einhver rit fyrir þá þannig að hann var ráðinn til að þýða bókina „Guð skal reynast sannorður“ og bæklinginn Fögnuður alls fólks. Því miður reyndist hann forn í máli, notaði ljóðrænan stíl og mikið af gamaldags orðum og orðatiltækjum. Þó svo að Líndal og einn af nýju trúboðunum færu yfir þýðinguna og vélrituðu hana upp á nýtt reyndist bókin aldrei sú ágæta námsbók sem til var ætlast. Engu að síður var henni dreift mjög víða og upplagið komst í 14.568 eintök. Yfir 20.000 eintök voru prentuð af bæklingnum Fögnuður alls fólks árið 1949. Annar þýðandi var svo ráðinn seinna til að þýða bókina Hvað hafa trúarbrögðin gert fyrir mannkynið?
Á þessum árum náði fámennur hópur bræðra að þýða nokkra bæklinga, þar á meðal „Þessar góðu fréttir um ríkið“ sem kom út árið 1959. Boðberunum tókst að hefja mörg ný biblíunámskeið með hjálp þessa bæklings. Þegar hér var komið sögu fékkst leyfi til að hefja útgáfu Varðturnsins á íslensku.
Margar ágætar bækur voru þýddar á næstu árum, bækur eins og „Í því er hið eilífa líf fólgið“ sem kom út árið 1962, Frá hinni týndu paradís til hinnar endurheimtu paradísar árið 1966, Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs árið 1970, Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð árið 1984 og Þekking sem leiðir til eilífs lífs árið 1996. Tímaritið Vaknið! hóf göngu sína á íslensku árið 1982 og kemur út ársfjórðungslega.
Lengi vel var engin söngbók til á íslensku. Árið 1960 voru fjórir söngvar þýddir og fjölritaðir til að nota á móti það ár. Þrem árum síðar, í nóvember 1963, var svo gefin út lítil söngbók með 30 völdum söngvum á íslensku.
Fram að þeim tíma hafði verið sungið á ýmsum tungumálum á samkomunum. Hjónin Günther og Rut Haubitz fluttust til landsins frá Þýskalandi árið 1958 sem sérbrautryðjendur. Rut man enn hvernig hinir aðfluttu boðberar notuðu söngbækur hver á sínu máli, svo sem dönsku, ensku, finnsku, norsku, sænsku og þýsku. Íslendingarnir sungu með á því máli sem þeir kunnu best. „Þetta var býsna blandaður kór,“ segir Rut. Með árunum voru þýddir fleiri söngvar en það var ekki fyrr en árið 1999 sem öll söngbókin með 225 söngvum kom út á íslensku. Það er óhætt að segja að bræður og systur hafi kunnað vel að meta það að geta lofað Jehóva með hjálp þessarar nýju bókar.
Á landsmótinu í ágúst 1999 gerðist það í fyrsta sinn að bók var gefin út á íslensku samtímis ensku útgáfunni. Þetta var bókin Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar. Mótsgestir klöppuðu þegar ræðumaðurinn tilkynnti að þessi nýja bók væri komin út á ensku. En í stað þess að segja þeim að bókin kæmi síðar út á íslensku tilkynnti hann — öllum til óvæntrar gleði — að hún væri þegar komin og hélt henni á lofti! Bæði bindi bókarinnar Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni komu sömuleiðis út á íslensku samtímis ensku útgáfunni.
AUKIN UMSVIF Á BETEL OG AÐRAR FRAMFARIR
Húsnæði deildarskrifstofunnar var endurbætt stórlega árið 1998. Keyptar voru tvær íbúðir handan götunnar til að hýsa Betelíta og rýma fyrir fleiri skrifstofum handa þýðingadeildinni. Þýðendur hafa notið góðs af heimsóknum bræðra frá aðalstöðvunum í New York á síðustu árum en þeir hafa meðal annars kennt þeim að nota hugbúnað sem vottar Jehóva hafa þróað sérstaklega til þýðinga.
Fyrir fáeinum árum var svo haldið enskunámskeið fyrir þýðendur á deildarskrifstofunni sem hefur hjálpað þeim að glöggva sig betur á enska textanum áður en þeir hefjast handa við að íslenska hann.
