Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Esterarbók 1:1-10:3
  • Esterarbók

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Esterarbók
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Esterarbók

ESTERARBÓK

1 Þessir atburðir gerðust á dögum Ahasverusar* konungs, það er Ahasverusar sem ríkti yfir 127 skattlöndum,+ frá Indlandi til Eþíópíu,* 2 meðan hann sat í hásæti í virkisborginni* Súsa.+ 3 Á þriðja stjórnarári sínu bauð hann öllum höfðingjum sínum og þjónum til veislu. Hershöfðingjar Persíu+ og Medíu,+ tignarmennirnir og höfðingjar skattlandanna komu saman hjá honum. 4 Hann sýndi þeim auðæfi síns mikla ríkis og dýrðarljóma tignar sinnar dögum saman, alls 180 daga. 5 Eftir það hélt konungur veislu í sjö daga í forgarði hallar sinnar handa öllum sem voru í virkisborginni* Súsa, jafnt háum sem lágum. 6 Þar héngu tjöld úr líni, fínni bómull og bláu efni sem voru fest í silfurhringi með böndum úr fínu efni og purpuralitri ull. Þar voru marmarasúlur og legubekkir úr gulli og silfri á gólfi lögðu dílóttum steini, marmara, perlumóður og svörtum marmara.

7 Vín var borið fram í gullbikurum* og engir tveir bikarar voru eins. Nóg var til af konunglegu víni eins og sæmir konungi. 8 Sú regla gilti að víni var ekki haldið að mönnum* því að konungur hafði skipað þjónum hallarinnar að virða skyldi óskir gestanna.

9 Vastí+ drottning hélt líka veislu handa konunum í konungshúsi* Ahasverusar.

10 Á sjöunda degi, þegar konungur var glaður og kátur af víni, kallaði hann á sjö hirðmenn sem voru einkaþjónar hans, þá Mehúman, Bista, Harbóna,+ Bigta, Abagta, Setar og Karkas, 11 og skipaði þeim að sækja Vastí drottningu, prýdda konunglegum höfuðbúnaði.* Hann vildi sýna fólkinu og höfðingjunum fegurð hennar því að hún var mjög fögur. 12 En Vastí drottning neitaði að hlýða skipun konungs sem hirðmennirnir fluttu henni. Konungur brást reiður við og bræðin sauð í honum.

13 Konungur talaði við vitra menn sem höfðu þekkingu á eldri málum.* (Þannig voru mál konungs lögð fyrir þá sem þekktu vel til laga og réttar. 14 Nánustu ráðgjafar hans voru Karsena, Setar, Admata, Tarsis, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar+ Persa og Meda sem höfðu aðgang að konungi og skipuðu æðstu embætti í ríkinu.) 15 Konungur spurði: „Hvað segja lögin að gert skuli við Vastí drottningu? Hún hefur ekki hlýtt skipun Ahasverusar konungs sem hirðmennirnir fluttu henni.“

16 Memúkan svaraði í áheyrn konungs og höfðingjanna: „Vastí drottning hefur ekki aðeins brotið gegn konungi+ heldur líka gegn öllum höfðingjum og öllum þjóðum í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs. 17 Allar konur munu frétta af því sem drottningin gerði og þær munu fyrirlíta eiginmenn sína og segja: ‚Ahasverus konungur skipaði að Vastí drottning skyldi leidd fyrir hann en hún neitaði að koma.‘ 18 Strax í dag munu hefðarkonur Persíu og Medíu sem frétta hvað drottningin gerði tala við eiginmenn sína á sama hátt. Það mun valda mikilli fyrirlitningu og gremju. 19 Ef konungi þykir það við hæfi þá gefi hann út konunglega tilskipun sem skráð verði í lög Persíu og Medíu svo að hún verði ekki felld úr gildi.+ Láttu skrá að Vastí megi aldrei framar ganga fyrir Ahasverus konung og veittu konu sem er betri en hún drottningartign í hennar stað. 20 Þegar menn heyra tilskipun konungs í öllu hans víðlenda ríki munu allar konur sýna eiginmönnum sínum virðingu, jafnt háum sem lágum.“

21 Konungi og höfðingjunum leist vel á þessa tillögu og konungur gerði eins og Memúkan lagði til. 22 Hann sendi bréf til allra skattlandanna,+ til hvers skattlands með letri þess og til hverrar þjóðar á tungumáli hennar, þess efnis að hver maður skyldi vera húsbóndi* á sínu heimili og tala mál sinnar eigin þjóðar.

