-
Hvers vegna kaupum við?Vaknið! – 2013 | júlí
-
-
FORSÍÐUEFNI: KAUPUM VIÐ OF MIKIÐ?
Hvers vegna kaupum við?
Í könnun frá 2012, sem gerð var víðs vegar um heiminn, viðurkenndi helmingur þátttakenda að þeir keyptu hluti sem þeir þyrftu ekki á að halda. Tveir þriðju óttast að neytendur kaupi of mikið. Slíkar áhyggjur eru ekki gripnar úr lausu lofti. Margir neytendur eru skuldum vafnir. Sérfræðingar segja að óhófleg neysla geti aukið streitu og óánægju í stað þess að gera okkur sátt og ánægð. Hvers vegna kaupum við þá svona mikið?
ÞAÐ rignir yfir okkur auglýsingum og tilboðum. Hvað vakir fyrir kaupsýslumönnum? Þeir vilja breyta löngunum okkar í þarfir. Þeir vita að neytendur láta tilfinningarnar að mestu leyti ráða ferðinni. Auglýsingarnar og innkaupin sjálf eiga því að hrífa kaupandann sem mest.
Í bókinni Why People Buy Things They Don’t Need (Hvers vegna kaupir fólk hluti sem það þarf ekki?) segir: „Þegar neytendur ráðgera kaup reyna þeir að gera sér í hugarlund hvernig verði að leita að vörunni, finna hana og eignast hana loksins.“ Sumir sérfræðingar telja að kaupendur geti orðið svo spenntir þegar þeir eru að versla að þeir komist í adrenalínvímu. Markaðsfræðingurinn Jim Pooler segir: „Ef smásali getur skynjað þetta tilfinningaástand getur hann notfært sér kaupgleði viðskiptavina sinna meðan þeir eru sofandi á verðinum.“
Hvernig geturðu varað þig á snjöllum sölumönnum? Settu tilfinningarnar til hliðar og skoðaðu auglýsingaloforðin af raunsæi.
LOFORÐ: „Þú eykur lífsgæðin.“
Það er eðlilegt að vilja betra líf. Auglýsendur láta þau boð dynja á okkur að við getum fengið allar óskir okkar uppfylltar með því að gera réttu kaupin. Við bætum heilsuna, drögum úr streitu, aukum öryggi okkar og eignumst betri sambönd.
VERULEIKINN:
Það er ekkert náttúrulögmál að lífsgæðin aukist með meiri eignum. Þau geta líka minnkað. Það kostar tíma og peninga að hugsa um nýja hluti. Skuldabyrði eykur á streitu og það verður minni tími aflögu fyrir fjölskyldu og vini.
Meginregla: „Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ – Lúkas 12:15.
LOFORÐ: „Þú hækkar í áliti.“
Fáir viðurkenna að þeir kaupi vörur til þess að ganga í augun á öðrum. Jim Pooler segir hins vegar: „Það er áberandi í fari kaupenda að þeir eru að keppa við vini, nágranna, vinnufélaga og ættingja.“ Þess vegna sýna auglýsingar oft hamingjusamt og vel stætt fólk nota vörurnar. Skilaboðin eru: „Þetta gæti verið þú!“
VERULEIKINN:
Ef við berum okkur stöðugt saman við aðra er það ávísun á endalaus vonbrigði. Um leið og þú ert búinn að fá það sem þig langar í langar þig bara í meira.
Meginregla: „Sá sem elskar peninga seðst aldrei af peningum.“ – Prédikarinn 5:9.
LOFORÐ: „Þú sýnir hver þú ert.“
Í bókinni Shiny Objects (Glansandi hlutir) stendur: „Algengt er að við sýnum öðrum hver við erum (eða viljum vera) með því að sýna hvað við eigum.“ Markaðsfræðingar vita það og reyna að tengja vörur, sérstaklega munaðarvörur, við ákveðinn lífsstíl og lífsgildi.
