-
Hvers konar fólk er vottar Jehóva?Hverjir gera vilja Jehóva?
-
-
1. HLUTI
Hvers konar fólk er vottar Jehóva?
Danmörk
Taívan
Venesúela
Indland
Hve marga votta Jehóva þekkirðu? Við getum verið nágrannar þínir, vinnufélagar eða skólafélagar. Þú hefur ef til vill rætt við eitthvert okkar um biblíuleg mál. Hver erum við eiginlega og hvers vegna boðum við trú okkar meðal almennings?
Við erum ósköp venjulegt fólk. Við erum af ýmsum uppruna og ólumst upp við ólíkar aðstæður. Sum okkar voru annarrar trúar, önnur trúðu ekki á Guð. En áður en við gerðumst vottar gáfum við okkur öll tíma til að kynna okkur kenningar Biblíunnar vandlega. (Postulasagan 17:11) Við vorum sátt við það sem við lærðum og ákváðum því að tilbiðja Jehóva Guð.
Við njótum góðs af biblíunámi okkar. Eins og allir aðrir þurfum við að glíma við okkar eigin veikleika og ýmis önnur vandamál. Við finnum hins vegar að það bætir lífsgæðin til muna að reyna að fara eftir meginreglum Biblíunnar dagsdaglega. (Sálmur 128:1, 2) Það er ein ástæðan fyrir því að við segjum öðrum frá góðum lífsreglum Biblíunnar sem við höfum lært.
Við lifum eftir góðum gildum Biblíunnar. Þessi gildi stuðla að velferð okkar og virðingu fyrir öðrum, ásamt góðvild og heiðarleika. Þau hvetja fólk til að vera ábyrgir þjóðfélagsþegnar og efla gott siðferði og samheldni í fjölskyldunni. Við erum sannfærð um að ,Guð fari ekki í manngreinarálit‘ þannig að við skiptumst ekki eftir kynþáttum og stjórnmálum. Söfnuðurinn okkar er því eitt alþjóðlegt bræðralag. Hann er einstakur þótt hann sé myndaður af ósköp venjulegu fólki. – Postulasagan 4:13; 10:34, 35.
Hvað er sameiginlegt með vottum Jehóva og öllum öðrum?
Hvaða gildi hafa vottar Jehóva lært af biblíunámi sínu?
-
-
Hvers vegna köllum við okkur Votta Jehóva?Hverjir gera vilja Jehóva?
-
-
2. HLUTI
Hvers vegna köllum við okkur Votta Jehóva?
Nói
Abraham og Sara
Móse
Jesús Kristur
Margir halda að nafngiftin Vottar Jehóva sé fremur ný af nálinni en svo er ekki. Þjónar hins sanna Guðs voru kallaðir „vottar“ hans fyrir meira en 2.700 árum. (Jesaja 43:10-12) Fram til 1931 kölluðum við okkur Biblíunemendur. Af hverju tókum við þá upp nafnið Vottar Jehóva?
Það bendir á Guð okkar. Nafnið Jehóva stendur mörg þúsund sinnum í fornum handritum Biblíunnar. Í mörgum þýðingum hennar hafa verið settir titlar eins og Drottinn eða Guð í staðinn. Hinn sanni Guð opinberaði hins vegar Móse að hann héti Jehóva og sagði: „Þetta er nafn mitt um aldur og ævi.“ (2. Mósebók 3:15; 6:3, neðanmáls) Þannig aðgreindi hann sig frá öllum falsguðum. Við erum stolt af því að mega bera heilagt nafn Guðs.
Það lýsir hlutverki okkar. Í aldanna rás vitnaði fjöldi fólks um trú sína á Jehóva. Hinn réttláti Abel var fyrstur þessara „fjölda votta“, en af öðrum má meðal annars nefna Nóa, Abraham, Söru, Móse og Davíð. (Hebreabréfið 11:4–12:1) Við erum staðráðin í að boða sannleikann um þann Guð sem við tilbiðjum, ekki ósvipað og maður sem vitnar fyrir rétti um sakleysi annars.
Við líkjum eftir Jesú. Í Biblíunni er hann nefndur „votturinn trúi og sanni“. (Opinberunarbókin 3:14) Jesús sagðist hafa opinberað nafn Guðs og borið vitni sannleikanum um hann. (Jóhannes 17:26; 18:37) Sannir fylgjendur Krists verða þess vegna að bera nafn Jehóva og kunngera það. Vottar Jehóva leitast við að gera það.
Af hverju tóku Biblíunemendurnir upp nafnið Vottar Jehóva?
Hve lengi hefur Jehóva átt sér votta á jörðinni?
Hver er mesti vottur Jehóva?
-
-
Hvernig fundu menn sannleika Biblíunnar að nýju?Hverjir gera vilja Jehóva?
-
-
3. HLUTI
Hvernig fundu menn sannleika Biblíunnar að nýju?