2 Síðar, þegar Ahasverusi konungi+ var runnin reiðin, hugsaði hann til þess sem Vastí hafði gert+ og þess sem hafði verið ákveðið varðandi hana.+ 2 Þá sögðu einkaþjónar konungs: „Ætti ekki að leita að ungum og fallegum meyjum handa konungi? 3 Konungur skipi nú embættismenn í öllum skattlöndum ríkisins+ til að safna þaðan öllum fallegum ungum meyjum og flytja þær í kvennahúsið* í virkisborginni* Súsa. Þar á Hegaí,+ geldingur* konungs og gæslumaður kvennanna, að hafa umsjón með þeim og láta þær fá fegrunarmeðferð.* 4 Sú kona sem konungi líst best á skal verða drottning í stað Vastí.“+ Konungi þótti hugmyndin góð og gerði eins og þeir lögðu til.

5 Í virkisborginni* Súsa+ var Gyðingur sem hét Mordekaí.+ Hann var sonur Jaírs, sonar Símeí, sonar Kíss, af ætt Benjamíns.+ 6 Hann hafði verið í hópi þeirra sem Nebúkadnesar, konungur í Babýlon, flutti í útlegð frá Jerúsalem ásamt Jekonja*+ Júdakonungi. 7 Hann var fósturfaðir* Hadössu,* það er Esterar, dóttur föðurbróður síns,+ en hún hafði misst báða foreldra sína. Hún var fallega vaxin og aðlaðandi. Mordekaí hafði tekið hana að sér þegar foreldrar hennar dóu. 8 Þegar tilskipun konungs hafði verið kunngerð var mörgum ungum konum safnað saman til virkisborgarinnar* Súsa í umsjá Hegaí+ sem gætti kvennanna. Ester var í hópi þeirra sem farið var með í hús* konungs.

9 Hegaí líkaði vel við ungu konuna og hann var mjög vinsamlegur við hana.* Hann flýtti sér að sjá henni fyrir fegrunarmeðferð*+ og viðeigandi mataræði. Hann valdi sjö ungar konur úr húsi konungs til að þjóna henni og flutti hana og þjónustustúlkurnar á besta staðinn í kvennahúsinu.* 10 Ester minntist ekki á þjóðerni sitt+ né ætt því að Mordekaí+ hafði sagt henni að gera það ekki.+ 11 Mordekaí var á stjái á hverjum degi fyrir utan forgarð kvennahússins* til að fylgjast með hvernig Ester hefði það og hvað yrði um hana.

12 Ungu konurnar fengu allar 12 mánaða fegrunarmeðferð og að henni lokinni voru þær látnar ganga inn til Ahasverusar konungs hver á fætur annarri. Meðferðin* sem hver kona fékk var sex mánaða meðferð með myrruolíu+ og sex mánaða meðferð með balsamolíu+ auk ýmissa fegrunarsmyrsla.* 13 Síðan var unga konan tilbúin til að ganga inn til konungs. Henni var gefið allt sem hún bað um þegar hún fór frá kvennahúsinu* til húss konungs. 14 Hún fór inn til hans að kvöldi en að morgni fór hún í hitt kvennahúsið* sem var í umsjá Saasgasars geldings konungs+ en hann gætti hjákvennanna. Hún fór ekki aftur til konungs nema honum líkaði sérstaklega vel við hana og hún væri boðuð til hans með nafni.+

15 Nú kom röðin að Ester, dóttur Abíhaíls, föðurbróður Mordekaí sem hafði alið hana upp.+ Þegar hún gekk inn til konungs bað hún ekki um neitt annað en það sem Hegaí, geldingur konungs og gæslumaður kvennanna, lagði til. (En Ester ávann sér hylli allra sem sáu hana.) 16 Farið var með Ester í konungshúsið til Ahasverusar í tíunda mánuðinum, það er tebetmánuði,* á sjöunda stjórnarári hans.+ 17 Konungur fékk meiri ást á Ester en öllum hinum konunum og hann hafði meira dálæti á henni en nokkurri annarri mey.* Hann setti því konunglega höfuðbúnaðinn* á höfuð hennar og tók hana sér fyrir drottningu+ í stað Vastí.+ 18 Konungur hélt mikla veislu Ester til heiðurs og bauð öllum höfðingjum sínum og þjónum. Hann boðaði síðan almenna sakaruppgjöf* í skattlöndunum og gaf gjafir eins og konungi sæmir.

