Geturðu fundið frið í þessum hrjáða heimi?
BÝRÐU við frið? Fyrir marga er svarið augljóslega nei. Víða er fólk þjakað af stríðsátökum, ofbeldi milli kynþátta, pólitískum óróa og hryðjuverkum. Þó að þú þurfir ekki upplifa slíkar hörmungar getur verið að þú hafir lítinn frið vegna glæpa, áreitni eða deilna við nágranna eða viðskiptafélaga. Einnig getur fjölskyldan verið eins og vígvöllur frekar en friðsælt athvarf.
Margir þrá innri frið. Þeir leita hans í trúarbrögðum, hugleiðslunámskeiðum eða með því að stunda jóga. Aðrir vonast til að finna frið í náttúrunni — með því að ferðast, fara í gönguferðir um fjöll og firnindi eða baða sig í heitum laugum. Jafnvel þó að fólk finni einhvern frið uppgötvar það oft að hann er stundlegur og yfirborðskenndur.
Hvar er þá hægt að finna raunverulegan frið? Uppspretta friðar er skapari okkar, Jehóva Guð. Af hverju? Af því að hann er „Guð friðarins“. (Rómverjabréfið 15:33) Ríki hans kemur innan skamms og undir stjórn þess verður mikill „friður og farsæld“. (Sálmur 72:7; Matteus 6:9, 10) Þetta er miklu meira en fánýtir friðarsáttmálar manna. Árangurinn af slíkum samningum er oftast lítið annað en stutt hlé á átökum. Hins vegar mun friður Guðs útrýma öllu sem leiðir til átaka og stríðs. Enginn mun heyja stríð framar. (Sálmur 46:9, 10) Loksins raunverulegur friður.
Þó að þetta sé fögur von þá kann að vera að þú þráir samt sem áður að öðlast einhvern frið núna. Er hægt að finna innri frið sem getur hjálpað þér á þessum erfiðu tímum? Í Biblíunni er okkur sem betur fer sagt hvernig við getum gert það. Lítum á leiðbeiningar Páls í fjórða kafla bréfs hans til Filippímanna. Þú mátt gjarnan lesa vers 4 til 13 í þinni eigin biblíu.
„Friður Guðs“
Við lesum í versi 7: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ Við hljótum ekki þennan frið með hugleiðslu eða með því að þroska persónuleika okkar. Nei, hann kemur frá Guði. Þessi friður er svo mikill að hann „er æðri öllum skilningi“. Við finnum til friðar þrátt fyrir áhyggjur okkar, takmarkaða þekkingu eða rangar ályktanir. Við sjáum kannski enga leið út úr vandanum. En við höfum samt frið Guðs vegna þess að við eigum áreiðanlega von um að sá tími komi að allt sem veldur okkur áhyggjum hverfi.
Er þetta ómögulegt? Já, frá mannlegum sjónarhóli en „Guði er ekkert um megn“. (Markús 10:27) Ef við trúum og treystum Guði hjálpar það okkur að hafa hemil á áhyggjum okkar. Ímyndaðu þér barn sem hefur týnst í stórri búð. Barnið veit að það þarf bara að finna mömmu sína til að allt verði í lagi á ný. Það veit að mamma tekur það í faðm sér þegar hún finnur það. Við getum treyst að Guð geri það sama fyrir okkur, ef svo má að orði komast. Hann róar og hjálpar okkur að losna við allar áhyggjur.
Margir af þjónum Guðs hafa upplifað frið hans þegar þeir hafa gengið í gegnum mjög erfiðar prófraunir. Við skulum taka Nadine sem dæmi en hún missti fóstur. Hún segir: „Mér finnst erfitt að tala um tilfinningar mínar og reyni alltaf að láta eins og ekkert sé að. En í rauninni var ég alveg niðurbrotin. Á næstum hverjum degi úthellti ég hjarta mínu í bæn til Jehóva og grátbað um hjálp. Ég hef fundið fyrir mætti bænarinnar því að þegar mér leið hvað verst og hugsaði að ég gæti ekki haldið áfram fann ég fyrir innri ró og friði. Mér fannst ég vera óhult og örugg.“
Vernd fyrir huga okkar og hjörtu
Skoðum aftur Filippíbréfið 4:7. Þar segir að friður Guðs varðveiti hjörtu okkar og hugsanir. Friður Guðs er eins og varðmaður á vakt sem gætir hjartna okkar þannig að efnishyggju, óþarfa áhyggjum og óguðlegum gildum er ekki hleypt inn. Tökum dæmi.
Margir í þessum hrjáða heimi trúa því að til þess að vera hamingjusamir og öruggir þurfi þeir að eiga töluverðar eignir. Fólk kaupir hlutabréf fyrir sparifé sitt samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga. En finna menn þá til friðar? Ekki endilega. Þeir fylgjast áhyggjufullir með gengi hlutabréfa á hverjum degi og velta fyrir sér hvort þeir eigi að selja, kaupa eða halda bréfunum. Og þegar markaðurinn fer í niðursveiflu verða sumir skelfingu lostnir. Í Biblíunni er alls ekki fordæmt að fjárfesta en þar finnum við samt þessar leiðbeiningar: „Sá sem elskar peninga seðst aldrei af peningum og sá sem elskar auðinn hefur ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi. Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann matast lítið eða mikið, en offylli auðmanns ljær honum ekki svefnfrið.“ — Prédikarinn 5:9, 11.
Filippíbréfinu 4:7 lýkur með því að segja að friður Guðs varðveiti hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú. Hver eru tengslin milli Krists Jesú og friðar Guðs? Jesús gegnir lykilhlutverki í því að áætlun Guðs nái fram að ganga. Hann gaf líf sitt til þess að frelsa okkur frá synd og dauða. (Jóhannes 3:16) Hann er líka krýndur konungur í ríki Guðs. Að þekkja hlutverk Jesú getur verið okkur mikil hjálp til þess að hafa frið í hjörtum okkar og huga. Hvernig þá?
Ef við iðrumst í einlægni synda okkar og biðjum um fyrirgefningu á grundvelli lausnarfórnar Jesú þá mun Guð fyrirgefa okkur. Það stuðlar að því að við höfum frið í hjörtum okkar og huga. (Postulasagan 3:19) Það er ekki hægt að njóta lífsins til fulls fyrr en ríki Krists tekur við völdum. Þegar við skiljum það örvæntum við ekki né lifum eins og þetta líf sé allt og sumt. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Auðvitað er okkur ekki hlíft við öllu mótlæti en við finnum huggun í þeirri öruggu von að betra líf er framundan.
Hvernig geturðu fundið frið Guðs?
Svo hvernig er hægt að finna frið Guðs? Við finnum vísbendingar í Filippíbréfinu 4:4, 5 þar sem stendur: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi [„sanngirni“, New World Translation] ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.“ Þegar Páll skrifaði þessi orð þurfti hann að þola það óréttlæti að vera í fangelsi í Róm. (Filippíbréfið 1:13) Í stað þess að kvarta yfir óréttlátri meðferð hvatti hann trúsystkini sín til þess að vera ávallt glöð í Drottni. Gleði hans var greinilega ekki háð aðstæðum hans heldur sambandinu við Guð. Við þurfum líka að læra að þjóna Guði með gleði sama í hvaða aðstæðum við erum. Því betur sem við þekkjum Jehóva og lifum í samræmi við vilja hans því meira njótum við þess að þjóna honum. Og það leiðir til þess að við erum ánægð og höfum innri frið.
Þar að auki erum við hvött til að vera sanngjörn. Ef við erum sanngjörn ætlumst við ekki til of mikils af sjálfum okkur. Við vitum að við erum ekki fullkomin og getum ekki verið best í öllu. Til hvers að hafa áhyggjur af því að vera fullkomin eða að minnsta kosti betri en allir aðrir? Við ætlumst ekki heldur til þess að aðrir séu fullkomnir. Þannig getum við haldið ró okkar þegar aðrir gera eitthvað sem angrar okkur. Önnur þýðing á gríska orðinu, sem er þýtt „sanngirni“, er „eftirgefanlegur“. Ef við erum eftirgefanleg hvað varðar persónulegar skoðanir forðumst við deilur sem oftast eru engum til góðs en geta um tíma spillt friðinum við aðra og einnig okkar innri friði.
Það sem stendur næst í Filippíbréfinu 4:5, „Drottinn er í nánd,“ kann að virðast úr samhengi. Guð mun bráðum láta þetta gamla heimskerfi víkja fyrir nýju undir stjórn ríkis síns. En jafnvel núna getur hann verið nærri þeim sem nálægja sig honum. (Postulasagan 17:27; Jakobsbréfið 4:8) Að vera meðvitaður um nálægð hans hjálpar okkur að vera glöð, sanngjörn og hafa ekki áhyggjur af núverandi vandamálum eða framtíðinni eins og bent er á í versi 6.
Þegar við skoðum vers 6 og 7 sjáum við að friður Guðs er í beinu sambandi við bænina. Sumir líta á bænina sem einfaldlega eitt form af hugleiðslu og telja að hvers konar bænir sem er geti stuðlað að innri ró. Biblían talar hins vegar um einlæg samskipti við Jehóva, samskipti sem eru eins náin og þegar barn segir ástríku foreldri frá áhyggjum sínum og gleði. Það er mjög hughreystandi að vita að við getum sagt Guði frá „öllum hlutum“. Við getum treyst himneskum föður okkar fyrir því sem okkur liggur á hjarta, jafnvel innstu hugsunum okkar.
Í versi 8 erum við hvött til að einbeita okkur að því að hugsa jákvætt. Það er hins vegar ekki nóg að hugsa bara jákvætt. Eins og er útskýrt í versi 9 verðum við að fara eftir góðum ráðum Biblíunnar. Við höfum góða samvisku ef við gerum það. Málshátturinn, „Góð samviska er besti koddinn,“ er sannarlega réttur.
Já, þú getur fundið innri frið. Hann kemur frá Jehóva Guði sem gefur þeim frið sem nálægja sig honum og vilja fara eftir leiðbeiningum hans. Með því að rannsaka orð hans, Biblíuna, getur þú kynnst viðhorfum hans. Það er ekki alltaf auðvelt að fara eftir leiðbeiningum hans. En það er fyrirhafnarinnar virði vegna þess að ‚Guð friðarins mun vera með þér‘. — Filippíbréfið 4:9.
[Innskot á blaðsíðu 18]
„Friður Guðs . . . mun varðveita hjörtu ykkar.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:7
[Innskot á blaðsíðu 20]
Það er mjög hughreystandi að vita að við getum sagt Guði frá „öllum hlutum“.