-
MálfimiAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Námskafli 4
Málfimi
HNÝTURÐU um orð eða orðasambönd þegar þú lest upphátt? Eða hikarðu oft og þarft að leita að réttu orðunum þegar þú stendur frammi fyrir áheyrendahópi? Ef svo er þarftu líklega að æfa þig í málfimi. Málfimur maður á auðvelt með að koma orðum að hugsun sinni; orðin virðast renna lipurt fram af vörum hans. Ekki svo að skilja að hann láti dæluna ganga viðstöðulaust, sé mjög hraðmæltur eða tali hugsunarlaust heldur er mál hans þjált og þægilegt áheyrnar. Málfimi er tekin sérstaklega til meðferðar í Boðunarskólanum.
Stirðmæli getur átt sér allmargar orsakir. Þarftu að huga sérstaklega að einhverju af eftirfarandi? (1) Hik í upplestri getur stafað af því að lesandinn þekkir ekki ákveðin orð. (2) Flutningur getur orðið slitróttur ef mælandinn gerir of mörg stutt hlé. (3) Undirbúningsleysi getur stuðlað að stirðmæli. (4) Efninu er ekki raðað rökrétt og þar af leiðandi hikar mælandinn í leit að orðum þegar hann stendur frammi fyrir áheyrendum. (5) Takmarkaður orðaforði er stundum ástæðan fyrir því að mælanda rekur í vörðurnar. (6) Ef áhersla er lögð á of mörg orð getur það spillt málfimi. (7) Kunnáttuleysi í málfræði getur líka haft sitt að segja.
Áheyrendur í ríkissalnum ganga ekki bókstaflega út ef þú ert stirðmæltur en hugur þeirra getur farið á flakk með þeim afleiðingum að stór hluti þess sem þú segir fer fyrir ofan garð og neðan hjá þeim.
Þess þarf líka að gæta að mælskan og krafturinn verði ekki svo mikill að það virki yfirþyrmandi eða áheyrendur verði jafnvel vandræðalegir. Mál þitt missir marks ef ólíkur menningaruppruni gerir að verkum að fólki finnst þú framhleypinn, frakkur eða óeinlægur. Athygli vekur að Páll postuli, sem var reyndur ræðumaður, nálgaðist Korintumenn „í veikleika, ótta og mikilli angist“ til að beina ekki óþarfa athygli að sjálfum sér. — 1. Kor. 2:3.
Ávanar sem ber að forðast. Margir hafa þann ávana að skjóta hikhljóðum, svo sem „og-ööö,“ inn í mál sitt. Aðrir byrja oft málsgrein á „eee“ eða hengja hikorð eins og „sko,“ „hérna,“ „þarna,“ „sem sagt“ eða „þú veist“ við flest sem þeir segja. Þú veist kannski ekki hve oft þú skýtur inn hikhljóðum eða notar málhækjur en þú gætir reynt að fá einhvern til að hlusta á þegar þú æfir þig og látið hann endurtaka orðið eða hljóðið í hvert sinn sem þú notar það. Niðurstaðan gæti komið þér á óvart.
Sumir lesa og tala með sífelldum bakrykkjum. Þeir hætta í miðri setningu og endurtaka að minnsta kosti hluta af því sem þeir voru búnir að segja.
Sumir eru ágætlega hraðmæltir og byrja að orða hugsun sína en hætta svo við hálfkláraða setningu til að brydda upp á einhverju nýju. Orðin streyma greiðlega fram en hin skyndilegu umskipti í miðjum klíðum spilla málfiminni.
Leiðir til úrbóta. Ef þú hikar oft til að leita að réttu orði þarftu að leggja þig eindregið fram við að auka orðaforðann. Gefðu sérstaklega gaum að orðum, sem eru þér framandi, í Varðturninum, Vaknið! og öðrum ritum sem þú lest. Flettu þeim upp í orðabók, athugaðu merkingu þeirra og samsetningu ef þau eru samsett og bættu einhverjum þeirra við orðaforða þinn. Ef þú hefur ekki aðgang að orðabók geturðu spurt einhvern sem hefur góð tök á málinu.
Þú getur bætt þig með því að lesa upphátt að staðaldri. Gefðu gaum að erfiðum orðum og segðu þau upphátt nokkrum sinnum.