19 Þegar meyjum*+ var safnað saman í annað sinn sat Mordekaí í konungshliðinu. 20 Ester gerði eins og Mordekaí hafði sagt henni og minntist ekki á ætt sína né þjóðerni.+ Ester hélt áfram að fylgja fyrirmælum hans eins og hún hafði gert meðan hún var í umsjá hans.+

21 Á þeim tíma, meðan Mordekaí sat í konungshliði, reiddust Bigtan og Teres, tveir hirðmenn konungs sem voru hliðverðir, og gerðu samsæri um að ráða Ahasverus konung af dögum.* 22 En Mordekaí komst að því og sagði Ester drottningu tafarlaust frá því. Hún talaði síðan við konung fyrir hönd* Mordekaí. 23 Málið var kannað og þetta reyndist vera rétt svo að mennirnir voru báðir hengdir upp á staur. Allt var þetta skráð í bókina um sögu ríkisins að konungi viðstöddum.+

3 Þegar fram liðu stundir hækkaði Ahasverus konungur Haman,+ son Hamdata Agagíta,+ í tign og veitti honum æðri stöðu en öllum hinum höfðingjunum sem voru með honum.+ 2 Allir þjónar konungs sem voru í konungshliðinu hneigðu sig og féllu fram fyrir Haman því að konungur hafði fyrirskipað það. En Mordekaí neitaði að hneigja sig og falla á kné. 3 Þjónar konungs sem voru í konungshliðinu spurðu Mordekaí: „Af hverju hlýðirðu ekki skipun konungs?“ 4 Þeir spurðu hann um þetta dag eftir dag en hann hlustaði ekki á þá. Þá sögðu þeir Haman frá þessu til að sjá hvort Mordekaí kæmist upp með það,+ en Mordekaí hafði sagt þeim að hann væri Gyðingur.+

5 Þegar Haman sá að Mordekaí hneigði sig hvorki né féll fram fyrir honum reiddist hann heiftarlega.+ 6 Hann vildi taka Mordekaí af lífi* en fannst það ekki nóg því að menn höfðu sagt honum hverrar þjóðar Mordekaí var. Haman fór þess vegna að velta fyrir sér hvernig hann gæti útrýmt Gyðingum í öllu ríki Ahasverusar, allri þjóð Mordekaí.

7 Í fyrsta mánuðinum, það er nísan,* á 12. ári+ Ahasverusar konungs vörpuðu menn púr+ (það er hlutkesti) frammi fyrir Haman til að ákveða mánuð og dag. Hluturinn féll á 12. mánuðinn, það er adar.*+ 8 Haman sagði þá við Ahasverus konung: „Meðal þjóðanna í skattlöndum ríkis þíns+ er ein þjóð sem hefur dreifst víða.+ Lög hennar eru ólík lögum allra annarra þjóða og fólkið fylgir ekki lögum konungs. Það er ekki konungi í hag að láta það afskiptalaust. 9 Ef konungi hugnast gefðu þá út skriflega tilskipun um að þessari þjóð verði útrýmt. Ég skal greiða embættismönnunum 10.000 silfurtalentur* til að leggja í fjárhirslu konungs.“*

10 Þá dró konungur innsiglishringinn+ af hendi sér og fékk hann Haman,+ syni Hamdata Agagíta,+ óvini Gyðinga. 11 Konungur sagði við Haman: „Þú færð bæði silfrið og fólkið og þú mátt fara með það eins og þú vilt.“ 12 Ritarar konungs+ voru kallaðir saman á 13. degi fyrsta mánaðarins. Þeir skráðu+ öll fyrirmæli Hamans til æðstu embættismanna* konungs, landstjóra skattlandanna og höfðingja hverrar þjóðar, til hvers skattlands með letri þess og til hverrar þjóðar á tungumáli hennar. Þetta var skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring hans.+

13 Bréfin voru send með hraðboðum til allra skattlanda konungs. Fyrirmælin voru þau að drepa, eyða og útrýma skyldi öllum Gyðingum, jafnt ungum sem öldnum, börnum og konum, á einum degi, 13. degi 12. mánaðarins, það er adarmánaðar,+ og leggja skyldi hald á eigur þeirra.+ 14 Skjalið skyldi hafa lagagildi í öllum skattlöndunum og afrit skyldi birt öllum þjóðum svo að þær yrðu viðbúnar á þeim degi. 15 Lögin voru gefin út í virkisborginni* Súsa+ og hraðboðarnir flýttu sér af stað+ að boði konungs. Konungur og Haman settust að drykkju en íbúar Súsa voru skelfingu lostnir.

4 Þegar Mordekaí+ frétti hvað gerst hafði+ reif hann föt sín, klæddist hærusekk og jós yfir sig ösku. Síðan gekk hann út í miðja borgina og grét hátt og beisklega. 2 Hann fór ekki lengra en að konungshliðinu því að enginn mátti ganga þar inn klæddur hærusekk. 3 Og í öllum skattlöndunum+ sem orð og tilskipun konungs náðu til var mikill harmur meðal Gyðinga og þeir föstuðu,+ grétu og kveinuðu. Margir breiddu undir sig sekk og ösku.+ 4 Þegar þjónustustúlkur og geldingar Esterar drottningar komu og sögðu henni frá þessu var henni mjög brugðið. Hún sendi Mordekaí föt til að klæðast í stað sekkjarins en hann tók ekki við þeim. 5 Ester kallaði þá á Hatak, einn af geldingum konungs sem hann hafði skipað til að þjóna henni, og sagði honum að spyrja Mordekaí af hverju hann syrgði og hvað væri um að vera.

