Hafðu yndi af orði Guðs
SÆLL er sá maður sem „hefur yndi af lögmáli Jehóva“ og les orð hans „lágum rómi dag og nótt.“ (Sálmur 1:1, 2, NW) Nýtur þú þess að lesa orð Guðs? Hvernig geturðu haft enn meira yndi af því?
Hlýddu á Jehóva tala
Lestu ekki bara orð heldur sjáðu fyrir þér þær aðstæður sem þú lest um. Reyndu að heyra raddir þeirra sem tala. Hlustaðu á Jehóva opinbera lið fyrir lið, í fyrstu köflum Biblíunnar, hvernig hann bjó jörðina undir ábúð mannsins. Heyrðu hann segja syni sínum og verkstjóra að nú sé kominn tími til að skapa fyrstu mennina. Sjáðu fyrir þér hvernig Adam og Eva gera uppreisn, Guð fellir dóm yfir þeim og úthýsir þeim úr paradís. (1. Mósebók, 1.-3. kafli) Finndu til lotningar þegar þú lest um röddina af himni lýsa yfir að Jesús Kristur sé sonur Guðs sem hann hefur velþóknun á og sendi til að leggja líf sitt í sölurnar fyrir mannkynið. (Matt. 3:16, 17) Reyndu að ímynda þér viðbrögð Jóhannesar postula er hann heyrði Jehóva lýsa yfir: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ (Opinb. 21:5) Það er einstaklega ánægjulegt að lesa orð Guðs með þessum hætti.
Þú kynnist Jehóva sem stórbrotinni og tignarlegri persónu þegar þú heldur áfram að lesa hina innblásnu bók. Þú laðast að skapara sem elskar okkur, er miskunnsamur og hjálpfús ef við reynum í auðmýkt að gera vilja hans, og sýnir okkur hvernig við getum verið farsæl í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. — Jós. 1:8; Sálm. 8:2; Jes. 41:10.
Því meiri tíma sem þú notar til að lesa í Biblíunni þeim mun betur kynnist þú vilja Guðs með þig, og þú uppskerð ánægju að sama skapi. En ánægjan lætur ekki staðar numið þar. Þegar lesefnið hjálpar þér að takast viturlega á við vandamál verður þér innanbrjósts eins og sálmaritaranum sem sagði: „Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær.“ (Sálm. 119:129) Þú nýtur þess líka að koma auga á meginreglur í Biblíunni sem hjálpa þér að temja hugsun þína og langanir í samræmi við vilja Guðs. — Jes. 55:8, 9.
Í Biblíunni er að finna siðferðilega leiðsögn sem ver okkur fyrir skaða og vísar réttan veg. Af lestri hennar skynjum við Jehóva sem föður er veit hvaða vandamál hljótast af því að láta undan löngunum hins ófullkomna holds. Hann vill ekki að við tökum út hinar ægilegu afleiðingar sem það hefur óhjákvæmilega í för með sér að sniðganga siðferðisreglur hans. Honum er annt um okkur og hann vill að okkur vegni sem best. Með því að lesa orð hans skynjum við betur hvílík blessun það er að eiga hann fyrir Guð og föður.
Lestu daglega í Biblíunni
Sálmaritarinn sagði að þeim manni ‚lánaðist allt‘ sem læsi daglega í orði Guðs. (Sálm. 1:3) Þrátt fyrir ófullkomleikann, þrátt fyrir að við búum í illu heimskerfi Satans og þrátt fyrir tilraunir hans til að gleypa okkur lánast okkur allt sem lýtur að sambandinu við Guð ef við lesum daglega í orði hans og förum eftir því.
Þótt okkur gefist ekki nema fáein andartök á dag til að drekka í okkur viðhorf Guðs getur það styrkt okkur í dagsins önn og álagi þessa gamla heimskerfis. Sumir hafa setið í fangelsi fyrir trúna og ekki haft aðgang að öðru en fáeinum biblíuversum héðan og þaðan sem þeir fundu í greinum dagblaða. En þeir klipptu þau út, lögðu þau á minnið og hugleiddu þau. Jehóva blessaði viðleitni þeirra vegna þess að þeir gerðu það sem þeir gátu miðað við aðstæður til að afla sér þekkingar á orði hans. (Matt. 5:3) Við búum flest við meira frjálsræði en þetta og megum ekki halda að það gerist eitthvert kraftaverk ef við rennum hratt yfir eitt biblíuvers á dag. En ef við forgangsröðum þannig að við getum lesið einhvern kafla Biblíunnar á hverjum degi, hugleitt hann og farið eftir honum, þá er blessunin vís.