Til að lesa reiprennandi þarftu að skilja hvernig orð tengjast í setningu. Yfirleitt þarf að lesa nokkur orð saman sem heild til að skila þeirri hugsun sem höfundur textans ætlaði sér að tjá. Taktu sérstaklega eftir þessum orðheildum og merktu við þær ef þér finnst hjálp í því. Markmiðið hjá þér er ekki aðeins að lesa orðin rétt heldur einnig að koma hugmyndum skýrt til skila. Eftir að þú hefur brotið eina setningu til mergjar skaltu taka þá næstu fyrir uns þú hefur farið yfir alla efnisgreinina. Glöggvaðu þig vel á rökfærslunni. Síðan skaltu æfa þig í að lesa textann upphátt. Lestu alla efnisgreinina aftur og aftur þangað til þú hættir að hika á orðum og gera hlé á röngum stöðum. Þá geturðu snúið þér að næstu efnisgrein.
Nú geturðu aukið hraðann. Ef þú ert búinn að átta þig á því hvernig orð í setningu vinna saman geturðu séð meira en eitt orð í senn og oft séð fyrir hvað kemur næst. Þetta hefur töluverð áhrif á lesfærni þína.
Það getur verið góð æfing að lesa texta án undirbúnings. Þú gætir til dæmis lesið dagstextann og skýringarnar upphátt að staðaldri án undirbúnings. Vendu þig á að sjá orðin í hópum sem tjá heildstæða hugsun í stað þess að sjá aðeins eitt orð í senn.
Málfimi í samræðum útheimtir að maður hugsi áður en maður talar. Temdu þér það í daglega lífinu. Áður en þú tekur til máls þarftu að ákveða hverju þú vilt koma á framfæri og í hvaða röð þú ætlar að segja það. Flýttu þér ekki um of. Gerðu þér far um að segja heila hugsun án þess að gera hlé eða skipta um hugsun í miðjum klíðum. Það getur verið gott að tala í stuttum og einföldum setningum.
Orðin ættu að koma eðlilega ef þú veist nákvæmlega hvað þú vilt segja. Yfirleitt þarftu ekki að velja meðvitað þau orð sem þú notar. Reyndar er betra, æfingarinnar vegna, að gæta þess að hugmyndin sé skýrt mótuð og hugsa síðan um orðin um leið og maður talar. Ef þú gerir það og einbeitir þér að hugmyndunum fremur en orðunum sem þú ætlar að tjá þær með, þá kvikna orðin nánast sjálfkrafa og þú tjáir hugsun þína nákvæmlega eins og hún er. Um leið og þú ferð að hugsa um orð í stað hugmynda verður þú hins vegar höktandi í máli. Með æfingunni geturðu orðið ágætlega málfimur en það er mikilvægur þáttur góðs málflutnings og upplestrar.
Móse fannst hann ekki vera vandanum vaxinn þegar honum var falið að vera fulltrúi Jehóva gagnvart Ísraelsmönnum og faraó Egyptalands. Hvers vegna? Vegna þess að hann var ekki málsnjall og hugsanlegt er að hann hafi verið málhaltur. (2. Mós. 4:10; 6:12) Hann bar fram ýmsar afsakanir en Guð tók þær ekki gildar. Guð sendi Aron með honum sem talsmann en hjálpaði Móse líka að tala sjálfum. Og Móse talaði margsinnis og með áhrifamiklum hætti, ekki aðeins til einstaklinga eða fámennra hópa heldur til allrar þjóðarinnar. (5. Mós. 1:1-3; 5:1; 29:2; 31:1, 2, 30; 33:1) Ef þú leggur þig samviskusamlega fram og treystir á Jehóva geturðu líka notað talgáfuna til að heiðra hann.
-
-
Viðeigandi málhléAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Námskafli 5
Viðeigandi málhlé
MÁLHLÉ á réttum stöðum eru þýðingarmikil í mæltu máli, hvort heldur verið er að flytja ræðu eða tala við eina manneskju. Ef ekki eru gerð viðeigandi hlé getur mælt mál verið eins og óskýr orðaflaumur í stað skýrrar tjáningar. Viðeigandi málhlé skýra mælt mál og það er einnig hægt að beita þeim þannig að aðalatriðin skeri sig úr og sitji eftir til langframa.
Hvernig geturðu ákvarðað hvar þú eigir að gera málhlé og hve löng þau eiga að vera?