6 Hatak gekk út til Mordekaí á borgartorgið fyrir framan konungshliðið. 7 Mordekaí sagði honum frá öllu sem hafði gerst hjá honum og upphæðinni+ sem Haman hafði lofað að greiða í fjárhirslu konungs til að fá Gyðingum útrýmt.+ 8 Hann gaf honum líka afrit af tilskipuninni um útrýmingu þeirra sem gefin hafði verið út í Súsa.+ Hann átti að sýna Ester hana, skýra hana fyrir henni og segja henni+ að ganga fyrir konung til að sárbæna hann um miskunn og biðja þjóðinni vægðar.

9 Hatak kom til baka og greindi Ester frá því sem Mordekaí hafði sagt. 10 Ester sagði Hatak að flytja Mordekaí+ eftirfarandi skilaboð: 11 „Allir þjónar konungs og íbúar í skattlöndum hans vita að ein lög gilda um hvern þann, karl eða konu, sem gengur óboðinn inn í innri garð konungs:+ Hann skal tekinn af lífi. Hann fær aðeins að lifa ef konungur réttir fram gullsprota sinn.+ Ég hef ekki verið kölluð fyrir konung í 30 daga.“

12 Þegar Mordekaí heyrði hvað Ester hafði sagt 13 lét hann skila til hennar: „Þú skalt ekki ímynda þér að þú komist undan frekar en aðrir Gyðingar, bara af því að þú tilheyrir fjölskyldu konungs. 14 Ef þú kýst að þegja núna hljóta Gyðingar hjálp og frelsun annars staðar frá+ en þú og ætt föður þíns líðið undir lok. Hver veit nema þú hafir orðið drottning vegna þessara atburða?“+

15 Ester svaraði Mordekaí: 16 „Farðu og safnaðu saman öllum Gyðingum í Súsa og fastið+ mín vegna. Borðið hvorki né drekkið í þrjá daga,+ hvorki nótt né dag. Ég mun líka fasta með þjónustustúlkum mínum. Síðan skal ég ganga fyrir konung þótt það sé andstætt lögum, og ef ég á að deyja þá dey ég.“ 17 Mordekaí fór þá burt og gerði eins og Ester hafði sagt honum.

5 Á þriðja degi+ klæddist Ester drottningarskrúða sínum og gekk inn í innri garðinn við hús* konungs, gegnt húsinu. Konungur sat í hásæti sínu í konungshúsinu á móts við innganginn. 2 Þegar konungur sá Ester drottningu standa í garðinum gladdist hann og rétti gullsprotann+ sem hann hafði í hendinni í átt til hennar. Ester gekk þá til hans og snerti oddinn á sprotanum.

3 Konungur spurði hana: „Hvað liggur þér á hjarta, Ester drottning? Hvað viltu biðja mig um? Þó að það væri hálft ríkið myndirðu fá það.“ 4 Ester svaraði: „Ef konungur vill bið ég þig að koma í dag ásamt Haman+ í veislu sem ég hef undirbúið handa þér.“ 5 Konungur sagði þá við menn sína: „Segið Haman að flýta sér hingað eins og Ester hefur óskað eftir.“ Konungur og Haman fóru síðan til veislunnar sem Ester hafði undirbúið.

6 Þegar þau voru sest að víndrykkjunni spurði konungur Ester: „Hvað langar þig að biðja mig um? Þú færð það sem þú vilt. Hvers óskarðu? Þó að það væri hálft ríkið færðu ósk þína uppfyllta.“+ 7 Ester svaraði: „Ósk mín og beiðni er þessi: 8 Ef konungur hefur velþóknun á mér og ef konungur vill verða við beiðni minni og ósk bið ég þig að koma ásamt Haman til veislu sem ég ætla að halda fyrir ykkur á morgun. Þá skal ég segja hvað mér liggur á hjarta.“

9 Þann dag gekk Haman út glaður og í góðu skapi. En þegar hann sá Mordekaí í konungshliðinu og tók eftir að hann stóð hvorki upp fyrir honum né sýndi óttamerki reiddist hann Mordekaí ákaflega.+ 10 Haman hélt þó aftur af sér og fór heim til sín. Síðan sendi hann eftir vinum sínum og Seres+ konu sinni. 11 Hann hreykti sér af auðæfum sínum, öllum sonum sínum,+ af þeirri upphefð sem konungur hafði veitt honum og því að hann hafði fengið æðri stöðu en allir aðrir höfðingjar og þjónar konungs.+

12 Haman bætti við: „Auk þess bauð Ester drottning engum nema mér og konungi til veislu í dag,+ og á morgun er mér boðið aftur til að vera með henni og konungi.+ 13 Það spillir þó gleði minni að sjá Mordekaí Gyðing sitja í konungshliðinu.“ 14 Seres kona hans og allir vinir hans sögðu þá við hann: „Láttu reisa staur, 50 álna* háan. Og í fyrramálið skaltu leggja til við konung að Mordekaí verði hengdur á staurinn.+ Farðu síðan með konungi og skemmtu þér í veislunni.“ Haman leist vel á þessa hugmynd og lét reisa staurinn.

