-
Er heimurinn farinn úr böndunum eða ekki?Vaknið! – 2017 | Nr. 6
-
-
FORSÍÐUEFNI | ER HEIMURINN FARINN ÚR BÖNDUNUM?
Er heimurinn farinn úr böndunum eða ekki?
ÁRIÐ 2017 hófst á dapurlegri yfirlýsingu frá vísindasamfélaginu. Í janúar lýsti hópur vísindamanna því yfir að heimurinn hefði nálgast verstu hörmungar mannkynssögunnar. Vísindamenn færðu mínútuvísinn á dómsdagsklukkunni svokölluðu fram um 30 sekúndur til að sýna að hörmungar á heimsvísu eru mjög nærri. Núna vantar klukkuna ekki nema tvær og hálfa mínútu í miðnætti sem er nær miðnætti en í meira en 60 ár.
Árið 2018 ætla vísindamenn aftur að meta hversu nálægt við erum heimsendi. Mun dómsdagsklukkan enn gefa merki um að verstu hörmungar mannkyns vofi yfir? Hvað heldur þú? Er heimurinn farinn úr böndunum? Kannski finnst þér erfitt að svara því. Sérfræðingar eru jafnvel ekki allir sammála um málið. Ekki telja allir að dómsdagur sé óumflýjanlegur.
Milljónir manna líta framtíðina reyndar björtum augum. Þeir telja sig hafa sannanir fyrir því að jörðin verði byggileg að eilífu og að lífsgæði okkar muni batna. Er það trúverðugt? Er heimurinn farinn úr böndunum eða ekki?
-
-
Leit að svörumVaknið! – 2017 | Nr. 6
-
-
FORSÍÐUEFNI | ER HEIMURINN FARINN ÚR BÖNDUNUM?
Leit að svörum
EF ÞÚ ert áhyggjufullur eða hreinlega hræddur við slæmu fréttirnar, sem dynja á okkur, ertu ekki einn um það. Árið 2014 sagði Barack Obama, þáverandi forseti Bandaríkjanna, að vegna allra slæmu fréttanna í fjölmiðlum telja margir „að heimurinn sé ... stjórnlaus og að enginn ráði við hann“.
En stuttu síðar talaði hann af ákafa um úrræði manna til að leysa mörg af vandamálum heimsins. Hann sagði vissa framtakssemi stjórnvalda vera „gleðifréttir“ og sagðist sjálfur vera „afar vongóður“ og „ákaflega bjartsýnn“. Með öðrum orðum sagði hann að með einlægum ásetningi gæti fólk tekið í taumana og komið í veg fyrir heimshamfarir.
Margir eru bjartsýnir líkt og hann. Sumir setja til dæmis traust sitt á vísindin og hraðar tækniframfarir og telja að þær eigi eftir að laga heimsástandið. Sérfræðingur í tölvutækni og nýsköpun er fullviss um að árið 2030 „verði tæknin orðin þúsund sinnum öflugri og 2045 verði hún milljón sinnum öflugri“. Hann bætir við: „Við stöndum okkur nokkuð vel. Þó að við höfum aldrei staðið frammi fyrir stærri vandamálum á færni okkar til að leysa vandamál eftir að aukast hraðar en þau.“
En hversu slæmt er heimsástandið? Stöndum við í raun og veru á barmi heimshörmunga? Þó að sumir vísindamenn og stjórnmálamenn boði von um betri tíma eru margir óöruggir hvað varðar framtíðina. Hvers vegna?
GEREYÐINGARVOPN. Hvorki Sameinuðu þjóðunum né öðrum stofnunum hefur tekist að útrýma kjarnavopnum þrátt fyrir bestu viðleitni þeirra. Þess í stað hæðast mótþróafullir leiðtogar að lögum um vopnabúnað. Þjóðir, sem hafa átt kjarnavopn, reyna nú í örvæntingu að koma sér upp nýjum og öflugri eyðingarvopnum. Þjóðir, sem hafa ekki átt gereyðingarvopn fyrr, geta nú stráfellt stóran hluta mannkyns.