Málhlé við greinarmerki. Greinarmerki eru mikilvægur þáttur ritaðs máls. Þau geta afmarkað fullyrðingu eða spurningu. Í sumum tungumálum eru notuð greinarmerki til að afmarka tilvitnun. Sum greinarmerki gefa til kynna innbyrðis samband setninga og setningarhluta. Maður sér þessi greinarmerki þegar maður les í hljóði fyrir sjálfan sig. En þegar lesið er upphátt fyrir aðra þarf röddin að miðla þeirri merkingu sem fólgin er í greinarmerkjum hins prentaða máls. (Sjá nánar í 1. námskafla, „Nákvæmni í lestri.“) Ef ekki eru gerð viðeigandi málhlé við greinarmerki geta áheyrendur átt erfitt með að skilja hið upplesna eða merking textans getur hreinlega brenglast.
Málhlé og staðsetning þeirra ræðst einnig af því hvernig hugmyndum er komið á framfæri innan málsgreinar. Frægur tónlistarmaður sagði einu sinni: „Ég spila nóturnar ekkert betur en margir aðrir píanóleikarar. En þagnirnar á milli nótnanna — í þeim er listin fólgin.“ Hið sama má segja um talað mál. Viðeigandi þagnir eða málhlé auka á fegurð og skýra merkingu vel undirbúins efnis.
Þegar þú býrð þig undir upplestur getur verið gott að merkja við þar sem þú ætlar að gera málhlé í lestrinum. Gerðu stutt, lóðrétt strik þar sem þú vilt skjóta inn stuttu hléi eða gera smáhik. Notaðu tvö lóðrétt strik til að merkja lengri málhlé. Ef ákveðið orðalag er þér ekki tamt og þú hikar hvað eftir annað á röngum stað skaltu tengja saman með blýantsstriki öll orð setningarinnar eða orðasambandsins sem þú átt í erfiðleikum með. Lestu síðan setninguna eða orðasambandið í heild. Margir reyndir ræðumenn gera þetta.
Yfirleitt á fólk ekki í erfiðleikum með að beita málhléum í daglegu tali vegna þess að það veit hvaða hugmyndum það vill koma á framfæri. En ef þú hefur þann ávana að gera málhlé með reglulegu millibili, hvort sem hugsunin krefst þess eða ekki, þá verður mál þitt óskýrt og máttlítið. Ýmis ráð til úrbóta er að finna í 4. námskafla, „Málfimi.“
Málhlé við efnisskil. Þegar farið er úr einu aðalatriði yfir í annað getur málhlé gefið áheyrendum færi á að hugsa sig um. Það gefur þeim tækifæri til að íhuga það sem þú segir, laga sig að því, taka eftir hvar þú breytir um stefnu og glöggva sig betur á næstu hugmynd sem þú kemur fram með. Það er jafnmikilvægt fyrir ræðumann að gera málhlé milli hugmynda og fyrir ökumann bifreiðar að hægja á ferðinni í beygju.
Þegar ræðumenn æða úr einni hugmynd í aðra án þess að gera málhlé má oft rekja það til þess að þeir eru að reyna að komast yfir meira efni en tími leyfir. Sumir tala reyndar þannig að staðaldri og eru kannski vanir því að allir, sem þeir umgangast, geri það líka. En það skilar ekki áhrifaríkri kennslu. Ef þú hefur eitthvað fram að færa sem er þess virði að fólk heyri og leggi á minnið, þá skaltu gefa þér nægan tíma til að láta hugmyndina skera sig greinilega úr. Og málhlé eru nauðsynleg til að hugmyndir komist skýrt til skila.
Ef þú flytur ræðu eftir minnispunktum eða uppkasti þarf að útfæra það þannig að augljóst sé hvar eigi að gera málhlé milli aðalatriða. Eigir þú að lesa upp handrit skaltu merkja við hvar skipt er úr einu aðalatriði í annað.
Málhlé milli aðalatriða er venjulega lengra en við greinarmerki — en þó ekki svo langt að flutningurinn verði langdreginn. Ef málhlé eru of löng fá áheyrendur á tilfinninguna að þú sért illa undirbúinn og sért að bræða með þér hvað þú eigir að segja næst.