6 Þessa nótt var konungur andvaka. Hann lét þá sækja annálabókina+ og lesið var upp úr henni fyrir hann. 2 Þar fannst skráð það sem Mordekaí hafði tilkynnt um hliðverðina Bigtana og Teres, hirðmennina sem höfðu gert samsæri um að ráða Ahasverus konung af dögum.*+ 3 Konungur spurði: „Hvaða heiður og viðurkenningu hefur Mordekaí hlotið fyrir þetta?“ „Ekkert hefur verið gert fyrir hann,“ svöruðu einkaþjónar konungs.

4 Undir morgun sagði konungur: „Hver er úti í garðinum?“ Haman var þá kominn í ytri forgarðinn+ við hús* konungs til að ræða við hann um að láta hengja Mordekaí á staurinn sem hann hafði reist.+ 5 Þjónar konungs svöruðu: „Það er Haman+ sem stendur úti í garðinum.“ Konungur sagði þeim þá að vísa honum inn.

6 Þegar Haman kom inn sagði konungur við hann: „Hvað á að gera fyrir mann sem konungur vill heiðra?“ Haman hugsaði með sér: „Hvern ætli konungur vilji heiðra frekar en mig?“+ 7 Hann svaraði því konungi: „Ef konungur vill heiðra mann 8 ætti að sækja konunglegan klæðnað+ sem konungur hefur sjálfur borið og hest sem konungur hefur riðið og ber konunglegt höfuðskraut. 9 Láttu einn af æðstu tignarmönnum konungs sjá um klæðnaðinn og hestinn. Sá sem konungur vill heiðra á að bera klæðnaðinn og ríða hestinum um borgartorgið. Menn skulu ganga á undan honum og hrópa: ‚Þetta er gert fyrir mann sem konungur vill heiðra!‘“+ 10 Konungur sagði þá við Haman: „Drífðu þig og sæktu klæðnaðinn og hestinn og gerðu það sem þú lagðir til fyrir Mordekaí Gyðing sem situr í konungshliðinu. Láttu ekkert vanta af því sem þú hefur sagt.“

11 Haman sótti þá hestinn og klæðnaðinn og hann lét Mordekaí+ klæðast honum og ríða hestinum um borgartorgið. Hann kallaði á undan honum: „Þetta er gert fyrir mann sem konungur vill heiðra!“ 12 Mordekaí sneri síðan aftur í konungshliðið en Haman flýtti sér heim niðurlútur og með hulið höfuð. 13 Þegar Haman sagði Seres konu sinni+ og öllum vinum sínum frá því sem hafði komið fyrir hann sögðu kona hans og ráðgjafar: „Þú lýtur bráðum í lægra haldi fyrir Mordekaí. Fyrst hann er af Gyðingaættum nærðu ekki yfirhöndinni. Þetta verður þér að falli.“

14 Þau voru enn að tala þegar hirðmenn konungs komu til að sækja Haman og fara með hann til veislu Esterar.+

7 Konungur og Haman+ komu nú til veislu Esterar drottningar. 2 Konungur spurði Ester að því sama og daginn áður meðan þau drukku vín: „Hvers óskarðu, Ester drottning? Þú færð það. Hvað ætlarðu að biðja mig um? Þó að það væri hálft ríkið færðu ósk þína uppfyllta!“+ 3 Ester drottning svaraði: „Ef þú hefur velþóknun á mér, konungur, og vilt verða við beiðni minni þyrmdu þá lífi mínu og bjargaðu þjóð minni.+ 4 Við höfum verið seld,+ ég og þjóð mín, og það á að drepa okkur, eyða og útrýma.+ Ef við hefðum aðeins verið seld sem þrælar og ambáttir hefði ég þagað. En þessar hörmungar mega ekki verða því að það yrði konungi til tjóns.“

5 „Hver vogar sér að gera nokkuð slíkt?“ spurði Ahasverus konungur. „Og hvar er hann?“ 6 Ester svaraði: „Andstæðingurinn og óvinurinn er þessi illi Haman.“

