Hagnýtt gildi fagnaðarerindisins fyrir samfélagið
„MEGINREGLUR kristninnar eru ekki raunhæfar. Þær eiga ekki heima í hinu flókna samfélagi nútímans.“ Þessari skoðun heyrum við oft fleygt. Nafnkunnir menn hafa þó farið lofsamlegum orðum um meginreglur á borð við þær sem Jesús Kristur setti fram í fjallræðunni. Meðal þeirra eru menn eins og indverski leiðtoginn Mohandas K. Gandhi og rússneski rithöfundurinn Leó Tolstoj. Af hverju skyldu þeir hafa hrifist af siðfræði Biblíunnar?
Í fjallræðunni talar Kristur um að menn rækti sinn andlega mann og séu hógværir, friðsamir, miskunnsamir og elski réttlætið. Þar fordæmir hann ekki aðeins morð heldur einnig það að fyllast bræði gagnvart öðrum, ekki aðeins hórdóm heldur líka girndarhug. Í ræðunni mælir Kristur gegn óábyrgum hjúskaparslitum sem sundra heimilum og bitna hart á börnum. Hann segir: ,Elskið jafnvel þá sem er illa við ykkur, gefið hinum þurfandi, hættið að dæma aðra miskunnarlaust, komið fram við aðra eins og þið vilduð sjálf að komið væri fram við ykkur.‘ Öll þessi ráð kæmu að gríðarlegu gagni ef menn færu eftir þeim. Því fleiri sem fylgja þessum ráðum á hverjum stað þeim mun betra verður lífið þar.
Vottar Jehóva hafa áhrif í þessa átt. Biblían kennir þeim að virða hjónabandið. Börnum þeirra eru innprentaðar réttar lífsreglur. Áhersla er lögð á mikilvægi fjölskyldunnar. Byggðarlagi þínu, jafnvel þjóðinni allri, er akkur í samheldnum fjölskyldum. Í mannkynssögunni eru mörg dæmi um heimsveldi sem hrundu þegar fjölskylduböndin veikluðust og siðleysi jókst. Fjölgi þeim einstaklingum og fjölskyldum, sem lifa samkvæmt kristnum meginreglum vegna áhrifa frá vottum Jehóva, fækkar að sama skapi afbrotum, siðlausum verkum og glæpum í samfélaginu.
Kynþáttafordómar eru eitt þeirra stóru vandamála sem þjaka samfélög og þjóðir. Orð Péturs postula ganga þvert á slíka fordóma: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Páll skrifaði líka: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ (Postulasagan 10:34, 35; Galatabréfið 3:28) Vottar Jehóva viðurkenna þetta. Fólk af öllum kynþáttum og litarhætti býr og starfar saman á höfuðstöðvum þeirra, á deildarskrifstofum og í söfnuðunum.
Í Afríku geta vissir ættflokkar ekki umgengist hver annan án þess að lenda saman. En á mótum Votta Jehóva þar í álfu getur fólk af mörgum mismunandi ættflokkum borðað, dvalið og tilbeðið saman í fullri friðsemd og innilegri vináttu. Fulltrúar stjórnvalda eru forviða þegar þeir sjá það. Í New York blaðinu Amsterdam News frá 2. ágúst 1958 var bent á sérstakt dæmi um sameiningarmátt sannrar kristni. Tilefni ábendingarinnar var að höfundur hennar fylgdist með fyrrnefndu alþjóðamóti Votta Jehóva í New York þar sem rúmlega 250.000 manns söfnuðust saman.
„Alls staðar mátti sjá blökkumenn, hvíta menn og austurlenska, af öllum þjóðfélagsstigum og frá öllum heimshlutum, umgangast hver annan glaðlega og frjálslega. . . . Vottarnir koma frá 120 löndum og hafa búið og tilbeðið saman í friði og með því sýnt Bandaríkjamönnum hversu auðvelt það getur verið. . . . Mótið er skínandi dæmi um það hvernig fólk getur starfað og búið saman.“
Margir segja ef til vill að meginreglur kristninnar séu ekki raunhæfar í heimi nútímans. En hefur eitthvað annað reynst vel eða er líklegt til að reynast vel? Kristnar meginreglur geta haft verulegt gildi nú þegar fyrir samfélagið ef farið er eftir þeim. Á grundvelli þessara meginreglna verður ,fólk, kynkvíslir og lýðir‘ sameinað um allan heim undir stjórn Guðsríkis yfir mannkyninu. — Opinberunarbókin 7:9, 10.
[Innskot á bls. 23]
Menn af öllum kynþáttum og litarhætti starfa saman.
[Innskot á bls. 24]
Kristni er raunhæf. Hvað annað hefur reynst vel?