Áhersluhlé. Áhersluhlé eru oft áhrifamikil og fara á undan eða fylgja staðhæfingu eða spurningu sem sögð er með nokkrum áhersluþunga. Slík hlé vekja ýmist eftirvæntingu eða auðvelda áheyrendum að hugleiða það sem sagt er. Þetta eru tvær ólíkar aðferðir og þú þarft að ákveða hvor eigi við hverju sinni. En mundu að það á ekki að beita áhersluhléum nema um þýðingarmikil atriði sé að ræða. Að öðrum kosti glata þau gildi sínu.
Jesús notaði málhlé með áhrifaríkum hætti er hann las upp úr Ritningunni í samkunduhúsinu í Nasaret. Fyrst las hann um hlutverk sitt í spádómsbók Jesaja. En áður en hann heimfærði spádóminn vafði hann upp bókrollunni, afhenti hana þjóninum og settist niður. Allir í samkundunni störðu á hann. Þá sagði hann: „Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar.“ — Lúk. 4:16-21.
Hlé þegar aðstæður útheimta. Stundum þarf að gera málhlé vegna truflana. Umferðarhávaði eða barnsgrátur getur truflað samræður við húsráðanda sem þú hittir í boðunarstarfinu. Ef þú ert að flytja fyrirlestur á samkomu og truflunin er ekki of mikil geturðu kannski hækkað róminn og haldið áfram. En sé truflunin af hávaðanum mikil eða langvarandi þarftu að gera hlé á máli þínu. Áheyrendur hlusta ekki á þig hvort eð er. Gerðu því hlé svo að þeir geti haft fullt gagn af því góða efni sem þú vilt koma á framfæri við þá.
Málhlé til að fá fram viðbrögð. Þó að þú sért að flytja ræðu þar sem ekki er gert ráð fyrir formlegri þátttöku áheyrenda er nauðsynlegt að gefa þeim tækifæri til að taka undir við þig í huganum. Ef þú varpar fram spurningum sem eiga að vekja áheyrendur til umhugsunar án þess að gera nægilegt málhlé á eftir fer gildi spurninganna að miklu leyti í súginn.
Málhlé eru auðvitað mikilvæg, ekki aðeins þegar þú talar af ræðupallinum heldur einnig þegar þú vitnar fyrir öðrum. Sumir virðast aldrei gera málhlé. Ef þú ert þannig ættirðu að leggja þig vel fram um að tileinka þér þessa tækni. Þá tjáir þú þig skýrar við aðra og nærð betri árangri í boðunarstarfinu. Hlé er sama og stundarþögn og það hefur verið sagt með sanni að þögn skerpi skilin, auki áhersluna, brýni athyglina og örvi heyrnina.
Í daglegum samræðum skiptast menn á hugmyndum. Aðrir hlusta frekar á þig ef þú hlustar á þá og sýnir áhuga á því sem þeir segja. Til þess þarftu að gera nógu langa málhvíld svo að þeir fái tækifæri til að tjá sig.
Boðunin er áhrifaríkust ef hún fer fram í formi samræðna. Mörgum vottum reynist það vel að byrja á því að heilsa, segja frá tilefni heimsóknarinnar og varpa síðan fram spurningu. Þeir gera síðan málhvíld til að gefa viðmælandanum færi á að svara, og taka svo undir við hann. Þeir gefa viðmælandanum mörg tækifæri til að láta skoðun sína í ljós í samtalinu, vitandi að það er alla jafna auðveldara að hjálpa öðrum ef maður veit hvaða skoðanir hann hefur á því máli sem til umræðu er. — Orðskv. 20:5.
Viðbrögð manna við spurningum eru auðvitað ekki alltaf jákvæð. En Jesús lét það ekki aftra sér frá að gera nógu löng málhlé til að jafnvel andstæðingar hans fengju tækifæri til að tala. (Mark. 3:1-5) Með því að gefa viðmælandanum tækifæri til að tjá sig ertu að hvetja hann til að hugsa og það getur leitt í ljós hvað býr í hjartanu. Eitt af markmiðum boðunarstarfsins er einmitt að örva hjartað með því að leggja fyrir fólk ýmis mikilvæg mál úr Biblíunni sem það þarf að taka afstöðu til. — Hebr. 4:12.
Það er sannarlega list að beita viðeigandi málhléum í boðunarstarfinu en þegar það er vel gert komast hugmyndirnar skýrar til skila og þær festast frekar í minni.