Haman varð skelfingu lostinn. 7 Konungur stóð upp frá víndrykkjunni og æddi bálreiður út í hallargarðinn. Haman reis þá á fætur til að biðja Ester drottningu að þyrma lífi sínu því að hann áttaði sig á að konungur myndi refsa honum. 8 Konungur kom nú aftur inn í veislusalinn utan úr hallargarðinum og sá að Haman hafði látið sig falla á legubekkinn þar sem Ester var. Konungur hrópaði upp yfir sig: „Ætlar hann nú líka að nauðga drottningunni í mínu eigin húsi?“ Um leið og konungur sleppti orðinu huldu menn andlit Hamans. 9 Harbóna,+ einn af hirðmönnum konungs, sagði nú: „Haman hefur líka látið reisa staur ætlaðan Mordekaí,+ manninum sem bjargaði lífi konungs.+ Hann er 50 álnir* á hæð og stendur við hús Hamans.“ „Hengið hann á staurinn,“ skipaði konungur. 10 Haman var þá hengdur á staurinn sem hann hafði ætlað Mordekaí og konungi rann reiðin.

8 Sama dag gaf Ahasverus konungur Ester drottningu hús Hamans,+ óvinar Gyðinga,+ og Mordekaí fékk að ganga fyrir konung því að Ester hafði sagt honum frá skyldleika þeirra.+ 2 Konungur tók síðan af sér innsiglishringinn+ sem hann hafði tekið af Haman og fékk Mordekaí hann. Og Ester fól Mordekaí umsjón með húsi Hamans.+

3 Ester leitaði aftur til konungs. Hún féll til fóta honum, grét og sárbændi hann um að afstýra því illa sem Haman Agagíti hafði áformað að vinna Gyðingum.+ 4 Konungur rétti fram gullsprotann á móti Ester+ og hún stóð upp, gekk fyrir hann 5 og sagði: „Ef konungur hefur velþóknun á mér og vill verða við beiðni minni og ef konungi þykir það rétt og hann hefur mætur á mér þá láti hann gefa út skriflega tilskipun sem ógildir skjöl og launráð Hamans,+ sonar Hamdata Agagíta,+ sem hann skrifaði til að útrýma Gyðingum í öllum skattlöndum konungs. 6 Hvernig gæti ég afborið að horfa upp á þá ógæfu sem vofir yfir þjóð minni og þolað að sjá ættingjum mínum útrýmt?“

7 Ahasverus konungur sagði þá við Ester drottningu og Gyðinginn Mordekaí: „Ég hef gefið Ester hús Hamans+ og látið hengja hann á staur+ af því að hann ætlaði að ráðast á Gyðinga. 8 Skrifið nú það sem þið teljið vera Gyðingum fyrir bestu. Skrifið það í nafni konungs og innsiglið með innsiglishring hans því að tilskipun í nafni konungs sem er innsigluð með innsiglishring hans verður ekki afturkölluð.“+

9 Þá var kallað á ritara konungs, á 23. degi þriðja mánaðarins, það er sívanmánaðar.* Þeir skrifuðu öll fyrirmæli Mordekaí til að senda Gyðingum og æðstu embættismönnum konungs,*+ landstjórunum og höfðingjum skattlandanna+ frá Indlandi til Eþíópíu, alls 127 skattlanda. Þeir skrifuðu til hvers skattlands með letri þess og til hverrar þjóðar á tungumáli hennar og einnig til Gyðinga með letri þeirra og á máli þeirra.

10 Mordekaí skrifaði skjölin í nafni Ahasverusar konungs, innsiglaði þau með innsiglishring konungs+ og sendi þau með hraðboðum á fótfráum pósthestum sem voru ræktaðir til að nota í þjónustu konungs. 11 Með þessum skjölum veitti konungur Gyðingum í öllum borgum leyfi til að safnast saman og verjast. Þeir máttu drepa, eyða og útrýma öllum vopnuðum hópum hverrar þeirrar þjóðar eða skattlands sem réðist á þá, þar á meðal konum og börnum, og þeir máttu leggja hald á eigur þeirra.+ 12 Þetta átti að gerast á einum og sama degi í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, á 13. degi 12. mánaðarins, það er adar.*+ 13 Skjalið* skyldi hafa lagagildi í öllum skattlöndunum. Það átti að birta það öllum þjóðunum svo að Gyðingar yrðu viðbúnir á þeim degi að koma fram hefndum á óvinum sínum.+ 14 Lögin voru gefin út í virkisborginni* Súsa+ og hraðboðarnir þeystu af stað að skipun konungs á pósthestunum sem voru notaðir í þjónustu hans.

15 Mordekaí gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, bláum og hvítum. Hann var með stóra gullkórónu á höfði og í skikkju úr fínu purpuralitu ullarefni.+ Gleðióp ómuðu um borgina Súsa. 16 Gyðingum var létt,* þeir glöddust og fögnuðu og fólk sýndi þeim virðingu. 17 Í öllum skattlöndum og borgum, alls staðar þar sem tilskipun konungs og lög voru birt, glöddust Gyðingar og fögnuðu, héldu veislur og gerðu sér glaðan dag. Margir af öðru þjóðerni í landinu lýstu yfir að þeir væru Gyðingar+ því að þeir voru mjög hræddir við Gyðingana.