Í greinargerð frá deildarskrifstofunni segir: „Þegar við lítum um öxl erum við þakklát fyrir að það skyldu vera til bræður og systur sem höfðu hugrekki til að ráðast í það að þýða ritin okkar á íslensku. Þau gerðu þetta jafnvel við frumstæðar aðstæður og án þess að hafa næga þekkingu á málinu. Þó að þýðingarnar hafi vissulega ekki verið í sama gæðaflokki á þeim tíma og þær eru núna ‚lítilsvirðum við ekki þessa litlu byrjun‘. (Sak. 4:10) Við fögnum því að sjá hvernig nafn Jehóva og ríki hefur verið boðað á Íslandi og að margir skuli hafa kynnst sannleikanum.“
Sem stendur eru átta í fullu starfi á deildarskrifstofunni og aðrir í hlutastörfum. Nýr ríkissalur hefur verið reistur handa söfnuðunum í Reykjavík til að hægt sé að leggja gamla ríkissalinn að Sogavegi 71 undir starfsemi deildarskrifstofunnar. Í undirbúningi er að breyta honum þannig að hægt sé að fjölga starfsfólki á Betel.
Boðunarstarfið á Íslandi hefur kostað þrautseigju, þolgæði, fórnfýsi og kærleika. Það má með sanni segja að þrotlaust starf hinna kappsömu boðbera á Íslandi síðastliðin 76 ár hafi ekki verið til einskis. Margir trúfastir bræður og systur hafa lagt sitt af mörkum við uppskeruna. Margir hafa flust hingað erlendis frá og starfað hér um árabil, og þeirra er minnst með hlýju. Sumir hafa sest hér að fyrir fullt og allt. Og þolgæði íslensku boðberanna er ekki síður hrósvert.
Þótt boðberar fagnaðarerindisins séu ekki margir á Íslandi eru vottar Jehóva vel þekktir um land allt. Um þessar mundir starfa sex trúboðar úti á landsbyggðinni. Á þjónustuárinu 2004 voru 543 viðstaddir minningarhátíðina um dauða Krists og næstum 180 biblíunámskeið voru í gangi.
Kannski á bræðrafélagið á Íslandi einhvern tíma eftir að sjá sambærilega aukningu og lýst er í Jesaja 60:22: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða því, þegar að því kemur.“ En hvernig sem framvindan verður eru vottar Jehóva á Íslandi staðráðnir í að vinna það verk sem konungurinn Jesús Kristur hefur falið þeim — að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Þeir eru þess fullvissir að Guð láti sáðkorn sannleikans festa rætur í hjörtum þeirra sem eru móttækilegir fyrir sannleikanum og kunna að meta hann. — Matt. 24:14; 1. Kor. 3:6, 7; 2. Tím. 4:5.
[Kort á blaðsíðu 5]
(Sjá uppraðaðann texta í bæklingnum)
Húsavík
Hólar
Akureyri
Seyðisfjörður
Neskaupstaður
Eskifjörður
Stykkishólmur
Borgarnes
Höfn
REYKJAVÍK
Skálholt
Keflavík
Selfoss
[Rammi á blaðsíðu 5]
Um land og þjóð
Landið: Ísland liggur í Norður-Atlantshafi rétt sunnan við heimskautsbaug. Vestan við landið er Grænlandssund en Noregshaf að austan. Víða um land eru eldfjöll, heitar laugar og goshverir. Um tíundi hluti landsins er þakinn jöklum.
Þjóðin: Íslendingar eru afkomendur víkinga sem fluttust hingað aðallega frá Noregi. Þeir eru taldir duglegir, hugmyndaríkir og umburðarlyndir. Flestir búa við sjávarsíðuna.
Tungan: Íslenskan er runnin frá máli norskra landnámsmanna á níundu öld. Auk íslenskunnar tala margir tvö eða fleiri erlend tungumál, svo sem ensku, þýsku eða önnur Norðurlandamál.
Atvinna: Fiskveiðar og fiskvinnsla gegna stóru hlutverki í afkomu Íslendinga. Mest er veitt af þorski, ýsu, loðnu og síld, aðallega til útflutnings.