Hvernig sérðu sjálfan þig og hvernig viltu að aðrir líti á þig? Sem nýtískulegan? Sem íþróttamannslegan? Auglýsendur lofa að ef þú kaupir réttu vöruna eignistu ímynd hennar.
VERULEIKINN:
Engin vörukaup geta breytt því hver við erum eða gætt okkur aðlaðandi eiginleikum eins og til dæmis ráðvendni og heiðarleika.
Meginregla: „Skart ykkar sé ekki ... gullskraut og viðhafnarbúningur heldur hinn huldi maður hjartans.“ – 1. Pétursbréf 3:3, 4.
-
-
Hvernig er hægt að hafa hemil á eyðslunni?Vaknið! – 2013 | júlí
-
-
Hvernig er hægt að hafa hemil á eyðslunni?
Það eru ekki bara utanaðkomandi áhrif, eins og auglýsingar, sem þrýsta á okkur til að kaupa of mikið. Okkar eigin venjur og langanir geta líka haft áhrif. Hér á eftir eru sex tillögur um hvernig hægt er að hafa hemil á eyðslunni.
Hafðu hemil á skyndihvötinni. Finnst þér spennandi að fara í búðir og leita að góðum tilboðum? Ef svo er áttu það kannski til að láta skyndihvötina ráða. Til að hafa hemil á henni skaltu doka við og hugsa raunsætt um hvað það á eftir að kosta þig að kaupa vöruna, eiga hana og viðhalda henni. Rifjaðu upp hvað þú hefur áður keypt í hita augnabliksins en séð síðan eftir. Gefðu þér tíma til að hugsa málið áður en þú tekur endanlega ákvörðun.
Ekki eyða peningum til að komast í betra skap. Ef þú ert í slæmu skapi gæti þér liðið betur í smá tíma með því að fara í búðir. En þegar neikvæðar tilfinningar gera aftur vart við sig finnurðu kannski enn sterkari hvöt til að létta lundina með því að kaupa þér eitthvað. Í staðinn fyrir að eyða peningum til að bæta skapið skaltu leita til skilningsríkra vina eða gera eitthvað sem reynir á þig líkamlega eins og að fara út að ganga.
Ekki versla þér til skemmtunar. Íburðarmiklar verslunarmiðstöðvar hafa breytt verslunarferðum í skemmtun. Þótt þú ætlir ekki að kaupa neitt, þegar þú gengur um verslunarmiðstöðina eða vafrar á Netinu, er það sem fyrir augu ber gert til þess að freista þín. Þú ættir aðeins að versla þegar þú ert með eitthvað ákveðið í huga og láta ekki undan freistingunni til að kaupa óþarfa.
Veldu þér góða vini. Lífsstíll vina okkar og hvað þeir tala um hefur mikil áhrif á okkur. Ef þú eyðir um efni fram til að halda í við vini þína veldu þá vini sem leggja ekki mikið upp úr peningum og efnislegum gæðum.
Notaðu kreditkort skynsamlega. Það er mjög auðvelt að kaupa með kreditkorti án þess að hugsa um afleiðingarnar. Reyndu að borga kreditkortareikninginn að fullu í hverjum mánuði. Þekktu vexti og gjöld kortsins og berðu saman kortatilboð til að finna það sem er hagkvæmast. Gættu þín á vildarkortum sem bjóða óþarfa fríðindi gegn hærra árgjaldi. Í staðinn fyrir að kaupa út í reikning skaltu safna fyrir dýrari vörum og borga þær út í hönd.
Þekktu eigin fjárhag. Það er meiri hætta á að eyða um efni fram ef maður þekkir ekki eigin fjárhag. Haltu bókhald yfir fjármál þín. Gerðu raunhæfa áætlun um hve miklu þú mátt eyða í hverjum mánuði. Skoðaðu hvað þú þénar, í hvað peningarnir hafa farið og berðu saman við áætlunina. Biddu vin, sem þú treystir, um hjálp til að skilja fjármál sem eru þér framandi.
-