9 Á 13. degi 12. mánaðarins, það er adar,*+ átti að framfylgja lagaboði konungs.+ Á þeim degi höfðu óvinir Gyðinga vonast til að yfirbuga þá en hið gagnstæða gerðist og Gyðingar unnu sigur á fjandmönnum sínum.+ 2 Gyðingar söfnuðust saman í borgum sínum í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs+ til að berjast gegn þeim sem ætluðu að gera þeim mein. Enginn gat staðist fyrir þeim því að allar þjóðir óttuðust þá.+ 3 Allir höfðingjar skattlandanna, æðstu embættismenn konungs,*+ landstjórarnir og þeir sem sáu um málefni konungs studdu Gyðinga því að þeir báru óttablandna virðingu fyrir Mordekaí. 4 Mordekaí var orðinn voldugur+ í húsi* konungs og orðstír hans barst um öll skattlöndin þar sem hann varð sífellt valdameiri.

5 Gyðingar felldu alla óvini sína með sverði og eyddu þeim. Þeir fóru eins og þeir vildu með þá sem hötuðu þá.+ 6 Í virkisborginni* Súsa+ drápu Gyðingar og eyddu 500 mönnum. 7 Þeir drápu líka Parsandata, Dalfón, Aspata, 8 Pórata, Adalja, Arídata, 9 Parmasta, Arísaí, Arídaí og Vajsata, 10 tíu syni Hamans Hamdatasonar, óvinar Gyðinga.+ En þeir tóku engan ránsfeng frá þeim.+

11 Sama dag var konungi skýrt frá hversu margir höfðu verið drepnir í virkisborginni* Súsa.

12 Konungur sagði við Ester drottningu: „Í virkisborginni* Súsa hafa Gyðingar drepið og eytt 500 mönnum ásamt tíu sonum Hamans. Hvað skyldu þeir þá hafa gert annars staðar í skattlöndum konungs?+ Hvers óskarðu nú? Þú færð það. Hvað fleira viltu biðja mig um? Þú færð ósk þína uppfyllta.“ 13 Ester svaraði: „Ef konungi hugnast+ framlengdu þá lög dagsins í dag til morguns+ svo að Gyðingar í Súsa geti haldið áfram að verjast. Og láttu hengja tíu syni Hamans á staur.“+ 14 Konungur skipaði þá að það skyldi gert. Lög voru gefin út í Súsa og lík sona Hamans voru hengd á staur.

15 Gyðingar í Súsa söfnuðust aftur saman á 14. degi adarmánaðar+ og drápu 300 menn í Súsa en þeir tóku engan ránsfeng.

16 Aðrir Gyðingar í skattlöndum konungs höfðu líka safnast saman til að verjast.+ Þeir ruddu óvinum sínum úr vegi+ og drápu 75.000 hatursmenn sína en tóku engan ránsfeng. 17 Þetta gerðist á 13. degi mánaðarins adar. Á 14. degi hvíldust þeir og gerðu hann að hátíðar- og fagnaðardegi.

18 Gyðingar í Súsa söfnuðust saman bæði 13.+ og 14. daginn+ en þeir hvíldust 15. daginn og gerðu hann að hátíðar- og fagnaðardegi. 19 En Gyðingar í öðrum borgum gerðu 14. adar að fagnaðar- og veisludegi, að hátíðardegi+ og degi til að senda hver öðrum matargjafir.+

20 Mordekaí+ skrásetti þessa atburði og sendi opinber bréf til Gyðinga í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, bæði nær og fjær. 21 Hann sagði þeim að halda 14. dag adarmánaðar hátíðlegan og sömuleiðis 15. daginn ár hvert 22 því að þá fengu Gyðingar frið fyrir óvinum sínum. Í þeim mánuði breyttist sorg þeirra í gleði og harmur+ þeirra í hátíð. Þeir áttu að halda upp á dagana með veislum og fögnuði og senda matargjafir hver til annars og gjafir til fátækra.