Matur: Fiskur og lambakjöt hafa lengi verið áberandi á matseðli Íslendinga. Svið eru íslenskur sérréttur.
Loftslag: Golfstraumurinn hefur þau áhrif að loftslag er mildara en ætla mætti miðað við legu landsins. Vetur eru vindasamir og sumrin fremur svöl.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 6]
6. september 1942: „Enn þá er aðeins einn brautryðjandi starfandi á þessu landi þannig að það er ekki frá miklu að segja. Á Íslandi búa um 120.000 manns og þar eru um 6.000 sveitabæir. Eina leiðin til að heimsækja þessa bæi er að ferðast á hestum. Til að ná til þeirra allra þarf að ferðast um 10.000 mílur og það er yfir mörg fjöll og straumharðar ár að fara. Enn sem komið er hefur lítill áhugi reynst vera fyrir boðskapnum.“
Þetta skrifaði Georg Fjölnir Líndal eftir að hafa starfað einn á Íslandi í 13 ár. Hann var áfram eini boðberinn á landinu næstu fimm árin.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 11]
Löng og dygg þjónusta
Oliver Macdonald var einn af fyrstu trúboðunum sem sendir voru hingað til lands. Hann útskrifaðist úr 11. bekk Gíleaðskólans og kom hingað í desember 1948 ásamt Ingvard Jensen. Þeir fengu far með flutningaskipi frá New York og ferðalagið tók hálfan mánuð. Norður-Atlantshafið var úfið og báðir voru sjóveikir mestan hluta leiðarinnar.
Mac, eins og hann var kallaður að jafnaði, gekk að eiga Sally Wild frá Englandi í mars 1950 en hún hafði starfað á Betel í Bretlandi. Þau hjónin áorkuðu miklu þau ár sem þau voru hér og margir sem þau kenndu þjóna Jehóva dyggilega enn þann dag í dag.
Mac og Sally héldu aftur heim til Englands árið 1957. Sally hafði greinst með krabbamein áður en þau fóru frá Íslandi og dó skömmu síðar. Mac gerðist aftur boðberi í fullu starfi eftir að hann missti Sally og þjónaði sem brautryðjandi og síðan sem farandhirðir um 13 ára skeið. Árið 1960 kvæntist hann Valerie Hargreaves sem var sérbrautryðjandi. Þau þjónuðu saman á ýmsum farandsvæðum á Bretlandseyjum, allt frá Ermasundseyjunum, suður af Englandi, til Hjaltlandseyja norður af Skotlandi. Þegar þau voru á leið norður eftir farandsvæðinu sagði Mac stundum: „Ísland er næsti viðkomustaður!“ Hann ímyndaði sér þó aldrei að það yrði að veruleika.
Árið 1972 voru Mac og Valerie hins vegar útnefnd trúboðar og send til Íslands. Mac tók við starfi deildarþjóns og sat svo í deildarnefndinni þegar hún var skipuð. Þau Valerie störfuðu á Íslandi í sjö ár en voru þá send til Írlands sem trúboðar, fyrst til Dyflinnar og síðar til Norður-Írlands. Mac dó af völdum krabbameins í desember 1999 eftir að hafa starfað á Írlandi í 20 ár. Hann átti þá að baki 60 ára þjónustu í fullu starfi. Valerie er enn brautryðjandi í Belfast.
[Mynd]
Valerie og Oliver Macdonald í Reykjavík á áttunda áratugnum.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 15]
Þau settust að á Íslandi
Páll Heine Pedersen er fæddur og uppalinn í Danmörku. Hann var sendur til Íslands sem sérbrautryðjandi árið 1959. Árið 1961 fór hann til Evrópu og sótti þar tvö alþjóðamót sem báru stefið „Sameinaðir guðsdýrkendur“. Þar hitti hann Violet en hún hafði komið frá Kaliforníu til að vera viðstödd nokkur af mótunum.