-
-
MerkingaráherslurAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Námskafli 6
Merkingaráherslur
Í MÆLTU máli og upplestri er ekki nóg að segja einstök orð rétt. Það er ekki síður mikilvægt að leggja áherslu á aðalorð, orðasambönd og setningarliði sem fela í sér meginhugsunina, þannig að hún komist greinilega til skila.
Rétt merkingaráhersla er fólgin í því að leggja áherslu á réttu orðin, ekki aðeins á fáein orð á stangli eða allmörg orð ef því er að skipta. Ef áhersla fellur á röng orð getur merking þess sem þú segir orðið óljós með þeim afleiðingum að áheyrendur láta hugann reika. Sé ekki lögð áhersla á réttu orðin getur svo farið að annars ágætt efni nái ekki að hvetja áheyrendur sem skyldi.
Það eru ýmsar leiðir til að ná fram áherslu og þær eru oft notaðar hver með annarri. Nefna má að hækka róminn, tala af meiri tilfinningu, tala hægt og yfirvegað, gera málhvíld á undan eða eftir (eða hvort tveggja), auk svipbrigða og tilburða. Í sumum tungumálum er hægt að ná fram áherslu með því að lækka róminn eða hækka tóninn. Taka þarf mið af efni og aðstæðum þegar ákveðið er hvaða áhersluaðferð sé heppilegust.
Athugaðu eftirfarandi til að ákvarða hvaða orð, setningar eða setningaliðir eigi að fá áherslu: (1) Áhersla innan setningar ræðst bæði af setningunni í heild og samhenginu. (2) Gera má merkingaráherslu við upphaf nýrrar hugmyndar, hvort heldur um er að ræða aðalatriði eða einfaldlega nýja rökleiðslu, eða þá til að vekja athygli á að ákveðin rökleiðsla sé á enda. (3) Mælandi getur beitt áherslu til að láta í ljós afstöðu sína í ákveðnu máli. (4) Rétt áhersla getur dregið fram aðalatriði í ræðu.
Til að beita áherslu eins og hér er lýst þarf ræðumaður eða upplesari að hafa góðan skilning á efninu og vera áfram um að áheyrendur meðtaki það. Nehemíabók 8:8 segir um fræðslu sem veitt var á dögum Esra: „Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.“ Ljóst er að þeir sem lásu og skýrðu lögmál Guðs við þetta tækifæri gerðu sér grein fyrir því að þeir þurftu að hjálpa áheyrendum að skilja merkingu hins upplesna, tileinka sér það og fara eftir því.
Ýmis vandkvæði. Flestir eiga auðvelt með að tjá sig skilmerkilega í eðlilegum, daglegum samræðum. En þegar þeir lesa upp efni, sem skrifað er af öðrum, vandast málið. Til að glöggva sig á því hvaða orð eða orðasambönd eigi að fá áherslu er nauðsynlegt að skilja efnið, það er að segja að setja sig vel inn í það sem ritað er. Þú ættir því að undirbúa þig vel ef þú ert beðinn að lesa eitthvað upp á safnaðarsamkomu.
Sumir hafa vanið sig á að tala með reglubundinni áherslu innan setningar. Hún kemur með nokkuð föstu millibili, án tillits til þess hvort hún er til skilningsauka eða ekki. Sumir leggja áherslu á smáorð, til dæmis forsetningar og samtengingar. Þess konar áhersla stuðlar ekki að skýrleika en getur hæglega orðið að truflandi kæk.
Einstaka mælandi hækkar róminn svo mjög í áhersluskyni að áheyrendur geta fengið á tilfinninguna að verið sé að skamma þá. Það skilar auðvitað sjaldnast góðum árangri. Ef áhersla innan setningar er óeðlileg getur áheyrendum fundist að verið sé að tala niður til sín. Það er miklum mun betra að mælandi höfði til þeirra með kærleika og sýni þeim fram á að orð sín séu bæði biblíuleg og skynsamleg.
Að bæta sig. Þeir sem hafa ekki gott vald á merkingaráherslum vita sjaldan af því. Einhver annar þarf að benda þeim á það. Umsjónarmaður skólans gefur þér góð ráð ef þú þarft að beita merkingaráherslum betur. Þú getur líka leitað ráða hjá einhverjum öðrum góðum ræðumanni. Biddu hann að hlusta vandlega á hvernig þú lest og talar og benda þér síðan á leiðir til úrbóta.