Sú staðreynd að þjóðir eru betur búnar undir kjarnorkustríð en nokkru sinni fyrr gerir heiminn að mjög hættulegum stað, jafnvel á „friðartímum“. „Til dæmis væru sjálfstýrð drápstól, sem taka ákvörðun um að ,drepa‘ án þess að maðurinn komi þar nærri, sérstakt áhyggjuefni,“ segir í tímaritinu Bulletin of the Atomic Scientists.
HEILSA MANNKYNS Á UNDIR HÖGG AÐ SÆKJA. Það eru takmörk fyrir því hve góða heilsu vísindin geta tryggt okkur. Hár blóðþrýstingur, offita, loftmengun og fíkniefnaneysla eru vaxandi áhættuþættir margra sjúkdóma. Þeim fjölgar sem deyja úr alls kyns smitvana sjúkdómum svo sem krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki. Sífellt fleiri eru óvinnufærir vegna annarra sjúkdóma, þar á meðal geðrænna sjúkdóma. Og á undanförnum árum hafa komið upp ófyrirsjáanlegir faraldrar, til dæmis af völdum ebóluveirunnar og zíkaveirunnar. Kjarni málsins: Menn ráða ekki við sjúkdóma og það virðist ekki vera hægt að útrýma þeim.
MAÐURINN RÆÐST GEGN NÁTTÚRUNNI. Verksmiðjur halda áfram að menga andrúmsloftið. Á hverju ári deyja milljónir manna úr loftmengun.
Einstaklingar, samfélög og opinberar stofnanir losa sig við ýmis mengunarefni í hafið svo sem skolp, plast og úrgang frá landbúnaði og heilbrigðisstofnunum. Í alfræðibókinni Encyclopedia of Marine Science segir: „Þessir eitruðu mengunarvaldar eitra bæði fyrir dýrum og plöntum í hafinu og fyrir fólki sem borðar mengaða fæðu úr hafinu.“
Þar að auki erum við að verða uppiskroppa með ferskt vatn. Breski vísindarithöfundurinn Robin McKie gefur þessa viðvörun: „Heimurinn stendur frammi fyrir vatnsskorti sem mun hafa áhrif á alla jörðina.“ Stjórnmálamenn viðurkenna að vatnsskorturinn sé að mestu af mannavöldum og að okkur stafi veruleg hætta af honum.
NÁTTÚRAN RÆÐST GEGN MANNINUM. Stormar, fárviðri, hvirfilbyljir, fellibyljir og jarðskjálftar valda hrikalegum flóðum, ógurlegum skriðum og annars konar eyðileggingu. Fleiri en nokkru sinni fyrr verða illa úti eða farast vegna þessara náttúruafla. Rannsókn frá geimvísindastofnun Bandaríkjanna bendir á aukna hættu á „hvassari stormum, hættulegum hitabylgjum og alvarlegri flóðum og þurrkum“. Á náttúran eftir að gera út af við mannkynið?
Þér kemur eflaust fleira í hug sem ógnar tilveru okkar. En við finnum ekki fullnægjandi svör hvað varðar framtíðina með því að rannsaka allt það slæma sem er að gerast í heiminum núna. Og sumir segja að það sama gildi um að hlusta á stjórnmálamenn og vísindamenn. En eins og fram kom í greininni á undan hafa margir fengið sannfærandi svör við spurningum sínum um heimsástandið og framtíðina. Hvar er slík svör að finna?
-
-
Hvað segir Biblían?Vaknið! – 2017 | Nr. 6
-
-
Spár dómsdagsklukkunnar eiga ekki eftir að rætast því að Guð lofar bjartri framtíð fyrir mannkynið og jörðina.