Páll sneri aftur heim til Íslands að mótunum loknum og Violet hélt til síns heima í Kaliforníu. Þau skrifuðust á í fimm mánuði en í janúar 1962 kom Violet til landsins og þau gengu í hjónaband. Páll var þá brautryðjandi á Vestfjörðum og var eini votturinn þar. Þau bjuggu á Ísafirði þar sem ekki sést til sólar í tvo mánuði að vetri. Leiðin um starfssvæðið lá sums staðar um brattar brekkur og heiðar þar sem oft mátti búast við snjó og hálku. Farartækið þeirra var mótorhjól sem Páll hafði flutt með sér frá Danmörku. Fáir bjuggust við að Violet myndi þrauka lengi á Íslandi, fædd og uppalin í sólinni í Kaliforníu. En það fór á annan veg og hún fékk ást bæði á landi og þjóð.
Páll og Violet störfuðu saman sem brautryðjendur þangað til þeim fæddist dóttirin Elísabet árið 1965. Páll hélt áfram í brautryðjandastarfi til 1975 og Violet sömuleiðis af og til. Tveim árum síðar ákváðu þau að flytja til Kaliforníu þar sem Páll var ekki við góða heilsu. En löngunin blundaði í þeim að þjóna þar sem þörfin var meiri fyrir boðbera fagnaðarerindisins. Þau gerðust brautryðjendur á nýjan leik og voru send aftur til Íslands sem trúboðar eftir að Elísabet hafði lokið skóla og hleypt heimdraganum. Þau störfuðu sem trúboðar og voru í farandstarfi á landinu í nokkur ár en árið 1989 var Páll beðinn að taka sæti í deildarnefndinni. Árið 1991 var formlega opnað Betelheimili í Reykjavík og þau hjónin voru fyrstu Betelítarnir. Þau þjóna enn á Betel.
[Mynd]
Páll og Violet Pedersen.
[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 16, 17]
ÍSLAND — HELSTU ATBURÐIR
1929: Georg Fjölnir Líndal kemur til landsins, fyrsti boðberinn á landinu.
1940
1947: Fyrstu Gíleaðtrúboðarnir koma.
1950: Lítill söfnuður myndaður.
1960
1960: Varðturninn kemur út á íslensku.
1962: Deildarskrifstofa opnuð í Reykjavík.
1975: Nýr ríkissalur, deildarskrifstofa og trúboðsheimili fullgert og vígt.
1980
1992: Spítalasamskiptanefnd tekur til starfa.
1995: Tveir ríkissalir byggðir á fjórum dögum í júní.
2000
2004: 284 boðberar starfandi á landinu.
(Sjá bókina)
Boðberar samtals
Brautryðjendur samtals
300
200
100
1940 1960 1980 2000
[Rammi/mynd á blaðsíðu 21]
Kunn fyrir gestrisni
Hjónin Friðrik Gíslason og Ada Kjærnested voru í hópi þeirra sjö sem létu skírast árið 1956. Friðrik og Ada kynntust sannleikanum hjá Oliver og Sally Macdonald. Það var Friðrik sem byrjaði að kynna sér Biblíuna en Ada stundaði saumaklúbb allan veturinn á þeim tímum sem Friðrik var í biblíunáminu. Þegar saumaklúbburinn hætti störfum um vorið sat hún frammi í eldhúsi meðan á náminu stóð. Að lokum náði forvitnin yfirhöndinni og hún spurði hvort hún mætti sitja með og hlusta. Ekki leið á löngu þar til hún fór að taka fullan þátt í samræðunum.
Síðar var farið að halda Varðturnsnám á ensku á heimili þeirra og þau sóttu líka samkomur á trúboðsheimilinu. „Ég man eftir að við héldum samkomur í litlu herbergi undir súð þar sem trúboðarnir bjuggu,“ segir Friðrik. „Þar var pláss fyrir 12 stóla en stundum komu fleiri og þá opnuðum við inn í lítið herbergi við hliðina. Nú er öldin önnur þegar þrír söfnuðir fylla ríkissalinn í Reykjavík!“
Friðrik og Ada urðu fljótt kunn fyrir gestrisni sína. Heimilið var alltaf opið trúsystkinum þeirra þó að börnin væru sex. Á fyrstu árum safnaðarins skutu þau oft skjólshúsi yfir bræður og systur sem komu erlendis frá, þangað til hinum nýkomnu tókst að finna sér eigið húsnæði.
