Bréf frá hinu stjórnandi ráði
Kæru trúsystkini.
Jehóva, himneskur faðir okkar, er persónugervingur kærleikans. Því segir í Biblíunni: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóh. 4:8) Þó svo að Jehóva sé almáttugur segir aldrei í orði hans að hann sé kraftur eða að hann sé máttur. Stjórn hans byggist fyrst og fremst á kærleika. Við löðumst svo sannarlega að slíkum Guði.
Sem betur fer þvingar Jehóva okkur ekki til að þjóna sér. Hann er ekki ráðríkur.Hann vill að við þjónum sér vegna þess að okkur þykir vænt um hann. Með því sýnum við að við viljum lúta stjórn hans enda trúum við því að hann stjórni með réttlæti og kærleika. Það hefur sýnt sig allt frá byrjun mannkynsögunnar.
Í stað þess að þvinga Adam og Evu til að hlýða sér gaf Jehóva þeim leyfi til að taka sínar eigin ákvarðanir. Ef þau hefðu í raun elskað Jehóva og kunnað að meta það sem hann var búinn að gera fyrir þau hefðu þau staðist þegar Satan reyndi að fá þau til að gera uppreisn.
Í síðustu ræðu sinni til Ísraelsmanna sagði Móse: „Hér með legg ég fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.“ (5. Mós. 30:15) Þjóðin fékk að velja sjálf hvernig hún vildi haga lífi sínu. Jósúa tók í sama streng þegar hann sagði við þjóðina: „Líki ykkur ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag hverjum þið viljið þjóna.“ Þá svaraði fólkið honum og sagði: „Það sé fjarri okkur að yfirgefa Drottin.“ (Jós. 24:15, 16) Við erum sama sinnis. Við elskum Jehóva og því er það „fjarri okkur“ að yfirgefa hann.
Sem kristnir menn gerum við okkur vel grein fyrir hvað það þýðir að hafa frjálsan vilja. Þótt öldungar hafi rétt til að veita ráðleggingar og jafnvel aga leitast þeir ekki við að ráða yfir eða ráðskast með líf annarra og trú þeirra. Páll postuli skrifaði: „Ekki svo að skilja að ég vilji drottna yfir trú ykkar heldur erum við samverkamenn að gleði ykkar. Því að í trúnni standið þið stöðug.“ – 2. Kor. 1:24.
Það er svo ánægjulegt að gera eitthvað af því að okkur langar til þess frekar en að vera neydd til þess. Jehóva biður okkur að gera það sem gott er af kærleika. Við sjáum mikilvægi þess af innblásnum orðum Páls: „Þótt ég deildi út öllum eigum mínum og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.“ – 1. Kor. 13:3.
Það veitir Jehóva því mikla gleði og það er honum til lofs þegar milljónir bræðra og systra þjóna honum af öllu hjarta af því að þau elska hann.
Jehóva elskar líka alla þjóna sína, þar með talin ykkur börn og unglinga sem sýnið að þið elskið Jehóva frekar en að elska heiminn og eigingirni hans. Okkur þykir líka ósköp vænt um ykkur. – Lúk. 12:42, 43.
Á síðasta ári notuðuð þið bræður, systur og börn 1.748.697.447 klukkustundir í að boða fagnaðarerindið vegna kærleika ykkar til Jehóva. Kærleikur fékk 7.782.346 til að taka þátt í boðunarstarfinu út um allan heim. Það var líka ánægjulegt að sjá að 268.777 nýir, þar á meðal margt ungt fólk, sýndu vígslu sína til Jehóva með því að skírast. Það þýðir að 5.168 létu skírast að meðaltali um hverja helgi. Okkur hlýnar um hjartarætur við að lesa þetta.
Á þessum endalokatímum þurfa þjónar Guðs að kljást við ýmis vandamál, erfiðleika, ofsóknir og veikindi. Sumir þurfa líka að glíma við ellina. Við erum staðráðin í að skjóta okkur hvorki undan né gefast upp. Okkur er mjög umhugað um ykkur. – Hebr. 10:39; 2. Kor. 4:16.
Bræður ykkar,
Stjórnandi ráð Votta Jehóva