Biblíunemendur upp úr 1870
Fyrsta tölublað Varðturnsins árið 1879
Varðturninn í nútímabúningi
Í Biblíunni var spáð að falskennarar myndu koma fram innan safnaðarins og rangsnúa kenningum Biblíunnar eftir að Kristur væri dáinn. (Postulasagan 20:29, 30) Og þannig fór þegar fram liðu stundir. Heiðnum trúarhugmyndum var blandað saman við kenningu Jesú og úr varð fölsuð útgáfa af kristninni. (2. Tímóteusarbréf 4:3, 4) Hvernig getum við gengið úr skugga um að við skiljum hvað Biblían kennir?
Sá tími rann upp að Jehóva opinberaði sannleikann. Hann sagði fyrir að ,skilningur manna myndi aukast þegar drægi að endalokunum‘. (Daníel 12:4) Árið 1870 fór lítill hópur manna að leita sannleikans. Þeir komust að raun um að margar kenningar kirkjufélaganna voru ekki sóttar í Biblíuna. Þeir reyndu að glöggva sig á upprunalegum kenningum hennar og Jehóva hjálpaði þeim að skilja þær.
Einlægir menn rannsökuðu Biblíuna vandlega. Þessir biblíunemendur lögðu grunninn að starfi okkar og beittu sömu aðferðum og við notum enn þann dag í dag. Þeir tóku fyrir hvert málefnið á fætur öðru og könnuðu hvað Biblían segði um það. Þegar þeir rákust á torskilin vers leituðu þeir að öðrum versum sem vörpuðu ljósi á textann. Þegar þeir komust að niðurstöðu sem kom heim og saman við Biblíuna í heild skráðu þeir hana niður. Með því að láta Biblíuna túlka sjálfa sig uppgötvuðu þeir sannleikann um nafn Guðs og ríki, fyrirætlun hans með mannkynið og jörðina, hvað gerist við dauðann og um upprisuvonina. Rannsóknir þeirra leystu þá úr fjötrum margra falskra kenninga og trúarathafna. – Jóhannes 8:31, 32.
Árið 1879 gerðu biblíunemendurnir sér grein fyrir að það væri tímabært að kunngera sannleikann vítt og breitt. Það ár hófu þeir útgáfu tímaritsins Varðturninn kunngerir ríki Jehóva og það er gefið út enn þann dag í dag. Núna boðum við sannleika Biblíunnar meðal fólks á meira en 750 tungumálum í 240 löndum. Sannleikur Biblíunnar hefur aldrei verið jafn útbreiddur.
Hvað varð um sannleika Biblíunnar eftir að Kristur dó?
Hvað gerði mönnum kleift að finna sannleika Biblíunnar að nýju?
-
-
Af hverju gefum við út Nýheimsþýðinguna?Hverjir gera vilja Jehóva?
-
-
4. HLUTI
Af hverju gefum við út Nýheimsþýðinguna?
Austur-Kongó (Kinshasa)
Rúanda
Slitur úr handriti Symmakusar frá þriðju eða fjórðu öld e.Kr. Nafn Guðs stendur í Sálmi 69:31.
Vottar Jehóva notuðu, prentuðu og dreifðu ýmsum þýðingum Biblíunnar um áratugaskeið. En smám saman varð okkur ljóst að þörf væri á nýrri þýðingu sem auðveldaði fólki að komast til „þekkingar á sannleikanum“ eins og Guð vill að allir menn geri. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Árið 1950 tókum við því að gefa út okkar eigin þýðingu Biblíunnar sem er kölluð Nýheimsþýðingin. Málfarið er nútímalegt og hún hefur nú verið þýdd af nákvæmni á meira en 130 tungumál.a
Þörf var á biblíu á auðskildu máli. Tungumál breytast með tímanum og í mörgum þýðingum Biblíunnar er notað sjaldgæft og forneskjulegt mál sem er erfitt að skilja. Auk þess hafa fundist eldri handrit sem eru nákvæmari og nær frumtextanum. Þau hafa aukið þekkingu manna á hebresku, arameísku og grísku, tungumálunum sem Biblían var skrifuð á.
Þörf var á þýðingu sem var trú orði Guðs. Biblíuþýðendur ættu ekki að leyfa sér að fara frjálslega með innblásinn boðskap Guðs heldur vera trúir frumtextanum. Fáar biblíuþýðingar nota hins vegar nafn Guðs, Jehóva.
Þörf var á biblíu sem hélt nafni höfundarins á lofti. (2. Samúelsbók 23:2) Nafnið Jehóva stendur um 7.000 sinnum í elstu handritum Biblíunnar, samanber myndina hér að neðan. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Þess vegna er það látið halda sér í Nýheimsþýðingunni. Margra ára rannsóknir liggja að baki þessari þýðingu. Hún er ánægjuleg aflestrar enda kemur hún viðhorfum Guðs skýrt til skila. Hvort sem Nýheimsþýðingin er til á móðurmáli þínu eða ekki er það góð venja að lesa daglega í orði Jehóva. – Jósúabók 1:8; Sálmur 1:2, 3.
Hvers vegna töldum við ástæðu til að gefa út nýja biblíuþýðingu?
Hvað er gott að gera á hverjum degi ef við viljum kynnast vilja Guðs?
a Nýheimsþýðingin er ekki fáanleg á íslensku en þú getur hugsanlega lesið hana á öðrum tungumálum.
-