Aðferðir sem þeir nota til að koma fagnaðarerindinu á framfæri
KRISTNUM mönnum er sagt að ,gera allar þjóðir að lærisveinum‘ en það þýðir ekki að þeir eigi að beita þrýstingi eða snúa öðrum til trúar með valdi. Jesú var falið það verkefni að „flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap“, að „græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta“ og „hugga alla hrellda“. (Matteus 28:19; Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:18, 19) Vottar Jehóva leitast við að gera þetta með því að kunngera fagnaðarerindið sem Biblían hefur að geyma. Líkt og Esekíel spámaður til forna reyna vottar Jehóva nú á tímum að finna þá sem „andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru“. — Esekíel 9:4.
Þekktasta aðferð votta Jehóva til að finna þá sem eru miður sín vegna heimsástandsins er að ganga hús úr húsi. Þannig leitast þeir í alvöru við að ná til almennings eins og Jesús gerði þegar hann ferðaðist „borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki“. Fyrstu lærisveinar hans gerðu það sama. (Lúkas 8:1; 9:1-6; 10:1-9) Alls staðar þar sem því verður við komið leitast vottar Jehóva nú á tímum við að heimsækja hvert heimili nokkrum sinnum á ári og ræða við húsráðendur í fáeinar mínútur um staðbundið eða alþjóðlegt málefni sem fólk hefur áhuga á eða áhyggjur af. Þeir koma gjarnan með einn eða tvo ritningarstaði sem umhugsunarvert innlegg í umræðuefnið, og ef húsráðandinn sýnir áhuga bjóðast þeir til að koma aftur á hentugum tíma til að ræða málin frekar. Þeir bjóða biblíur og biblíuskýringarrit og óski húsráðandinn þess aðstoða þeir hann endurgjaldslaust við biblíunám á heimili hans. Vottar Jehóva hjálpa reglulega einstaklingum og fjölskyldum í milljónatali um allan heim að stunda slíkt biblíunám.
Fólki gefst líka tækifæri til að heyra „fagnaðarerindið um Guðs ríki“ í ríkissalnum, samkomusal Votta Jehóva. Þeir halda samkomur þar í hverri viku. Á einni samkomunni er fluttur opinber fyrirlestur um áhugavert efni og að honum loknum er biblíulegt viðfangsefni eða spádómur tekinn til umfjöllunar og umræðuefnið sótt í tímaritið Varðturninn. Á annarri samkomu er dagskrá sem miðar að því að kenna vottunum að verða leiknari boðendur fagnaðarerindisins og því næst er dagskrá þar sem rætt er um boðunarstarfið á starfssvæði safnaðarins. Auk þessa safnast vottarnir saman einu sinni í viku í smáum hópum á einkaheimilum til biblíunáms.
Allar þessar samkomur eru opnar almenningi. Engin samskot fara fram. Allir geta haft gagn af slíkum samkomum enda segir Biblían: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ Sjálfsnám er nauðsynlegt svo og könnun efnis á eigin spýtur, en það er líka hvetjandi að hitta aðra. „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ — Hebreabréfið 10:24, 25; Orðskviðirnir 27:17.
Vottarnir nýta sér líka vel tækifæri sem gefast til að tala um fagnaðarerindið í daglegum samskiptum við annað fólk. Þeir skiptast ef til vill á nokkrum orðum við nágranna eða samferðamann í rútu eða flugvél, eiga lengri samræður við vin eða ættingja eða ræða málin við vinnufélaga í matartíma. Boðunarstarf Jesú, þegar hann var á jörðinni, fór að miklu leyti fram á þennan hátt — þegar hann gekk á ströndinni, sat í fjallshlíð, borðaði heima hjá einhverjum, sótti brúðkaup eða var á ferð í fiskibáti á Galíleuvatni. Hann kenndi í samkunduhúsunum og í musterinu í Jerúsalem. Hvar sem hann var staddur fann hann tækifæri til að tala um Guðsríki. Vottar Jehóva leitast við að feta í fótspor hans í þessum efnum líka. — 1. Pétursbréf 2:21.
PRÉDIKAÐ MEÐ GÓÐU FORDÆMI
Engin þessara aðferða við að flytja mönnum fagnaðarerindið væri verulega vænleg til árangurs ef sá sem tíðindinn bæri tæki ekki sjálfur til sín boðskapinn. Að segja eitt og gera annað er hræsni og trúarhræsni hefur gert milljónir manna fráhverfar Biblíunni. Ekki er hægt með réttu að kenna Biblíunni um það. Fræðimennirnir og farísearnir höfðu Hebresku ritningarnar en Jesús fordæmdi hræsni þeirra. Hann ræddi um upplestur þeirra úr Móselögunum en sagði síðan við lærisveina sína: „Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ (Matteus 23:3) Fyrirmyndarlíferni kristins manns segir meira en sífelld prédikun. Kristnum konum, sem áttu eiginmenn annarrar trúar, var bent á að þær gætu unnið þá orðalaust til fylgis við trúna með góðri hegðun og grandvöru lífi. — 1. Pétursbréf 3:1, 2.
Vottar Jehóva reyna þess vegna líka að laða aðra að fagnaðarerindinu með því að vera til fyrirmyndar í þeirri kristnu hegðun sem þeir mæla með við aðra. Þeir reyna að ,gera öðrum það sem þeir vilja að aðrir geri þeim‘. (Matteus 7:12) Þeir reyna að koma þannig fram við alla menn, en ekki aðeins við trúbræður sína, vini, nágranna eða ættingja. Í ófullkomleika sínum tekst þeim það ekki alltaf til fulls. En þeir þrá af heilum hug að gera öllum gott, ekki aðeins með því að boða fagnaðarerindið um Guðsríki heldur líka með útréttri hjálparhönd hvenær sem hægt er. — Jakobsbréfið 2:14-17.
[Mynd á bls. 19]
Hawaii
[Mynd á bls. 19]
Venesúela
[Mynd á bls. 19]
Júgóslavía
[Myndir á bls. 19]
Ríkissalirnir eru vettvangur umræðna um Biblíuna og eru hannaðir með notagildið í huga.
[Myndir á bls. 19]
Í fjölskyldulífinu og samskiptum við aðra reyna vottarnir í einlægni að gera sjálfir það sem þeir hvetja aðra til að gera.