FORSÍÐUEFNI | ER HEIMURINN FARINN ÚR BÖNDUNUM?
Hvað segir Biblían?
BIBLÍAN sagði fyrir mörgum öldum að ástandið yrði slæmt nú á dögum. En hún segir líka skýrt fyrir um bjarta framtíð fyrir mannkynið. Vert er að gefa því gaum sem segir í Biblíunni þar sem margir af spádómum hennar hafa nú þegar ræst í smáatriðum.
Hugleiddu til dæmis eftirfarandi biblíuspádóma:
„Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“ – Matteus 24:7.
„Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:1-4.
Þessir spádómar lýsa heimsástandi sem margir myndu segja að sé á hraðri leið með að fara úr böndunum. Í vissum skilningi er heimurinn farinn úr böndunum, það er að segja menn hafa misst stjórn á honum. Biblían segir að maðurinn búi einfaldlega ekki yfir nægilegri visku eða mætti til að leysa vanda heimsins til frambúðar. Þetta kemur greinilega fram í eftirfarandi ritningarstöðum:
„Margur vegurinn virðist greiðfær en endar þó í helju.“ – Orðskviðirnir 14:12.
„Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ – Prédikarinn 8:9.
„Enginn maður ... stýrir skrefum sínum á göngunni.“ – Jeremía 10:23.
Ef mennirnir halda áfram að gera það sem þeim sýnist gæti heimurinn hæglega farist. En það mun ekki gerast. Hvers vegna? Biblían svarar því:
Guð „grundvallar jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggast eigi um aldur og ævi“. – Sálmur 104:5.
„Ein kynslóð fer, önnur kemur en jörðin stendur að eilífu.“ – Prédikarinn 1:4.
„Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 37:29.
„Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum.“ – Sálmur 72:16.
Þessi biblíusannindi gefa skýr svör. Mannkynið ferst ekki vegna mengunar, matar- og vatnsskorts eða úr heimsfaraldri. Heiminum verður ekki eytt í kjarnorkustríði. Það er vegna þess að Guð ræður framtíð jarðarinnar. Hann hefur að vísu gefið mönnunum frjálsan vilja en þeir þurfa að taka afleiðingum gerða sinna. (Galatabréfið 6:7) Heimurinn er ekki eins og stjórnlaus lest sem stefnir í átt að heimsendi. Guð hefur sett því mörk hve miklum skaða mennirnir fá að valda sjálfum sér. – Sálmur 83:19; Hebreabréfið 4:13.
En Guð lætur ekki þar við sitja. Hann mun færa mannkyninu ,mikið gengi‘. (Sálmur 37:11) Þær jákvæðu framtíðarhorfur, sem lýst er í þessari grein, gefa okkur aðeins örlitla innsýn í það sem milljónir votta Jehóva hafa lært um bjarta framtíð með því að kynna sér Biblíuna.
Vottar Jehóva eru samfélag manna og kvenna á öllum aldri og af öllum þjóðum. Þeir tilbiðja hinn eina sanna Guð sem heitir Jehóva samkvæmt frummálum Biblíunnar. Þeir óttast ekki framtíðina vegna þess að Biblían segir: „Svo segir Drottinn, skapari himinsins, hann einn er Guð, hann mótaði jörðina og bjó hana til, hann grundvallaði hana, hann skapaði hana ekki sem auðn heldur gerði hana byggilega: Ég er Drottinn og enginn annar er til.“ – Jesaja 45:18.
Í þessari grein skoðuðum við nokkur biblíusannindi um framtíð jarðar og mannkyns. Hægt er að fá nánari upplýsingar í 5. kafla bæklingsins Gleðifréttir frá Guði. Bæklingurinn er gefinn út af Vottum Jehóva og er fáanlegur á www.jw.org/is.
Þú getur einnig horft á myndbandið Hvers vegna skapaði Guð jörðina? á www.jw.org/is. (Sjá ÚTGÁFA > MYNDBÖND.)
-