[Mynd]
Friðrik Gíslason og Ada Kjærnested.
[Rammi á blaðsíðu 22]
Nafnahefðir Íslendinga
Mörgu aðkomufólki þykir undarlegur sá háttur Íslendinga að nota ekki ættarnöfn heldur kenna sig við föður og stöku sinnum við móður, og sömuleiðis að þeir skuli alltaf ávarpa hver annan með skírnarnafni. Aðkomufólki þykir það einnig kynlegt að kona skuli ekki taka eftirnafn eiginmanns heldur halda föðurnafni sínu. En þessi siður hefur fylgt Íslendingum frá öndverðu. Margir Íslendingar geta rakið ættir sínar meira en þúsund ár aftur í tímann, allt til landnáms.
[Rammi á blaðsíðu 24]
Reykjavík
Sagt er að landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson hafi reist sér bæ í Reykjavík og nefnt staðinn eftir gufunni sem hann sá stíga upp af heitum laugum á svæðinu. Reykjavík er nú orðin að nútímalegri borg og samanlagt búa um 180.000 manns á höfuðborgarsvæðinu.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 40]
Þýðing Biblíunnar á íslensku
Elstu biblíuþýðingar á íslensku eru varðveittar í ritinu Stjórn frá 14. öld, en þar er að finna þýðingar og endursagnir úr fyrstu bókum Hebresku ritninganna. Allt Nýja testamentið var fyrst prentað í íslenskri þýðingu Odds Gottskálkssonar árið 1540. Oddur var sonur Gottskálks biskups Nikulássonar á Hólum. Hann hafði snúist til mótmælendatrúar í Noregi og haft kynni af Marteini Lúter í Þýskalandi. Sagt er að Oddur hafi unnið að þýðingu sinni úti í fjósi við erfiðar aðstæður eftir heimkomuna til Íslands þar eð hann vildi ekki styggja hinn kaþólska húsbónda sinn, Ögmund biskup Pálsson í Skálholti. Oddur mun hafa stuðst við texta latnesku Vúlgata-þýðingarinnar og fór sjálfur með handritið til Danmerkur til að fá það prentað. Árið 1584 lét Guðbrandur biskup Þorláksson prenta alla Biblíuna á íslensku. Árið 1908 hafði öll Biblían í fyrsta sinn verið þýdd beint úr hebresku og grísku og var sú þýðing gefin út það ár en endurskoðuð útgáfa árið 1912.
[Mynd]
„Guðbrandsbiblía“, fyrsta biblían sem gefin var út í heild á íslensku.
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 2]
[Mynd á blaðsíðu 6]
Georg Fjölnir Líndal árið 1947.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Líndal ásamt hesti sínum snemma á fjórða áratugnum.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Talið frá vinstri: Ingvard Jensen, Oliver Macdonald og Leo Larsen en þeir voru í hópi fyrstu trúboðanna á landinu.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Deildarskrifstofan var í þessu húsi við Nýlendugötuna frá 1962 til 1968.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Meira en hundrað boðberar á Íslandi sóttu alþjóðamótið „Friður á jörð“ í Kaupmannahöfn árið 1969.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Iiris og Kjell Geelnard á Akureyri í janúar 1993.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Að neðan: Togarinn „Svalbakur“.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Til hægri: Friðrik og Kjell.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Oddný Helgadóttir.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Guðrún Ólafsdóttir.
[Mynd á blaðsíðu 34]
Til hægri: Ríkissalurinn og trúboðsheimilið á Akureyri.
[Mynd á blaðsíðu 34]
Að neðan: Deildarskrifstofan í Reykjavík.
[Mynd á blaðsíðu 38]
Ríkissalurinn á Selfossi í byggingu árið 1995.
[Mynd á blaðsíðu 39]
Fullbúinn ríkissalur í Keflavík.
[Mynd á blaðsíðu 44]
Betelfjölskyldan á Íslandi.
[Mynd á blaðsíðu 44]
Deildarnefndin, talið frá vinstri: Bjarni Jónsson, Guðmundur H. Guðmundsson, Páll Heine Pedersen og Bergþór N. Bergþórsson.