Bestu áform geta þó raskast af ýmsum orsökum. Þegar það gerist látum við ganga fyrir það sem skiptir raunverulega máli. Við myndum til dæmis ekki af ásettu ráði hætta að drekka vatn í einn eða tvo daga. Að sama skapi ættum við að gefa okkur stund daglega til að hressa okkur á vatni sannleikans, hvað sem við ber í dagsins önn. — Post. 17:11.
Lestu alla Biblíuna
Hefurðu lesið alla Biblíuna spjaldanna á milli? Það þyrmir yfir suma við tilhugsunina. Margir hafa þess vegna byrjað á því að lesa kristnu Grísku ritningarnar, kannski vegna þess að þeir töldu þann hluta Biblíunnar eiga meira erindi til sín og auðvelda sér að feta í fótspor Krists. Kannski var ástæðan sú að bækurnar 27 í kristnu Grísku ritningunum virtust ekki vera nein ósköp að lesa, ekki nema rúmlega fjórðungur Biblíunnar. En þegar þeir voru búnir að lesa þær sneru þeir sér að hinum 39 bókum Hebresku ritninganna og lásu þær og höfðu ánægju af. Þegar Hebresku ritningarnar voru á enda voru þeir orðnir vanir því að lesa reglulega í Biblíunni svo að þeir héldu lestrinum áfram og lásu kristnu Grísku ritningarnar öðru sinni. Og síðan hafa þeir ekki hætt. Temdu þér líka að lesa daglega í orði Guðs alla ævi.
Á einhver í fjölskyldunni eða söfnuðinum bágt með lestur? Væri ekki ráð að bjóðast til að lesa reglulega fyrir hann í Biblíunni? Báðir nytuð þið góðs af og hinn gæti hugleitt hið upplesna og farið eftir því. — Opinb. 1:3.
Þegar fram líða stundir viltu kannski ráðast í eitthvert námsverkefni í tengslum við biblíulesturinn. Þannig gætirðu til dæmis áttað þig betur á innbyrðis tengslum hinna ýmsu bóka eða hluta Biblíunnar. Í sumum biblíum eru millivísanir sem geta bent þér á sögulegar staðreyndir og hliðstæðar frásagnir. Þær geta vakið athygli þína á þeim aðstæðum sem leiddu til þess að ýmsir af sálmunum voru ortir eða tilefni bréfanna sem postular Jesú Krists skrifuðu. Bókin Insight on the Scriptures (Innsýnarbókin) inniheldur hafsjó upplýsinga um fólk, staði og eiginleika sem nefndir eru í Biblíunni, og margir geta nýtt sér hana á erlendum málum. Töflur og yfirlit vekja athygli á því hvernig spádómar Biblíunnar hafa uppfyllst, tilgreina hvaða konungar og spámenn voru samtíða og tímasetja marga af atburðum biblíusögunnar.
Þegar þú hugleiðir það sem þú lærir skilurðu betur hvers vegna ákveðnar aðstæður sköpuðust hjá þjónum Guðs. Og þú kemst að raun um hvers vegna Jehóva tók á málum eins og raun ber vitni. Þú glöggvar þig jafnframt á því hvernig hann metur athafnir stjórnvalda, þjóða og einstakra manna. Þannig færðu meiri innsýn í hugarheim hans.
Þú gerir biblíusöguna áhugaverðari með því að sjá fyrir þér þau svæði þar sem atburðir gerðust. Kort af biblíulöndunum veita upplýsingar um landslag og vegalengdir. Hvar fóru Ísraelsmenn til dæmis yfir Rauðahafið? Hve stórt var fyrirheitna landið? Hvaða vegalengdir gekk Jesús meðan hann þjónaði á jörðinni? Hvað bar fyrir augu Páls á trúboðsferðum hans? Landakort og landalýsingar láta í té upplýsingar sem lífga lesturinn. Kort af biblíulöndunum má finna aftast í mörgum biblíum. Í bókinni Insight on the Scriptures (Innsýnarbókinni) eru um 70 kort og aftast í fyrra bindinu er nafnavísir fyrir þau. Þú gætir notað efnisskrána Watch Tower Publications Index til að finna fleiri kort eða nýtt þér kort sem birst hafa í Varðturninum.
Davíð lofaði Jehóva og kvað svo í Hebresku ritningunum: „Hversu torskildar [„dýrmætar,“ NW] eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.“ (Sálm. 139:17) Páll postuli lofar Jehóva í kristnu Grísku ritningunum fyrir að láta ‚ljós skína í hjörtu okkar til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.‘ (2. Kor. 4:6) Aldir skildu milli Davíðs og Páls en báðir höfðu yndi af orði Guðs. Þú getur líka haft yndi af því ef þú tekur þér tíma til að lesa allt sem Jehóva hefur látið í té í innblásnu orði sínu.