Í byrjun kann leiðbeinandinn að stinga upp á því að þú notir grein í Varðturninum sem æfingarefni. Trúlega bendir hann þér á að brjóta hverja málsgrein til mergjar til að kanna hvaða orð, orðasambönd eða setningarliði þurfi að leggja áherslu á til að koma merkingunni skýrt til skila. Kannski minnir hann þig á að leggja sérstaka áherslu á skáletruð orð. Hafðu hugfast að orð innan setningar vinna saman. Oft þarf að leggja áherslu á nokkur orð saman en ekki aðeins stök orð. Í sumum tungumálum þarf að gefa gaum að áherslutáknum til að merkingaráherslur verði réttar.
Þessu næst kann leiðbeinandinn að benda þér á að líta ekki aðeins á einstakar málsgreinar heldur sjá textann í víðara samhengi. Hver er meginhugmyndin í allri efnisgreininni? Hvaða áhrif ætti það að hafa á áhersluorðin í einstökum málsgreinum? Líttu á titil greinarinnar og feitletruðu millifyrirsögnina á undan textanum. Hvaða áhrif hefur það á áhersluorðin sem þú velur þér? Allt skiptir þetta máli. En gættu þess að leggja ekki þunga áherslu á of mörg orð.
Vera má að leiðbeinandinn minni þig á að láta rökfærsluna hafa áhrif á áherslurnar, hvort heldur þú talar eftir minnispunktum eða lest upp texta. Þú þarft að vera vakandi fyrir því hvar ákveðinni rökleiðslu lýkur og hvar ein meginhugmynd endar og önnur tekur við. Áheyrendum þykir það gott ef þú vekur athygli þeirra á því með flutningi þínum. Þetta má gera með því að leggja áherslu á orð eins og í fyrsta lagi, því næst, auk þess, að síðustu, þannig, þar af leiðandi og svo framvegis.
Leiðbeinandinn bendir þér einnig á hugmyndir þar sem ástæða gæti verið til að ná fram sérstakri tilfinningu. Þú gætir gert það með því að leggja áherslu á orð eins og afar, mjög, fullkomlega, óhugsandi, mikilvægt, alltaf og önnur slík. Þannig geturðu haft áhrif á afstöðu áheyrenda til þess sem þú segir. Meira verður fjallað um þetta í 11. námskafla sem heitir „Hlýja og tilfinning.“
Þegar þú vinnur að því að bæta merkingaráherslur er einnig gott fyrir þig að hafa skýrt í huga hvaða aðalatriði þú vilt að áheyrendur muni eftir. Fjallað verður nánar um það frá sjónarhóli upplestrar í 7. námskafla, „Áhersla á meginhugmyndir,“ og frá sjónarhóli ræðumennsku og málflutnings í 37. námskafla sem heitir „Aðalatriðin dregin fram.“
Ef þú ert að leitast við að bæta þig í boðunarstarfinu skaltu huga sérstaklega að því hvernig þú lest ritningarstaði. Vendu þig á að spyrja sjálfan þig: ‚Hvers vegna les ég þennan texta?‘ Það er ekki alltaf nóg að kennari segi orðin rétt. Það dugir ekki einu sinni alltaf að lesa textann með tilfinningu. Sértu til dæmis að svara spurningu einhvers eða kenna ákveðin grunnsannindi er gott að leggja áherslu á þau orð eða orðasambönd í ritningarstaðnum sem styðja umræðuefnið. Að öðrum kosti gæti hinn lesni texti misst marks.
Merkingaráhersla er fólgin í því að leggja áherslu á ákveðin orð og setningarliði og óreyndur mælandi gæti átt það til að hafa áhersluna of þunga. Útkoman minnir svolítið á tónana hjá nemanda sem er nýbyrjaður að læra á hljóðfæri. En með æfingunni verða einstakir „tónar“ einfaldlega hluti af fallegri og áhrifamikilli „tónlist.“
Þegar þú ert búinn að tileinka þér helstu grundvallaratriðin hefurðu meira gagn af því að fylgjast með hvernig reyndir mælendur fara að. Þú uppgötvar fljótt hverju hægt er að ná fram með missterkum áherslum, og þú áttar þig á því hvaða þýðingu það hefur að beita ýmiss konar áhersluaðferðum til að skýra merkingu hins talaða orðs. Með því að þjálfa þig í að beita merkingaráherslum skilarðu betur af hendi bæði upplestri og mæltu máli almennt.
Láttu þér ekki nægja að ná tökum á grundvallaratriðunum heldur haltu áfram að æfa þig og þjálfa uns þú hefur náð góðu valdi á því að beita merkingaráherslum og getur gert það þannig að það hljómi eðlilega í eyrum annarra.
-
-
Áhersla á aðalhugmyndirAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Námskafli 7
Áhersla á aðalhugmyndir
GÓÐUR lesari horfir ekki aðeins á eina málsgrein eða jafnvel efnisgreinina sem hún stendur í heldur hefur hann í huga aðalhugmyndir alls efnisins sem hann er að lesa. Og það hefur áhrif á hvar hann staðsetur áherslurnar.
Ef þess er ekki gætt verða engir toppar í flutningnum. Ekkert sker sig greinilega úr. Þegar flutningnum er lokið getur verið erfitt að muna að nokkuð hafi staðið upp úr.
Sé viðeigandi áhersla lögð á meginhugmyndir getur það aukið áhrifin til muna þegar biblíukafli er lesinn upp. Rétt áhersla getur styrkt upplestur efnisins á safnaðarsamkomu eða þegar þú kennir í heimahúsi. Og þetta er sérstaklega mikilvægt þegar ræða er flutt eftir handriti eins og stundum er gert á mótum.
Hvernig á að fara að? Segjum að þér sé falið það verkefni í skólanum að lesa upp biblíukafla. Á hvað áttu að leggja áherslu? Ef einhver meginhugmynd kemur fram í leskaflanum eða hann segir frá merkum atburði er rétt að láta það skera sig úr.
Áheyrendur hafa gagn af góðum upplestri, hvort sem þú ert að lesa ljóðrænan texta eða laust mál, orðskviði eða frásögu. (2. Tím. 3:16, 17) En til að lesa vel þarftu bæði að taka tillit til leskaflans og áheyrenda.
Ef þér er falið að lesa upp úr einhverju riti á biblíunámskeiði eða safnaðarsamkomu þarftu að glöggva þig á aðalhugmyndunum sem leggja þarf áherslu á. Þú getur litið svo á að svörin við námsspurningunum séu aðalhugmyndirnar. Leggðu jafnframt áherslu á hugmyndir sem tengjast millifyrirsögninni næst á undan textanum.
Að jafnaði er ekki ráðlegt að semja handrit að ræðum sem flytja á í söfnuðinum. Einstaka ræður á mótum eru þó fluttar eftir handriti í þeim tilgangi að sama hugsunin komi fram með sama hætti á öllum mótunum. Til að leggja áherslu á aðalhugmyndirnar í slíku handriti þarf ræðumaðurinn að byrja á því að brjóta efnið til mergjar. Hver eru aðalatriðin? Hann ætti að geta komið auga á þau. Aðalatriðin eru ekki einfaldlega þær hugmyndir sem honum þykja athyglisverðar heldur lykilhugmyndirnar sem efnið er byggt á. Stundum er hnitmiðuð og gagnorð lýsing á ákveðinni meginhugmynd höfð sem inngangur að frásögu eða rökfærslu í handriti. Þó er algengara að áhrifamikil staðhæfing komi eftir að rökin hafa verið lögð fram. Þegar ræðumaður hefur komið auga á þessi aðalatriði ætti hann að merkja við þau í handritinu. Yfirleitt eru þau ekki mörg, sennilega ekki nema fjögur eða fimm. Því næst þarf hann að æfa sig í að lesa þau þannig að áheyrendur taki greinilega eftir þeim. Þetta eru topparnir í ræðunni. Ef efnið er flutt með viðeigandi áherslum eru meiri líkur en ella á því að áheyrendur muni eftir aðalhugmyndunum. Það ætti að vera markmið ræðumannsins.
Hægt er að beita ýmsum áhersluaðferðum til að auðvelda áheyrendum að taka eftir aðalatriðunum. Til dæmis má auka ákafann, breyta hraðanum, leggja meiri tilfinningu í orðin eða nota viðeigandi tilburði, svo nokkuð sé nefnt.
-