23 Gyðingar fylgdu leiðbeiningunum í bréfi Mordekaí og gerðu þessi hátíðarhöld að árlegum viðburði. 24 Haman,+ sonur Hamdata Agagíta,+ óvinur allra Gyðinga, hafði lagt á ráðin um að útrýma Gyðingum.+ Hann hafði varpað púr,+ það er hlutkesti, til að valda skelfingu meðal þeirra og útrýma þeim. 25 En þegar Ester gekk fyrir konung gaf hann þessi skriflegu fyrirmæli:+ „Ill áform Hamans gegn Gyðingum+ komi honum sjálfum í koll.“ Og hann og synir hans voru hengdir á staur.+ 26 Þar af leiðandi voru dagarnir nefndir púrím eftir orðinu púr.*+ Vegna þess sem stóð í bréfinu og þess sem Gyðingar höfðu séð og orðið fyrir 27 skuldbundu þeir sig, afkomendur sína og alla sem sameinuðust þeim+ til að halda þessa tvo daga hátíðlega. Þeir hétu að fylgja fyrirmælunum skilyrðislaust á tilsettum tíma á hverju ári. 28 Menn skyldu minnast þessara daga og halda þá hátíðlega kynslóð eftir kynslóð í hverri ætt og í hverju skattlandi og hverri borg. Gyðingar áttu aldrei að gleyma púrímdögunum og afkomendur þeirra skyldu aldrei hætta að halda þá hátíðlega.

29 Síðar beittu Ester drottning, dóttir Abíhaíls, og Mordekaí Gyðingur valdi sínu og skrifuðu annað bréf til að staðfesta púrímhátíðina. 30 Þetta opinbera bréf var sent til allra Gyðinga í skattlöndunum 127+ í ríki Ahasverusar+ með friðar- og sannleiksorðum. 31 Bréfið staðfesti að halda skyldi púrímdagana hátíðlega á tilsettum tíma með föstu+ og bænahaldi+ eins og Mordekaí Gyðingur og Ester drottning höfðu gefið fyrirmæli um+ og Gyðingar höfðu skuldbundið sig og afkomendur sína til að gera.+ 32 Skipun Esterar staðfesti ákvæðin um púrím+ og hún var skráð í bók.

10 Ahasverus konungur kom á nauðungarvinnu í landinu og á eyjum hafsins.

2 Öll afrek hans og stórvirki eru skráð í bókinni um sögu+ konunga Medíu og Persíu,+ auk ítarlegrar lýsingar á þeirri háu stöðu sem konungur veitti Mordekaí.+ 3 Mordekaí Gyðingur var næstur Ahasverusi konungi að völdum. Hann var mikils metinn* meðal Gyðinga og virtur af öllum ættbræðrum sínum. Hann bar hag þjóðar sinnar fyrir brjósti og vann að velferð allra afkomenda hennar.

Talinn vera Xerxes fyrsti, sonur Daríusar mikla (Daríusar Hystaspis).

Eða „Kúss“.

Eða „höllinni“.

Eða „höllinni“.

Eða „gullílátum“.

Eða „að allir máttu drekka eins og þeir vildu“.

Eða „konungshöll“.

Eða „vefjarhetti“.

Eða „á málarekstri“.

Eða „höfðingi“.

Eða „kvennabúrið“.

Eða „höllinni“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „nuddmeðferð“.

Eða „höllinni“.

Nefndur Jójakín í 2Kon 24:8.

Eða „forráðamaður“.

Sem þýðir ‚brúðarlauf‘.

Eða „hallarinnar“.

Eða „höll“.

Eða „og hún ávann sér tryggan kærleika hans“.

Eða „nuddmeðferð“.

Eða „kvennabúrinu“.

Eða „kvennabúrsins“.

Eða „Nuddmeðferðin“.

Eða „auk nuddmeðferðarinnar“.

Eða „kvennabúrinu“.

Eða „kvennabúrið“.

Sjá viðauka B15.

Eða „og hún ávann sér tryggan kærleika hans í ríkari mæli en nokkur önnur mey“.

Eða „vefjarhöttinn“.

Getur átt við eftirgjöf skatta, hlé frá herþjónustu, lausn úr fangelsi eða allt þetta.

Eða „ungum konum“.

Orðrétt „leggja hendur á Ahasverus konung“.

Eða „í nafni“.

Orðrétt „leggja hendur á Mordekaí“.

Sjá viðauka B15.

Sjá viðauka B15.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Eða hugsanl. „Ég skal greiða 10.000 talentur í fjárhirslu konungs handa þeim sem vinna þetta verk“.

Eða „til satrapa“. Sjá orðaskýringar.

Eða „höllinni“.

Eða „höll“.

Um 22,3 m. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „leggja hendur á Ahasverus konung“.

Eða „höll“.

Um 22,3 m. Sjá viðauka B14.

Sjá viðauka B15.

Eða „og satröpunum“. Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka B15.

Eða „Afrit af skjalinu“.

Eða „höllinni“.

Orðrétt „Hjá Gyðingum var ljós“.

Sjá viðauka B15.

Eða „satraparnir“. Sjá orðaskýringar.

Eða „höll“.

Eða „höllinni“.

Eða „höllinni“.

Eða „höllinni“.

Púr merkir ‚hlutur‘. Hátíðin sem Gyðingar halda í 12. mánuðinum samkvæmt trúaralmanaki sínu dregur nafn sitt af fleirtölumyndinni púrím. Sjá viðauka B15.

Eða „mikill“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila