Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w10 15.3. bls. 30-32
  • Höldum hjartanu hreinu á þessum erfiðu tímum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Höldum hjartanu hreinu á þessum erfiðu tímum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvað merkir það að hafa hreint hjarta?
  • Að halda hjartanu hreinu er áskorun
  • Að standast holdlegar langanir
  • Að halda hjartanu hreinu í prófraunum
  • Öðlumst hjarta Jehóva að skapi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Staðráðin í að þjóna Jehóva af heilu hjarta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Hefurðu „hjarta til að þekkja“ Jehóva?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Þjónaðu Jehóva af öllu hjarta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
w10 15.3. bls. 30-32

Höldum hjartanu hreinu á þessum erfiðu tímum

„ENGINN getur neitað því að gott siðferði er á undanhaldi innan kirkjunnar nú á dögum“. Kaþólski blaðamaðurinn Vittorio Messori sagði þetta í tengslum við kynlífshneyksli sem áttu sér nýlega stað innan kirkjunnar á Ítalíu. „Þetta vandamál verður ekki leyst með því að fella úr gildi skilyrði um einlífi presta, vegna þess að í 80 prósent tilvika snúast þessi mál um samkynhneigða presta sem misnota aðra karla og drengi kynferðislega.“ — La Stampa.

Hömlulaus illska er án efa tákn þess að við lifum á „síðustu dögum“ núverandi heimskerfis. (2. Tím. 3:1-5) Eins og fréttir sýna hefur siðferðishrunið ekki aðeins neikvæð áhrif á fólk almennt heldur einnig á þá sem kalla sig guðsmenn. Spillt og óhreint hjarta þeirra fær þá til að fremja siðlaus verk. (Ef. 2:2) Það var ekki að ástæðulausu sem Jesús varaði við því að ,frá hjartanu kæmu illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni og lastmælgi‘. (Matt. 15:19) Jehóva Guð vill hins vegar að þjónar hans elski „hreinleika hjartans“. (Orðskv. 22:11) Hvernig geta kristnir menn haldið hjarta sínu hreinu á þessum erfiðu tímum?

Hvað merkir það að hafa hreint hjarta?

Í Biblíunni er orðið ,hjarta‘ oft notað í táknrænum skilningi. Samkvæmt heimildarriti einu er orðið oft notað í Biblíunni um „innstu tilfinningar manna“ og „er sá hluti mannsins sem skiptir Guð mestu máli, þar sem sambandið við Guð á sínar rætur, sem ákvarðar siðferðilega breytni“. Hjartað stendur fyrir okkar innri mann. Eins og ofangreind orð vitna um er það þetta sem Jehóva skoðar og kann að meta hjá þjónum sínum. — 1. Pét. 3:4.

Í Biblíunni getur orðið ,hreinn‘ þýtt að eitthvað sé hreint í líkamlegum skilningi. En það getur líka þýtt að eitthvað sé óspillt — ósvikið, flekklaust eða heiðarlegt — í siðferðilegum og trúarlegum skilningi. Í fjallræðunni sagði Jesús: „Sælir eru hjartahreinir.“ Hann átti við þá sem eru hreinir hið innra. (Matt. 5:8) Tilfinningar þeirra, langanir og hvatir eru hreinar. Þeir elska Jehóva af öllu hjarta, einlæglega og án allrar hræsni. Hvötin, sem liggur að baki, er kærleikur og þakklæti í garð Jehóva. (Lúk. 10:27) Vilt þú ekki vera hreinn í þessum skilningi?

Að halda hjartanu hreinu er áskorun

Þjónn Jehóva þarf ekki einungis að hafa „flekklausar hendur“ heldur einnig að hafa „hreint hjarta“. (Sálm. 24:3, 4) Nú á dögum getur það hins vegar verið mikil áskorun fyrir þjóna Guðs að halda hjarta sínu hreinu. Satan og heimurinn undir stjórn hans, ásamt okkar eigin ófullkomleika, eiga stóran þátt í því að gera okkur fjarlæg Guði. Til að geta staðist slíkan þrýsting er ákaflega mikilvægt að við elskum „hreinleika hjartans“ og höldum fast í hann. Það er okkur vernd og hjálpar okkur að halda áfram að vera vinir Guðs. Hvernig getum við haldið hjartanu hreinu?

Í Hebreabréfinu 3:12 finnum við þessa viðvörun: „Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði.“ Við getum ekki viðhaldið „hreinleika hjartans“ ef við látum efasemdir smjúga inn í hjarta okkar. Hvaða hugmyndum hefur Satan djöfullinn komið inn hjá fólki sem grefur undan trú þess á Guð? Meðal annars þróunarkenningunni, siðferðilegri og trúarlegri afstæðishyggju og efasemdum um að hinar heilögu ritningar séu innblásnar af Guði. Við megum ekki láta slíka banvæna hugmyndafræði hafa áhrif á okkur. (Kól. 2:8) Ef við lesum daglega í orði Guðs og hugleiðum efnið vandlega verndar það okkur gegn slíkum árásum. Nákvæm þekking á Biblíunni eflir kærleika okkar til Jehóva og skilning á samskiptum hans við mennina. Við verðum að búa yfir slíkum kærleika og þakklæti ef við eigum að geta hafnað fölskum hugmyndum og haldið trú okkar á Jehóva sterkri þannig að við getum haldið hjartanu hreinu. — 1. Tím. 1:3-5.

Að standast holdlegar langanir

Annað sem getur haft áhrif á þá viðleitni okkar að halda hjartanu hreinu eru holdlegar langanir og efnishyggja. (1. Jóh. 2:15, 16) Ást á peningum eða löngunin til að verða ríkur og eignast efnislega hluti geta spillt hjartanu og fengið kristinn einstakling til að gera hluti sem stríða gegn vilja Guðs. Sumir hafa gerst óheiðarlegir í vinnu, svikið aðra eða jafnvel tekið peninga eða hluti ófrjálsri hendi. — 1. Tím. 6:9, 10.

Ef við aftur á móti þroskum með okkur heilnæman ótta við að vanþóknast Jehóva, elskum réttlæti og erum staðráðin í að halda samviskunni hreinni sýnum við að við elskum „hreinleika hjartans“. Þá viljum við „í öllum greinum breyta vel“. (Hebr. 13:18) Þegar við komum heiðarlega fram getur það gefið góðan vitnisburð. Emilio, sem er vottur á Ítalíu og er bílstjóri hjá almenningssamgöngufyrirtæki, fann seðlaveski sem í voru 470 evrur. Samstarfsmönnum sínum til mikillar undrunar lét hann yfirmanninn fá veskið sem síðan kom því til eigandans. Sumum af vinnufélögum Emilio fannst þetta svo sérstakt að þeir fóru að sýna áhuga á Biblíunni og þáðu biblíunámskeið. Árangurinn varð sá að sjö manns úr tveimur fjölskyldum tóku við sannleikanum. Já, þegar hreint hjarta hvetur okkur til að koma heiðarlega fram getur það fengið aðra til að lofa Guð. — Tít. 2:10.

Annað sem getur haft neikvæð áhrif á hreinleika hjartans hjá kristnum manni er rangt viðhorf til kynlífs. Sú staðreynd að kynlíf fyrir hjónaband, framhjáhald og samband samkynhneigðra er almennt viðurkennt getur spillt hjarta kristins manns. Einstaklingur, sem lætur undan siðlausum löngunum, gæti freistast til að fela synd sína og farið að lifa tvöföldu lífi. Slíkt hátterni myndi að sjálfsögðu ekki endurspegla hreint hjarta.

Gabriele skírðist þegar hann var 15 ára og byrjaði strax að starfa sem brautryðjandi. Seinna meir lenti hann hins vegar í slæmum félagsskap og fór að stunda næturklúbba. (Sálm. 26:4) Það var byrjunin á siðlausu og hræsnisfullu líferni sem endaði með því að honum var vikið úr söfnuðinum. Ögunin, sem hann fékk frá Jehóva, varð til þess að hann fór að hugsa alvarlega um líf sitt. Gabriele segir: „Ég byrjaði að gera það sem ég hafði aldrei tekið alvarlega áður. Ég fór að lesa í Biblíunni á hverjum degi og lagði mig fram um að hlusta á það sem Jehóva var í raun að segja við mig. Ég las líka biblíutengdu ritin vandlega. Ég fann hversu gefandi og ánægjulegt sjálfsnám getur verið og að biblíulestur og innilegar bænir færa mér mikinn styrk.“ Þetta hjálpaði Gabriele til að hætta sinni fyrri siðlausu breytni og endurheimta sambandið við Guð.

Nú þjónar Gabriele á ný sem brautryðjandi ásamt eiginkonu sinni. Það sem kom fyrir hann staðfestir að lestur og nám í Biblíunni og biblíutengdum ritum frá hinum ,trúa og hyggna þjóni‘ geta hjálpað einstaklingi til að halda hjarta sínu hreinu og hafna siðleysi. — Matt. 24:45; Sálm. 143:10.

Að halda hjartanu hreinu í prófraunum

Þrýstingur frá mótstöðumönnum, fjárhagserfiðleikar og alvarleg veikindi hafa lagst þungt á suma af þjónum Guðs. Stundum hefur hjarta þeirra líka orðið fyrir neikvæðum áhrifum. Davíð konungur varð fyrir slíkri raun og sagði: „Kjarkurinn bregst mér, hjartað stöðvast í brjósti mér.“ (Sálm. 143:4) Hvað hjálpaði honum að komast í gegnum erfiðleikana? Hann minntist þess hvað Guð hafði gert fyrir þjóna sína og hvernig honum sjálfum hafði verið bjargað. Hann hugleiddi hvað Jehóva hafði gert sakir síns mikla nafns og hélt sér uppteknum við að hugsa um verk hans. (Sálm. 143:5) Ef við á sama hátt hugleiðum verk skapara okkar, allt sem hann hefur gert og ætlar að gera fyrir okkur, getur það hjálpað okkur þegar við verðum fyrir prófraunum.

Þegar okkur finnst við verða fyrir ranglæti gætum við orðið bitur. Ef við hugsum of mikið um atvikið gætu neikvæðar tilfinningar í garð trúsystkina tekið yfirhöndina. Við gætum farið að forðast fólk, einangrað okkur og sýnt öðrum lítinn áhuga. En myndi slík hegðun endurspegla löngun okkar til að ástunda „hreinleika hjartans“? Ef við erum ákveðin í að halda hjartanu hreinu hlýtur það að hafa áhrif á samskipti okkar við trúsystkini og hvernig við bregðumst við árekstrum.

Í heimi, sem er siðferðilega rotinn og verður æ spilltari, skerum við okkur úr vegna þess að við elskum „hreinleika hjartans“. Með því að gera vilja Guðs öðlumst við innri frið sem hefur jákvæð áhrif á allt líf okkar. Umfram allt njótum við þess að eiga náið vináttusamband við skapara okkar, Jehóva Guð, sem elskar þá sem eru „hjartahreinir“. (Sálm. 73:1) Já, við getum verið meðal þeirra sem eru hamingjusamir vegna þess að eins og Jesús lofaði ,munu þeir sjá Guð‘ þegar hann lætur til sín taka í þágu þeirra sem eru „hjartahreinir“. — Matt. 5:8.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila